Síða 2169

Listamannaspjall í Hömrum

Gestavinnustofur ArtsIceland á Ísafirði bjóða til listamannaspjalls í Hömrum í kvöld.

Í sumar hafa fjölmargir listamenn dvalið í vinnustofunum sem starfræktar eru á tveimur stöðum í bænum, við Aðalstrætið og á Engi og er óhætt að segja að þeir hafi sett svip sinn á bæinn og mannlífið. Áður en gestir vinnustofanna halda aftur til síns heima eða til móts við frekari ævintýri annarsstaðar bjóða þeir gestum að njóta afraksturs vinnu sinnar á Ísafirði með uppákomu sem þessari.

Það er fjölbreyttur og hæfileikum hlaðinn hópurinn sem kemur fram að þessu sinni. Tónlistarhjónin Ásdís Valdimarsdóttir og Michael Stirling laða fram tóna á strengi sína. Rithöfundurinn, sagnfræðingurinn og skáldið Þórunn Jarla Erlu- og Valdimarsdóttir les upp úr óútkomnum verkum og hollenski tónlistarmaðurinn Lucas Kloosterboer flytur nokkur verka sinna.

Spjallið fer fram á íslensku og ensku. Í lokin verður hægt að spyrja listamennina út í verk þeirra. Ókeypis er á viðburðinn sem hefst klukkan 20 og er hann öllum opinn.

Um listamennina:

Ásdís Valdimarsdóttir er ættuð af Vestfjörðum og Snæfellsnesi en ólst upp í stórri fjölskyldu í Reykjavík. Hún lauk meistaragráðu frá Juilliard skólanum í New York og síðar einleikaraprófi í Þýskalandi árið 1987. Ásdís hefur ferðast mikið um heiminn og komið fram í 6 heimsálfum. Hér á landi er Ásdís sennilega þekktust fyrir að hafa verið meðlimur hins heimsfræga Chilingirian strengjakvartetts í um 8 ár; hún lék hér heima ásamt kvartettinum á Listahátíð 1998. Hún hefur komið fram í ýmsum frægum tónlistarsölum heims: Carnegie Hall í New York, Concertgebouw í Amsterdam og Wigmore Hall í London. Hún hefur verið leiðari víóluhópsins í Deutsche Kammerphilharmonie og unnið þar með ýmsum vel þekktum tónlistarmönnum, m.a. Claudio Abbado, Gidon Kremer, Andras Schiff og Isabellu Van Keulen. Ásdís hefur komið fram á fjölmörgum alþjóðlegum tónlistarhátíðum, m.a. á Berliner Festspiele, Marlboro Music Festival í Bandaríkjunum og Kuhmo hátíðinni í Finnlandi.

Ásdís er nú búsett í Amsterdam ásamt manni sínum Michael Strirling og tveimur börnum. Auk þess að leika kammertónlist víða um heim, kennir hún við Konunglega Tónlistarháskólann í Haag og á ‘International Masterclasses’ í Apeldoorn, Hollandi.

Michael Stirling fæddist í London og nam hann sellóleik við Guildhall School of Music hjá Leonard Stehn og Raphael Wallfisch. Hann hélt svo áfram námi við Banff Centre í Kanada og hjá Lawrence Lesser í New England Conservatory í Boston. Frá árinu 1989 til 1997 var Michael sellóleikari hjá Ensemble Modern í Frankfurt, ásamt því að vera í átta ár, hluti af strengjasextettinum Raphael Ensemble í London sem gerðu marga hljómdiska fyrir Hyperion. Árið 1997 gekk hann til liðs við Brindisi kvartettinn í London, þar sem hann bjó og starfaði í níu ár. Á þeim tíma spilaði hann með fjölmörgum kammersveitum, jafnframt því sem hann var gesta-leiðari ýmissa sinfónía, líkt og London Symphony Orchestra og Royal Philharmonic Orchestra, svo dæmi séu tekin.
Michael fluttist til Amsterdam árið 2004 og gerðist fyrsti sellóleikari hinnar hollensku Radio Philharminic Orchestra. Síðustu ár hefur hann verið reglulegur gestur hjá hinum ýmsu fílharmóníusveitum og sinfóníum víða um heim. Michael er einnig hluti af Nieuw Amsterdams Peil og strengjatríóinu The Quimias, ásamt því sem hann spilar mikið af kammertónlist yfirleitt. Hann hefur spilað inn á upptöku hjá RCA, ásamt Marcus Stenz og Ensemble Modern, sellókonserta Hindemith Kammermusic no.3 sem fékk þýsku gagnrýnendaverðlaunin.

Lucas Kloosterboer kemur frá Utrecht í Hollandi þar sem hann nam tónlist við HKU listaháskólann. Hann staðsetur sig nú við ytri mörk jazztónlistar, þar sem hann stöðugt kannar og leitar töfranna sem hið nýja og óþekkta færir. Innan þess heims finnur hann sterka tengingu rafheimsins, hinnar hollensku tungu og tónlistarspuna.
Meðal þess sem hann hefur verið að fást við er að taka þátt í líflegri, frjálsri, spunasenunni í Amsterdam sem básúnuleikari. Hann skapaði nýverið risa-frjálsan-spunajazz blandaðan mæltu máli-og óperu-gjörningi sem útskriftartónleika sína. Nú kannar hann ofan í dýpri lög spuna með hinu talaða orði og raftónlist og hefur hann unnið að því í dvöl sinni á Ísafirði.

Þórunn Jarla Valdimarsdóttir er Hún lærði sagnfræði í Lundi í Svíþjóð 1973–1974 og sögu og myndlist við Instituto Allende í Mexíkó árið 1977–1978. Þórunn lauk cand. mag-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1983 og hefur síðan fengist við ritstörf. Eftir hana liggja á þriðja tug bóka – skáldsögur, ljóðabækur, ævisögur og sagnfræðirit, auk fjölda greina og þátta fyrir útvarp og sjónvarp. Barnævisöguna Sól í Norðurmýri og nóvelluna Dag kvennanna skrifaði Þórunn í félagi við Megas.

Þórunn var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2000 fyrir Stúlku með fingur sem einnig hlaut Menningarverðlaun DV. Þá hafa bækur hennar, Snorri á Húsafelli. Saga frá 18. öld, Kalt er annars blóð, Mörg eru ljónsins eyru og Upp á Sigurhæðir. Saga Matthíasar Jochumssonar allar verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Sú síðasttalda var auk þess tilnefnd til verðlauna Hagþenkis og fékk viðurkenningu Félags bókasafns- og upplýsingafræða fyrir bestu frumsömdu fræðibók ársins. Þá hlaut Þórunn Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, árið 2013 fyrir Stúlku með maga.

bryndis@bb.is

Safna fyrir efnalítil börn

Mynd: Hjálparstarf kirkjunnar.

Hjálp­ar­starf kirkj­unn­ar hef­ur hafið fjár­söfn­un til stuðnings við efna­litl­ar fjöl­skyld­ur í upp­hafi skóla­árs. Skólataska, vetr­arfatnaður, skór og stíg­vél, allt kost­ar þetta pen­inga svo ekki sé minnst á út­gjöld  vegna íþrótta- og tóm­stund­a­starfs sem falla til á haust­in sem og kostnað vegna náms­gagna þar sem greiða þarf fyr­ir þau, seg­ir í til­kynn­ingu frá Hjálp­ar­starfi kirkj­unn­ar.

„For­eldr­ar grunn­skóla­barna sem búa við kröpp kjör leita um þess­ar mund­ir stuðnings hjá Hjálp­ar­starf­inu til að geta út­búið börn­in í skól­ann. Í fyrra­haust fengu for­eldr­ar um 200 barna aðstoð hjá okk­ur og við bú­umst við svipuðum fjölda um­sókna um stuðning nú.

Efna­leysi á ekki að hindra börn í námi eða í íþrótta- og frí­stund­a­starfi með jafn­öldr­um sín­um.  Öll börn eiga að geta hlakkað til að byrja í skóla!“ seg­ir enn frem­ur í til­kynn­ingu frá Hjálp­ar­starfi kirkj­unn­ar.

Hjálp­ar­starf kirkj­unn­ar hef­ur stofnað val­greiðslu­kröfu með skýr­ing­unni Styrk­ur í heima­banka lands­manna að upp­hæð 2.600 krón­ur en einnig er hægt að senda sms í síma­núm­erið 1900 með text­an­um Styrk­ur og þá gjald­fær­ast 1.300 krón­ur af næsta sím­reikn­ingi, seg­ir í til­kynn­ingu.

smari@bb.is

Yngri flokkarnir gerðu víðreist

Þessar pæjur gerðu góða ferð norður á Siglufjörð.

Fótboltakrakkar í Vestra höfðu í nógu að snúast um síðustu helgi. Yngstu iðkendurnir í 8.flokki fóru á Arionbankamót Víkings í Reykjavík og sömuleiðis 7. fl. drengja. Vestri hefur sent lið á þetta mót undanfarin ár með góðum árangri.  Stelpurnar í sjötta og sjöunda flokki fóru svo á Pæjumótið á Siglufirði og kepptu þar í frábæru veðri við góðar aðstæður, en mikil vakning er í knattspyrnuiðkun í hjá yngstu stúlknaflokkunum. Strákarnir í 6. flokki fóru á Króksmótið á Sauðárkróki. Eitt lið Vestra gerðu sér lítið fyrir og vann sína deild á Króksmótinu með gullmarki í framlengingu í hreinum úrslitaleik. Hin liðin stóðu sig einnig vel og enduðu í 4 og 5 sæti eftir úrslitakeppnir. En það er ekki nóg að standa sig vel innan vallar og strákarnir stóðu klárir á því og uppskáru háttvísisverðlaun KSÍ fyrir frábæra hegðun og framkomu á mótinu.

smari@bb.is

Hlaupa í nafni Birkis Snæs

Það verður margt um manninn í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardag.

Öflugur hlaupahópur sem er mest megnis að vestan tekur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn. Hlaupahópurinn hleypur í nafni Birkis Snæs Þórissonar, ungs Ísfirðings, og safnar áheitum fyrir Krabbameinsfélagið Sigurvon. Fyrir rúmu ári síðan, þegar Birkir Snær var fimm mánaða gamall, greindist hann með sjaldgæft krabbamein. Hann hóf meðferð í júní í fyrra og hefur ferlið verið strembið, en mjakast hægt og örugglega í átt að bata. Krabbameinsfélagið Sigurvon á Ísafirði hefur staðið þétt við bakið á fjölskyldu Birkis Snæs og hefur sannað enn einu sinni hversu mikilvæg stoð félagið er fyrir krabbameinsveika og fjölskyldur þeirra.

Birkir Snær verður með öfluga sveit í Reykjavíkurmaraþoninu.

Markmiðið var að safna 500 þúsund krónum og hefur söfnunin gengið vonum framar. Þegar þetta er skrifað hafa safnast 800 þúsund krónur og hlaupahópurinn er hvergi nærri hættur og setur nú markið á eina milljón króna.

Sigurvon ætlar að vera með hvatningabás í hlaupinu og hvetja sitt fólk dyggilega áfram með tónlist og kúabjöllum og með stuðningi góðra fyrirtækja verður hlaupurum Sigurvonar boðið upp á ýmislegt góðgæti.

Hér er hægt heita á hlaupahópinn.

smari@bb.is

Krakkarnir í Vesturbyggð hafa áhrif um allan heim

Í febrúar sögðum við frá verkefninu „Seyoum is my brother“ en það eru samtökin „One Day Seyoum“ sem standa fyrir þessu verkefni. Seyoum er blaðamaður frá Eritreu sem, ásamt 10 öðrum blaðamönnum, var hnepptur í varðhald árið 2001 og ekki hefur heyrst frá þeim síðan. Eiginkona Seyoum var komin 7 mánuði á leið þegar þetta átti sér stað. Rut Einarsdóttir vakti athygli nemandi á ástandi mannréttindamála í Eritreu og frá Seyoum og í kjölfarið tóku krakkarnir sig til að gerðu bæði myndbönd og teikningar með skilaboðum til Seyoums.

Stofnandi samtakanna, Vanessa Berhe, var svo snortin af samtakamætti krakkanna að hún fann sig knúna til þess að koma alla leið á Patreksfjörð að hitta þau.

„Vanessa kom á Patreksfjörð til þess að segja nemendum Patreksskóla frá því hvernig það sem þau gerðu snerti fólk um allan heim. Hún segir að margir fjölskyldumeðlimir hennar, hún sjálf meðtalin, hafi tárast þegar þau sáu myndirnar og myndböndin frá nemendunum. Hún minntist á að það að ungir nemendur í þorpi í landi langt frá Eritreu skyldu láta sig þetta varða og standa með þeim væri ekki bara ómetanlegt fyrir fjölskylduna, heldur sýndi það líka yfirvöldum þar í landi að þau geta ekki komist upp með það hvernig þau hafi hagað sér mikið lengur, þar sem heimurinn væri loksins farinn að taka eftir þeim, og mótmæla gjörðum þeirra.“ Segir Rut sem tók á móti Vanessu ásamt nemendum sem voru áhugasamir um samtökin og Vanessu.

Vanessa kom á vegum samtakanna Ung Vest sem stofnuð voru núna í sumar, með aðstoð frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða. Samtökin voru stofnuð með það að leiðarljósi að veita stuðning við ungt fólk á Sunnanverðum Vestfjörðum, og stuðla að valdeflingu ungs fólks í gegnum námskeið, vinnusmiðjur og í gegnum ýmis verkefni. Hægt er að sjá Facebook síðu samtakanna hér.

Hér má svo horfa á myndaband með kveðjum frá krökkunum.

 

bryndis@bb.is

 

80 erlendir dansarar í Edinborgarhúsinu

Það verður aldeilis hægt að sletta úr klaufunum í Edinborgarhúsinu í kvöld og annað kvöld þegar 80 erlendir dansarar mæta með nýpússaða dansskóna. Dansleikirnir eru öllum opnir og í boði eru stutt námskeið bæði kvöldin fyrir þá sem vilja læra grunnsporin í tjúttinu.

Heimsókn dansarana er í tengslum við hina árlegu Lindy Hop swingdanshátíð Arctic Lindy Exchange.

bryndis@bb.is

Fjórfalda söluna í Bandaríkjunum

Ísfirska fyrirtækið Kerecis hefur verið að gera það gott upp á síðkastið. Fyrirtækið var valið Frumkvöðull ársins hjá Viðskiptablaðinu árið 2015 og nýverið hlaut fyrirtækið Vaxtasprotann árið 2017 og er á nýbirtum lista tímaritsins Podiatry Today yfir 10 helstu uppgötvanir í sárageiranum. „Við erum að leggja megin áherslu á Bandaríkjamarkað og þetta er mest lesna blaðið í sárageiranum þar hjá læknum sem eru að fást við sykursýkissár. Þannig að það staðfestir að við erum komin á kortið sem ein af leiðandi og mest vaxandi lausnum í þeim geira,“ segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Kerecis, í samtali við blaðamann Viðskiptablaðsins.

„Við erum með fjóra sölumenn sem eru að selja vöruna okkar til sjúkrahúsa í Bandaríkjunum og 20 umboðssölumenn. Við erum að gefa út skuldabréf með breytirétti, sem fer í að fjármagna fjölgun okkar eigin sölumanna upp í 10 og ætlum svo í hlutafjárútboð í lok næsta árs,“ segir hann. „Við gerum ráð fyrir að skuldabréfið verði 300 – 500 mkr. að stærð og erum að byrja kynningu á því,“ bætir hann við.

Sala á vörum fyrirtækisins í Bandaríkjunum á fyrsta ársfjórðungi á þessu ári var meiri en allt árið í fyrra og Guðmundur segir að fyrirtækið muni fjórfalda söluna vestan hafs í ár.

smari@bb.is

Beðið eftir skipulagsbreytingum í Teigsskógi

Séð út með Þorskafirði.

Vegagerðin mun ekki sækja um framkvæmdaleyfi vegna lagningu vegar um Teigsskóg fyrr en Reykhólahreppur hefur lokið breytingu á aðalskipulagi. Frá þessu er greint á vef RÚV. Í áliti Skipulagsstofnar á umhverfismati Vegagerðarinnar á nýjum Vestfjarðavegi í Gufudalssveit var lagst gegn vegi um Teigsskóg og mælt með annarri veglínu sem fer í jarðgöngum undir Hjallaháls, en Vegagerðin metur þá leið um 4 milljörðum kr. dýrari. Fjórtán ár eru síðan Vegagerðin kynnti fyrst áform um vegbætur í Gufudalssveit og hefur málið velkst um í kerfinu síðan og veglagningin umdeilda komið til kasta dómstóla í tvígang. Breytingar á aðalskipulagi taka að lágmarki hálft ár og í ljósi sögunnar má hæglega gera ráð fyrir að skipulagsbreytingar í Teigsskógi taki mun lengri tíma.

Reykhólahreppur hefur hafið vinnu við breytingar á aðalskipulaginu og verður lýsing á breytingunum send Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum til umsagnar innan skamms. Jafnframt verður hún kynnt almenningi. Þá þarf einnig að fara í frekari rannsóknir á vistfræði framkvæmdasvæðisins og hefur Hafrannsóknastofnun þegar hafi þá vinnu.

smari@bb.is

Ekki hægt að láta álit Hafró sem vind um eyru þjóta

Guðjón Brjánsson

„Minn flokkur styður vitaskuld við atvinnu- og frumkvæðisstarf í hvívetna og við leggjum áherslu á að það sé gert í sátt við menn og náttúru. Það þarf ekki að fara á svig við þau markmið með uppbyggingu eldis í Djúpinu,“ segir Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi, aðspurður um niðurstöðu áhættumats Hafrannsóknastofnunar þar sem lagst er gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi.

„Því er ekki að neita að manni brá í brún við mat Hafrannsóknarstofnunar enda ljóst og leynt verið unnið að vönduðum undirbúningi starfsemi í Djúpinu,“ segir Guðjón og bætir við ekki sé hægt að láta álit Hafrannsóknastofnunar sem vind um eyru þjóta.

„Það verður ekki unnið að lausn málsins án þess að það sé gert á faglegan og vel ígrundaðan hátt. Málið er hins vegar í miðjum klíðum, ég fæ til dæmis ekki betur greint en að hægt sé að draga ýmsar ályktanir við lestur skýrslu Hafró sem ég hef þó ekki kynnt mér nægilega vel enn.“

Guðjón ætlar að fylgja málinu eftir ásamt þingmönnum kjördæmisins og segir að hann viti ekki betur en að þeir standi einhuga að baki áformum fyrir nýja atvinnugrein við Djúp.

„Það vantar hins vegar talsvert upp á að umgjörð fyrir þessa starfsemi sé traust og eftir því kalla raunar forvígismenn fyrirtækja í greininni. Umsóknir, mat, eftirlit og viðurlög, umfjöllun um þessi atriði meðal annars þurfa að vera skýr, skilvirk og raunveruleg en ekki í skötulíki eins og nú virðist vera.  Sömuleiðis þarf að ramma inn strax einfalda og gegnsæja gjaldtöku fyrir aðstöðu og aðgang að auðlindinni, það er þessu takmarkaða aðgengi að hafsvæði og tryggja ríkulega hlutdeild sveitarfélaga í þeim efnum og semja hugsanlega um hæfilegan aðlögunartíma. Um leið og ég vil árétta eindreginn vilja um að unnið verði áfram faglega að málinu með það að markmiði að uppbygging geti hafist í greininni i Djúpinu varlega og markvisst, þá tel ég rétt að doka eftir niðurstöðu stefnumótunarnefndarinnar en hennar er að vænta á næstu dögum,“ segir Guðjón.

smari@bb.is

Fimm af sex nota snjallsíma undir stýri

Fyrir utan að vera forheimskandi er það beinlínis hættulegt og ólöglegt að tala í síma undir stýri.

Fimm af hverjum sex framhaldsskólanemum hér á landi notar snjallsíma undir stýri. Notkun eykst með hækkandi aldri. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar sem Sjóvá lét gera. Könnunin var lögð fyrir framhaldsskólanema og tóku rúmlega sjötíu prósent þátt. Alls sögðust 83 prósent nota símann undir stýri. Rúmlega sjö af hverjum tíu 17 ára nemum játuðu því að nota símann stundum eða oftar við akstur en í hópi 20 ára og eldri var hlutfallið 92 prósent. Flestir tala í símann undir stýri eða 71 prósent. Tæplega sex af hverjum tíu senda SMS eða nota símann til að leita upplýsinga samhliða akstri og helmingur segist skoða og senda Snapchat skilaboð undir stýri.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir