Síða 2173

Vísbendingar um erfðablöndun í sex ám

Trostansfjörður. Mynd: Mats Wibe Lund.

Hafrannsóknastofnun hefur lokið við rannsókn á erfðablöndun eldislax og náttúrulegs lax í laxastofnum á Vestfjörðum. Vísað var í rannsóknina í áhættumati Hafrannsóknastofnunar vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi en þar var um óbirt gögn að ræða. Skýrslan er nú komin út. Í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun kemur fram að í rannsókninni var erfðablöndun könnuð meðal náttúrulegra laxa í nágrenni eldissvæða á Vestfjörðum. Einnig var skyldleiki stofna svæðisins við aðra stofna á Íslandi kannaður með samanburði við 26 laxastofna. Samtals voru 701 seiði úr 16 vatnsföllum á svæðinu frá Súgandafirði til Rauðasands erfðagreind með 15 örtunglum.

Vísbendingar um erfðablöndun mátti greina í sex vatnsföllum og þar af voru skýr merki í Botnsá í Tálknafirði og í Sunndalsá í Trostansfirði sem er einn af innfjörðum Arnarfjarðar. Greining á skyldleika vestfirsku laxastofnanna við aðra laxastofna á Íslandi bendir til að þeir myndi sérstakan erfðahóp og eru því líklega mikilvægir með tilliti til líffræðilegs fjölbreytileika.

Erfðablöndun við eldislax hefur breytt erfðasamsetningu margra villtra laxastofna á náttúrulegu útbreiðslusvæði lax í heiminum og valdið breytingum á þáttum sem snúa að lífsögu þeirra og hæfni. í Noregi er talið að erfðablöndun sé helsta ógnin við villta laxastofna þar í landi.

Á Íslandi hefur sjókvíaeldi á laxi af norskum uppruna verið stundað með hléum í nokkurn tíma og hefur framleiðslan jafnan verið fremur lítil eða nokkur þúsund tonn á ári. Leyfi hafa nú verið veitt fyrir 40.000 tonna eldi og til viðbótar bíða mats á umhverfisáhrifum áætlanir um tugþúsunda tonna framleiðslu. Aðeins má stunda laxeldi í sjókvíum á ákveðnum svæðum við landið. Á þeim svæðum eru almennt takmarkaðar upplýsingar um stofna laxa og laxfiska og möguleg áhrif eldisins á villta laxastofna hafa til þessa ekki verið rannsökuð.

smari@bb.is

Segir augljóst að laxeldi hefjist í Djúpinu

Gylfi Ólafsson.

„Hafandi skoðað áhættumatið og helstu hagrænu þætti er augljóst að uppfært áhættumat og formlegt mat á hagrænum áhrifum muni hvort tveggja verða til þess að Djúpið opni fyrir laxeldi strax á næstu árum.“ Þetta segir Gylfi Ólafsson, oddviti Viðreisnar í NV kjördæmi síðustu Alþingiskosningum og aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra. Í aðsendri grein Gylfa á bb.is í dag segir Gylfi að stóru fréttirnar í tillögum starfshóps um stefnumótun í fiskeldi vera þær að áhættulaust er talið að stórauka fiskeldi hér á landi, sérstaklega á sunnanverðum Vestfjörðum. „Það svæði, sem hefur verið í hvað mestum kröggum síðustu áratugi, er komið fyrir vind að þessu leyti. Uppbygging er framundan,“ skrifar Gylfi.

Hvað varðar Ísafjarðardjúp, segir Gylfi að áhættumatið sé ófullkomið og fleiri þætti þurfi að skoða.

„Ekki var tekið tillit til þeirra sleppinga gönguseiða sem stundaðar eru í öllum þeim þremur ám sem taldar eru í hættu; Langadalsá, Laugardalsá, Breiðdalsá. Erfðabreytileikinn í þessum þremur ám hefur ekki verið skoðaður sérstaklega. Ekki eru metin áhrif af þeim mótvægisaðgerðum sem í boði eru, svo sem notkun stærri seiða í eldi, vöktun áa og fleira. Ekki var metið hversu mikið eldið mætti vera í Ísafjarðardjúpi án þess að hafa merkjanlega áhættu í för með sér.

Auk þess er engu máli slegið í skýrslunni á það hvaða áhrif óvissuþættirnir hafa á niðurstöður áhættumatsins. Með orðum tölfræðinnar hefur engin næmisgreining verið birt.“

Í tillögum starfshópsins er lagt til að áhættumati Hafrannsóknastofnunar verði uppfært eigi síðar en á þriggja ára fresti. Krafan í Djúpinu er einföld að mati Gylfa og felst í því að áhættumatið verði uppfært eins fljótt og auðið er, og löngu áður en árin þrjú eru  úti.

smari@bb.is

Vill ekki fá fiskeldisfólk í samtökin

Bjarni Jónsson. Mynd: mbl.is / Ómar

Skagfirðingurinn Bjarni Jónsson, varaþingmaður VG í Norðvesturkjördæmi, vill ekki að starfsemi Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga verði útvíkkuð svo að „lagareldissveitarfélög“ verði tekin inn í samtökin. Í bókun Bjarna á fundi Byggðaráðs Skagafjarðar segir ekki verði séð að það muni skerpa á starfi samtakanna og upprunalegum tilgangi að útvíkka enn frekar hlutverk þeirra og fara mögulega að beita þeim í hagsmunagæslu fyrir sjókvíaeldi á frjóum norskum laxi.

„Mörg sveitarfélög, eins og Skagafjörður eiga meiri hagsmuni af því að vernda villta stofna í veiðiám sem margir bændur hafa mikilvægar tekjur af. Þeir hagsmunir gætu verið í hættu ef ekki verður nægjanlega varlega farið í vali á leiðum í uppbyggingu frekara fiskeldis við strendur landsins,“ segir í bókun Bjarna.

smari@bb.is

Áhættumatið þarf að uppfæra

Gylfi Ólafsson

Hún var ekki í öfundsverðri stöðu, nefndin sem ætlað var að koma á sáttum til framtíðar í fiskeldismálum. Málið hefur skapað afar hatramma og svart-hvíta umræðu síðustu misseri, og hagsmunirnir að því er virðist algerlega andstæðir. Nefndin sem skilaði af sér í vikunni náði þó, eftir seinkanir og mörg upphlaup, að skila af sér niðurstöðum.

Lausnin var að láta vísindalegt mat Hafrannsóknastofnunar vera hryggjarstykkið í tillögunum um hvaða svæði þættu henta best til eldis. Vísindalega áhættumatið er svo kallað lifandi plagg sem skal uppfæra að minnsta kosti á þriggja ára fresti.

Það væri mikill mislestur að vanmeta vigtina sem felst í þessum tíðindum.

Stóru fréttirnar

Stóru fréttirnar eru þær að áhættulaust er talið að stórauka fiskeldi hér á landi, sérstaklega á sunnanverðum Vestfjörðum. Það svæði, sem hefur verið í hvað mestum kröggum síðustu áratugi, er komið fyrir vind að þessu leyti. Uppbygging er framundan.

Tillögur um auðlindagjald sem renni að miklu leyti til heimabyggða eru fram komnar og líklegar til að verða ofaná. Efling rannsókna er undirstrikuð og fjármögnuð. Fjölmargar aðrar stefnumótandi tillögur eru í skýrslunni sem eru til þess fallnar að styrkja bæði fiskeldi og stangveiði, með þeim jákvæðu áhrifum sem fylgja hvorutveggja.

En mikið vantar uppá

Hafrannsóknastofnun var ekki heldur í öfundsverðri stöðu. Henni var falið að gera áhættumat á afar flókinni líffræði þar sem tugir þátta spila saman. Við undirbúninginn kom fram að ekkert fyrirliggjandi líkan hentaði og því þurfti að gera það frá grunni, á skömmum tíma, byggt á gögnum sem eru óviss og í sumum tilvikum ekki til yfir höfuð.

Hversu miklar líkur eru á slysasleppingum, hversu stór er lax þegar hann sleppur, hversu miklar líkur eru á að hann rati upp í ár, hversu líklegt er að hann nái að lifa af, hversu líklegt er að hann nái að fjölga sér? Þetta er ekki vitað.

Það var því ekki skrýtið að áhættumatið sem kom í sumar hafi verið ófullkomið. Ekki var tekið tillit til þeirra sleppinga gönguseiða sem stundaðar eru í öllum þeim þremur ám sem taldar eru í hættu; Langadalsá, Laugardalsá, Hvannadalsá. Erfðabreytileikinn í þessum þremur ám hefur ekki verið skoðaður sérstaklega. Ekki eru metin áhrif af þeim mótvægisaðgerðum sem í boði eru, svo sem notkun stærri seiða í eldi, vöktun áa og fleira. Ekki var metið hversu mikið eldið mætti vera í Ísafjarðardjúpi án þess að hafa merkjanlega áhættu í för með sér.

Auk þess er engu máli slegið í skýrslunni á það hvaða áhrif óvissuþættirnir hafa á niðurstöður áhættumatsins. Með orðum tölfræðinnar hefur engin næmisgreining verið birt.

Hafrannsóknastofnun hafði ekki það hlutverk að skoða hagræn áhrif—og þó sáttanefndin hafi kallað til Byggðastofnun til að meta byggðaáhrif fiskeldis, fór nefndin þá leið að túlka lög þannig að algerlega óháð hagrænum áhrifum væri réttur villtra stofna framar fiskeldi. Heimamenn hafa nú beðið hagfræðing um að gera nýtt hagfræðilegt mat, sem unnið er að þessar vikurnar.

Stofnunin hefur á síðustu áratugum sannað að henni er treystandi til að sinna vísindalegum úttektum á helsta atvinnuvegi þjóðarinnar og hefur skapað þannig ómetanleg verðmæti. Engin ástæða er til að hún standi ekki undir því trausti í þessu máli einnig, en þá og því aðeins að henni verði gefið ráðrúm til sinna rannsókna.

Áhættumatið þarf að uppfæra fljótt

Krafan er því einföld: að áhættumatið verði uppfært eins fljótt og auðið er, og löngu áður en árin þrjú eru  úti. Þegar hagrænu áhrifin liggja fyrir geta ráðherra og stjórnvöld önnur litið til þeirra einnig.

Hafandi skoðað áhættumatið og helstu hagrænu þætti er augljóst að uppfært áhættumat og formlegt mat á hagrænum áhrifum muni hvort tveggja verða til þess að Djúpið opni fyrir laxeldi strax á næstu árum.

Gylfi Ólafsson

Landssamtök sauðfjárbænda fresta auka aðalfundi

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Auka aðalfundi sauðfjárbænda sem vera átti í dag hefur verið frestað þar sem tillögur atvinnuvegaráðuneytisins liggja ekki fyrir. Í fréttatilkynningu frá Landsamtökum sauðfjárbænda segir að í upphafi þessarar viku hafi borist fyrstu raunverulegu viðbrögð stjórnvalda við tillögum samtakanna og að útfærslur á þeim yrðu tilbúin í dag. Nú er ljóst að það verður ekki og því er fundi frestað þar til  boðaðar tillögur liggja fyrir.

Í fréttatilkynningunni segir einnig að tillögur stjórnvalda eins og þær hafa verið kynntar séu spor í rétta átt en gangi engan vegin nógu langt til að leysa vandann. Sauðfjárbændur hafa fundið fyrir auknum skilningi undanfarna daga og ljóst er að margir hafa áhyggjur af stöðu greinarinnar, meðal annars hafa margar sveitarstjórnir ályktað um málið og fjölmiðlar sýna því vaxandi áhuga.  Enn skortir þó á skilning stjórnvalda  til þess  aðgerðirnar sem ráðast þarf í hafi þann styrk að leysa málið til frambúðar.

bryndis@bb.is

Blessuð rigningin

Hér á Vestfjörðum verður hæg vestlæg eða breytileg átt í dag og fer að þykkna upp með kvöldinu. Vaxandi sunnanátt á morgun, 5-13 undir kvöld og rigning. Hiti 8 til 15 stig.

Spáin fyrir landið allt er á svipuðum nótum, vaxandi suðaustanátt með morgninum vestanlands, 8-13 m/s seinnipartinn, og fer að rigna. Annars hægari vindur og þurrt að mestu. Sunnan og suðaustan 5-15 á morgun, hvassast suðvestantil, og víðast rigning, einkum á Suðausturlandi. Hiti 10 til 18 stig að deginum, hlýjast norðaustanlands.

bryndis@bb.is

Lagafrumvarp byggt á tillögum starfshópsins

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

„Matið hef­ur verið gagn­rýnt af hálfu ým­issa, sveit­ar­stjórn­ar­manna og vís­inda­manna þar á meðal. Hafrann­sókna­stofn­un tek­ur það mjög al­var­lega og er að fara yfir sín gögn. Stofn­un­in und­ir­strik­ar það að þetta er lif­andi plagg og get­ur tekið breyt­ing­um, bæði í þá veru að auka fisk­eldi og minnka það,“ seg­ir Þor­gerður Katrín í sam­tali við blaðamann mbl.is og legg­ur áherslu á að stjórn­mála­menn fari eft­ir ráðlegg­ing­um vís­inda­manna og áréttar þær hafi reynst vel í fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Samkvæmt áhættumatinu verður ekkert fiskeldi í Ísafjarðardjúpi og starfshópur sjávarútvegsráðherra hefur beint því til ráðherrans að áhættumatið verði bundið í lög. Í samtali blaðamanns mbl.is við Þorgerði Katrínu kemur fram að næsta skref hjá henni er að undirbúa lagafrumvarp byggt á tillögum starfshópsins. Strax á fyrsta sólarhringnum eftir að tillögurnar komu fram er ljóst að ekki er einhugur meðal stjórnarliða um tillögurnar. Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, hefur sagt að hann geti ekki stutt þetta „lifandi plagg“ sem hættumatið er, enda sé það „andvanda fætt“, eins og hann kemst að orði á Facebooksíðu sinni.

smari@bb.is

Aukafundur í bæjarstjórn vegna fiskeldismála

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur boðað til aukabæjarstjórnarfundar í hádeginu í dag. Eitt mál er á dagskrá, ályktun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar vegna tillagna starfshóps sjávarútvegsráðherra um stefnumótun í fiskeldi. Í tillögunum er gert ráð fyrir að farið verði eftir áhættumati Hafrannsóknastofnunar sem kveður á um að ekkert laxeldi verði Ísafjarðardjúpi að svo stöddu.

smari@bb.is

Biophilia vestur á firði

Frá árinu 2011 hafa kennarar og skólar í Reykjavík og síðar á Norðurlöndunum tekið þátt í að þróa og kenna verkefni sem byggt er á samnefndu listaverki Bjarkar Guðmundsdóttur. Markmiðið með Biophilia menntaverkefninu er að kenna börnum á skapandi hátt um tónlist og náttúruvísindi með aðstoð tækni og þverfaglegra kennsluhátta.

Mennta- og meningarmálaráðherra ákvað við lok norræna Biophiliu verkefnisins að kynna það markvisst fyrir skólum á landsbyggðinni með það að leiðarljósi að kennarar um allt land hafi sömu tækifæri til þess að tileinka sér þverfaglegar kennsluaðferðir Biophiliu og kollegar þeirra á Norðurlöndunum.

Námskeið fyrir kennara um aðferðafræði Biophiliu menntaverkefnisins og þær fjölbreyttu leiðir sem nýta má í skólastarfi var haldið á Ísafirði 15. ágúst síðastliðinn og að sögn Margrétar Halldórsdóttur sviðstjóra skóla- og tómstundasviðs að kennarar hafi verið afar ánægðir með námskeiðið.

Nálgast má upplýsingar um verkefnið á heimasíðu þess.

bryndis@bb.is

Tillögurnar gera ráð fyrir gríðarmiklu eldi

Jón Helgi Björnsson. Mynd: Facebook.

Tillögur starfshóps sjávarútvegsráðherra um stefnumótun í fiskeldi hafa ekki breytt skoðun Landssambands veiðifélaga um að sjókvíaeldi á frjóum fiski sé varhugavert. „Hins vegar lítum við á það jákvæðum augum að áhættumat Hafrannsóknastofnunar verður forsenda fyrir leyfisveitingum,“ segir Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga. Hann vill ekki ganga svo langt að segja að tillögur starfshópsins verði grundvöllur sáttar milli fylkinga sem hafa deilt hart síðustu ár. „En við höfum ekki neinn áhuga á að troða illsakir við fólk í öðrum atvinnugreinum. Stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um að leyfa sjókvíaeldi á frjóum norsku laxi. Það er gríðarlega mikið umfang sem er verið að leyfa og áhættumatið gerir ráð fyrir að það verði eldisfiskur í hverri einustu á.“

Hann bendir á að það eru fleiri áhættuþættir en erfðablöndun sem veiðifélögin hafa áhyggjur af. „Þættir eins og sjúkdómar og lús sem ekkert er tekið á í þessu áhættumati.“

Jón Helgi furðar sig á umræðu um laxastofna í ánum fjórum sem víglínan hefur verið dregin frá því að áhættumat Hafró var gefið út. Það eru Djúparnar þrjár; Laugardalsá, Langadalsá og Hvannadalsá og svo Breiðdalsá austur á fjörðum. Því hefur verið haldið fram að árnar séu uppræktaðar og vísað í áratuga gamlar fréttir og skýrslur sem segja þær hafa verið fisklausar. „Það er enginn vafi í mínum huga að það var fiskur í þessum ám áður en land byggðist. Það er gangur náttúrunnar að stofnar á jaðarsvæðum minnka þegar umhverfisaðstæður breytast og það er enn frekari ástæða til að vernda þá. Það eru ekki bara stofnar í stóru ánum sem skipta máli upp á erfðafræðilegan fjölbreytileika, litlu stofnarnir á jaðrinum geta allt eins verið mikilvægari,“ segir Jón Helgi.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir