Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2159

Fjallskagaviti verði lagður niður

Fjallaskagaviti. Mynd: Kristján Pálsson.

Vegagerðin áformar að slökkva á Fjallaskagavita í Dýrafirði. Þegar mikil útgerð var frá Þingeyri gegndi vitinn veigamikli hlutverki, en hann var reistur árið 1954. Með breyttum tímum er talið fullnægjandi að Svalvogaviti verði innsiglingarviti fyrir Arnarfjörð og Dýrafjörð.

Fjallaskagi var ein af stóru verstöðvunum á Vestfjörðum. Líklega frá upphafi búsetu á Vestfjörðum var róið þaðan til fiskjar. Síðast var róið frá Fjallaskaga árið 1940 og sjá má leifar af verbúðum og fiskgörðum á svæðinu. Nokkrar verbúðanna eru á ágætu standi en aðrar eru að skemmast og eitthvað er horfið í sjóinn.

Valinn í U-16 landsliðið

Þórður Gunnar Hafþórsson

Þórður Gunnar Hafþórsson, knattspyrnumaður í Vestra, hefur verið valinn í U-16 ára landsliðið. Næsta verkefni landsliðsins er Norðurlandamót sem verður haldið á Íslandi dagana 30.júlí – 5.ágúst og verða leikirnir á Suðurlandi og Suðurnesjum. Þórður Gunnar, sem er fæddur árið 2001, spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki í fyrra þegar hann kom við sögu í tveimur leikjum. Á yfirstandandi tímabili hefur hann spilað í átta leikjum og skorað tvö mörk.

Hvatning til útivistar á 90 ára afmæli Ferðafélagsins

Samningur um verkefnið undirritaður. Frá vinstri: Sigrún A. Þorsteinsdóttir forvarnarfulltrúi VÍS, Páll Guðmundsson framkvæmdasstjóri FÍ, Guðný Helga Herbertsdóttir markaðsstjóri VÍS, Ólafur Örn Haraldsson forseti FÍ og Ólöf Sívertssen verkefnisstjóri hjá FÍ

Ferðafélag Íslands (FÍ) og VÍS hafa skrifað undir samstarfssamning varðandi Lýðheilsugöngur FÍ sem verða á öllu landinu nú í september. Göngurnar eru einn af hápunktunum í glæsilegri afmælisdagskrá FÍ en félagið fagnar 90 ára afmæli á árinu. Ráðgert er að göngurnar fari fram alla miðvikudaga í septembermánuði kl. 18:00.  Göngurnar verða í nærumhverfi hvers bæjarfélags og verða fjölskylduvænar og taka u.þ.b. 60-90 mín.

Tilgangurinn með verkefninu er sá að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.

VÍS kemur myndarlega að verkefninu enda þekkt fyrir áherslu á forvarnir, heilsueflingu og öryggi. Með þessu samstarfi vilja allir hlutaðeigandi leggja sitt af mörkum til að stuðla að bættri lýðheilsu landans þar sem horft er til líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar vellíðunar auk öryggis- og umhverfisþátta. Faglegir samstarfsaðilar verða Velferðarráðuneytið og Landlæknisembættið.

Ferðafélag Íslands og VÍS hvetja íbúa sveitarfélaga landsins til þess að taka endilega þátt í þessu skemmtilega og heilsueflandi verkefni, hvort sem um er að ræða skipulagningu á göngum eða almenna þátttöku á göngudögunum.

Úlfur Úlfur í Edinborg

Rapptvíeykið Úlfur Úlfur hefur verið ein vinsælasta rappsveit landsins síðustu ár og ættu því að vera flestum kunnugir. Eftir vel heppnaða útgáfu plötu þeirra Tvær plánetur árið 2015 hafa drengirnir verið ansi sýnilegir í íslenskri – og nú nýverið í evrópskri tónlistarflóru – og hafa verið iðnir við tónleikahald. Veturinn 2016 lokuðu þeir sig af við skriftir og út varð nýjasta plata þeirra Hefnið okkar sem kom út nýverið. Platan hefur fengið afbragðs viðtökur og fyrirhugaður er íslandstúr í sumar og mánaðarlangur evróputúr í kjölfarið. Strákarnir koma fram í Edinborgarhúsinu í kvöld og búast má við algjörri veislu fyrir augu og eyru. Tónleikarnir verða kl 21 og miðaverð er 2.900.

Fjölgar mest í ferðaþjónustu og byggingariðnaði

Launþegum hef­ur fjölgað mikið á milli ára hjá launa­greiðend­um í bygg­ing­ariðnaði og ferðaþjón­ustu. Launþegum hef­ur hins veg­ar fækkað í sjáv­ar­út­vegi. Í maí voru 2.521 launa­greiðend­ur og um 12.400 launþegar í bygg­ing­ar­starf­semi og mann­virkja­gerð og hafði launþegum fjölgað um 1.600 eða 15% sam­an­borið við maí 2016. Sömu­leiðis voru í maí 1.718 launa­greiðend­ur og um 28.100 launþegar í ein­kenn­andi grein­um ferðaþjón­ustu og hafði launþegum fjölgað um 3.500 eða 14% á einu ári. Launþegum í heild hef­ur á sama tíma fjölgað um 9.800 eða 5%. Þetta kem­ur fram í frétt á vef Hag­stofu Íslands.

Að jafnaði 17.113 launa­greiðend­ur voru á Íslandi á tíma­bil­inu júní 2016 til maí 2017. Hafði þeim fjölgað um 742, eða 4,5% frá síðustu 12 mánuðum á und­an. Á sama tíma­bili greiddu launa­greiðend­ur að meðaltali um 183.600 ein­stak­ling­um laun sem er aukn­ing um 8.600, eða 4,9% sam­an­borið við 12 mánaða tíma­bil ári fyrr.

„Hafa verður í huga að í þess­um töl­um eru ekki upp­lýs­ing­ar um ein­yrkja sem eru með rekst­ur á eig­in kenni­tölu og greiða sjálf­um sér laun, en slíkt rekstr­ar­form er al­gengt í bygg­ing­ariðnaði, land­búnaði, hug­verkaiðnaði og skap­andi grein­um svo dæmi séu tek­in,“ seg­ir í frétt Hag­stof­unn­ar.

Heild­ar­fjöldi launa­greiðenda í apríl 2017 telst nú vera 16.951 og heild­ar­fjöldi launþega 181.500. Fjöldi launþega jókst um 9.000 (5,2 %) frá apríl 2016 til apríl 2017.

Innbrot í Grunnskólann

Grunnskólinn á Ísafirði.

Aðfaranótt 4. júlí barst lögreglunni á Ísafirði tilkynning um grunsamlegar mannaferðir í húsnæði Grunnskólans á Ísafirði. Þegar lögreglan kom á vettvang kom í ljós að búið var að brjótast þar inn og hafði lögreglan upp á öðrum þeirra sem það gerði. Hinn kom í leitirnar skömmu síðar. Játning liggur fyrir hjá þessum mönnum að hafa brotist inn í byggingu skólans og valdið einhverju tjóni þar. Mennirnir voru ölvaðir.

Í dagbók lögreglu kemur fram að alls bárust 9 tilkynningar í vikunni um að ekið hafi verið á búfé á vegum í umdæminu. Flestar tilkynningarnar vörðuðu atvik í Ísafjarðardjúpi.

Tilkynnt var um umferðaróhapp í göngunum milli Bolungarvíkur og Hnífsdals um miðjan dag þann 3 . júlí. Krani vörubifreiðar, sem ekið var inn í göngin frá Bolungarvík, rakst upp í hæðarslá. Hæðarsláin féll niður og á fólksbifreið sem þarna var á ferð einnig. Engin slys urðu á vegfarendum en töluvert tjón á fólksbifreiðinni og umferðarmannvirkjum í göngunum.

Kl.15:00 föstudaginn 7. júlí barst tilkynning í gegnum Neyðarlínu um umferðarslys í Vestfjarðagöngum. Lögregla, slökkvilið og sjúkraflutningamenn, auk læknis, fóru á vettvang, enda var tilkynnt um harðan árekstur og að fimm væru slasaðir. Ökumenn og farþegar voru fluttir á sjúkrahúsið á Ísafirði. Enginn þó með lífshættulega áverka.

63 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu. Flestir voru þeir stöðvaðir á Djúpvegi og í Strandasýslu.

Einn ökumaður var kærður í vikunni, grunaður um ölvun við akstur. Höfð voru afskipti af þeim aðila í Bolungarvík að morgni 5. júlí.

Svæðisskipulagsstillaga liggur fyrir

Reykhólar. Mynd: Árni Geirsson.

Drög að svæðisskipulagstillögu fyrir Dalabyggð, Reykhólahrepp og Strandabyggð liggja nú fyrir. Svæðisskipulagsnefnd ákvað á fundi sínum um miðjan júní sl. að kynna drögin óformlega á netinu í sumar og óska eftir ábendingum frá íbúum og öðrum hagsmunaaðilum fyrir 12. ágúst. Eftir þann tíma verður unnið úr ábendingum sem kunna að berast og gengið frá tillögu til formlegrar kynningar  í samræmi við skipulagslög. Sú kynning verður auglýst undir lok ágúst.

Í farbanni á Bíldudal

Norski brunnbáturinn M/V Viking Saga var settur í farbann á Bíldudal 30. júní. Á vef samgöngustofu er greint frá að við hafnarríkiseftirlit kom í ljós að fjölmörg vottorð og skírteini skipsins skorti. Skipið taldist hæft til siglinga, að öðru leyti en því að skírteinin sjálf vantaði. Fékk það því heimild til takmarkaðra athafna innan Patreksfjarðar og Arnarfjarðar. Arnarlax hf. á Bíldudal er með Viking Saga á leigu og hefur skipið verið í seiðaflutningum. Farbanni hefur verið aflétt enda hefur verið greitt úr málum skipsins er varða vottorð og skírteini.

Vestfjarðavíkingur þriðja árið í röð

Ari tekur á því í Herkúlesarhaldinu á Hólmavík.

Íslenskir aflraunamenn fóru mikinn á norðanverðum Vestfjörðum um helgina, þegar Vestfjarðavíkingurinn var haldinn í 25. sinn. Ungir aflraunamenn settu sterkan svip á keppnina. Ari Gunnarsson sigraði þriðja árið í röð, eftir harða keppni. Vestfjarðavíkingurinn hófst á Drangsnesi, en einnig var keppt á Hólmavík, Djúpavík, Ísafirði, Þingeyri og Suðureyri.

Ari Gunnarsson innsiglaði sigur sinn í lokagreininni, steinalyftum á Suðureyri og er þar með Vestfjarðavíkingur þriðja árið í röð. Óskar Pétur Hafstein varð annar , Eyþór Ingólfsson Melsteð þriðji, Fannar Smári Vilhjálmsson fjórði og Theódór Már Guðmundsson.

Björgunarvesti verði skylda á minni bátum

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til ráðnueytis samgöngumála að setja verði reglur sem skylda sjómenn til að nota björgunarvesti við vinnu á opnu þilfari sem og að reglur um búnað til björgunar manni úr sjó nái einnig til skipa sem eru undir 15 metrum. „Tíminn er skammur þegar menn eru komnir í sjóinn, það er kalt og það að halda mönnum á floti, hjálpar til og eykur líkurnar á björgun,“ segir Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnarskóla sjómanna og nefndarmaður í rannsóknarnefnd samgönguslysa, í samtali við fréttastofu RÚV. Hann bendir á að skipverjar á uppsjávarskipum og togurum eru björgunarvestum á opnum þilförum.

Skipverji lést á Húnaflóa í apríl 2016. Hann ásamt skipstjóra var við grásleppuveiðar þegar hann flæktist í veiðarfærunum og dróst fyrir borð. Skipverjinn hafði verið um það bil 15 mínútur í sjónum þegar skipstjóranum tókst að hífa hann um borð meðvitundarlausan og báru endurlífgunartilraunir ekki árangur. Við rannsókn á slysinu kom fram að illa gekk að koma skipverjanum um borð en 1,8 metrar voru frá sjólínu upp á borðstokk á bátnum. Hilmar segir að litlu bátarnir virðist hafa setið eftir varðandi kröfur um búnað til að ná mönnum úr sjó en slíkar reglur ná einungis til báta sem eru meira en 15 metrar. Því beinir nefndin því til ráðuneytisins að reglurnar nái einnig til báta undir 15 metrum.

Nýjustu fréttir