Síða 2160

„Það komu fleiri að plottinu“

Gísli Halldór Halldórsson.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, ætlar ekki að draga til baka orð sem hann lét fjalla um störf starfshóps um stefnumótun í fiskeldi. Þrír nefndarmenn, þeir Kjartan Ólafsson stjórnarformaður Arnarlax, Guðmundur Gíslason stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða og Óðinn Sigþórsson frá Landssambandi veiðifélaga hafa farið fram á opinbera afsökunarbeiðni frá Ísafjarðarbæ vegna orða Gísla Halldórs. Að öðrum kosti áskilja þeir sér allan rétt til að leita annarra ráða til að fá ummælin dæmd ómerkt. Þeir saka Gísla Halldór um væna nefndarmennina um óheilindi og óheiðarleika og í bréfi til bæjarstjórnar er vakin athygli á orðalagi Gísla Halldórs þar sem hann talar um „plott“ og „hrossakaup“ í störfum nefndarinnar.

„Ég sagði ekkert um óheilindi og óheiðarleika í ræðunni og ég gerði mér ekki grein fyrir að þetta færi svona fyrir brjóstið á þessum þremur fulltrúum einum. Það voru fleiri í nefndinni sem komu að því að stýra plottinu,“ segir Gísli Halldór sem sér enga ástæðu til að biðjast afsökunar á ummælunum.

„Þó ég noti orð eins og hrossakaup þá veit ég alveg að það voru ekki seldir neinar hestar. Það er augljóst að menn komust að samkomulagi, enda rauk fulltrúi veiðiréttarhafa af fundi þegar fulltrúar fiskeldisfyrirtækjanna ætluðu að leggja fram bókun. Samkvæmt fjölmiðlum sagði hann bókunina ganga gegn samkomulagi í nefndinni. Ég veit ekkert hver stýrði plottinu og hvernig hrossakaupin fóru fram og ekki heldur hvort að óheilindi og óheiðarleiki hafi ráðið för,“ segir Gísli Halldór.

Hann gerir verulegar athugasemdir við að bréfinu sé beint til bæjarstjórnar og bæjarstjórn krafin um afsökunarbeiðni fyrir orð sem hann lætur falla í ræðustól.

smari@bb.is

Óttast að yngri bændur bregði búi

Mikill vandi steðjar að sauðfjárrækt í kjölfar þriðjungslækkun afurðaverðs í haust.

Formaður Landssamtaka sauðfjárbænda segir tillögur landbúnaðarráðherra um lausn á vanda sauðfjárbænda ekki taka heildstætt á vandanum og óttast að stærri bú og yngri bændur muni einna helst taka tilboðinu og bregða búi.

„Ég geri mér því ekki enn grein fyrir því hvernig bændur ætla að bregðast við. Í tillögunum er mikill hvati fyrir að sauðfjárbændur hætti búskap en minni hvati til að þeir fækki fé sem er á allan hátt samfélagslega betra. Þrátt fyrir að erfitt sé að ráða í stöðuna og spá í framtíðina óttast ég að það verði einna helst yngri bændur og stærri bú sem koma til með að taka tilboðinu og hætti sauðfjárbúskap,“ segir Oddný Steina Valsdóttir, bóndi og formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, í samtali við Bændablaðið.

Haraldur Benediktsson, fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis og fyrrv. formaður Bændasamtakanna, segir í viðtali í sama blaði að í tillögum ráðherra felist eyðibýlastefna. Hann segist þó ekkert vilja útiloka starfslok einhverra bænda, en á þeim grunni þurfi þó að reisa einhvern rekstur á jörðunum til framtíðar. „Í sjálfu sér skiptir samfélögin ekki öllu máli hvort menn búa með sauðfé á jörðunum eða stunda þar annan verðmætaskapandi rekstur. Ég vil ekki meiri eyðibýlastefnu. Það var ekki það sem sveitarstjórnir voru að kalla eftir með ályktunum sínum,“ segir Haraldur.

smari@bb.is

Krefjast afsökunarbeiðni frá Ísafjarðarbæ og hóta málsókn

Gísli Halldór Halldórsson.

Fulltrúar Landssambands fiskeldisstöðva og Landssambands veiðifélaga krefjast þess að Ísafjarðarbær biðji þá opinberlega afsökunar vegna ummæla sem Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri hefur látið falla um störf starfshóps um stefnumótun í fiskeldi. Ummælin féllu á aukafundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar 24. ágúst. Verði bærinn ekki við kröfunni áskilja þeir sér rétt til að fá ummælin ómerkt með öðrum úrræðum.

Þetta kemur fram í bréfi til forseta bæjarstjórnar og formanns bæjarráðs undirritað af Kjartani Ólafssyni stjórnarformanni Arnarlax, Guðmundi Gíslasyni stjórnarformanni Fiskeldis Austfjarða, og Óðni Sigþórssyni frá Landssambandi veiðifélaga. Þremenningarnir sátu í starfshópnum.

Þeir segja að í ummælum Gísla Halldórs felist gróf og ósönn ásökun um að fulltrúi veiðiréttarhafa og fulltrúar laxeldisfyrirtækjanna hafi sýnt af sér óheilindi og óheiðarleika í störfum sínum. Í bréfinu er vísað sérstaklega til orða Gísla Halldórs um að fulltrúarnir hafi „plottað“ og haft „hrossakaup“ sem leiddu til þeirrar niðurstöðu að ekki yrði leyft sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi.

Í bréfinu segir að Gísla Halldóri hafi verið boðið að draga ummæli sín til baka og leggja fram afsökunarbeiðni en hann hafi hafnað því.

Hér má nálgast upptöku bb.is af fundinum sem vísað er til.

smari@bb.is

Hagnaður þeirra stærstu dregst saman

Ebitda-hagnaður níu af stærstu út­gerðum lands­ins dróst sam­an á milli ára í öll­um til­vik­um nema einu, sam­kvæmt sam­an­tekt ViðskiptaMogg­ans. Lækk­un­in er á milli 6 og 41% eða um 15% að meðaltali hjá fyr­ir­tækj­un­um níu. Lækk­un­in er svipuð og sem nem­ur styrk­ingu krónu á liðnu ári en hún nam 16%. Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir að í ársreikningum fyrirtækjanna kristallist versnandi staða í sjávarútvegi sem helst er rakin til hækkandi gengis krónunnar.

smari@bb.is

Á allra vörum

Nýtt átak „Á allra vörum“ hófst gær og að þessu sinni er áherslan lögð á Kvennaathvarfið og í gær mátti sjá í fjölmiðlum áhrifaríka auglýsingu um ofbeldi á heimili. Hægt er að kaupa sett með varalit og glossi og rennur kaupverðið til átaksins. Það eru sölustaðir víða um landi sem bjóða varasettið til sölu og allir gefa söluþóknun sína til söfnunarinnar, lista yfir sölustaði má sjá vef „Á allra vörum“

Það eru þær Gróa Ásgeirsdóttir, Guðný Pálsdóttir og Elísabet Sveinsdóttir sem hafa staðið fyrir söfnunarátaki frá árinu 2008 og hafa margir notið góðs. Árið 2008 var það Krabbameinsfélagið sem var í forgrunni og það aðstoðað við að kaupa brjóstamyndatæki sem nefnt var Björg. 2009 naut Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna stuðningsins og byggt var hvíldarheimilið Hetjulundur sem er fyrir veiku börnin og fjölskyldur þeirra. Ljósið var í forgrunni árið 2010, Neistinn árið 2011, börn með alvarlega og langvinna sjúkdóma árið 2012, geðheilbrigði árið 2013 og bætt samskipti meðal barna og unglinga árið 2015.

bryndis@bb.is

Viðhorf bæjarbúa könnuð

Skemmtiferðaskip á Ísafirði.

Viðhorf íbúa Ísafjarðarbæjar til skemmtiferðaskipa verða könnuð á næstunni að undirlagi starfshóps um framtíðarskipan komu skemmtiferðaskipa til bæjarins. Könnunin verður rafræn og verður aðgengileg á næstu dögum og mun könnunin standa í tvær vikur. Í könnuninni verður meðal annars spurt um afstöðu íbúa Ísafjarðarbæjar til fjölda þeirra skipa sem sækja bæinn heim, samskipti íbúanna við erlenda ferðamenn og afstöðu þeirra til uppbyggingar aðstöðu vegna komu skemmtiferðaskipa til bæjarins.

smari@bb.is

Hefur skilning á óánægju Djúpmanna

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og fyrrv. sjávarútvegsráðherra.

Sjávarútvegsráðherra hefur mikinn skilning á óánægjuröddum Vestfirðinga með skýrslu stefnumótunarnefndar í fiskeldi. „Já ég hef mjög mikinn skilning á þessu. Ég skil sérstaklega norðanverða Vestfirðina, Djúpið. Þar eru menn að reyna að halda áfram við að byggja upp sitt samfélag og sína innviði. Það gerist meðal annars í gegnum uppbyggingu atvinnugreina. Þannig að ég skil Djúpmenn mjög vel,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra í tíufréttum Sjónvarpsins í gær. Hún benti þó á að áhættumat Hafrannsóknastofnunar er lifandi plagg „þótt sumir vilji sjá það dautt,“ eins og ráðherra orðaði það.

Hún greindi frá, rétt eins og Siguður Guðjónsson forstjóri Hafró gerði í viðtali í bb.is í gær, að áhættumatið fari í alþjóðlega rýni helstu sérfræðinga í fiskeldi.

Ráherra var spurð út í stöðu þeirra fyrirtækja sem hafa kostað miklum fjármunum í undirbúning laxeldis í Djúpinu og hvort að ríkið muni bjóða þeim bætur ef ekkert verður úr laxeldinu. Eigum við ekki aðeins að anda rólega?,“ svaraði ráðherra og sagði alveg ljóst að  í landinu gildi ákveðin lög og réttindi sem tengist stjórnsýslunni, jafnræði og svo framvegis. „Við ætlum bara að byggja upp gott kerfi í kringum fiskeldið. Við ætlum að byggja upp greinina til framtíðar.“

smari@bb.is

Úttekt á stöðu strandveiða

Nú stendur yfir úttekt á stöðu strandveiða. Sjávarútvegsráðuneytið fól Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri að gera úttektina. Á vef Landssambands smábátaeigenda er greint frá að í bréfi sem útgerðir strandveiðibáta hafa fengið segi að í ljósi þess að meiri reynsla er komin á veiðarnar og breytinga sem hafa orðið í rekstri útgerða á síðustu árum sé mikilvægt að kanna stöðu strandveiða á vertíðinni sem lauk í ágúst.

Strandveiðimenn hörmuðu hlutinn sinn í sumar enda var fiskverð lágt, sérstaklega fyrripart sumars.

Landssambandið hvetur strandveiðimenn að taka þátt í könnuninni til að sem marktækust niðurstaða náist.

Í könnunni geta strandveiðimenn komið á framfæri sjónarmiðum sínum um veiðarnar. T.d. er spurt um álit viðkomandi um hvernig eigi að hafa veiðarnar á næstu árum. Til dæmist hvort að banndagar eigi að vera með öðrum hætti en á föstudögum, laugardögum og sunnudögum, í hvaða mánuði veiðarnar eigi að hefjast og hvað sé hægt að gera til að strandveiðar þjóni byggðunum betur.

smari@bb.is

Rúður nötruðu

Íbúar á Ströndum og við innanverðan Breiðafjörð heyrðu í gær miklar drunur úr lofti. Hljóðin koma frá F-15C orrustuþotum bandarískrar flugsveitar sem er hér á landi við loftrýmisgæslu. Á vef RÚV er hafti eftir Eiríki Valdimarssyni á Hólmavík að hann hafi verið í símanum þegar hávaðinn dundi yfir. „Rúðurnar nötruðu og ég hélt að þær myndu beinlínis brotna. Fólki var ansi brugðið.“ Hann segir að annar hvellur hafi heyrst skömmu fyrir hádegi, sem allir hafi tekið eftir í þorpinu.

Sömu sögu segir Reynir Bergseinsson á Króksfjarðarnesi, en hann hrökk við skömmu fyrir hádegi þegar hann heyrði miklar drunur. „Þetta hefur aldrei gerst áður þegar verndarenglarnir fljúga hér hjá,“ segir Reynir í samtali við fréttastofu RÚV.

Sex bandarískar F-15C orrustuþotur komu til landsins 22. ágúst til að sinna loftrýmisgæslu. Með þeim í för voru eldsneytisbirgðavélar. Þotur sveitarinnar voru á flugi yfir norðvestanverðu landinu. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni, sem kemur að verkefninu, eru flugvélarnar í löglegri hæð og hefur ekki verið flogið á hljóðhraða. Þó geti veðuraðstæður orðið til þess að hljóðin frá þeim heyrast víðar og meira en stundum áður.

smari@bb.is

Tímabilið búið hjá Matthíasi

Matthías hefur verið lykilmaður í liði Rosenborgar.

Matthías Viljálmsson spilar ekki meira með Rosenborg á tímabilinu. Hann varð fyrir hnémeiðslum í æfingarleik við Strindheim í fyrradag. Matthías fór ef velli eftir fimm mínútna leik og það kemur í ljós eftir frekari rannsóknir hvort að hann þurfi að gangast undir hnífinn. Rosenborg er í efsta sæti norsku úrvalsdeildarinnar eftir 20 umferðir. „Ég hef áhuga að gerast þjálfari þegar ferlinum lýkur og kannski get ég notað tækifærið núna þegar ég er ekki að spila til að læra eitt og annað af þjálfurunum,“ segir Ísfirðingurinn í viðtali á vefsíðu Roseborgar.

Matthíast segir virkilega leiðinlegt að meiðast núna, hann hafi spilað sinn besta fótbolta á ferlinum í sumar en hann er staðráðinn í að horfa jákvæðum augum fram veginn og koma til baka sem sterkari leikmaður.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir