Síða 2161

Vegaframkvæmdir á Vestfjörðum

Gamla brúin yfir Bjarnarfjarðará sem enn er í notkun. Mynd: Vegagerðin

Vegagerðin auglýsir nú eftir tilboðum í smíði nýrrar brúar yfir Bjarnarfjarðará á Strandavegi (643) í Strandasýslu. Þar með verður einni einbreiðri brú færra á vegum landsins.

Skila þarf tilboðum fyrir 12. september og framkvæmdum skal vera lokið fyrir 1. júlí 2018. Nánari upplýsingar má sjá á vef Vegagerðarinnar.

bryndis@bb.is

Vestfirskir buðu lægst í þjónustuhús

Nýr starfsmaður Vestfjarðastofu mun hefja störf á Þingeyri 1. sept.

Vestfirskir verktaka ehf. buðu lægst í byggingu nýs þjónustuhúss á tjaldsvæðinu á Þingeyri. Tilboð fyrirtækisins hljóðaði upp á 33 milljónir kr. Tvö fyrirtæki buðu í verkið, en tilboð Gömlu spýtunnar ehf. var þremur milljónum kr. hærra. Í verkinu felst að fullgera 58 fm timburhús á steyptum grunni, ganga frá palli í kringum húsið og rotþró.

Verkið verður unnið í tveimur áföngum þannig að ekki verður unnið fyrir meira en 20 milljónir kr. á þessu ári í samræmi við heimildir fjárhagsáætlunar 2017. Verkið verður klárað fyrir næsta vor og reiknast þá af fjárhagsáætlun næsta árs.

smari@bb.is

Málþing um farsæla öldrun

Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur og Öldrunarráð Íslands standa fyrir málþingi á Ísafirði um farsæla öldrun. Markmið þingsins er að skapa umræðu áhugasamra um öldrunarmál, væntingar og viðhorf til efri áranna, vekja jákvæða athygli á eldri borgurum, stöðu þeirra og hvernig þeir líta á framtíð sína. Þátttaka er öllum heimil og kostar ekkert inn á málþingið en fólki er bent á að senda skráningu á póstfangið oldrunarrad@oldrunarrad.is eigi síðar en 11. september.

Málþingið verður á 4. hæð Stjórnsýsluhússins á Ísafirði, miðvikudaginn 13. september milli kl. 15.00 og 18.30.

smari@bb.is

Ljós í götuskápum Mílu

Nú hefur verið kveikt á fjórum götuskápum á Ísafirði sem tengjast efri bænum og Holtahverfinu en um er að ræða götuskápa sem hafa staðið tilbúnir til að þjóna íbúum í nokkur ár, en ekki fengist leyfi til að setja þá í notkun. Kveikt var á þeim nú um mánaðarmótin og hafa íbúar við viðkomandi götur nú möguleika á að tengjast Ljósneti Mílu. Um er að ræða 143 heimilisföng við Engjaveg 22 til 34, Eyrargötu 1 til 8, Fjarðarstræti, Hjallaveg, Hlíðarveg 15 – 48, Hnífsdalsveg (1, 8, og 10) Krók, Miðtún, Seljalandsveg, Sætún, Túngötu og Urðarveg.

Til að nýta sér tenginguna þurfa íbúar að hafa samband við sitt fjarskiptafyrirtæki og panta þjónustu um Ljósnetið.  Öll fjarskiptafyrirtæki á markaði hafa aðgang að kerfi Mílu og geta því boðið sína þjónustu um kerfið.

Með því að tengjast Ljósnetinu þá fá heimilin nú möguleika á 50 Mb/s tengingu sem er mun hraðari tenging en fæst með hefðbundinni ADSL tengingu. Ljósnetið gefur m.a. möguleika á að vera með fleiri en 2 háskerpusjónvörp, nýta sér þjónustu streymisveitna eins og Netflix, hlusta á tónlist á vefnum, allt á sama tíma.

bryndis@bb.is

„Þetta er ákveðin herkvaðning“

Pétur G. Markan.

Fjórðungssamband Vestfirðinga boðar til borgarafundar á Ísafirði sunnudaginn 24. september. Pétur G. Markan, formaður Fjórðungssambandsins, segir fundinn vera ákveðna herkvaðningu. „Það þarf að efla samstöðu og sameiginlegan kraft Vestfirðinga til að fleyta þessum stóru málum áfram, þessum stóru málum sem brenna á okkur sem eru raforkumálin, uppbygging í fiskeldi og vegagerð í Gufudalssveit,“ segir Pétur og bætir við að nú þegar styttist í að Alþingi komi saman sé nauðsynlegt fyrir Vestfirðinga að þétta raðirnar.

smari@bb.is

Hinn árlegi körfuboltadagur á morgun

Hinn árlegi körfuboltadagur Vestra verður haldin á morgun, fimmtudag, í íþróttahúsinu á Torfnesi. Allir áhugasamir krakkar og foreldrar eru hvattir til að mæta og taka þátt í skemmtilegum körfuboltaleikjum og þrautum sem þjálfarar deildarinnar og leikmenn meistaraflokks karla stýra. Í lokinn verður boðið upp á grillaðar pylsur og drykki.

Dagurinn markar upphaf vetrarstarfs yngri flokka deildarinnar en æfingar hófust einmitt nú á mánudaginn. Boðið verður upp á skipulagðar æfingar undir stjórn valinna þjálfara fyrir börn og unglinga frá leikskólaaldri upp í 10. bekk grunnskóla.

Körfuboltadagurinn á morgun hefst kl. 17.30 og stendur til kl. 19.00.

smari@bb.is

Hátt á þriðja hundrað tonn í rækjubætur

Alls 2.042 þorskígildistonnum er úthlutað nú í upphafi fiskveiðiárs sem skel- og rækjubótum en það er um 500 tonnum meira en í fyrra og fara þau til 40 skipa samanborið við 30 skipa á fyrra ári. Þetta kemur fram á vef Fiskistofu. Bæturnar eru til að bæta útgerðum tap vegna takmarkaðra eða engra rækju- og skelveiða. Alls koma 281 þorskígildistonn í hlut báta og skipa á sunnan og norðanverðum Vestfjörðum. Mest fer til útgerða sem eiga rækjukvóta í Arnarfirði, eða 145 tonn og 128 tonn fara til útgerða sem eiga rækjukvóta í Ísafjarðardjúpi. Við bætast átta tonn í skelbætur í Arnarfirði.

Af einstökum skipum á svæðinu koma stærstu bæturnar í hlut Júlíusar Geirmundssonar ÍS, eða 75 þorskígildistonn. Næst mestu er úthlutað til Egils ÍS, eða 52 þorskígildistonnum.

Rækjubæturnar eru miðaðar við að skerðingin verði ekki meiri en 30% frá meðalafla rækjuvertíðanna 1996/1997 – 2005/2006 að frádregnum afla í innfjarðarrækju fiskveiðiársins 2016/2017 og verðmætastuðullinn fyrir rækju er 0,52, miðað við þorskígildi.

smari@bb.is

Grænfánanum flaggað á Arakletti

Það ríkti gleði á Arakletti þegar fánanum var flaggað í fyrsta sinn.

Leikskólinn Araklettur á Patreksfirði hefur hlotið Grænfánann. Það var Friðbjörg Matthíasdóttir, starfandi bæjarstjóri í Vesturbyggð, sem afhenti fánann fyrir hönd Landverndar. Grænfáninn alþjóðlegt verkefni sem hefur það að markmiði að að auka umhverfismennt og styrkja menntun til sjálfbærni í skólum. Skólar ganga í gegnum sjö skref í átt að aukinni umhverfisvitund og sjálfbærni. Þegar því marki er náð fá skólarnir að flagga Grænfánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.

Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál.

smari@bb.is

Fallið frá fækkun sorphirðudaga

Umhverfis- og framkvæmdanefnd Ísafjarðarbæjar hefur fallið frá hugmyndum um fækkun sorphirðudaga. Nefndin hafði áður mælt með að sorphirðudögum yrði fækkað þannig að þrjá vikur yrðu á milli losunardaga. Í núverandi kerfi er sorphirða á tveggja vikna fresti og verður það óbreytt þegar sophirða og -förgun verður boðin út að nýju í Ísafjarðarbæ. Nefndin leggur til að moltugerð verði bætt við flokkunarkerfi sorps, en það felur í sér innhengt ílát í núverandi sorptunnur.

smari@bb.is

Mikil gerlamengun á sund- og baðstöðum

Hellulaug í Flókalundi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Í greinargerð Antons Helgasonar, forstöðumanns Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, með fundargerð Heilbrigðisnefndarinnar frá því í lok ágúst kemur fram að víða eru gerlatölur langt yfir mörkum. Viðmiðunargildi eru 0-500 gerlar í 100 ml og að hámarki mega þeir vera 1000 talsins. Anton skrifar að við sýnatökur í sundlaugum og heitum pottum hafi mælst yfir 200.000 gerlar í 100 ml. Hann tekur fram að ýmsir sjúkdómar, þar á meðal mjög alvarlegir sjúkdómar, geti borist með baðvatni ef ekki er hugað nægjanlega vel að sótthreinsun. Algengustu sjúkdómar sem tengja má sundlauganotkun eru sýkingar í slímhimnum og í sárum og rispum á húð.  Slíkar sýkingar eru mögulegar þar sem slímhimnur og húð eru í nánu sambandi við örverur í baðvatninu.

„Það hefur lengi verið tíðkað að hengja boðbera slæmra tíðinda. Þannig varð í sumar uppákoma vegna skólpmengunar vegna bilunar í dælustöð í Reykjavík. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgdist með og tók sýni meðfram strandlengjunni. Það sem olli fjölmiðlafári í sumar vegna skólpmengunar var strandsjór sem var allstaðar undir 1000 saurgerlar í 100ml,“ skrifar Anton.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir