Síða 2170

Lagasetning kemur til greina.

Elsa Lára Arnardóttir. Mynd: mbl.is / Ómar

Enn og aftur er vegalagning um Teigsskóg komin í uppnám. Það er óásættanlegt með öllu og staða sem þessi getur ekki gengið lengur.

Í nýlegu svari sem ég fékk frá samgönguráðherra kemur fram að ráðherra sé ekki að skoða sérstaka lagasetningu til að liðka fyrir vegaframkvæmdum um Teigsskóg (http://www.althingi.is/altext/146/s/1070.html). Því er það ábyrgðarhlutverk þingmanna í Norðvesturkjördæmi að taka málið í sínar hendur, því lagasetning hlýtur að koma til greina þegar staðan er enn og aftur orðin þessi. Sérstaklega þar sem þær áætlanir sem settar voru fram árið 2014, hafa ekki gengið upp.

Haustið 2014 funduðu þingmenn Norðvesturkjördæmis m.a. með þáverandi samgönguráðherra um mikilvægi þess að nýr vegur yrði lagður um Teigsskóg. Ýmsar leiðir voru lagðar á borðið til að finna aðgerð sem yrði til þess að hægt væri að byrja vegalagningu sem fyrst. Flestir þingmenn kjördæmisins, ef ekki allir, vildu fara í lagasetningu til að höggva hnút á þá stjórnsýsluflækju sem nýr vegur um Teigsskóg er. Samkvæmt þeim svörum sem þingmenn fengu á fundinum þá átti endurupptaka á fyrra umhverfismati að vera stysta leiðin í átt að settu markmiði. Það ferli tæki innan við 18 mánuði og vegaframkvæmdir gætu hafist á árinu 2016 (http://www.visir.is/g/2014141019455). Núna árið 2017 erum við enn á byrjunarreit og ekkert staðist sem rætt var á fundinum þarna um árið.

Í öllu þessu ferli, hef ég sem þingmaður Norðvesturkjördæmis sett fram ýmsar fyrirspurnir um málið, m.a. um áfangaskiptingu verkefnisins, eyrnamerkt fjármagn til verkefnisins og fyrirspurn um lagasetningu eða aðrar aðgerðir til að koma verkefninu af stað. Allar þessar fyrirspurnir, sem og aðrar má finna hér: http://www.althingi.is/altext/cv/is/fyrirspurnir/?nfaerslunr=1161

Við virðumst enn og aftur vera á byrjunarreit. Áætlanir hafa ekki gengið upp og því virðist lagasetning vera orðin eina færa leiðin. Það er ábyrgðarhlutverk okkar þingmanna Norðvesturkjördæmis að ganga í málið og koma þessu mikilvæga samgönguverkefni áfram. Þetta getur ekki gengið svona lengur.

Elsa Lára Arnardóttir

þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Skipar starfshóp um rekstur innanlandsflugvalla

Ísafjarðarflugvöllur.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur skipað starfshóp til að fara yfir rekstur innanlandsflugvalla landsins. Markmiðið  er að ná fram hagkvæmari rekstri á innanlandsflugi og skilvirkari rekstri flugvalla sem leiði til lægri flugfargjalda. Starfshópnum er falið að fara yfir núverandi fyrirkomulag innanlandsflugsins, hugmyndir að breyttu fyrirkomulagi og meta hvaða leikreglur skili neytendum mestri hagkvæmni. Gert er ráð fyrir að tillögur taki mið af því að markaðslögmál verði nýtt eins og kostur er til að ná fram hagkvæmni við rekstur flugvalla og flugleiða, að verðlagning opinberra aðila verði eins gegnsæ og auðið er og að innanlandsflug stuðli að aðgengi landsmanna að þjónustu og afþreyingu, styrki atvinnurekstur á landsbyggðinni og þjóni ferðamönnum eins og best verður á kosið. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Miðað er við að starfshópurinn skili skýrslu með rökstuddum tillögum sem eru til þess fallnar að stuðla að markmiði verkefnisins. Ráðgert er að hópurinn skili áfangaskýrslu með helstu tillögum fyrir árslok og lokaskýrslu fyrir 1. maí 2018.

smari@bb.is

Bláberjadagar í Súðavík

Frá bláberjadögum 2013

Ein af síðustu bæjarhátíðum sumarsins, Bláberjadagar í Súðavík, fer fram um næstu helgi. Dagskráin hefst á föstudaginn með ærsladiskói á nýjum ærslabelg sveitarfélagsins á skólalóð Súðavíkurskóla kl. 16:00. Tælenska matarveislan kemur svo í kjölfarið á Jóni Indíafara en aðalnúmer hátíðarinnar, föstudagstónleikarnir í Samkomuhúsinu, hefjast kl. 19:00 og standa til miðnættis.

Dagskráin heldur áfram allan laugardaginn og á sunnudaginn og endar með bláberjamessu í Súðavíkurkirkju kl. 17:00  á sunnudag.

Hér eru nokkrar myndir úr safni bb.is frá fyrri bláberjadögum

bryndis@bb.is

Lætur af störfum um mánaðamótin

Sigríður Elsa Kjartansdóttir.

Sigríður Elsa Kjartansdóttir, dómari við Héraðsdóm Vestfjarða, lætur af störfum um mánaðamótin og hefur störf við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 1. september. Staðan á Ísafirði hefur ekki verið auglýst laus til umsóknar en Sigríður Elsa segir að samkvæmt þeim upplýsingum sem hún hefur fengið verður það gert fljótlega. Hún mun sinna afmörkuðum verkefnum fyrir Héraðsdóm Vestfjarða samhliða störfum sínum við Héraðsdóm Reykjavíkur þangað til nýr dómari verður ráðinn.

smari@bb.is

Yngstu árgangarnir koma best út

Sam­kvæmt fyrstu niður­stöðum les­fim­i­prófa sem voru lögð fyr­ir ís­lenska grunn­skóla­nem­end­ur í fyrsta skipti á síðasta skóla­ári hafa marg­ir skól­ar náð góðum ár­angri sér­stak­lega í yngstu ár­göng­un­um. Hins veg­ar er þörf á um­bót­um á miðstigi, þ.e. í 5.–7. bekk. Leggja þarf áherslu á fjöl­breytt­ar leiðir í skól­um og á heim­il­um til að auka margs kon­ar lest­ur nem­enda. Þá þarf að finna leiðir til að gera lest­ur áhuga­verðari og auka aðgengi að hvetj­andi les­efni. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu menntamálaráðuneytisins.

Greint var frá niður­stöðu les­fim­i­próf­anna í gær þegar fyrsta heila skóla­ári læsis­verk­efn­is­ins, Þjóðarsátt­mála um læsi, lauk.

Þátt­taka í les­fim­i­próf­un­um var góð en 75% nem­enda í 1.-10. bekk tóku þátt í próf­un­um í maí. Mest þátt­taka var í 3. bekk eða 83% en minnst í 10. bekk þar sem 54% nem­enda tóku þátt. Alls lögðu 93% skóla próf­in fyr­ir á skóla­ár­inu 2016-2017 og fleiri munu taka þátt nú í sept­em­ber. Þetta kem­ur jafn­framt fram í til­kynn­ingu.

Les­fim­i­próf­in eru mæli­tæki til að meta lestr­arkunn­áttu og fram­vindu nem­enda í les­fimi, lesskiln­ingi, orðaforða, staf­setn­ingu og rit­un og til að skima fyr­ir lestr­ar­erfiðleik­um, und­ir yf­ir­heit­inu Les­fer­ill.

smari@bb.is

Síðasti Fokkerinn farinn

Síðasta Fokk­er-vél Air Ice­land Conn­ect flaug af landi brott frá Reykja­vík­ur­flug­velli í morg­un. Þetta eru mik­il tíma­mót hjá flug­fé­lag­inu því Fokk­er-vél­ar hafa verið í rekstri þess frá ár­inu 1965, eða í yfir hálfa öld. Flug­vél­inni var flogið til Hol­lands þar sem nýir eig­end­ur frá Kan­ada taka við henni.

Vél­in sem tók á loft í morg­un er Fokk­er-50 sem kall­ast TF-JMS. Hún er síðust af fjór­um Fokk­er-50 vél­um sem kanadíska fyr­ir­tækið Avmax keypti af Air Ice­land Conn­ect. Vélin var ein af sex Fokker 50 vélum sem voru keyptar nýjar til landsins árið 1991.

smari@bb.is

Kviknaði í út frá eldstæði

Í síðustu viku barst lögreglu tilkynning um um eld í íbúðarhúsi í Hnífsdal. Einn íbúi var í húsinu og hlaut hann brunasár. Hann var lagður inn á sjúkrahús vegna brunasáranna, sem þó virtust ekki vera lífshættulegir. Svo virðist sem eldurinn hafi kviknað þegar íbúinn var að kveikja upp í eldstæði. Greiðlega tókst að hefta útbreiðslu eldsins og slökkva hann. Í yfirliti lögreglunnar á Vestfjörðum um mál sem komu upp í síðustu viku segir að tilkynnt var um eitt vinnuslys en í því tilviki féll starfsmaður fyrirtækis í Bolungarvík úr stiga. Hann var fluttur á sjúkrahús á Ísafirði, þó ekki með lífshættulega áverka.

Fjórar tilkynningar bárust um að ekið hafi verið á lambfé í umdæminu. Það er því rík ástæða fyrir búfjáreigendur að reyna allt til að halda því frá vegi og sömuleiðis fyrir ökumenn að gæta varúðar, ekki síst í ljósi þess að skyggnið þverr.

Allst voru 18 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku.

Lögreglan fjarlægði skráningarplötur af fólksbifreið einni á Ísafirði. Ástæðan var sú að þak bifreiðarinnar hafði verið fjarlægt en bifreiðin ekki búin viðeigandi öryggisbúnaði fyrir ökumann og farþega. Bifreiðin þannig tekin úr umferð af öryggisástæðum. Lögreglan vill vara við því að skerða öryggi ökutækja með þessum hætti.

smari@bb.is

Óttast að Hádegissteinninn hrynji niður í byggðina

Sérfræðingar Veðurstofunnar skoða steininn.

Fyrir ofan byggðina í Hnífsdal, í fjallinu Bakkahyrnu, er þekkt kennileiti sem kallast Hádegissteinn. Steinninn er 2-4 m á kant og tugir tonna á þyngd. Sérfræðingar Veðurstofunnar segja ljóst að steinninn er á hreyfingu og gæti fyrivaralaust hrunið niður í byggðinga við Dalbraut og neðan hennar.  Í vettvangsferð starfsmanna Veðurstofunnar fyrir viku sást greinilega að steinninn er  á hreyfingu og skófir á steininum ofanverðum gefa til kynna að steinninn hafi nýlega skriðið til eða snúist um allmarga cm þannig að sjá má skófalausa rönd sem nýlega hefur dregist upp fyrir yfirborðið.

Í minnisblaði Tómasar Jóhannessonar, jarðeðlisfræðings hjá Veðurstofunni, kemur fram að tilefni er til aðgerða til þess að draga úr hættu af völdum hugsanlegs hruns steinsins niður hlíðina, enda gæti hann valdið slysum á fólki og talsverðu tjóni á byggingum.

Tvennt er í stöðunni að mati Tómasar. Annars vegar að sprengja steininn upp í svo litla mola að ekki stafi hætta af þeim þegar þeir velta niður á jafnsléttu og hins vegar að festa steinninn með ankerum og/eða steyptri undirstöður til þess að koma í veg fyrir að hann hreyfist frekar.

Tómast telur að líklega sé betra að sprengja steininn, en þá þurfi kunnáttumenn í verkið og væntanlega væri rétt að rýma byggðina þegar steinninn er sprengdur og koma jafnvel fyrir grjóthrunsnetum eða öðrum fyrirstöðum til þess að hindra að steinbrot kastist niður í byggðina.

Í minnisblaðinu er bent á að á næstunni verða svissneskir tæknimenn á landinu á vegum Landsvirkjunar, en þeir sérhæfa sig í að draga úr grjóthrunshættu með því að festa eða sprengja lausagrjót sem hætta kann að stafa af.

Minnisblaðið var lagt fyrir fund bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í dag og var bæjarstjóra falið að kynna málið fyrir hverfisráði Hnífsdals.

Skófir niðri við jörðu á Hádegissteini ofanverðum. Sjá má 10 cm breiða rönd án skófa neðst á steininum.

smari@bb.is

Aukið eldi er rökrétt framhald

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tekur undir bókun skipulag- og mannvirkjanefndar um stækkun eldisleyfis Arctic Sea Farm í Dýrafirði, Fyrirtækið áformar að auka eldi á laxfiskum í Dýrafirði úr 2.000 þúsund tonnum í 4.000 tonn. Í umsögn Ísafjarðarbæjar er vísað í burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar þar sem Dýrafjörður er talinn þola eldi á allt að 10.000 tonnum og er súrefnisbúskapur fjarðarins jafnvel talinn þola allt að 40% meira eldi en það. Áhrif uppsöfnunar næringarefna frá eldinu eru talin hafa mjög takmörkuð áhrif á botndýralíf á svæðinu, en með umhverfisvöktun er ætlun framkvæmdaraðila að fylgjast með mögulegum áhrifum á það og verða kvíaþyrpingar færðar til ef talið verður tilefni til. Í Dýrafirði og í nágrenni hans eru engar laxveiðiár og er því samkvæmt áhættumati Hafró engin áhætta fyrir villta laxfiskstofna af hugsanlegum strokufiski frá eldinu.

Er það því mat Ísafjarðarbæjar að stækkunaráform Arctic Sea Farm séu „rökrétt í framhaldi af ágætum árangri síðustu ára, ábyrg og varfærin, þar sem stækkunin er enn talsvert undir útreiknuðu burðarþoli fjarðarins og áform um viðbrögð þess eðlis að neikvæð umhverfisáhrif verða í algeru lágmarki,“ eins og það er orðað í umsögninni.

smari@bb.is

Árneshreppur og Þingeyri taka þátt í Brothættum byggðum

Þingeyri. Mynd: Mats Wibe Lund.

Árneshreppur á Ströndum, Þingeyri og Borgarfjörður eystri hafa fengið inngöngu í verkefni Byggðastofnunar Brothættar byggðir. Því er ætlað að leita lausna á bráðum vanda byggðarlaga vegna fólksfækkunar og erfiðleika í atvinnulífi.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fagnar ákvörðun um að Þingeyri verði þátttakandi í verkefninu og leggur áherslu á að Flateyri verði jafnframt þátttakandi.

Blásið verður til íbúaþings á þessum þremur stöðum, verkefnastjórn sett á laggirnar og verkefnastjórar ráðnir. Fleiri byggðarlög hafi knúið á um að taka þátt í verkefninu.

Sjö önnur byggðarlög taka þátt í verkefninu Brothættar byggðir: Bíldudalur, Breiðdalshreppur, Raufarhöfn, Skaftárhreppur, Grímsey, Hrísey og Öxarfjörður.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir