Síða 2170

Yngstu árgangarnir koma best út

Sam­kvæmt fyrstu niður­stöðum les­fim­i­prófa sem voru lögð fyr­ir ís­lenska grunn­skóla­nem­end­ur í fyrsta skipti á síðasta skóla­ári hafa marg­ir skól­ar náð góðum ár­angri sér­stak­lega í yngstu ár­göng­un­um. Hins veg­ar er þörf á um­bót­um á miðstigi, þ.e. í 5.–7. bekk. Leggja þarf áherslu á fjöl­breytt­ar leiðir í skól­um og á heim­il­um til að auka margs kon­ar lest­ur nem­enda. Þá þarf að finna leiðir til að gera lest­ur áhuga­verðari og auka aðgengi að hvetj­andi les­efni. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu menntamálaráðuneytisins.

Greint var frá niður­stöðu les­fim­i­próf­anna í gær þegar fyrsta heila skóla­ári læsis­verk­efn­is­ins, Þjóðarsátt­mála um læsi, lauk.

Þátt­taka í les­fim­i­próf­un­um var góð en 75% nem­enda í 1.-10. bekk tóku þátt í próf­un­um í maí. Mest þátt­taka var í 3. bekk eða 83% en minnst í 10. bekk þar sem 54% nem­enda tóku þátt. Alls lögðu 93% skóla próf­in fyr­ir á skóla­ár­inu 2016-2017 og fleiri munu taka þátt nú í sept­em­ber. Þetta kem­ur jafn­framt fram í til­kynn­ingu.

Les­fim­i­próf­in eru mæli­tæki til að meta lestr­arkunn­áttu og fram­vindu nem­enda í les­fimi, lesskiln­ingi, orðaforða, staf­setn­ingu og rit­un og til að skima fyr­ir lestr­ar­erfiðleik­um, und­ir yf­ir­heit­inu Les­fer­ill.

smari@bb.is

Síðasti Fokkerinn farinn

Síðasta Fokk­er-vél Air Ice­land Conn­ect flaug af landi brott frá Reykja­vík­ur­flug­velli í morg­un. Þetta eru mik­il tíma­mót hjá flug­fé­lag­inu því Fokk­er-vél­ar hafa verið í rekstri þess frá ár­inu 1965, eða í yfir hálfa öld. Flug­vél­inni var flogið til Hol­lands þar sem nýir eig­end­ur frá Kan­ada taka við henni.

Vél­in sem tók á loft í morg­un er Fokk­er-50 sem kall­ast TF-JMS. Hún er síðust af fjór­um Fokk­er-50 vél­um sem kanadíska fyr­ir­tækið Avmax keypti af Air Ice­land Conn­ect. Vélin var ein af sex Fokker 50 vélum sem voru keyptar nýjar til landsins árið 1991.

smari@bb.is

Kviknaði í út frá eldstæði

Í síðustu viku barst lögreglu tilkynning um um eld í íbúðarhúsi í Hnífsdal. Einn íbúi var í húsinu og hlaut hann brunasár. Hann var lagður inn á sjúkrahús vegna brunasáranna, sem þó virtust ekki vera lífshættulegir. Svo virðist sem eldurinn hafi kviknað þegar íbúinn var að kveikja upp í eldstæði. Greiðlega tókst að hefta útbreiðslu eldsins og slökkva hann. Í yfirliti lögreglunnar á Vestfjörðum um mál sem komu upp í síðustu viku segir að tilkynnt var um eitt vinnuslys en í því tilviki féll starfsmaður fyrirtækis í Bolungarvík úr stiga. Hann var fluttur á sjúkrahús á Ísafirði, þó ekki með lífshættulega áverka.

Fjórar tilkynningar bárust um að ekið hafi verið á lambfé í umdæminu. Það er því rík ástæða fyrir búfjáreigendur að reyna allt til að halda því frá vegi og sömuleiðis fyrir ökumenn að gæta varúðar, ekki síst í ljósi þess að skyggnið þverr.

Allst voru 18 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku.

Lögreglan fjarlægði skráningarplötur af fólksbifreið einni á Ísafirði. Ástæðan var sú að þak bifreiðarinnar hafði verið fjarlægt en bifreiðin ekki búin viðeigandi öryggisbúnaði fyrir ökumann og farþega. Bifreiðin þannig tekin úr umferð af öryggisástæðum. Lögreglan vill vara við því að skerða öryggi ökutækja með þessum hætti.

smari@bb.is

Óttast að Hádegissteinninn hrynji niður í byggðina

Sérfræðingar Veðurstofunnar skoða steininn.

Fyrir ofan byggðina í Hnífsdal, í fjallinu Bakkahyrnu, er þekkt kennileiti sem kallast Hádegissteinn. Steinninn er 2-4 m á kant og tugir tonna á þyngd. Sérfræðingar Veðurstofunnar segja ljóst að steinninn er á hreyfingu og gæti fyrivaralaust hrunið niður í byggðinga við Dalbraut og neðan hennar.  Í vettvangsferð starfsmanna Veðurstofunnar fyrir viku sást greinilega að steinninn er  á hreyfingu og skófir á steininum ofanverðum gefa til kynna að steinninn hafi nýlega skriðið til eða snúist um allmarga cm þannig að sjá má skófalausa rönd sem nýlega hefur dregist upp fyrir yfirborðið.

Í minnisblaði Tómasar Jóhannessonar, jarðeðlisfræðings hjá Veðurstofunni, kemur fram að tilefni er til aðgerða til þess að draga úr hættu af völdum hugsanlegs hruns steinsins niður hlíðina, enda gæti hann valdið slysum á fólki og talsverðu tjóni á byggingum.

Tvennt er í stöðunni að mati Tómasar. Annars vegar að sprengja steininn upp í svo litla mola að ekki stafi hætta af þeim þegar þeir velta niður á jafnsléttu og hins vegar að festa steinninn með ankerum og/eða steyptri undirstöður til þess að koma í veg fyrir að hann hreyfist frekar.

Tómast telur að líklega sé betra að sprengja steininn, en þá þurfi kunnáttumenn í verkið og væntanlega væri rétt að rýma byggðina þegar steinninn er sprengdur og koma jafnvel fyrir grjóthrunsnetum eða öðrum fyrirstöðum til þess að hindra að steinbrot kastist niður í byggðina.

Í minnisblaðinu er bent á að á næstunni verða svissneskir tæknimenn á landinu á vegum Landsvirkjunar, en þeir sérhæfa sig í að draga úr grjóthrunshættu með því að festa eða sprengja lausagrjót sem hætta kann að stafa af.

Minnisblaðið var lagt fyrir fund bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í dag og var bæjarstjóra falið að kynna málið fyrir hverfisráði Hnífsdals.

Skófir niðri við jörðu á Hádegissteini ofanverðum. Sjá má 10 cm breiða rönd án skófa neðst á steininum.

smari@bb.is

Aukið eldi er rökrétt framhald

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tekur undir bókun skipulag- og mannvirkjanefndar um stækkun eldisleyfis Arctic Sea Farm í Dýrafirði, Fyrirtækið áformar að auka eldi á laxfiskum í Dýrafirði úr 2.000 þúsund tonnum í 4.000 tonn. Í umsögn Ísafjarðarbæjar er vísað í burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar þar sem Dýrafjörður er talinn þola eldi á allt að 10.000 tonnum og er súrefnisbúskapur fjarðarins jafnvel talinn þola allt að 40% meira eldi en það. Áhrif uppsöfnunar næringarefna frá eldinu eru talin hafa mjög takmörkuð áhrif á botndýralíf á svæðinu, en með umhverfisvöktun er ætlun framkvæmdaraðila að fylgjast með mögulegum áhrifum á það og verða kvíaþyrpingar færðar til ef talið verður tilefni til. Í Dýrafirði og í nágrenni hans eru engar laxveiðiár og er því samkvæmt áhættumati Hafró engin áhætta fyrir villta laxfiskstofna af hugsanlegum strokufiski frá eldinu.

Er það því mat Ísafjarðarbæjar að stækkunaráform Arctic Sea Farm séu „rökrétt í framhaldi af ágætum árangri síðustu ára, ábyrg og varfærin, þar sem stækkunin er enn talsvert undir útreiknuðu burðarþoli fjarðarins og áform um viðbrögð þess eðlis að neikvæð umhverfisáhrif verða í algeru lágmarki,“ eins og það er orðað í umsögninni.

smari@bb.is

Árneshreppur og Þingeyri taka þátt í Brothættum byggðum

Þingeyri. Mynd: Mats Wibe Lund.

Árneshreppur á Ströndum, Þingeyri og Borgarfjörður eystri hafa fengið inngöngu í verkefni Byggðastofnunar Brothættar byggðir. Því er ætlað að leita lausna á bráðum vanda byggðarlaga vegna fólksfækkunar og erfiðleika í atvinnulífi.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fagnar ákvörðun um að Þingeyri verði þátttakandi í verkefninu og leggur áherslu á að Flateyri verði jafnframt þátttakandi.

Blásið verður til íbúaþings á þessum þremur stöðum, verkefnastjórn sett á laggirnar og verkefnastjórar ráðnir. Fleiri byggðarlög hafi knúið á um að taka þátt í verkefninu.

Sjö önnur byggðarlög taka þátt í verkefninu Brothættar byggðir: Bíldudalur, Breiðdalshreppur, Raufarhöfn, Skaftárhreppur, Grímsey, Hrísey og Öxarfjörður.

bryndis@bb.is

Afkoma bæjarins langt undir fjárhagsáætlun

Ísafjörður

Afkoma Ísafjarðarbæjar eftir fyrstu sex mánuði ársins er mun verri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Hallarekstur bæjarins á fyrri helmingi ársins nam 4,4 milljónum kr. en fjárhagsáætlun gerðir ráð fyrir 82,6 milljóna kr. rekstrarafgangi á tímabilinu. Samkvæmt minnisblaði Eddu Maríu Hagalín, fjármálastjóra Ísafjarðarbæjar, eru minni skatttekjur helsta ástæða fyrir rekstrarhalla bæjarins. Skatttekjur Ísafjarðarbæjar (útsvar og framlag jöfnunarsjóða) voru 111 milljónum kr. lægri en gert var ráð fyrir fjárhagsáætlun.

Þá drógust tekjur hafnarinnar verulega saman, eða um 52 milljónir kr. Rekstrafgangur hafnarinnar eftir sex mánuði var neikvæður um 3,9 milljónir kr. en fjárhagsætlun gerði ráð fyrir 32 milljóna kr. afgangi af rekstri. Í minnisblaðinu kemur fram að skekkja gæti verið í samanburðinum þar sem verið er að innleiða nýtt kerfi yfir tekjubókanir og  hugsanlega eru einhverjar tekjur bókaðar í ágúst sem tilheyra júní.

Þá er mun verri afkoma af Fasteignum Ísafjarðarbæjar ehf., en halli af rekstrinum nam 35,6 milljónum kr. þegar fjárhagsætlun gerði ráð fyrir 2,4 milljón kr. hallarekstri. Skýringanna er að leita í því að viðhaldi á Fjarðarstræti 4-6 sem var farið í á árinu 2016 en hluti Fasteigna Ísafjarðarbæjar var greiddur á þessu ári, alls 20 milljónir kr. Þá voru fasteignagjöld á íbúðum bæjarins á Ísafirði vanáætluð um 3,5 milljónir kr. Annað viðhald á íbúðum á Ísafirði er 10,5 milljónum króna yfir áætlun og er að mestu vegna framkvæmda á Pollgötu.

Það vegur á móti minnkandi tekjum að nokkrir málaflokkar skila betri afkomu en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Má þar nefna félagsþjónustuna sem skilar 20 milljónum kr. betri afkomu vegna hærri tekna frá Byggðasamlagi Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks. Þá er snjómokstur 11 milljónum kr. undir áætlun og rekstur Slökkviliðs Ísafjarðar og rekstur sjúkraflutninga 8,5 milljónum kr. betri en áætlun gerði ráð fyrir.

smari@bb.is

Finnur ekki rök gegn áhættumatinu

Haraldur Benediktsson. Mynd: Ómar Óskarsson.

Haraldur Benediktsson, fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis, segist ekki vera andvígur laxeldi í Ísafjarðardjúpi en segist jafnframt ekki finna rök gegn áhættumati Hafrannsóknastofnunar. Þetta kemur fram í aðsendri grein Haraldar á bb.is í dag. Haraldur áréttar að áhættumatið geti tekið breytingum og hann telur vafalítið að eldi verði í Djúpinu með tíð og tíma. Í greininni segir Haraldur að ef aðeins væri um að ræða þrjár litlar laxveiðiár í Djúpinu mætti vel nota leikreglur laga og réttar og semja sig að niðurstöðu. „Það gilda hinsvegar ákveðnar skyldur og  lög um vernd á villtum stofni laxa. Það er ekki svo, þótt það virðist ósanngjarnt, að miklir hagsmunir margra víki til hliðar minni hagsmunum fárra,“ segir í greininni.

Hann lýkur greininni á þessum orðum:

„Ég held með Skagamönnum í knattspyrnu á hverju sem gengur. Ég þarf ekkert að rökstyðja það. Ég held hinsvegar með laxeldi á grundvelli þekkingar sem hægt er að afla hér heima og erlendis og þess mats sem er á hendi Hafrannsóknarstofnunar að leggja fyrir stjórnvöld. Allir ættu að ræða málin á þeim grunni.“

smari@bb.is

Stórtíðindi í fiskeldi

Haraldur Benediktsson

Ég styð fiskeldi sem byggir á grunni þekkingar og ráðleggingum frá okkar færasta vísindafólki.  Ég tók þess vegna þá ákvörðun að bíða eftir faglegri umræðu og niðurstöðu í starfshópi um fiskeldi. Nú liggur hún fyrir og verður til meðferðar í haust á vettvangi stjórnmálanna. Stóru tíðindin eru þau að samkvæmt fyrirliggjandi burðarþols- og áhættumati er verulegt rými fyrir uppbyggingu í fiskeldi.

Þrátt fyrir mikla baráttu hefur það verið hlutskipti margra byggða á Vestfjörðum, Austfjörðum og víðar að atvinnuskilyrðum hefur hnignað. Fiskeldi er allt á landsbyggðinni og sá langþráði viðsnúningur sem það hefur fært ýmsum byggðum mun ekki stöðvast samkvæmt niðurstöðum starfshópsins.  Starfshópurinn hafði enda að leiðarljósi markmið laga um fiskeldi, 71/2008. Ekki er lengur fyrirstaða til að sækja fram og byggja upp á þeim forsendum. Það er líka verðmætt að hagsmunaaðilar í laxveiðum og laxeldi hafa náð saman um að stuðla að þróun mála á grunni þekkingar og vísinda. Það hefur reynst okkur vel í sjávarútvegi.

Fram með gát

Það eru ekki lítil tækifæri sem nú eru fyrir hendi.  Fyrir hver 10 þús tonn af eldi má reikna með um 160 störfum auk afleiddra starfa.  Það er ljóst að mikil tækifæri eru í uppbyggingu atvinnulífs.

Ég er ekki á móti eldi í Ísafjarðardjúpi. Ég finn á hinn bóginn ekki rökin gegn því áhættumati sem segir að þar beri að fara varlega. Áhættu- og burðarþolsmöt geta tekið breytingum og vafalítið verður eldi í Ísafjarðardjúpi með tíð og tíma.

Ef þetta væri aðeins um að ræða um þrjár litlar laxveiðiár í Djúpinu mætti vel nota leikreglur laga og réttar og semja sig til niðurstöðu. Það gilda hinsvegar ákveðnar skyldur og  lög um vernd á villtum stofni laxa. Það er ekki svo, þótt það virðist ósanngjarnt, að miklir hagsmunir margra víki til hliðar minni hagsmunum fárra. Ef það á gera það verður að leita samninga um það. Það er ekki óþekkt í heimi þeirra sem fjalla um villtan lax. Sem dæmi má taka að markvisst var unnið að því að kaupa rétt til netaveiða á laxi í sjó.

Innri styrkur fiskeldisgreinarinnar er heldur ekki slíkur að það takmarki hana að ekki séu fyrir hendi ný og stærri eldissvæði.  Núverandi framboð seiða virðist eiga langt í land með að standa undir meira eldi en þegar er ákveðið. Það er því ekki svo að eldissvæði og athafnarými séu takmarkandi fyrir uppbyggingu núna.

Verðmæti villta laxins

Skýrsla starfshópsins og áhættumatið er ekki aðeins um að það sé áhætta fyrir Ísafjarðardjúp heldur landið allt. Það eru líka miklir hagsmunir margra að vernda og verja stöðugt verðmætari hlunnindi  af villtum laxi. Lög um veiðifélög og veiðiréttindi er einhver merkasta löggjöf okkar um umhverfisvernd og ábyrga nýtingu. Reyndar elsta umhverfislöggjöf okkar. Það eru til skýrslur sem draga fram þá staðreynd að helmingur af hreinum tekjum íbúa sveita á Vesturlandi kemur af ábyrgri nýtingu hlunninda. Staðreyndin er að tekjur og afkoma heimila víða um Vestur- og Norðurland eiga mikið undir ábyrgri og faglegri stefnumörkun.  Þetta eru ekki hagsmunir fárra laxveiðimanna heldur heilla byggðalaga.

Um það efni er jafnt á komið með þeim sem hafa væntingar um aukin umsvif af eldi og þeirra sem í dag lifa af nýtingu hlunninda. Samfélagsleg áhrif þarf að vega og meta með hagsmuni fólksins í huga, rétt fólks til að nota aðstæður sér lífsviðurværis.

Fiskeldi er hátæknigrein og þróun í tækni og eldisaðferðum fleygir fram. Nægir þar að vísa til tilrauna með sjóeldi, eldi í lokuðum kerfum og eldi á geldlax. Það má því vera að allar forsendur muni breytast hratt á næstu árum og laxeldið verði óumdeildara en það er í dag. Fleiri þætti mætti nefna sem koma fram í áhættumatsskýrslu Hafrannsóknastofnunar. Þeir þættir munu eflaust eiga eftir breyta forsendum áhættumats á næstu árum.

Reynsla frá Noregi sýnir einnig að fylgni milli aukins eldi og fjölda starfa er farin að minnka vegna meiri tækni.  Hlutfallslega fer því störfum fækkandi með aukinni tækni og betri búnaði. Að sama skapi verður hvert starf verðmætara en áður. Þetta þarf að taka með í reikninginn fyrir framtíðina.

Ég held með Skagamönnum í knattspyrnu á hverju sem gengur. Ég þarf ekkert að rökstyðja það. Ég held hinsvegar með laxeldi á grundvelli þekkingar sem hægt er að afla hér heima og erlendis og þess mats sem er á hendi Hafrannsóknarstofnunar að leggja fyrir stjórnvöld. Allir ættu að ræða málin á þeim grunni.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

Gáfu bekk til minningar um Helenu Björk

Frændsystkin Helenu Bjarkar Þrastardóttur, afkomendur Marsellíusar Bernharðssonar skipasmiðs og Albertu Albertsdóttur á Ísafirði, ásamt fjölskyldum afhentu á laugardaginn Safnahúsinu á Ísafirði veglegan útibekk til minningar um hana.

Helena Björk Þrastardóttir var fædd á Ísafirði 18. ágúst 1981, dóttir Þrastar Kristjánssonar og Þórlaugar Ásgeirsdóttur. Undanfarin ár starfaði hún sem bókavörður á bókasafninu á Ísafirði og var vinsæl með gesta safnsins enda einstaklega þjónustulipur og hlý í framkomu.

Nánar má lesa um gjöfina á facebook síðu Safnahússins er það kemur fram að starfsfólk Safnahússins á Ísafirði þakkar fjölskyldu Helenu Bjarkar fyrir gjöfina sem mun nýtast vel gestum og gangandi en um leið halda á lofti minningu yndislegrar stúlku með fallegt bros og hlýja nærveru.

Nýjustu fréttir