Síða 2167

Meiri afli en minna verðmæti

Afla­verðmæti ís­lenskra skipa í maí­mánuði nam tæp­um 10,7 millj­örðum króna, eða 11,3% minna en í maí 2016. Þó var fiskafli skip­anna í mánuðinum 27% meiri en árið áður, eða tæp 138 þúsund tonn.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Hag­stofu Íslands. Ljóst er að lægra fisk­verð veld­ur þess­um sam­drætti þegar rýnt er í töl­ur stof­unn­ar, en verðmæti þorskafl­ans nam tæp­um fimm millj­örðum og dróst sam­an um 0,9%, þrátt fyr­ir að magnið hafi auk­ist um 19,9%.

Sam­drátt­ur varð þá einnig í verðmæti annarra teg­unda. Verðmæti flat­fiskafla dróst sam­an um 23,4% og verðmæti upp­sjáv­ar­afla dróst sam­an um 24,8%.

Enn frem­ur nam verðmæti botn­fiskafl­ans rúm­um 8 millj­örðum, sem er 4,7% sam­drátt­ur miðað við maí 2016.

Á tólf mánaða tíma­bili frá júní 2016 til maí 2017 nam afla­verðmæti ís­lenskra skipa 114 millj­örðum króna, sem er 19,7% sam­drátt­ur miðað við sama tíma­bil ári fyrr, en þá var verðmætið rúm­ir 142 millj­arðar króna. Þarna mun­ar 28 millj­örðum króna.

smari@bb.is

Ekki kunnugt um mengunarmælingar í Ísafjarðarhöfn

Skemmtiferðaskip á Ísafirði.

Ísafjarðarhöfn hefur ekki látið gera mælingar á loftgæðum þegar stór skemmtiferðaskip eru í höfn á Ísafirði. Í gær var greint frá mælingum sem Náttúruverndarsamtök Íslands í samstarfi við þýsku náttúruverndarsamtökin NABU gerðu á Sundahöfn í Reykjavík í sumar. Loft­gæði í Sunda­höfn verða marg­falt verri en í miðborg­um er­lendra stór­borga á borð við London, þegar skip­in láta vél­ar sín­ar ganga við hafn­ar­bakk­ann. Dr. Axel Friedrich, sem hef­ur verið vís­inda­leg­ur ráðgjafi mæl­inga á meng­un frá skemmti­ferðaskip­um við Reykja­vík­ur­höfn, varar fólk sem glímir við heilsufarsvandamál við að fara á skemmtiferðaskip sem og að fara til staða sem skipin heimsækja.

Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir honum vitanlega hafi ekki verið gerðar mælingar á loftgæðum á Ísafirði í tengslum við komu skemmtiferðaskipa. Hann bendir á að nýjar reglur Alþjóðasiglingamálasamtakanna (IMO) taki gildi árið 2020. „Þar verða reglur um brennslu á svartolíu hertar og annað hvort þurfa menn að brenna hreinna eldsneyti eða setja upp hreinsibúnað í skipunum,“ segir Guðmundur.

smari@bb.is

Heimilisleg og kærleiksrík vika

Ástarvikan verður nú endurvakin í Bolungarvík eftir nokkurt hlé og munu Bolvíkingar taka ástina upp á sína arma og bjóða landsmönnum að taka þátt í breiða boðskap ástarinnar út um heiminn. Ástarvikan verður haldin vikuna 10.–16. september.

Undirbúningur er í fullum gangi og hefur vaskur hópur manna og kvenna staðið í mikilli þankahríð síðustu vikur og mánuði. Margir hafa komið að máli og hefur frumkvöðull Ástarvikunnar, Soffía Vagnsdóttir, verið hópnum innan handar með nýjar og ferskar hugmyndir.

Markmiðið með Ástarvikunni er að gera ástinni hátt undir höfði þessa viku í öllum þeim fjölbreytileika sem einkennir hana. Ástinn er einmitt sá kraftur sem allir geta nýtt sér í öllum þeim fjölbreytileika sem mannlífið bíður uppá, hvort sem um er að ræða ást milli tveggja einstaklinga, móðurást, matarást, ást á sjálfum sér og hvers konar ást svo ekki sé nú minnst á náungakærleikann.

Öllum er frjálst að bjóða uppá viðburði tengdum ástarvikunni í Bolungarvík og er áhugasömum bent á að hafa samband við Helga Hjálmtýsson (helgi@bolungarvik.is), markaðs- og kynningarfulltrúa Bolungarvíkurkaupstaðar, ef þeir vilja koma viðburði á dagskrá eða fá frekari upplýsingar en formleg dagskrá verður gefin út í næstu viku.

Ástarvikan í Bolungarvík er heimilisleg og kærleiksrík menningarhátíð og var fyrst haldin árið 2004.

smari@bb.is

Háskólasetrið leitar að fjölskyldum

Mynd af vef Háskólaseturs

Háskólasetur Vestfjarða leitar nú að fjölskyldum sem vilja hýsa bandaríska háskólanema tímabilið 14.september – 6.október.

Nemendurnir verða 17 talsins og munu þeir sitja vettvangsáfanga sem fjallar um loftslagsmál á Norðurslóðum: Iceland and Greenland: Climate Change and the Arctic. Þessari námsbraut var hleypt af stokkunum haustið 2016, af SIT Study Abroad sem er bandarískur háskóli, í samvinnu við Háskólasetrið.

Markmiðið með að bjóða þessum ungmennum gistingu í heimahúsum er að gefa þeim tækifæri til að taka þátt í lífi fjölskyldu og kynnast þannig íslenskri menningu og tungu. Heimagisting fyrir nemendur SIT skólans hefur verið í boði síðan 2012 og gefist mjög vel.

bryndis@bb.is

Ráðleggur fólki að halda sig fjarri skemmtiferðaskipum

Svartolíuský á Ísafirði á stórum skemmtiferðaskipadegi. Mynd: Halldór Sveinbjörnsson

„Ekki fara á skemmti­ferðaskip og ekki fara á staði sem mörg slík heim­sækja ef þú glím­ir við heilsu­far­svanda­mál fyr­ir,“ sagði Dr. Axel Friedrich á blaðamannfundi Náttúruverndarsamtaka Íslands í morgun. Samtökin, með aðstoð þýsku nátt­úru­vernd­ar­sam­tak­anna (NABU), stóðu í sumar fyrir mælingum á mengun frá skemmtiferðaskipum í Reykjavík. Greint er frá blaðamannafundinum á vef Morgunblaðsins.

Mæl­ing­ar sem gerðar voru á meng­un sýna að magn ör­smárra agna í út­blæstri skipa var um 200 sinn­um meira en eðli­legt má telj­ast. Loft­gæði í Sunda­höfn verða marg­falt verri en í miðborg­um er­lendra stór­borga á borð við London, þegar skip­in láta vél­ar sín­ar ganga við hafn­ar­bakk­ann.

Friedrich er efna­fræðing­ur og sér­fræðing­ur í út­blást­urs­mál­um og var á meðal vís­inda­manna sem komu upp um svika­myllu þýskra bíla­fram­leiðenda, sem reyndu að fegra töl­ur um út­blást­ur dísel­bíla.

„Loft­meng­un frá dísel­vél­um – örfín­ar agn­ir sem dreifast um lang­ar vega­lengd­ir –  brenni­steinn og köfn­un­ar­efn­isoxíð eru efni sem auka á gróður­húsa­áhrif­in og valda skaða á heilsu fólks,“ sagði Friedrich á fundinum og benti á að þessi efni valda hjarta- og æðasjúk­dóm­um sem og önd­un­ar­færa­sjúk­dóm­um og að sam­kvæmt mati fram­kvæmda­stjórn­ar ESB lát­ist ár­lega um 50 þúsund ein­stak­ling­ar af völd­um loft­meng­un­ar frá skip­um.

„Vél­ar eins og eru um borð í skemmti­ferðaskip­un­um fengju ekki starfs­leyfi á landi og það er hneyksli að skipa­fyr­ir­tæki kom­ist upp með að menga jafn­mikið og raun ber vitni,“ sagði Friedrich og bætti við að fyr­ir hendi séu tækni­lausn­ir sem dugi vel til að leysa þenn­an vanda.

smari@bb.is

Fiskur er framtíðin

Mikil umfjöllun hefur átt sér stað á undanförnum mánuðum um uppbyggingu fiskeldis hér á Íslandi, enda eðlilegt að þegar nýjar atvinnugreinar ryðja sér til rúms takast á ólík sjónarmið og ekki allir á eitt sáttir um hvernig standa skuli að uppbyggingunni. Fiskeldi í sjókvíum er þó ekki nýtt af nálinni hér á landi, en áform um mikla aukningu hafa legið fyrir.

Vegna mikillar fólksfjölgunar í heiminum hefur neysla á fiski og hverskyns sjávarfangi aukist mikið á síðustu árum. Þessari aukningu hefur að stærstum hluta verið mætt með fiskeldi, enda villtir stofnar að mestu fullnýttir.

Enginn vafi liggur á því að fiskeldi er framtíðin, en spurningin er hvort að við Íslendingar ætlum að taka þátt í framleiðslunni. Frá árinu 1988 hafa almennar fiskveiðar verið nokkuð stöðugar, þegar þær fóru upp í tæp 90 milljón tonn, eftir að hafa aukist sífellt ár frá ári með aukinni eftirspurn og tækni í fiskveiðum. Frá 1988 til dagsins í dag hafa veiðar verið rétt undir 100 milljónum tonna, en eldi á sjávarfangi hefur hins vegar aukist gríðarlega frá árinu 1988, þegar eldi á sjávarfangi var ekki nema rétt rúmlega 15 milljónir tonna.

Árið 2014 hafði hinsvegar orðið viðsnúningur á þessu, en þá fór framleitt magn úr eldi yfir 100 milljónir tonna og bendir allt til þess að aukning verði áfram á næstu árum (FAO, 2017).

Ástæðan fyrir því að ég ákvað að skrifa þessa grein, er sú að lítið hefur komið fram um skoðanir ungs fólks á þessu máli og þá sérstaklega ungs fólks á Vestfjörðum, þar sem áform hafa legið fyrir um mikla aukningu í fiskeldi í sjó. Uppbygging fiskeldis skiptir okkur Vestfirðinga gríðarlega miklu máli og óhætt er að segja að niðurstöður Hafrannsóknastofnunar um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi séu gríðarleg vonbrigði. Í niðurstöðum stofnunarinnar kemur fram að möguleg erfðablöndun verði á villtum laxastofnum í Laugardalsá, Hvannadalsá/Langadalsá í Ísafjarðardjúpi og Breiðdalsá í Breiðdalsvík. Af þessum ástæðum er lagt til að ekki verði leyft eldi í Ísafjarðardjúpi vegna mögulegra neikvæðra áhrifa á villta laxastofna í Djúpinu. En skiptir möguleg erfðablöndun það miklu máli, að koma á í veg fyrir þessa miklu atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum?

Halldór Jónsson skrifaði grein á vefsíðu Morgunblaðsins 2. ágúst síðastliðinn um fjárhagslega hagsmuni laxveiðiáa í Ísafjarðardjúpi þar sem tekjur af umræddum þremur ám í Ísafjarðardjúpi séu í besta falli 20-25 milljónir á ári og ekkert starf skapast á Vestfjörðum vegna þessarar starfsemi, svo vitað sé. Í skýrslu Byggðastofnunar kemur fram að ef fram­leidd eru 40.000 tonn af eld­is­fiski á ári hafi það í för með sér í kring­um 520 bein störf og um leið 416 af­leidd störf. Sam­tals geti þá 2.246 íbú­ar byggt af­komu sína frá slíku fisk­eldi sam­kvæmt út­reikn­ing­um Byggðastofn­un­ar. Útflutn­ings­verðmæti 40.000 tonn fisk­eldisaf­urða gætu orðið allt að 38,7 millj­arðar, eft­ir kílóverði hverju sinni. Jafnframt er fiskeldi ein umhverfisvænasta próteinframleiðsla sem við þekkjum. Sem dæmi má nefna að fóðurstuðull landdýra er mun hærri en sjávardýra, en fóðurstuðull er fóðurinntaka deilt með þyngdaraukningu hvers dags. Gefa þarf nautgripum til að mynda um 8 kílógrömm af fóðri og um 30 lítra af vatni til þess að stækka um eitt kílógramm, fyrir utan gríðarlegt pláss af landi og mikils magns af metani sem nautgripin skila frá sér. Fóðurstuðull laxa (Atlantic Salmon) er ekki nema 1,3 sem gerir 1,3 kílógrömm af fóðri til þess að hann stækki um 1 kílógramm. Önnur landdýr eins og svín hafa fóðurstuðulinn 3 og alifuglar 2 ,sem er einnig mun meira en í laxi. Það verður að horfast í augu við það að framleiðsla á matvælum mun alltaf hafa áhrif. Áskorun okkar er að meta kosti og galla framleiðslunnar og leita leiða til að lágmarka neikvæð áhrif.

Frá árinu 1991, sem er árið sem ég fæddist, hefur verið stöðug fólksfækkun á Vestfjörðum með nokkrum undantekningum. Núna er kominn tími til þess að snúa við blaðinu og fjölga íbúum, fá fleiri tækifæri og meiri uppbyggingu á Vestfjörðum með fiskeldi. Til þess þurfum við Vestfirðingar að standa saman.

Freysteinn Nonni Mánason, sjávarútvegsfræðingur

Ísafjarðarbær opnar bókhaldið

Ísafjarðarbær hefur nú opnað bókhald sitt upp á gátt í samræmi við nútíma stjórnunarhætti opinberra aðila. Opnað hefur verið fyrir vefsíðu sem heldur utan um og birtir fjárhagsupplýsingar sveitarfélagsins og er tilgangur hennar að svara þar með spurningunum „hvaðan koma peningarnir?“ og „hvert fara þeir?“. Notendur vefjarins fá myndræna, skilvirka og einfalda framsetningu þar sem auðvelt er að fá yfirsýn og svör við helstu spurningum. Þessi vefsíða var unnin í samvinnu við Wise lausnir og mun verða í stöðugri þróun hjá sveitarfélagahópi fyrirtækisins.

Kerfið er hannað í Navision og notast við vöruhús gagna og Microsoft Power BI. Upplýsingarnar eru sóttar beint í bókhaldskerfi Ísafjarðarbæjar og uppfærast jafn óðum. Vefsíðan skiptist í fjórar síður þar sem hægt er að grafa sig niður og sækja ítarlegar upplýsingar. Fyrsta síðan sýnir yfirlit yfir gjöld sem brotin eru niður á svið, þjónustuþætti, einstaka gjaldaliði og lánadrottna. Önnur síðan gefur upplýsingar um þá lánadrottna sem skipt hefur verið við og er hægt að skoða þær eftir sviðum og deildum. Á þriðju síðunni má sjá yfirlit yfir hvert peningarnir fara hjá völdu sviði og eru annars vegar skífurit sem sýna skiptingu gjalda í þjónustuþætti og einstaka gjaldaliði og hins vegar súlurit sem sýnir mánaðarlega kostnaðarskiptingu. Fjórða síðan er eins og þriðja síðan nema hún sýnir hvaðan peningarnir koma.

Á öllum síðunum eru tímasíur og því hægt að skoða upplýsingar aftur í tímann. Þegar núverandi ár er skoðað er um að ræða óendurskoðaðar fjárhæðir og miðast þær við þarsíðustu mánaðamót hverju sinni. Fjárhæðir birtra mánaða núverandi árs geta breyst eftir að þær birtast eftir því sem reikningar berast og leiðréttingar eru gerðar. Hægt er að skoða gögnin aftur til ársins 2010 og er þá um að ræða endurskoðaðar og endanlegar fjárhagsupplýsingar.

Hægt er að takmarka val sitt við nokkra þætti í stað allra og skal þá nota „ctrl“ til að velja viðkomandi þætti. Til að hreinsa val er ýtt á strokleðrið fyrir ofan valgluggana.

smari@bb.is

Mikil mengun frá skemmtiferðaskipum

MSC Priziosa við akkeri í Skutulsfirði.

Örsmáar agnir í útblæstri skemmtiferðaskipa voru um 200 sinnum fleiri en eðlilegt má teljast, samkvæmt mælingum sem Náttúruverndarsamtök Íslands hafa undanfarna daga gert með aðstoð þýsku náttúruverndarsamtakanna Nature and Biodiversity Union. Samtökin telja að gera þurfi kröfu um hreinsibúnað í þessum skipum, eins og er í bílum. Mælingarnar fóru fram í Reykjavík.

Í tilkynningu frá Náttúruverndarsamtökum Íslands er bent á að sótagnir sem myndist við ófullkominn bruna svartolíu, ýti mjög undir gróðurhúsaáhrif. Því þurfi að grípa til skjótra aðgerða til að koma í veg fyrir bruna svartolíu á Norðurslóðum. Samtökin telja að stjórnvöld ættu a banna losun brennisteins og bruna svartolíu innan íslensku efnahagslögsögunnar.

Haft er eftir Axel Friedrich, sem var vísindalegur ráðgjafi við mælingarnar, að vélar eins og séu um borð á skemmtiferðaskipunum, fengju ekki starfsleyfi á Íslandi.

smari@bb.is

„Afleiðingarnar verða hrun í búgreininni“

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps lýsir yfir miklum áhyggjum vegna boðaðra lækkana á verði til sauðfjárbænda í komandi sláturtíð. Verði boðaðar verðlækkanir á afurðaverði til sauðfjárbænda nú í haust  að veruleika, er rekstrargrundvöllur sauðfjárbúa í landinu algerlega brostinn að mati sveitarstjórnarinnar. „Afleiðingarnar verða hrun í búgreininni og í framhaldi af því stórfelld byggðaröskun. Sauðfjárrækt er ein af undirstöðum byggðar í Kaldrananeshrepp líkt og öðrum dreifbýlissveitarfélögum landsins og þar af leiðandi hriktir í byggðinni þegar fótum er kippt undan þeirri starfsemi,“ segir í ályktun sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps.

Sauðfjárbúskapur er mikilvæg atvinnugrein í öllum dreifbýlissveitarfélögum landsins og hefur boðuð lækkun á verði til sauðfjárbænda gífurleg áhrif á afkomu heimila í flestum sveitarfélögum á landsbyggðinni

Nú, annað árið í röð standa sauðfjárbændur frammi fyrir verulegri tekjuskerðingu og á komandi hausti af þeirri stærðargráðu að ekkert mun standa eftir af tekjum búanna til greiðslu á launum, þegar kostnaður við framleiðsluna hefur verið greiddur. Laun bænda vegna búrekstrarins verða því engin.  Miklir fjárhagsörðugleikar blasa við, sérstaklega hjá skuldsettum bændum. Kemur tekjuskerðing augljóslega harðast niður á þeim sem nýlega hafa byrjað búskap, sem eru í flestum tilfellum yngstu bændurnir.

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps krefst þess að stjórnvöld, forystumenn bænda, sláturleyfishafar og aðrir hlutaðeigandi hætti samstundis „öllu karpi um hvað sé hverjum að kenna, og fari strax að vinna saman að raunhæfri lausn á þeim alvarlega vanda sem blasir við sauðfjárbændum, sveitarfélögum landsins og þjóðinni allri. Leita þarf lausna án tafar, en drepa ekki málinu á dreif með karpi um orsakir vandans.“

smari@bb.is

Bretta upp ermar og stefna að öflugu starfsári

Tónlistarfélagið stendur fyrir fjölda tónleika í Hömrum á ári hverju.

Nýlega hélt Tónlistarfélag Ísafjarðar aðalfund sinn, þar sem kjörin var ný stjórn og lagðar línurnar fyrir starfsemi félagsins á næstu misserum. Formaður félagsins var kjörinn Steinþór Kristjánsson en aðrir í stjórn eru Guðmundur Grétar Níelsson, Peter Weiss, Sigríður Ragnarsdóttir og Sigrún Pálmadóttir.

Aðalverkefni félagsins hafa ávallt verið rekstur Tónlistarskóla Ísafjarðar og fjölbreytt tónleikahald. Stjórnin vinnur nú að því með bæjaryfirvöldum að rekstur skólans verði framvegis í höndum sveitarfélagsins eins og er í öllum sveitarfélögum landsins utan Reykjavíkur. Vonast er til að því ferli ljúki fyrir næsta starfsár skólans árið 2018-2019. Skólinn og félagið eiga 70 ára afmæli á næsta ári og mun þess verða minnst með veglegum hætti með ýmsum minni og stærri upákomum.

Tónleikahald félagsins hefur ávallt verið öflugt, og fjölbreytt, en af ýmsum ástæðum hefur það verið óvenju dauft síðustu misserin. Nú eru menn að bretta upp ermar og  er stefnt að því að næsta starfsár verði fjölbreytt og spennandi.

Fyrstu tónleikarnir verða laugardaginn 9.september , en þar kemur fram ungur píanóleikari og tónskáld, Tanja Hotz.  Tanja kemur frá Sviss en á uppruna sinn að rekja til Vestfjarða, dóttir tónlistarkonunnar Salbjargar Sveinsdóttur frá Hnífsdal.

Viku síðar, laugardaginn 16. september, heimsækir okkur skemmtihljómsveitin Mandólín, sem er skipuð sjö hljóðflæraleikurum á fjölbreytt hljóðfæri. Þetta eru Alexandra Kjeld, Ástvaldur Traustason, Bjarni Bragi Kjartansson, Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Guðrún Árnadóttir, Martin Kollmar, Óskar Sturluson og Sigríður Ásta Árnadóttir. Mandólín leikur þjóðlög, tangóa, leikhústónlist og annað sem fær hjörtun til að slá örar.

Laugardaginn 7. október verða árlegir minningartónleikar um hjónin Sigríði Jónsdóttur og Ragnar H. Ragnar, sem voru miklir brautryðjendur í ísfirsku tónlistarlífi um áratuga skeið. Þar kemur fram tríóið Sírajón, skipað Ísfirðingnum Önnu Áslaugu Ragnarsdóttur á píano, Einari Jóhannessyni á klarinett og Laufeyju Sigurðardóttur á fiðlu. Á dagskránni verður einkum frönsk tónlist, tengd leikhúsinu.

Í nóvember heimsækir Ísafjörð einn fremsti óperusöngvari Íslendinga af yngri kynslóðinni, tenórinn Elmar Gilbertsson og flytur ljóðasöngva eftir Schumann og óperuaríur ásamt Helgu Bryndísi Magnúsdóttur pianoleikara. Þess má geta að Helga Bryndís á ættir að rekja til Ísafjarðar eins og svo margir íslenskir tónlistarmenn..

Eftir áramót verða ýmsir fleiri tónleikar á dagskránni sem kynntir verða síðar.

Tónlistarfélagið heldur ferna áskriftartónleika á hverju starfsári og verða tónleikar Mandolins og Elmars  fyrstu áskriftartónleikarnir á þessu starfsári.  Tónlistaráhugafólk er hvatt til að skrá sig í félagið með því að hafa samband við formanninn Steinþór Kristjánsson (s.896 0538) eða skrifstofu skólans (s.450 8340).

smari@bb.is

Nýjustu fréttir