Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2176

Samþykkir ekki lifandi plagg sem er „andvana fætt“

Teitur Björn Einarsson.

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, lýsir andstöðu við að tillögur starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi verði lögfest. Teitur Björn skrifar á Facebook að eitt og annað í tillögum starfshópsins sé gagnlegt og muni nýtast í frekari umræðu.  „Annað er óásættanlegt og ófullnægjandi. Það hefur legið fyrir nú um tíma að tillögur sem fjalla ekkert um eða greina ekki samfélagsleg áhrif og hagsmuni fólks í þeim byggðarlögum sem mest eiga undir hafa eðli máls samkvæmt mjög takmarkað gildi einar og sér sem einhver grundvöllur að breiðri samstöðu,“ skrifar Teitur Björn.

Að hans mati er næsta skref að dýpka og breikka umræðuna, meðal annars með samtölum við íbúa, sveitarstjórnarmenn, vísindasamfélagið og aðra hagaðila.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra hefur lagt áherslu á að áhættumat Hafrannsóknastofnunar sé lifandi plagg. Um þetta segir Teitur Björn: „Ég mun ekki samþykkja að lögfesta „lifandi plagg“ ef það er ekkert meira en andvana fætt.“

Hann segir að áður en lengra verði haldið eigi eftir að fá botn í nokkur veigamikil atriði og nefnir hversu hratt áhættumati fyrir Ísafjarðardjúp verður fullunnið þar sem tekið verður mið af þeirri þekkingu og tækni sem er til staðar til að koma í veg fyrir erfðablöndun.

smari@bb.is

Stefna enn að eldi í Djúpinu

Kristján G. Jóakimsson.

Háafell ehf., dótturfyrirtæki Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf., ætlar ekki að leggja árar í bát og stefnir enn að fiskeldi í Ísafjarðardjúpi. „Við munum vinna áfram heilir og beinir að því,“ segir Kristján G. Jóakimsson, verkefnastjóri Háafells, í samtali við bb.is. Í yfirlýsingu fyrirtækisins í gær var tilkynnt að Háafell hefur sagt sig úr Landssambandi fiskeldisstöðva vegna stuðnings sambandsins við stefnumótunarskýrslu sjávarútvegsráðherra. Í skýrslunni er lagt til að áhættumat Hafrannsóknastofnunar verði lögfest en í áhættumatinu er lagst gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Í yfirlýsingunni segir Kristján að sé „í raun sorglegt að fólk sem vill bjarga sér sjálft sé svift þeim möguleika, svo aðrir geti skarað eld að eigin köku.“

Aðspurður um hverjir hafi skarað eld að eigin köku segir Kristján að það geti verið veiðiréttarhafar eða fulltrúar fiskeldisfyrirtækjann í nefndinni, þeir Kjartan Ólafsson stjórnarformaður Arnarlax og Guðmundur Gíslason stjórnarfomaður Fiskeldis Austfjarða.

Kristján segir að eins og staðan er í dag lítur út fyrir að ekkert laxeldi verði í Ísafjarðardjúpi. „En þetta er bara frá þessari nefnd og nær eins langt og það nær. Nú er að sjá hvernig þetta fer í gegnum þingið.“

Í skýrslunni er talsvert púður lagt í ræktun á geldfiski en áhættumat Hafró tekur ekki til eldis á slíkum fiskum. Kristján tekur fram að eldi á geldfiski er ekki raunverulegur kostur í dag, hvað sem síðar verður. „En við upplifðum það í þorskeldinu að það var alltaf einhver líffræðileg lausn handan við hornið sem svo aldrei kom.“

smari@bb.is

Minnsta atvinnuleysi frá því 2003

Atvinnuleysi hefur ekki verið minna en nú frá því Hagstofa Íslands hóf samfelldar mælingar á atvinnuleysi í vinnumarkaðsrannsóknum sínum árið 2003. Eitt prósent vinnuafls var án vinnu í mánuðinum. 2.100 voru án vinnu og í atvinnuleit í júlí. Það er 2.000 manns færra en á sama mánuði í fyrra, þegar atvinnuleysið mældist tvö prósent.

Þegar búið er að taka mið af árstíðabundnum sveiflum mælist atvinnuleysi 1,8 prósent. Það er samt lækkun frá árstíðaleiðrétti atvinnuleysismælingu frá í júní þegar 2,5 prósent voru án vinnu og í atvinnuleit.

Atvinnuþátttaka dróst saman um 2,5 prósentustig milli ára en starfandi fólki fjölgaði þó um 1.900 manns. 40.400 standa utan vinnumarkaðar, það er 6.900 fleiri en í júlí í fyrra.

smari@bb.is

Stöndum með sauðfjárbændum

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Staða og framtíð sauðfjárbúskapar í landinu er í uppnámi vegna boðaðrar 35% lækkunar afurðarverðs til bænda nú til viðbótar við 10 % lækkunar sauðfjárafurða síðastliðið haust. Gífurlegt tekjutap blasir við sauðfjárbændum sem erfitt verður að mæta, sérstaklega fyrir þá sem eru skuldsettir og hafa ekki möguleika á annari vinnu meðfram sauðfjárbúskap. Þeim virðast engar útgönguleiðir færar aðrar en að hrekjast frá búskap.

Sauðfjárrækt er grundvöllur byggðar í ákveðnum landshlutum sem mun bresta ef ekkert er að gert í þeim bráðavanda sem greinin stendur nú frammi fyrir.

Þessi staða snertir ekki einungis bændur heldur líka samfélögin í kringum sveitirnar því fjöldi afleiddra starfa eru í kringum sauðfjárbúskap sem verða líka í uppnámi og ekki verður auðvelt að fylla það skarð sem verður í atvinnutækifærum ef rekstrargrundvöllur sauðfjárbúskapar hrynur. Þá eru brostnar forsendur fyrir búsetu margra og byggðaröskun óhjákvæmleg á þeim svæðum sem hafa treyst á sauðfjárbúskap.

Ég óskaði eftir fundi í atvinnuveganefnd fyrir skemmstu til þess að ræða þessa alvarlegu stöðu sem upp er komin vegna mikils birgðavanda sem kemur til vegna þess að markaðir hafa lokast erlendis, m.a. vegna viðskiptabanns Rússa og sterks gengis krónunnar. Nýgerður búvörusamningur hefur ekki bein áhrif á þessa stöðu, en vissulega voru á honum margir gallar, t.d. framleiðsluhvatar sem byggðust á óraunhæfum væntingum um mikla sölu á lambakjöti erlendis sem ekki er í hendi.

Fyrir atvinnuveganefnd hafa komið hagsmunaaðilar og landbúnaðarráðherra og ljóst er að við megum engan tíma missa ef stjórnvöld ætla að koma til liðs við sauðfjárbændur í þessum miklu og vonandi tímabundnu erfiðleikum sem greinin stendur frammi fyrir.

Lausnir eru til, beitum þeim sem fyrst

Sauðfjárbændur hafa lagt fram sína tillögu að lausn sem er að mörgu leyti skynsamleg en langt því frá sársaukalaus fyrir bændur og ráðherra hefur viðrað sínar hugmyndir og hyggst leggja þær fram sem fyrst. Það er sem sagt komin hreyfing á málið, en gagnrýna má að ekki hafi verið gripið til aðgerða miklu fyrr þegar vandinn blasti við í vor og ráðherra var þá gerð grein fyrir birgðastöðunni og þeim vanda sem af henni stafaði. Orsakirnar eru fyrst og fremst markaðsbrestur erlendis því sem betur fer hefur sala á lambakjöti aukist um 5 til 6% innanlands í ár.

Nú ríður á að stjórnvöld taki höndum saman við sauðfjárbændur með aðgerðum sem taki á þessum birgðarvanda og feli í sér tímabundna útflutningsskyldu. Sú aðgerð er ríkissjóði útlátaminnst, en mikilvægt er að aðrar aðgerðir sem gripið verður til stilli af framboð og eftirspurn á innanlandsmarkaði til framtíðar og að komið verði upp sveiflujöfnunarsjóði í greininni sem og að tengja gæðastýringu við sjálfbærni greinarinnar sem vinnur gegn gróðureyðingu og kjörlendi til sauðfjárræktar verði eflt enn frekar.

Innlend matvælaframleiðsla er keppikefli

Það er mikilvægt að gerðar verði ráðstafanir sem bæta stöðu bænda og byggðar í landinu til framtíðar og ná sem mestri samstöðu með aðkomu ríkisins og tryggja að stuðningur hins opinbera nýtist neytendum innanlands sem best.

Það er hagstæðast að framleiða sem mest af matvælum til eigin nota hér innanlands. Það tryggir matvælaöryggi,er umhverfisvænt dregur úr loftslagsmengun sem fylgir innflutningi á matvöru um langan veg. Bændur eru að framleiða góða og heilnæma vöru með lítilli sýklalyfjanotkun og aukaefnum í hreinu umhverfi í nálægð við neytendur og á góðu verði. Greinin skapar fjölda afleiddra starfa og það er hagur allra landsmanna að sveitirnar lifi og að þar byggist upp störf og gott mannlíf til framtíðar.

Núverandi staða er hjalli sem hægt er að yfirstíga og sauðfjárbúskapurinn á mikla möguleika til framtíðar í vöruþróun og markaðssetningu með sína góðu afurðir. Horfum því með bjartsýni fram á við fyrir hönd sauðfjárbænda og okkar sameiginlegu hagsmuna og vinnum að því að sauðfjárrækt verði áfram sterk stoð í byggðafestu landsbyggðanna.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður NV kjördæmis.

„Kynblandaður lax gengur fólki framar“

Kristinn H. Gunnarsson

„Niðurstaðan er sú að niðurstaða starfshópsins er ekki fræðileg heldur pólitísk. Hagsmunir veiðiréttarhafa eru teknir fram yfir hagsmuni almennings. Kynblandaður lax gengur fólki framar. Svo einfalt er það.“ Þannig hljómar niðurlag pistils Kristins H. Gunnarssonar, fyrrverandi þingmanns Vestfirðinga. Í pistlinum fer Kristinn yfir sviðið eftir að starfshópur um stefnumótun í fiskeldi skilaði af sér tillögum sínum í gær. Hann segir grunnforsendu í starfi hópsins vera að hagsmunir íbúa víki fyrir hagsmunum veiðiréttarhafa.

„Með öðrum orðum að hagsmunir veiðiréttarhafa skuli alltaf ráða. Út frá þessari grunnforsendu er svo spunnið framhaldið. Með þessari öfugmálatúlkum er litið framhjá efnahagslegri þýðingu málsins. Það er alvarlegt sérstaklega fyrir íbúa við Ísafjarðardjúp. Ætla má að árlegar tekjur af laxveiði þriggja áa í Ísafjarðardjúpi séu 25 milljónir króna. Útflutningstekjur af 30.000 tonna laxeldi í Djúpinu eru taldar vera um 25 milljarðar króna. Þær eru þúsund sinnum meiri. En samkvæmt rökstuðningi nefndarmanna víkja meiri efnahagslegir hagsmunir fyrir minni. Engin störf eru vegna laxveiðanna en laxeldið skapar 600 – 700 störf samkvæmt mati Byggðastofnunar. En aftur skulu meiri hagsmunir víkja fyrir minni,“ segir Kristinn meðal annars.

Hann gefur ekki mikið fyrir hreinleika laxastofna í Ísafjarðardjúpi og segir þá „hrognakokteil“ úr ýmsum ám á landinu eftir margra áratuga ræktunarstarf.

„Þá er það hitt atriðið um villta laxinn sem þurfi að vernda. Það er kannski ekki alveg víst að kalla megi þá laxastofna sem eru í ánum villta. Að minnsta kosti segir í kynningu á veg Landssambands veiðifélaga um Laugardalsá að „Þarna er eitt besta dæmi um vel heppnaða fiskrækt hérlendis, en áin var fisklaus allt til að fiskvegur var sprengdur í Einarsfoss.“

Áin var sem sé fisklaus. Það þýðir að ekki er um neinn upprunalegan stofn að ræða heldur er hann aðfluttur úr öðrum ám. Jafnvel þótt svo slysalega vildi til að stofninn í Laugardalsá hyrfi af einhverjum sökum er hann samt til annars staðar þaðan sem seiðin komu.

Í hinum ánum tveimur, Hvannadalsá og Langadalsá hefur verið bætt við þann stofn sem þar kann að hafa verið til. Samkvæmt skýrslu Þórs Guðjónssonar frá 1989 um starfsemi Laxeldisstöðvarinnar í Kollafirði var sleppt seiðum frá stöðinni í allar árnar þrjár í Ísafjarðardjúpi á árunum 1965 – 1981.“

smari@bb.is

Þokubakkar

Það er þokuloft yfir Ísafjarðarbæ en veðurspámenn segja að í dag verði hæg breytileg átt og bjartviðri, en sums staðar þokubakkar í nótt. Hiti 10 til 16 stig að deginum.

Á landinu öllu er firleitt hægur vindur og skýjað með köflum, en sums staðar þokuloft við ströndina. SA 5-13 seinnipartinn á morgun, hvassast við V-ströndina, og fer að rigna þar undir kvöld. Hiti 8 til 18 stig að deginum, hlýjast í innsveitum.

bryndis@bb.is

Dísa leitar að sandi í Fossfirði

Orkustofnun hefur veitt Björgun ehf. í Reykjavík, leyfi til ársloka til tilraunatöku á möl og sandi af hafsbotni, þ.e. á svæði út af mynni Fossár í botni Fossfjarðar við Arnarfjörð. Leyfið tekur til tilraunatöku með sanddæluskipi á allt að 300 rúmmetrum af möl og sandi, þ.e. til töku sex sýna, allt að 50 rúmmetrum hvert sýni.

Í leyfinu kemur fram að vegna framkvæmda við Dýrafjarðargöng, auk annarra fyrirhugaðra verkefna á Vestfjörðum, leitar Björgun ehf. að möl og sandi sem uppfyllir efniseiginleika til notkunar í steinsteypu og fyllingar.. Með tilraunatökunni á að afla sýna til að rannsaka efniseiginleika malar og sands í botni Fossfjarðar, með tilliti til notkunarkrafna í Dýrafjarðargöngum.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framangreindrar tilraunatöku, er það niðurstaða stofnunarinnar að tilraunataka á möl og sandi af hafsbotni í Fossfirði við Arnarfjörð sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Fyrir liggur áætlun um tilraunatöku á sex sýnum, en á þeim verða gerðar ýmsar greiningar og steypuprófanir á viðurkenndum rannsóknastofum. Orkustofnun hefur einnig farið yfir áhrif tilraunatöku á nýtingu og aðra starfsemi í nágrenni tilraunatökusvæðis, s.s. hlunninda af æðarvarpi, fiskeldis í sjókvíum, kræklingaræktar, beltisþararæktunar, leyfissvæðis til töku kalkþörungasets og neðansjávarlagna. Vegna hlunninda af æðarvarpi taldi Orkustofnun nauðsynlegt að leyfið tæki ekki gildi fyrr en 15. júlí 2017.

Við undirbúning að útgáfu leyfisins var leitað umsagnar Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Samgöngustofu, Umhverfisstofnunar og Vesturbyggðar.

 

smari@bb.is

Háafell segir sig úr úr Landssambandi fiskeldisstöðva

Kristján G. Jóakimsson

Háafell ehf., dótturfyrirtæki Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf., hefur sagt sig úr Landssambandi fiskeldisstöðva (LF). Ástæða úrsagnarinnar er nýbirt skýrsla starfshóps um stefnumótun í fiskeldi þar sem lagt er til að áhættumat Hafrannsóknastofnunar verði leiðbeinandi í skipulagngingu á fiskeldi á Íslandi. Í áhættumatinu er lagst gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi þar sem Háafell hefur áformað 7.000 tonna laxeldi frá því 2011. Í yfirlýsingu á vefsíðu HG segir að fulltrúar Landssambands fiskeldisstöðva hafi athugasemdalaust skrifað undir skýrslu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi þar sem áform um uppbyggingu laxeldis í Ísafjarðardjúpi eru slegin út af borðinu.

Kristján G. Jóakimsson, verkefnastjóri Háafells, hefur setið í stjórn LF. Í yfirlýsingunni segir að Háafell hafði samþykkt í stjórn LF að skrifað yrði undir stefnumótunarskýrsluna með því skilyrði að lögð yrði fram bókun þar sem athugasemdir fyrirtækisins kæmu fram. Athugasemdirnar lúta m.a. að mótvægisaðgerðum vegna erfðablöndunar, að tekið verði tillit til samfélagslegra, efnahagslegrar og byggðalegrar þýðingar í stefnumótunarskýrslunni. „Fyrir því var vilji innan stjórnar LF en á ögurstundu þegar skrifa átti undir dró LF bókun sína til baka og var skrifað undir athugasemdalaust. LF eru sameiginleg hagsmunasamtök fiskeldisfyrirtækja á Íslandi sem hafa með þeirri ákvörðun sinni  að skrifa undir skýrsluna án athugasemda, sýnt að þau starfi ekki í þágu allra aðildarfélaga sinna. Þegar ákvarðanir og vinnubrögð LF ganga í berhögg við stefnu, sýn og hagsmuni aðildarfélags er vandséð að þau eigi samleið mikið lengur. Eftir mikla ígrundun er það því niðurstaða Háafells að segja sig frá samstarfi við LF.“

Í yfirlýsingunni er eftirfarandi haft eftir Kristjáni:

„Það er augljóst að með þessu er ekkert tillit tekið til þeirrar vönduðu og miklu vinnu sem við höfum lagt í á undanförnum árum. Því síður eru hagsmunir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum nokkurs metnir. Og það er í raun sorglegt að fólk sem vill bjarga sér sjálft sé svipt þeim möguleika, svo aðrir geti skarað eld að eigin köku.“

Laxeldi í Djúpinu verði bannað

Eldislaxinn er drjúg tekjulind fyrir ríkissjóð.

Starfshópur um stefnumótun í fiskeldi leggur til að áhættumat Hafrannsóknastofnunar verði grunnur að útgáfu rekstrarleyfa í fiskeldi og heimiluðu framleiðslumagni á frjóum fiski. Í áhættumatinu, sem var birt fyrr í sumar, er lagst gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Skýrsla starfshópsins var gerð opinber í dag og þar er lagt til að áhættumat Hafrannsóknastnunar verði bundið í lög. Starfshópurinn leggur einnig til að gefin verði út reglugerð sem kveður á um skyldu til notkunar ófrjórra laxa í sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi, en slíkt eldi er enn sem komið er óraunhæft vegna mikils framleiðslukostnaðar.

Lagt er til að þeir sem ala fisk í sjókvíum greiði auðlindagjald, allt að 15 krónur á hvert framleitt kíló af eldislaxi í sjó. Þá segir að auðlindagjald gæti skilað rúmlega einum milljarði króna ef framleitt magn af frjóum laxi fer yfir 67.000 tonn. Stærstur hluti auðlindagjalds eigi að renna til uppbygginga innviða á þeim landsvæðum sem nýtast við eflingu sjókvíaeldis.

Vel heppnað sumarnámskeið Vestra

Mynd af vef Vestra

Það var mikil stemming á seinna sumarnámskeiði Kkd. Vestra sem fram fór á Torfnesi í síðustu viku en fyrra námskeiðið var haldið í byrjun júlí. Námskeiðin voru ætluð krökkum á leið í 1.-4. bekk og voru hátt í 20 krakkar skráðir til leiks á seinna námskeiðið

Yngvi Páll Gunnlaugsson, yfirþjálfari, stýrði æfingum og var hann afar sáttur við frammistöðu síns fólks. Flestir í hópnum æfðu körfubolta með félaginu síðastliðinn vetur og eru nú vel undirbúnir fyrir æfingar á komandi tímabili. Yngvi grillaði fyrir krakkana í lok síðustu æfingarinnar á föstudag með dyggri aðstoð frá Rósu, starfsmanni íþróttahússins.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir