Síða 2163

Námslán – eilífðar fylginautur

Guðjón Brjánsson

Skólar landsins hafa nú opnað dyr sínar að nýju eftir sumarhlé.  Umræða um skóla- og menntamál er því mikil um þessar mundir og það er eðlilegt því þetta er málefni sem snertir okkur öll, hvar sem við búum á landinu.  Rætt er um gildi skólastarfsins, lengd og fyrirkomulag, innihald og gæði menntunar og ófullnægjandi kjör kennara, kostnað nemenda og líðan þeirra í skólanum svo fátt eitt sé nefnt. Námslán, námsaðstoð og viðmót gagnvart námi er einn angi umræðunnar.

Það er tæplega ágreiningur um að aukin þekking og menntun í hvaða mynd sem er leiði til víðsýni og umburðarlyndis, efli og bæti samfélög.  Á Íslandi hafa viðhorfin til fyrirgreiðslu við námsfólk þróast með öðrum hætti en í nágrannalöndum.  Síðasta aldarfjórðunginn hefur löggjafinn horft á fjárhagslega námsaðstoð í meginatriðum sem hefðbundin lán sem greiðast skuli til baka að fullu, verðtryggð.  Ég heyrði nýlegt og raunverulegt dæmi um einstakling sem innir af hendi um 660 þúsund króna heildargreiðslur af námsláni sínu á þessu ári eftir 21 ár í námslánagreiðslum og enn standa eftir tæplega 8 milljónir króna. Ef þessum einstaklingi endist aldur og greiðslugeta, þá lýkur hann námsláagreiðslum þegar hann nær áttræðisaldri, 13 árum eftir almenna eftirlaunatöku.  Að þessu leyti skiljum við Íslendingar okkur algjörlega frá öðrum Norðurlöndum. Þetta er til vansa fyrir þjóð sem byggir æ meira á þekkingarleit og menntun og á þar allt undir ekki síður en önnur lönd.

Samfylkingin hefur ítrekað lagt fram frumvarp til laga um sanngjarnar lagfæringar á núverandi lögum um námslán, síðast á nýliðnu þingi.  Þær lúta að tveimur þáttum. Annars vegar, að skuldbindingar ábyrgðarmanna á eldri lánum falli niður þegar viðkomandi nær 67 ára aldri eða við fráfall hans.  Dæmi eru um það í núgildandi lögum að háaldrað fólk og/eða aðstandendur verði fyrir verulegum búsifjum vegna ábyrgða. Ákvæðin ganga út yfir gröf og dauða og afkomendur standa jafnvel andspænis óvæntum og óréttlátum skuldbindingum.  Hin breytingin er sú að námslán falli niður á því ári sem skuldari nær 67 ára aldri. Með því er verið að nálgast viðmót Norðurlandaþjóðanna þar sem endurgreiðslutíminn er mun styttri eða jafnan um 15 – 20 ár.  Þar eru reyndar styrkir verulegur hluti námsaðstoðarinnar.

Í fyrravor var lagt fyrir Alþingi frumvarp um námslán og námsstyrki sem ekki náði fram að ganga þar sem ágreiningur var um mikilvæg atriði. Efnislega hneig þó frumvarpið í þá átt sem ásættanlegt getur talist en verulega galla þarf að sníða burt.  Ef hin dáðlausa ríkisstjórn sem nú situr við völd hugsar sér ekki til hreyfings varðandi ný lög um námslán og námsstyrki strax á næsta þingi mun Samfylkingin endurflytja frumvarp sitt enn einu sinni í þeirri viðleitni að knýja fram sanngjarna réttarbót fyrir námsfólk og ábyrgðarmenn eldri lána.

Guðjón S. Brjánsson

alþingismaður

Elín Marta Eiríksdóttir fyrst í mark

Hin árlega þríþraut Craft fór fram á laugardaginn og að sögn Kristbjörns R. Sigurjónssonar fór keppnin vel fram og veðrið var gott. Þátttaka hefði mátt vera betri en þeir sem tóku þátt voru alsælir.

Keppt var bæði í einstaklings og liðakeppni. Mazzi og frændsystkinin sigruðu liðakeppnina á tímanum 01:11:41 en liðið skipuðu Rakel, Marzellíus og Guðmundur. Fljótust í mark af einstaklingum var Elín Marta Eiríksdóttir á á tímanum 01:14:33 en fast á hæla hennar koma Atli Þór Jakobsson á 01:15:53 og í þriðja sæti var Katrín Pálsdóttir á 01:16:18.

Meðfylgjandi myndband tók Hlynur Kristjánsson

bryndis@bb.is

Ábúðarjarðir auðvelda ekki ungum bændum að hefja búskap

Gildi ábúðarjarða fyrir þjóðarhag virðist lítið og auðveldar ekki ungum bændum að hefja búskap á ríkisjörðum. Ríkið ætti að eiga áfram jarðir þar sem landbúnaður eða byggð eiga í vök að verjast eða almannahagsmunir eru að veði, en selja aðrar þegar þær losna úr ábúð eða markaðsaðstæður leyfa. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á ábúðarkerfinu, sem unnin var að beiðni fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Ráðuneytið óskaði í fyrra eftir því að úttektin yrði unnin svo hægt væri að leggja mat á kosti og galla þess að setja ríkisjarðir í ábúð við endurmat á stefnu ríkisins á sviði jarðarmála. Núverandi ábúðarkerfi byggir áralangri framkvæmd á þeim skyldum og kvöðum sem koma fram í ábúðar- og jarðalögum. Þá hafa hagsmunaaðilar óskað eftir því að ábúðarkerfið verði skoðað svo stuðla megi að markvissari nýtingu jarða í eigu ríkisins í þágu landbúnaðar.

Helstu niðurstöður úttektar Hagfræðistofnunar eru eftirfarandi:

  • 115 ábúðarjarðir eru í ríkiseigu.
  • Ábúðarjarðir ríkisins eru um 3% af lögbýlum á Íslandi en um 9% af jörðum á Austurlandi.
  •  Gildi ábúðarjarða fyrir þjóðarhag virðist vera lítið.
  • Ábúðarkerfið auðveldar ekki ungum bændum að hefja búskap á ríkisjörðum.
  • Meðalaldur ábúðarbænda á ríkisjörðum er talsvert hár en aðeins um 20 einstaklingar af 115 eru innan við fimmtugt.
  • Ábúendur á ríkisjörðum hafa aðeins um þriðjung tekna sinna af landbúnaði en tveir þriðju tekna eiga sér aðrar rætur.
  • Eiginlegur búskapur virðist aðeins stundaður á ríflega 60% jarðanna og er þar aðallega um sauðfjárrækt að ræða.
  •  Heildarleigutekjur ríkisins af ábúðarjörðum eru litlar og standa ekki undir ávöxtun ríkisins af þessum eignum né nauðsynlegum rekstrarkostnaði kerfisins.
  • Endurgjaldlaus sauðfjár- og mjólkurkvóti fylgir mörgum ábúðarjörðum sem gefur samkeppnisforskot gagnvart öðrum bændum.
  • Núverandi ábúðarkerfi felur í sér fjárhagslega áhættu fyrir ríkissjóð vegna skyldu ríkisins til endurkaupa á fasteignum ábúanda við ábúðarlok og veðleyfa í jörðum vegna framkvæmda ábúandans á ábúðartíma.

Hagfræðistofnun leggur til að þær ábúðarjarðir sem áfram verða í ríkiseigu verði leigðar út til tiltekins árafjölda með breyttu fyrirkomulagi. Þar ætti m.a. að horfa til þess að yngri bændur sem ekki reki bú annars staðar njóti forgangs til að styðja við nýliðun í greininni.

smari@bb.is

Fyrstu tónleikar Tónlistarfélags Ísafjarðar á laugardaginn

Fyrstu tónleikar Tónlistarfélags Ísafjarðar á starfsárinu 2017-2018  verða í Hömrum laugardaginn 9.september kl. 16:30, en þar kemur fram ungur píanóleikari og tónskáld, Tanja Hotz.  Tanja kemur frá Sviss en á uppruna sinn að rekja til Vestfjarða, dóttir tónlistarkonunnar Salbjargar Sveinsdóttur frá Hnífsdal. Tónleikar hennar verða kynntir betur í næstu viku.

Viku eftir tónleika Tönju Hotz, laugardaginn 16. september, verða fyrstu áskriftartónleikar félagsins í Hömrum. Þá heimsækir okkur skemmtihljómsveitin Mandólín, sem er skipuð sjö hljóðfæraleikurum á fjölbreytt hljóðfæri. Þetta eru Alexandra Kjeld, Ástvaldur Traustason, Bjarni Bragi Kjartansson, Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Guðrún Árnadóttir, Martin Kollmar, Óskar Sturluson og Sigríður Ásta Árnadóttir. Mandólín leikur þjóðlög, tangóa, leikhústónlist og annað sem fær hjörtun til að slá örar.

bryndis@bb.is

Ætlar að fylgjast með útblæstri skipa

Skemmtiferðaskip sigla í auknum mæli til Ísland og á norðurslóðir.

Mengun frá skemmtiferðaskipum hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu og af þeim sökum hefur Umhverfisstofnun áréttað hvaða reglur gilda um brennisteinsinnhald skipaeldsneytis við mismunandi aðstæður. Skipaeldsneyti, sem skiptist í þrjá megin flokka, þ.e. svartolíu, skipadísilolíu og skipagasolíu, inniheldur mismikið af brennisteini. Mest er af honum í svartolíu en minnst í skipagasolíu. Vegna brennisteinsinnihaldsins losna brennisteinsoxíð við bruna á skipaeldsneyti og veldur það mengun í andrúmslofti. Til þess að draga úr þessari mengun hafa verið settar takmarkanir á því hvert brennisteinsinnihald skipaeldsneytis má vera og það sama gildir raunar um allt fljótandi eldsneyti.

Í mengunarlögsögu Íslands gildir almennt sú regla að skip mega brenna svartolíu með hámarks brennisteinsinnihaldi upp á 3,5%. Um farþega- eða skemmtiferðaskip gilda þó aðrar reglur, þar má hámarks brennisteinsinnihald ekki fara yfir 1,5%, sem gerir það að verkum að þessi skip geta ekki nýtt sér svartolíu, þar sem hún inniheldur miklu meira af brennisteini. Þetta mun þó breytast frá og með 1. janúar 2020 þegar brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti sem notað er hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands má ekki vera hærra en 0,5%.

Gerðar eru reglulegar mælingar á innihaldi brennisteins í skipaeldsneyti sem flutt er hingað til lands. Hér að neðan má sjá niðurstöður fyrir 2016, en þá reyndust öll meðaltöl vera undir leyfilegu hámarks innihaldi:

  • Í skipagasolíu mældist að jafnaði 0,08% af brennisteini en innihaldið má vera allt að 0,1%
  • Í skipadísilolíu mældist að jafnaði 0,2% af brennisteini en innihaldið má vera allt að 1,5%
  • Í svartolíu mældist að jafnaði 1,9% af brennisteini en innihaldið má vera allt að 3,5%

Um öll skip, sem liggja við bryggju, gildir að þau skuli nýta sér rafmagn úr landi í stað skipaeldsneytis sé það mögulegt. Sé rafmagn ekki til staðar er heimilt að brenna skipaeldsneyti í staðinn, en settar takmarkanir á brennisteinsinnihald þess og má það ekki fara yfir í 0,1% . Mikilvægt er að staðreyna með mælingum hvort þessu sé framfylgt hér á landi. Hyggur Umhverfisstofnum á eftirlit með þessu á næstunni.

smari@bb.is

Vel heppnuð og fyndin gamanmyndahátíð

Jón Hjörtur tekur við viðurkenningu fyrir fyndnustu mynd hátíðarinnar.

Gamanmyndahátíð Flateyrar fór fram um helgina á Flateyri. Hátíðin var vel sótt, og mættu tæplega 700 manns á viðburði á hennar vegum.

Þráinn Bertelsson var heiðraður fyrir framlag sitt til gamanmynda á Íslandi. Veitti hann verðlaununum viðtöku og í framhaldi af því var sérstök heiðurssýning á gamanmyndinni Nýtt líf.

Alls voru sýndar 23 íslenskar gamanmyndir á hátíðinni í ár og þar af sjö frumsýningar. Áhorfendur völdu fyndnustu mynd hátíðarinnar í kosningu og varð gamanmyndin Frægð á Flateyri hlutskörpust.

Frægð á Flateyri, eftir Jón Hjört Emilsson var tekin upp á fyrstu Gamanmyndahátíðinni, árið 2016, og er leikin heimildarmynd (mockumentary) sem fjallar um bróðir Jóns, Emil Alfreð Emilsson, sem er að fara á sína fyrstu kvikmyndahátíð, öruggur um að vinna hana, en margt fer út um þúfur í ferðinni.

C-vítamín, eftir Guðnýju Rós Þórhallsdóttir lenti í öðru sæti og hlaut því titilinn Næstum því fyndnasta gamanmyndin.

Aðstandendur Óbeislaðarar fegurðar. Margrét Skúladóttir, Matthildur Helgadóttir Jónudóttir, Ásthildur Cecil Þórðardóttir fröken Ára 2007 og Eygló Jónsdóttir.
Ársæll Nielsson og Eyþór Jóvinsson kampakátir eftir góða hátíð með heiðursgestinn Þráinn Bertelsson

Hljómsveitin SKE (Skárra en ekkert) í góðum gír á Vagninum.

bryndis@bb.is

Bændur segja tillögurnar skref í rétta átt

Bændasamtökin og Landssamband sauðfjárbænda segja margt gott í tillögum landbúnaðarráðherra vegna bráðavanda sauðfjárbænda sem standa frammi fyrir þriðjungslækkun afurðaverðs. Í yfirlýsingu frá samtökunum segir að hins vegar vanti þær aðgerðir sem taka á fyrirsjáanlegum birgðavanda eftir sláturtíðina, sem nú er hafin. Samtökin telja því að tillögurnar leysi ekki vandann að fullu þó þær séu í rétta átt.

Að mati samtakanna er lykilatriði í þeim lausnum að virkja tímabundnar aðgerðir til sveiflujöfnunar, svo sem að gera afurðastöðvum kleift að taka sameiginlega ábyrgð á útflutningi kindakjöts. „Þær hugmyndir hafa ekki fengið brautargengi og staðan því óbreytt. Hættan er sú að þær aðgerðir sem landbúnaðarráðherra nú leggur til séu ekki nægar og verði aðeins til þess að draga ástandið á langinn,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.

smari@bb.is

Hrun í Súðavíkurhlíð

Grjóthrun á Súðavíkurhlíð. Mynd: Þorsteinn Haukur Þorsteinsson.

Búið er að hreinsa veginn um Súðavíkurhlíð en þar féllu tvö myndarleg grjót úr hlíðinni á veginn. Að sögn Guðmundar Björgvinssonar hjá Vegagerðinni hefur ekki verið mikið um hrun í sumar en rigningin sennilega áhrifavaldur að þessu sinni.

bryndis@bb.is

Sauðfjárbændum hjálpað að hætta

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðarráðherra leggur til að fé verði fækkað um 20% og þeir bændur sem vilji hætta sauðfjárframleiðslu haldi 90% af greiðslum frá ríkinu í fimm ár. Þeir sem hætta á næsta ári fá 70% í þrjú ár. Tillögurnar eru hluti af aðgerðum til að draga úr framleiðslu kindakjöts. Greiðslur til hvers bónda miðist við greiðslumark, innlegg, fjárfjölda og aðrar forsendur fyrir greiðslum, eins og þær voru á viðkomandi búi að meðaltali árin 2016 og 2017 og geta bændur valið hvort þeir fái greitt í einu lagi eða með jöfnum greiðslum út samningstímann.

Þá eiga bændur sem fækka fé um að lágmarki 50 kindur í haust kost á greiðslu 4.000 kr. sláturálags.

Þeir framleiðendur sem gera samninga um að hætta á grundvelli ofangreinds skuldbinda sig til að taka ekki upp sauðfjárframleiðslu að nýju á gildistíma núverandi sauðfjársamnings.  Þeir sem gera samninga um fækkun skuldbinda sig til að auka ekki framleiðslu sína á gildistíma núverandi sauðfjársamnings.  Kvöðin verði bundin við framleiðanda og tengda aðila.

Til að mæta hlut af yfirvofandi kjaraskerðinu eiga þeir bændur sem ætla að halda áfram búskap kost á greiðslum sem miðast við fjölda kinda á vetrarfóðrum haustið 2016. Skilyrði fyrir þessum greiðslum verði m.a. að viðkomandi bóndi búi á lögbýli og hafi fleiri en 150 vetrarfóðraðar kindur. Tekið er fram að þetta verður einskiptisaðgerð.

Samkvæmt gildandi búvörusamningi er 99 milljónum kr varið í svæðisbundinn stuðning á árinu 2017 en sú fjárhæð hækkar í 145 milljónir kr. á næsta ári. Þessar greiðslur koma fyrst og fremst þeim bændum til góða sem eiga erfitt með að sækja atvinnu utan búsins vegna fjarlægðar frá þéttbýli. Til þessa verkefnis verði varið 150 milljónum kr. til viðbótar því fé sem áskilið er í samningnum.

smari@bb.is

Hreppurinn auglýsir skipulagsbreytingar vegna Hvalárvirkjunar

Fossinn Rjúkandi í ánni Rjúkanda.

Hreppsnefnd Árneshrepps auglýsir nú tillögu að breytingu á aðalskipulagi hreppsins og deiliskipulagstillögu vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Í tillögunum felst meðal annars heimild fyrir starfsmannabúðum á framkvæmdasvæðinu, vegir um virkjunarsvæðið verði skilgreindir og efnistökusvæði verði skilgreind við Hvalárósa, í Hvalá og við Hvalárvatn. Frestur til að skila athugasemdum er til 16. október. Hvalárvirkjun er 55 MW virkjun sem Vesturverk ehf. á Ísafirði ætlar að reisa. Vesturverk er í eigu HS Orku og þriggja einstaklinga á Ísafirði.

Síðustu misseri hefur andstaða við Hvalárvirkjun farið vaxandi, en virkjunin hefur verið í nýtingarflokki rammaáætlunar Alþingis síðan 2013. Tómas Guðbjartsson skurðlæknir hefur verið fremstur í flokki andstæðinga virkjunarinnar og orð hans hafa á tíðum farið þvert í Vestfirðinga sem telja virkjunina vera mikið framfaramál fyrir fjórðunginn. Meðal heimamanna í Árneshreppi og hjá brottfluttum úr hreppnum er einnig fólk sem berst af krafti gegn virkjuninni. Á málþingi um virkjunina í sumar voru samtökin Rjúkandi stofnuð, en þau draga nafn sitt af á sem stendur til að virkja á Ófeigsfjarðarheiði. Samtökin ætla að berjast fyrir verndun umhverfis, náttúru og menningarminja í Árneshreppi.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir