Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Jón Gunnarsson samgönguráðherra telur rétt að skoða sérstaka lagasetningu sem heimilar vegagerð í Teigsskógi. Þrír þingmenn Norðvesturkjördæmis hafa hvatt til lagasetningar og segja hana einu færu leiðina til að þoka málinu áfram.
„Ég skoða það með þeim og mér finnst margt vera sem geti stutt það að þetta sé þannig tilvik að það sé nokkuð einstakt og réttlæti slíka málsmeðferð,“ sagði Jón í fréttum RÚV í gær um lagasetningu sem Gunnar Bragi Sveinsson, Elsa Lára Arnardóttir og Teitur Björn Einarsson hafa hvatt til.
Jón sagði vonbrigði að stjórnsýslan geti tafið vegaframkvæmdir eins lengi og raun er á í Gufudalssveit og fór ekki í grafgötur með ástand veganna á svæðinu. „Ástandið er líklega hvað verst þarna á sunnanverðum Vestfjörðum. Algerlega óboðlegt og það verður ekki við það unað. Aukin atvinnuuppbygging og íbúafjölgun auðvitað krefst þess að samgöngur séu með sómasamlegum hætti.“
Það verður ekki einfalt mál fyrir Reykhólahrepp að rökstyðja að fara gegn áliti Skipulagsstofnunar á umhverfismati Vegagerðarinnar á Vestfjarðavegi 60, oftast kallaður vegurinn um Teigsskóg. Í skipulagsvinnu hreppsins eru tvær veglínur til skoðunar, um Teigsskóg annars vegar og jarðgöng undir Hjallaháls hins vegar.
Skipulagsstofnun skikkaði hreppinn til ráðast í gagngera endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins þrátt fyrir að veglína um Teigsskóg hafi verið til staðar í gildandi skipulagi. Sú veglína miðast við eldra umhverfismat sem Skipulagsstofnun úrskurðaði gegn fyrir um áratug síðan og þáverandi samgönguráðherra felldi úrskurðinn úr gildi. Sú ákvörðun var kærð til dómstóla og á endanum staðfesti Hæstiréttur að ákvörðun Skipulagsstofnunar skildi standa.
Þegar Vegagerðin ákvað að gera annað umhverfismat var veglínunni hnikað til að hlífa Teigsskógi í meiri mæli en áður. Skipulaggstofnun telur að vegna breyttrar veglínu, og þá gildir einu þó að um lítilsháttar breytingar sé að ræða, þurfi að ráðast í gerð nýs aðalskipulags. Skipulagsstofnun gaf álit sitt á seinna umhverfismatinu í mars 2017 og þar var aftur lagst gegn veglagningu um Teigsskóg.
Þolinmæðin þrotin
„Við þurfum að rökstyðja okkar ákvörðun mjög vel og þess vegna erum við meðal annars að láta gera rannsókn á samfélagsþættinum sem við teljum að hljóti að vega þungt. En fyrst og fremst þarf Vegagerðin að rökstyðja afhverju hún vill fara þessa leið umfram aðra,“ segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps. Endanlegrar ákvörðunar Reykhólahrepps er að vænta um áramótin.
Ingibjörg Birna Erlingsdóttir.
Hún leggur áherslu á að vel þurfi að vanda til verka og betra að flýta sér hægt. „Í svona flókinni vinnu er hætt við að gera mistök sem aftur geta verið tilefni dómsmála og því borgar sig að flýta sér hægt og þrátt fyrir að þolinmæðin sé fyrir löngu þrotin þá þýðir ekkert að gefast upp. Það verður að halda áfram og vanda sig,“ segir hún.
Teigsskógur gæti orðið prófsteinn
Teigsskógssagan rekur sig hátt á annan áratug aftur í tímann og frá því að fyrsta umhverfismatið féll í meðförum Skipulagsstofnunar og síðar í Hæstarétti hafa tekið gildi ný náttúrverndarlög þar sem kveðið er á um verndun vistkerfa eins og t.d. náttúrlegra birkiskóga sem þykja hafa sérstakt gildi. Ekki má raska þeim nema brýna nauðsyn beri til og sýnt þykir að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi. „Það er svo ekki skilgreint nánar hvað eru brýnir hagsmunir og lögin eru nýleg og það hefur ekki reynt á þetta ákvæði enn,“ segir Ingibjörg Birna. Fari það svo að Reykhólahreppur ákveði að veglínan skuli liggja um Teigsskóg gæti þessi lagagrein verið tilefni málsóknar. „Við óttumst að við gætum orðið prófsteinn á þessa grein náttúruverndarlaga.“
Alþingismenn í Norðvesturkjördæmi hafa síðustu vikur talað um lagasetningu sem heimili vegagerð í Teigskógi. Sveitarstjórinn hefur fullan skilning á þeim röddum. „En það er ekki okkar slagur, fyrir okkur er ekki neitt annað í boði en að vanda sig og vinna eftir þeim leikreglum sem Alþingi setur okkur,“ segir Ingibjörg Birna að lokum.
Ráðherra hefur skipað starfshóp sem falið verður að finna ásættanlega lausn á framtíð Reykjavíkurflugvallar. Þetta kom fram á fundi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar sem fram fór í Iðnó fyrr í dag.
Nefndina skipa Hreinn Loftsson hæstaréttarlögmaður, sem er jafnframt formaður nefndarinnar, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir fyrrverandi sveitarstjóri á Tálknafirði, Róbert Guðfinnsson athafnamaður á Siglufirði og Linda Gunnarsdóttir flugstjóri.
Jón segir í samtali við mbl.is að skipan nefndarinnar vera í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar segir meðal annars að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir lausn á áratugadeilu um framtíð Reykjavíkurflugvallar með því að stofna til formlegra viðræðna samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar, annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila.
Það má ekki dragast úr hófi að kanna ítarlega mótvægisaðgerðir í Ísafjarðardjúpi til að laxeldi geti hafist þar án þess að stefna laxveiðiánum í hættu. Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og þingmanns Norðvesturkjördæmis, í grein í Morgunblaðinu um helgina. Hún segir stóru fréttirnar í áhættu mati Hafrannsóknastofnunar vera að unnt er að auka eldi á Vestfjörðum án þess að stofna villtum laxastofnum í öðrum landshlutum í hættu.
„Aftur á móti var það áfall fyrir byggðina við Ísafjarðardjúp að eldi þar teldist ekki óhætt, vegna hættu á að innblöndun í þremur laxveiðiám við Djúp færi yfir öryggismörk. Það er erfitt fyrir utanaðkomandi að gera sér í hugarlund höggið sem þetta var, eftir að væntingar höfðu verið uppi um álíka uppgang og orðið hefur annars staðar,“ segir í grein Þórdísar Kolbrúnar.
Hún bendir á að ekki sé víst að allir átti sig á að hagvöxtur á Vestfjörðum var neikvæður um 6% á árunum 2008-2015, líkt og fram kemur í nýrri skýrslu Byggðastofnunar um hagvöxt landshlutanna.
„Enginn annar landshluti upplifði samdrátt á þessu tímabili. Veruleiki Vestfjarða á þessu tiltekna tímabili er því einstakur á landsvísu. Það er inn í þetta samhengi sem setja þarf vonir fólks um aukin umsvif í atvinnulífi.“
Vestfjarðagöngum verður lokað fyrir umferð kl. 13.45 í dag. Lokunin stendur yfir í um það bil klukkustund. Ástæða lokunarinnar eru umfangsmiklir þungaflutningar frá Ísafirði til Arnarfjarðar þar sem flytja á tæki og tól til sem verða notuð við gröft Dýrafjarðarganga. Fyrsta jarðgangasprengingin verður á fimmtudaginn en starfsmenn Suðurverks hafa verið að störfum við undirbúning og aðstöðusköpun frá því í sumar.
Gísli Halldór er ómyrkur í máli um vegagerð á Dynjandisheiði.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ætlar ekki að biðjast afsökunar á ummælum Gísla Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra sem hann lét fall um störf starfshóps um endurskoðun í fiskeldi. Þrír nefndarmenn fóru fram á afsökunarbeiðnina, þeir Kjartan Ólafsson stjórnarformaður Arnarlax, Guðmundur Gíslason stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða og Óðinn Sigþórsson fulltrúi Landssambands veiðifélaga í starfshópnum. Í bréfi þremenninganna til bæjarráðs, sem var tekið fyrir á fundi ráðsins í dag, er tekið fram að ef bærinn biðji þá ekki opinberlega afsökunar áskilji þeir sér rétt til að fá ummælin ómerkt með öðrum úrræðum, sem getur ekki þýtt annað en málshöfðun.
Á sérstökum bæjarstjórnarfundi um fiskeldismál í lok ágúst fjallaði Gísli Halldór um störf starfshópsins og sagði að þar hafi farið fram hrossakaup hagsmunaaðila og þeir plottað um að skipta landinu upp í sjókvíaeldissvæði.
Bæjarráð bendir á og áréttar að bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar ber ábyrgð á eigin ummælum á bæjarstjórnarfundi, en ekki bæjarstjórn.
Bæjarráð vekur athygli á að það hefði ekki átt að þurfa að koma nefndarmönnum á óvart að tillaga þeirra um að loka Ísafjarðardjúpi fyrir laxeldi væri umdeild og myndi skapa miklar umræður. Nefndarmenn hljóta að hafa gert sér grein fyrir því.
Bæjarráð vill jafnframt hvetja alla aðila þessa máls til þess að missa ekki sjónar á aðalatriðinu sem er að tryggja að laxeldi hefjist í Ísafjarðardjúpi eins fljótt og auðið er. Til að svo sé þurfa allir hagsmunaaðilar að vinna saman og hugsa í lausnum.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur áhyggjur af stöðu sauðfjárbænda á svæðinu og skorar á ríkisvaldið að standa við bakið á sauðfjárbændum í kjölfar lækkunar á afurðaverði. Fjöldi íbúa sveitarfélagsins úr hópi sauðfjárbænda horfa fram á þriðjungs lækkun á afurðaverði í haust og tekjuskerðingu í samræmi við það upp á tugi prósenta, í kjölfar nærri 10% lækkunar afurðaverðs á síðasta ári. Í ályktun bæjarstjórnar segir að þessar lækkanir komi harkalega niður á sveitum landsins og bitna sérstaklega á yngri bændum. „Sauðfjárræktin er mikilvæg í dreifðum byggðum landsins og ef stjórnvöld vilja halda byggðajafnvægi, er fátt sem kemur í hennar stað – fyrirsjáanleg byggðaröskun er því í uppsiglingu. Það er mikilvægt að hafa hraðar hendur við að finna leiðir til mótvægis meðan bændur vaða þessa brimskafla,“ segir í ályktuninni.
Á það er bent að í aðgerðum stjórnvalda eigi að horfa sérstaklega til þeirra landsvæða sem hafa staðið í varnarbaráttu í byggðamálum og sér í lagi þar sem eru vannýtt tækifæri í afleiddum störfum og þjónustu sem nýta mætti til styrkingar byggðum. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar telur t.d. að á Vestfjörðum séu miklir möguleikar í matartengdri ferðaþjónustu í hærri verðflokkum, á meðan erfiðara er fyrir efnaminna ferðafólk að sækja Vestfirði heim. Auk þess eru á Vestfjörðum möguleikar á fleiri afleiddum störfum, s.s. í tengslum við slátrun og úrvinnslu afurða.
Bókunin var samþykkt með sjö atkvæðum en Daníel Jakobsson (D) og Kristín Hálfdánsdóttir (D) sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
147. löggjafarþing verður sett á morgun. Þingsetning hefst með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar og alþingismenn ganga fylktu liði til kirkjunnar úr Alþingishúsinu. Séra Bolli Pétur Bollason, sóknarprestur í Laufásprestakalli, prédikar og séra Sveinn Valgeirsson, sóknarprestur í Dómkirkjunni, þjónar fyrir altari ásamt biskupi Íslands, frú Agnesi M. Sigurðardóttur. Organisti Dómkirkjunnar, Kári Þormar, leikur á orgel og kammerkór Dómkirkjunnar syngur við athöfnina.
Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setur Alþingi, 147. löggjafarþing, og að því loknu flytur forseti Alþingis, Unnur Brá Konráðsdóttir ávarp. Þingsetningarfundi verður síðan frestað til kl. 16.00. Þegar þingsetningarfundi verður fram haldið verður hlutað um sæti þingmanna. Fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 verður þá útbýtt.
Stefnuræða forsætisráðherra og eldhúsdagsumræður verða miðvikudagskvöldið 13. september kl. 19.30 og á fimmtudagsmorgun mælir fjármálaráðherra fyrir fjárlagafrumvarpi næsta árs.
Í dag fer fram listamannaspjall og endurvinnslulist í Sprota, garðplöntustöðinni við Smárateig 4 í Hnífsdal. Það er Margaret (Maddy) Riorda, fædd í Baltimore í Bandaríkjunum sem ætlar að sýna verk sín og spjalla um þau og dvölina á Ísafirði. Hún útskrifaðist frá Rhode Island School of Design með BFA í skúlptúrgerð, hún hélt síðan áfram listnámi í Tallin í Eistlandi. Hún hefur dvalið í gestavinnustofum ArtsIceland á Ísafirði síðasta mánuðinn og unnið að list sinni sem sköpuð er úr hlutum sem hún hefur fundið í umhverfinu. Spjallið hefst klukkan 17 og eru allir velkomnir og enginn aðgangseyrir.
Um verk sín og dvölina á Ísafirði segir Maddy: „Nýtt umhverfi og nýjar hindranir krefjast aðlögunar þegar kemur að listum. Innan óþekktrar veraldar mótast bæði ég og verkin mín af því sem er fyrir hendi. Ég hafði aldrei séð eins grípandi fegurð og varð fyrir augum mínum á Ísafirði, aldrei áður gengið á eins há fjöll eða andað að mér þokuskýjum. Þetta gerði það að verkum að ég öðlaðist skilning á því að veröldin í kring um mig væri fær um hvað sem er – og takmarkanir væru ekki til þegar kæmi að list. Með endurvinnanlegum og hráum efnivið gat ég gert safn hluta sem hluta af ferli mínu í þróun listarinnar í gegnum filtera Ísafjarðar og Íslands í heild.
Mér hefur alltaf líkað hugtakið „ruslalistamaður” sem nær yfir marga listamenn í svipuðum sporum og ég, sem hafa úr litlu fjármagni að spila og njóta þess að róta í gegnum rusl til að finna falda fjársjóði. Stundum bætir veðrun við virði hluta – þegar þeir hafa þolað svolítið af lífi. Það eru einhverjir töfrar fólgnir í að taka eitthvað sem enginn vill og gefa því smá fegurð. Og með hæfileika ruslaleitarans og einbettan vilja getur list komið hvaðan sem er og verið gerð úr hverju sem er.“
Það var markaleikur á Torfnesvelli á Ísafirði á laugardag þegar Vestri tók á móti Aftureldingu í 20 . umferð 2. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Dagskipun Vestramanna var einföld og stuttorð: sigur! Enda útlitið ekki bjart þegar einungis þrjár umferðir voru eftir og liðið í harðri fallbaráttu. Vestri hóf leikinn af krafti og Michael Saul Halpin kom heimamönnum yfir á 10. mínútu. Viktor Júlíusson bætti við öðru marki fimm mínútum síðar en Andri Freyr Jónasson minnkaði muninn fyrir Aftureldingu á 17. mínútu. Vestramenn létu það ekki á sig fá og Gilles Mbang Ondo kom Vestra í 3-1 með glæsilegu marki á 36. mínútu og þannig var staðan í hálfleik. Mehdi Hadraoui skoraði fjórða mark Vestra á 51. mínútu og sigurinn var í höfn og vítaspyrna Aftureldingar sem Magnús Már Einarsson skoraði breytti engu um það.
Þegar tvær umferðir eru eftir í deildinni er Vestri í 8. sæti með 24 stig. Lið Sindra er fallið og KV er í hinu fallsætinu með 21 stig og Vestramenn því hvergi nærri hólpnir. Næsti leikur er útileikur við frábært lið Magna sem er í öðru sæti deildarinnar. Vestri þarf að eiga stjörnuleik á laugardaginn til að koma með stig heim frá Grenivík.
Síðasti leikur deildarinnar verður laugardaginn 23. september en þá kemur Höttur á Torfnesið. Líkt og Vestri er Höttur fallbaráttu og er nú með 22 stig í 10. sæti deildarinnar.