Síða 2167

Fjárréttir á Vestfjörðum

Á leið í réttirnar

Nú líður að haustverkum og í september smala bændur fjöll og firnindi. Það eru bændur á Ströndum sem ríða á vaðið með réttum í Skeljavíkurrétt þann 8. september og síðasti auglýsti réttadagur er 1. október á Barðaströnd.

Lista yfir réttir á landinu má nálgast á vef Bændablaðsins en hér að neðan eru réttardagar Vestfjarða. Bændablaðið setur þó þann fyrirvara að náttúruöflin geta sett allt úr skorðum og svo geta villur slæðst með.

Skeljavíkurrétt í Steingrímsfirði, Strand. föstudaginn 8. sept. kl. 16.00

Eyrarrétt á Eyri í Kollafirði, Reykhólahrepp, A-Barð. laugardaginn 9. sept.

Staðarrétt í Steingrímsfirði, Strand. sunnudaginn 10. sept. kl. 14.00

 

Melarétt í Árneshreppi, Strand. laugardaginn 16. sept. kl. 16.00

Minni-Hlíð í Hlíðardal laugardaginn 16. sept. kl. 14.00

Syðridalsrétt í Bolungarvík laugardaginn 16. sept. kl. 14.00

Broddanes, Strand. sunnudaginn 17. sept. kl. 16.00

Kirkjubólsrétt í Steingrímsfirði, Strand. sunnudaginn 17. sept. kl. 14.00

 

Grundarrétt í Reykhólahreppi, A-Barð. föstudaginn 22. sept.

Arnardalsrétt í Arnardal í Skutulsfirði laugardaginn 23. sept.

Hjarðardalsrétt í Hjarðardal í Dýrafirði laugardaginn 23. sept.

Hraunsrétt við Hraun í Hnífsdal í Skutulsfirði laugardaginn 23. sept.

Kirkjubólsrétt við Kirkjuból í Engidal í Skutulsfirði laugardaginn 23. sept.

Kjósarrétt í Árneshreppi, Strand. laugardaginn 23. sept. kl. 14.00

Króksfjarðarnesrétt í Reykhólasv., A-Barð. laugardaginn 23. sept.

Skarðsrétt í Bjarnarfirði, Strand. laugardaginn 23. sept.

Traðarrétt við Tröð í Bjarnardal í Önundarfirði laugardaginn 23. sept.

Kinnarstaðarrétt í Reykhólahr., A-Barð. sunnudaginn 24. sept.

 

Innri-Múlarétt á Barðaströnd, V.-Barð. sunnudaginn 1. okt. kl. 14.00

bryndis@bb.is

Alþingi höggvi á hnútinn með lögum

Utanverður Teigsskógur.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar skorar á Alþingi að beita lagasetningu nú þegar til að höggva á þann hnút sem staða vegalagningar um Vestfjarðaveg 60 er í, oftast nefnd vegagerð í Teigsskógi. Í ályktun bæjarstjórnar segir að það sé ekki samboðið nútímasamfélagi að standa í vegi fyrir uppbyggingu atvinnulífs í heilum landsfjórðungi.

Staða málsins í dag er að Reykhólahreppur þarf að koma nýjum veglínum inn á aðalskipulag, en breytingar á aðalskipulagi taka minnst sex mánuði. Við breytingarnar og útgáfu framkvæmdaleyfis þarf hreppurinn að taka afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um vegalagningu í Teigsskógi, en í áliti stofnunarinnar á umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar var lagst gegn framkvæmdum í Teigsskógi. Aðalskipulag tekur ekki gildi nema með samþykki Skipulagsstofnunar og ekki er hægt að veita framkvæmdaleyfi nema það sé í samræmi við skipulag.

smari@bb.is

Langflestir ánægðir með sumarveðrið

Heldur færri Íslendingar voru ánægðir með sumarveðrið í ár á Íslandi heldur en síðasta sumar, eða 70%. Eins sögðust 86% Íslendinga ánægðir með sumarfríið sitt í könnun MMR sem er ekki mikil breyting frá árinu áður.

Síðasta sumar mældist ánægjan með sumarveðrið 94% og þá sögðust 89% Íslendinga vera ánægðir með sumarrfríið sitt.

Þegar ánægjan með sumarveðrið var skoðuð eftir landshlutum kom í ljós að íbúar á Norðvestur- og Vesturlandi voru ánægðastir með veðrið í sumar, eða 83,5%. Þar á eftir voru íbúar á Norðaustur- og Austurlandi, þar sem 82,6% íbúa voru ánægðir með sumarveðrið. 70,1% íbúa Reykjavíkur voru svo ánægðir með veðrið á Íslandi í sumar. Þeir sem voru síst ánægðir voru íbúar í nágrenni Reykjavíkur (64,4%) og Suðurlands (59,1%).

Þróun á afstöðu Íslendinga frá árinu 2010 til 2016 sýndi að ánægja með sumarveðrið var yfirburða mikil árin 2010 og 2016, þegar 95% (árið 2010) og 94% (árið 2016) sögðust vera ánægðir með veðrið það sumarið. Lægst var þó ánægjan árið 2013 en þá voru einungis 44% Íslendinga ánægðir með veðrið.

Þrátt fyrir mikla sveiflu í ánægju á sumarveðri á milli ára þá hefur ánægja fólks með sumarfríið sitt haldist nokkuð stöðug. Frá því að mælingar hófust árið 2010 hefur ánægja Íslendinga með sumarfríið sitt flöktað á bilinu 86% til 91%.

smari@bb.is

40 ár frá stofnun Orkubús Vestfjarða

Þann 26. ágúst síðastliðinn voru liðin 40 ár frá því að samningur um stofnun Orkubús Vestfjarða var undirritaður í Gagnfræðaskólanum á Ísafirði en fyrirtækið tók svo til starfa um áramótin 1977 – 78. Þetta kemur fram í 34. tbl. Bæjarins besta árið 1997 en blaðið er nú aðgengilegt á vef bb.is.

Það var fleira skemmtilegt í fréttum í lok ágúst árið 1997, margt kunnuglegt og gæti verið sagt í dag. Umhverfisráðherra kynnir sér yfirstandandi framkvæmdir við ofanflóðavarnir og umræða um Vestfirði er neikvæðari en efni standa til segir í frétt um heimsókn fjárlaganefndar á Vestfirði. Samgöngumálinu voru þá sem nú Vestfirðingum hugleikin. Erfitt var að manna Grunnskóla Ísafjarðar og 30% kennara leiðbeinendur, nú eru 50% kennara í Grunnskóla Flateyrar án kennsluréttinda.

Í Framhaldsskóla Vestfjarða hefja 270 nemendur nám haustið 1997, í ár eru nemendur Menntaskólans á Ísafirði 254.

bryndis@bb.is

Skattbyrði þeirra tekjulægstu aukist mest

Samkvæmt nýrri skýrslu hagdeildar ASÍ um þróun á skattbyrði launafólks hefur skattbyrði aukist í öllum tekjuhópum á tímabilinu frá 1998-2016 en aukningin er langmest hjá þeim tekjulægstu. Þegar skoðað er samspil tekjuskatts, útsvars og persónuafsláttar auk barna- og vaxtabóta hefur t.d. skattbyrði para á lágmarkslaunum með tvö börn og lágmarks eigið fé í húsnæði (20%) í heildina aukist um 21 prósentustig á umræddu tímabili. Munurinn á skattbyrði tekjulægstu hópanna og þeirra tekjuhærri hefur því minnkað og dregið hefur úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Kaupmáttaraukning síðustu ára hefur þannig síður skilað sér til launafólks með lægri tekjur en þeirra tekjuhærri vegna vaxandi skattbyrði.

Þessa þróun rekur ASÍ einkum rekja til þess að:

  • Persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun sem hefur aukið skattbyrði lægri launa mest.
  • Stuðningur vaxtabótakerfisins hefur minnkað verulega á tímabilinu og fækkað í þeim hópi sem fær greiddar vaxtabætur vegna tekju og eignaskerðinga. Tekjulágt barnafólk með lágmarks eigið fé (20%) í húsnæði sínu fær í dag lítinn sem engan stuðning í gegnum vaxtabótakerfið.
  • Íslenska barnabótakerfið er veikt og dregur eingöngu úr skattbyrði einstæðra foreldra og allra tekjulægstu para. Pör með börn sem hafa tekjur við neðri fjórðungsmörk fá nánast enga skattaívilnun vegna framfærslu barna og hafa því nánast sömu skattbyrði og þeir sem engin börn hafa á framfæri.
  • Húsaleigubótakerfið hefur þróast með sama hætti og önnur tilfærslukerfi og því hefur dregið úr stuðningi við launafólk á leigumarkaði. Nýtt húsnæðisbótakerfi bætir nokkuð hag láglauna einstaklinga og einstæðra foreldra á leigumarkaði en láglauna pör fá eftir sem áður lítinn eða engan stuðning vegna leigukostnaðar.

smari@bb.is

Meiri afli en minna verðmæti

Afla­verðmæti ís­lenskra skipa í maí­mánuði nam tæp­um 10,7 millj­örðum króna, eða 11,3% minna en í maí 2016. Þó var fiskafli skip­anna í mánuðinum 27% meiri en árið áður, eða tæp 138 þúsund tonn.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Hag­stofu Íslands. Ljóst er að lægra fisk­verð veld­ur þess­um sam­drætti þegar rýnt er í töl­ur stof­unn­ar, en verðmæti þorskafl­ans nam tæp­um fimm millj­örðum og dróst sam­an um 0,9%, þrátt fyr­ir að magnið hafi auk­ist um 19,9%.

Sam­drátt­ur varð þá einnig í verðmæti annarra teg­unda. Verðmæti flat­fiskafla dróst sam­an um 23,4% og verðmæti upp­sjáv­ar­afla dróst sam­an um 24,8%.

Enn frem­ur nam verðmæti botn­fiskafl­ans rúm­um 8 millj­örðum, sem er 4,7% sam­drátt­ur miðað við maí 2016.

Á tólf mánaða tíma­bili frá júní 2016 til maí 2017 nam afla­verðmæti ís­lenskra skipa 114 millj­örðum króna, sem er 19,7% sam­drátt­ur miðað við sama tíma­bil ári fyrr, en þá var verðmætið rúm­ir 142 millj­arðar króna. Þarna mun­ar 28 millj­örðum króna.

smari@bb.is

Ekki kunnugt um mengunarmælingar í Ísafjarðarhöfn

Skemmtiferðaskip á Ísafirði.

Ísafjarðarhöfn hefur ekki látið gera mælingar á loftgæðum þegar stór skemmtiferðaskip eru í höfn á Ísafirði. Í gær var greint frá mælingum sem Náttúruverndarsamtök Íslands í samstarfi við þýsku náttúruverndarsamtökin NABU gerðu á Sundahöfn í Reykjavík í sumar. Loft­gæði í Sunda­höfn verða marg­falt verri en í miðborg­um er­lendra stór­borga á borð við London, þegar skip­in láta vél­ar sín­ar ganga við hafn­ar­bakk­ann. Dr. Axel Friedrich, sem hef­ur verið vís­inda­leg­ur ráðgjafi mæl­inga á meng­un frá skemmti­ferðaskip­um við Reykja­vík­ur­höfn, varar fólk sem glímir við heilsufarsvandamál við að fara á skemmtiferðaskip sem og að fara til staða sem skipin heimsækja.

Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir honum vitanlega hafi ekki verið gerðar mælingar á loftgæðum á Ísafirði í tengslum við komu skemmtiferðaskipa. Hann bendir á að nýjar reglur Alþjóðasiglingamálasamtakanna (IMO) taki gildi árið 2020. „Þar verða reglur um brennslu á svartolíu hertar og annað hvort þurfa menn að brenna hreinna eldsneyti eða setja upp hreinsibúnað í skipunum,“ segir Guðmundur.

smari@bb.is

Heimilisleg og kærleiksrík vika

Ástarvikan verður nú endurvakin í Bolungarvík eftir nokkurt hlé og munu Bolvíkingar taka ástina upp á sína arma og bjóða landsmönnum að taka þátt í breiða boðskap ástarinnar út um heiminn. Ástarvikan verður haldin vikuna 10.–16. september.

Undirbúningur er í fullum gangi og hefur vaskur hópur manna og kvenna staðið í mikilli þankahríð síðustu vikur og mánuði. Margir hafa komið að máli og hefur frumkvöðull Ástarvikunnar, Soffía Vagnsdóttir, verið hópnum innan handar með nýjar og ferskar hugmyndir.

Markmiðið með Ástarvikunni er að gera ástinni hátt undir höfði þessa viku í öllum þeim fjölbreytileika sem einkennir hana. Ástinn er einmitt sá kraftur sem allir geta nýtt sér í öllum þeim fjölbreytileika sem mannlífið bíður uppá, hvort sem um er að ræða ást milli tveggja einstaklinga, móðurást, matarást, ást á sjálfum sér og hvers konar ást svo ekki sé nú minnst á náungakærleikann.

Öllum er frjálst að bjóða uppá viðburði tengdum ástarvikunni í Bolungarvík og er áhugasömum bent á að hafa samband við Helga Hjálmtýsson (helgi@bolungarvik.is), markaðs- og kynningarfulltrúa Bolungarvíkurkaupstaðar, ef þeir vilja koma viðburði á dagskrá eða fá frekari upplýsingar en formleg dagskrá verður gefin út í næstu viku.

Ástarvikan í Bolungarvík er heimilisleg og kærleiksrík menningarhátíð og var fyrst haldin árið 2004.

smari@bb.is

Háskólasetrið leitar að fjölskyldum

Mynd af vef Háskólaseturs

Háskólasetur Vestfjarða leitar nú að fjölskyldum sem vilja hýsa bandaríska háskólanema tímabilið 14.september – 6.október.

Nemendurnir verða 17 talsins og munu þeir sitja vettvangsáfanga sem fjallar um loftslagsmál á Norðurslóðum: Iceland and Greenland: Climate Change and the Arctic. Þessari námsbraut var hleypt af stokkunum haustið 2016, af SIT Study Abroad sem er bandarískur háskóli, í samvinnu við Háskólasetrið.

Markmiðið með að bjóða þessum ungmennum gistingu í heimahúsum er að gefa þeim tækifæri til að taka þátt í lífi fjölskyldu og kynnast þannig íslenskri menningu og tungu. Heimagisting fyrir nemendur SIT skólans hefur verið í boði síðan 2012 og gefist mjög vel.

bryndis@bb.is

Ráðleggur fólki að halda sig fjarri skemmtiferðaskipum

Svartolíuský á Ísafirði á stórum skemmtiferðaskipadegi. Mynd: Halldór Sveinbjörnsson

„Ekki fara á skemmti­ferðaskip og ekki fara á staði sem mörg slík heim­sækja ef þú glím­ir við heilsu­far­svanda­mál fyr­ir,“ sagði Dr. Axel Friedrich á blaðamannfundi Náttúruverndarsamtaka Íslands í morgun. Samtökin, með aðstoð þýsku nátt­úru­vernd­ar­sam­tak­anna (NABU), stóðu í sumar fyrir mælingum á mengun frá skemmtiferðaskipum í Reykjavík. Greint er frá blaðamannafundinum á vef Morgunblaðsins.

Mæl­ing­ar sem gerðar voru á meng­un sýna að magn ör­smárra agna í út­blæstri skipa var um 200 sinn­um meira en eðli­legt má telj­ast. Loft­gæði í Sunda­höfn verða marg­falt verri en í miðborg­um er­lendra stór­borga á borð við London, þegar skip­in láta vél­ar sín­ar ganga við hafn­ar­bakk­ann.

Friedrich er efna­fræðing­ur og sér­fræðing­ur í út­blást­urs­mál­um og var á meðal vís­inda­manna sem komu upp um svika­myllu þýskra bíla­fram­leiðenda, sem reyndu að fegra töl­ur um út­blást­ur dísel­bíla.

„Loft­meng­un frá dísel­vél­um – örfín­ar agn­ir sem dreifast um lang­ar vega­lengd­ir –  brenni­steinn og köfn­un­ar­efn­isoxíð eru efni sem auka á gróður­húsa­áhrif­in og valda skaða á heilsu fólks,“ sagði Friedrich á fundinum og benti á að þessi efni valda hjarta- og æðasjúk­dóm­um sem og önd­un­ar­færa­sjúk­dóm­um og að sam­kvæmt mati fram­kvæmda­stjórn­ar ESB lát­ist ár­lega um 50 þúsund ein­stak­ling­ar af völd­um loft­meng­un­ar frá skip­um.

„Vél­ar eins og eru um borð í skemmti­ferðaskip­un­um fengju ekki starfs­leyfi á landi og það er hneyksli að skipa­fyr­ir­tæki kom­ist upp með að menga jafn­mikið og raun ber vitni,“ sagði Friedrich og bætti við að fyr­ir hendi séu tækni­lausn­ir sem dugi vel til að leysa þenn­an vanda.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir