Síða 2165

Fiskeldið hefur þegar haft mikil áhrif

Frá Tálknafirði.

Fiskeldi hefur þegar haft mikil áhrif á sunnanverðum Vestfjörðum, í sveitarfélögum sem áður höfðu háð þunga varnarbaráttu. Komi til aukins fiskeldis mun það leiða til verulegrar fólksfjölgunar í viðkomandi byggðum sem aftur kallar á afleiddar framkvæmdir s.s. íbúðabyggingar og til styrkingar innviða. Um þetta er fjallað í nýrri skýrslu þróunarsviðs Byggðastofnunar um byggðaleg áhrif fiskeldis. Í Tálknafjarðarhreppi byggja 16 fjölskyldur afkomu sína á fiskeldi, að því er segir í skýrslunni. Níu af þeim eru með samtals 19 börn á grunnskólaaldri en í leik- og grunnskóla Tálknafjarðar eru samtals 56 börn. Í Tálknafjarðarhreppi byggja 16 fjölskyldur afkomu sína á fiskeldi, að því er segir í skýrslunni. Níu af þeim eru með samtals 19 börn á grunnskólaaldri en í leik- og grunnskóla Tálknafjarðar eru samtals 56 börn. Í sveitarfélaginu er fyrirhugað að byggja upp hitaveitu sem lækka mun húshitunarkostnað á staðnum.

Fiskvinnsla Þórsbergs ehf. á Tálknafirði lokaði haustið 2015 og töpuðust við það yfir 40 störf. Hefði laxeldið ekki komið til væri staða sveitarfélagsins mun lakari en hún er. Í Vesturbyggð er atvinnustig nokkuð hátt og störfum hefur fjölgað mikið en í stærsta fiskeldisfyrirtækinu í Vesturbyggð starfa nú um 100 manns. Um er að ræða fjölbreytt störf, heilsársstörf bæði á sjó og í landi. Í skýrslunni er sérstaklega tekið fram að störfum háskólamenntaðra, kvenna og störfum millistjórnenda hefur fjölgað.

Í skýrslunni er rakið að Vestfirðir hafa búið við mikla fólksfækkun undanfarin ár og áratugi. Framundan eru miklar breytingar á norðan- og sunnanverðum Vestfjörðum, gangi áætlanir um um sjókvíaeldi eftir, og skýrsluhöfundar segja að í raun fari svæðin þá úr nokkuð samfelldu samdráttarferli í uppbyggingar- og þensluferli með umtalsverðri fjölgun íbúa, byggingu íbúðarhúsnæðis og annarri uppbyggingu sem fylgir fólksfjölgun og breyttri aldurssamsetningu. Hvar áhrifin verða mest ræðst að miklu leyti af því hvar helstu starfsstöðvar fyrirtækjanna verða. Í þessu ferli mun reyna mikið á stjórnsýslu og innviði sveitarfélaganna á svæðinu. Að mati skýrsluhöfunda er stærsta áskorunin á Vestfjörðum að útvega nægilegt íbúðarhúsnæði handa nýjum íbúum og halda uppi þjónustustigi.

smari@bb.is

Ekkert málningarveður í dag

Það er ekkert í málningarveður í kortunum í dag, það spáir norðaustan 3-8 og rigningu og 10-15 á annesjum, en yfirleitt 3-10 m/s á morgun. Rigning með köflum og hiti 7 til 13 stig.

Fyrir landið er spáin svona:

Suðaustan og austan 8-13 m/s en hægari vestlæg átt vestantil á morgun. Rigning með köflum eða skúrir en lengst af samfelld úrkoma SA-til . Hvessir heldur vestantil annað kvöld en dregur úr vindi um landið austanvert. Hiti yfirleitt 10 til 15 stig en heldur svalara á morgun.

bryndis@bb.is

Fjögur lið berjast um að halda sér í deildinni

Myndin er ekki frá leiknum.

Horfur Vestra í 2. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu vænkuðust ekki um helgina. Á laugardag átti liðið fyrir höndum erfiðan útileik gegn Njarðvíkingum sem sitja í toppsæti deildarinnar. Eftir stundafjórðungs leik voru Suðurnesjamennirnir komnir með tveggja marka forystu og skoraði Kenneth Hogg bæði mörkin. Birkir Freyr Sigurðsson kom Njarðvík í 3-0 í upphafi seinni hálfleiks, en stuttu síðar minnkaði Pétur Bjarnason muninn. Eftir það voru fleiri mörk ekki skoruð og lokatölur 3-1 fyrir Njarðvík.

Eftir leikinn er Vestri með í 8. sæti deildarinnar með 21 stig, sama stigafjölda og KV, Höttur og Fjarðabyggð. Liðin fjögur berjast um að halda sér frá fallinu, en lið Sindra er þegar fallið í 3. deild.

Síðustu þrír leikir Vestra eru:

Heimaleikur gegn Aftureldingu laugardaginn 9. september.

Útileikur gegn Magna laugardaginn 16. september.

Heimaleikur gegn Hetti laugardaginn 23. september.

smari@bb.is

Aflahæstu árnar

Laugardalsá

Á angling.is má nú sjá veiðitölur í aflahæstu ám sumarsins og þar trónir Ytri-Rangá og Hólsá á toppnum með 4.582 laxa á land en þar er stangafjöldi á dag 18 stangir en um Ytri Rangá segir á þessum sama vef:

„Í Ytri Ranga eru skilyrði fyrir sjálfbæran laxastofn, en mjög fáliðaðan og bundinn við svæðið hjá Rangárflúðum. Talið var gott ef þar fengust 50 laxar yfir sumarið. Nú hefur þetta gjörbreyst eftir að farið var að sleppa miklu af gönguseiðum í árnar upp úr 1990. Best var veiðin 2008, en þá fengust 14.315 laxar í Ytri Rangá. Það er langmesti afli, sem vitað er til að veiðst hafi á stöng í einni á hérlendis til þessa.“

Miðfjarðará er önnur aflahæst með 2.937 laxa og 10 stangir á dag en í þriðja sæti er Þverá + Kjarará með 1.890 laxa og 14 stangir. Á hælana á Miðfjarðará er Eystri-Rangá með 1.773 laxa á 18 stöngum. Ekki er um sjálfbæran laxastofn að ræða í Eystri Rangá en með sleppingum sjógöngseiða hefur þó tekist að ná upp góðum laxagöngum.

Laugardalsá hefur gefið 144 laxa á land.  En um Laugardalsá segir á vef angling.is „Þarna er eitt besta dæmið um vel heppnaða fiskrækt hérlendis, en áin var fisklaus allt til að fiskvegur var sprengdur í Einarsfoss. Meðalveiði er 315 fiskar á ári 1974 til 2008, minnst 111 laxar 1996, en mest 703 laxar 1978. Auk laxveiðinnar má fá staðbundinn urriða og bleikju í vötnunum.“

bryndis@bb.is

Saga einleikja er komin út

Okkar eigin einleikari Elfar Logi Hannesson lauk í vikunni fjármögnun á útgáfu á einstakri bók um einleikjasögu Íslands. Í dag fékk hann svo í hús nokkra kassa af bókinni og stendur nú yfir dreifing á henni í verslanir og afgreiðsla á fyrirframpöntunum.

Á vef Kómedíuleikhússins segir að Einleikjasaga Íslands sé sannarlega einstök bók sem á enga sína líka. Bókin er prýdd fjölda einstakra mynda af einleikurum þjóðarinnar auk þess er þar að finna skrá yfir alla einleiki er settir hafa verið á senu í hinu íslenska atvinnuleikhúsi. Það er ekki heldur á hverjum degi sem íslenskar leikhúsbókmenntir komast á prent. Þessi útgáfa var eins og svo margt annað í listinni heljarinnar langhlaup.

Þeir sem ekki ætla á gamanmyndhátíð á Flateyri, taka ekki þátt í þríþraut Craft og fara ekki að hjóla með Ferðafélagi Ísfirðinga, geta sest niður með kaffibolla og lesið allt um einleiki á Íslandi alla helgina.

bryndis@bb.is

Vantar ungbarnahúfur

Vesturafl útbýr pakka af ungbarnafötum fyrir Rauða krossinn sem sent er til Hvíta Rússlands. í hverjum pakka er teppi, lak, handklæði, peysur, buxur, samfellur, sokkar. húfur.

Í pakkana fara notuð vel með farin föt og á vegum Vesturafls eru nokkrar duglegar konur sem prjóna og hekla teppi og peysur. En núna vantar prjónaða eða heklaða sokkar og svo húfur til að geta lokað pökkunum.

Vesturafl auglýsir því eftir lipru prjónafólki sem vill prjóna bæði sokka og húfur en Vesturafl útvegar garnið. Vesturafl er nú til húsa við Suðurgötu, þar sem Nytjamarkaðurinn er.

bryndis@bb.is

Krummi krunkar úti, kallar á nafna sinn

Þannig er að undanfarnar vikur hafa menn varla séð hrafn hér um slóðir. En nú bregður allt í einu svo við að hann er í stórhópum út um allt hér í Vestfirsku Ölpunum. Það virðast standa yfir hrafnþing víða hér í dölum. Krummi gamli er jafnvel hundruðum saman í hópum. Þetta er svakalegt.

Frú Guðrún á Eyri sá kannski ekki hundruð hrafna á þingi á Hrafnseyrardal í gær, en alla vega voru þeir öðru hvoru megin við hundrað. Á Kirkjubólsdal sást slíkur fjöldi að maður þorir varla að nefna neina tölu. Og í Lambadal og Haukadal! Svona er þetta bara.

Þeir ættu að senda hrafnaveiðimenn hingað vestur úr Reykjavíkinni. Krummi ku nefnilega vera á válista á Faxaflóasvæðinu var sagt í fréttum um daginn. Það má alveg fækka hér  um nokkur hundruð stykki. Það gæti verið gott dæmi um hvernig sauðfjárbændur og liðið í krummaskuðunum getur hjálpað „þeim þarna fyrir sunnan“.

Það væri fróðlegt að vita hvað er á dagskrá á hrafnaþingunum í dag. Varla eru þeir að skipta sér niður á bæina svona snemma. En tveir eru á hverjum bæ yfirleitt á vetrin sem kunnugt er. Þórarinn heitinn bóndi á Höfða hefði ekki verið í vandræðum með að fræða okkur um þetta, því hann skildi hrafnamál. Skal birta hér eina frásögn á eftir því til sönnunar.

Þórarinn á Höfða skildi hrafnamál!

Þórarinn Sighvatsson, bóndi á Höfða í Mýrahreppi Dýrafirði, var einn af þeim mönnum sem setti svip á samtíð sína. Auk þess að vera einhver mesti dugnaðarbóndi þar um slóðir, var Þórarinn með orðheppnustu mönnum sinnar tíðar. Átti hann ekki langt að sækja það til Sighvatar Borgfirðings, forföður síns.

Nú var það einn góðan veðurdag að þeir Brekkubændur í Þingeyrarhreppi í Dýrafirði, Guðmundur Sören Magnússon, Sigurjón G. Jónasson frá Lokinhömrum og Hallgrímur Sveinsson, brugðu undir sig betri fætinum. Heimsóttu þeir Þórarin bónda á Höfða til að ræða við hann um landsins gagn og nauðsynjar. Þegar þeir koma í hlað var Þórarinn bóndi úti við. Þeir taka tal saman. Í því flugu nokkrir hrafnar yfir og settust sumir á staura á hlaðinu og krunkuðu.

Hallgrímur tók þá svo til orða:

„Er það satt sem ég heyri, Þórarinn, að þú skiljir hrafnamál?“

„Ég skal nú ekkert um það segja. En oft koma þeir og segja mér fréttir, jafnvel úr Önundarfirði og víðar að. Og mannslát hafa þeir stundum sagt mér.“ Í því flugu tveir svartir yfir með krunki.

„Hvaðan koma þessir og hvað eru þeir að segja þér?“, spyr þá Sigurjón Lokinhamrabóndi.

„Þessir! Það er nú ekkert að marka þá. Þetta eru Brekkuhrafnarnir!“.

Hallgrímur Sveinsson

G. Valdimar sækist eftir embætti stjórnarformanns

G. Valdimar Valdemarsson

G. Valdimar Valdemarsson oddviti Bjartrar framtíðar í Norðvesturkjördæmi býður sig fram í embætti stjórnarformanns á ársfundi Bjartrar framtíðar sem haldinn er á morgun. Í fréttatilkynningu frá flokknum kemur fram að Óttar Proppé bjóði sig fram í embætti formanns og ef ekki bætast við frambjóðendur verður hann sjálfkjörin.

Eins og er stendur valið í stjórnarformannsembættið milli G. Valdimars og Guðlaugar Kristjánsdóttur oddvita Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði en framboðsfrestur rennur ekki út fyrr í en í upphafi fundar svo enn gæti bæst við frambjóðendur.

bryndis@bb.is

Útivistarreglur breytast 1. september

Lögreglan á Vestfjörðum sendir úr áríðandi skilaboð til foreldra.

„Upp er runnin 1. september og þá breytast tímamörkin er varðar útivistarreglurnar. Mikilvægt er að börn og foreldrar þeirra hafi í heiðri þessar reglur. Hvíld og svefn eru mikilvægir þættir ekki síst hjá ungu fólki. Reglur þessar miðast m.a. við það. Þá er ungu fólki holt að læra að fara eftir reglum og foreldrar gegna mikilvægu leiðbeinenda- og fyrirmyndarhlutverki í því sambandi.“

bryndis@bb.is

Björgunarbátar verða að losna ef skipum hvolfir

Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakað atburðarrásina þegar Brekkunes ÍS 110 hvolfdi í maí 2016 með þeim afleiðingum að skipstjórinn Eðvarð Örn Kristinsson fórst.

Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að gúmmíbjörgunarbátur hafi ekki losnað frá bátnum eftir að honum hvolfdi né þegar hann var dreginn í land.

Nefndin telur líklegast að báturinn hafi fengið á sig straumhnút og sjó sem leiddi til þess að honum hvolfdi. Nefndin telur að aðstæður hafi verið vanmetnar bæði hvað varðar sjólag og sigldan hraða.

Nefndin telur óásættanlegt að gúmmíbjörgunarbátar losni ekki frá skipum ef þeim hvolfir. Í ljósi fleiri atvika af þessu tagi ítrekar nefndin tillögu í öryggisátt í máli nr. 07215 sem send var Samgöngustofu 20. febrúar 2017 sem er eftirfarandi:

„Að þegar verði hafin endurskoðun á reglum um losunar- og sjósetningarbúnað um borð í íslenskum skipum og heildarúttekt á þeim búnaði sem er í notkun í dag. Þar verði skoðað sérstaklega hvort núverandi búnaður sé að skila björgunarförum á þann hátt sem til er ætlast. Nefndin telur nauðsynlegt að búnaðurinn sé þannig gerður að gúmmíbjörgunarbátar losni frá skipum ef þeim hvolfir óháð stærð þeirra.“

Bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir