Síða 2156

Stefnt á opnun í dag

Sundlaugar eru félagsmiðstöðvar dreifbýlisins.

Sundlaugin á Flateyri hefur verið lokuð frá því um miðja síðustu viku en bót í máli er að heitu pottarnir sívinsælu hafa verið opnir. Ástæða lokunarinnar er bilun í hreinsibúnaði sem erfitt hefur reynst að komast fyrir. Samkvæmt upplýsingum frá Ísafjarðarbæ er stefnt á opnun laugarinnar í dag.

smari@bb.is

Fjölmenni á nýliðakynningu Björgunarfélagsins

Fjölmenni á nýliðakynningu Björgunarfélags Ísafjarðar

Á mánudagskvöld var nýliðakynning hjá Björgunarfélaga Ísafjarðar og var vel mætt enda hentar starf í björgunarsveitum vel fyrir þá sem hafa áhuga á útivist, fjallamennsku, bátsferðum, sleðamennsku, fyrstu hjálp og síðast en ekki síst að vilja láta gott af sér leiða.

Á facebook síðu Björgunarfélagsins kemur fram þeir sem misstu af kynningunni í gær geti mætt næsta mánudag á fund sem haldinn verður í Guðmundarbúð, húsnæði félagsins.

bryndis@bb.is

Einvalalið í Útsvarinu

Greipur, Tinna og Gylfi verja heiður Ísafjarðarbæjar á komandi Útsvarstímabili.

Ísafjarðarbær keppir í hinum ódauðlega spurningaþætti Útsvari á föstudagskvöldið næsta. 2017 Útsvarsárgangurinn er ekki af lakari endanum hjá Ísafjarðarbæ og mun án vafa standast samanburð við goðsagnakennd lið fyrri ára. Liðið í ár skipa Greipur Gíslason verkefnastjóri, Gylfi Ólafsson aðstoðarmaður fjármálaráðherra og Tinna Ólafsdóttir  texta- og hugmyndasmiður.

Útsvarið verður með breyttu sniði í ár, ekki síst fyrir þær sakir að nýtt fólk er komið í brúna og þau Sigmar og Þóra verða hvergi nærri. Í þeirra stað ætla Sólmundur Hólm og Guðrún Dís Emilsdóttir að standa við rattið.

smari@bb.is

Að lifa í ótta við brottvísun

Alejandra fékk ríkisborgararétt fyrir þremur árum og stundar nú nám við Háskóla Íslands.

 

Fyrir allan þorra landsmanna er ekki auðvelt að setja sig í spor barns sem á yfir höfði sér brottvísun af landinu líkt og nú vofir yfir hinni ellefu ára gömlu Haniye Maleki sem stjórnvöld hafa ákveðið að vísa úr landi á næstu dögum. Isabel Alejandra Diaz frá Ísafirði veit allt um hlutskipti barna sem íslensk stjórnvöld vilja burt, en frá því hún kom til Íslands frá El Savador fyrir 17 árum og allt fram til allra síðustu ára fékk hún reglulega hótanir um að henni yrði vísað burt. Alejandra lýsir þeirri reynslu sinni í grein í Stundinni í dag.

„Í fyrstu fékk ég tilkynningu um að mér yrði vísað úr landi á 30 daga fresti. Þessir 30 dagar urðu síðar að 6 mánaða fresti, sem  gaf okkur meiri tíma til undirbúnings en var í sjálfu sér ekkert skárra. Sex mánuðirnir urðu svo „loksins“ að einu ári. Fyrir mig sem barn voru þetta ekki bréf, þetta voru hótanir. Samfélagið á Ísafirði gerði mér þessi ár bærileg, auk minnar trúar og trausts á Guði, en ég komst aldrei undan óttanum. Sársaukinn sem ég fann var rosalegur og hann verður ávallt hluti af mér, en sú upplifun hefur mótað mig sem manneskju og mína sýn á heiminn,“ skrifar Alejandra og bætir við:

„Það fór mikill tími og orka í að halda baráttunni áfram; tala nú ekki um fjármunina sem bókstaflega glötuðust. Ég náði aldrei að skilja hvers vegna yfirvöld sýndu mér ekki skilning. Hvernig gerðu þau sér ekki grein fyrir þeim áhrifum sem þetta hefur á barn og sálarlíf þess? Er ég leit í kringum mig sá ég vini mína, nágranna mína, bæjarbúa og fleira fólk sem ég jafnvel þekkti ekki sýna mér skilning og líka kærleik. Ég áttaði mig þar af leiðandi ekki á hvers vegna fólkið sem hafði öll völdin gerði ekki hið sama – þau voru nú mennsk eins og ég og allir hinir.“

smari@bb.is

Höfða ekki dómsmál

Óðinn Sigþórsson.

Nefndarmenn í starfshópi um stefnumótun í fiskeldi ætla ekki að höfða mál eða elta ólar við afstöðu Ísafjarðarbæjar vegna kröfu þeirra um afsökunarbeiðini frá bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar á ummælum Gísla Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra. Þrír nefndarmenn fóru fram á afsökunarbeiðnina, þeir Kjartan Ólafsson stjórnarformaður Arnarlax, Guðmundur Gíslason stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða og Óðinn Sigþórsson fulltrúi Landssambands veiðifélaga í starfshópnum. Bæjarráð hefur hafnað kröfu þeirra og áréttaði að bæjarstjóri beri sjálfur ábyrgð á orðum sem hann lætur falla á bæjarstjórnarfundi.

„Þau virðast ekki átta sig á að bærinn birtir þetta á Facebooksíðu sinni og dreifir þannig þessum ósannindum bæjarstjóra. Okkur fannst það vera aðalatriðið, að bærinn skuli vera að dreifa þessum ummælum,“ segir Óðinn Sigþórsson.

Óðinn segir að þeir ætli ekki að höfða mál á hendur bæjarstjóra, en í bréfi þeirra til bæjarráðs kom fram að þeir áskilji sér allan rétt til þess ef ekki yrði lögð fram opinber afsökunarbeiðni.

„Við sjáum ekki ástæðu til þess að eltast við svona mál og það nær ekki því máli að það taki því að gera það að dómsmáli. Okkar markmið var að leiðrétta ósannindi bæjarstjóra og við erum búnir að því. Svo verður bæjarstjórn og bæjarstjóri að gera upp við sig hvort að það eigi að fara eftir siðareglum kjörinna fulltrúa í Ísafjarðarbæ,“ segir Óðinn.

smari@bb.is

Með ungviðið í leikskólann

Tekur með sér nesti í leikskólann

Henni fannst þjónustan frekar bágborin, þarna var hún mætt með afkvæmið á leikskólann og enginn starfsmaður tók á móti því. Allt í niðurníðslu og ekkert að gerast. Þetta gæti hún hafa hugsað hryssan sem spókaði sig á lóðinni við leikskólann í Hnífsdal með folaldið sitt. Um var að ræða mæðgin sem höfðu þótt full frjálsleg í fasi í þorpinu þennan sólarhringinn, umferðarreglur ekki virtar og þaðan af síður hreinlætishegðun. Þau fengu því tímabundna gæslu á skólalóðinni en þó án allrar þjónustu eins og áður hefur komið fram. Í kvöld stendur svo til að þau fái flutning milli fjarða þar sem umhverfið hentar betur.

bryndis@bb.is

Fundi SA frestað

Samtök atvinnulífsins efnir til opinna funda í september og október undir yfirskriftinni „Hvað gerist 2018“. Til stóð að halda fund á Ísafirði á fimmtudaginn en honum hefur verið frestað enda segjast forsvarsmenn SA ekki geta keppt við stórviðburði eins og hátíðarsprengingu Dýrafjarðarganga eða Íslensku sjávarútvegssýninguna sem haldin er í vikunni. Halldór B. Þorbergsson framkvæmdastjóri samtakanna segir að ný dagsetning verði ákveðin innan skamms.

bryndis@bb.is

Eldsneytisskattar hækkaðir

Olíu- og bens­íngjald verður jafnað á næsta ári sam­kvæmt fjár­laga­frum­varpi sem fjár­málaráðherra kynnti á blaðamannafyndi í morg­un. Áhrif þess verða um 8 krónu hækk­un á bens­ín­lítra og 18 krónu hækk­un á dísi­lol­íu, eftir því sem kemur fram á vef mbl.is. Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra sagði á fundinum að breytingin ætti að skila ríkissjóði 1,7 milljörðum í auknar tekjur. Sagði Bene­dikt á fund­in­um í morg­un að áður hefði verið talið betra fyr­ir um­hverfið að not­ast við dísil og því væru lægri gjöld á það eldsneyti. Aft­ur á móti hefðu rann­sókn­ir síðar meir bent til þess að dísi­lol­ía væri verri en áður var talið og því teldi rík­is­stjórn­in rétt að jafna gjaldið nú.

 

Snjóflóðavarnir á Patreksfirði í umhverfismat

Patreksfjörður.

Vesturbyggð hefur lagt fram tillögu að matsáætlun vegna áforma um ofanflóðavarnir við Urðargötu, Hóla og Mýrar á Patreksfirði. Vesturbyggð áformar að reisa varnargarð gegn ofanflóðum á Patreksfirði í hlíðunum fyrir ofan þéttbýlið á milli Vatnseyrar og Geirseyrar. Er það gert til þess að stuðla að bættu öryggi íbúa Patreksfjarðar gagnvart ofanflóðum. Gert er ráð fyrir að reisa tvo varnargarða, annarsvegar ofan við Mýrar og Hólagötu og hinsvegar Urðargötu. Hönnun varnargarðanna gengur út á að garðarnir veiti byggðinni vörn gegn hugsanlegum snjóflóðum og leiði flóðin til sjávar. Lögð er áhersla á að milda áhrif varnargarðanna á ásýnd með landmótun og gróðursetningu auk þess að styrkja útivistarmöguleika svæðisins með bættu stígakerfi. Umfang framkvæmdarinnar er slíkt að hún er háð lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Afmörkun framkvæmdasvæðisins.

Fyrsti áfangi eru þessi drög að tillögu að matsáætlun þar sem kemur fram hvernig áætlað er að staðið verði að mati á umhverfisáhrifum. Drögin verða kynnt fyrir umsagnaraðilum og almenningi sem hafa tækifæri á að koma með ábendingar hvað varðar áætlunina um matið. Tillagan er síðan send til Skipulagsstofnunar sem tekur ákvörðun um matsáætlun. Annar áfangi felst í rannsóknum, gagnaöflun og vinnu við frummatsskýrslu, þar sem fjallað er nánar um framkvæmdina, valkosti og greint frá niðurstöðum úr mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Skýrslan er kynnt almenningi og umsagnaraðilum sem hafa tækifæri á að koma með athugasemdir og ábendingar er varðar umhverfismatið. Þriðja skrefið felst í því að framkvæmdaraðili vinnur úr athugasemdum og umsögnum sem bárust og bætir inn í matsskýrslu. Skýrslan er send til Skipulagsstofnunar sem gefur álit sitt. Ekki er hægt að veita framkvæmdaleyfi fyrr en álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir. Við útgáfu framkvæmdaleyfis verður sveitarstjórn að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Þeir umhverfisþættir sem verða til umfjöllunar í mati á umhverfisáhrifum eru vistgerðir, vatnafar, jarðminjar, fornleifar, hljóðvist, loftgæði, loftslag, útivist, ásýnd og öryggi.

Óska eftir aðkomu Ofanflóðasjóðs

Hádegissteinninn vegur tugi tonna og ekki að spyrja að hættunni sem myndast ef hann hrynur ofan í byggðina.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar óskar aðstoðar Ofanflóðasjóðs við að meta og eyða hættunni af Hádegissteini eins fljótt og kostur er. Hádegissteinninn er þekkt kennileiti í hlíð Bakkahyrnu í Hnífsdal. Sérfræðingar Veðurstofunnar greindu í lok ágúst að steinninn er á hreyfingu og gæti skapast mikil hætt af hann tæki upp á að hrynja niður hlíðina á byggðina í Hnífsdal. Sérfræðingarnir veltu upp tveimur möguleikum, annars vegar að festa hann með steyptum akkerum eða sprengja hann og fjarlægja hættuna alfarið.

Málið hefur verið kynnt stjórn hverfisráðs Hnífsdals sem ályktaði að málið þoli enga bið, annaðhvort þurfi að sprengja steininn eða ganga frá honum með öðrum hætti svo að engi hætta stafi af honum. Hverfisráðið hefur farið fram á vikulega vöktun með steininum.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir