Fimmtudagur 16. janúar 2025
Síða 2155

Vinsælasta lesefnið

Vinsælast 2016. Mynd: Landskerfi.is

Nú er hægt að nálgast upplýsingar um hvaða efni er vinsælast í íslenskum bókasöfnum á vef Landskerfis bókasafna. Á vefsíðunni Vinsælustu titlarnir er m.a. hægt að draga út tölur um vinsælustu bækurnar, vinsælustu tímaritin, hvaða kennslubók er eftirsóttust í framhaldsskólum landsins og hvað háskólaborgararnir taka að láni. Einnig er hægt að skoða hvað unga fólkið okkar er að lesa og hvort munur sé á lestarmynstri höfuðborgarbúa og Austfirðinga.

Til þess að nálgast þessar upplýsingar og fleiri er farið inn á vefsíðuna Vinsælustu titlarnir á vef Landskerfis bókasafna velja það sem áhugi er á að skoða.

Upplýsingarnar á þessari vefsíðu byggja á upplýsingum um útlán úr bókasafnskerfinu Gegni.

Landskerfi bókasafna rekur tölvukerfi á sviði bóka-, lista- og minjasafna. Kerfin eiga það sammerkt að hafa umsjón með safnkosti og miðlun efnis til notenda. Gegnir er rekstrarkerfi fyrir flest bókasöfn landsins.

bryndis@bb.is

Verbúð að þúsund ára gamalli fyrirmynd byggð í Staðardal í Súgandafirði

Fornminjafélag Súgandafjarðar hóf síðastliðið sumar byggingu á verbúð eins og þær voru á öldum áður við sjávarsíðuna þar sem sjómenn bjuggu þegar þeir voru í verinu. Í Staðardalnum var róið til fiskjar frá nokkrum verstöðvum: Stöðinni, Árósnum og Keravíkinni.

Núverandi verbúð er staðsett á sama stað og réttarskáli kvenfélagsins Ársólar stóð áður á svokölluðum Hreggnasa. Í næsta nágrenni má sjá tóftir af verbúðum og fleiri gamlar tóftir uppgötvuðust þegar drónamyndir voru teknar meðan á byggingu stóð. Verkefnið var unnið í góðu samstarfi við Minjastofnun sem m.a. tók út svæðið áður en framkvæmdir hófust til að tryggja að engum minjum yrði raskað.

Síðastliðið sumar voru veggirnir hlaðnir og í sumar var sett torfþak á verbúðina og gaflar og hurð smíðuð. Við hliðina á verbúðinni er sexæringur sem Fornminjafélag Súgandafjarðar fékk frá bátasafninu á Reykhólum og er hann um 80 ára gamall. Framundan er að mála bátinn og smíða bátaspil líkt og sjá mátti við Stöðina í næsta nágrenni. Til stendur að gera meira í kringum verbúðina til að líkja sem mest eftir umhverfi verbúðanna, m.a. aflraunasteinar og fiskigarðar. Inni í búðinni verður reynt að líkja eftir því sem var með svefnstæði ofl. Bekkur er staðsettur við hliðina á verbúðinni sem gerir hann að ákjósanlegum stað til að stoppa á og njóta útsýnisins.

Fjöldi félagsmanna og annarra velunnara kom að verkefninu og sýndi því mikinn velvilja. Allt var unnið í sjálfboðavinnu og það sem þurfti að kaupa var keypt með félagsgjöldum Fornminjafélagsins.

Verbúðin verður vígð á næstunni en hún hefur fengið nafnið Ársól eftir kvenfélaginu sem rak réttarskálann sem var á sama stað og búðin er byggð á.

Verbúðin er öllum opin og öllum velkomið að kíkja inn og lifa sig inn í þúsund ára sögu útræðis á þessum fallega stað í Súgandafirði.

Styrkir úr Menningarsjóði vestfirskrar æsku

Eins og undanfarin ár verða veittir styrkir úr Menningarsjóði vestfirskrar æsku til framhaldsnáms sem vestfirsk ungmenni geta ekki stundað í heimabyggð sinni. Að öðru jöfnu njóta þeir forgangs úr sjóðnum sem hafa misst foreldra og einstæðar mæður og konur meðan ekki er fullt launajafnrétti. Ef engar umsóknir eru frá Vestfjörðum koma umsóknir Vestfirðinga búsettum annarsstaðar til greina.

Félagssvæði Vestfirðingafélagsins er Ísafjarðarsýslur, Ísafjörður, Stranda- og Barðastrandasýslur.

Umsóknir skulu sendar fyrir lok júlí mánaðar 2017 til Menningarsjóðs vestfirskrar æsku c/o Haukur Hannibalsson, Digranesheiði 34, 200 Kópavogur og skal umsögn fylgja frá skólastjóra og/eða öðrum sem þekkja viðkomandi nemanda, efni hans og aðstæður. Netfang:  haukurhannibalsson@simnet.is

Á síðasta ári voru veittir styrkir að upphæð 450þúsund til þriggja ungmenna frá Vestfjörðum.

bryndis@bb.is

Landsliðsstjörnur á Ísafirði

Mynd: Vestri.is

Yngri flokkar körfuboltadeildar Vestra fengu góða heimsókn um helgina þegar Martin Hermannsson og Hildur Björg Kjartansdóttir sóttu Ísafjörð heim og sáu um æfingar gærdagsins hjá félaginu. Martin, sem er KR-ingur í húð og hár, er orðinn atvinnumaður í körfubolta og leikur með A-deildarliðinu Châlon-Reims í Frakklandi. Hildur er nýgengin til liðs við Breiðablik en hún spilaði í háskólaboltanum í Bandaríkjunum. Hún er úr Stykkishólmi og því uppalin í Snæfelli.

Þau Hildur og Martin eru á hringferð um landið í átaksverkefni Körfuknattleikssambands Íslands sem nefnist Körfuboltasumarið. Verkefnið er m.a. styrkt af FIBA Europe og miðar að því að hvetja unga iðkendur til dáða, kenna þeim markmiðasetningu og hvað þarf til að ná langt í íþróttinni.

Nánar má lesa um heimsókn þeirra Hildar og Martins á heimasíðu Vestra.

Bryndis@bb.is

Hangir að mestu þurrt

Það spáir smáskúrum í dag á Vestfjörðum en næstu daga ætti að vera hægt að hengja þvott til þerris. Hitastig gæti náð tveggja stafa tölu en það er þó ekki víst.

Búist er við stormi við suðvesturströndina og á hálendinu upp úr hádegi á morgun með hvössum vindhviðum við fjöll, sem geta verið varasöm farartækjum sem taka á sig mikinn vind. Einnig má gera ráð fyrir talsverðri rigningu sunnan- og vestanlands.

bryndis@bb.is

Hvar er best að búa

Ísafjörður. Mynd: Mats Wibe Lund.

Viðskiptaráð hefur nú uppfært reiknivélina „Hvar er best að búa“ og í tilkynningu frá ráðinu segir að þrátt fyrir að álagningarprósenta fasteignagjalda hafi að mestu leyti staðið í stað hafi fasteignagjöld hækka mikið undanfarin þrjú ár vegna gríðarlegra verðhækkana á húsnæði.

Í reiknivélinni er tekið tillit til fasteignaskatta, lóðaleigu, holræsisgjalda, sorphreinsigjalda og vatnsgjalda. Þá er eru niðurgreiðslur vegna dagforeldra, leikskólagjöld, matargjöld í grunnskólum og tómstundagjöld einnig skoðuð. Þannig má sjá í hvaða sveitarfélagi er hagstæðast að búa miðað við tekjur, stærð húsnæðis og fjölda barna í skóla. Loks sýnir reiknivélin fjárhagslega stöðu viðkomandi sveitarfélags.

Hér má nálgast reiknivélina en það er rétt að geta þess að hún tekur ekki tillit til þess hvar lognið á lögheimili né hvar fjöllin eru fegurst.

bryndis@bb.is

Bestu þakkir Þorsteinn

Magnús Reynir Guðmundsson

Í 30 ár hefur Þorsteinn Jóhannesson, yfirlæknir og skurðlæknir á Ísafirði,

Þjónað Vestfirðingum nær nótt og dag. Ef einhver einstaklingur á Ísafirði

verðskuldar virðingu og þakklæti, umfram annað samferðafólk okkar, þá er

það Þorsteinn Jóhannesson.

 

Þann 16. maí s.l. sendi forstjóri  HVEST frá sér fréttatilkynningu þar sem segir,

að „samkvæmt samkomulagi milli forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og

Þorsteins Jóhannessonar skurðlæknis og yfirlæknis sjúkrasviðs  HVEST, mun

Þorsteinn láta af störfum við heilbrigðisstofnunina 15. júlí n.k.  eftir tæplega

30 ára starf.  Svo mörg voru þau orð.

Ekki kemur fram hvort „samkomulag“ þetta hafi verið gert að frumkvæði

Þorsteins  eða HVEST.  Ekki hefur heyrst að Þorsteinn, sem er nýlega orðinn 66

ára , hyggðist láta af störfum fyrr en efni stæðu til.  Ekkert segir um það hvort

HVEST hafi nú þegar tryggt Vestfirðingum skurðlækni til að fylla skarð Þorsteins.

Skurðlæknar liggja nú ekki beint á lausu í landinu, en vitað er að Þorsteinn vann

þrekvirki við að tryggja afleysingalækna, þegar hann þurfti á fríum að halda.

Það er margt sem sækir á hugann þegar lesin er tilkynningin um brotthvarf

Þorsteins, sem fram kemur á heimasíðu HVEST 16. maí s.l.

Er hugsanlegt að forstjóri HVEST sé að boða nýja stefnu í heilbrigðismálum

Vestfjarða ( landsbyggðarinnar ) sem geri m.a. ráð fyrir því að ekki skuli vera

skurðlæknir á HVEST ?. Hefur heilbrigðisráðuneytið markað slíka stefnu og hafa

núverandi stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða hugsanlega fallist á slíka

breytingu ?  Vita þingmenn Norðvesturkjördæmis eða sveitarstjórnir af þessum

hugmyndum, ef réttar eru ?  Þetta mál, brotthvarf Þorsteins Jóhannessonar og

raunverulegar ástæður þess, og þrýstingur heilbrigðisyfirvalda í landinu á að

fækka skurðlæknum á landsbyggðinni, þarfnast frekari skýringa.

 

„Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ segir máltækið.

Auðvitað hefur  Þorsteinn Jóhannesson fullan rétt á að taka sér hvíld eftir langan,

strangan og farsælan vinnudag, en hitt er verra ef ekki hefur ríkt skilningur á

mikilvægi hans sem skurðlæknis, þegar fyrrnefnt „samkomulag“ var gert.

Var reynt að fá Þorstein, fullfrískan mann á besta aldri, til að halda áfram sem

skurðlæknir eða var stefnan að hafa ekki lengur skurðlækni á staðnum ?

 

Þorsteinn hefur alla tíð staðið fastur fyrir, þegar reynt hefur verið af

stjórnvöldum, að veikja heibrigðiskerfið á Vestfjörðum. Nú reynir á hvort breyting

verður og forsvarsfólk HVEST taki baráttulaust við öllum fyrirmælum og

sendingum að sunnan.

 

 Magnús Reynir Guðmundsson

fyrrv. form. stjórnar Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði:

 

Vilja vernda náttúru Árneshrepps

Ós Hvalár í Ófeigsfirði. Mynd: Mats Wibe Lund. Myndin tengist fréttinni ekki.

Í kjölfar málþingsins Arfleifð Árneshrepps sem haldið var í júní hefur hópur fólks stofnað samtök um verndun náttúru, menningarminja og sögu Árneshrepps. Samtökin nefna sig Rjúkanda en áin Rjúkandi er ein þeirra áa sem stendur til að virkja á Ófeigsfjarðarheiði.

Um sjötíu manns sóttu málþingið en á annað þúsund sáu beint streymi af fundinum á facebooksíðu málþingsins, segir í fréttatilkynningu frá samtökunum. Þar kemur enn fremur fram að fyrirtækjum, stofnunum, sveitarstjórn Árneshrepps, landeigendum í Ófeigsfirði og einstaklingum hafi verið gefin kostur á að kynna sín sjónarmið. Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi á Ljótarstöðum í Skaftártungu ræddi um baráttu hennar og sveitunga hennar gegn virkjanaáformum. Viðar Hreinsson talaði um Jón lærða, náttúrur náttúrunnar og Jón Jónsson þjóðfræðingur ræddi m.a. um menningararf og menningarminjar sem grundvöll samfélags- og atvinnusköpunar.

Í fréttatilkynningunni segir sömuleiðis að í máli einstaklinga á þinginu hafi komið fram nokkuð afdráttarlaus andstaða við Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði og efasemdir um jákvæð áhrif framkvæmdarinnar á byggðalagið. Virkjun Hvalár hefur staðið til um langt skeið, margir íbúar í Árneshreppi telja að á þeim tíma sem virkjunin hefur verið í umræðunni hafi svo margt breyst og komið í ljós að forsendur fyrir henni séu algjörlega brostnar.

Forsvarsmenn Rjúkanda segja að virkjunin mun ekki skapa nein störf í hreppnum á rekstrartíma sínum, engar vegabætur á Strandavegi fylgja framkvæmdinni og afhendingaröryggi rafmagns í Árneshreppi mun ekki batna með virkjuninni. Á stuttum tíma hefur virkjunin stækkað úr 37mgw í 55 og kemur því til með að framleiða mun meiri raforku en þörf er fyrir á Vestfjörðum. Nú þegar framleiða Íslendingar margfalt meiri raforku en not eru fyrir í landinu.

Stofnendur samtakanna telja ríka þörf vera fyrir afl af þessu tagi sem andstöðu við þá einkaaðila sem áforma virkjun í Árneshreppi. Það hafi sýnt sig að virkjunaraðilar leitast við að fegra sína hlið málsins og reyni eftir fremsta megni að kæfa alla umræðu um náttúruvernd og þau umhverfisspjöll sem þeir áforma að vinna á náttúruperlum í Árneshreppi. Heimasíða samtakanna www.rjukandi.org opnar á næstu dögum, þar er hægt að nálgast frekari upplýsingar um Rjúkanda, lög og stofnmarkmið samtakanna. Rjúkandi stendur öllum opinn sem geta samsamað sig stefnu samtakanna, þeir sem vilja gerast stofnfélagar gera gert það á heimasíðunni eða í gegnum netfangið arneshreppurogframtidin@gmail.com.

bryndis@bb.is

Merkileg heimild um konu úr efstu lögum

Kirkjan í Vatnsfirði.

Handritasafn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns kynnir nýja sýningu um æfi Hólmfríðar Sigurðardóttur prófastsfrúar í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp. Í Hólmfríði speglast valdaættir og menning aldarinnar á einstakan hátt eins og greina af þeim heimildum sem varðveittar eru um hana og hennar fólk.

Í aðalhlutverki á sýningunni er handritið Lbs 1528 8vo. Það inniheldur líkræðu, lífshistoríu og erfiljóð um Hólmfríði og dóttir hennar, Ragnheiður Jónsdóttir biskupsfrú, lét gera. Handritið er eiginhandarrit höfunda þess og er stórmerkileg heimild um konu úr efstu lögum samfélagsins á 17. öld. Efni þess er einnig varðveitt í tveimur yngri uppskriftum.

Handritið sem í aðalhlutverki á sýningunni.

Hólmfríður var eiginkona Jóns Arasonar prófasts í Vatnsfirði en Jón var sonur Ara sýslumanns Magnússonar í Ögri sem þekktastur var fyrir sinn þátt í Spánverjavígunum. Dóttir þeirra, Ragnheiður, varð eiginkona tveggja biskupa á Hólum. Hún var þriðja kona (1674) Gísla Þorlákssonar og seinni kona Einars Þorsteinssonar (1696) en hann varð bráðkvaddur eftir aðeins eins mánaðar hjónaband. Ragnheiður þótti einn besti kvenkostur á Íslandi á sinni tíð og var mikilvirk hannyrðakona. Myndir af Ragnheiði prýða íslenska 5000 króna seðilinn.

Sýningin er opin á opnunartíma Þjóðarbókhlöðu, kl. 9:00-17:00 alla virka daga. Opnunartíminn lengist í lok ágúst.

Ekki hægt að bíða með að bjarga höfninni á Flateyri

 

Hafnarkanturinn á hafskipahöfninni á Flateyri hefur sigið um allt að 0,5 m frá því að stálþilið og þekjan var steypt árið 1999. Nú er svo komið að ekki er hægt að bíða lengur með aðgerðir og í minnisblaði Vegagerðarinnar er mælst til að framkvæmdir hefjist sem fyrst. Hönnunarmistök er ástæða fyrir siginu að mati sérfræðings Vegagagerðarinnar sem telur það fyrst og fremt tilkomið vegna þesss að þilið var rekið niður of nálægt bakkanum og dýpið er meira en hönnunardýpið.

Þær aðgerðir sem þarf að grípa til eru viðamiklar og fela í sér dælingu á efni og uppfyllingu eftir atvikum. Styrkingu sjávarbotnsins fyrir framan bryggjuna með djúpþjöppun. Ef þessar aðgerðir takast og sigið stöðvast þarf að endursteypa hluta hafnarkant og -þekju.

Áætlaður heildarkostnaður er 43 milljónir kr. og ríkið greiðir 75% kostnaðar á móti hafnarsjóði

Að mati hafnarstjórnar Ísafjarðarbæjar er sanngjörn og eðlileg krafa að ríkið greiði allan kostnað þar sem hafnarstjórn telur einsýnt að ástæða sigsins er hönnunargalli sem er alfarið á ábyrgð ríkisins.

Nýjustu fréttir