Síða 2168

Verðbólga áfram lág

Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í ágúst 2017 hækkaði um 0,25% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,18% frá júlí 2017.

Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 12,6% (áhrif á vísitöluna -0,19%). Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkar um 0,5% (0,11%).

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,7% en vísitalan án húsnæðis hefur lækkað um 3,0%. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands.

smari@bb.is

Samið við Smá von ehf. um almenningssamgöngur

Patreksfjörður.

Ákveðið að loknu útboði að semja við Smá von ehf. um almenningssamgöngur milli byggðarlaga á sunnanverðum Vestfjörðum. Útboðið, sem var í samvinnu Vesturbyggðar, Tálknafjarðarhrepps, Arnarlax hf., Odda hf. og Héraðssambandsins Hrafnaflóka var tvíþætt. Annars vegar fól það í sér akstur á leiðinni Patreksfjörður-Tálknafjörður-Bíldudalur-Tálknafjörður-Patreksfjörður (leið I) og hins vegar á leiðinni Bíldudalur-Tálknafjörður-Patreksfjörður (leið II).

Þrjú tilboð bárust í leið I. Smá von ehf. bauð 20,3 milljónir kr á ári., Keran St. Ólason bauð 30 milljónir kr. og S&S ehf. bauð 36 milljónir kr. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 17,3 milljónir kr.

Eitt tilboð barst í leið II, en það var frá Travel West. Tilboðið hljóðaði upp á 7,3 milljónir kr. á ári en kostnaðaráætlun var 2,9 milljónir kr. Tilboðinu var hafnað.

smari@bb.is

Eina hringbíó landsins

Gamanmyndahátíð Flateyrar fer fram um næstu helgi, dagana 31. ágúst til 3. september. Á hátíðinni sem fer fram á Flateyri verður lögð áhersla á íslenskar gamanmyndir. Hátíðin fer að mestu fram í gamla tankinum sem stendur við utanvert þorpið, eina hringbíó landsins, eins og tankurinn er kynntur á Facebooksíðu Gamanmyndahátíðarinnar.

Hátíðin hefst á 10 ára afmælissýningu á heimildarmyndinni Óbeisluð fegurð eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur en hún er um hina einstöku fegurðarsamkeppni sem fór fram í samkomuhúsinu í Hnífsdal vorið 2007. Eina skilyrðið fyrir þátttöku var að keppendur væru venjulegir, allrar stærðar og gerðar, og þeir máttu ekki hafa farið í lýtaaðgerð. Dregið var um vinningshafann úr hatti enda taldi dómnefndin að ekki væri hægt að keppa í óbeislaðri fegurð, ekkert frekar en staðlaðri. Sýningin á myndinni fer fram á Vagninum, fimmtudaginn 31. ágúst kl. 21:00

Á hátíðinni verður sem fyrr lögð áhersla á íslenskar gamanmyndir. Meðal leikstjóra mynda í ár má nefna Jón Gnarr, Grím Hákonarson, Benedikt Erlingsson og fleiri. Verða sýndar alls 23 íslenskar gamanmyndir, þar af eru sjö frumsýningar.

Heiðurssýningin í ár er Nýtt Líf, ein ástsælasta íslenska gamanmynd fyrr og síðar. Þráinn Bertelsson leikstjóri myndarinnar verður viðstaddur sýninguna og ræðir við gesti. Á meðal annarra viðburða verður fyrirlestrargjörningurinn Snitsel með þeim Mugison og Janusi Braga.

Á hátíðinni verða veitt áhorfendaverðlaun en heimildarmyndin Landsliðið eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson hlaut þau á síðustu hátíð. Hátíðin endar á veglegu lokahófi og sveitaballi.

smari@bb.is

Auglýst eftir dómara um helgina

Dómsmálaráðuneytið mun auglýsa eftir nýjum dómstjóra við Héraðsdóm Vestfjarða um helgina. Eins og greint var frá í vikunni lætur Sigríður Elsa Kjartansdóttir af störfum um mánaðamótin og hefur þá störf við Héraðsdóm Vestfjarða. Dómstólaráð fer með yfirstjórn stjórnsýslu héraðsdómstólanna og Ólöf Finnsdóttir, framkvæmdastjóri dómstólaráðs, segir að þangað til nýr dómari verður skipaður við Héraðsdóm Vestfjarða muni fjórir héraðsdómarar muni skipta með sér verkum við dóminn þannig að ekki verði hætta á að réttarspjöll hljótist í millibilsástandinu.

smari@bb.is

Vestfirðir mikilvægir vegna hreinleika líflamba

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Í nýrri skýrslu um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma er lögð áhersla á að verja líflambasölusvæði í Vestfjarðahólfi eystra sakir hreinleika þess og hólfið sagt eitt það mikilvægasta á landinu. Starfshópur um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma segir Kollafjarðarlínu orðna hættulega og gagnslausa, en varnarlínan liggur frá Kollafirði í A-Barðastrandasýslu yfir í Ísafjarðarbotn.  Starfshópurinn leggur ekki til grundvallarbreytingar á varnarlínum vegna sauðfjársjúkdóma

Á fjórða áratug síðustu aldar var Íslandi skipt upp í sóttvarnarsvæði (varnarhólf), sem afmörkuð eru með girðingum eða náttúrulegum hindrunum. Upphaflegur tilgangur þessa fyrirkomulags var að varna útbreiðslu sauðfjársjúkdóma sem borist höfðu með innflutningi á karakúlfé frá Þýskalandi árið 1933. Um var að ræða sjúkdómana garnaveiki og mæðiveiki (votamæði og þurramæði). Varnarhólfin voru liður í aðgerðum sem ráðist var í til útrýmingar á sjúkdómunum. Sauðfé var fargað á sýktum svæðum og nýtt tekið í staðinn frá ósýktum svæðum. Votamæði var útrýmt árið 1952 en þurramæði árið 1965. Ekki tókst jafn vel til með garnaveiki og er hún enn til staðar. Eftir að bólusetning var tekin upp hefur tíðni garnaveiki þó minnkað mikið og hefur henni verið útrýmt á nokkrum svæðum. Í dag gegna varnarlínurnar mikilvægu hlutverki í aðgerðum sem lúta að upprætingu riðuveiki. Ennfremur hafa varnarlínurnar mikilvægu hlutverki að gegna við að stemma stigu við útbreiðslu nýrra smitsjúkdóma.

smari@bb.is

Þríþraut Craftsport fer fram á laugardaginn

Það eru ekki bara Gamanmyndahátíð og Bláberjadagar næstu helgi, þá er líka hin árlega þríþrautarkeppni Craftsport. Keppnin er tiltölulega alþýðleg, það er að segja, keppendur þurfa ekki vera heljarmenni eða járnkarlar/kerlingar til að taka þátt heldur bara í rúmlega þokkalegu formi.

Fyrsta keppnisgreinin er 700 metra sund sem fer fram í Bolungarvík og hefst kl. 10:00. Að loknu sundi eða kl. 11:30 hefst 17 km hjólareiðakeppni þar sem hjólað er um götur Bolungarvíkur og síðan um Óshlíð til Ísafjarðar. Þá hefst 7 km hlaup fyrir framan Landsbankann við Hafnarstræti á Ísafirði.

Þar er Kristbjörn Sigurjónsson eða Bobbi í Craft-Sport sem stendur fyrir þríþrautinni og fer skráning fram hjá honum. Allar upplýsingar má nálgast á facebook síðu þríþrautarinnar.

bryndis@bb.is

Ert þú maðurinn ?

Litli leikklúbburinn leitar eftir áhugasömum leikurum fyrir næsta stykki. Klúbburinn hefur ákveðið að Blessað barnalán fari á fjalirnar í haust og á facebooksíðu klúbbsins kemur fram að um er að ræða gamanleikrit með engum söng en frekar fyndið.

Nú er bara að stökkva til og láta Svövu formann vita af sér í síma 867 9127

bryndis@bb.is

„Ófyrirséður mótbyr“

Gísli Halldór Halldórsson.

Eins og greint var frá í gær er rekstur Ísafjarðarbæjar langt undir áætlunum fyrstu sex mánuði ársins. Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 82 milljóna kr. afgangi en raunin er að reksturinn er neikvæður um 4,4 milljónir kr. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segist vonast til að reksturinn verði réttum megin við núllið þegar árið verður gert upp. „Ef það gengur eftir, sem ég hef fulla trú á, þá verður það vegna þess að við eigum von á meira framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga en við gerðum ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Ef það gengur ekki eftir og allt fer á versta veg þá mun þetta hafa neikvæð áhrif á skuldastöðu bæjarins,“ segir Gísli Halldór sem bendir einnig á að horfur eru á lægri verðbólgu sem hefur jákvæð áhrif á rekstur bæjarins.

Helsta ástæða verri afkomu eru minni skatttekjur en gert var ráð fyrir. Gísli Halldór segir að ýmislegt bendi til að skatttekjur nálgist nú það sem var gert ráð fyrir. „Launatekjur í Ísafjarðarbæ í júlí voru níu prósentum hærri en í júlí í fyrra, en það er sú hækkun sem önnur sveitarfélög voru að sjá á fyrstu mánuðum ársins. Við vorum hins vegar að sjá hækkun frá núll og upp í þrjú prósent fyrstu þrjá mánuðina og það var fyrst og fremst vegna sjómannaverkfallsins.“

Hann segir að sex mánaða uppgjör bæjarins sé ófyrirséður mótbyr. „En þetta er ekkert sem setur okkur út af sporinu,“ segir Gísli Halldór.

smari@bb.is

Norðmaður tekur við stjórnartaumunum

Stein Ove Tveiten tekur við framkvæmdastjórastöðu Arctic Fish á næstu vikum. Sigurður Pétursson, sem hefur verið framkvæmdastjóri Arctic Fish frá stofnun, mun starfa áfram hjá fyrirtækinu og einbeita sér að viðskiptaþróun og leyfismálum. Stein Ove hefur í sjö ár verið framkvæmdastjóri Norway Royal Salmon Feøy, en Norway Royal Salmon er stærsti eigandi Arctic Fish. Stein Ove er tæplega fertugur, giftur og á tvö börn, hann er menntaður í fiskeldis- og fyrirtækjastjórnun og hefur yfir 15 ára reynslu í fiskeldi. Í tilkynningu segir að það sé góð viðurkenning fyrir starfsemi Arctic Fish að fá til liðs við fyrirtækið stjórnanda með eins víðtæka reynslu og hann hefur til þess að leiða uppbyggingu á eldisstarfsemi Arctic Fish.

Stein Ove mun vera staðsettur á Ísafirði en á næstu misserum mun hann einnig fylgja því eftir að koma nýjum manni í hans í fyrra starf í Noregi.

smari@bb.is

Bregður þá vanalega veðráttu

Hafnarstrætið á Ísafirði í dag

 

Í dag er höfuðdagur og samkvæmt gamalli veðurtrú segir að veðurfar muni batna með Höfuðdegi og haldast þannig í þrjár vikur.

Höfuðdagurinn er samkvæmt gildandi tímatali 29. ágúst. Þann dag á Heródes konungur að hafa látið eftir konu sinni að Jóhannes skírari skyldi hálshöggvinn.

Á Vísindavefnum kemur fram að árið 1700 hafi tímatali verið breytt. Þá fluttist „gamli“ höfuðdagurinn yfir á 9. september og trúðu ýmsir á veðrabreytingar þann dag. Nú er dagurinn ávallt tengdur 29. ágúst. Trúnni á höfuðdaginn fylgdi bæði von og ótti. Mikilvægt þótti að hafa lokið heyskap fyrir höfuðdag ef tíð var góð en einnig lifðu margir í þeirri von að úr rættist við höfuðdag ef sumarið hafði verið vætusamt. Það á svo sannarleg við hér á norðanverðum Vestfjörðum en í dag er bæði bjart og fallegt.

Vísindavefurinn upplýsir ennfremur að íslenska heitið höfuðdagur virðist fyrst koma fyrir í bréfi frá 15. öld en þó þannig að nafnið var tengt Jóhannesi skírara, það er ákveðinn verknaður fór fram „á höfuðdaginn Johannis baptiste“. Þessi siður hélst lengi. Liðið var fram á 19. öld áður en farið var að nefna daginn án tilvísunar til Jóhannesar.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir