Þau eru mörg gullkornin sem hrutu af vörum Guðbjarts Jónssonar stofnanda Vagnsins á Flateyri, „Það er ekki lengi verið að beita í hálftíma“ og „Fínn kall kerlingin hans“ eru enn á allra vörum og „margt smátt gerir lítið eitt“ á vel við núna þegar nýir eigendur vinna af kappi við lagfæringar á þreyttu húsnæði þessa fræga veitingastaðar.
Nú hefur Úlfar Önundarson boðið fjögur sérmerkt armbandsúr til sölu, væntanlegir kaupendur þurfa að skrá kaupverðið sem framlag á Karolina fund þar sem fer fram söfnun fyrir nýju þaki á Vagninn. Úlfar telur úrin vera framleidd um síðustu aldamót en hann fékk þau með í kaupunum þegar hann, ásamt fleirum, keypti Vagninn árið 2004. Úrin eru áletruð „Vagninn – Eflum byggð á Vestfjörðum“, slagorð sem virðist alltaf vera í fullu gildi.
Gísli Halldór er ómyrkur í máli um vegagerð á Dynjandisheiði.
„Mér sýnist að bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar sé kominn út á afar hálar brautir,“ segir Óðinn Sigþórsson um orð Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, í gær þar sem hann tók fyrir að biðjast afsökunar á ummælum sínum á bæjarstjórnarfundi í lok ágúst. Gísli Halldór sagði að hann hafi ekki sakað fulltrúa veiðiréttarhafa og fiskeldisfyrirtækja um að hafa starfað af óheilindum og óheiðarleika. Óðinn segir í samtali við bb.is að Gísli Halldór hafi í ræðu sinni ásakað fulltrúa veiðiréttarhafa og fiskeldismanna um að hafa gert samkomulag um skiptingu eldissvæða til handa fyrirtæjum fulltrúa í nefndinni og skilið Ísafjörð útundan.
„Nú telur hann að um eitthvað allsherjarplott sé að ræða en þorir ekki að tilgreina hverjir aðrir áttu þar hlut að máli,“ segir Óðinn og vísar í orð Gísla Halldórs frá því í gær þegar hann sagði að fleiri en fulltrúar veiðiréttahafa og fiskeldisfyrirtækja hafi komið að „plottinu“.
„Það vekur óneitanlega undrun að bæjarstjórn grípi ekki í taumana áður en bæjarstjórinn setur bæjarfélagið frekar niður með framgöngu sinni,“ segir Óðinn.
Óðinn Sigþórsson.
Óðinn sat sem fulltrúi fyrir Landssamband veiðifélaga í starfshópi um endurskoðun á fiskeldi. Hann ásamt öðrum nefndarmönnum, þeim Kjartani Ólafssyni stjórnarformanni Arnarlax og Guðmundi Gíslasyni stjórnarformanni Fiskeldis Austfjarða, hafa farið fram á afsökunarbeiðni frá bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar vegna orða Gísla Halldórs. Því hefur verið hafnað af Örnu Láru Jónsdóttur formanni bæjarráðs, en bréf þremenninganna til bæjarstjórnar verður tekið fyrir á bæjarráðsfundi á mánudag.
„Það kemur mér undarlega fyrir sjónir að þessi ásökun hans sem finna má á Facebooksíðu sveitarfélagsins og svörum hans í gær teljist ekki til ávirðinga um óheilindi og óheiðarleika. Við sendum þetta bréf í trausti þess að bæjarfulltrúar haldi í heiðri siðareglur kjörinna fulltrúa Ísafjarðarbæjar. Ég fæ ekki séð hvernig þessi framkoma, að bera ósannindi á menn samræmist þeim. Ég verð einnig að segja að viðbrögð formanns bæjarráðs valda vonbrigðum og hljóta að vera Ísfirðingum íhugarefni,“ segir Óðinn Sigþórsson.
Verslun Bjarna Eiríkssonar í Bolungarvík er ein af elstu verslunum landsins
Búðin í Bolungarvík þar sem allt er til á 90 ára afmæli á sunnudaginn og hlýtur það teljast einstakt. Á vefnum vikari.is kemur fram að það hafi verið þann 10. september sem Bjarni Eiríksson fékk leyfi til að reka verslun í Bolungarvík hefur hún verið starfrækt frá þeim degi. Fullu nafni heitir hún Verslun Bjarna Eiríkssonar en í daglegu tali ætíð nefnd Bjarnabúð.
Í Bjarnabúð fæst allt milli himins og jarðar, matvara, vefnaðarvara, bækur, gjafavörur, skrifstofuvörur, o.fl. o.fl.
Það er Stefanía Birgisdóttir sem stendur nú í stafni í Bjarnabúð en hún og eiginmaður hennar Olgeir Hávarðarson tóku við versluninni þann 1. janúar 1996. Nánar má lesa um Stefaníu og Bjarnabúð í 10. tölublaði Bæjarins besta.
Undanfarnar vikur hefur Safnahúsið Ísafirði fengið afnot af veggjum hjá Fræðslumiðstöðinni fyrir ljósmyndasýningu um heimsókn Grænlendinga til Ísafjarðar árið 1925.
Föstudaginn 15. september mun Sumarliði R. Ísleifsson sagnfræðingur fjalla um þessa heimsókn í erindi sem Fræðslumiðstöðin og Safnahúsið standa saman að. Erindið verður í húsakynnum Fræðslumiðstöðvarinnar að Suðurgötu 12 á Ísafirði og hefst kl. 14. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir en þátttakendur eru beðnir að skrá sig á vef miðstöðvarinnar.
Árið 1925 kom hópur Grænlendinga til Ísafjarðar, alls um 90 manns. Tilefni heimsóknarinnar var að dönsk stjórnvöld höfðu ákveðið að stofna nýja „nýlendu“ í Scoresbysundi – Ittoqqortoormiit – á austurströnd Grænlands og flytja þangað allmarga íbúa frá Ammassalik, sem bjuggu um 800 km sunnar. Ástæða þessa var sú að dönsk stjórnvöld vildu sporna við landakröfum Norðmanna til Austur-Grænlands. Förinni var heitið til Ísafjarðar til þess að fá nýja staðarprestinn vígðan og sækja vetrarvistir.
Þessi gestakoma vakti mikla athygli, bæði á Ísafirði og um land allt og mikið var fjallað um hana í blöðum á þessum tíma. Gestakoman var einnig ljósmynduð og eru þær myndir varðveittar á Ljósmyndasafni Ísafjarðar. Markmiðið með erindinu er að gera grein fyrir tengslum landanna og þeim viðhorfum sem voru algeng á milli þjóðanna. Af hverju einkenndust þau? Hvaða ímyndir birtust? Hafði heimsóknin áhrif á samskipti þjóðanna?
Þrátt fyrir að Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax og Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða, hafi setið í starfshópi um stefnumótun í fiskeldi fyrir hönd Landssambands fiskeldisstöðva segir formaður sambandsins að krafa þeirra um afsökunarbeiðni frá Ísafjarðarbæ komi frá þeim, en ekki sambandinu. „Þeir eru höfundar bréfsins og það er sent á þeirra vegum. Það var ekki borið undir mig og ekki sent í nafni sambandsins og því ekki eðlilegt að ég tjái mig um það,“ segir Einar K. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva.
Kjartan og Guðmundur hafa auk Óðins Sigþórssonar, fulltrúa Landssambands veiðifélaga í starfshópnum, krafist opinberrar afsökunarbeiðni frá Ísafjarðarbæ vegna ummæla Gísla Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra um störf starfshópsins.
Það kemur engan veginn til greina að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar biðjist opinberlega afsökunar á ummælum Gísla Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra um störf starfshóps um stefnumótun í fiskeldi. Þetta segir Arna Lára Jónsdóttir, oddviti Í-listans og formaður bæjarráðs. Þeir Kjartan Ólafsson stjórnarformaður Arnarlax, Guðmundur Gíslason stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða og Óðinn Sigþórsson frá Landssambandi veiðifélaga hafa krafist opinberrar afsökunar Ísafjarðarbæjar á orðum Gísla Halldórs. Þremenningarnir sátu í starfshópnum fyrir hönd Landssambands fiskeldisstöðva og Landssambands veiðifélaga
„Bæjarstjórn tekur enga ábyrgð á málflutningi bæjarstjóra enda er hann fullfær um það sjálfur. Það stendur alveg skýrt að hann hefur fullt málfrelsi á fundum bæjarstjórnar,“ segir Arna Lára og bætir við henni þykja þær ályktanir sem Gísli Halldór hefur dregið af störfum nefndarinnar ekki vera úr lausu lofti gripnar.
Ummælin sem fóru fyrir brjóstið á þremenningunum féllu á fundi bæjarstjórnar í lok ágúst. Ef Ísafjarðarbær verður ekki við kröfu þeirra, sem í ljósi orða Örnu Láru verður að teljast útilokað, áskilja þeir sér rétt til að fá ummælin ómerkt með öðrum úrræðum.
„En fyrst og fremst finnst mér ótrúlegt að menn séu komnir niður á þetta plan og laxeldinu engan veginn til bóta,“ segir Arna Lára.
Bréf þremenninganna verður tekið fyrir á fundi bæjarráðs á mánudaginn.
Hinn árlegi Körfuboltadagur Vestra fer fram í dag kl. 17:30 til 19:00 í íþróttahúsinu á Torfnesi. Allir áhugasamir krakkar og foreldrar eru hvattir til að mæta og taka þátt í skemmtilegum körfuboltaleikjum og þrautum sem þjálfarar deildarinnar og leikmenn meistaraflokks karla stýra. Í lokinn verður boðið upp á grillaðar pylsur og drykki.
Dagurinn markar upphaf vetrarstarfs yngri flokka deildarinnar en æfingar hófust einmitt mánudaginn 3. september. Boðið verður upp á skipulagðar æfingar undir stjórn valinna þjálfara fyrir börn og unglinga frá leikskólaaldri upp í 10. bekk grunnskóla.
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, ætlar ekki að draga til baka orð sem hann lét fjalla um störf starfshóps um stefnumótun í fiskeldi. Þrír nefndarmenn, þeir Kjartan Ólafsson stjórnarformaður Arnarlax, Guðmundur Gíslason stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða og Óðinn Sigþórsson frá Landssambandi veiðifélaga hafa farið fram á opinbera afsökunarbeiðni frá Ísafjarðarbæ vegna orða Gísla Halldórs. Að öðrum kosti áskilja þeir sér allan rétt til að leita annarra ráða til að fá ummælin dæmd ómerkt. Þeir saka Gísla Halldór um væna nefndarmennina um óheilindi og óheiðarleika og í bréfi til bæjarstjórnar er vakin athygli á orðalagi Gísla Halldórs þar sem hann talar um „plott“ og „hrossakaup“ í störfum nefndarinnar.
„Ég sagði ekkert um óheilindi og óheiðarleika í ræðunni og ég gerði mér ekki grein fyrir að þetta færi svona fyrir brjóstið á þessum þremur fulltrúum einum. Það voru fleiri í nefndinni sem komu að því að stýra plottinu,“ segir Gísli Halldór sem sér enga ástæðu til að biðjast afsökunar á ummælunum.
„Þó ég noti orð eins og hrossakaup þá veit ég alveg að það voru ekki seldir neinar hestar. Það er augljóst að menn komust að samkomulagi, enda rauk fulltrúi veiðiréttarhafa af fundi þegar fulltrúar fiskeldisfyrirtækjanna ætluðu að leggja fram bókun. Samkvæmt fjölmiðlum sagði hann bókunina ganga gegn samkomulagi í nefndinni. Ég veit ekkert hver stýrði plottinu og hvernig hrossakaupin fóru fram og ekki heldur hvort að óheilindi og óheiðarleiki hafi ráðið för,“ segir Gísli Halldór.
Hann gerir verulegar athugasemdir við að bréfinu sé beint til bæjarstjórnar og bæjarstjórn krafin um afsökunarbeiðni fyrir orð sem hann lætur falla í ræðustól.
Mikill vandi steðjar að sauðfjárrækt í kjölfar þriðjungslækkun afurðaverðs í haust.
Formaður Landssamtaka sauðfjárbænda segir tillögur landbúnaðarráðherra um lausn á vanda sauðfjárbænda ekki taka heildstætt á vandanum og óttast að stærri bú og yngri bændur muni einna helst taka tilboðinu og bregða búi.
„Ég geri mér því ekki enn grein fyrir því hvernig bændur ætla að bregðast við. Í tillögunum er mikill hvati fyrir að sauðfjárbændur hætti búskap en minni hvati til að þeir fækki fé sem er á allan hátt samfélagslega betra. Þrátt fyrir að erfitt sé að ráða í stöðuna og spá í framtíðina óttast ég að það verði einna helst yngri bændur og stærri bú sem koma til með að taka tilboðinu og hætti sauðfjárbúskap,“ segir Oddný Steina Valsdóttir, bóndi og formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, í samtali við Bændablaðið.
Haraldur Benediktsson, fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis og fyrrv. formaður Bændasamtakanna, segir í viðtali í sama blaði að í tillögum ráðherra felist eyðibýlastefna. Hann segist þó ekkert vilja útiloka starfslok einhverra bænda, en á þeim grunni þurfi þó að reisa einhvern rekstur á jörðunum til framtíðar. „Í sjálfu sér skiptir samfélögin ekki öllu máli hvort menn búa með sauðfé á jörðunum eða stunda þar annan verðmætaskapandi rekstur. Ég vil ekki meiri eyðibýlastefnu. Það var ekki það sem sveitarstjórnir voru að kalla eftir með ályktunum sínum,“ segir Haraldur.
Fulltrúar Landssambands fiskeldisstöðva og Landssambands veiðifélaga krefjast þess að Ísafjarðarbær biðji þá opinberlega afsökunar vegna ummæla sem Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri hefur látið falla um störf starfshóps um stefnumótun í fiskeldi. Ummælin féllu á aukafundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar 24. ágúst. Verði bærinn ekki við kröfunni áskilja þeir sér rétt til að fá ummælin ómerkt með öðrum úrræðum.
Þetta kemur fram í bréfi til forseta bæjarstjórnar og formanns bæjarráðs undirritað af Kjartani Ólafssyni stjórnarformanni Arnarlax, Guðmundi Gíslasyni stjórnarformanni Fiskeldis Austfjarða, og Óðni Sigþórssyni frá Landssambandi veiðifélaga. Þremenningarnir sátu í starfshópnum.
Þeir segja að í ummælum Gísla Halldórs felist gróf og ósönn ásökun um að fulltrúi veiðiréttarhafa og fulltrúar laxeldisfyrirtækjanna hafi sýnt af sér óheilindi og óheiðarleika í störfum sínum. Í bréfinu er vísað sérstaklega til orða Gísla Halldórs um að fulltrúarnir hafi „plottað“ og haft „hrossakaup“ sem leiddu til þeirrar niðurstöðu að ekki yrði leyft sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi.
Í bréfinu segir að Gísla Halldóri hafi verið boðið að draga ummæli sín til baka og leggja fram afsökunarbeiðni en hann hafi hafnað því.
Hér má nálgast upptöku bb.is af fundinum sem vísað er til.