Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2158

Meiri andstaða á landsbyggðinni

Andstaða við inngöngu í Evrópusambandið er meiri á landsbyggðinni en á meðal íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Í nýrri könnun MMR kemur fram að 34,3 prósent íbúa á höfuðborgarsvæðinu eru hlynntir inngöngu Íslands í ESB, samanborið við 19,8 prósent íbúa á landsbyggðinni. Fólk á aldrinum 50 til 67 ára og með milljón eða meira í heimilistekjur á mánuði er líklegast til að vera hlynnt inngöngu Íslands í ESB í samanburði við fólk í öðrum aldurs- og tekjuhópum.

Meirihluti Íslendinga, eða 47,9 prósent, eru andvíg eða mjög andvíg inngöngu Íslands í Evrópusambandið og 29 prósent kváðust hlynnt eða mjög hlynnt inngöngu.

Meðal stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar eru 67,5 prósent andvíg inngöngu. Meðal þeirra sem ekki styðja ríkisstjórnina eru 36,2 prósent andvíg inngöngu.

Könnunin fór fram 15. til 21. júní og voru 1017 einstaklingar valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.

Segja laxeldi umhverfisvænt samanborið við annað eldi

Sjókvíar í Tálknafirði.

Það er álit sveitarfélaganna á Vestfjörðum að laxeldi teljist umhverfisvænt með tilliti til þess hve litlu álagi það veldur á auðlindir og loftlagsmál jarðar í samanburði við annað eldi. Landnotkun og kolefnisfótspor laxeldis er þannig margfalt minna en af eldi kjúklinga, svína eða nautgripa. Þar að auki verður álagi laxeldis dreift þannig að umhverfi sjávarins ráði við það og ummerki verði afturkræf. Þetta kemur fram í drögum að sameiginlegri bókun sveitarfélaganna.

Sveitarfélögin telja einsýnt að laxeldi muni fjölga stoðum atvinnulífs á Vestfjörðum og styrkja þær og dreifa þannig fjöreggjum byggðanna í fleiri körfur. Sveitarfélögin gera kröfu um að starfræksla eldisins verði til fyrirmyndar og byggist á þeirri þekkingu sem aðrar þjóðir hafa aflað, m.a. með því að læra af mistökum liðinna áratuga.

Í bókuninni kemur fram að eldinu þarf nauðsynlega að fylgja uppbygging innviða sem tryggt getur möguleika fiskeldis og annarra atvinnugreina til vaxtar og framþróunar. Einnig þarf að tryggja eðlilega hlutdeild sveitarfélaganna í opinberum tekjum vegna fiskeldis.

Það er krafa sveitarfélaganna að afgreiðsla á umsóknum um laxeldisleyfi verði unnin á þeim hraða sem lög og góð stjórnsýsla mæla fyrir um, en verði ekki dregin mánuðum og árum saman undir yfirskini manneklu eða fjárskorts. „Gríðarleg verðmæti munu skapast í íslensku hagkerfi af laxeldinu. Sveitarfélögin telja að vel útfært laxeldi í strandsjó Vestfjarða þjóni hagsmunum Vestfirðinga, íslensku þjóðarinnar og vistkerfa jarðarinnar,“ segir í bókun sveitarfélaganna.

Landsliðsmenn stýra æfingum hjá Vestra

Hildur Björg Kjartansdóttir.

Yngri flokkar körfuknattleiksdeildar Vestra fá frábæra heimsókn í dag en það eru landsliðsmenn okkar þau Hildur Björg Kjartansdóttir og Martin Hermannsson. Þau eru á hringferð í kringum landið í tengslum við Körfuboltasumar KKÍ og er Ísafjörður einn af mörgum áfangastöðum þeirra. Hildur Björg mun spila með Breiðablik í vetur en hún hefur leikið bæði heima og erlendis undanfarin ár. Martin er leikmaður Chalon-Reims sem leikur í frönsku A-deildinni. Það er mikill fengur af því að fyrir Vestra að fá þessa reyndu leikmenn í heimsókn en þau munu stýra æfingum og spjalla við krakkana um ferilinn. Iðkendur á aldrinum 7-11 ára æfa frá kl. 16-17 en æfing eldri iðkenda verður frá 17-18.

Martin Hermannsson.

Vilja ræða fiskeldismál við ráðherra

Bæjar- og sveitarstjórar í Vesturbyggð, Bolungarvík, Tálknafirði, Súðavík, Strandabyggð  og Ísafjarðarbæ hafa óskað eftir fundi með forsætisráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Á fundinum á að ræða fiskeldismál og er einnig óskað eftir því að forstöðumenn Umhverfisstofnunar, Skipulagsstofnunar, Matvælastofnunar og Hafrannsóknastofnunar verði viðstaddir fundinn.

„Tilefni fundarins er fyrst og fremst að kalla eftir því að það verði með öllum ráðum tryggt að afgreiðsla fiskeldisleyfa verði unnin á þeim hraða sem lög og góð stjórnsýsla kveða á um, en ekki dregin mánuðum og árum saman. Sveitarfélögin geta að sjálfsögðu ekki gert kröfu um niðurstöðu slíkra afgreiðslna, en í þeim tilfellum sem slíkar afgreiðslur gætu orðið jákvæðar er mikið í húfi – bæði fyrir Vestfirði og þjóðarhag,“ segir í bréfi Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, til Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra.

Dæmdur fyrir stórfelld skattalagabrot

Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt framkvæmdastjóra og stjórnarmann í einkahlutafélagi í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 9.750.000 kr. sektar fyrir stórfelld skattalagabrot. Fimm mánaða fangelsi kemur í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Í ákæru var manninum gefið að sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti á árunum 2009 og 2010, samtals um 4,2 milljónir kr. Þá hafi hann ekki staðið skil á skattframtölum einkahlutafélagsins árin 2009-11  og með því vanframtaldi hann rekstartekjur félagsins um 76 milljónir kr. og kom sér undan greiðslu tekjuskatts.

Þá var hann einnig dæmdur fyrir að hafa átið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og vanrækt að varðveita fylgiskjöl og önnur bókhaldsgögn vegna einkahlutafélagsins, rekstrarárin 2008, 2009 og 2010.

Arnarstofninn í vexti

Haförn. Ljósmynd: Hilmar Pálsson

Arnarstofninn er í vexti og nú eru talin vera fleiri arnarpör á Íslandi heldur en nokkurn tíma í tíð núlifandi manna eftir því sem kemur fram í viðtali í Morgunblaðinu við Kristin Hauk Skarphéðinsson, sviðsstjóra dýrafræði hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Í ár er talið að um 76 hafarnarpör séu á landinu, en þau hafi verið 74 í fyrra. Varpið í ár er ríflega í meðallagi miðað við síðustu ár en vitað er um 27 hreiður sem eru með 33 ungum. Kristinn Haukur segir að oft hafi varpið gengið verr á nyrstu útbreiðslusvæðum hafarna, sem eru útsettari fyrir vond veður og þannig var það einnig í ár.

„Á Vestfjörðum og við Húnaflóann er það ekki nema eitt par af ellefu sem er að koma upp ungum, eða tæplega 10%. Á móti kemur að við sunnanverðan Breiðafjörð gekk varpið mjög vel og þar er það helmingurinn af pörunum sem er að koma upp ungum, sem telst vera mjög gott á arnarvísu,“ segir hann.

Óskar eftir aðilum til að endurbyggja Kópnes

Sveit­ar­stjórn Stranda­byggðar hef­ur aug­lýst eft­ir aðilum sem gætu haft áhuga á end­ur­gerð og upp­bygg­ingu gamla Kóp­ness­bæj­ar­ins á Hólma­vík. Bær­inn verður ann­ars rif­inn í vet­ur, enda stafar fokhætta af húsunum.

Talið er að húsið hafi verið byggt árið 1916 og það er því yfir hundrað ára gam­alt og friðað, lög­um sam­kvæmt. Húsið er kot­býli með nokkr­um úti­hús­um og er sér­stakt að því leyti að fá sam­bæri­leg býli frá fyrri hluta 20. ald­ar eru enn varðveitt inn­an þétt­býl­isstaða.

Lenging Sundabakka kostar yfir milljarð

Skemmtiferðaskipið Rotterdam á Sundabakka.

Vegagerðin hefur, að beiðni hafnarstjóra Ísafjarðarbæjar, lagt mat á kostnað við lengingu Sundabakka á Ísafirði. Hafnarstjórn áformar að lengja viðlegukantinn um 300 metra ásamt umtalsverðri landfyllingu. Að auki á að dýpka við viðlegukantinn sem og í innsiglingarennu inn í Pollinn. Lengd og dýpi við Sundabakka uppfyllir ekki þarfir skemmtiferðaskipa þannig að þau stærstu eiga erfitt með að leggjast að. Vegagerðin áætlar að kostnaður við verkið nemi á bilinu 1100- 1200 milljónir kr. Framkvæmdin getur fallið undir nýframkvæmdir samkvæmt hafnalögum og geta þær verið styrktar allt að 60% úr ríkissjóð.

Umsvif Ísafjarðarhafnar eru mikil varðandi móttöku skemmtiferðaskipa og árið 2017 er áætlað að MSC Preziosa leggist að höfn þrisvar sinnum. Þetta er stærsta skemmtiferðaskipið sem kemur til Ísafjarðar 2017 og tekur 4.363 farþega. Stærð þess er 333 m á lengd og ristir um 8,3 m. Til að leggjast að bryggju þarf bryggjukant sem er yfir 250 m að lengd og með dýpi um 9 m á stórstraumsfjöru.

Núverandi Sundabakki er stálþilsbryggja sem var rekin niður í tveimur áföngum á árunum 1987 og 1999. Dýpi við bryggju er 7‐8 m og lengd viðlegukants er um 190 m.

Breikkun kostar helming af nýjum göngum

Breikkun einbreiðra ganga kostar um helminginn af nýjum göngum og ekki stendur til að breikka þau göng sem fyrir eru að sögn Guðmundar Kristjánssonar, tæknifræðings hjá Vegagerðinni á Ísafirði. Fyrir helgi varð umferðarslys í Súgandafjarðarlegg Vestfjarðaganga, en sá kafli ganganna er einbreiður. Á vef RÚV er haft eftir Guðmundi að ekki sé líklegt að ráðist verði í að breikka einbreið göng á Íslandi, en auk Vestfjarðaganga eru Múlagöng, Strákagöng og Oddsskarð einbreið, en síðastnefndu göngin verða leyst af hólmi í haust með Norðfjarðargöngum.

„Það er auðvitað framkvæmanlegt [að breikka göngin] en það kostar sirka 50-60 prósent af nýjum göngum. Svo fyrr gerðist það líklega að það væri leitað leiða til að draga ný göng,“ segir Guðmundur.

Fjallskagaviti verði lagður niður

Fjallaskagaviti. Mynd: Kristján Pálsson.

Vegagerðin áformar að slökkva á Fjallaskagavita í Dýrafirði. Þegar mikil útgerð var frá Þingeyri gegndi vitinn veigamikli hlutverki, en hann var reistur árið 1954. Með breyttum tímum er talið fullnægjandi að Svalvogaviti verði innsiglingarviti fyrir Arnarfjörð og Dýrafjörð.

Fjallaskagi var ein af stóru verstöðvunum á Vestfjörðum. Líklega frá upphafi búsetu á Vestfjörðum var róið þaðan til fiskjar. Síðast var róið frá Fjallaskaga árið 1940 og sjá má leifar af verbúðum og fiskgörðum á svæðinu. Nokkrar verbúðanna eru á ágætu standi en aðrar eru að skemmast og eitthvað er horfið í sjóinn.

Nýjustu fréttir