Síða 2161

Rúður nötruðu

Íbúar á Ströndum og við innanverðan Breiðafjörð heyrðu í gær miklar drunur úr lofti. Hljóðin koma frá F-15C orrustuþotum bandarískrar flugsveitar sem er hér á landi við loftrýmisgæslu. Á vef RÚV er hafti eftir Eiríki Valdimarssyni á Hólmavík að hann hafi verið í símanum þegar hávaðinn dundi yfir. „Rúðurnar nötruðu og ég hélt að þær myndu beinlínis brotna. Fólki var ansi brugðið.“ Hann segir að annar hvellur hafi heyrst skömmu fyrir hádegi, sem allir hafi tekið eftir í þorpinu.

Sömu sögu segir Reynir Bergseinsson á Króksfjarðarnesi, en hann hrökk við skömmu fyrir hádegi þegar hann heyrði miklar drunur. „Þetta hefur aldrei gerst áður þegar verndarenglarnir fljúga hér hjá,“ segir Reynir í samtali við fréttastofu RÚV.

Sex bandarískar F-15C orrustuþotur komu til landsins 22. ágúst til að sinna loftrýmisgæslu. Með þeim í för voru eldsneytisbirgðavélar. Þotur sveitarinnar voru á flugi yfir norðvestanverðu landinu. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni, sem kemur að verkefninu, eru flugvélarnar í löglegri hæð og hefur ekki verið flogið á hljóðhraða. Þó geti veðuraðstæður orðið til þess að hljóðin frá þeim heyrast víðar og meira en stundum áður.

smari@bb.is

Tímabilið búið hjá Matthíasi

Matthías hefur verið lykilmaður í liði Rosenborgar.

Matthías Viljálmsson spilar ekki meira með Rosenborg á tímabilinu. Hann varð fyrir hnémeiðslum í æfingarleik við Strindheim í fyrradag. Matthías fór ef velli eftir fimm mínútna leik og það kemur í ljós eftir frekari rannsóknir hvort að hann þurfi að gangast undir hnífinn. Rosenborg er í efsta sæti norsku úrvalsdeildarinnar eftir 20 umferðir. „Ég hef áhuga að gerast þjálfari þegar ferlinum lýkur og kannski get ég notað tækifærið núna þegar ég er ekki að spila til að læra eitt og annað af þjálfurunum,“ segir Ísfirðingurinn í viðtali á vefsíðu Roseborgar.

Matthíast segir virkilega leiðinlegt að meiðast núna, hann hafi spilað sinn besta fótbolta á ferlinum í sumar en hann er staðráðinn í að horfa jákvæðum augum fram veginn og koma til baka sem sterkari leikmaður.

smari@bb.is

Breyttar eldisaðferðir gætu opnað fyrir eldi í Djúpinu

Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar. Mynd: Gunnar Kvaran.

Forstjóri Hafrannsóknastofnunar telur síður en svo útilokað að hægt verði að hefja laxeldi í Ísafjarðardjúpi með því að eldisfyrirtækin fari í tilteknar mótvægisaðgerðir „Ég held að þær leiðir finnist innan ekkert mjög langs tíma,“ segir Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafró, en bendir jafnframt á að í sjókvíaeldi er sígandi lukka best og að umhverfisskilyrði í Ísafjarðardjúpi séu ekki þau bestu í heimi fyrir sjókvíaeldi. Samkvæmt áhættumati Hafrannsóknastofnunar er lagt til að ekkert laxeldi verði í Djúpinu. Stofnunin hefur verið gagnrýnd fyrir að taka ekki tillit til mótvægisaðgerða við gerð matsins. Sigurður segir að við gerð matsins hafi verið horft til sjókvíaeldis og þeirra aðferða sem eru stundaðar í dag. „Við bendum á nokkrar leiðir til að draga úr hættu á erfðablöndun en við getum í raun ekki metið þær fyrr en þær eru komnar nær framkvæmdastigi, þess vegna var matið gert út frá því sem er í praxís í dag,“ segir Sigurður.

Hann segir að eldisfyrirtækin séu að skoða sín mál og breyttar aðferðir við eldið og sérfræðingar stofnunarinnar hafa átt nokkra fundi með fyrirtækjunum.

Sigurður telur að innan ekki margra ára verði komnar aðferðir til að ala ófrjóan lax og segir mikla grósku í rannsóknum og tilraunum í þá veru og Hafrannsóknastofnun hefur vilja til að vera aðili að þeim rannsóknum.

Stuðningsmenn fiskeldis í Djúpinu hafa gert lítið í vægi ánna í Ísafjarðardjúpi og þær sagðar manngerðar. Sigurður segir það hafið yfir vafa að í ánum eru sérstakir stofnar og að nokkuð sé til af rannsóknum bæði um Langadalsá og Laugardalsá. „Það er alveg rétt að Laugardalsá var opnuð fyrir fiski um miðja síðustu öld og rannsóknir benda til að stofnarnir í Langadal og Laugardal eru mjög skyldir og væntanlega hefur lax á svæðinu numið land í Laugardal þegar áin var gerð fiskgeng. Það að menn hafi opnað fiskivegi gerir stofninn ekki ómerkilegri, einn þriðji af laxi á Íslandi er búinn þannig til.“

Sigurður bendir á að í stað þess að gera lítið úr þeim villtu laxastofnum sem lifa í ánum í Ísafjarðardjúpi, ætti frekar að einbeita sér að því að finna aðferðir til að vernda þá og draga úr áhættu sem þeim stafar af sjókvíaeldi.

Þær aðferðir sem helst er horft til er útsetning á stærri seiðum og þá seint um sumar eða að hausti. Dregur það úr hættu af snemmstroki. Þá er einnig verið að skoða auknar kynbætur þar sem augun beinast að því að henda smálaxageni úr eldisstofninum. Með því móti yrði lægra hlutfall eldislax kynþroska og dregur það úr áhættu á erfðablöndun úr síðstroki. Sigurður segir að þessar aðferðir komi öllum til góða, jafnt náttúrunni og eldisfyrirtækjunum.

Hann bendir jafnframt á að nægur tími sé til stefnu til að þróa og prófa nýjar aðferðir. Samkvæmt áhættumati Hafró er talið óhætt að ala 70 þúsund tonn á Íslandi. „Það mun taka minnst áratug að ná því. Við eigum ekki til seiðastöðvar til að búa til næg seiði. Við vitum líka að Ísland er jaðarsvæði fyrir fiskeldi þannig að það er sennilegra æskilegra og öruggara að þetta vaxi hægar,“ segir Sigurður.

Á það hefur verið bent, m.a. af formanni Framsóknarflokksins, að þar sem áhættumatið er afar mikilvægt plagg, bæði fyrir villta laxastofna og efnahagslíf í dreifðum byggðum, þurfi það ritrýningu sérfræðinga á alþjóðavísu. Að sögn Sigurðar eru höfundar áhættumatsins að undirbúa vísindagrein sem fer í ritrýningu í erlendu vísindariti í haust. „Við gerð matsins vorum við með tvo framúrskarandi erlenda sérfræðinga með okkur en við gerðum þeim ekki að vera höfundar skýrslu á íslensku. Þeir eru að skrifa með okkur þessa grein. Síðan höfum við viðrað plaggið við kollega, aðallega erlenda, og öll gagnrýni hefur verið jákvæð,“ segir Sigurður og leggur áherslu á að plaggið er lifandi og margt getur breyst í fyllingu tímans, bæði til lækkunar á heildarframleiðslu og hækkunar.

smari@bb.is

Vegaframkvæmdir á Vestfjörðum

Gamla brúin yfir Bjarnarfjarðará sem enn er í notkun. Mynd: Vegagerðin

Vegagerðin auglýsir nú eftir tilboðum í smíði nýrrar brúar yfir Bjarnarfjarðará á Strandavegi (643) í Strandasýslu. Þar með verður einni einbreiðri brú færra á vegum landsins.

Skila þarf tilboðum fyrir 12. september og framkvæmdum skal vera lokið fyrir 1. júlí 2018. Nánari upplýsingar má sjá á vef Vegagerðarinnar.

bryndis@bb.is

Vestfirskir buðu lægst í þjónustuhús

Nýr starfsmaður Vestfjarðastofu mun hefja störf á Þingeyri 1. sept.

Vestfirskir verktaka ehf. buðu lægst í byggingu nýs þjónustuhúss á tjaldsvæðinu á Þingeyri. Tilboð fyrirtækisins hljóðaði upp á 33 milljónir kr. Tvö fyrirtæki buðu í verkið, en tilboð Gömlu spýtunnar ehf. var þremur milljónum kr. hærra. Í verkinu felst að fullgera 58 fm timburhús á steyptum grunni, ganga frá palli í kringum húsið og rotþró.

Verkið verður unnið í tveimur áföngum þannig að ekki verður unnið fyrir meira en 20 milljónir kr. á þessu ári í samræmi við heimildir fjárhagsáætlunar 2017. Verkið verður klárað fyrir næsta vor og reiknast þá af fjárhagsáætlun næsta árs.

smari@bb.is

Málþing um farsæla öldrun

Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur og Öldrunarráð Íslands standa fyrir málþingi á Ísafirði um farsæla öldrun. Markmið þingsins er að skapa umræðu áhugasamra um öldrunarmál, væntingar og viðhorf til efri áranna, vekja jákvæða athygli á eldri borgurum, stöðu þeirra og hvernig þeir líta á framtíð sína. Þátttaka er öllum heimil og kostar ekkert inn á málþingið en fólki er bent á að senda skráningu á póstfangið oldrunarrad@oldrunarrad.is eigi síðar en 11. september.

Málþingið verður á 4. hæð Stjórnsýsluhússins á Ísafirði, miðvikudaginn 13. september milli kl. 15.00 og 18.30.

smari@bb.is

Ljós í götuskápum Mílu

Nú hefur verið kveikt á fjórum götuskápum á Ísafirði sem tengjast efri bænum og Holtahverfinu en um er að ræða götuskápa sem hafa staðið tilbúnir til að þjóna íbúum í nokkur ár, en ekki fengist leyfi til að setja þá í notkun. Kveikt var á þeim nú um mánaðarmótin og hafa íbúar við viðkomandi götur nú möguleika á að tengjast Ljósneti Mílu. Um er að ræða 143 heimilisföng við Engjaveg 22 til 34, Eyrargötu 1 til 8, Fjarðarstræti, Hjallaveg, Hlíðarveg 15 – 48, Hnífsdalsveg (1, 8, og 10) Krók, Miðtún, Seljalandsveg, Sætún, Túngötu og Urðarveg.

Til að nýta sér tenginguna þurfa íbúar að hafa samband við sitt fjarskiptafyrirtæki og panta þjónustu um Ljósnetið.  Öll fjarskiptafyrirtæki á markaði hafa aðgang að kerfi Mílu og geta því boðið sína þjónustu um kerfið.

Með því að tengjast Ljósnetinu þá fá heimilin nú möguleika á 50 Mb/s tengingu sem er mun hraðari tenging en fæst með hefðbundinni ADSL tengingu. Ljósnetið gefur m.a. möguleika á að vera með fleiri en 2 háskerpusjónvörp, nýta sér þjónustu streymisveitna eins og Netflix, hlusta á tónlist á vefnum, allt á sama tíma.

bryndis@bb.is

„Þetta er ákveðin herkvaðning“

Pétur G. Markan.

Fjórðungssamband Vestfirðinga boðar til borgarafundar á Ísafirði sunnudaginn 24. september. Pétur G. Markan, formaður Fjórðungssambandsins, segir fundinn vera ákveðna herkvaðningu. „Það þarf að efla samstöðu og sameiginlegan kraft Vestfirðinga til að fleyta þessum stóru málum áfram, þessum stóru málum sem brenna á okkur sem eru raforkumálin, uppbygging í fiskeldi og vegagerð í Gufudalssveit,“ segir Pétur og bætir við að nú þegar styttist í að Alþingi komi saman sé nauðsynlegt fyrir Vestfirðinga að þétta raðirnar.

smari@bb.is

Hinn árlegi körfuboltadagur á morgun

Hinn árlegi körfuboltadagur Vestra verður haldin á morgun, fimmtudag, í íþróttahúsinu á Torfnesi. Allir áhugasamir krakkar og foreldrar eru hvattir til að mæta og taka þátt í skemmtilegum körfuboltaleikjum og þrautum sem þjálfarar deildarinnar og leikmenn meistaraflokks karla stýra. Í lokinn verður boðið upp á grillaðar pylsur og drykki.

Dagurinn markar upphaf vetrarstarfs yngri flokka deildarinnar en æfingar hófust einmitt nú á mánudaginn. Boðið verður upp á skipulagðar æfingar undir stjórn valinna þjálfara fyrir börn og unglinga frá leikskólaaldri upp í 10. bekk grunnskóla.

Körfuboltadagurinn á morgun hefst kl. 17.30 og stendur til kl. 19.00.

smari@bb.is

Hátt á þriðja hundrað tonn í rækjubætur

Alls 2.042 þorskígildistonnum er úthlutað nú í upphafi fiskveiðiárs sem skel- og rækjubótum en það er um 500 tonnum meira en í fyrra og fara þau til 40 skipa samanborið við 30 skipa á fyrra ári. Þetta kemur fram á vef Fiskistofu. Bæturnar eru til að bæta útgerðum tap vegna takmarkaðra eða engra rækju- og skelveiða. Alls koma 281 þorskígildistonn í hlut báta og skipa á sunnan og norðanverðum Vestfjörðum. Mest fer til útgerða sem eiga rækjukvóta í Arnarfirði, eða 145 tonn og 128 tonn fara til útgerða sem eiga rækjukvóta í Ísafjarðardjúpi. Við bætast átta tonn í skelbætur í Arnarfirði.

Af einstökum skipum á svæðinu koma stærstu bæturnar í hlut Júlíusar Geirmundssonar ÍS, eða 75 þorskígildistonn. Næst mestu er úthlutað til Egils ÍS, eða 52 þorskígildistonnum.

Rækjubæturnar eru miðaðar við að skerðingin verði ekki meiri en 30% frá meðalafla rækjuvertíðanna 1996/1997 – 2005/2006 að frádregnum afla í innfjarðarrækju fiskveiðiársins 2016/2017 og verðmætastuðullinn fyrir rækju er 0,52, miðað við þorskígildi.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir