Síða 2164

Ætlar að fylgjast með útblæstri skipa

Skemmtiferðaskip sigla í auknum mæli til Ísland og á norðurslóðir.

Mengun frá skemmtiferðaskipum hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu og af þeim sökum hefur Umhverfisstofnun áréttað hvaða reglur gilda um brennisteinsinnhald skipaeldsneytis við mismunandi aðstæður. Skipaeldsneyti, sem skiptist í þrjá megin flokka, þ.e. svartolíu, skipadísilolíu og skipagasolíu, inniheldur mismikið af brennisteini. Mest er af honum í svartolíu en minnst í skipagasolíu. Vegna brennisteinsinnihaldsins losna brennisteinsoxíð við bruna á skipaeldsneyti og veldur það mengun í andrúmslofti. Til þess að draga úr þessari mengun hafa verið settar takmarkanir á því hvert brennisteinsinnihald skipaeldsneytis má vera og það sama gildir raunar um allt fljótandi eldsneyti.

Í mengunarlögsögu Íslands gildir almennt sú regla að skip mega brenna svartolíu með hámarks brennisteinsinnihaldi upp á 3,5%. Um farþega- eða skemmtiferðaskip gilda þó aðrar reglur, þar má hámarks brennisteinsinnihald ekki fara yfir 1,5%, sem gerir það að verkum að þessi skip geta ekki nýtt sér svartolíu, þar sem hún inniheldur miklu meira af brennisteini. Þetta mun þó breytast frá og með 1. janúar 2020 þegar brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti sem notað er hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands má ekki vera hærra en 0,5%.

Gerðar eru reglulegar mælingar á innihaldi brennisteins í skipaeldsneyti sem flutt er hingað til lands. Hér að neðan má sjá niðurstöður fyrir 2016, en þá reyndust öll meðaltöl vera undir leyfilegu hámarks innihaldi:

  • Í skipagasolíu mældist að jafnaði 0,08% af brennisteini en innihaldið má vera allt að 0,1%
  • Í skipadísilolíu mældist að jafnaði 0,2% af brennisteini en innihaldið má vera allt að 1,5%
  • Í svartolíu mældist að jafnaði 1,9% af brennisteini en innihaldið má vera allt að 3,5%

Um öll skip, sem liggja við bryggju, gildir að þau skuli nýta sér rafmagn úr landi í stað skipaeldsneytis sé það mögulegt. Sé rafmagn ekki til staðar er heimilt að brenna skipaeldsneyti í staðinn, en settar takmarkanir á brennisteinsinnihald þess og má það ekki fara yfir í 0,1% . Mikilvægt er að staðreyna með mælingum hvort þessu sé framfylgt hér á landi. Hyggur Umhverfisstofnum á eftirlit með þessu á næstunni.

smari@bb.is

Vel heppnuð og fyndin gamanmyndahátíð

Jón Hjörtur tekur við viðurkenningu fyrir fyndnustu mynd hátíðarinnar.

Gamanmyndahátíð Flateyrar fór fram um helgina á Flateyri. Hátíðin var vel sótt, og mættu tæplega 700 manns á viðburði á hennar vegum.

Þráinn Bertelsson var heiðraður fyrir framlag sitt til gamanmynda á Íslandi. Veitti hann verðlaununum viðtöku og í framhaldi af því var sérstök heiðurssýning á gamanmyndinni Nýtt líf.

Alls voru sýndar 23 íslenskar gamanmyndir á hátíðinni í ár og þar af sjö frumsýningar. Áhorfendur völdu fyndnustu mynd hátíðarinnar í kosningu og varð gamanmyndin Frægð á Flateyri hlutskörpust.

Frægð á Flateyri, eftir Jón Hjört Emilsson var tekin upp á fyrstu Gamanmyndahátíðinni, árið 2016, og er leikin heimildarmynd (mockumentary) sem fjallar um bróðir Jóns, Emil Alfreð Emilsson, sem er að fara á sína fyrstu kvikmyndahátíð, öruggur um að vinna hana, en margt fer út um þúfur í ferðinni.

C-vítamín, eftir Guðnýju Rós Þórhallsdóttir lenti í öðru sæti og hlaut því titilinn Næstum því fyndnasta gamanmyndin.

Aðstandendur Óbeislaðarar fegurðar. Margrét Skúladóttir, Matthildur Helgadóttir Jónudóttir, Ásthildur Cecil Þórðardóttir fröken Ára 2007 og Eygló Jónsdóttir.
Ársæll Nielsson og Eyþór Jóvinsson kampakátir eftir góða hátíð með heiðursgestinn Þráinn Bertelsson

Hljómsveitin SKE (Skárra en ekkert) í góðum gír á Vagninum.

bryndis@bb.is

Bændur segja tillögurnar skref í rétta átt

Bændasamtökin og Landssamband sauðfjárbænda segja margt gott í tillögum landbúnaðarráðherra vegna bráðavanda sauðfjárbænda sem standa frammi fyrir þriðjungslækkun afurðaverðs. Í yfirlýsingu frá samtökunum segir að hins vegar vanti þær aðgerðir sem taka á fyrirsjáanlegum birgðavanda eftir sláturtíðina, sem nú er hafin. Samtökin telja því að tillögurnar leysi ekki vandann að fullu þó þær séu í rétta átt.

Að mati samtakanna er lykilatriði í þeim lausnum að virkja tímabundnar aðgerðir til sveiflujöfnunar, svo sem að gera afurðastöðvum kleift að taka sameiginlega ábyrgð á útflutningi kindakjöts. „Þær hugmyndir hafa ekki fengið brautargengi og staðan því óbreytt. Hættan er sú að þær aðgerðir sem landbúnaðarráðherra nú leggur til séu ekki nægar og verði aðeins til þess að draga ástandið á langinn,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.

smari@bb.is

Hrun í Súðavíkurhlíð

Grjóthrun á Súðavíkurhlíð. Mynd: Þorsteinn Haukur Þorsteinsson.

Búið er að hreinsa veginn um Súðavíkurhlíð en þar féllu tvö myndarleg grjót úr hlíðinni á veginn. Að sögn Guðmundar Björgvinssonar hjá Vegagerðinni hefur ekki verið mikið um hrun í sumar en rigningin sennilega áhrifavaldur að þessu sinni.

bryndis@bb.is

Sauðfjárbændum hjálpað að hætta

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðarráðherra leggur til að fé verði fækkað um 20% og þeir bændur sem vilji hætta sauðfjárframleiðslu haldi 90% af greiðslum frá ríkinu í fimm ár. Þeir sem hætta á næsta ári fá 70% í þrjú ár. Tillögurnar eru hluti af aðgerðum til að draga úr framleiðslu kindakjöts. Greiðslur til hvers bónda miðist við greiðslumark, innlegg, fjárfjölda og aðrar forsendur fyrir greiðslum, eins og þær voru á viðkomandi búi að meðaltali árin 2016 og 2017 og geta bændur valið hvort þeir fái greitt í einu lagi eða með jöfnum greiðslum út samningstímann.

Þá eiga bændur sem fækka fé um að lágmarki 50 kindur í haust kost á greiðslu 4.000 kr. sláturálags.

Þeir framleiðendur sem gera samninga um að hætta á grundvelli ofangreinds skuldbinda sig til að taka ekki upp sauðfjárframleiðslu að nýju á gildistíma núverandi sauðfjársamnings.  Þeir sem gera samninga um fækkun skuldbinda sig til að auka ekki framleiðslu sína á gildistíma núverandi sauðfjársamnings.  Kvöðin verði bundin við framleiðanda og tengda aðila.

Til að mæta hlut af yfirvofandi kjaraskerðinu eiga þeir bændur sem ætla að halda áfram búskap kost á greiðslum sem miðast við fjölda kinda á vetrarfóðrum haustið 2016. Skilyrði fyrir þessum greiðslum verði m.a. að viðkomandi bóndi búi á lögbýli og hafi fleiri en 150 vetrarfóðraðar kindur. Tekið er fram að þetta verður einskiptisaðgerð.

Samkvæmt gildandi búvörusamningi er 99 milljónum kr varið í svæðisbundinn stuðning á árinu 2017 en sú fjárhæð hækkar í 145 milljónir kr. á næsta ári. Þessar greiðslur koma fyrst og fremst þeim bændum til góða sem eiga erfitt með að sækja atvinnu utan búsins vegna fjarlægðar frá þéttbýli. Til þessa verkefnis verði varið 150 milljónum kr. til viðbótar því fé sem áskilið er í samningnum.

smari@bb.is

Hreppurinn auglýsir skipulagsbreytingar vegna Hvalárvirkjunar

Fossinn Rjúkandi í ánni Rjúkanda.

Hreppsnefnd Árneshrepps auglýsir nú tillögu að breytingu á aðalskipulagi hreppsins og deiliskipulagstillögu vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Í tillögunum felst meðal annars heimild fyrir starfsmannabúðum á framkvæmdasvæðinu, vegir um virkjunarsvæðið verði skilgreindir og efnistökusvæði verði skilgreind við Hvalárósa, í Hvalá og við Hvalárvatn. Frestur til að skila athugasemdum er til 16. október. Hvalárvirkjun er 55 MW virkjun sem Vesturverk ehf. á Ísafirði ætlar að reisa. Vesturverk er í eigu HS Orku og þriggja einstaklinga á Ísafirði.

Síðustu misseri hefur andstaða við Hvalárvirkjun farið vaxandi, en virkjunin hefur verið í nýtingarflokki rammaáætlunar Alþingis síðan 2013. Tómas Guðbjartsson skurðlæknir hefur verið fremstur í flokki andstæðinga virkjunarinnar og orð hans hafa á tíðum farið þvert í Vestfirðinga sem telja virkjunina vera mikið framfaramál fyrir fjórðunginn. Meðal heimamanna í Árneshreppi og hjá brottfluttum úr hreppnum er einnig fólk sem berst af krafti gegn virkjuninni. Á málþingi um virkjunina í sumar voru samtökin Rjúkandi stofnuð, en þau draga nafn sitt af á sem stendur til að virkja á Ófeigsfjarðarheiði. Samtökin ætla að berjast fyrir verndun umhverfis, náttúru og menningarminja í Árneshreppi.

smari@bb.is

Mótmæla hugmyndum um að leggja niður prestsembættið á Reykhólum

Reykhólakirkja.

Héraðsfundur Vestfjarðaprófastsdæmis andmælir hugmyndum biskupafundar um að leggja niður embætti sóknarprests á Reykhólum. Héraðsfundurinn var haldinn á Patreksfirði í gær. Í ályktun fundarins segir að niðurlagning embættisins muni rýra kirkjulega þjónustu í Reykhólaprestakalli. Einnig er minnt á að einungis rúmt ár er liðið síðan að skipaður var nýr sóknarprestur á Reykhólum og gert við hann haldsbréf. Embættið var auglýst með þeim skilmálum að til staðar væri íbúðarhæft húsnæði fyrir prestinn. Héraðsfundur væntir þess að í stjórn kirkjunnar séu menn orða sinna og standi við skuldbindingar sínar.

Ennfremur skorar héraðsfundur á kirkjustjórnina að framvegis verði tveir prestar í fullu starfi í Patreksfjarðarprestakalli.

Héraðsfundir væntir þess að biskupafundur svari þessari ályktun með formlegu bréfi eða fundi með heimamönnum.

smari@bb.is

#náttúranervestfirðingur

Pétur G. Markan.

Undanfarið hefur farið fram umræða um Vestfirðinga og mögulegt meðvitundarleysi þeirra gagnvart stórbrotinni náttúru fjórðungsins. Það stafar kannski af skynvillu frístundaútivistargarpa, sem fyllast andgift þegar markmiðum þeirra hefur verið náð, eina næs helgi í júní. En staðreyndin er sú að Vestfirðingar eru ekki bara varðmenn náttúrunnar, við erum náttúran og hún er Vestfirðingur. Náttúran er mánudagsmorgun í janúar, sólstöður í júní, lognstillt jólanótt og stórhríð um áramót. Hún er hversdagur og heilög í sömu vestfirsku setningunni. Náttúran er morgunskokk á sunnudegi, þegar lognið ruggar fjarðarfólkinu ofurvært, á meðan það sefur aðeins „út“ – eftir ballið í gær.

Nú er lag að Vestfirðingar sendi út á Instagram og Facebook hversdagsmyndir þar sem líf, samfélag og náttúra eru samofin og samstíga í fortíð, nútíð og framtíð. Ég sá að Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, setti fram sömu hugmynd í gær. Tökum saman höndum og birtum þessar myndir og sýnum veröldinni hvernig náttúran er partur af okkur.

Notum hashtaggið: #náttúranervestfirðingur og #vestfirðingareruþessvirði

Pétur Markan

Auglýst eftir héraðsdómara

Dómsmálaráðuneytið hefur auglýst laust til umsóknar embætti héraðsdómara á Vestfjörðum. Dómarinn mun hafa starfstöð við Héraðsdóm Vestfjarða en sinna störfum við alla héraðsdómstólana eftir ákvörðun dómstólaráðs og jafnframt vera dómstjóri í Héraðsdómi Vestfjarða.

Miðað er við að skipað verði í embætti dómarans hið fyrsta eftir að nefnd um hæfni dómara hefur lokið starfi sínu. Sigríður Elsa Kjartansdóttir lét af störfum sem dómstjóri við Héraðsdóm Vestfjarða um mánaðamótin. Þangað til nýr dómari verður skipaður dómstólaráð gengið frá því að fjórir héraðsdómarar muni tryggja áframhaldandi meðferð mála sem rekin eru fyrir Héraðsdómi Vestfjarða. Þau munu sjá til þess að reglulegt dómþing verði mannað fyrsta og þriðja miðvikudag hvers mánaðar. Dómararnir eru Jón Höskuldsson, Kristinn Halldórsson, Símon Sigvaldason og Sigríður Elsa Kjartansdóttir. Þau munu einnig sinna bakvöktum til skiptis.

smari@bb.is

Fiskeldið hefur þegar haft mikil áhrif

Frá Tálknafirði.

Fiskeldi hefur þegar haft mikil áhrif á sunnanverðum Vestfjörðum, í sveitarfélögum sem áður höfðu háð þunga varnarbaráttu. Komi til aukins fiskeldis mun það leiða til verulegrar fólksfjölgunar í viðkomandi byggðum sem aftur kallar á afleiddar framkvæmdir s.s. íbúðabyggingar og til styrkingar innviða. Um þetta er fjallað í nýrri skýrslu þróunarsviðs Byggðastofnunar um byggðaleg áhrif fiskeldis. Í Tálknafjarðarhreppi byggja 16 fjölskyldur afkomu sína á fiskeldi, að því er segir í skýrslunni. Níu af þeim eru með samtals 19 börn á grunnskólaaldri en í leik- og grunnskóla Tálknafjarðar eru samtals 56 börn. Í Tálknafjarðarhreppi byggja 16 fjölskyldur afkomu sína á fiskeldi, að því er segir í skýrslunni. Níu af þeim eru með samtals 19 börn á grunnskólaaldri en í leik- og grunnskóla Tálknafjarðar eru samtals 56 börn. Í sveitarfélaginu er fyrirhugað að byggja upp hitaveitu sem lækka mun húshitunarkostnað á staðnum.

Fiskvinnsla Þórsbergs ehf. á Tálknafirði lokaði haustið 2015 og töpuðust við það yfir 40 störf. Hefði laxeldið ekki komið til væri staða sveitarfélagsins mun lakari en hún er. Í Vesturbyggð er atvinnustig nokkuð hátt og störfum hefur fjölgað mikið en í stærsta fiskeldisfyrirtækinu í Vesturbyggð starfa nú um 100 manns. Um er að ræða fjölbreytt störf, heilsársstörf bæði á sjó og í landi. Í skýrslunni er sérstaklega tekið fram að störfum háskólamenntaðra, kvenna og störfum millistjórnenda hefur fjölgað.

Í skýrslunni er rakið að Vestfirðir hafa búið við mikla fólksfækkun undanfarin ár og áratugi. Framundan eru miklar breytingar á norðan- og sunnanverðum Vestfjörðum, gangi áætlanir um um sjókvíaeldi eftir, og skýrsluhöfundar segja að í raun fari svæðin þá úr nokkuð samfelldu samdráttarferli í uppbyggingar- og þensluferli með umtalsverðri fjölgun íbúa, byggingu íbúðarhúsnæðis og annarri uppbyggingu sem fylgir fólksfjölgun og breyttri aldurssamsetningu. Hvar áhrifin verða mest ræðst að miklu leyti af því hvar helstu starfsstöðvar fyrirtækjanna verða. Í þessu ferli mun reyna mikið á stjórnsýslu og innviði sveitarfélaganna á svæðinu. Að mati skýrsluhöfunda er stærsta áskorunin á Vestfjörðum að útvega nægilegt íbúðarhúsnæði handa nýjum íbúum og halda uppi þjónustustigi.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir