Föstudagur 27. september 2024
Síða 217

Dagatal sparisjóðanna: listsýning í máli og myndum

Enn eru starfandi nokkrir sparisjóðir á landinu, þar á meðal einn á Vestfjörðum, Sparisjóður Strandamanna á Hólmavík.

Í lok hvers árs gefa sparisjóðirnir út dagatal og er óhætt að segja að dagatal ársins 2024 bjóði upp á listsýningu í máli og myndum. Hugmyndin á bak við dagatalið er að kynna ungt og efnilegt listafólk sem býr á landsbyggðinni. Hver einstaklingur fær einn mánuð í dagatalinu, þar sem hann kynnir sig og sína list. Auk þess gefst listafólkinu kostur á að nýta útibú sparisjóðanna fyrir listsýningar eða aðra listtengda viðburði.

Ráðgjöf varðandi dagatalið veitti Arna Guðný Valsdóttir, myndlistarmaður og kennari við listnáms- og hönnunarbraut Verkmenntaskólans á Akureyri.

Þetta er eitt af fjölmörgum verkefnum á sviði lista og menningar sem sparisjóðirnir styrkja í nærumhverfi sínu en hlutverk sparisjóðanna er að standa vörð um hagsmuni landsmanna, styrkja innviði samfélagsins og styðja við félags- og atvinnulíf í heimabyggð.

„Okkur langaði að gera ungu og efnilegu listafólki sem starfar í okkar nærumhverfi hátt undir höfði með því að nýta þennan vettvang til að kynna þau og þeirra hæfileika. Auk þess að styrkja þau í sinni listsköpun og  veita þeim vettvang fyrir listtengda viðburði í gegnum útibú sparisjóðanna. Við erum ótrúlega stolt af útkomunni og samstarfinu við listafólkið og hana Örnu Guðnýju myndlistarmann og kennara,“ segir Guðmundur Tómas Axelsson framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sparisjóða.“

Dagatalið má nálgast endurgjaldslaust í útibúum sparisjóðanna.

Diana Chester og Gary Markle sýna í Úthverfu 2.12 2023 – 14.01 2024

Laugardaginn 2. desember var opnuð sýning á verkum Diana Chester og Gary Markle í Úthverfu á Ísafirði. Sýningin ber heitið Vofandi…Drjúpandi…Hlustandi… og stendur til sunnudagsins 14. janúar n.k.  Listafólkið dvaldi í gestavinnustofum ArtsIceland við undirbúning og gerð sýningarinnar.   

Vofandi…Drjúpandi…Hlustandi…

Listamennirnir Diana Chester og Gary Markle snúa nú aftur til Íslands til að vinna saman að innsetningu sem byggir á og útvíkkar listrannsóknir þeirra sem hófust á mánaðarlangri listamannadvöl hjá ArtsIceland á Ísafirði sumarið 2022.

Diana Chester er bandarískur hljóðlistamaður og kennari með aðsetur í Ástralíu; Gary Markle er kanadískur listamaður og kennari sem býr í Eistlandi og vinnur á sviði ,,þróaðrar“ tísku (expanded fashion). Sameiginlegir snertifletir vinnu þeirra hafa þróast í framhaldi af því að þau dvöldu samtímis við rannsóknir á Vestfjörðum sumarið 2022. Sérstaklega reyndist strandsvæðið, þar sem land og sjór mætast, vera frjósamt rými ímyndunarafls sem snerti þau bæði djúpt. Upphaflegar rannsóknir frá veru þeirra á Íslandi og frekari hugleiðingar sem byggja á reynslunni sem þau urðu fyrir, hafa nú skilað þessu samstarfsverkefni í Gallerí Úthverfu / Outvert Art Space.

Í innsetningunni eru flóknar landslagsupptökur geymdar í grófum handprjónuðum strúktúr sem búinn er til úr garni úr iðnaðarplasti. Þetta framkallar e.k. neðanjarðar-fjöruborð  sem blandast saman við frumstætt gufubaðslegt umhverfi sem býður gesti velkomna til að taka þátt, hlusta, finna og dvelja innan þess. Rýmið er til að ígrunda tengsl milli landamæra, takmarkana, heima sem bæði er hægt og ekki hægt að sjá og heyra.

Gary Markle.

Diana Chester.

Myndir: Úthverfa.

MÍ: undirbúningur að nýju verknámshúsi kominn á skrið

Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari M.Í.

Fram kom í ræðu Dóróthea Margrét Einarsdóttir aðstoðarskólameistara MÍ við útskrift nemenda á miðvikudaginn að undirbúningur að byggingu nýs verknámshúss er nú kominn á nokkurt skrið og hefur verið skipuð verkefnastjórn sem á að vinna næstu skref. Fulltrúi skólans í verkefnastjórninni er Þröstur Jóhannesson sviðsstjóri verknáms í MÍ og húsasmíðakennari til margra ára. Ásamt Þresti sitja í verkefnastjórninni fulltrúar frá mennta- og barnamálaráðuneytinu og Framkvæmdasýslu ríkisins. Heiðrún sagði það væri „mikið tilhlökkunarefni að sjá þessa undirbúningsvinnu hefjast af fullum krafti og veitir okkur mikilvægan byr í seglin fyrir áframhaldandi vöxt og velferð skólans.“

 

fleiri nemendur af sunnanverðum Vestfjörðum

Í byrjun haustannar fóru nýnemar að venju í nýnemaferð og heimsóttu að þessu sinni Arnarfjörð, Bíldudal og Tálknafjörð líkt og í fyrra. Heiðrún sagði að ferðin hafi heppnast vel og „finnum við í MÍ sífellt betur hve bættar samgöngur milli norður- og suðursvæðanna skipta miklu máli þegar kemur að því að efla tengslin. Það má líka sjá í nemendahópnum en nokkuð stór hópur af Suðurfjörðunum stundar nú nám við skólann og býr hluti hópsins á heimavistinni.“

  

50 ár í vor frá fyrstu útskrift

Heiðrún vék að því í ræðu sinni að í vor verða merk tímamót í sögu skólans. 50 ár verða þá liðin frá því að fyrstu nemendur luku námi í MÍ og útskrifuðust úr Menntaskólanum á Ísafirði. Stefnt er að því að afmælinu verði gerð góð skil á útskriftardegi vorannar 25. maí 2024. Unnið er að stofnun sérstakrar afmælisnefndar til að undirbúa og skipuleggja hvernig tímamótunum verður fagnað. 

„Menntaskólinn á Ísafirði heldur áfram að vaxa og dafna og leggja stjórnendur skólans sig fram um að skólinn sé góður vinnustaður fyrir bæði nemendur og starfsfólk. Þessu markmiði er m.a. fylgt eftir með gerð samskiptasáttmála sem og með reglulegum mannauðsmælingum frá HR Monitor og hefur skólinn nú hlotið viðurkenningu fyrir að vera mannauðshugsandi vinnustaður.“

Arctic Fish: margvísleg viðbrögð við stroki og lúsaálagi

Arctic Fish segir í tilkynningu í gær, sem birt var eftir að lögreglan á Vestfjörðum hafði hætt rannsókn á stroki í kví fyrirtækisins í ágúst, að fyrirtækið hafi lagt í mikla vinnu við að endurskoða vinnulag með það að markmiði að lágmarka áhættu á stroki.

„Meðal annars höfum við ákveðið að hætta að nota þá tegund af fóðurdreifurum sem ollu gatinu. Við erum að innleiða nýtt rafrænt gæðakerfi og viðhaldskerfi sem bætir vinnubrögð. Aukin áhersla verður á þjálfun starfsfólks og farið hefur verið yfir framkvæmd ljósastýringa til að koma í veg fyrir kynþroska.

Þá höfum við búið til nýtt starf í fyrirtækinu, starf framkvæmdastjóra eldis og fengið til liðs við okkur í það starf John Gunnar Grindskar sem hefur áratuga reynslu úr fiskeldi hjá móðurfyrirtæki okkar í Noregi.

Við höfum einnig sett upp áætlanir og tryggt okkur búnað með það að markmiði að halda lúsaálagi niðri.“

COP28: auka fiskeldi um 75%

Þá segir að þessar aðgerðir miði að því að lágmarka umhverfisáhrif af starfseminni. Lax alinn í sjó sé með hvað lægst kolefnisfótspor af framleiddu próteini sem völ er á. Það er því mikilvægt til að tryggja heiminum fæðu að nýta bláu akrana, sjóinn til að framleiða matvæli.

Ein af niðurstöðum COP28 loftslagsráðstefnunnar, sem nýverið lauk, var að það þyrfti að auka sjálfbært sjóeldi um 75% til ársins 2040 segir í tilkynningu fyrirtækisins. „Í því liggja gríðarleg tækifæri fyrir samfélögin hér á Vestfjörðum og Ísland allt. Við í Arctic Fish ætlum að halda áfram að taka þátt í þeirri vegferð og rísa undir því trausti sem okkur hefur verið sýnt með því að fá aðgengi að fjörðum Vestfjarða.“

MÍ: 32 nemendur brautskráðir

Miðvikudaginn 20. desember fór fram brautskráning frá Menntaskólanum á Ísafirði. Athöfnin fór fram í Ísafjarðarkirkju og var henni jafnframt streymt af Viðburðastofu Vestfjarða.

Á haustönn voru 448 nemendur skráðir í nám við skólann. Alls voru 184 nemendur í dagskóla og þar af 57 nýnemar. Aðrir nemendur stunduðu dreifnám eða fjarnám. Yngsti nemandinn er 14 ára og sá elsti 65 ára. Margir nemendur eru með annan tungumála- og menningarbakgrunn en íslenskan og í dagskóla er hlutfall þeirra 25%. Um helmingur dagskólanemenda skólans stundar nám á starfs- eða verknámsbrautum og er það svipað hlutfall og undanfarnar annir.

Alls brautskráðust 32 nemendur frá skólanum að þessu sinni. Af þeim voru 5  dagskólanemendur, 16 dreifnámsnemendur og 11 nemendur í fjarnámi með MÍ sem heimaskóla.

Nemendurnir 32 útskrifuðust af 13 námsbrautum:

  • 1 nemandi úr grunnnámi rafiðngreina 
  • 6 nemendur úr húsasmíði
  • 3 nemendur úr iðnmeistaranámi 
  • 1 nemandi af sjúkraliðabraut
  • 1 nemandi af sjúkraliðabrú
  • 1 nemandi af skipstjórnarbraut A 
  • 3 nemendur af skipstjórnarbraut B
  • 1 nemandi úr stálsmíðanámi 
  • 1 nemandi með viðbótarnám við smáskipanám 
  • 18 nemendur með stúdentspróf (4 af félagsvísindabraut, 1 af náttúruvísindabraut, 8 af opinni stúdentsbraut og 4 með stúdentspróf af fagbraut) 
     

Fimm nemendur fengu verðlaun við brautskráninguna:

Baldur Freyr Gylfason hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í grunnnámi rafiðna.

Fríða Ástdís Steingrímsdóttur hlaut verðlaun fyrir seiglu í námi.

Jón Karl Ngosanthiah Karlsson hlaut verðlaun fyrir góða þátttöku í félagsstörfum.

Lára Ósk Pétursdóttir hlaut verðlaun fyrir góðan námsárangur.

Roberta Soparaite hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í húsasmíðanámi.

Skólameistari er Heiðrún Tryggvadóttir.

Minkur

Mustela vison er latneskt heiti þessarar dýrategundar af marðarætt. Minkurinn er oftast dökkbrúnn með   hvítar skellur á neðanverðum kjálkanum og hálsi og milli fram- og afturfóta. Karldýrið er oftast u.þ.b. 1,2 kg og læðurnar helmingi léttari. Dýrin eru upprunalega komin frá Norður-Ameríku um Evrópu á fyrstu árum 20. aldar. Þeir voru aldir vegna skinnanna, en margir sluppu og lifa villtu lífi víða í álfunni norðanverðri. Hingað voru hinir fyrst fluttir 1931 og fyrstu greni þeirra í náttúrunni fundust 1937 við Elliðaárnar og þá voru fyrstu lögin um minkahald sett.

Árið 1943 kom fram tillaga um að banna það með lögum. Það var ekki fyrr en 1949, að sveitarfélögum var heimilað að banna minkahald í lögunum um eyðingu minka og refa. Þessum lögum var breytt 1955 og 1957. Villiminkur var kominn austur undir Skeiðarársand 1958 og hann dreifðist norður um Vesturland, Norðurland og Austurland. Skeiðarársandur virðist hafa verið náttúruleg hindrun og Öræfingar hafi aðallega fengið mink að austan eftir að samgöngur bötnuðu. Minkurinn dreifðist seinna og hægar um útkjálka, s.s. Vestfirði og norðanlands.

Minkurinn verður kynþroska á fyrsta ári og tímgast strax. Fengitíminn er í mars og byrjun apríl og meðgöngutíminn 6-11 vikur, að meðaltali 7 vikur. Læðurnar makast með 7-10 daga millibili og öll fóstrin fara að þroskast samtímis, þótt feðurnir geti verið margir. Got fer oftast fram í fyrri hluta maí og fjöldi hvolpa er 4-10. Þeir eru blindir, hár- og tannlausir og nærast á mjólk fyrstu 5 vikurnar. Sjónin kemur eftir mánuð og tennur litlu fyrr. Karldýrin koma ekki nálægt uppeldinu.

Minkurinn helgar sér óðul eins og margar aðrar rándýrategundir og merkir með þvagi og skít. Grenin hafa marga útganga, stundum beint út í vatn, því að dýrin synda og kafa vel. Karldýrin eru aðallega á ferðinni á nóttunni en læðurnar eru á ferðinni allan sólarhringinn eftir got.

Fæðan er fjölbreytt, bæði úr sjó og af landi, s.s. marhnútur, sprettfiskur, keilubróðir, hrognkelsi, hornsíli, ufsaseiði, sandsíli, karfi, loðna, síld, skötuselur, tindaskata, keila og krabbadýr. Fuglar, egg, mýs og hunangsflugur eru meðal þess, sem minkurinn étur af landdýrum. Á veturna eru ferskvatnsfiskar einkum á matseðlinum.

Í heildina tekið virðist minkurinn ekki vera eins mikill vágestur og haldið var fram. Hann virðist ekki ógna neinum einstökum stofnum þeirra dýra, sem hann lifir á, eins og haldið var fram fyrrum.

Af vefnum nat.is

Ný stofnun – Rannsóknastofnun lífeyrismála

Ný rannsóknastofnun lífeyrismála tekur til starfa í ársbyrjun 2024 en samningur um þetta var undirritaður í gær.

Um er að ræða samstarfsvettvang starfandi fræðimanna á sviði lífeyrismála hjá Háskóla Íslands, Seðlabanka Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og öðrum stofnunum eftir atvikum.

Markmiðið er að efla rannsóknir og auka skilning á lífeyrismálum, efna til samstarfs við erlenda fræðimenn, afla upplýsinga og hugmynda um skipan lífeyrismála erlendis og benda á mögulegar lausnir og úrbætur til að bregðast við áskorunum sem lífeyrissjóðir á Íslandi standa frammi fyrir.

Undir samning um stofnunina skrifuðu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Jón Ólafur Halldórsson, stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Meðal verkefna verður að halda úti upplýsingavef, skipuleggja vinnustofur fræðimanna til að bera saman bækur sínar og kynna rannsóknir sínar á sviði lífeyrismála, skipuleggja árlega ráðstefnu til að kynna rannsóknaniðurstöður og koma árlega að því að styðja við einn doktorsnema og einn starfsmann til að vinna að rannsóknum er nýst geti íslenska lífeyriskerfinu.

Rannsóknastofnun lífeyrismála verður hýst í Háskóla Íslands og HÍ ber jafnframt ábyrgð á á skuldbindingum hennar.

Héraðssamband Vestfirðinga og  Ísafjarðarbær undirrita samstarfssamning til 3 ára

Nýr samningur milli HSV og Ísafjarðarbæjar hefur verið undirritaður.

Stjórn HSV ásamt Ísafjarðarbæ hefur unnið að nýjum samning í góðri samvinnu og breytingar kynntar vel fyrir aðildarfélögum HSV. Á formannafundi þann 13. nóvember sl. voru drög að samningi samþykkt og fól fundurinn stjórn HSV að vinna málið áfram og ganga frá undirskrift á nýjum samningi.

Samningurinn felur í sér nokkrar breytingar:

Staða framkvæmdastjóra HSV mun færast til Ísafjarðarbæjar og rekstrarstyrkur Ísafjarðarbæjar til HSV minnkar sem samsvarar launagreiðslum og rekstri skrifstofu HSV.
Starfið verður auglýst skv. reglum Ísafjarðarbæjar og mun starfsmaðurinn sinna mörgum verkefnum sem HSV var með áður skv. samningi við Ísafjarðarbæ.

Íþróttaskóli HSV færist yfir til Ísafjarðarbæjar ásamt stöðu yfirþjálfara. Nýr starfsmaður á skóla- og tómstundasviði mun hafa umsjón með skólanum ásamt yfirþjálfara.

Ísafjarðarbær hefur lagt til íbúðarstyrk í formi afnota af fimm íbúðum Fasteigna Ísafjarðarbæjar. Þær eru nú aðeins úthlutaðar til 1. september 2024 þar sem Ísafjarðarbær hyggst selja íbúðirnar. Þetta ákvæði verður endurskoðað ef seinkun verður á sölu íbúðanna.

Við undirritun samnings greindi bæjarstjóri frá því að fullur vilji væri til að reyna allt hvað þau geta til að koma til móts við skerðingu íbúðastyrks.

Markmið með þessum breytingum er meðal annars að viðhalda öflugu íþróttastarfi í á svæðinu og að auka skilvirkni samskipta íþróttahreyfingar við Ísafjarðarbæ. Ísafjarðarbær og HSV munu áfram vera í góðu samstarfi og vinna að uppbyggingu íþrótta á svæðinu.

Borað á Gálmaströnd

Orkubúið er nú hefur að bora eftir heitu vatni á Gálmaströnd við Steingrímsfjörð.

Á síðasta ári veitti innviðaráðherra 17 m.kr. styrk til jarðhitarannsókna á Gálmaströnd vegna sértækra aðgerðar. Í henni felast styrkir til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024.

Nú er búið að bora niður á 400 metra dýpi. Á um 380 metra dýpi fannst 25 gráðu heitt vatn og lofar framhaldið góðu um að heitara vatn finnist þegar neðar dregur. Verklok eru áætluð um mánaðamótin janúar-febrúar.

Sigurður Líndal Þórisson verkefnastjóri Sterkra Stranda er afar ánægður með þetta mikla framframaskref og segir að þátttaka svæðisins í brothættum byggðum hafi mikið að segja:

„Án Sterkra Stranda má fullyrða að ekkert hefði orðið af þessu verkefni, en þetta verkefni hefur alla burði til að verða eitt stærsta framfaraskref í innviðauppbyggingu á Ströndum í mörg ár.“

Verkalýðsfélagið Skjöldur á Flateyri 90 ára

Í dag – 21. desember 2023 – eru 90 ár liðin frá stofnun Verkalýðsfélagsins Skjaldar á Flateyri. Félagið var stofnað á 50 manna fundi í -gamla barnaskólanum- þann 21. desember 1933. Verkalýðsfélagið Skjöldur hélt glæsilega upp á 50 ára afmæli félagsins þann 8. október 1983.

Í framhaldi þess var gefið út veglegt afmælisrit með 50 ára sögu félagsins. Hjörtur Hjálmarsson og Björn Ingi Bjarnason höfðu veg og vanda af þeirri útgáfu. Í afmælisritinu var m.a. stjórnarmannatal félagsins þessi 50 ár með myndum. Þegar Skjöldur varð 70 ára var tekið saman stjórnarmannatal til 2002 og birt í Ársriti Önfirðingafélagsins í Reykjavík allt stjórnarmannatalið 1933 – 2002. Verkalýðsfélagið Skjöldur varð félagsaðili að Verkalýðsfélagi Vestfirðingar árið 2002.

Formenn Verkalýðsfélagsins Skjaldar á Flateyri 1933 – 2002 :

Friðrik Hafberg 1933 – 1934, 1939 -1958

Jón Magnússon 1935

Halldór Vigfússon 1936 – 1938

Hermann Björn Kristjánsson 1959

Einar J. Hafberg 1960 – 1963

Kristján Vigfús Jóhannesson 1963 – 1967, 1968 – 1970

Benedikt Vagn Gunnarsson 1967 – 1968

Guðvarður Kjartansson 1970 -1971

HendrikTausen 1971 – 1980

Björn E. Hafberg 1980 – 1981

Björn Ingi Bjarnason 1981 – 1984

Gunnar Valdimarsson 1985 – 1987

Jón Guðjónsson 1987 -1989

Sigurður Þorsteinsson 1989 – 1995

Guðmundur Jón Sigurðsson 1996 – 1997

Ágústa Guðmundsdóttir 1997 – 2002

Nýjustu fréttir