Síða 2166

Vilja mengunarmælingar á Ísafirði

Svartolíuský á Ísafirði á stórum skemmtiferðaskipadegi. Mynd: Halldór Sveinbjörnsson

Ekki hefur verið tekin formleg ákvörðun um að fara í mengunarmælingar í og við Ísafjarðarhöfn vegna útblástur skemmtiferðaskipa, en Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, telur líklegt að ráðist verði í þær við fyrsta tækifæri. „Mér heyrist á bæjarfulltrúum og hafnarstjóra að það sé vilji til að fara í þetta,“ segir Gísli Halldór.

Í gær var greint frá mælingum sem Náttúruverndarsamtök Íslands stóðu fyrir á Sundahöfn í Reykjavík þegar skemmtiferðaskip voru í höfn og létu vélar ganga. Loftgæði mældust langtum verri en eðlilegt getur talist. Gísli Halldór segir að mælingarnar muni þá fara fram næsta sumar þar sem skemmtiferðaskipatímabilinu er alveg við það að ljúka á Ísafirði. „Ég tel síðan að Ísland eigi að setja sér markmið og reglur um að draga úr þessari kolefnislosun,“ segir Gísli Halldór.

Mælingarnar í Reykjavík sýna að magn örsmárra agna í útblæstri skipa var um 200 sinnum meira en eðlilegt má teljast.

Á blaðamannafundi í gær lagði Dr. Axel Friedrich, vísindalegur ráðgjafi við mælingarnar, áherslu á þann skaða sem mengun frá skipum getur valdið á heilsu almennings. „Loftmengun frá dísilvélum – örfínar agnir sem dreifast um langar vegalengdir, brennisteinn og köfnunarefnisoxíð – eru efni sem auka á gróðurhúsaáhrfin og valda skaða á heilsu fólks. Þessi efni valda hjarta- og æðasjúkdómum og öndunarfærasjúkdómum.“  Dr. Friedrich benti á að samkvæmt mati framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins látist árlega um 50 þúsund einstaklingar um af völdum loftmengunar frá skipum.

„Vélar eins og eru um borð á skemmtiferðaskipunum myndu ekki fá starfsleyfi á landi og það er hneyksli að skipafyritæki komist upp með að menga jafn mikið og raun ber vitni,” sagði Friedrich, og bætti við að fyrir hendi eru tæknilausnir sem duga vel til að leysa þennan vanda.

Heimilt að taka próf á sjálfskiptan bíl

Samgönguráðuneytið hefur birt drög að breytingu á reglugerð um ökuskírteini.  Breytingarnar snúast meðal annars um að samræma ákvæði reglugerðarinnar við umferðarlög og tilskipun Evrópusambandsins um ökuskírteini.

Meðal annarra breytinga er að heimilt verður að taka ökupróf á sjálfskipta bifreið og eru ökuréttindin þá takmörkuð við slíkan bíl. Áður var aðeins heimilt af heilbrigðisástæðum að taka próf á sjálfskipta bifreið og þá að mati læknis. Þá eru skýrari ákvæði er varða námskeið vegna endurmenntunar atvinnubílstjóra.

Í núgildandi reglugerð er gerð krafa um að unnt sé að taka úr notkun hjálparbúnað, t.d. bakkmyndavélar og veglínuskynjara, þegar kennsla og próf fer fram. Í ljósi þess að hjálparbúnaður í ökutækjum verður stöðugt algengari og fjölbreyttari er óraunhæft og óeðlilegt að gera kröfu um slíkt. Er af þeim sökum lagt til að þegar ökutæki sem notað er við kennslu eða próf er búið sérstökum hjálparbúnaði skuli ökunemi geta útskýrt virkni slíks búnaðar.

Segir sorglegt að efnahags- og félagslegir þættir hafi orðið útundan

Sigurður Ingi Jóhannsson. Mynd: mbl.is / Eggert

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, leggur til leiðir að sætta deilendur í fiskeldismálum. Þorri almennings á norðanverðum Vestfjörðum og allir sveitarstjórnarmenn með tölu hafa lýst yfir megnri óánægju með tillögur starfshóps um stefnumótun í fiskeldi þar sem lagt er til að farið verði eftir áliti Hafrannsóknastofnunar um að loka Ísafjarðardjúpi fyrir laxeldi. Í grein Sigurðar Inga í Morgunblaðinu í dag segir hann að það sé „sorglegt til þess að vita að starfshópurinn hafi ekki geta komið sér saman um að taka tillit til mótvægisaðgerða,“ þegar fjallað var um áhættu af slysasleppingum og erfðablöndun. Sigurður leggur tvennt til. Í fyrsta lagi að bestu mögulegu tækni verði beitt til að hindra för sleppifiska upp í ár og bendir hann á að íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sé að þróa slíka tækni. Þá leggur hann einnig til að áhættumat Hafrannsóknastofnunar fái alþjóðlega rýni áður en það er lagt til grundvallar ákvarðanatöku í málinu.

Í greininni skrifar Sigurður Ingi:

„Það er sorglegt til þess að vita að ekki hafi verið gerð nein tilraun til þess að meta hin efnahags- og félagslegu áhrif af laxeldi í sjó, en á sama tíma er markmið skýrslunnar að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Það er tómt mál að tala um sjálfbært fiskeldi og ná sátt um greinina án þess að meta alla þrjá þættina.“

smari@bb.is

Kerecis á málþingi varnarmálaráðuneytisins

Ísfirska fyrirtækið Kerecis tekur nú þátt rannsóknarmálþingi varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna (MHSRS). Á ráðstefnunni kynnti fyrirtækið niðurstöður tveggja stórra rannsókna sem fjármagnaðar eru af bandaríska hernum. Fyrirtækið kynnti niðurstöður brunasárarannsóknar þar sem að þau prófa vöruna sína á brunasárum sem ná niður í hold. „Niðurstöðurnar voru afskaplega jákvæðar og færa okkur nær því að selja bandaríska hernum sáraroð til notkunar á átakasvæðum. Steve Jeffery ofursti og brunalæknir í breska hernum kynnti niðurstöðurnar,“ segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Kerecis, í tilkynningu frá fyrirtækinu. Kerecis kynnti einnig niðurstöður heilabastrannsóknar. Heilabast er þunnur vefur milli heila og höfuðkúpu.

Málþingið er samkomustaður herlækna og hjúkrunarfræðinga, vísindamanna varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, háskólafólks og einkageirans til að skiptast á upplýsingum um rannsóknir og þróun á heilbrigðislausnum fyrir hermenn.

smari@bb.is

Segir Þorgerði Katrínu sýna léttúð og fullkomið úrræðaleysi

Haraldur Benediktsson er 1. þingmaður NV-kjördæmis og fyrrverandi formaður Bændasamtakanna.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, segir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðarráðherra taki vanda sauðfjárbænda af mikilli léttúð. Þetta kemur fram í viðtali við Harald í blaðinu Vesturland. „Ástandið núna er mesta vá sem við höfum séð í sauðfjárrækt í langan tíma. Það sem hryggir mig mest er hvað menn hafa tekið þessu af mikilli léttúð, og sérstaklega landbúnaðarráðherra,“ segir Haraldur og bætir við: „En, að mæta þessu af svona léttúð sem mér hefur fundist ráðherrann gera, ber vott um fullkomið úrræðaleysi og áhugaleysi á að takast á við starfið sitt.“

Hann segir að það sé vitað að bændur fóru til ráðherra í mars/apríl með upplýsingar um hvert stefndi í sauðfjárbúskapnum. „Þeir báðu hana að beita sér fyrir því að sláturhúsin mættu vinna saman að því að flytja kjöt út á erlenda markaði. Þetta hefði orðið til þess að létta á birgðum. Þeir voru ekkert að biðja um neina eða verulega peninga þarna í upphafi. Það er heldur alls engin lausn í þessum málum að opna hirslur ríkisins og byrja að ausa út fé. Ráðherrann brást við þessu með því að segja við bændur að þeir skyldu spyrja Samkeppniseftirlitið. Það biður svo um upplýsingar sem bændur mega ekki safna. Svona sirkus er öll meðhöndlun á þessu máli búin að vera í allt sumar.“

Aðspurður hvernig hann vill glíma við vandann sem blasir við svarar Haraldur á þessa leið:

„Ég myndi vilja sjá núna að ráðherra lýsti því yfir að hún ætlaði að biðja Ríkisendurskoðun um að greina birgðir, magn þeirra og samsetningu. Greina efnahagsreikninga sláturhúsa og láta leggja mat á mögulegar hagræðingaraðgerðir.  Þá verður ráðherra að segja í fyrsta lagi: „Ég mun standa í því að hjálpa ykkur að leysa þennan birgðavanda þannig að hann verði orðinn ásættanlegur í upphafi næstu sláturvertíðar 2018.“ Þá verður ráðherra líka að segja: „Ef ég á að lýsa þessu yfir, að ég muni vilja vinna að lausn birgðamála eða koma birgðum í viðunandi horf fyrir 2018, þá verða sláturleyfishafarnir núna að hafa þor til að endurskoða þessa verðlista sem nú er búið að gefa út. Draga lækkanir að stóru hluta til baka.“

smari@bb.is

Fjárréttir á Vestfjörðum

Á leið í réttirnar

Nú líður að haustverkum og í september smala bændur fjöll og firnindi. Það eru bændur á Ströndum sem ríða á vaðið með réttum í Skeljavíkurrétt þann 8. september og síðasti auglýsti réttadagur er 1. október á Barðaströnd.

Lista yfir réttir á landinu má nálgast á vef Bændablaðsins en hér að neðan eru réttardagar Vestfjarða. Bændablaðið setur þó þann fyrirvara að náttúruöflin geta sett allt úr skorðum og svo geta villur slæðst með.

Skeljavíkurrétt í Steingrímsfirði, Strand. föstudaginn 8. sept. kl. 16.00

Eyrarrétt á Eyri í Kollafirði, Reykhólahrepp, A-Barð. laugardaginn 9. sept.

Staðarrétt í Steingrímsfirði, Strand. sunnudaginn 10. sept. kl. 14.00

 

Melarétt í Árneshreppi, Strand. laugardaginn 16. sept. kl. 16.00

Minni-Hlíð í Hlíðardal laugardaginn 16. sept. kl. 14.00

Syðridalsrétt í Bolungarvík laugardaginn 16. sept. kl. 14.00

Broddanes, Strand. sunnudaginn 17. sept. kl. 16.00

Kirkjubólsrétt í Steingrímsfirði, Strand. sunnudaginn 17. sept. kl. 14.00

 

Grundarrétt í Reykhólahreppi, A-Barð. föstudaginn 22. sept.

Arnardalsrétt í Arnardal í Skutulsfirði laugardaginn 23. sept.

Hjarðardalsrétt í Hjarðardal í Dýrafirði laugardaginn 23. sept.

Hraunsrétt við Hraun í Hnífsdal í Skutulsfirði laugardaginn 23. sept.

Kirkjubólsrétt við Kirkjuból í Engidal í Skutulsfirði laugardaginn 23. sept.

Kjósarrétt í Árneshreppi, Strand. laugardaginn 23. sept. kl. 14.00

Króksfjarðarnesrétt í Reykhólasv., A-Barð. laugardaginn 23. sept.

Skarðsrétt í Bjarnarfirði, Strand. laugardaginn 23. sept.

Traðarrétt við Tröð í Bjarnardal í Önundarfirði laugardaginn 23. sept.

Kinnarstaðarrétt í Reykhólahr., A-Barð. sunnudaginn 24. sept.

 

Innri-Múlarétt á Barðaströnd, V.-Barð. sunnudaginn 1. okt. kl. 14.00

bryndis@bb.is

Alþingi höggvi á hnútinn með lögum

Utanverður Teigsskógur.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar skorar á Alþingi að beita lagasetningu nú þegar til að höggva á þann hnút sem staða vegalagningar um Vestfjarðaveg 60 er í, oftast nefnd vegagerð í Teigsskógi. Í ályktun bæjarstjórnar segir að það sé ekki samboðið nútímasamfélagi að standa í vegi fyrir uppbyggingu atvinnulífs í heilum landsfjórðungi.

Staða málsins í dag er að Reykhólahreppur þarf að koma nýjum veglínum inn á aðalskipulag, en breytingar á aðalskipulagi taka minnst sex mánuði. Við breytingarnar og útgáfu framkvæmdaleyfis þarf hreppurinn að taka afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um vegalagningu í Teigsskógi, en í áliti stofnunarinnar á umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar var lagst gegn framkvæmdum í Teigsskógi. Aðalskipulag tekur ekki gildi nema með samþykki Skipulagsstofnunar og ekki er hægt að veita framkvæmdaleyfi nema það sé í samræmi við skipulag.

smari@bb.is

Langflestir ánægðir með sumarveðrið

Heldur færri Íslendingar voru ánægðir með sumarveðrið í ár á Íslandi heldur en síðasta sumar, eða 70%. Eins sögðust 86% Íslendinga ánægðir með sumarfríið sitt í könnun MMR sem er ekki mikil breyting frá árinu áður.

Síðasta sumar mældist ánægjan með sumarveðrið 94% og þá sögðust 89% Íslendinga vera ánægðir með sumarrfríið sitt.

Þegar ánægjan með sumarveðrið var skoðuð eftir landshlutum kom í ljós að íbúar á Norðvestur- og Vesturlandi voru ánægðastir með veðrið í sumar, eða 83,5%. Þar á eftir voru íbúar á Norðaustur- og Austurlandi, þar sem 82,6% íbúa voru ánægðir með sumarveðrið. 70,1% íbúa Reykjavíkur voru svo ánægðir með veðrið á Íslandi í sumar. Þeir sem voru síst ánægðir voru íbúar í nágrenni Reykjavíkur (64,4%) og Suðurlands (59,1%).

Þróun á afstöðu Íslendinga frá árinu 2010 til 2016 sýndi að ánægja með sumarveðrið var yfirburða mikil árin 2010 og 2016, þegar 95% (árið 2010) og 94% (árið 2016) sögðust vera ánægðir með veðrið það sumarið. Lægst var þó ánægjan árið 2013 en þá voru einungis 44% Íslendinga ánægðir með veðrið.

Þrátt fyrir mikla sveiflu í ánægju á sumarveðri á milli ára þá hefur ánægja fólks með sumarfríið sitt haldist nokkuð stöðug. Frá því að mælingar hófust árið 2010 hefur ánægja Íslendinga með sumarfríið sitt flöktað á bilinu 86% til 91%.

smari@bb.is

40 ár frá stofnun Orkubús Vestfjarða

Þann 26. ágúst síðastliðinn voru liðin 40 ár frá því að samningur um stofnun Orkubús Vestfjarða var undirritaður í Gagnfræðaskólanum á Ísafirði en fyrirtækið tók svo til starfa um áramótin 1977 – 78. Þetta kemur fram í 34. tbl. Bæjarins besta árið 1997 en blaðið er nú aðgengilegt á vef bb.is.

Það var fleira skemmtilegt í fréttum í lok ágúst árið 1997, margt kunnuglegt og gæti verið sagt í dag. Umhverfisráðherra kynnir sér yfirstandandi framkvæmdir við ofanflóðavarnir og umræða um Vestfirði er neikvæðari en efni standa til segir í frétt um heimsókn fjárlaganefndar á Vestfirði. Samgöngumálinu voru þá sem nú Vestfirðingum hugleikin. Erfitt var að manna Grunnskóla Ísafjarðar og 30% kennara leiðbeinendur, nú eru 50% kennara í Grunnskóla Flateyrar án kennsluréttinda.

Í Framhaldsskóla Vestfjarða hefja 270 nemendur nám haustið 1997, í ár eru nemendur Menntaskólans á Ísafirði 254.

bryndis@bb.is

Skattbyrði þeirra tekjulægstu aukist mest

Samkvæmt nýrri skýrslu hagdeildar ASÍ um þróun á skattbyrði launafólks hefur skattbyrði aukist í öllum tekjuhópum á tímabilinu frá 1998-2016 en aukningin er langmest hjá þeim tekjulægstu. Þegar skoðað er samspil tekjuskatts, útsvars og persónuafsláttar auk barna- og vaxtabóta hefur t.d. skattbyrði para á lágmarkslaunum með tvö börn og lágmarks eigið fé í húsnæði (20%) í heildina aukist um 21 prósentustig á umræddu tímabili. Munurinn á skattbyrði tekjulægstu hópanna og þeirra tekjuhærri hefur því minnkað og dregið hefur úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Kaupmáttaraukning síðustu ára hefur þannig síður skilað sér til launafólks með lægri tekjur en þeirra tekjuhærri vegna vaxandi skattbyrði.

Þessa þróun rekur ASÍ einkum rekja til þess að:

  • Persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun sem hefur aukið skattbyrði lægri launa mest.
  • Stuðningur vaxtabótakerfisins hefur minnkað verulega á tímabilinu og fækkað í þeim hópi sem fær greiddar vaxtabætur vegna tekju og eignaskerðinga. Tekjulágt barnafólk með lágmarks eigið fé (20%) í húsnæði sínu fær í dag lítinn sem engan stuðning í gegnum vaxtabótakerfið.
  • Íslenska barnabótakerfið er veikt og dregur eingöngu úr skattbyrði einstæðra foreldra og allra tekjulægstu para. Pör með börn sem hafa tekjur við neðri fjórðungsmörk fá nánast enga skattaívilnun vegna framfærslu barna og hafa því nánast sömu skattbyrði og þeir sem engin börn hafa á framfæri.
  • Húsaleigubótakerfið hefur þróast með sama hætti og önnur tilfærslukerfi og því hefur dregið úr stuðningi við launafólk á leigumarkaði. Nýtt húsnæðisbótakerfi bætir nokkuð hag láglauna einstaklinga og einstæðra foreldra á leigumarkaði en láglauna pör fá eftir sem áður lítinn eða engan stuðning vegna leigukostnaðar.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir