Síða 2171

Finnur ekki rök gegn áhættumatinu

Haraldur Benediktsson. Mynd: Ómar Óskarsson.

Haraldur Benediktsson, fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis, segist ekki vera andvígur laxeldi í Ísafjarðardjúpi en segist jafnframt ekki finna rök gegn áhættumati Hafrannsóknastofnunar. Þetta kemur fram í aðsendri grein Haraldar á bb.is í dag. Haraldur áréttar að áhættumatið geti tekið breytingum og hann telur vafalítið að eldi verði í Djúpinu með tíð og tíma. Í greininni segir Haraldur að ef aðeins væri um að ræða þrjár litlar laxveiðiár í Djúpinu mætti vel nota leikreglur laga og réttar og semja sig að niðurstöðu. „Það gilda hinsvegar ákveðnar skyldur og  lög um vernd á villtum stofni laxa. Það er ekki svo, þótt það virðist ósanngjarnt, að miklir hagsmunir margra víki til hliðar minni hagsmunum fárra,“ segir í greininni.

Hann lýkur greininni á þessum orðum:

„Ég held með Skagamönnum í knattspyrnu á hverju sem gengur. Ég þarf ekkert að rökstyðja það. Ég held hinsvegar með laxeldi á grundvelli þekkingar sem hægt er að afla hér heima og erlendis og þess mats sem er á hendi Hafrannsóknarstofnunar að leggja fyrir stjórnvöld. Allir ættu að ræða málin á þeim grunni.“

smari@bb.is

Stórtíðindi í fiskeldi

Haraldur Benediktsson

Ég styð fiskeldi sem byggir á grunni þekkingar og ráðleggingum frá okkar færasta vísindafólki.  Ég tók þess vegna þá ákvörðun að bíða eftir faglegri umræðu og niðurstöðu í starfshópi um fiskeldi. Nú liggur hún fyrir og verður til meðferðar í haust á vettvangi stjórnmálanna. Stóru tíðindin eru þau að samkvæmt fyrirliggjandi burðarþols- og áhættumati er verulegt rými fyrir uppbyggingu í fiskeldi.

Þrátt fyrir mikla baráttu hefur það verið hlutskipti margra byggða á Vestfjörðum, Austfjörðum og víðar að atvinnuskilyrðum hefur hnignað. Fiskeldi er allt á landsbyggðinni og sá langþráði viðsnúningur sem það hefur fært ýmsum byggðum mun ekki stöðvast samkvæmt niðurstöðum starfshópsins.  Starfshópurinn hafði enda að leiðarljósi markmið laga um fiskeldi, 71/2008. Ekki er lengur fyrirstaða til að sækja fram og byggja upp á þeim forsendum. Það er líka verðmætt að hagsmunaaðilar í laxveiðum og laxeldi hafa náð saman um að stuðla að þróun mála á grunni þekkingar og vísinda. Það hefur reynst okkur vel í sjávarútvegi.

Fram með gát

Það eru ekki lítil tækifæri sem nú eru fyrir hendi.  Fyrir hver 10 þús tonn af eldi má reikna með um 160 störfum auk afleiddra starfa.  Það er ljóst að mikil tækifæri eru í uppbyggingu atvinnulífs.

Ég er ekki á móti eldi í Ísafjarðardjúpi. Ég finn á hinn bóginn ekki rökin gegn því áhættumati sem segir að þar beri að fara varlega. Áhættu- og burðarþolsmöt geta tekið breytingum og vafalítið verður eldi í Ísafjarðardjúpi með tíð og tíma.

Ef þetta væri aðeins um að ræða um þrjár litlar laxveiðiár í Djúpinu mætti vel nota leikreglur laga og réttar og semja sig til niðurstöðu. Það gilda hinsvegar ákveðnar skyldur og  lög um vernd á villtum stofni laxa. Það er ekki svo, þótt það virðist ósanngjarnt, að miklir hagsmunir margra víki til hliðar minni hagsmunum fárra. Ef það á gera það verður að leita samninga um það. Það er ekki óþekkt í heimi þeirra sem fjalla um villtan lax. Sem dæmi má taka að markvisst var unnið að því að kaupa rétt til netaveiða á laxi í sjó.

Innri styrkur fiskeldisgreinarinnar er heldur ekki slíkur að það takmarki hana að ekki séu fyrir hendi ný og stærri eldissvæði.  Núverandi framboð seiða virðist eiga langt í land með að standa undir meira eldi en þegar er ákveðið. Það er því ekki svo að eldissvæði og athafnarými séu takmarkandi fyrir uppbyggingu núna.

Verðmæti villta laxins

Skýrsla starfshópsins og áhættumatið er ekki aðeins um að það sé áhætta fyrir Ísafjarðardjúp heldur landið allt. Það eru líka miklir hagsmunir margra að vernda og verja stöðugt verðmætari hlunnindi  af villtum laxi. Lög um veiðifélög og veiðiréttindi er einhver merkasta löggjöf okkar um umhverfisvernd og ábyrga nýtingu. Reyndar elsta umhverfislöggjöf okkar. Það eru til skýrslur sem draga fram þá staðreynd að helmingur af hreinum tekjum íbúa sveita á Vesturlandi kemur af ábyrgri nýtingu hlunninda. Staðreyndin er að tekjur og afkoma heimila víða um Vestur- og Norðurland eiga mikið undir ábyrgri og faglegri stefnumörkun.  Þetta eru ekki hagsmunir fárra laxveiðimanna heldur heilla byggðalaga.

Um það efni er jafnt á komið með þeim sem hafa væntingar um aukin umsvif af eldi og þeirra sem í dag lifa af nýtingu hlunninda. Samfélagsleg áhrif þarf að vega og meta með hagsmuni fólksins í huga, rétt fólks til að nota aðstæður sér lífsviðurværis.

Fiskeldi er hátæknigrein og þróun í tækni og eldisaðferðum fleygir fram. Nægir þar að vísa til tilrauna með sjóeldi, eldi í lokuðum kerfum og eldi á geldlax. Það má því vera að allar forsendur muni breytast hratt á næstu árum og laxeldið verði óumdeildara en það er í dag. Fleiri þætti mætti nefna sem koma fram í áhættumatsskýrslu Hafrannsóknastofnunar. Þeir þættir munu eflaust eiga eftir breyta forsendum áhættumats á næstu árum.

Reynsla frá Noregi sýnir einnig að fylgni milli aukins eldi og fjölda starfa er farin að minnka vegna meiri tækni.  Hlutfallslega fer því störfum fækkandi með aukinni tækni og betri búnaði. Að sama skapi verður hvert starf verðmætara en áður. Þetta þarf að taka með í reikninginn fyrir framtíðina.

Ég held með Skagamönnum í knattspyrnu á hverju sem gengur. Ég þarf ekkert að rökstyðja það. Ég held hinsvegar með laxeldi á grundvelli þekkingar sem hægt er að afla hér heima og erlendis og þess mats sem er á hendi Hafrannsóknarstofnunar að leggja fyrir stjórnvöld. Allir ættu að ræða málin á þeim grunni.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

Gáfu bekk til minningar um Helenu Björk

Frændsystkin Helenu Bjarkar Þrastardóttur, afkomendur Marsellíusar Bernharðssonar skipasmiðs og Albertu Albertsdóttur á Ísafirði, ásamt fjölskyldum afhentu á laugardaginn Safnahúsinu á Ísafirði veglegan útibekk til minningar um hana.

Helena Björk Þrastardóttir var fædd á Ísafirði 18. ágúst 1981, dóttir Þrastar Kristjánssonar og Þórlaugar Ásgeirsdóttur. Undanfarin ár starfaði hún sem bókavörður á bókasafninu á Ísafirði og var vinsæl með gesta safnsins enda einstaklega þjónustulipur og hlý í framkomu.

Nánar má lesa um gjöfina á facebook síðu Safnahússins er það kemur fram að starfsfólk Safnahússins á Ísafirði þakkar fjölskyldu Helenu Bjarkar fyrir gjöfina sem mun nýtast vel gestum og gangandi en um leið halda á lofti minningu yndislegrar stúlku með fallegt bros og hlýja nærveru.

Laxeldi eða laxapíning?

Áróður gegn fiskeldi á Vestfjörðum hefur farið vaxandi.  Sumir sem standa fyrir áróðrinum segjast vera að verja villta laxastofna í ám á Vestfjörðum gegn einhverri kynblöndun.

Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að veiða og sleppa villtum laxi í ám á Íslandi.   Svo langt er þessi della gengin að það þykir orðið til skammar  að veiðimaður komi með veiddan villtan lax í veiðihús.

Er það alveg eðlilegt,  að það þyki bara fínt að stunda svona sport sér til gamans,  kvelja villta laxa á stöng í 20 til 60 mínútur. Ekkert gefið eftir fyrr en fiskurinn er að niðurlotum kominn.

Spurningin er svo hvort það sé virkilega ekkert athugavert við svona meðferð á villtum laxastofnum?

Hvað segja umhverfisverndarsamtök  eða félög sem berjast gegn dýraníði.  Þarf þessi meðferð ekki í umhverfismat.

Svo er það málið með fiskeldið í Ísafjarðadjúpi sem talið er geta skilað 30 þúsund tonnum af laxi til útflutnings á ári  á  1100 kr/kg.  Verðmætið er þá um 33 milljarðar. Nýjar tekjur árlega  fyrir íbúa fyrirtæki og sveitarfélög á Vestfjörðum.   Tekjur allrar þjóðarinnar af þorskstofninum árlega eru um 60-70 milljarðar.   Áformað laxeldi í Ísafjarðadjúpi er því um helmingur af verðmætum þorskstofnsins árlega.

Ef þetta er svo borið saman, 33 milljarðar árlega í nýjar tekjur fyrir Vestfirði,  borið saman við áhættu af meintri kynblöndun við villta laxastofna í ám á Vestfjörðum þá finnst mér mikilvægasta spurningin þessi:

Hvaða máli skiptir með lax sem er veitt og sleppt,   hvort hann er kynblandaður eða ekki?

Níels A. Ársælsson

Tálknafirði.

Jöfnunarmark á lokamínútunni

Frá leik Vestra fyrr í sumar.

Það blés ekki byrlega fyrir Vestramenn í leik við Tindastól á Torfnesvelli á laugardaginn. Tindastóll komst yfir á 16. mínútu með marki Fannars Arnar Kolbeinssonar og á 28. mínútu varð Nikulás Jónsson, leikmaður Vestra, fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark. Staðan var 0-2 fyrir Tindastól í hálfleik og Vestramenn langt frá sínu besta. Seinni hálfleikurinn var mun betri og á 70. mínútu skoraði Viktor Júlíusson og minnkaði muninn í 1-2. Það var svo Gilles Mbang Ondo sem jafnaði leikinn á fjórðu mínútu uppbótartíma og tryggði Vestra eitt stig.

Og það var svo sannarlega mikilvægt að krækja í þetta stig og ekki síður að ná tveimur stigum af Tindastóli sem hefði öðrum kosti náð að slíta sig frá liðunum sem eru í fallbaráttunni í 2. deild Íslandsmótsins.

smari@bb.is

Norðaustan 5-13

Veðurspámenn Veðurstofunnar spá norðaustan 5-13 og rigningu með köflum hér á Vestfjörðum en hvassast á útnesjum. Lægir á morgun og styttir upp eftir hádegi. Hiti 7 til 14 stig.

Á landinu öllu er hæg norðlæg átt og allvíða úrkoma, einkum sunnan og suðaustanlands. Norðan 5-10 á Vestfjörðum í dag en norðvestan 8-15 austast í nótt. Rofar til á sunnanverðu landinu í kvöld og nótt. Stöku skúrir suðaustantil síðdegis á morgun en styttir að mestu upp norðantil annað kvöld. Hiti 9 til 16 stig.

bryndis@bb.is

Egill ÍS brann

Klukkan hálf ellefu í gærkvöldi hafði  Egill ÍS-77, sem er 70 brúttótonn dragnótarbátur, samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og tilkynnti um eld í ljósavélarými. Skipverjar sem eru fjórir sögðust vera búnir að loka öllu að vélarrýminu til að hefta útbreyðslu eldsins og til að freista þess að kæfa hann. Egill var staddur út af mynni Dýrafjarðar.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kallaði til nærstaddra skipa og báta og óskaði eftir að þau stefndu að Agli ÍS-077, auk þess sem áhöfn TF-LÍF var ræst út sem og sjóbjörgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á vestfjörðum.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sendi 3 slökkviliðsmenn með TF-LÍF og slökkviliðsmenn af Vestfjörðum voru sendir með bátum á vegum sjóbjörgunarsveita á Vestfjörðum.

Næst Agli ÍS-077 var báturinn Jón Hákon BA sem áætlaði að verða við Egil um kl. 23:10 en einnig hélt Aldan ÍS í átt að Agli en þessir bátar voru staddir við mynni Dýrafjarðar.

Samkvæmt upplýsingum af vettvangi virtist eldur enn laus um borð um kl. 23:00 en þar sem Egill gat siglt undir eigin vélarafli var skipið komið á lygnari sjó inn á Dýrafirði.

Kl. 23.18 tilkynnti Jón Hákon að þeir væru komnir að Agli og fylgdu skipinu til hafnar á Þingeyri. Kl. 23.43 komu 3 slökkviliðsmenn um borð í Egil en þeir voru fluttir með fiskibátnum Imbu frá Þingeyri.

Upp úr miðnætti kom TF-LÍF á vettvang en um svipað leiti komu fleiri slökkviliðsmenn með fiskeldisbátnum Hafnarnesi sem fóru um borð í Egil.

Var því ákveðið að þyrlan lenti á Þingeyri með slökkviliðsmennina frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og biði átekta ef á aðstoð þyrfti að halda.

Jón Hákon og Aldan snéru við en Egill hélt í fylgd Hafnarness, Imbu og björgunabátsins Gísla Hjalta frá Bolungarvík sem komin var inn á Dýrafjörð um kl. 00:30.

Egill lagði að bryggju á Þingeyri laust eftir kl. eitt í nótt og slökkviliðsmenn náðu að slökkva eldinn um tvöleytið í nótt. Snemma í morgun blossaði eldurinn upp aftur og um hálfníuleytið tókst slökkviliðsmönnum að slökkva alla elda. Báturinn er mjög skemmdur, ef ekki ónýtur.

Atvinnuleysið 1 prósent

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands var atvinnuleysi í júli 1 prósent sem er það lægsta frá því að samræmdar mælingar Hagstofunnar hófust árið 2003. Að jafnaði 201.900 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í júlí 2017, sem jafngildir 83,3% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 199.800 starfandi og 2.100 án vinnu og í atvinnuleit. Samanburður mælinga fyrir júlí 2016 og 2017 sýna að atvinnuþátttaka dróst saman um 2,5 prósentustig. Fjöldi starfandi jókst um 1.900 manns en hlutfall starfandi af mannfjölda minnkaði um 1,6 stig. Atvinnulausir eru nú 2.000 færri en í júlí 2016 og hlutfallið þá var 2%. Þeir sem standa utan vinnumarkaðar samkvæmt mælingunni eru 40.400 sem er um 6.900 fleiri en í júlí 2016 en þá voru þeir 33.500.

smari@bb.is

Dýravaktin er ný vefsíða MAST

Mat­væla­stofn­un hef­ur tekið í notk­un nýja Facebooksíðu und­ir yf­ir­skrift­inni Dýra­vakt Mat­væla­stofn­un­ar. Til­gang­ur síðunn­ar er að skapa gagn­virk­an vett­vang til að miðla upp­lýs­ing­um um heil­brigði og vel­ferð dýra milli Mat­væla­stofn­un­ar, dýra­eig­enda og al­menn­ings, ann­ars veg­ar með upp­lýs­inga­gjöf frá stofn­un­inni til dýra­eig­enda um dýra­vel­ferðar­mál og hins veg­ar með upp­lýs­inga­gjöf frá al­menn­ingi til Mat­væla­stofn­un­ar þegar grun­ur leik­ur á illri meðferð á dýr­um. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu.

Á síðunni verða meðal ann­ars birt­ar upp­lýs­ing­ar til dýra­eig­enda um hvernig auka megi vel­ferð og heil­brigði dýra, hvaða regl­ur gilda um dýra­hald og hvernig brugðist er við þegar þeim er ekki fylgt. Opið er fyr­ir at­huga­semd­ir und­ir hverri færslu.

Facebooksíðan er hins veg­ar hvorki ætluð til þess að veita ráðgjöf um sjúk­dóma, grein­ingu eða meðhöndl­un, né til að kom­ast í sam­band við dýra­lækni á vakt. Þetta kem­ur jafn­framt fram í til­kynn­ingu.

smari@bb.is

Krafa um endurskoðun áhættumats – strax

Guðjón Brjánsson

Ég sat fund í atvinnuveganefnd á miðvikudag þar sem ráðherra ásamt fulltrúum í starfshópnum fylgdu skýrslu um stefnumótun í fiskeldi úr hlaði.

Skýrslan er mjög upplýsandi, á margan hátt skýr og afdráttarlaus og róttæk á köflum en auðvitað ekki tæmandi og útfærsla á mörgum atriðum ekki skýr. Starfshópurinn gerir ýmsar tillögur um úrbætur í starfsumhverfi fiskeldis.  Þær lúta m.a. að lagabreytingum, aukinni skilvirkni, eftirliti og ábyrgð fyrirtækja í þessum rekstri, m.a. nýju leyfisveitingaferli sem verður einfaldara og gegnsærra.  Fram kom hjá ráðherra að leyfin verða í sjálfu sér framseljanleg og í þeim fólgin mikil verðmæti.

Starfshópurinn gerir tillögur um auðlindagjald og hvernig verði staðið að innheimtu og ráðstöfun þess og það finnst mér áhugaverður þáttur málsins.

Ráðherra leggur mikla áherslu á fagleg og vísindaleg vinnubrögð við mat á mögulegri röskun á vistkerfinu og að þess verði gætt  að það verði sem minnst og ég tek undir þessi sjónarmið. Við þurfum að vinna að uppbyggingu atvinnulífs í sátt við umhverfi og náttúru og maðurinn er vitaskuld hluti af náttúrunni.

Ráðherra leggur áherslu á að okkar færasta fólk á þessu sviði séu vísindamenn Hafrannsóknarstofnunar og telur að byggja eigi á faglegu áhættumati stofnunarinnar. Það mat sé ekki endilega hinn stóri endanlegi dómur, heldur sé þetta lifandi viðfangsefni sem geti tekið breytingum í ljósi aðstæðna.

Í nýlegu áhættumati Hafró er innblöndun eldisfisks í laxveiðiám skilgreind  og þröskuldsmörk sett við 4% af fjölda villtra laxa.  Samkvæmt því, er áhættumat erfðablöndunar í Ísafjarðardjúpi alls ekki yfir þeim mörkum en hugsanlega þó í efri hlutanum.  Við matið er stuðst við líkan sem atvinnuveganefnd mun fara fram á að verði kynnt á fundi með Hafrannsóknarstofnun.  Eftir því sem ég best hef hlerað, þá mun það ekki eiga sér langa þróunarsögu í þessu umhverfi sem við erum að fjalla um, ekki nándar nærri gagnreynt og það veikir niðurstöðurnar.

Það eru sem sé aðallega fjórir þætti í þessu máli sem mér finnst óásættanlegir og þurfa að fá miklu yfirvegaðri umfjöllun.

Í fyrsta lagi, þá erum við undir 4% þröskuldsmörkum innblöndunar eldislax við villta stofna í Djúpinu. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu starfshópsins, þá reiknar líkan Hafrannsóknarstofnunar út líkindi á innblöndun í hæsta lagi rúmlega 3%.

Í öðru lagi er í áhættumati Hafró stuðst við líkan sem kann að vera ófullburða. Með þessu er ég ekki með nokkru móti að kasta rýrð á ágæta vísindamenn stofnunarinnar, til þess er ég ekki umkominn.  Hin afdrifaríka og veika niðurstaða útheimtir hins vegar mjög gagnrýna umræðu um þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar.

Í þriðja lagi verður að draga fram að þær laxveiðiár sem um ræðir eru raunar ekki uppfullar með villtum stofnum í þeim skilningi, heldur ræktaðar upp á nokkurra áratuga tímabili af manna völdum.  Ef allt færi á versta mögulega veg, þá væri hægt að koma þeim í samt lag að nýju.

Í fjórða lagi, þá spurði ég ráðherra á fundinum á miðvikudag hvað af raunhæfum mótvægisaðgerðum væri tekið inn í áhættumatið.  Hún staðfest að í áhættumatinu væri ekkert tillit tekið til hugsanlegra mótvægisaðgerða.  Eins og viðurkennt er, þá geta þær falist í ýmsum aðgerðum.  Bent hefur verið á öflugt eftirlit við árnar og ágætar tæknilausnir sem þegar eru til,  notkun á stærri seiðum í sjókvíum og notkun á eldisfiski með síðbúnum kynþroska svo eitthvað sé nefnt.

Krafan er sú að áhættumatið verði endurskoðað strax. Með öflugum og raunhæfum mótvægisaðgerðum er næsta víst að draga megi verulega úr þeirri áhættu sem menn skelfast þannig að byggja megi upp sjókvíaeldi við Djúp eins og stefnt hefur verið að.

Þingmenn kjördæmisins hafa ákveðið að koma saman á næstu dögum og fara yfir þessa stöðu sem uppi er og ég spái því að þessi málefni muni taka drjúgan tíma af starfinu á vettvangi þingsins, bæði atvinnuveganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar á næstunni því mikið er í húfi.

Guðjón S. Brjánsson

alþingismaður

Nýjustu fréttir