Síða 2162

Mikil gerlamengun á sund- og baðstöðum

Hellulaug í Flókalundi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Í greinargerð Antons Helgasonar, forstöðumanns Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, með fundargerð Heilbrigðisnefndarinnar frá því í lok ágúst kemur fram að víða eru gerlatölur langt yfir mörkum. Viðmiðunargildi eru 0-500 gerlar í 100 ml og að hámarki mega þeir vera 1000 talsins. Anton skrifar að við sýnatökur í sundlaugum og heitum pottum hafi mælst yfir 200.000 gerlar í 100 ml. Hann tekur fram að ýmsir sjúkdómar, þar á meðal mjög alvarlegir sjúkdómar, geti borist með baðvatni ef ekki er hugað nægjanlega vel að sótthreinsun. Algengustu sjúkdómar sem tengja má sundlauganotkun eru sýkingar í slímhimnum og í sárum og rispum á húð.  Slíkar sýkingar eru mögulegar þar sem slímhimnur og húð eru í nánu sambandi við örverur í baðvatninu.

„Það hefur lengi verið tíðkað að hengja boðbera slæmra tíðinda. Þannig varð í sumar uppákoma vegna skólpmengunar vegna bilunar í dælustöð í Reykjavík. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgdist með og tók sýni meðfram strandlengjunni. Það sem olli fjölmiðlafári í sumar vegna skólpmengunar var strandsjór sem var allstaðar undir 1000 saurgerlar í 100ml,“ skrifar Anton.

smari@bb.is

Lýðheilsuganga í surtrarbrandsnámuna

Séð út Syðridal.

Á morgun verður gengið upp að surtarbrandsnámunni í Syðridal í Bolungarvík og er gangan liður í lýðheilsugöngum Ferðafélags Íslands. Samhliða göngunni verður leiðin upp að námu stikuð. Gengið verður frá Gilsárbrú í Syðridal kl. 18 og er göngufólki bent á að hafa með sér höfuð- eða vasaljós hafi það áhuga á að fara inn í námun.

Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands verða á öllu landinu nú í september og eru einn af hápunktunum í glæsilegri afmælisdagskrá FÍ en félagið fagnar 90 ára afmæli á árinu. Þetta eru fjölskylduvænar göngur sem taka  u.þ.b. 60-90 mínútur og er tilgangur þeirra að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði. Allir göngugarpar sem taka þátt í Lýðheilsugöngum FÍ geta hreppt glæsilega vinninga með því að skrá sig í göngurnar.

smari@bb.is

Vill samstöðu um kaupmátt

Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í dag áherslur og skipulag ríkisins í komandi kjaraviðræðum við starfsmenn ríkisins. Ráðherra sagði markmið ríkisins vera að ná samstöðu um það hvernig eigi að viðhalda þeirri kaupmáttaraukningu sem orðið hefur á undanförnum árum og byggja upp samkeppnishæft starfsumhverfi ríkisins. Ráðherra lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að öll upplýsingagjöf af hálfu ríkisins í tengslum við kjarasamningana verði skilvirk og aðgengileg.

„Þessir samningar snúast um það hvernig við getum átt gott og árangursríkt samstarf við opinbera starfsmenn enda byggir allur árangur í ríkisrekstrinum á að laða til sín og halda í hæft starfsfólk. Þess vegna munum við leggja áherslu á að hlusta og vinna með viðsemjendum okkar að því sameiginlega markmiði að ríkið geti boðið samkeppnishæf kjör á sama tíma og við sýnum ábyrgð í fjármálum og efnahagsmálum. Þá leggjum við áherslu á að þetta samtal haldi áfram yfir samningstímann en ljúki ekki þegar skrifað er undir samningana,“ er haft eftir fjármálaráðherra í tilkynningu.

smari@bb.is

HG er ellefta stærsta útgerðin

Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. í Hnífsdal er ellefta kvótahæsta útgerð landsins. Nýtt fiskveiðiár hófst 1. september og Fiskistofa hefur gefið út yfirlit yfir kvótaúthlutanir til íslenskra fiskiskipa. Kvóti skipa HG er 12.340 þorskígildistonna, eða 3,29% af heildarúthlutun fiskveiðiársins. HB Grandi hf. ræður sem fyrr yfir mestum kvóta af einstökum fyrirtækjum, eða 35 þúsund tonnum. Samherji hf. er í öðru sæti með 22 þúsund tonna kvóta.

Jakob Valgeir ehf. í Bolungarvík er næst stærsta útgerðin á Vestfjörðum en kvóti fyrirtækisins er 6.300 tonn og Oddi. hf. á Patreksfirði er þriðja stærsta útgerðin með 2.600 tonna kvóta.

smari@bb.is

Ísland ljóstengt í þriðja sinn

Ljósleiðari plægður í jörð á Ströndum. Mynd: strandir.is

Hafinn er undirbúningur fyrir næsta áfanga landsátaksins Ísland ljóstengt. Snýr hann bæði að fjármagni til einstakra byggða sem verður úthlutað í annað sinn og svonefndum samkeppnispotti sem verður úthlutað úr í þriðja sinn. Á vef samgönguráðuneytisins segir að byggðastyrkurinn taki mið af aðstæðum hjá sveitarfélögum, til að mynda byggðaþróun, fjárhagsstöðu, umfangi verkefna og fleiri þátta.

Samkeppnispotturinn varðar umsóknir sveitarfélaga með þeirri megin breytingu að tryggt verði að eitt sveitarfélag í hverjum landshluta geti ekki fengið í sinn hlut allan þann styrk sem í boði verður.

Gert er ráð fyrir að tilkynnt verði um úthlutun byggðastyrks vegna 2018 fyrir miðjan september til að gera sveitarfélögum m.a. kleift að nota þær upplýsingar við undirbúning umsókna. Gert er ráð fyrir að niðurstaða úthlutunar úr samkeppnispottinum liggi fyrir í lok október eða byrjun nóvember.

Nákvæmar dagsetningar, auk lítillega uppfærðra umsóknargagna og skilmála, verða sendar út síðar í þessum mánuði. Áhugasöm sveitarfélög eru hvött til þess að leggja drög að umsóknum hið fyrsta.

smari@bb.is

#vestfirðingareruþessvirði

Nanný Arna Guðmundsdóttir

Rætt var við Nanný Örnu Guðmundsdóttir, forseta bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar,  í morgunútvarpi Rás 2 í morgun. Nanný hefur gagnrýnt umræðuna um Hvalárvirkjun harðlega og hleypti af stokkunum átaki á Facebook þar sem hún hvetur Vestfirðinga til að pósta myndum af sér og sínum njóta náttúrunnar á Vestfjörðum. Nanný leggur áherslu á að Vestfirðingar hafi ekki allir eina skoðun og séu ýmist með eða móti til dæmis Hvalárvirkjun, en að kalla Vestfirðinga umhverfissóða og fávísa hefur henni sárnað.

Vestfirðingar þekkja ekki sína náttúruna og það þarf að kynna hana fyrir þeim er tónn sem henni líkar ekki. Nanný er fylgjandi Hvalárvirkjun en þó með því skilyrði að fyrir liggi í hringtenging Vestfjarða í kjölfarið.

Fjölmargir hafa brugðist við ákalli Nannýar og birt fallegar náttúrulífsmyndir og merkja með myllumerkjunum  #náttúranervestfirðingur og #vestfirðingareruþessvirði.

Hér má nálgast upptöku af viðtalinu.

bryndis@bb.is

Stjórnvöld höggvi á hnútana

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga, krefst þess að stjórnvöld gefi íbúum Vestfjarða skýr svör og höggvi nú þegar á þá hnúta sem standa atvinnuuppbyggingu í fjórðungnum fyrir þrifum. Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga gagnrýnir harðlega hugmyndir um að laxeldi við Ísafjarðardjúp verði slegið á frest eða laxeldi settir þvílíkir afarkostir að ekki verður unnt að hefja raunhæfa uppbyggingu laxeldis við Djúp. Þetta kemur fram í ályktun stjórnarinnar.

Í ályktuninni segir að óhóflegur flutningskostnaður rafmagns ásamt erfiðum rekstrarskilyrðum vegna ótryggrar raforku og skorts á boðlegum heilsárssamgöngum innan Vestfjarða sé mikil ógn við atvinnuöryggi í fjórðungnum. Stjórn verkalýðsfélagsins skorar á Alþingi að boða lagasetningu vegna vegagerðar í Teigsskógi sem og að stórbæta afhendingaröryggi raforku í fjórðungnum með því að ráðast strax í byggingu Hvalárvirkjunar.

„Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga minnir á að landsbyggðin ráðstafar um 30-80% af sínum tekjum á höfuðborgarsvæðinu en höfuðborgarsvæðið eingöngu 10-20% af sínum tekjum í hendur lögaðila á landsbyggðinni. Því eru það sjálfsögð mannréttindi að búsetuskilyrði á Vestfjörðum komist inn í tuttugustu og fyrstu öldina. Við viljum að fólkið okkar sé sett í forgang og hér verði sköpuð skilyrði til atvinnuppbyggingar í sátt íbúa og náttúru. Vestfirðingar eru ekki að biðja um neitt meira en fá að bjarga sér,“ segir í niðurlagi ályktunarinnar.

smari@bb.is

Lektor gagnrýnir áhættumat Hafró

Sjókvíar í Tálknafirði.

Margar aðferðir eru þekktar til að minnka hættu á erfðablöndun eldisfisks við villta stofna og að mati Ólafs Sigurgeirssonar, lektors í fiskeldi við Háskólann á Hólum, væri fróðlegt að sjá útkomu áhættumats Hafrannsóknastofnunar ef þeim aðferðum væri bætt inn í reiknilíkanið. Grein eftir Ólaf birtist í Kjarnanum í gær. Það sem helst kemur til greina er útsetning seiða seint um sumar eða að hausti sem og útsetning á stórseiðum (stærri en 500 g).

Ólafur segir að haustseiði eða stærri seiði sem sleppa að hausti til, eftir að nátt­úru­leg ljóslota tekur að stytt­ast og göngur villtra seiða eru afstaðn­ar, eru talin vera mun minni ógn og afar ólík­leg til að bland­ast við villta laxa­stofna samn­borið við vorseiði. Sam­an­burður á lífslíkum haustseiða og vorseiða í hafi eru taldar vera 1:39, sumsé að fyrir hvert haustseiði sem lifir þrauka 39 vorseiði.

Á æviskeiði eldisfisks stafar mest hætta af fiski sem sleppur sem seiði og af kynþroska fiski. Ólafur segir að með ljósabúnaði á kvíum megi draga verulega úr kynþroska og bendir á fjölda norskra rannsókna. Hann telur einnig að Hafrannsóknastofnun ofmeti verulega fjölda kynþroska laxa úr síðbúnum strokum en í áhættumatinu segir stofnunin að 15% fiska úr síðubúnu stroki nái kynþroska og leiti upp í ár. „Ekki kemur fram hvernig sú tala er valin eða við hvaða gögn hún styðst. Virð­ist þar vera um veru­legt ofmat að ræða enda væri kyn­þroski gríð­ar­legt vanda­mál í lax­eldi ef rétt væri. Það er hins­vegar ekki raun­in,“ segir í greininni.

Hann lýkur greininni á þessum orðum:

„Til­lögur áhættu­mats­skýrsl­unnar eru að banna eldi á kvíum í Ísa­fjarð­ar­djúpi, Stöðv­ar­firði og tak­marka eldi í Berufirði. Fróð­legt væri að skoða hver útkoma áhættu­matslík­ans­ins er ef skil­yrði eru sett um að leyfi­legur útsetn­ing­ar­tími göngu­seiða og stórseiða á þessum svæðum sé tak­mark­aður við lok sum­ars og haust, í ljósi upp­lýs­inga um að þau eigi sér lít­illar lífs von í nátt­úr­unni ef þau sleppa. Jafn­framt væri kveðið á um að full­nægj­andi lýs­ing væri í kví­unum til að hindra kyn­þroska.“

smari@bb.is

Námslán – eilífðar fylginautur

Guðjón Brjánsson

Skólar landsins hafa nú opnað dyr sínar að nýju eftir sumarhlé.  Umræða um skóla- og menntamál er því mikil um þessar mundir og það er eðlilegt því þetta er málefni sem snertir okkur öll, hvar sem við búum á landinu.  Rætt er um gildi skólastarfsins, lengd og fyrirkomulag, innihald og gæði menntunar og ófullnægjandi kjör kennara, kostnað nemenda og líðan þeirra í skólanum svo fátt eitt sé nefnt. Námslán, námsaðstoð og viðmót gagnvart námi er einn angi umræðunnar.

Það er tæplega ágreiningur um að aukin þekking og menntun í hvaða mynd sem er leiði til víðsýni og umburðarlyndis, efli og bæti samfélög.  Á Íslandi hafa viðhorfin til fyrirgreiðslu við námsfólk þróast með öðrum hætti en í nágrannalöndum.  Síðasta aldarfjórðunginn hefur löggjafinn horft á fjárhagslega námsaðstoð í meginatriðum sem hefðbundin lán sem greiðast skuli til baka að fullu, verðtryggð.  Ég heyrði nýlegt og raunverulegt dæmi um einstakling sem innir af hendi um 660 þúsund króna heildargreiðslur af námsláni sínu á þessu ári eftir 21 ár í námslánagreiðslum og enn standa eftir tæplega 8 milljónir króna. Ef þessum einstaklingi endist aldur og greiðslugeta, þá lýkur hann námsláagreiðslum þegar hann nær áttræðisaldri, 13 árum eftir almenna eftirlaunatöku.  Að þessu leyti skiljum við Íslendingar okkur algjörlega frá öðrum Norðurlöndum. Þetta er til vansa fyrir þjóð sem byggir æ meira á þekkingarleit og menntun og á þar allt undir ekki síður en önnur lönd.

Samfylkingin hefur ítrekað lagt fram frumvarp til laga um sanngjarnar lagfæringar á núverandi lögum um námslán, síðast á nýliðnu þingi.  Þær lúta að tveimur þáttum. Annars vegar, að skuldbindingar ábyrgðarmanna á eldri lánum falli niður þegar viðkomandi nær 67 ára aldri eða við fráfall hans.  Dæmi eru um það í núgildandi lögum að háaldrað fólk og/eða aðstandendur verði fyrir verulegum búsifjum vegna ábyrgða. Ákvæðin ganga út yfir gröf og dauða og afkomendur standa jafnvel andspænis óvæntum og óréttlátum skuldbindingum.  Hin breytingin er sú að námslán falli niður á því ári sem skuldari nær 67 ára aldri. Með því er verið að nálgast viðmót Norðurlandaþjóðanna þar sem endurgreiðslutíminn er mun styttri eða jafnan um 15 – 20 ár.  Þar eru reyndar styrkir verulegur hluti námsaðstoðarinnar.

Í fyrravor var lagt fyrir Alþingi frumvarp um námslán og námsstyrki sem ekki náði fram að ganga þar sem ágreiningur var um mikilvæg atriði. Efnislega hneig þó frumvarpið í þá átt sem ásættanlegt getur talist en verulega galla þarf að sníða burt.  Ef hin dáðlausa ríkisstjórn sem nú situr við völd hugsar sér ekki til hreyfings varðandi ný lög um námslán og námsstyrki strax á næsta þingi mun Samfylkingin endurflytja frumvarp sitt enn einu sinni í þeirri viðleitni að knýja fram sanngjarna réttarbót fyrir námsfólk og ábyrgðarmenn eldri lána.

Guðjón S. Brjánsson

alþingismaður

Elín Marta Eiríksdóttir fyrst í mark

Hin árlega þríþraut Craft fór fram á laugardaginn og að sögn Kristbjörns R. Sigurjónssonar fór keppnin vel fram og veðrið var gott. Þátttaka hefði mátt vera betri en þeir sem tóku þátt voru alsælir.

Keppt var bæði í einstaklings og liðakeppni. Mazzi og frændsystkinin sigruðu liðakeppnina á tímanum 01:11:41 en liðið skipuðu Rakel, Marzellíus og Guðmundur. Fljótust í mark af einstaklingum var Elín Marta Eiríksdóttir á á tímanum 01:14:33 en fast á hæla hennar koma Atli Þór Jakobsson á 01:15:53 og í þriðja sæti var Katrín Pálsdóttir á 01:16:18.

Meðfylgjandi myndband tók Hlynur Kristjánsson

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir