Síða 2157

Snjóflóðavarnir á Patreksfirði í umhverfismat

Patreksfjörður.

Vesturbyggð hefur lagt fram tillögu að matsáætlun vegna áforma um ofanflóðavarnir við Urðargötu, Hóla og Mýrar á Patreksfirði. Vesturbyggð áformar að reisa varnargarð gegn ofanflóðum á Patreksfirði í hlíðunum fyrir ofan þéttbýlið á milli Vatnseyrar og Geirseyrar. Er það gert til þess að stuðla að bættu öryggi íbúa Patreksfjarðar gagnvart ofanflóðum. Gert er ráð fyrir að reisa tvo varnargarða, annarsvegar ofan við Mýrar og Hólagötu og hinsvegar Urðargötu. Hönnun varnargarðanna gengur út á að garðarnir veiti byggðinni vörn gegn hugsanlegum snjóflóðum og leiði flóðin til sjávar. Lögð er áhersla á að milda áhrif varnargarðanna á ásýnd með landmótun og gróðursetningu auk þess að styrkja útivistarmöguleika svæðisins með bættu stígakerfi. Umfang framkvæmdarinnar er slíkt að hún er háð lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Afmörkun framkvæmdasvæðisins.

Fyrsti áfangi eru þessi drög að tillögu að matsáætlun þar sem kemur fram hvernig áætlað er að staðið verði að mati á umhverfisáhrifum. Drögin verða kynnt fyrir umsagnaraðilum og almenningi sem hafa tækifæri á að koma með ábendingar hvað varðar áætlunina um matið. Tillagan er síðan send til Skipulagsstofnunar sem tekur ákvörðun um matsáætlun. Annar áfangi felst í rannsóknum, gagnaöflun og vinnu við frummatsskýrslu, þar sem fjallað er nánar um framkvæmdina, valkosti og greint frá niðurstöðum úr mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Skýrslan er kynnt almenningi og umsagnaraðilum sem hafa tækifæri á að koma með athugasemdir og ábendingar er varðar umhverfismatið. Þriðja skrefið felst í því að framkvæmdaraðili vinnur úr athugasemdum og umsögnum sem bárust og bætir inn í matsskýrslu. Skýrslan er send til Skipulagsstofnunar sem gefur álit sitt. Ekki er hægt að veita framkvæmdaleyfi fyrr en álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir. Við útgáfu framkvæmdaleyfis verður sveitarstjórn að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Þeir umhverfisþættir sem verða til umfjöllunar í mati á umhverfisáhrifum eru vistgerðir, vatnafar, jarðminjar, fornleifar, hljóðvist, loftgæði, loftslag, útivist, ásýnd og öryggi.

Óska eftir aðkomu Ofanflóðasjóðs

Hádegissteinninn vegur tugi tonna og ekki að spyrja að hættunni sem myndast ef hann hrynur ofan í byggðina.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar óskar aðstoðar Ofanflóðasjóðs við að meta og eyða hættunni af Hádegissteini eins fljótt og kostur er. Hádegissteinninn er þekkt kennileiti í hlíð Bakkahyrnu í Hnífsdal. Sérfræðingar Veðurstofunnar greindu í lok ágúst að steinninn er á hreyfingu og gæti skapast mikil hætt af hann tæki upp á að hrynja niður hlíðina á byggðina í Hnífsdal. Sérfræðingarnir veltu upp tveimur möguleikum, annars vegar að festa hann með steyptum akkerum eða sprengja hann og fjarlægja hættuna alfarið.

Málið hefur verið kynnt stjórn hverfisráðs Hnífsdals sem ályktaði að málið þoli enga bið, annaðhvort þurfi að sprengja steininn eða ganga frá honum með öðrum hætti svo að engi hætta stafi af honum. Hverfisráðið hefur farið fram á vikulega vöktun með steininum.

smari@bb.is

Segir bæjarráð úti í kuldanum

Daníel Jakobsson formaður bæjarráðs í Ísafjarðarbæ.

Daníel Jakobsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir að stærri útboðsverk bæjarins séu hvorki rædd né rýnd af bæjarráði áður en þau fara í útboð. Hann lagði fram bókun þess efnis á síðasta bæjarstjórnarfundi. Tilefni gagnrýni Daníels er útboð á þjónustuhúsi á tjaldsvæðinu á Þingeyri en í bókuninni kemur fram að málið sé ekki nýtt af nálinni, áður hafi verið bent á þetta, meðal annars þegar almenningssamgöngur í Ísafjarðarbæ voru boðnar út.

Daníel er síður en svo andvígur byggingu þjónustuhúss á tjaldsvæðinu og lagði sjálfur til að verkið yrði fært framar í framkvæmdaröðina við gerð fjárhagsáætlunar. En hann lýsir yfir vonbrigðum með að bæjarráð hafi ekki haft neina aðkomu að útboðinu síðan þá.

„Hvorki teikningar, hönnunarforsendur, kostnaðaráætlun eða áætlaður rekstrarkostnaður voru lögð fram í bæjarráði og útboðsgögn ekki kynnt né að til stæði að bjóða umrætt verk út. Niðurstaðan er að búið er að hanna og bjóða út umrætt þjónustuhús sem mun kosta hátt í tvöfalda þá upphæð sem upp var lagt með, þegar hönnunarkostnaður, framkvæmdakostnaður og annað ófyrirséð liggur fyrir,“ segir í bókun Daníels.

Bæjarstjórn ákvað að ganga til samninga við Vestfirska verktaka ehf. á grundvelli 32 milljóna kr. tilboðs í verkið. Verkið verður tvískipt og verður framkvæmt fyrir 20 milljónir kr. á þessu ári í samræmi við fjárhagsáætlun. Það sem stendur út af, eða 12 milljónir samkvæmt tilboði, verður framkvæmt og greitt á næsta ári. Þjónustuhúsið á að vera tilbúið og komið í rekstur fyrir næsta sumar.

smari@bb.is

Sauðfjárrækt víða lykilþáttur í samfélagsgerðinni

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga lýsir áhyggjum af framtíð sauðfjárbúskapar á Vestfjörðum vegna fyrirsjáanlegar mikillar tekjuskerðingar í greininni. Sauðfjárrækt er víða lykilþáttur í atvinnu og samfélagsgerð sveitarfélaga á Vestfjörðum, sveitarfélaga sem hafa haft í vök að verjast með tilliti til byggða- og atvinnuþróunar. Þetta kemur fram í bókun stjórnarinnar.

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga telur að mótvægisaðgerðir sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra við erfiðri stöðu sauðfjárbúskapar, gangi of skammt til að mæta sérstæðum aðstæðum á Vestfjörðum. Stjórn FV bendir á að vegna fábreytni atvinnulífs og strjálbýlis er erfitt að finna eða sækja í aðra atvinnu til að styðja við rekstur sauðfjárbúa, því sé veruleg hætta á að sauðfjárbúum fækki á Vestfjörðum. „Slík þróun er í raun ótæk með tilliti til hagsmuna sauðfjárræktar á Íslandi, þar sem Vestfirðir eru hreint svæði með tilliti til sauðfjársjúkdóma. Vestfirðir eru einnig sá landshluti þar sem vandi vegna ofbeitar er lítt til staðar og gæti landið í raun þolað meira beitarálag.“

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga hvetur því sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra að gera úttekt á þeim tækifærum sem felast í sérstöðu sauðfjárbúskaps á Vestfjörðum. Slík úttekt verði nýtt til að vinna nýjar tillögur sem verði til að efla sauðfjárbúskap á Vestfjörðum í stað þess að draga úr honum.

smari@bb.is

Algjört Bongó í Edinborgarhúsinu

Tómas R. með þeim Sigríði Thorlacius og Bogomil Font.

Geisladiskur Tómasar R., Bongó, var í hópi mest seldu geisladiska síðasta árs og lög af honum verið mikið spiluð á öldum ljósvakans. Fjórir meðlimir Bongóbandsins gera nú víðreist um landið og halda tónleika á sjö stöðum og miðvikudagskvöldið geta Ísfirðingar notið tóna þessa einvalaliðs í Edinborgarhúsinu. Bongóbandið skipa söngvararnir Sigríður Thorlacius og Bogomil Font, gítarleikarinn Ómar Guðjónsson, Sigtryggur Baldursson lemur á kóngatrommur og Tómas R. plokkar að sjálfsögðu bassann. Diskurinn hefur hlotið mjög lofsamleg ummæli bæði hérlendis og á fjölmörgum vefmiðlum latíntónlistarinnar í Evrópu og Ameríku.

Ráðherra telur margt styðja lagasetningu um Teigsskóg

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Jón Gunnarsson samgönguráðherra telur rétt að skoða sérstaka lagasetningu sem heimilar vegagerð í Teigsskógi. Þrír þingmenn Norðvesturkjördæmis hafa hvatt til lagasetningar og segja hana einu færu leiðina til að þoka málinu áfram.
„Ég skoða það með þeim og mér finnst margt vera sem geti stutt það að þetta sé þannig tilvik að það sé nokkuð einstakt og réttlæti slíka málsmeðferð,“ sagði Jón í fréttum RÚV í gær um lagasetningu sem Gunnar Bragi Sveinsson, Elsa Lára Arnardóttir og Teitur Björn Einarsson hafa hvatt til.

Jón sagði vonbrigði að stjórnsýslan geti tafið vegaframkvæmdir eins lengi og raun er á í Gufudalssveit og fór ekki í grafgötur með ástand veganna á svæðinu. „Ástandið er líklega hvað verst þarna á sunnanverðum Vestfjörðum. Algerlega óboðlegt og það verður ekki við það unað. Aukin atvinnuuppbygging og íbúafjölgun auðvitað krefst þess að samgöngur séu með sómasamlegum hætti.“

Teigsskógur gæti orðið prófsteinn á náttúrverndarlögin

Teigsskógur í Þorskafirði.

Það verður ekki einfalt mál fyrir Reykhólahrepp að rökstyðja að fara gegn áliti Skipulagsstofnunar á umhverfismati Vegagerðarinnar á Vestfjarðavegi 60, oftast kallaður vegurinn um Teigsskóg. Í skipulagsvinnu hreppsins eru tvær veglínur til skoðunar, um Teigsskóg annars vegar og jarðgöng undir Hjallaháls hins vegar.

Skipulagsstofnun skikkaði hreppinn til ráðast í gagngera endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins þrátt fyrir að veglína um Teigsskóg hafi verið til staðar í gildandi skipulagi. Sú veglína miðast við eldra umhverfismat sem Skipulagsstofnun úrskurðaði gegn fyrir um áratug síðan og þáverandi samgönguráðherra felldi úrskurðinn úr gildi. Sú ákvörðun var kærð til dómstóla og á endanum staðfesti Hæstiréttur að ákvörðun Skipulagsstofnunar skildi standa.

Þegar Vegagerðin ákvað að gera annað umhverfismat var veglínunni hnikað til að hlífa Teigsskógi í meiri mæli en áður. Skipulaggstofnun telur að vegna breyttrar veglínu, og þá gildir einu þó að um lítilsháttar breytingar sé að ræða, þurfi að ráðast í gerð nýs aðalskipulags. Skipulagsstofnun gaf álit sitt á seinna umhverfismatinu í mars 2017 og þar var aftur lagst gegn veglagningu um Teigsskóg.

Þolinmæðin þrotin

„Við þurfum að rökstyðja okkar ákvörðun mjög vel og þess vegna erum við meðal annars að láta gera rannsókn á samfélagsþættinum sem við teljum að hljóti að vega þungt. En fyrst og fremst þarf Vegagerðin að rökstyðja afhverju hún vill fara þessa leið umfram aðra,“ segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps. Endanlegrar ákvörðunar Reykhólahrepps er að vænta um áramótin.

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir.

Hún leggur áherslu á að vel þurfi að vanda til verka og betra að flýta sér hægt. „Í svona flókinni vinnu er hætt við að gera mistök sem aftur geta verið tilefni dómsmála og því borgar sig að flýta sér hægt og þrátt fyrir að þolinmæðin sé fyrir löngu þrotin þá þýðir ekkert að gefast upp. Það verður að halda áfram og vanda sig,“ segir hún.

Teigsskógur gæti orðið prófsteinn

Teigsskógssagan rekur sig hátt á annan áratug aftur í tímann og frá því að fyrsta umhverfismatið féll í meðförum Skipulagsstofnunar og síðar í Hæstarétti hafa tekið gildi ný náttúrverndarlög þar sem kveðið er á um verndun vistkerfa eins og t.d. náttúrlegra birkiskóga sem þykja hafa sérstakt gildi. Ekki má raska þeim nema brýna nauðsyn beri til og sýnt þykir að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi. „Það er svo ekki skilgreint nánar hvað eru brýnir hagsmunir og lögin eru nýleg og það hefur ekki reynt á þetta ákvæði enn,“ segir Ingibjörg Birna. Fari það svo að Reykhólahreppur ákveði að veglínan skuli liggja um Teigsskóg gæti þessi lagagrein verið tilefni málsóknar. „Við óttumst að við gætum orðið prófsteinn á þessa grein náttúruverndarlaga.“

Alþingismenn í Norðvesturkjördæmi hafa síðustu vikur talað um lagasetningu sem heimili vegagerð í Teigskógi. Sveitarstjórinn hefur fullan skilning á þeim röddum. „En það er ekki okkar slagur, fyrir okkur er ekki neitt annað í boði en að vanda sig og vinna eftir þeim leikreglum sem Alþingi setur okkur,“ segir Ingibjörg Birna að lokum.

Ráðherra skipar starfshóp um framtíð Reykjavíkurflugvallar

Ráðherra hef­ur skipað starfs­hóp sem falið verður að finna ásætt­an­lega lausn á framtíð Reykja­vík­ur­flug­vall­ar. Þetta kom fram á fundi sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneyt­is um ör­ygg­is­hlut­verk Reykja­vík­ur­flug­vall­ar sem fram fór í Iðnó fyrr í dag.

Nefnd­ina skipa Hreinn Lofts­son hæsta­rétt­ar­lögmaður, sem er jafn­framt formaður nefnd­ar­inn­ar, Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri, Eyrún Ingi­björg Sigþórs­dótt­ir fyrr­ver­andi sveit­ar­stjóri á Tálknafirði, Ró­bert Guðfinns­son at­hafnamaður á Siglufirði og Linda Gunn­ars­dótt­ir flug­stjóri.

Jón seg­ir í samtali við mbl.is að skip­an nefnd­ar­inn­ar vera í sam­ræmi við stefnu­yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Þar seg­ir meðal ann­ars að rík­is­stjórn­in muni beita sér fyr­ir lausn á ára­tuga­deilu um framtíð Reykja­vík­ur­flug­vall­ar með því að stofna til form­legra viðræðna sam­göngu­yf­ir­valda, heil­brigðis­yf­ir­valda, Reykja­vík­ur­borg­ar, annarra sveit­ar­fé­laga og hags­munaaðila.

 

„Áfall fyrir byggðina við Ísafjarðardjúp“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Það má ekki dragast úr hófi að kanna ítarlega mótvægisaðgerðir í Ísafjarðardjúpi til að laxeldi geti hafist þar án þess að stefna laxveiðiánum í hættu. Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og þingmanns Norðvesturkjördæmis, í grein í Morgunblaðinu um helgina. Hún segir stóru fréttirnar í áhættu mati Hafrannsóknastofnunar vera að unnt er að auka eldi á Vestfjörðum án þess að stofna villtum laxastofnum í öðrum landshlutum í hættu.

„Aftur á móti var það áfall fyrir byggðina við Ísafjarðardjúp að eldi þar teldist ekki óhætt, vegna hættu á að innblöndun í þremur laxveiðiám við Djúp færi yfir öryggismörk. Það er erfitt fyrir utanaðkomandi að gera sér í hugarlund höggið sem þetta var, eftir að væntingar höfðu verið uppi um álíka uppgang og orðið hefur annars staðar,“ segir í grein Þórdísar Kolbrúnar.

Hún bendir á að ekki sé víst að allir átti sig á að hagvöxtur á Vestfjörðum var neikvæður um 6% á árunum 2008-2015, líkt og fram kemur í nýrri skýrslu Byggðastofnunar um hagvöxt landshlutanna.

„Enginn annar landshluti upplifði samdrátt á þessu tímabili. Veruleiki Vestfjarða á þessu tiltekna tímabili er því einstakur á landsvísu. Það er inn í þetta samhengi sem setja þarf vonir fólks um aukin umsvif í atvinnulífi.“

Göngunum lokað í klukkustund

Vestfjarðagöngum verður lokað fyrir umferð kl. 13.45 í dag. Lokunin stendur yfir í um það bil klukkustund. Ástæða lokunarinnar eru umfangsmiklir þungaflutningar frá Ísafirði til Arnarfjarðar þar sem flytja á tæki og tól til sem verða notuð við gröft Dýrafjarðarganga. Fyrsta jarðgangasprengingin verður á fimmtudaginn en starfsmenn Suðurverks hafa verið að störfum við undirbúning og aðstöðusköpun frá því í sumar.

 

 

Nýjustu fréttir