Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2168

Að móðga heilan landsfjórðung í einu viðtali

Krossneslaug á Ströndum.

Ólafur Már Björnsson og Tómas Guðbjartsson mættu í viðtal í morgunútvarpi Rásar tvö í morgun og ræddu þar meðal annars hörð viðbrögð Vestfirðinga við málflutningi þeirra um virkjun Hvalár. Þeir segja „Vestfirðinga verði líka að sýna smá þolinmæði“ og telja að Strandir muni innan fárra ára verða einn heitasta ferðamannastað landsins.

„Það er verið að plata Vestfirðinga og hafa þá að fíflum með þessum áætlunum“ segja þeir og að það liggi fyrir að virkjun Hvalár muni ekki vera atvinnuskapandi. Vandamál Vestfjarða verða ekki leyst með ofsasjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi eða virkjun Hvalár.

Hafdís Gunnarsdóttir varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu var ekki par hrifin af málflutningi þeirra Ólafs og Tómasar og ritar eftirfarandi færslu á facebook

„Ó við aumu Vestfirðingar. Við vitum ekki að það er bara verið að plata okkur í þessum virkjunar- og fiskeldismálum. Við þurfum bara að bíða í nokkur ár og þá mun ferðaþjónustan á Ströndum taka hressilega við sér og þá verður allt betra á Vestfjörðum. Hagvöxturinn og íbúafjöldinn mun væntanlega rjúka upp.

Það þarf sérstaka lagni til að móðga nánast heilan fjórðung í einu viðtali.“

Pétur Markan sveitarstjóri Súðavíkurhrepps tekur í sama streng og Hafdís í sinni færslu á Facebook:

„En af því að rætt er um atvinnuástand. Því hefur verið einnig kastað inn í umræðuna að lítið atvinnuleysi á Vestfjörðum sé merki um heilbrigt svæði og þá mögulega vísbendingu um væl í heimamönnum. Þá skrapaði umræðan botninn.

Lítið atvinnuleysi á Vestfjörðum orsakast ekki af velmegun og uppgangi, heldur atvinnuúrræðaleysi og niðurgangi. Sorg á sér margar birtingarmyndir. Ætli skýrasta birtingarmynd sorgar Vestfirðinga sé ekki einmitt sú staðreynd að fólkið okkar, börn, ættingjar, vinir og samtarfsfélagar flytja í burt, frá okkur.“

Fram kemur í viðtalinu að Hvalárvirkjun hafi verið laumað í gegnum rammaáætlun en um þetta tókust þeir á á visir.is Kristinn Gunnarsson, Tómas og Ólafur. Í grein sem Tómas og Ólafur rita segir: „Það er ótrúlegt að svo breyttri „Hvalárvirkjun“ hafi verið laumað í gegnum þarsíðustu Rammaáætlun, án nauðsynlegrar kynningar og umræðu.“ Þessu mótmæli Kristinn og fullyrðir að Hvalárvirkjun hafi verið samþykkt í Rammaáætlun 2, ágreiningslítið og með góðri pólitískri samstöðu.

bryndis@bb.is

Vill boða fleiri aðila á fund atvinnuveganefndar

Sigurður Ingi Jóhannsson. Mynd: mbl.is / Eggert

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins hefur óskað eftir því við Pál Magnússon formann atvinnuveganefndar að boðaðir yrðu fleiri aðilar til að koma með viðbrögð við skýrslu ráðherra um stefnumótun í fiskeldi.

„Ég tel nauðsynlegt að víðtækari umfjöllun eigi sér stað um skýrsluna, forsendur hennar og niðurstöður“, segir Sigurður Ingi sem hefur óskað eftir að fulltrúar sveitarstjórnar Breiðdalshrepps, Djúpavogshrepps, Bolungarvíkurkaupsstaðar, Súðavíkurhrepps og Ísafjarðarbæjar verði boðaðir á fund atvinnuveganefndar. Jafnframt óskaði Sigurður Ingi eftir að fulltrúar Landsamtaka fiskeldisfyrirtækja, Háafells ehf., og Laxar ehf. væru boðaðir.

Sigurður Ingi segir enn fremur mikilvægt að í framhaldi af þessum fundum þurfi að fá fleiri sjónarmið fyrir nefndina m.a. um vísindalegan grunn áhættumats.  Líffræðilegar sem og markaðslegar forsendur fyrir geldlaxi.

bryndis@bb.is

Komdu út að ganga!

Frá göngu Ferðafélags Ísfirðinga í Grunnavík í sumar

Á þessu ári fagnar Ferðafélag Íslands (FÍ) 90 ára afmæli og býður félagið upp á ýmsa viðburði í tilefni af þessum tímamótum. Nú í septembermánuði verða á dagskrá svokallaðar Lýðheilsugöngur sem munu fara fram alla miðvikudaga. Tilgangurinn með verkefninu er að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu og lífsgæði. Verkefnið er unnið í samstarfi við VÍS og eru faglegir samstarfsaðilar Velferðarráðuneytið og Landlæknisembættið og taka deildir FÍ um allt land þátt. Bæklingi um verkefnið hefur þegar verið dreift inná öll heimili á landinu.

Göngurnar ættu að henta flestum og hefur hver þeirra sérstakt þema: náttúra, vellíðan, saga og vinátta. Hefjast allar göngurnar kl. 18:00 og taka u.þ.b. 60-90 mín.

Allir sem taka þátt í Lýðheilsugöngum geta skráð sig í göngur á vef verkefnisins keppa um leið um veglega vinninga. Skráning fer fram hér: http://lydheilsa.fi.is/

Hjá Ferðafélagi Ísfirðinga verður dagskráin á þessa leið:

6.september – Vellíðan
Mæting við Brúarnesti. Gengið inn í Tungudal þar sem boðið verður upp á jóga. Jógamottur verða á staðnum, en fólk er beðið um að mæta í viðeigandi fatnaði. Að lokum gengið tilbaka að Brúarnesti. Fararstjóri og jógakennari: Gunnhildur Gestsdóttir.

13.september – Náttúra
Mæting við gönguskíðaskálann á Seljalandsdal. Gengið þaðan og tilbaka og notið nátturufegurðar í fögrum fjallasal. Fararstjóri: Kristín Ósk Jónasdóttir.

20.september – Vinátta
Mæting við félagsheimilið í Hnífsdal og gengið um dalinn. Upplagt að bjóða vinum og samstarfsfélögum með, reyna að virkja sem flesta og eignast þannig nýja gönguvini. Fararstjóri: Rúnar Eyjólfsson.

27.september – Saga
Mæting við Safnahúsið við Eyrartún. Söguganga um Eyrina. Fararstjórar: Jóna Símonía Bjarnadóttir og Andrea S. Harðardóttir.

bryndis@bb.is

Halli á vörðuviðskiptum við útlönd stóreykst

Halli á vöruviðskiptum við útlönd nam 108,9 milljörðum króna frá janúar til júlí á þessu ári. Á sama tíma árið áður voru vöruviðskiptin óhagstæð um 20,3 milljarða. Fyrstu sjö mánuði ársins fluttu Íslendingar út vörur fyrir 280 milljarða króna en innflutningur nam 388,8 milljörðum króna. Iðnaðarvörur voru 55,7% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 3,3% lægra en á sama tíma árið áður. Útflutningur á lyfjum og lækningatækjum dróst saman en útflutningur á áli jókst. Sjávarafurðir voru 37,7% alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 23,9% lægra en á sama tíma árið áður. Mestur samdráttur var í útflutningi á ferskum fiski og frystum flökum.

Innflutningur jókst um 14,7% á tímabilinu og hlutfallslega jókst innflutningur á eldsneyti mest, eða um 33,6% að verðgildi.

smari@bb.is

Upplýsingasíða um laxeldi

Arnarlax hefur hleypt af stokkunum nýrri heimasíðu islandslax.is  þar sem nálgast má upplýsingar um laxeldi og að sögn Þorsteins Mássonar starfsmanns Arnarlax á síðan að vera „laus við alla pólitík og skoðanir, bara staðreyndir og fróðleikur, en auðvitað erum við ekki hlutlaus“.

Á síðunni er til dæmis fjallað um sjálfbærni og sleppingar, heilsufar, fóður og eftirlit og um næringargildi eldislax.

bryndis@bb.is

Gistinóttum fækkar víða á landsbyggðinni

Gistinætur á hótelum í júli voru 466.100 sem er 2% aukning á milli ára. Um 53% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu, sem er 1% aukning miðað við júlí 2016. Samdráttur hefur orðið víða á landsbyggðinni í gistinóttum. Á Vesturlandi og Vestfjörðum, en landshlutarnir eru taldir saman í tölum Hafstofunnar, voru gistinætur 26.700 talsins sem er fækkun um 14% milli ára, en einnig fækkaði gistinóttum um 9% á Norðurlandi og 7% á Austurlandi samanborið við júlí 2016.

Gistinætur á Suðurnesjum voru 35.200, sem er 63% aukning frá fyrra ári og einnig var 6% aukning á Suðurlandi, þar sem gistinætur voru 92.400.

smari@bb.is

Teistan friðuð

Um­hverf­is- og auðlindaráðherra hef­ur með reglu­gerð friðað teistu fyr­ir skot­veiðum. Ákvörðun um friðun er tek­in á grund­velli um­sagna frá Nátt­úru­fræðistofn­un Íslands og Um­hverf­is­stofn­un.

Teista er grunn­sævis­fugl sem telst til svart­fugla og verp­ir í kletta­gjót­um, urðum og sprung­um. Erfitt er að meta stærð stofns­ins en gróf­lega hef­ur verið áætlað að ís­lenski stofn­inn sé um 10.000-20.000 pör. Vökt­un bend­ir sterk­lega til tals­verðrar fækk­un­ar teistu í all­mörg síðustu ár.

Í maí barst ráðherra áskor­un frá Fugla­vernd­ar­fé­lagi Íslands, Skot­vís og Vist­fræðifé­lagi Íslands um að friða teistu fyr­ir skot­veiðum vegna lít­ill­ar stofn­stærðar henn­ar hér­lend­is sem fer minnk­andi. Bent er á að teg­und­in hafi í raun verið auka­afli svart­fugla­veiðimanna og því hafi ekki verið sér­stak­lega sóst eft­ir henni.

Friðunin tek­ur gildi í dag, 1. september, sem er fyrsti dagur svartfuglaveiða.

Vilja mengunarmælingar á Ísafirði

Svartolíuský á Ísafirði á stórum skemmtiferðaskipadegi. Mynd: Halldór Sveinbjörnsson

Ekki hefur verið tekin formleg ákvörðun um að fara í mengunarmælingar í og við Ísafjarðarhöfn vegna útblástur skemmtiferðaskipa, en Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, telur líklegt að ráðist verði í þær við fyrsta tækifæri. „Mér heyrist á bæjarfulltrúum og hafnarstjóra að það sé vilji til að fara í þetta,“ segir Gísli Halldór.

Í gær var greint frá mælingum sem Náttúruverndarsamtök Íslands stóðu fyrir á Sundahöfn í Reykjavík þegar skemmtiferðaskip voru í höfn og létu vélar ganga. Loftgæði mældust langtum verri en eðlilegt getur talist. Gísli Halldór segir að mælingarnar muni þá fara fram næsta sumar þar sem skemmtiferðaskipatímabilinu er alveg við það að ljúka á Ísafirði. „Ég tel síðan að Ísland eigi að setja sér markmið og reglur um að draga úr þessari kolefnislosun,“ segir Gísli Halldór.

Mælingarnar í Reykjavík sýna að magn örsmárra agna í útblæstri skipa var um 200 sinnum meira en eðlilegt má teljast.

Á blaðamannafundi í gær lagði Dr. Axel Friedrich, vísindalegur ráðgjafi við mælingarnar, áherslu á þann skaða sem mengun frá skipum getur valdið á heilsu almennings. „Loftmengun frá dísilvélum – örfínar agnir sem dreifast um langar vegalengdir, brennisteinn og köfnunarefnisoxíð – eru efni sem auka á gróðurhúsaáhrfin og valda skaða á heilsu fólks. Þessi efni valda hjarta- og æðasjúkdómum og öndunarfærasjúkdómum.“  Dr. Friedrich benti á að samkvæmt mati framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins látist árlega um 50 þúsund einstaklingar um af völdum loftmengunar frá skipum.

„Vélar eins og eru um borð á skemmtiferðaskipunum myndu ekki fá starfsleyfi á landi og það er hneyksli að skipafyritæki komist upp með að menga jafn mikið og raun ber vitni,” sagði Friedrich, og bætti við að fyrir hendi eru tæknilausnir sem duga vel til að leysa þennan vanda.

Heimilt að taka próf á sjálfskiptan bíl

Samgönguráðuneytið hefur birt drög að breytingu á reglugerð um ökuskírteini.  Breytingarnar snúast meðal annars um að samræma ákvæði reglugerðarinnar við umferðarlög og tilskipun Evrópusambandsins um ökuskírteini.

Meðal annarra breytinga er að heimilt verður að taka ökupróf á sjálfskipta bifreið og eru ökuréttindin þá takmörkuð við slíkan bíl. Áður var aðeins heimilt af heilbrigðisástæðum að taka próf á sjálfskipta bifreið og þá að mati læknis. Þá eru skýrari ákvæði er varða námskeið vegna endurmenntunar atvinnubílstjóra.

Í núgildandi reglugerð er gerð krafa um að unnt sé að taka úr notkun hjálparbúnað, t.d. bakkmyndavélar og veglínuskynjara, þegar kennsla og próf fer fram. Í ljósi þess að hjálparbúnaður í ökutækjum verður stöðugt algengari og fjölbreyttari er óraunhæft og óeðlilegt að gera kröfu um slíkt. Er af þeim sökum lagt til að þegar ökutæki sem notað er við kennslu eða próf er búið sérstökum hjálparbúnaði skuli ökunemi geta útskýrt virkni slíks búnaðar.

Segir sorglegt að efnahags- og félagslegir þættir hafi orðið útundan

Sigurður Ingi Jóhannsson. Mynd: mbl.is / Eggert

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, leggur til leiðir að sætta deilendur í fiskeldismálum. Þorri almennings á norðanverðum Vestfjörðum og allir sveitarstjórnarmenn með tölu hafa lýst yfir megnri óánægju með tillögur starfshóps um stefnumótun í fiskeldi þar sem lagt er til að farið verði eftir áliti Hafrannsóknastofnunar um að loka Ísafjarðardjúpi fyrir laxeldi. Í grein Sigurðar Inga í Morgunblaðinu í dag segir hann að það sé „sorglegt til þess að vita að starfshópurinn hafi ekki geta komið sér saman um að taka tillit til mótvægisaðgerða,“ þegar fjallað var um áhættu af slysasleppingum og erfðablöndun. Sigurður leggur tvennt til. Í fyrsta lagi að bestu mögulegu tækni verði beitt til að hindra för sleppifiska upp í ár og bendir hann á að íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sé að þróa slíka tækni. Þá leggur hann einnig til að áhættumat Hafrannsóknastofnunar fái alþjóðlega rýni áður en það er lagt til grundvallar ákvarðanatöku í málinu.

Í greininni skrifar Sigurður Ingi:

„Það er sorglegt til þess að vita að ekki hafi verið gerð nein tilraun til þess að meta hin efnahags- og félagslegu áhrif af laxeldi í sjó, en á sama tíma er markmið skýrslunnar að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Það er tómt mál að tala um sjálfbært fiskeldi og ná sátt um greinina án þess að meta alla þrjá þættina.“

smari@bb.is

Nýjustu fréttir