Síða 2171

Örnefnaskráning vestfirskra fjarða

Fundur um skráningu örnefna

Í lok síðasta árs luku Súgfirðingar við skráningu örnefna í Súgandafirði en verkið hafði tekið um tvö ár. Það var Birkir Friðbertsson bóndi í Birkihlíð í Súgandafirði sem bar hitann og þungann af starfinu en hann lést 5. júní í ár. Eyþór Eðvarðsson formaður Fornminjafélags Súgandafjarðar er mikill áhugamaður um skráningu örnefna og á sunnudagskvöld stóð hann, ásamt fleirum, fyrir fundi í Önundarfirði um skráningu örnefna í Önundarfirði, Dýrafirði og Arnarfirði.

Framundan er því að skrá örnefni næstu fjarða og var áhugi fundarmanna á verkefninu mikill, taka þarf myndir frá fjalli til fjöru og síðan að merkja inn á öll þekkt örnefni. Þau munu svo fara í sameiginlega örnefnaskrá.

bryndis@bb.is

Strandveiðum lýkur í dag

Í dag er síðasti dagur strandveiði á svæði A sem nær frá Snæfellsnesi til Ísafjarðardjúps. Fyrir tíu dögum var aukið við strandveiðiheimildir samkvæmt ákvörðun Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra. Aukningin nam 560 tonnum og kom mest í hlut svæðis A, eða 250 tonn.

bryndis@bb.is

Dásamlegur dagur

Það þarf ekki hafa mörg orð um veðrið, það er dásamlegt sumarveður en veðurspámenn spá þó stöku skúrum síðar í dag.

bryndis@bb.is

Forgangsatriði að grípa til verndunaraðgerða á Látrabjargi

Ferðamenn á Látrabjargi.

Það þarf að stórefla gæslu, viðveru og upplýsingafjölf á Látrabjargi að sögn Eddu Kristínar Eiríksdóttur, starfsmanna Umhverfisstofnunar á suðurfjörðum Vestfjarða. Ítarlegt viðtal við hana er á vef Umhverfistofnunar. Hún segir umhverfi bjargsins sé farið að láta á sjá og því sé það algjört forgangatriði að grípa til aðgerða. „Það er sameiginlegt mat allra sem hafa komið að málum hér, mat ferðamanna, landeigenda, sveitarfélagsins og Umhverfisstofnunar,“ segir Edda Kristín.

Hún segir að ræða þurfi upphátt og opinskátt að Látrabjarg sé einn þeirra staða sem hafi drabbast niður og brýnt sé að grípa til ráðstafana. Sár hafi myndast á bjarginu þar sem göngustígur sé á köflum orðinn fjór- eða fimmfaldur. Lundanum hafi fækkað mikið, hann færi sig til undan ágangi. „Hér verpa nokkrar ábyrgðartegundir Íslendinga svokallaðar, tegundir þar sem stór hluti stofnsins á heimsvísu byggir afkomu sína á tilteknum svæðum innan einstakra þjóðríkja. Hér er líka stærsta álkuvarp í Evrópu og ritan er einnig mjög áberandi. Besta mögulega niðurstaðan væri að mínu mati sú að fá friðlýsingu og að Umhverfisstofnun fengi fulla umsjá yfir bjarginu. Við gætum þá lokað Látrabjargi á viðkvæmum tímabilum þegar fuglinn þarf að fá frið. Lundinn fer ekki í holur ef það er fólk í kringum hann. Nú orðið má segja að yfir sumarið sé fólk allan sólahringinn á Látrabjargi, þótt bannað sé að tjalda hér. En svona ferlar geta verið flóknir. Inn í þessi friðlýsingarmál blandast ósætti um deiliskipulag, kærðar framkvæmdir sveitarfélagsins og fleira.“

smari@bb.is

Ökumenn yfirfari ljósabúnað

Nú þegar farið er að skyggja á kvöldin vill lögreglan á Vestfjörðum minna ökumenn í umdæminu á að athuga stöðuna á ljósabúnaði ökutækja áður en lagt er af stað. Reiðhjólafólk er líka hvatt til þess að yfirfara sinn ljósa- og öryggisbúnað.

Þá er vert að minnast á að Margar nýjar bifreiðar eru búnar ljósum sem kvikna þegar bíllinn er ræstur og í fyrstu má halda að um sé að ræða ökuljós en sú er ekki raunin. Víða má sjá í umferðinni ökumenn nýrra bíla sem gera sér ekki grein fyrir þessu og aka um með takmörkuð ljós og eru jafnvel ljóslausir að aftan. Þessi ljós sem kvikna sjálfkrafa á nýjum og nýlegum bílum eru yfirleitt ófullnægjandi til aksturs þar sem ekki er um að ræða ökuljós og því verða ökumenn sjálfir að sjá til þess að öll „ökuljósin“ séu kveikt.

Þessi ljósabúnaður kallast dagljós og er leyfður á Evrópska efnahagssvæðinu og af þeim sökum er heimilt að flytja slíkar bifreiðar inn til Íslands. Það gegnir hinsvegar öðru máli um notkun þessa búnaðar hér á landi. Það er ljósaskylda hér á landi – allan sólarhringinn og allan ársins hring – og því þarf ökumaður að gæta þess að ökuljósin, ekki stöðuljósin, séu kveikt á meðan á akstri stendur. Ljósskynjari þessa dagljósabúnaðar kveikir annars ekki á ökuljósunum fyrr en það rökkvar en utan þess tíma er bara kveikt á ígildi stöðuljósa að framan og í einhverjum tilfellum eru engin ljós kveikt að aftan.

smari@bb.is

Óviturt að loka Djúpinu án frekari rannsókna

Eva Pandora Baldursdóttir

Það væri óviturt að loka Ísafjarðardjúpi fyrir laxeldi án þessa að stunda frekari rannsóknir og taka til greina allar mótvægisaðgerðir sem fyrirtæki í fiskeldi hafa boðað. Þetta segir Eva Pandóra Baldursdóttir, þingmaður Pírata í Norðvesturkjördæmi. „. Það er greinilegt að fiskeldi yrði mikil búbót fyrir íbúa á svæðinu. Ég tel að náttúran eigi samt að fá að njóta vafans en þær mótvægisaðgerðir sem ég hef kynnt mér líta vel út og virðast í fljótu bragði að minnsta kosti stemma stigu fyrir þeim náttúruspjöllum sem menn óttast,“ segir Eva Pandóra.

Á næstu daga verður skýrla stefnumótunarnefndar í fiskeldi gerð opinber en nefndinni var falið að marka stefnuna til langs tíma.

Það þarf að fara fram miklu upplýstari umræða um málið áður en hægt er að taka ákvörðun [um að loka Ísafjarðardjúpi. Innsk. blm.] og ég hlakka til að lesa skýrsluna sem kemur út bráðum,“ segir Eva Pandóra.

smari@bb.is

Ég man þig sýnd á Hesteyri

Læknishúsið á Hesteyri.

Kvikmyndin Ég man þig, sem byggð er á samnefndri bók eftir Yrsu Sigurðardóttur, verður sýnd á söguslóðum í Læknishúsinu á Hesteyri í sumar. Skipuleggjandi segir viðburðinn ekki vera fyrir neina vesalinga.

Íslenska hrollvekjan Ég man þig, sem byggð er á vinsælli skáldsögu Yrsu Sigurðardóttur, var frumsýnd í kvikmyndahúsum við miklar vinsældir í maí.

Á miðvikudag hefjast sýningar á ný en þær verða í sjálfu Læknishúsinu á Hesteyri sem er þungamiðja sögusviðsins.

Bíógestir verða fluttir að Hesteyri frá Bolungarvík, þar sem þeirra bíður kvöldverður og sýning. Haldin var prufusýning í gær við góðar undirtektir.

Frumsýningin verður á miðvikudaginn og verða sýningar næstu tíu daga þar á eftir. Hægt er að bóka á vefsíðu Læknishússins eða með því að slá á þráðinn norður á Hesteyri. Miðarnir kosta fjórtán þúsund krónur með bátsferð, kvöldverð og sýningu.

smari@bb.is

Styrkir úttektir á aðgengismálum fatlaðra

Velferðarráðuneytið  auglýsir  lausa  til umsóknar styrki til úttekta á aðgengismálum fatlaðs fólks. Styrkirnir eru veittir í samræmi við framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks þar sem gert er ráð fyrir úttektum á aðgengi að opinberum byggingum, umferðarmannvirkjum og öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að.

Sveitarfélög bera ábyrgð á úttektum, en markmið þeirra er að leiða í ljós stöðu aðgengismála í hlutaðeigandi sveitarfélagi. Í framhaldi af úttekt verði gerð áætlun um úrbætur, ef við á.

Velferðarráðuneytið mun veita styrki til þess að framkvæma umræddar úttektir. Auglýst er eftir styrkumsóknum frá sveitarfélögum sem ljúka slíkri úttekt á þessu ári. Þjónustusvæði sem samanstanda af fleiru en einu sveitarfélagi, sem og ferlinefndir, geta einnig sótt um styrk.

smari@bb.is

Merkilegir munir úr búi Friðriks Svendsen (1788–1856)

Í dag kl. 17:00 í Bryggjukaffi verður formleg afhending á fornum munum úr búi Friðriks Svendsen.

Friðrik Svendsen, sem kalla mætti fyrsta Flateyringinn, var sá sem byggði um 1820 fyrsta varanlega íbúðarhúsið á Flateyri og bjó í því á blómlegum athafnatíma sínum til dauðadags. Húsið, sem lengst af var kallað Torfahús eftir næsta eiganda þess, brann 1961 – þá mikið breytt frá því sem upprunalega hafði verið.

Af Friðriki Svendsen hafa verið sagðar áhugaverðar sögur. Má þar nefna þáttinn „Örlagsasaga úr Önundarfirði“ eftir Jón Helgason. Friðrik Svendsen hefur vafalaust verið afar sérstakur og merkilegur maður, stórhuga brautryðjandi þilskipaútgerðar á Vestfjörðum og  höfundur merkrar ritgerðar um verkun sjávarafla, sem birtist í Ámann á Alþingi árið 1831. Einnig var hann mikill áhugamaður um ræktunarstörf, meðal annars ræktun túna og ræktun kálmetis í görðum. Sjóðsstofnun sem hann beitti sér fyrir varð fyrsti vísir að því sem seinn hlaut nafnið Búnaðarfélags Íslands. Bú hans var næst stærst búanna í Önundarfirði á sínum tíma.

Börn Friðriks Svendsen af fyrra hjónabandi settust að í Danmörku með danskri móður sinni en af þremur börnum hans í seinna hjónabandi lifði aðeins dóttirin Fernandína Friðrika Málfríður. Hún settist líka að í Danmörku. Einn afkomenda hennar, Vögg Jacobsen, lést fyrir skömmu en nú hefur ekkja hans, Margrete Jacobsen, komið þremur munum úr búi Svendsen aftur til upprunalandsins Íslands. Um er að ræða útskorna rúmbrík með með höfðaletri, „logbog“ eða eins konar dagbók Friðriks Svendsen frá árunum um 1830 á Flateyri og loks mynd sem komin er úr búi hans.

bryndis@bb.is

Atvinnuveganefnd fundar um vanda sauðfjárbænda

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Atvinnuveganefnd Alþingis mun halda tvo fundi í næstu viku um þann vanda sem blasir við sauðfjárbændum, en afurðastöðvarnar hafa boðað mikla lækkun á afurðaverði. Á þriðjudaginn fundar atvinnuveganefnd með forystumönnum bænda og á föstudaginn kemur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, til fundar við nefndina.

Á Morgunvakt Rásar 1 í dag kom fram í máli Steinþórs Skúlasonar, forstjóra Slátursfélags Suðurlands, að framleiðslan þurfi að dragast saman um 20 prósent. Gengisstyrkin og innlendar kostnaðarhækkanir hafa gert það að verkum að útflutningur sem fyrir nokkrum árum skilaði betri afkomu en innanlandsmarkaður, skilar nú miklu tapi. Rússlandsmarkaður hefur lokast og Spánverjar og Norðmenn kaupa ekki það kjöt sem þeir hafa gert. „„Ef við horfum kalt á þetta, þá held ég að flestir sú búnir að átta sig á því að komið er nýtt jafnvægi með gengið og stöðu íslensks efnahagslífs. Að mínu mati og margra annarra gengur ekki upp að flytja út. Það þarf að draga verulega úr framleiðslunni ef við eigum ekki að horfa upp á allsherjar hrun,“ sagði Steinþór í morgun.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir