Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2157

Byggja brýr milli Íslands og Spán­ar

Hópurinn við Kerið.

Á morgun mun 18 manna spænskur hópur koma til Bolungarvíkur eftir að hafa farið hringinn í kringum landið á sérstökum mótorhjólum. Tilgangur ferðarinnar er að byggja brýr milli ólíkra menningarheima og minnast Spánarvíganna. Sérstakur áfangastaður ferðarinnar er Bolungarvík, en þar mun hópurinn afhenda bæjarfulltrúum platta sem festur verður á stein við vitann í Óshlíð. Ahendingin verður kl. 11 og að henni lokinni verður farið rakleiðis í Einarshús þar sem hópurinn býður uppá smakk af spænskum mat og tónlist.

Þessi leiðangur hefur fengið töluverða athygli, bæði á Spáni og hér á landi. Forsprakki hópsins, Hugo Scagnetti, er vel þekktur í heimalandi sínu, en hann er yfirmaður nýsköpunar hjá spænska fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækinu Telefónica.

Strandveiðar stöðvaðar í dag

Síðasti veiðidagur á strandveiðum á svæði A í júlí er í dag. Svæði A nær frá sunnanverðu Snæfellsnesi til Ísafjarðardjúps. Veiðidagar á svæðinu verða því alls 8, en voru 6 í sama mánuði í fyrra. Að loknum 6 veiðidögum átti eftir að veiða 303 tonn á svæðinu, en meðalveiði á dag í júlí eru 130 tonn. Langflestir bátar eru á svæði A og því klárast mánaðarskammturinn fyrr þar en á hinum þremur strandveiðisvæðunum.

Sektir fyrir umferðarlagabrot verða hækkaðar

Að tala í farsíma undir stýri verður dýrt spaug.

Að beiðni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins hefur ríkissaksóknari gert tillögu að breyttri reglugerð um sektir við umferðarlagabrotum. Lagt er til að fjárhæðir sekta verði uppfærðar með hliðsjón af þróun verðlags en núgildandi reglugerð var sett árið 2006. Í tillögu ríkissaksóknara að breyttri reglugerð segir að almennt geri hann tillögu um að fjárhæðir sekta verði uppfærðar með hliðsjón af þróun verðlags frá því 2006. Þó leggur ríkissaksóknari til að lægstu sektir verði 20.000 kr. að undanskildum viðurlögum við að hafa ekki ökuskírteini meðferðis en sekt vegna þess verði 10.000 kr.  Loks gerir hann tillögu um að sektir fyrir notkun farsíma verði hækkaðar úr 5.000 kr. í 40.000 kr.  Að mati ráðuneytisins hefur notkun farsíma við akstur aukist til muna sem dregur úr umferðaröryggi, og þar af leiðandi nauðsynlegt að bregðast við þeirri þróun með hækkun sekta við brotum af því tagi.

Í tillögu ríkissaksóknara að samanlagðar sektir fyrir mörg brot verði hæst 500.000 kr. Slíkt kallar á breytingar á umferðarlögum en ákvæði þeirra miðar hámarkið við 300.000 kr.

Byggðakvóti til 10 ára

Starfshópur sjávarútvegsráðherra um breytingar á byggðakvótakerfinu leggur til að byggðakvótanum verði úthlutað til 10 ára í stað eins árs, tryggður verði meiri stöðugleiki og sveigjanleiki um leið. En hvernig ætli Samtökum í sjávarútvegi, áður LÍÚ, lítist á þetta? „Staðan er algjört PR-disaster fyrir stóru sjávarútvegsfyrirtækin. Í hvert sinn sem löppunum er kippt undan litlu sjávarþorpi, þá segja menn: Þetta kvótakerfi þarf að fara!“ sagði Þóroddur Bjarnason, formaður starfshópsins, á Morgunvakt Rásar 1 í gær.

Starfshópurinn leggur til að gerðir verði samningar við úthlutun byggðakvóta til 10 ára í stað eins árs nú með skýrum og mælanlegum markmiðum um atvinnuþróun, sem Byggðastofnun fylgi eftir í samstarfi við sveitarfélög, ásamt meiri stöðugleika við úthlutun og sveigjanleika í nýtingu. Horfið verður frá núverandi fyrirkomulagi vinnsluskyldu fisksins á þeim stað sem fær úthlutaðan byggðakvóta. Þóroddur Bjarnason segir að reglurnar hafi ekki verið raunhæfar. Í sumum þorpum sé hreinlega ekki mikil framtíð í sjávarútvegi.

„Kerfið er þannig að það er verið að bregðast við áföllum. Á hverju ári er verið að færa á milli staða. Það þýðir að erfitt er að byggja á þessu. Þú byggir ekki upp fyrirtæki á kvóta sem þú veist ekki  hver verður næsta ár. Sumir hafa sagt að það sé verið að tryggja að allir sökkvi á sama hraða,“ sagði Þóroddur.

Tap fyrir Hetti

Frá leik Vestra fyrr í sumar. Mynd úr safni.

Höttur bar sigurorðið af Vestra í 2. deild karla á gærkvöld. Þetta var eini leikur kvöldsins í deildinni og fór hann fram á Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum og var þetta lokaleikur í 11. umferð.

Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik, en í snemma í þeim seinni komst Höttur yfir. Ignacio Gonzale Martinez skoraði á 51. mínútu og það reyndist eina mark leiksins og lokatölur 1-0 fyrir Hött, sem er núna einu sæti fyrir neðan Vestra. Vestri er í sjöunda sæti með 16 stig og Höttur í áttunda með 15 stig.

+Næsti leikur Vestra er á laugardag og er hann einnig fyrir austan, en liðið mætir Fjarðabyggð á Eskjuvellinum á Eskifirði.

Væta framundan

Spáð er fremur hægri vestlægri átt í dag og súld eða rigning, en skúrir seinnipartinn. Miklar dembur gætu fallið á Norðausturlandi, og þeim kunna jafnvel að fylgja þrumuveður með hagléli.

Á morgun verður suðlæg átt 5-15 á morgun, hvassast á Suðvesturhorninu, en hægari undir kvöld. Víðast rigning, þó síst Norðaustanlands.

Hiti 10 til 20 stig yfir daginn, hlýjast á Austurlandi. Framundan er síðan lægðagangur með suðlægum áttum og fremur vætusömu veðri.

Hætt við efstu snjóflóðagrindurnar

Það er ekki fyrir lofthrædda að vinna við uppsetningu snjóflóðagrindanna.

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á snjóflóðavörnum í hlíðum Kubba. Eftir vettvangsskoðun í fyrra lagði framleiðandi stálgrindanna til að setja viðbótargrindr efst á upptaksvæðinu til að auka öryggi varnanna enn frekar. Þegar framkvæmdir í fjallinu hófust fyrir alvöru í vor kom í ljós að aðstæður voru mjög erfiðar, bæði mikil grjóthrunshætta og erfiðar jarðtækniaðstæður, og því var ákveðið að hætta við efstu viðbótarlínuna og styrkja næstu línu fyrir neðan með hærri grindum.

Minnisblað Verkís um breytingar á uppsetningu stoðvirkja var lagt fram til kynningar á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar á mánudag. Marzellíus Sveinbjörnsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks, lagði fram eftirfarandi spurningar við kynningu á minnisblaði Verkís:

  • Þarf Ísafjarðarbær ekki að samþykkja breytingar á verkinu?
  • Væri ekki sjálfsagt að fá annan aðila til að yfirfara verkið í heild sinni, þar sem sá aðili sem sá um verkhönnunina virðist ekki hafa getað staðið við sína útreikninga?
  • Það hefur alltaf verið sagt að það verði enginn afsláttur gefinn varðandi varnir í Kubba, þá spyr ég: Hvernig get ég treyst því að allar þessar breytingar rýri ekki öryggið?
  • Þarf Ísafjarðarbær að borga aukalega vegna þessarra breytinga, þar sem verktaki fær t.d. að sleppa uppsetningu grinda. Það hlýtur að vera minni kostnaður í því að styrkja grindur neðar í fjallinu?
  • Ef hægt er að styrkja grindur neðar í fjallinu og sleppa grindum ofar, er þá ekki hægt að gera það víðar í fjallinu og minnka þá í leiðinni ásýnd stoðvirkjanna?
  • Hafa þessar breytingar ekkert að segja varðandi áhættumatið?

Veisla fyrir hlaupagikki

Það er mikil upplifun að hlaupa fyrir Svalvoga.

Hlaupahátíð á Vestfjörðum hefst á föstudaginn og stendur til sunnudags. Á hátíðinni verður keppt í hálfmaraþoni, 45 km hlaupi, skemmtiskokki, sjósundi, skemmtihjólreiðum og þríþraut.  Vesturgötuhjólreiðar verða þetta árið einnig Íslandsmeistaramót í maraþonfjallahjólreiðum og dómarar frá Hjólreiðasambandi Íslands verða á svæðinu og sjá til þess að allt fari eftir settum reglum.

Dagskrá hátíðarinnar:

Föstudagur 14. júlí

  • Kl. 16:00 Sjósund 1500 m
  • Kl. 16:00 Sjósund 500 m
  • Kl. 20:00 Arnarneshlaup 21 km
  • Kl. 20.30 Arnarneshlaup 10 km
  • kl. 22.15 Verðlaunaafhending á Silfurtorgi fyrir Arnarneshlaup

Laugardagur 15. júlí

  • Kl. 10.00 Fjallahjólreiðar 55 km
  • Kl. 10.15 Skemmtihjólreiðar 8 km
  • Kl. 11.30 Skemmtiskokk á Þingeyri, 2 og 4 km
  • Útijóga, vöfflubakstur og fleira skemmtilegt við sundlaugina á Þingeyri
  • Athugið að tímasetning á skemmtihjólreiðum getur breyst

Sunnudagur 16. júlí

  • Kl. 08:00 Tvöföld Vesturgata 45 km
  • Kl. 11:00 Heil Vesturgata 24 km
  • Kl. 12:45 Hálf Vesturgata 10 km

Velja íbúa ársins

Íbúi ársins í Reykhólahreppi 2017 verður heiðraður Reykhóladögum sem verða 27. til 30. júlí. Allir eru hvattir til að tilnefna þau sem þeim þykir hafa staðið upp úr á árinu og hafa sett svip á samfélagið.

Í fyrra hlutu útnefningu Hlynur Þór Magnússon og Ingibjörg Kristjánsdóttir. Þau hafa sem kunnugt er sinnt ólíkum störfum, Hlynur með umsjón Reykhólavefjarins og ritstörfum af ýmsu tagi og Ingibjörg sem héraðshjúkrunarfræöingur á Reykhólum. Bæði hafa þau lagt meira í sín störf en starfslýsing beinlínis kveður á um, og  samfélagið notið góðs af í ríkum mæli.

Í tilnefningunni verður að koma fram hver er tilnefndur, fyrir hvað og hver tilnefnir. Tilnefningar sendist á tomstundafulltrui@reykholar.is. Tekið er við tilnefningum til 25.júlí kl. 22.

Meiri andstaða á landsbyggðinni

Andstaða við inngöngu í Evrópusambandið er meiri á landsbyggðinni en á meðal íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Í nýrri könnun MMR kemur fram að 34,3 prósent íbúa á höfuðborgarsvæðinu eru hlynntir inngöngu Íslands í ESB, samanborið við 19,8 prósent íbúa á landsbyggðinni. Fólk á aldrinum 50 til 67 ára og með milljón eða meira í heimilistekjur á mánuði er líklegast til að vera hlynnt inngöngu Íslands í ESB í samanburði við fólk í öðrum aldurs- og tekjuhópum.

Meirihluti Íslendinga, eða 47,9 prósent, eru andvíg eða mjög andvíg inngöngu Íslands í Evrópusambandið og 29 prósent kváðust hlynnt eða mjög hlynnt inngöngu.

Meðal stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar eru 67,5 prósent andvíg inngöngu. Meðal þeirra sem ekki styðja ríkisstjórnina eru 36,2 prósent andvíg inngöngu.

Könnunin fór fram 15. til 21. júní og voru 1017 einstaklingar valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.

Nýjustu fréttir