Síða 2172

Dýravaktin er ný vefsíða MAST

Mat­væla­stofn­un hef­ur tekið í notk­un nýja Facebooksíðu und­ir yf­ir­skrift­inni Dýra­vakt Mat­væla­stofn­un­ar. Til­gang­ur síðunn­ar er að skapa gagn­virk­an vett­vang til að miðla upp­lýs­ing­um um heil­brigði og vel­ferð dýra milli Mat­væla­stofn­un­ar, dýra­eig­enda og al­menn­ings, ann­ars veg­ar með upp­lýs­inga­gjöf frá stofn­un­inni til dýra­eig­enda um dýra­vel­ferðar­mál og hins veg­ar með upp­lýs­inga­gjöf frá al­menn­ingi til Mat­væla­stofn­un­ar þegar grun­ur leik­ur á illri meðferð á dýr­um. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu.

Á síðunni verða meðal ann­ars birt­ar upp­lýs­ing­ar til dýra­eig­enda um hvernig auka megi vel­ferð og heil­brigði dýra, hvaða regl­ur gilda um dýra­hald og hvernig brugðist er við þegar þeim er ekki fylgt. Opið er fyr­ir at­huga­semd­ir und­ir hverri færslu.

Facebooksíðan er hins veg­ar hvorki ætluð til þess að veita ráðgjöf um sjúk­dóma, grein­ingu eða meðhöndl­un, né til að kom­ast í sam­band við dýra­lækni á vakt. Þetta kem­ur jafn­framt fram í til­kynn­ingu.

smari@bb.is

Krafa um endurskoðun áhættumats – strax

Guðjón Brjánsson

Ég sat fund í atvinnuveganefnd á miðvikudag þar sem ráðherra ásamt fulltrúum í starfshópnum fylgdu skýrslu um stefnumótun í fiskeldi úr hlaði.

Skýrslan er mjög upplýsandi, á margan hátt skýr og afdráttarlaus og róttæk á köflum en auðvitað ekki tæmandi og útfærsla á mörgum atriðum ekki skýr. Starfshópurinn gerir ýmsar tillögur um úrbætur í starfsumhverfi fiskeldis.  Þær lúta m.a. að lagabreytingum, aukinni skilvirkni, eftirliti og ábyrgð fyrirtækja í þessum rekstri, m.a. nýju leyfisveitingaferli sem verður einfaldara og gegnsærra.  Fram kom hjá ráðherra að leyfin verða í sjálfu sér framseljanleg og í þeim fólgin mikil verðmæti.

Starfshópurinn gerir tillögur um auðlindagjald og hvernig verði staðið að innheimtu og ráðstöfun þess og það finnst mér áhugaverður þáttur málsins.

Ráðherra leggur mikla áherslu á fagleg og vísindaleg vinnubrögð við mat á mögulegri röskun á vistkerfinu og að þess verði gætt  að það verði sem minnst og ég tek undir þessi sjónarmið. Við þurfum að vinna að uppbyggingu atvinnulífs í sátt við umhverfi og náttúru og maðurinn er vitaskuld hluti af náttúrunni.

Ráðherra leggur áherslu á að okkar færasta fólk á þessu sviði séu vísindamenn Hafrannsóknarstofnunar og telur að byggja eigi á faglegu áhættumati stofnunarinnar. Það mat sé ekki endilega hinn stóri endanlegi dómur, heldur sé þetta lifandi viðfangsefni sem geti tekið breytingum í ljósi aðstæðna.

Í nýlegu áhættumati Hafró er innblöndun eldisfisks í laxveiðiám skilgreind  og þröskuldsmörk sett við 4% af fjölda villtra laxa.  Samkvæmt því, er áhættumat erfðablöndunar í Ísafjarðardjúpi alls ekki yfir þeim mörkum en hugsanlega þó í efri hlutanum.  Við matið er stuðst við líkan sem atvinnuveganefnd mun fara fram á að verði kynnt á fundi með Hafrannsóknarstofnun.  Eftir því sem ég best hef hlerað, þá mun það ekki eiga sér langa þróunarsögu í þessu umhverfi sem við erum að fjalla um, ekki nándar nærri gagnreynt og það veikir niðurstöðurnar.

Það eru sem sé aðallega fjórir þætti í þessu máli sem mér finnst óásættanlegir og þurfa að fá miklu yfirvegaðri umfjöllun.

Í fyrsta lagi, þá erum við undir 4% þröskuldsmörkum innblöndunar eldislax við villta stofna í Djúpinu. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu starfshópsins, þá reiknar líkan Hafrannsóknarstofnunar út líkindi á innblöndun í hæsta lagi rúmlega 3%.

Í öðru lagi er í áhættumati Hafró stuðst við líkan sem kann að vera ófullburða. Með þessu er ég ekki með nokkru móti að kasta rýrð á ágæta vísindamenn stofnunarinnar, til þess er ég ekki umkominn.  Hin afdrifaríka og veika niðurstaða útheimtir hins vegar mjög gagnrýna umræðu um þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar.

Í þriðja lagi verður að draga fram að þær laxveiðiár sem um ræðir eru raunar ekki uppfullar með villtum stofnum í þeim skilningi, heldur ræktaðar upp á nokkurra áratuga tímabili af manna völdum.  Ef allt færi á versta mögulega veg, þá væri hægt að koma þeim í samt lag að nýju.

Í fjórða lagi, þá spurði ég ráðherra á fundinum á miðvikudag hvað af raunhæfum mótvægisaðgerðum væri tekið inn í áhættumatið.  Hún staðfest að í áhættumatinu væri ekkert tillit tekið til hugsanlegra mótvægisaðgerða.  Eins og viðurkennt er, þá geta þær falist í ýmsum aðgerðum.  Bent hefur verið á öflugt eftirlit við árnar og ágætar tæknilausnir sem þegar eru til,  notkun á stærri seiðum í sjókvíum og notkun á eldisfiski með síðbúnum kynþroska svo eitthvað sé nefnt.

Krafan er sú að áhættumatið verði endurskoðað strax. Með öflugum og raunhæfum mótvægisaðgerðum er næsta víst að draga megi verulega úr þeirri áhættu sem menn skelfast þannig að byggja megi upp sjókvíaeldi við Djúp eins og stefnt hefur verið að.

Þingmenn kjördæmisins hafa ákveðið að koma saman á næstu dögum og fara yfir þessa stöðu sem uppi er og ég spái því að þessi málefni muni taka drjúgan tíma af starfinu á vettvangi þingsins, bæði atvinnuveganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar á næstunni því mikið er í húfi.

Guðjón S. Brjánsson

alþingismaður

Við skulum biðja Guð að hjálpa okkur

Magnús Reynir Guðmundsson.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hélt nú í hádeginu aukafund, um þá aðför stjórnvalda, sem gerð er þessa dagana, að banna laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Í fararbroddi þessarar aðfarar fer sjávarútvegsráðherra, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, sem hirðir ekki um hagsmuni fólksins við Djúp, sem reynir að efla atvinnu- og mannlíf eftir áratuga varnarbaráttu.

Ráðherrann slær út af borðinu þær væntingar íbúa Ísafjarðarbæjar og nærliggjandi sveitarfélaga sem þeir hafa haft til laxeldis undanfarin misseri. Væntingar sem nú þegar hafa haft áhrif með fjölgun íbúa, auknum byggingar- framkvæmdum og hækkun húsnæðisverðs á svæðinu. Þetta er illvirki og verður í minnum haft. Að slá á hendur heimamanna eins og fyrirtækisins Háafells, sem í sex ár hefur ekki fengið afgreiðslu hjá stofnanakraðaki framkvæmdavaldsins, í þessu tilviki á ábyrgð sjávarútvegsráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.

Einstakir þingmenn Norðvesturkjördæmis hafa vakið athygli með „fjarveru“ sinni þegar fiskeldismál eru í umræðunni. Hvar eru t.d. Lilja Rafney, Haraldur Benediktsson, Kolbrún Gylfadóttir og Guðjón Brjánsson ? Hafi þessir þingmenn tekið afstöðu með hagsmunum Vesstfirðinga í laxeldismálum, þá hefur það farið fram hjá mér.

Á bæjarstjórnarfundinum áðan sögðust bæjarfulltrúarnir munu halda áfram að berjast fyrir hagsmunum umbjóðenda sinna. En hvar er vígvöllurinn ? Áhugalausir þingmenn og illviljuð, skilningslaus ríkisstjórn ?

Þau hræða sporin, Vegamál (Teigskjarr), Raforkumál ( Hvalárvirkjun) og nú Laxeldismál.   Nei, sveitarstjórnarfólk getur ekki vænst stuðnings frá ráðherrum og þingmönnum. Það virðist ljóst.

Við skulum biðja Guð að hjálpa okkur.

Magnús Reynir Guðmundsson

 

Telja kalkþörunganám ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif

Útskipun á Bíldudal.

Íslenska kalkþörungafélagið ehf. áformar að hefja vinnslu á kalkþörungaseti úr Ísafjarðardjúpi á Vestfjörðum og hefur kynnt frummatsskýrslu um áformin  Framkvæmdin felur í sér efnisnám af hafsbotni sem nemur allt að 120.000 rúmmetrum á ári. Efnið verður unnið frekar í verksmiðju sem líklega verður staðsett á Súðavík og er áætlað að flytja vöruna á erlendan markað. Áform um staðsetningu verksmiðju á Súðavík eru þó ekki fullfrágengin vegna óvissu um raforku til verksmiðjunnar.

Í matsvinnu var lagt mat á áhrif framkvæmdarinnar á umhverfisþættina lífríki botns, vatnsgæði sjávar, auðlindina kalkþörungaset, samfélag, fornleifar og landbrot. Niðurstaðan er í megindráttum sú að vegna framlagðra mótvægisaðgerða sem fela í sér tilflutning á lifandi yfirborðslagi kalkþörunga komi framkvæmdin til með að hafa óveruleg neikvæð áhrif á lífríki botns og auðlindina kalkþörungaset. Sú niðurstaða er þó bundin ákveðinni óvissu þar sem mótvægisaðgerðin hefur ekki verið reynd á svo stóru svæði áður. Ráðgert að vinna um 18% af kalkþörungaseti í Ísafjarðardjúpi og því ekki hætta á ofnýtingu líkt og þekkist frá Evrópu.

Áhrif framkvæmdarinnar á aukið landbrot eru talin óveruleg og áhrif á vatnsgæði sjávar eru sömuleiðis talin óveruleg. Áhrif á fornleifar eru talin óveruleg en það byggist á því að fjórir mögulegir minjastaðir verði skoðaðir nánar áður en til framkvæmda kemur. Áhrif mögulegrar landfyllingar vegna verksmiðju við Langeyri í Álftafirði á fornleifar eru einnig talin óveruleg ef tekið er tillit til mótvægisaðgerða sem fela í sér m.a. tilflutning á hvalbeinum. Áhrif á samfélag eru annars vegar óveruleg neikvæð hvað varðar loftmengun, ásýnd, hávaða, ferðaþjónustu og aðra nýtingu og talsverð jákvæð hvað varðar atvinnusköpun. Samlegðaráhrif núverandi og fyrirhugaðrar starfsemi að viðbættri fyrirhugaðri efnistöku eru háð óvissu en mikilvægt er að sett verði af stað vöktun á vatnsgæðum sjávar svo meta megi burðarþol Ísafjarðardjúps gagnvart starfsemi sem getur haft mengandi áhrif og mögulegt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana. Það er mat framkvæmdaraðila að fyrirhuguð efnistaka hafi ekki umtalsverð umhverfisáhrif.

bryndis@bb.is

Kona í sjálfheldu fyrir ofan Ísafjörð

Mynd úr safni, frá björgun ferðamenna úr Eyrarfjalli

Björgunarsveitin á Ísafirði var boðuð út um klukkan fjögur til að aðstoða konu sem hafði farið í göngu í fjalllendi fyrir ofan Ísafjörð og lenti í sjálfheldu í bratta.

Björgunarsveitarmenn eru komnir að konunni og eru að aðstoða hana niður.

bryndis@bb.is

Djúpið enn þá inni í myndinni

Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax. Mynd: mbl.is / Helgi Bjarnason.

Stjórnendur Arnarlax eru ekki hættir við laxeldisáform í Ísafjarðardjúpi. Fyrirtækið hefur verið með 10 þúsund tonna eldi í Djúpinu í umhverfismati. „Við erum ekkert hættir í Djúpinu, ekki frekar en Arctic Fish eða Háafell,“ segir Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax. Starfshópur sjávarútvegsráðherra um stefnumótun í fiskeldi hefur lagt til að farið verði eftir áhættumati Hafrannsóknastofnunar þar sem mælst er til að Ísafjarðardjúpi verði lokað fyrir laxeldi. Víkingur segir að nú sé verið að meta stöðuna, hvort það sé hægt að fara af stað og þá með hvaða leiðum.

„Við viljum vera sparir á yfirlýsingar á meðan við erum að meta hvernig staðan er. Nú fara þessar tillögur í þingið og við sjáum hver niðurstaðan verður. Við ætlum að vinna með stjórnvöldum og vísindamönnum um áframhaldandi uppbyggingu greinarinnar og styðjum það starf,“ segir Víkingur.

smari@bb.is

Máttu ekki ræða áhættumat Hafrannsóknastofnunar

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar boðaði til aukafundar í hádeginu í dag til að ræða ályktun sveitarfélagsins vegna þeirrar niðurstöðu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi að banna fiskeldi í Ísafjarðardjúpi. Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri reifaði málið í upphafi fundar og í kjölfarið tóku bæjarfulltrúar til máls.

Arna Lára Jónsdóttir formaður bæjarráðs upplýsti að þegar loksins var boðað til fundar starfshópsins og fulltrúa sveitarfélaga var tiltekið í fundarboði að nýútgefið áhættumat Hafrannsóknastofnunar um fiskeldi í Ísafjarðardjúpi væri ekki efni fundarins og mætti ekki ræða. Bæjarstjórnir þurftu að óska eftir leyfi ráðherra til að fá fund með starfshópnum.

Með fréttinni má sjá upptöku af fundinum, hljóð- og myndgæði eru ekki fullkomin.

Hér að neðan er ályktun bæjarstjórnar

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar gagnrýnir harðlega hugmyndir um að laxeldi í Ísafjarðardjúpi verði slegið á frest á grunni fyrirliggjandi áhættumats frá Hafrannsóknarstofnun.
Þá getur bæjarstjórn alls ekki sætt sig við að ekkert samráð sé haft við íbúa á norðanverðum Vestfjörðum í stefnumótum um fiskeldi og nánast látið sem þeir séu ekki til sem hagsmunaaðilar þegar kemur að laxeldi við Ísafjarðardjúp.

Bæjarstjórn gerir þá kröfu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann setji á starfshóp með aðild sveitarfélaga við Djúp sem rýni framkomnar tillögur og áhættumat vegna laxeldis þar sem leitt verði í ljós hvað þarf til að fiskeldi geti hafist í Ísafjarðardjúpi án ónauðsynlegra tafa.

Ekki verður fallist á að laxar í Ísafjarðardjúpi eigi sér líffræðilega sérstöðu í samanburði við aðra íslenska laxa með þeim hætti að vernd þeirra geti talist náttúruvernd, enda voru ár í Ísafjarðardjúpi ræktaðar upp úr engu á 20. öldinni – með laxastofnum víðsvegar að af landinu.

Ekki verður heldur fallist á að „Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi“ sé í dag tilbúið til þess að verða gert að undirstöðuþætti í burðarþolsmati. Stutt er síðan hafist var handa við gerð áhættumatsins. Til þess að áhættumatið teljist vísindalegur grunnur þarf það að hljóta trausta vísindalega rýni þannig að leitt verði í ljós hvort núverandi nálgun áhættumatsins geti talist fullnægjandi.

Öll sveitarfélög á Vestfjörðum hafa mótað sameiginlega stefnu um sjálfbæra þróun í umhverfislegu og félagslegu tilliti. Það verður því ekki unað við að raunhæf þróun samfélagsins verði slegin af borðinu á veikum eða illa undirbúnum forsendum. Það er vilji Ísafjarðarbæjar að farið verði af stað með laxeldi í sjó í Ísafjarðardjúpi, en að það verði gert með fullri virðingu fyrir náttúru, umhverfi og mannlífi – þannig að samfélög við Djúp fái að blómstra án þess að valda óafturkræfu tjóni á náttúru landsins.

Viðspyrnan hefst á morgun!

Frá leik Vestra fyrr í sumar.

Á morgun taka Vestramenn á móti Tindastóli í 2. deild Íslandsmótsins og leikurinn fer fram á Torfnesvelli. Síðustu vikur hefur Vestri sogast niður í fallbaráttuna og eru nú í níunda sæti með 20 stig, þremur stigum frá fallsæti. Mótherjarnir á morgun eru ekki í mikið betri stöðu, en Skagfirðingarnir eru í sjöunda sæti með 21 stig. Ef ekki á illa að fara fyrir Vestramönnum þá þarf viðspyrnan að hefjast ekki síðar en á morgun með sigri.

Leikurinn hefst kl. 14 og er frítt inn á leikinn.

smari@bb.is

Vísbendingar um erfðablöndun í sex ám

Trostansfjörður. Mynd: Mats Wibe Lund.

Hafrannsóknastofnun hefur lokið við rannsókn á erfðablöndun eldislax og náttúrulegs lax í laxastofnum á Vestfjörðum. Vísað var í rannsóknina í áhættumati Hafrannsóknastofnunar vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi en þar var um óbirt gögn að ræða. Skýrslan er nú komin út. Í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun kemur fram að í rannsókninni var erfðablöndun könnuð meðal náttúrulegra laxa í nágrenni eldissvæða á Vestfjörðum. Einnig var skyldleiki stofna svæðisins við aðra stofna á Íslandi kannaður með samanburði við 26 laxastofna. Samtals voru 701 seiði úr 16 vatnsföllum á svæðinu frá Súgandafirði til Rauðasands erfðagreind með 15 örtunglum.

Vísbendingar um erfðablöndun mátti greina í sex vatnsföllum og þar af voru skýr merki í Botnsá í Tálknafirði og í Sunndalsá í Trostansfirði sem er einn af innfjörðum Arnarfjarðar. Greining á skyldleika vestfirsku laxastofnanna við aðra laxastofna á Íslandi bendir til að þeir myndi sérstakan erfðahóp og eru því líklega mikilvægir með tilliti til líffræðilegs fjölbreytileika.

Erfðablöndun við eldislax hefur breytt erfðasamsetningu margra villtra laxastofna á náttúrulegu útbreiðslusvæði lax í heiminum og valdið breytingum á þáttum sem snúa að lífsögu þeirra og hæfni. í Noregi er talið að erfðablöndun sé helsta ógnin við villta laxastofna þar í landi.

Á Íslandi hefur sjókvíaeldi á laxi af norskum uppruna verið stundað með hléum í nokkurn tíma og hefur framleiðslan jafnan verið fremur lítil eða nokkur þúsund tonn á ári. Leyfi hafa nú verið veitt fyrir 40.000 tonna eldi og til viðbótar bíða mats á umhverfisáhrifum áætlanir um tugþúsunda tonna framleiðslu. Aðeins má stunda laxeldi í sjókvíum á ákveðnum svæðum við landið. Á þeim svæðum eru almennt takmarkaðar upplýsingar um stofna laxa og laxfiska og möguleg áhrif eldisins á villta laxastofna hafa til þessa ekki verið rannsökuð.

smari@bb.is

Segir augljóst að laxeldi hefjist í Djúpinu

Gylfi Ólafsson.

„Hafandi skoðað áhættumatið og helstu hagrænu þætti er augljóst að uppfært áhættumat og formlegt mat á hagrænum áhrifum muni hvort tveggja verða til þess að Djúpið opni fyrir laxeldi strax á næstu árum.“ Þetta segir Gylfi Ólafsson, oddviti Viðreisnar í NV kjördæmi síðustu Alþingiskosningum og aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra. Í aðsendri grein Gylfa á bb.is í dag segir Gylfi að stóru fréttirnar í tillögum starfshóps um stefnumótun í fiskeldi vera þær að áhættulaust er talið að stórauka fiskeldi hér á landi, sérstaklega á sunnanverðum Vestfjörðum. „Það svæði, sem hefur verið í hvað mestum kröggum síðustu áratugi, er komið fyrir vind að þessu leyti. Uppbygging er framundan,“ skrifar Gylfi.

Hvað varðar Ísafjarðardjúp, segir Gylfi að áhættumatið sé ófullkomið og fleiri þætti þurfi að skoða.

„Ekki var tekið tillit til þeirra sleppinga gönguseiða sem stundaðar eru í öllum þeim þremur ám sem taldar eru í hættu; Langadalsá, Laugardalsá, Breiðdalsá. Erfðabreytileikinn í þessum þremur ám hefur ekki verið skoðaður sérstaklega. Ekki eru metin áhrif af þeim mótvægisaðgerðum sem í boði eru, svo sem notkun stærri seiða í eldi, vöktun áa og fleira. Ekki var metið hversu mikið eldið mætti vera í Ísafjarðardjúpi án þess að hafa merkjanlega áhættu í för með sér.

Auk þess er engu máli slegið í skýrslunni á það hvaða áhrif óvissuþættirnir hafa á niðurstöður áhættumatsins. Með orðum tölfræðinnar hefur engin næmisgreining verið birt.“

Í tillögum starfshópsins er lagt til að áhættumati Hafrannsóknastofnunar verði uppfært eigi síðar en á þriggja ára fresti. Krafan í Djúpinu er einföld að mati Gylfa og felst í því að áhættumatið verði uppfært eins fljótt og auðið er, og löngu áður en árin þrjú eru  úti.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir