Síða 2155

Leggja til aðgerðir til að draga úr umferðarhraða

Smiðjugata á Ísafirði.

Á eyrinni á Ísafirði er allnokkrar götur sem upphaflega voru ekki ætlaðar fyrir bílaumferð. Þrátt fyrir lágan hámarkshraða á götunum (30 km) er upplifun vegfarenda að hraðinn sé of mikill, enda er allri umferð blandað saman í þröngu rými. Stuttar sjónlínur á gatnamótum geta einnig valdið óöryggi. Þetta kemur fram í minnisblaði Verkís um hraðalækkandi aðgerðir á Ísafirði. Göturnar sem um ræðir eru Brunngata, Smiðjugata, Tangagata, Skipagata, Þvergata og Silfurgata. Í minnisblaðinu eru lagðar til leiðir til að lækka umferðarhraða.

Meðal þess sem er lagt er til er að þriggja metra akrein verði afmörkuð með máluðum línum á vegyfirborðið á þeim götum sem eru jafnt og eða stærri en 5m að breidd. Með þessu upplifa ökumenn að þrengt sé að þeim og veldur það lækkun hraða og með því afmarkast einnig svæði fyrir gangandi umferð. Einnig er lagt til að staðsetja blómaker, bekki o.þ.h. utan skilgreinda akreina og afmarka bílastæði til að draga úr líkum bílum sé lagt þar sem ekki er ætlast til.

smari@bb.is

Vestri mætir Magna á laugardaginn

Karlalið Vestra í knattspyrnu heldur til Grenivíkur í næstsíðasta leik tímabilsins og hittir þar fyrir Magna sem nú situr í öðru sæti 2. deildar karla í Íslandsmótinu. Okkar menn eru í 8. sæti og mæta væntanlega grjótharðir á heimavöll Magna og mun ekki af veita miðað við frumleika stuðningsmanna þeirra. Meðfylgjandi „peppmyndband“ birtist á facebook síðu Magna þar sem þeir hvöttu stuðningsmenn til að mæta á völlinn.

Þess má geta að í upphafi leiktímabilsins var Vestramönnum spáð 2. sætið í deildinni og eiga okkar menn því harma að hefna. Sigur Vestra á Aftureldingu um síðustu helgi var svo sannarlega vel þeginn en engu að síður er liðið enn í fallbaráttu og þarf ekkert minna en stjörnuleik á vellinum á Grenivík. Annað sætið er úr augsýn og nú þarf að halda sér í deildinni.

Lokaleikur Vestra er svo á Torfnesi þann 23. september á móti Hetti.

bryndis@bb.is

Þurfum rannsókn á samstarfi sveitarstjóra og skipulagsstofnunar

Kristinn Bergsveinsson

„Endanlegrar ákvörðunar er að vænta um áramótin,“ er haft eftir sveitarstjóra Reykhólahrepps á vef bb.is í gær. Ákvörðunar um hvað? Hún virðist ekki hafa lesið niðurstöðu umhverfismats Vegagerðarinnar þar sem ákvörðun um val á leið er mjög vel rökstudd, af fimm leiðum er Teigsskógur talin besta leiðin. Hún virðist vilja halda á lofti fullyrðingum andstæðinga vegarins um að Hæstiréttur hafi staðfest neitun Skipulagsstofnunar á veglínu. Umverfisráðherra samþykkti skipulagið en dómur Hæstaréttar felldi einungis úr gildi ákvörðun Jónínu Bjartmarz með fáránlegum rökum. Ég skora á Alþingi að skera nú á hnútinn en legg til eftirfarandi sem almennur borgari með rétt til að fá upplýsingar og ekki síður að löggjafinn, Alþingi, læri hvernig stjórnsýslan á ekki að vinna.

Nauðsynlegt er að fram fari rannsókn á samskiptum sveitarstjóra Reykhólahrepps og forstjóra Skipulagsstofnunar undanfarna mánuði og ár. Rannsóknin fari fram á grundvelli upplýsingalaga. Rannsakendur væru t.d. fréttamenn RÚV og niðurstöður ætti birta í Kastljósi. Báðir aðilar eru stjórnvald sem á að vinna fyrir opnum tjöldum en ekki með stofnanaofbeldi.

 Kristinn Bergsveinssson frá Gufudal

Es. Okkur bræður, Finnur og ég, langar mikið að vera við borðaklippingu að loknu verki.

Erlendir ríkisborgarar 17% af vinnuaflinu

Erlent vinnuafl er sérstaklega áberandi í byggingariðnaði og í ferðaþjónustu.

Erlendum ríkisborgurum sem starfa hér á landi hefur fjölgað um 65 prósent á undanförnum fimm árum og um rúm 17 prósent á síðustu tólf mánuðum. Aldrei fyrr hafa svo margir erlendir ríkisborgarar starfað hér á landi. Þetta kemur fram í Markaðnum sem fylgir Fréttablaðinu í dag.

Þrátt fyrir þennan fjölda erlendra starfsmanna er skortur á starfsfólki í flestum greinum, einkum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Sérfræðingar telja að hápunktur nálgist þegar litið er til spennu á vinnumarkaði.

Katrín Ólafsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, segir mikla spennu á vinnumarkaði  en að mikil aukning erlendra starfsmanna vegi þar á móti. Ef ekki væri fyrir þá, væri staðan allt önnur. „Launaskrið og verðbólga hefðu þá gert vart við sig og okkur hefði ekki tekist að þjóna öllum þeim ferðamönnum sem hér eru,“ er haft eftir Katrínu í Markaðnum.

smari@bb.is

Erla ráðin fjármálastjóri Heilbrigðisstofnunarinnar

Erla Kristinsdóttir hefur verið ráðin fjármálastjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Umsóknarfrestur um stöðuna rann út 17. ágúst og bárust sjö umsóknir um starfið. Erla er fædd árið 1979.  Hún lauk B.Ed. námi 2006 og MA námi í alþjóðasamskiptum frá University of Kent í Brussel 2009. Þá lauk hún námi sem viðurkenndur bókari við Háskólann í Reykjavík árið 2011 og M.Acc. gráðu í reikningshaldi og endurskoðun frá sama skóla í janúar 2016.

Erla starfaði áður sem kennari í tungumálum og bókfærslu við grunnskólann í Bolungarvík og á Seltjarnarnesi en frá 2006 hefur hún einkum starfað við bókhald, afstemmingar, launaútreikninga, gerð ársreikninga og framtala, rekstraruppgjör og áætlanagerð. Á árunum 2009-2014 var Erla með eigin rekstur á sviði bókhalds en hefur síðustu ár starfað á endurskoðunarsviði KPMG í Reykjavík.

Aðrir umsækjendur um stöðuna voru;

Abdelli Mohammed

Jón Ingi Skarphéðinsson

Kristinn H. Gunnarsson

Margrét Högnadóttir

Maron Baldursson

Þuríður Sigurðardóttir

smari@bb.is

Vestfirska listamenn aftur vestur

Fjórðungssamband Vestfirðinga auglýsir nú eftir styrkjum úr nýjum sjóð sem heitir Straumar. Fyrirmynd Strauma er norskt verkefni sem þróað var í Vesterålen og hafa bæði Menningarráð Eyþings og Austurbrú nýtt sér þessa hugmyndafræði og eru Straumar hluti af Sóknaráætlun Vestfjarða.

Sjóðurinn er ætlaður fyrir brottflutta listamenn, á aldrinum 20 – 35 ára, sem hafa áhuga á að koma á sínar heimaslóðir og iðka eða sýna list sína. Umsóknarfrestur er til 24. september og þegar honum lýkur verður valinn hópur úr ólíkum listgreinum. Hópurinn hittist síðan og ræðir verkefnin og vonast er til að það samtal leið af sér samvinnu listafólksins. Að sögn Skúla Gautasonar, menningarfulltrúa Vestfjarða, eru mikla væntingar bundnar við verkefnið, sérstaklega til samstarfs listafólks úr ólíkum greinum en af slíku hafa oft skapast nýstárlegir og spennandi listgjörningar. Skúli hvetur Vestfirðinga að hnippa í sitt fólk sem hrærist í listaheiminum og hvetja það til að sækja um.

bryndis@bb.is

Stefnt á opnun í dag

Sundlaugar eru félagsmiðstöðvar dreifbýlisins.

Sundlaugin á Flateyri hefur verið lokuð frá því um miðja síðustu viku en bót í máli er að heitu pottarnir sívinsælu hafa verið opnir. Ástæða lokunarinnar er bilun í hreinsibúnaði sem erfitt hefur reynst að komast fyrir. Samkvæmt upplýsingum frá Ísafjarðarbæ er stefnt á opnun laugarinnar í dag.

smari@bb.is

Fjölmenni á nýliðakynningu Björgunarfélagsins

Fjölmenni á nýliðakynningu Björgunarfélags Ísafjarðar

Á mánudagskvöld var nýliðakynning hjá Björgunarfélaga Ísafjarðar og var vel mætt enda hentar starf í björgunarsveitum vel fyrir þá sem hafa áhuga á útivist, fjallamennsku, bátsferðum, sleðamennsku, fyrstu hjálp og síðast en ekki síst að vilja láta gott af sér leiða.

Á facebook síðu Björgunarfélagsins kemur fram þeir sem misstu af kynningunni í gær geti mætt næsta mánudag á fund sem haldinn verður í Guðmundarbúð, húsnæði félagsins.

bryndis@bb.is

Einvalalið í Útsvarinu

Greipur, Tinna og Gylfi verja heiður Ísafjarðarbæjar á komandi Útsvarstímabili.

Ísafjarðarbær keppir í hinum ódauðlega spurningaþætti Útsvari á föstudagskvöldið næsta. 2017 Útsvarsárgangurinn er ekki af lakari endanum hjá Ísafjarðarbæ og mun án vafa standast samanburð við goðsagnakennd lið fyrri ára. Liðið í ár skipa Greipur Gíslason verkefnastjóri, Gylfi Ólafsson aðstoðarmaður fjármálaráðherra og Tinna Ólafsdóttir  texta- og hugmyndasmiður.

Útsvarið verður með breyttu sniði í ár, ekki síst fyrir þær sakir að nýtt fólk er komið í brúna og þau Sigmar og Þóra verða hvergi nærri. Í þeirra stað ætla Sólmundur Hólm og Guðrún Dís Emilsdóttir að standa við rattið.

smari@bb.is

Að lifa í ótta við brottvísun

Alejandra fékk ríkisborgararétt fyrir þremur árum og stundar nú nám við Háskóla Íslands.

 

Fyrir allan þorra landsmanna er ekki auðvelt að setja sig í spor barns sem á yfir höfði sér brottvísun af landinu líkt og nú vofir yfir hinni ellefu ára gömlu Haniye Maleki sem stjórnvöld hafa ákveðið að vísa úr landi á næstu dögum. Isabel Alejandra Diaz frá Ísafirði veit allt um hlutskipti barna sem íslensk stjórnvöld vilja burt, en frá því hún kom til Íslands frá El Savador fyrir 17 árum og allt fram til allra síðustu ára fékk hún reglulega hótanir um að henni yrði vísað burt. Alejandra lýsir þeirri reynslu sinni í grein í Stundinni í dag.

„Í fyrstu fékk ég tilkynningu um að mér yrði vísað úr landi á 30 daga fresti. Þessir 30 dagar urðu síðar að 6 mánaða fresti, sem  gaf okkur meiri tíma til undirbúnings en var í sjálfu sér ekkert skárra. Sex mánuðirnir urðu svo „loksins“ að einu ári. Fyrir mig sem barn voru þetta ekki bréf, þetta voru hótanir. Samfélagið á Ísafirði gerði mér þessi ár bærileg, auk minnar trúar og trausts á Guði, en ég komst aldrei undan óttanum. Sársaukinn sem ég fann var rosalegur og hann verður ávallt hluti af mér, en sú upplifun hefur mótað mig sem manneskju og mína sýn á heiminn,“ skrifar Alejandra og bætir við:

„Það fór mikill tími og orka í að halda baráttunni áfram; tala nú ekki um fjármunina sem bókstaflega glötuðust. Ég náði aldrei að skilja hvers vegna yfirvöld sýndu mér ekki skilning. Hvernig gerðu þau sér ekki grein fyrir þeim áhrifum sem þetta hefur á barn og sálarlíf þess? Er ég leit í kringum mig sá ég vini mína, nágranna mína, bæjarbúa og fleira fólk sem ég jafnvel þekkti ekki sýna mér skilning og líka kærleik. Ég áttaði mig þar af leiðandi ekki á hvers vegna fólkið sem hafði öll völdin gerði ekki hið sama – þau voru nú mennsk eins og ég og allir hinir.“

smari@bb.is

Nýjustu fréttir