Síða 2168

Mikil mengun frá skemmtiferðaskipum

MSC Priziosa við akkeri í Skutulsfirði.

Örsmáar agnir í útblæstri skemmtiferðaskipa voru um 200 sinnum fleiri en eðlilegt má teljast, samkvæmt mælingum sem Náttúruverndarsamtök Íslands hafa undanfarna daga gert með aðstoð þýsku náttúruverndarsamtakanna Nature and Biodiversity Union. Samtökin telja að gera þurfi kröfu um hreinsibúnað í þessum skipum, eins og er í bílum. Mælingarnar fóru fram í Reykjavík.

Í tilkynningu frá Náttúruverndarsamtökum Íslands er bent á að sótagnir sem myndist við ófullkominn bruna svartolíu, ýti mjög undir gróðurhúsaáhrif. Því þurfi að grípa til skjótra aðgerða til að koma í veg fyrir bruna svartolíu á Norðurslóðum. Samtökin telja að stjórnvöld ættu a banna losun brennisteins og bruna svartolíu innan íslensku efnahagslögsögunnar.

Haft er eftir Axel Friedrich, sem var vísindalegur ráðgjafi við mælingarnar, að vélar eins og séu um borð á skemmtiferðaskipunum, fengju ekki starfsleyfi á Íslandi.

smari@bb.is

„Afleiðingarnar verða hrun í búgreininni“

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps lýsir yfir miklum áhyggjum vegna boðaðra lækkana á verði til sauðfjárbænda í komandi sláturtíð. Verði boðaðar verðlækkanir á afurðaverði til sauðfjárbænda nú í haust  að veruleika, er rekstrargrundvöllur sauðfjárbúa í landinu algerlega brostinn að mati sveitarstjórnarinnar. „Afleiðingarnar verða hrun í búgreininni og í framhaldi af því stórfelld byggðaröskun. Sauðfjárrækt er ein af undirstöðum byggðar í Kaldrananeshrepp líkt og öðrum dreifbýlissveitarfélögum landsins og þar af leiðandi hriktir í byggðinni þegar fótum er kippt undan þeirri starfsemi,“ segir í ályktun sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps.

Sauðfjárbúskapur er mikilvæg atvinnugrein í öllum dreifbýlissveitarfélögum landsins og hefur boðuð lækkun á verði til sauðfjárbænda gífurleg áhrif á afkomu heimila í flestum sveitarfélögum á landsbyggðinni

Nú, annað árið í röð standa sauðfjárbændur frammi fyrir verulegri tekjuskerðingu og á komandi hausti af þeirri stærðargráðu að ekkert mun standa eftir af tekjum búanna til greiðslu á launum, þegar kostnaður við framleiðsluna hefur verið greiddur. Laun bænda vegna búrekstrarins verða því engin.  Miklir fjárhagsörðugleikar blasa við, sérstaklega hjá skuldsettum bændum. Kemur tekjuskerðing augljóslega harðast niður á þeim sem nýlega hafa byrjað búskap, sem eru í flestum tilfellum yngstu bændurnir.

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps krefst þess að stjórnvöld, forystumenn bænda, sláturleyfishafar og aðrir hlutaðeigandi hætti samstundis „öllu karpi um hvað sé hverjum að kenna, og fari strax að vinna saman að raunhæfri lausn á þeim alvarlega vanda sem blasir við sauðfjárbændum, sveitarfélögum landsins og þjóðinni allri. Leita þarf lausna án tafar, en drepa ekki málinu á dreif með karpi um orsakir vandans.“

smari@bb.is

Bretta upp ermar og stefna að öflugu starfsári

Tónlistarfélagið stendur fyrir fjölda tónleika í Hömrum á ári hverju.

Nýlega hélt Tónlistarfélag Ísafjarðar aðalfund sinn, þar sem kjörin var ný stjórn og lagðar línurnar fyrir starfsemi félagsins á næstu misserum. Formaður félagsins var kjörinn Steinþór Kristjánsson en aðrir í stjórn eru Guðmundur Grétar Níelsson, Peter Weiss, Sigríður Ragnarsdóttir og Sigrún Pálmadóttir.

Aðalverkefni félagsins hafa ávallt verið rekstur Tónlistarskóla Ísafjarðar og fjölbreytt tónleikahald. Stjórnin vinnur nú að því með bæjaryfirvöldum að rekstur skólans verði framvegis í höndum sveitarfélagsins eins og er í öllum sveitarfélögum landsins utan Reykjavíkur. Vonast er til að því ferli ljúki fyrir næsta starfsár skólans árið 2018-2019. Skólinn og félagið eiga 70 ára afmæli á næsta ári og mun þess verða minnst með veglegum hætti með ýmsum minni og stærri upákomum.

Tónleikahald félagsins hefur ávallt verið öflugt, og fjölbreytt, en af ýmsum ástæðum hefur það verið óvenju dauft síðustu misserin. Nú eru menn að bretta upp ermar og  er stefnt að því að næsta starfsár verði fjölbreytt og spennandi.

Fyrstu tónleikarnir verða laugardaginn 9.september , en þar kemur fram ungur píanóleikari og tónskáld, Tanja Hotz.  Tanja kemur frá Sviss en á uppruna sinn að rekja til Vestfjarða, dóttir tónlistarkonunnar Salbjargar Sveinsdóttur frá Hnífsdal.

Viku síðar, laugardaginn 16. september, heimsækir okkur skemmtihljómsveitin Mandólín, sem er skipuð sjö hljóðflæraleikurum á fjölbreytt hljóðfæri. Þetta eru Alexandra Kjeld, Ástvaldur Traustason, Bjarni Bragi Kjartansson, Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Guðrún Árnadóttir, Martin Kollmar, Óskar Sturluson og Sigríður Ásta Árnadóttir. Mandólín leikur þjóðlög, tangóa, leikhústónlist og annað sem fær hjörtun til að slá örar.

Laugardaginn 7. október verða árlegir minningartónleikar um hjónin Sigríði Jónsdóttur og Ragnar H. Ragnar, sem voru miklir brautryðjendur í ísfirsku tónlistarlífi um áratuga skeið. Þar kemur fram tríóið Sírajón, skipað Ísfirðingnum Önnu Áslaugu Ragnarsdóttur á píano, Einari Jóhannessyni á klarinett og Laufeyju Sigurðardóttur á fiðlu. Á dagskránni verður einkum frönsk tónlist, tengd leikhúsinu.

Í nóvember heimsækir Ísafjörð einn fremsti óperusöngvari Íslendinga af yngri kynslóðinni, tenórinn Elmar Gilbertsson og flytur ljóðasöngva eftir Schumann og óperuaríur ásamt Helgu Bryndísi Magnúsdóttur pianoleikara. Þess má geta að Helga Bryndís á ættir að rekja til Ísafjarðar eins og svo margir íslenskir tónlistarmenn..

Eftir áramót verða ýmsir fleiri tónleikar á dagskránni sem kynntir verða síðar.

Tónlistarfélagið heldur ferna áskriftartónleika á hverju starfsári og verða tónleikar Mandolins og Elmars  fyrstu áskriftartónleikarnir á þessu starfsári.  Tónlistaráhugafólk er hvatt til að skrá sig í félagið með því að hafa samband við formanninn Steinþór Kristjánsson (s.896 0538) eða skrifstofu skólans (s.450 8340).

smari@bb.is

Verðbólga áfram lág

Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í ágúst 2017 hækkaði um 0,25% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,18% frá júlí 2017.

Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 12,6% (áhrif á vísitöluna -0,19%). Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkar um 0,5% (0,11%).

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,7% en vísitalan án húsnæðis hefur lækkað um 3,0%. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands.

smari@bb.is

Samið við Smá von ehf. um almenningssamgöngur

Patreksfjörður.

Ákveðið að loknu útboði að semja við Smá von ehf. um almenningssamgöngur milli byggðarlaga á sunnanverðum Vestfjörðum. Útboðið, sem var í samvinnu Vesturbyggðar, Tálknafjarðarhrepps, Arnarlax hf., Odda hf. og Héraðssambandsins Hrafnaflóka var tvíþætt. Annars vegar fól það í sér akstur á leiðinni Patreksfjörður-Tálknafjörður-Bíldudalur-Tálknafjörður-Patreksfjörður (leið I) og hins vegar á leiðinni Bíldudalur-Tálknafjörður-Patreksfjörður (leið II).

Þrjú tilboð bárust í leið I. Smá von ehf. bauð 20,3 milljónir kr á ári., Keran St. Ólason bauð 30 milljónir kr. og S&S ehf. bauð 36 milljónir kr. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 17,3 milljónir kr.

Eitt tilboð barst í leið II, en það var frá Travel West. Tilboðið hljóðaði upp á 7,3 milljónir kr. á ári en kostnaðaráætlun var 2,9 milljónir kr. Tilboðinu var hafnað.

smari@bb.is

Eina hringbíó landsins

Gamanmyndahátíð Flateyrar fer fram um næstu helgi, dagana 31. ágúst til 3. september. Á hátíðinni sem fer fram á Flateyri verður lögð áhersla á íslenskar gamanmyndir. Hátíðin fer að mestu fram í gamla tankinum sem stendur við utanvert þorpið, eina hringbíó landsins, eins og tankurinn er kynntur á Facebooksíðu Gamanmyndahátíðarinnar.

Hátíðin hefst á 10 ára afmælissýningu á heimildarmyndinni Óbeisluð fegurð eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur en hún er um hina einstöku fegurðarsamkeppni sem fór fram í samkomuhúsinu í Hnífsdal vorið 2007. Eina skilyrðið fyrir þátttöku var að keppendur væru venjulegir, allrar stærðar og gerðar, og þeir máttu ekki hafa farið í lýtaaðgerð. Dregið var um vinningshafann úr hatti enda taldi dómnefndin að ekki væri hægt að keppa í óbeislaðri fegurð, ekkert frekar en staðlaðri. Sýningin á myndinni fer fram á Vagninum, fimmtudaginn 31. ágúst kl. 21:00

Á hátíðinni verður sem fyrr lögð áhersla á íslenskar gamanmyndir. Meðal leikstjóra mynda í ár má nefna Jón Gnarr, Grím Hákonarson, Benedikt Erlingsson og fleiri. Verða sýndar alls 23 íslenskar gamanmyndir, þar af eru sjö frumsýningar.

Heiðurssýningin í ár er Nýtt Líf, ein ástsælasta íslenska gamanmynd fyrr og síðar. Þráinn Bertelsson leikstjóri myndarinnar verður viðstaddur sýninguna og ræðir við gesti. Á meðal annarra viðburða verður fyrirlestrargjörningurinn Snitsel með þeim Mugison og Janusi Braga.

Á hátíðinni verða veitt áhorfendaverðlaun en heimildarmyndin Landsliðið eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson hlaut þau á síðustu hátíð. Hátíðin endar á veglegu lokahófi og sveitaballi.

smari@bb.is

Auglýst eftir dómara um helgina

Dómsmálaráðuneytið mun auglýsa eftir nýjum dómstjóra við Héraðsdóm Vestfjarða um helgina. Eins og greint var frá í vikunni lætur Sigríður Elsa Kjartansdóttir af störfum um mánaðamótin og hefur þá störf við Héraðsdóm Vestfjarða. Dómstólaráð fer með yfirstjórn stjórnsýslu héraðsdómstólanna og Ólöf Finnsdóttir, framkvæmdastjóri dómstólaráðs, segir að þangað til nýr dómari verður skipaður við Héraðsdóm Vestfjarða muni fjórir héraðsdómarar muni skipta með sér verkum við dóminn þannig að ekki verði hætta á að réttarspjöll hljótist í millibilsástandinu.

smari@bb.is

Vestfirðir mikilvægir vegna hreinleika líflamba

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Í nýrri skýrslu um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma er lögð áhersla á að verja líflambasölusvæði í Vestfjarðahólfi eystra sakir hreinleika þess og hólfið sagt eitt það mikilvægasta á landinu. Starfshópur um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma segir Kollafjarðarlínu orðna hættulega og gagnslausa, en varnarlínan liggur frá Kollafirði í A-Barðastrandasýslu yfir í Ísafjarðarbotn.  Starfshópurinn leggur ekki til grundvallarbreytingar á varnarlínum vegna sauðfjársjúkdóma

Á fjórða áratug síðustu aldar var Íslandi skipt upp í sóttvarnarsvæði (varnarhólf), sem afmörkuð eru með girðingum eða náttúrulegum hindrunum. Upphaflegur tilgangur þessa fyrirkomulags var að varna útbreiðslu sauðfjársjúkdóma sem borist höfðu með innflutningi á karakúlfé frá Þýskalandi árið 1933. Um var að ræða sjúkdómana garnaveiki og mæðiveiki (votamæði og þurramæði). Varnarhólfin voru liður í aðgerðum sem ráðist var í til útrýmingar á sjúkdómunum. Sauðfé var fargað á sýktum svæðum og nýtt tekið í staðinn frá ósýktum svæðum. Votamæði var útrýmt árið 1952 en þurramæði árið 1965. Ekki tókst jafn vel til með garnaveiki og er hún enn til staðar. Eftir að bólusetning var tekin upp hefur tíðni garnaveiki þó minnkað mikið og hefur henni verið útrýmt á nokkrum svæðum. Í dag gegna varnarlínurnar mikilvægu hlutverki í aðgerðum sem lúta að upprætingu riðuveiki. Ennfremur hafa varnarlínurnar mikilvægu hlutverki að gegna við að stemma stigu við útbreiðslu nýrra smitsjúkdóma.

smari@bb.is

Þríþraut Craftsport fer fram á laugardaginn

Það eru ekki bara Gamanmyndahátíð og Bláberjadagar næstu helgi, þá er líka hin árlega þríþrautarkeppni Craftsport. Keppnin er tiltölulega alþýðleg, það er að segja, keppendur þurfa ekki vera heljarmenni eða járnkarlar/kerlingar til að taka þátt heldur bara í rúmlega þokkalegu formi.

Fyrsta keppnisgreinin er 700 metra sund sem fer fram í Bolungarvík og hefst kl. 10:00. Að loknu sundi eða kl. 11:30 hefst 17 km hjólareiðakeppni þar sem hjólað er um götur Bolungarvíkur og síðan um Óshlíð til Ísafjarðar. Þá hefst 7 km hlaup fyrir framan Landsbankann við Hafnarstræti á Ísafirði.

Þar er Kristbjörn Sigurjónsson eða Bobbi í Craft-Sport sem stendur fyrir þríþrautinni og fer skráning fram hjá honum. Allar upplýsingar má nálgast á facebook síðu þríþrautarinnar.

bryndis@bb.is

Ert þú maðurinn ?

Litli leikklúbburinn leitar eftir áhugasömum leikurum fyrir næsta stykki. Klúbburinn hefur ákveðið að Blessað barnalán fari á fjalirnar í haust og á facebooksíðu klúbbsins kemur fram að um er að ræða gamanleikrit með engum söng en frekar fyndið.

Nú er bara að stökkva til og láta Svövu formann vita af sér í síma 867 9127

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir