Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2176

Aukafundur í bæjarstjórn vegna fiskeldismála

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur boðað til aukabæjarstjórnarfundar í hádeginu í dag. Eitt mál er á dagskrá, ályktun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar vegna tillagna starfshóps sjávarútvegsráðherra um stefnumótun í fiskeldi. Í tillögunum er gert ráð fyrir að farið verði eftir áhættumati Hafrannsóknastofnunar sem kveður á um að ekkert laxeldi verði Ísafjarðardjúpi að svo stöddu.

smari@bb.is

Biophilia vestur á firði

Frá árinu 2011 hafa kennarar og skólar í Reykjavík og síðar á Norðurlöndunum tekið þátt í að þróa og kenna verkefni sem byggt er á samnefndu listaverki Bjarkar Guðmundsdóttur. Markmiðið með Biophilia menntaverkefninu er að kenna börnum á skapandi hátt um tónlist og náttúruvísindi með aðstoð tækni og þverfaglegra kennsluhátta.

Mennta- og meningarmálaráðherra ákvað við lok norræna Biophiliu verkefnisins að kynna það markvisst fyrir skólum á landsbyggðinni með það að leiðarljósi að kennarar um allt land hafi sömu tækifæri til þess að tileinka sér þverfaglegar kennsluaðferðir Biophiliu og kollegar þeirra á Norðurlöndunum.

Námskeið fyrir kennara um aðferðafræði Biophiliu menntaverkefnisins og þær fjölbreyttu leiðir sem nýta má í skólastarfi var haldið á Ísafirði 15. ágúst síðastliðinn og að sögn Margrétar Halldórsdóttur sviðstjóra skóla- og tómstundasviðs að kennarar hafi verið afar ánægðir með námskeiðið.

Nálgast má upplýsingar um verkefnið á heimasíðu þess.

bryndis@bb.is

Tillögurnar gera ráð fyrir gríðarmiklu eldi

Jón Helgi Björnsson. Mynd: Facebook.

Tillögur starfshóps sjávarútvegsráðherra um stefnumótun í fiskeldi hafa ekki breytt skoðun Landssambands veiðifélaga um að sjókvíaeldi á frjóum fiski sé varhugavert. „Hins vegar lítum við á það jákvæðum augum að áhættumat Hafrannsóknastofnunar verður forsenda fyrir leyfisveitingum,“ segir Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga. Hann vill ekki ganga svo langt að segja að tillögur starfshópsins verði grundvöllur sáttar milli fylkinga sem hafa deilt hart síðustu ár. „En við höfum ekki neinn áhuga á að troða illsakir við fólk í öðrum atvinnugreinum. Stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um að leyfa sjókvíaeldi á frjóum norsku laxi. Það er gríðarlega mikið umfang sem er verið að leyfa og áhættumatið gerir ráð fyrir að það verði eldisfiskur í hverri einustu á.“

Hann bendir á að það eru fleiri áhættuþættir en erfðablöndun sem veiðifélögin hafa áhyggjur af. „Þættir eins og sjúkdómar og lús sem ekkert er tekið á í þessu áhættumati.“

Jón Helgi furðar sig á umræðu um laxastofna í ánum fjórum sem víglínan hefur verið dregin frá því að áhættumat Hafró var gefið út. Það eru Djúparnar þrjár; Laugardalsá, Langadalsá og Hvannadalsá og svo Breiðdalsá austur á fjörðum. Því hefur verið haldið fram að árnar séu uppræktaðar og vísað í áratuga gamlar fréttir og skýrslur sem segja þær hafa verið fisklausar. „Það er enginn vafi í mínum huga að það var fiskur í þessum ám áður en land byggðist. Það er gangur náttúrunnar að stofnar á jaðarsvæðum minnka þegar umhverfisaðstæður breytast og það er enn frekari ástæða til að vernda þá. Það eru ekki bara stofnar í stóru ánum sem skipta máli upp á erfðafræðilegan fjölbreytileika, litlu stofnarnir á jaðrinum geta allt eins verið mikilvægari,“ segir Jón Helgi.

smari@bb.is

Bílvelta á Dynjandisheiði

Lög­reglu barst til­kynn­ingu fyrr í dag um bíl­veltu fyr­ir ofan Vatns­fjörð á Dynj­and­is­heiði. Bílveltan varð um fjóra kíló­metra frá Flóka­lundi. Í bíln­um voru er­lend­ir ferðamenn en mbl.is hefur eftir lögreglunni á Vestfjörðum að bíl­velt­an hafi verið minni hátt­ar og farþegar bíls­ins sluppu stór­slysa­laust frá velt­unni.

smari@bb.is

Arctic Fish mun áfram vinna að eldisuppbyggingu í Ísafjarðardjúpi

Seiðaeldissstöðin í Tálknafirði. Ef færa ætti eldið uppá land þyrfti 100 sinnum stærra hús og rafmagn á við 3 Mjólkárvirkjanir.

Í ljósi nýútkominnar skýrslu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi þar sem lagt er til að áhættumat sé notað til grundvallar útgáfu rekstrarleyfa þá er ljóst að fyrsta áhættumatið sem Hafrannsóknastofnun kynnti í síðasta mánuði mun hafa mikil áhrif á uppbyggingaráform Arctic Fish. Fyrirtækið hefur á undanförnum árum unnið að undirbúningi fiskeldis á norðursvæði Vestfjarða og umhverfismati á 8 þúsund tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi sem fyrirhugað var að byggja upp á næstu tveimur árum.

Í tilkynningu Arctic Fish kemur fram að í kjölfar áhættumats Hafrannsóknastofnunar þá hefur Arctic Fish átt fundi með stofnuninni í samstarfi við Landsamband fiskeldisstöðva þar sem farið var yfir mögulegar mótvægisaðgerðir. Ræddar hafa verið tillögur sem Arctic Fish ætlar að þróa áfram með stofnuninni og öðrum samstarfsfyrirtækjum. Byggt á niðurstöðum þeirrar vinnu er hægt að endurmeta þær forsendur sem liggja til grundvallar fyrirliggjandi áhættumati, eftir því sem kemur fram í tilkynningu Arctic Fish. Mótvægisaðgerðirnar fela í sér talsverðar breytingar í útsetningu á seiðum í kvíar. Í Ísafjarðardjúpi yrði m.a. lögð áhersla á útsetningu stórseiða. Uppbygging nýrrar seiðaeldisstöðvar fyrirtækisins Tálknafirði gerir slíkt mögulegt.

Í skýrslu stefnumótunarhópsins er talsvert fjallað um notkun á ófrjóum laxi. Í dag hefur engum tekist að ala á arðvænan hátt ófrjóan lax en verið er að gera tilraunir í Noregi þar sem m.a. stærstu eigendur Arctic Fish, Norway Royal Salmon, eru í fararbroddi. Arctic Fish ætlar að fylgjast náið með framþróun þessarar aðferðar bæði erlendis, sem og með tilraunum við íslenskar aðstæður.

Tilkynningunni lýkur á þessum orðum:

„Frá stofnun hefur Arctic Fish haft á stefnu sinni að byggja upp fyrirtæki þar sem áhersla er lögð á umhverfisvænt eldi með sérstöðu úr náttúrulegu íslensku umhverfi. Arctic Fish ætlar því á komandi mánuðum að vinna faglega að undirbúningi mótvægisaðgerða til þess að geta hafið eldi á laxi í Ísafjarðardjúpi. Áhættumatið er byggt á forsendum og þekkingu sem liggja fyrir á hverjum tíma og tekur því mið af breytingum sem kunna að verða.

Þrátt fyrir mögulega biðstöðu í Ísafjarðardjúpi þá mun Arctic Fish halda áfram vinnu sinni við að byggja upp öflugt eldi í Dýrafirði og á suðurfjörðum Vestfjarða. Seiðaeldið er grundvöllurinn fyrir framtíðaruppbyggingu á sjókvíaeldisstarfsemi fyrirtækisins. Þegar lokið verður uppbyggingu þeirra þriggja eldishúsa sem unnið er að í botni Tálknafjarðar er áætlað að framleiðslugetan verði í kringum 5-6 milljónir seiða og í framtíðinni verður að hluta til hægt að ala stór seiði eins og mótvægisaðgerðirnar kalla á.“

smari@bb.is

SAUÐFJÁRRÆKT-atvinnugrein eða áhugamál?

Gunnar Rúnar Kristjánsson

Enn og aftur kvörtum við sauðfjárbændur yfir verðlagningu afurðastöðva á innlegginu okkar á hausti komanda. Ástæður er margar segja forsvarsmenn afurðastöðva s. s. að erlendir markaðir eru lokaðir og framleiðslan er langt umfram eftirspurn. Hvernig bregðumst við við? Jú við förum til stjórnvalda og biðjum um að þeir fari í aðgerðir til að bæta þetta ástand og það strax nú í haust. Ég hef fylgst með og verið innan sauðfjárgeirans frá því um 1980. Ég man ekki annað en framleiðslan hafi verið umfram eftirspurn. Einn þingmaður og ráðherra kom með þá snildarlausn að við skildum éta vandann en sú lausn hefur ekki verið notuð enn. Gripið hefur verið til ýmissa ráðstafanna til að minnka framleiðsluna.

Sauðfjárframleiðslan var kvótasett ein kjötgreina og það hamlaði mjög þróun í greininni. Um 1990 var heimiluð viðskipti með kvóta m. a. til að fækka framleiðendum og stækka búin sem eftir yrðu svona svipað og þróunin varð í mjólkurframleiðslunni. Þetta breytti litlu. Búum fækkaði lítið og þau stækkuðu lítið. Það var svo 1995 sem kvótinn í sauðfjárrækt var afnumin og framleiðslan gefin frjáls. Þannig var beingreiðsluhlutinn sem stýritæki tekið úr sambandi. Í “samningnum” frá 1995 var ákvarðað hvert ásetningshlutfallið skyldi vera án þess að beingreiðslur skertust. Tekin var upp útflutningsskylda sem bændur gátu verið undanskildir ef þeir áttu 0,7 vetrarfóðraðar kind per. ærgildi greiðslumarks. Ráðist var í öfluga markaðsetningu á lambakjöti í gegnum Áform átaksverkefni. Verkefnið skilaði nokkrum árangri en mörg mistök voru gerð. Samfara þessu var farið í að skipta beingreiðslunum þannig að hluti þeirra var eyrnamerktur gæðastýringarálagi. Það er merkilegt með gæðastýringu í sauðfjárrækt að greitt er fyrir ákveðnar skráningar s. s. áburðanotkun, lyfjanotkun og nú er skylda að vera með sauðféð í skýrsluhaldinu Fjárvís. Fyrir þetta koma greiðslur frá ríkinu sem miðast við framleiðslumagn en ekki af gæðum framleiðslunnar.

Hvernig skildi standa á því að við sauðfjárbændur röflum við eldhúsborðið en þegjum þunnu hljóði út á við. Getur verið að mestur hluti sauðfjárbænda líta á sauðfjárrækt sem lífstíl eða áhugamál? Er það eðlilegt að notað er skattfé til að greiða fyrir áhugmál eða lífstíl? Mér skilst að það er dýrt að stunda golf en samt stunda margir þá íþrótt. Mér er ekki kunnugt um að ríkið greiði fólki fyrir að spila golf. Það er að vísu líklegt að golffélög fái styrk hjá sveitarfélögunum en sá styrkur fer ekki til einstaklinga. Annað sem vert er að velta fyrir sér í þessu sambandi er að aldur sauðfjárbænda er hár og það getur líka verið skýring á því afhverju þagað er þunnu hljóði. Eldri bændurnir búa (hokra) líka flestir á skuldlausum eignum og þola meiri skerðingar.

Við fjölskyldan búum með um 250 fjár. Þegar við hjónin hófum búskap réði það mestu um ákvörðunina að ég fór í fullt starf. Annars hefðum við aldrei farið í búskapinn. Ég hef oft heyrt að ég sé hobbý bóndi en það er bóndi sem stundar vinnu utan bús skilst mér. Það skiptir engu máli hve margt sauðfjár viðkomandi er með svo framarlega sem unnið er utan bús.  Ég hef líka oft sagt mera í gamni að ég er í fullu starfi utan bús til að hafa efni á að stunda sauðfjárrækt. Hvað þarf sauðfjárbúið að vera stórt til að það skili einstaklingi sómasamlegum tekjum. Ég myndi halda að bústærðin verður að vera í kringum 800 vetrarfóðraðar kindur svo einstaklingur geti haft sómasamlegt viðurværi af atvinnugreininni. Auðvitað skiptir frjósemi og afurðasemi fjárins miklu máli líka. Hinn makinn verður þá að finna sér starf við eitthvað annað innan búsins eða utan. Við erum langt frá því að vera með bústærð af þessarri stærðargráðu. Er meðalbúið ekki um 300 vetrarfóðraðar kindur? Það sem mér finnst líka hamlandi fyrir greinina er þessi sífellda tenging við byggðapólitíkina. Ekki er í sauðfjársamningnum veittur byggðastuðningur. Að vísu er í 8 gr. samningsins gert ráð fyrir svæðisbundnum stuðningi sem nemur um 3% af heildarstuðningnum á samningstímabilinu en framleiðslutengdur stuðningur nemur 59%. Er nema von að bændur horfi til fjölgunar fjár til að viðhalda svipuðum tekjum?

Hver er vandi sauðfjárræktar og hvernig verður tekið á honum? Flestir eru sammála að framleiðslan er of mikil. Forstjóri SS og Landbúnaðarráðherra hafa nefnt að fækka þurfi ám um 20% og ég get alveg verið sammála því. Hvernig fækkum við fénu. Ein leið gæti verið að ríkið gerði samninga við bændur um fækkun fjár gegn greiðslu á 2-3 árum sem gilti út samningstímann. Fyrir hverja á sem fækkað er um verði greitt t. d. skattmat. Standi menn ekki við gerða samninga koma sektir á móti. Gera verður breytingar á núverandi búvörusamningi ef þessi leið er valin og breyta samningnum þannig að ekki verður greitt út á grip eða býli heldur fái bændur greitt fyrir t. d. landgræðsluverkefni. Þá verður að breyta álagsgreiðslum vegna gæðastýringar þannig að tekið verði mið af gæðum framleiðslunnar fyrst og fremst. Margir bændur sem ég hef talað við finnst afurðastöðvarnar ekki gera neitt eða allavega ekki nóg til að auka söluna. Yfir sumartímann eru allir kælar í verslunum troðfullir af þurrkrydduðu lambakjöti ætlað á grillið. Ef sumarið verður vott og kalt þá bregst salan af því að engin grillar. Ég hef heyrt að það er ógjörningur að selja uppþýtt kjöt nema að krydda það þannig að kjötsafinn sjáist ekki. Costco selur líka íslenskt lambakjöt sem hefur verið þýtt upp. Þeir krydda það ekki en það lítur ljómandi vel út. Þarna er eitthvað sem kjötiðnaðarmennirnir okkar geta lært s. s. hvernig kjötið er skorið.

Í desember 2015 var gefin út skýrsla sem KOM ráðgjöf vann, líklega fyrir LS og/eða Markaðsráðs Skýrslan heitir STEFNUMÖRKUN UM MARKAÐSÓKN ÍSLENSKRA SAUÐFJÁRAFURÐA. Skýrslan var m. a. unnin til að leggja fram stefnumörkun og framkvæmdaáætlun til frekari vinnu. Markmiðin voru  að hagsmunaaðilar geti rýnt í markaðinn til að finna tækifæri og möguleika og á þann hátt aukið framlegð sauðfjárbænda. Í skýrslunni var lagt til að sett yrði á laggirnar Markaðsstofa sauðfjárafurða með fimm manna stjórn, 3 tilnefndum af LS, 1 tilnefndur af BÍ og 1 frá samtökum sláturleyfishafa. Ekki skil ég afhverju var ekki hægt að nýta Markaðsráðið og fjölga í stjórn þess. Skýrslan er yfirgripsmikill og ekki vantar hugmyndir. Mér er ekki kunnugt um að þessi stefnumótun hafi verið raungerð enn og full ástæða til að dusta rykið af henni.

Eitt er ljóst. Við getum ekki haldið áfram að framleiða og framleiða kindakjöt ef engin vill borða það. Það er líka ekki réttlátt að skattgreiðendur verði látnir bera meiri og meiri byrðar vegna offramleiðslu kindakjöts. Sauðfjárrækt er þrátt fyrir allt atvinnugrein og lítur lögmálum markaðarins.

Gunnar Rúnar Kristjánsson

Sauðfjárbóndi

Eitthvað um leiðbeinendur í skólum

Mynd úr safni

Vel hefur gengið að manna grunnskólana á norðanverðum Vestfjörðum og að mestu leyti er um menntaða kennara í öllum stöðum nema á Flateyri þar sem helmingur starfsmanna er ekki með kennararéttindi.

Stefanía Ásmundsdóttir skólastjóri í Bolungarvík segir að þar séu allir kennarar með kennaramenntun utan einn sem hefur þó lokið þremur af fimm í kennsluréttindum. Í Súðavík er rúm staða mönnuð leiðbeinendum og segir Anna Lind Ragnarsdóttir að ekki hafi fengist kennari þrátt fyrir auglýsingu.

Margrét Halldórsdóttir, sviðstjóri skóla- og tómstundasviðs segir allar stöður í skólum sveitarfélagsins mannaðar utan einnar skólaliðastöðu. Í þremur af fjórum skólum sveitarfélagsins eru einhverjir leiðbeinendur við kennslustörf en allir eru þeir með einhverja háskólamenntun.

bryndis@bb.is

Samþykkir ekki lifandi plagg sem er „andvana fætt“

Teitur Björn Einarsson.

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, lýsir andstöðu við að tillögur starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi verði lögfest. Teitur Björn skrifar á Facebook að eitt og annað í tillögum starfshópsins sé gagnlegt og muni nýtast í frekari umræðu.  „Annað er óásættanlegt og ófullnægjandi. Það hefur legið fyrir nú um tíma að tillögur sem fjalla ekkert um eða greina ekki samfélagsleg áhrif og hagsmuni fólks í þeim byggðarlögum sem mest eiga undir hafa eðli máls samkvæmt mjög takmarkað gildi einar og sér sem einhver grundvöllur að breiðri samstöðu,“ skrifar Teitur Björn.

Að hans mati er næsta skref að dýpka og breikka umræðuna, meðal annars með samtölum við íbúa, sveitarstjórnarmenn, vísindasamfélagið og aðra hagaðila.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra hefur lagt áherslu á að áhættumat Hafrannsóknastofnunar sé lifandi plagg. Um þetta segir Teitur Björn: „Ég mun ekki samþykkja að lögfesta „lifandi plagg“ ef það er ekkert meira en andvana fætt.“

Hann segir að áður en lengra verði haldið eigi eftir að fá botn í nokkur veigamikil atriði og nefnir hversu hratt áhættumati fyrir Ísafjarðardjúp verður fullunnið þar sem tekið verður mið af þeirri þekkingu og tækni sem er til staðar til að koma í veg fyrir erfðablöndun.

smari@bb.is

Stefna enn að eldi í Djúpinu

Kristján G. Jóakimsson.

Háafell ehf., dótturfyrirtæki Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf., ætlar ekki að leggja árar í bát og stefnir enn að fiskeldi í Ísafjarðardjúpi. „Við munum vinna áfram heilir og beinir að því,“ segir Kristján G. Jóakimsson, verkefnastjóri Háafells, í samtali við bb.is. Í yfirlýsingu fyrirtækisins í gær var tilkynnt að Háafell hefur sagt sig úr Landssambandi fiskeldisstöðva vegna stuðnings sambandsins við stefnumótunarskýrslu sjávarútvegsráðherra. Í skýrslunni er lagt til að áhættumat Hafrannsóknastofnunar verði lögfest en í áhættumatinu er lagst gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Í yfirlýsingunni segir Kristján að sé „í raun sorglegt að fólk sem vill bjarga sér sjálft sé svift þeim möguleika, svo aðrir geti skarað eld að eigin köku.“

Aðspurður um hverjir hafi skarað eld að eigin köku segir Kristján að það geti verið veiðiréttarhafar eða fulltrúar fiskeldisfyrirtækjann í nefndinni, þeir Kjartan Ólafsson stjórnarformaður Arnarlax og Guðmundur Gíslason stjórnarfomaður Fiskeldis Austfjarða.

Kristján segir að eins og staðan er í dag lítur út fyrir að ekkert laxeldi verði í Ísafjarðardjúpi. „En þetta er bara frá þessari nefnd og nær eins langt og það nær. Nú er að sjá hvernig þetta fer í gegnum þingið.“

Í skýrslunni er talsvert púður lagt í ræktun á geldfiski en áhættumat Hafró tekur ekki til eldis á slíkum fiskum. Kristján tekur fram að eldi á geldfiski er ekki raunverulegur kostur í dag, hvað sem síðar verður. „En við upplifðum það í þorskeldinu að það var alltaf einhver líffræðileg lausn handan við hornið sem svo aldrei kom.“

smari@bb.is

Minnsta atvinnuleysi frá því 2003

Atvinnuleysi hefur ekki verið minna en nú frá því Hagstofa Íslands hóf samfelldar mælingar á atvinnuleysi í vinnumarkaðsrannsóknum sínum árið 2003. Eitt prósent vinnuafls var án vinnu í mánuðinum. 2.100 voru án vinnu og í atvinnuleit í júlí. Það er 2.000 manns færra en á sama mánuði í fyrra, þegar atvinnuleysið mældist tvö prósent.

Þegar búið er að taka mið af árstíðabundnum sveiflum mælist atvinnuleysi 1,8 prósent. Það er samt lækkun frá árstíðaleiðrétti atvinnuleysismælingu frá í júní þegar 2,5 prósent voru án vinnu og í atvinnuleit.

Atvinnuþátttaka dróst saman um 2,5 prósentustig milli ára en starfandi fólki fjölgaði þó um 1.900 manns. 40.400 standa utan vinnumarkaðar, það er 6.900 fleiri en í júlí í fyrra.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir