Síða 2169

Þríþraut Craftsport fer fram á laugardaginn

Það eru ekki bara Gamanmyndahátíð og Bláberjadagar næstu helgi, þá er líka hin árlega þríþrautarkeppni Craftsport. Keppnin er tiltölulega alþýðleg, það er að segja, keppendur þurfa ekki vera heljarmenni eða járnkarlar/kerlingar til að taka þátt heldur bara í rúmlega þokkalegu formi.

Fyrsta keppnisgreinin er 700 metra sund sem fer fram í Bolungarvík og hefst kl. 10:00. Að loknu sundi eða kl. 11:30 hefst 17 km hjólareiðakeppni þar sem hjólað er um götur Bolungarvíkur og síðan um Óshlíð til Ísafjarðar. Þá hefst 7 km hlaup fyrir framan Landsbankann við Hafnarstræti á Ísafirði.

Þar er Kristbjörn Sigurjónsson eða Bobbi í Craft-Sport sem stendur fyrir þríþrautinni og fer skráning fram hjá honum. Allar upplýsingar má nálgast á facebook síðu þríþrautarinnar.

bryndis@bb.is

Ert þú maðurinn ?

Litli leikklúbburinn leitar eftir áhugasömum leikurum fyrir næsta stykki. Klúbburinn hefur ákveðið að Blessað barnalán fari á fjalirnar í haust og á facebooksíðu klúbbsins kemur fram að um er að ræða gamanleikrit með engum söng en frekar fyndið.

Nú er bara að stökkva til og láta Svövu formann vita af sér í síma 867 9127

bryndis@bb.is

„Ófyrirséður mótbyr“

Gísli Halldór Halldórsson.

Eins og greint var frá í gær er rekstur Ísafjarðarbæjar langt undir áætlunum fyrstu sex mánuði ársins. Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 82 milljóna kr. afgangi en raunin er að reksturinn er neikvæður um 4,4 milljónir kr. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segist vonast til að reksturinn verði réttum megin við núllið þegar árið verður gert upp. „Ef það gengur eftir, sem ég hef fulla trú á, þá verður það vegna þess að við eigum von á meira framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga en við gerðum ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Ef það gengur ekki eftir og allt fer á versta veg þá mun þetta hafa neikvæð áhrif á skuldastöðu bæjarins,“ segir Gísli Halldór sem bendir einnig á að horfur eru á lægri verðbólgu sem hefur jákvæð áhrif á rekstur bæjarins.

Helsta ástæða verri afkomu eru minni skatttekjur en gert var ráð fyrir. Gísli Halldór segir að ýmislegt bendi til að skatttekjur nálgist nú það sem var gert ráð fyrir. „Launatekjur í Ísafjarðarbæ í júlí voru níu prósentum hærri en í júlí í fyrra, en það er sú hækkun sem önnur sveitarfélög voru að sjá á fyrstu mánuðum ársins. Við vorum hins vegar að sjá hækkun frá núll og upp í þrjú prósent fyrstu þrjá mánuðina og það var fyrst og fremst vegna sjómannaverkfallsins.“

Hann segir að sex mánaða uppgjör bæjarins sé ófyrirséður mótbyr. „En þetta er ekkert sem setur okkur út af sporinu,“ segir Gísli Halldór.

smari@bb.is

Norðmaður tekur við stjórnartaumunum

Stein Ove Tveiten tekur við framkvæmdastjórastöðu Arctic Fish á næstu vikum. Sigurður Pétursson, sem hefur verið framkvæmdastjóri Arctic Fish frá stofnun, mun starfa áfram hjá fyrirtækinu og einbeita sér að viðskiptaþróun og leyfismálum. Stein Ove hefur í sjö ár verið framkvæmdastjóri Norway Royal Salmon Feøy, en Norway Royal Salmon er stærsti eigandi Arctic Fish. Stein Ove er tæplega fertugur, giftur og á tvö börn, hann er menntaður í fiskeldis- og fyrirtækjastjórnun og hefur yfir 15 ára reynslu í fiskeldi. Í tilkynningu segir að það sé góð viðurkenning fyrir starfsemi Arctic Fish að fá til liðs við fyrirtækið stjórnanda með eins víðtæka reynslu og hann hefur til þess að leiða uppbyggingu á eldisstarfsemi Arctic Fish.

Stein Ove mun vera staðsettur á Ísafirði en á næstu misserum mun hann einnig fylgja því eftir að koma nýjum manni í hans í fyrra starf í Noregi.

smari@bb.is

Bregður þá vanalega veðráttu

Hafnarstrætið á Ísafirði í dag

 

Í dag er höfuðdagur og samkvæmt gamalli veðurtrú segir að veðurfar muni batna með Höfuðdegi og haldast þannig í þrjár vikur.

Höfuðdagurinn er samkvæmt gildandi tímatali 29. ágúst. Þann dag á Heródes konungur að hafa látið eftir konu sinni að Jóhannes skírari skyldi hálshöggvinn.

Á Vísindavefnum kemur fram að árið 1700 hafi tímatali verið breytt. Þá fluttist „gamli“ höfuðdagurinn yfir á 9. september og trúðu ýmsir á veðrabreytingar þann dag. Nú er dagurinn ávallt tengdur 29. ágúst. Trúnni á höfuðdaginn fylgdi bæði von og ótti. Mikilvægt þótti að hafa lokið heyskap fyrir höfuðdag ef tíð var góð en einnig lifðu margir í þeirri von að úr rættist við höfuðdag ef sumarið hafði verið vætusamt. Það á svo sannarleg við hér á norðanverðum Vestfjörðum en í dag er bæði bjart og fallegt.

Vísindavefurinn upplýsir ennfremur að íslenska heitið höfuðdagur virðist fyrst koma fyrir í bréfi frá 15. öld en þó þannig að nafnið var tengt Jóhannesi skírara, það er ákveðinn verknaður fór fram „á höfuðdaginn Johannis baptiste“. Þessi siður hélst lengi. Liðið var fram á 19. öld áður en farið var að nefna daginn án tilvísunar til Jóhannesar.

bryndis@bb.is

Teigsskógur: Lagasetning orðin eina færa leiðin

Elsa Lára Arnardóttir. Mynd: mbl.is / Ómar

Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokks í Norðvesturkjördæmi, segir að lagasetning vegna veglagningar í Teigsskógi sé orðin eina færa leiðin til að höggva á hnútinn. Þetta kemur fram í aðsendri grein á bb.is í dag. Í greininni rifjar hún upp á hausti 2014 funduðu þingmenn kjördæmisins með þáverandi samgönguráðherra. Að sögn Elsu Láru voru ýmsar leiðir lagðar fyrir fundinn til að finna aðferð sem yrði til þess að hægt væri að byrja vegalagningu sem fyrst. „Flestir þingmenn kjördæmisins, ef ekki allir, vildu fara í lagasetningu til að höggva hnút á þá stjórnsýsluflækju sem nýr vegur um Teigsskóg er. Samkvæmt þeim svörum sem þingmenn fengu á fundinum þá átti endurupptaka á fyrra umhverfismati að vera stysta leiðin í átt að settu markmiði. Það ferli tæki innan við 18 mánuði og vegaframkvæmdir gætu hafist á árinu 2016,“ segir í greininni.

Eins og alþjóð veit eru jarðýturnar ekki farnar af stað í Gufudalssveit og nýverið kom fram að það skýrist ekki fyrr en seint á næsta ári hvort og hvenær framkvæmdir geta hafist.

Elsa Lára segir að málið sé enn á byrjunarreit og ekkert staðist sem rætt var um á fyrrnefndum fundi.

„Áætlanir hafa ekki gengið upp og því virðist lagasetning vera orðin eina færa leiðin. Það er ábyrgðarhlutverk okkar þingmanna Norðvesturkjördæmis að ganga í málið og koma þessu mikilvæga samgönguverkefni áfram. Þetta getur ekki gengið svona lengur,“ skrifar Elsa Lára.

smari@bb.is

Bátur brann í Norðurfirði

Báturinn er gjörónýtur.

Báturinn Eyjólfur Ólafsson HU-100, 7 tonna plastbátur, brann til kaldra kola í höfninni í Norðurfirði í morgun. Á Litlahjalla, fréttavef Árneshrepps, segir að útibústjóri Kaupfélagsins á Norðurfirði hafi orðið vör við eldinn um klukkan sjö í morgun. Slökkvilið Hólmavíkur var kallað út og var slökkviliðsstörfum lokið fyrir kl. 10 í morgun. Enginn var um borð í bátnum, en báturinn kom í land í Norðurfirði í nótt vegna brælu og var ráðgert að halda aftur á sjó í dag.

Eyjólfur Ólafsson var með heimahöfn á Skagaströnd.

 

smari@bb.is

Lagasetning kemur til greina.

Elsa Lára Arnardóttir. Mynd: mbl.is / Ómar

Enn og aftur er vegalagning um Teigsskóg komin í uppnám. Það er óásættanlegt með öllu og staða sem þessi getur ekki gengið lengur.

Í nýlegu svari sem ég fékk frá samgönguráðherra kemur fram að ráðherra sé ekki að skoða sérstaka lagasetningu til að liðka fyrir vegaframkvæmdum um Teigsskóg (http://www.althingi.is/altext/146/s/1070.html). Því er það ábyrgðarhlutverk þingmanna í Norðvesturkjördæmi að taka málið í sínar hendur, því lagasetning hlýtur að koma til greina þegar staðan er enn og aftur orðin þessi. Sérstaklega þar sem þær áætlanir sem settar voru fram árið 2014, hafa ekki gengið upp.

Haustið 2014 funduðu þingmenn Norðvesturkjördæmis m.a. með þáverandi samgönguráðherra um mikilvægi þess að nýr vegur yrði lagður um Teigsskóg. Ýmsar leiðir voru lagðar á borðið til að finna aðgerð sem yrði til þess að hægt væri að byrja vegalagningu sem fyrst. Flestir þingmenn kjördæmisins, ef ekki allir, vildu fara í lagasetningu til að höggva hnút á þá stjórnsýsluflækju sem nýr vegur um Teigsskóg er. Samkvæmt þeim svörum sem þingmenn fengu á fundinum þá átti endurupptaka á fyrra umhverfismati að vera stysta leiðin í átt að settu markmiði. Það ferli tæki innan við 18 mánuði og vegaframkvæmdir gætu hafist á árinu 2016 (http://www.visir.is/g/2014141019455). Núna árið 2017 erum við enn á byrjunarreit og ekkert staðist sem rætt var á fundinum þarna um árið.

Í öllu þessu ferli, hef ég sem þingmaður Norðvesturkjördæmis sett fram ýmsar fyrirspurnir um málið, m.a. um áfangaskiptingu verkefnisins, eyrnamerkt fjármagn til verkefnisins og fyrirspurn um lagasetningu eða aðrar aðgerðir til að koma verkefninu af stað. Allar þessar fyrirspurnir, sem og aðrar má finna hér: http://www.althingi.is/altext/cv/is/fyrirspurnir/?nfaerslunr=1161

Við virðumst enn og aftur vera á byrjunarreit. Áætlanir hafa ekki gengið upp og því virðist lagasetning vera orðin eina færa leiðin. Það er ábyrgðarhlutverk okkar þingmanna Norðvesturkjördæmis að ganga í málið og koma þessu mikilvæga samgönguverkefni áfram. Þetta getur ekki gengið svona lengur.

Elsa Lára Arnardóttir

þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Skipar starfshóp um rekstur innanlandsflugvalla

Ísafjarðarflugvöllur.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur skipað starfshóp til að fara yfir rekstur innanlandsflugvalla landsins. Markmiðið  er að ná fram hagkvæmari rekstri á innanlandsflugi og skilvirkari rekstri flugvalla sem leiði til lægri flugfargjalda. Starfshópnum er falið að fara yfir núverandi fyrirkomulag innanlandsflugsins, hugmyndir að breyttu fyrirkomulagi og meta hvaða leikreglur skili neytendum mestri hagkvæmni. Gert er ráð fyrir að tillögur taki mið af því að markaðslögmál verði nýtt eins og kostur er til að ná fram hagkvæmni við rekstur flugvalla og flugleiða, að verðlagning opinberra aðila verði eins gegnsæ og auðið er og að innanlandsflug stuðli að aðgengi landsmanna að þjónustu og afþreyingu, styrki atvinnurekstur á landsbyggðinni og þjóni ferðamönnum eins og best verður á kosið. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Miðað er við að starfshópurinn skili skýrslu með rökstuddum tillögum sem eru til þess fallnar að stuðla að markmiði verkefnisins. Ráðgert er að hópurinn skili áfangaskýrslu með helstu tillögum fyrir árslok og lokaskýrslu fyrir 1. maí 2018.

smari@bb.is

Bláberjadagar í Súðavík

Frá bláberjadögum 2013

Ein af síðustu bæjarhátíðum sumarsins, Bláberjadagar í Súðavík, fer fram um næstu helgi. Dagskráin hefst á föstudaginn með ærsladiskói á nýjum ærslabelg sveitarfélagsins á skólalóð Súðavíkurskóla kl. 16:00. Tælenska matarveislan kemur svo í kjölfarið á Jóni Indíafara en aðalnúmer hátíðarinnar, föstudagstónleikarnir í Samkomuhúsinu, hefjast kl. 19:00 og standa til miðnættis.

Dagskráin heldur áfram allan laugardaginn og á sunnudaginn og endar með bláberjamessu í Súðavíkurkirkju kl. 17:00  á sunnudag.

Hér eru nokkrar myndir úr safni bb.is frá fyrri bláberjadögum

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir