Óhapp varð þegar verktaki við varnargarða undir Gleiðarhjalla gerði gat á vatnsleiðslu við Hjallaveg með þeim afleiðingum að vatnstruflanir eða vatnsleysi er nú í Hnífsdal, Tunguskógi og víðar. Óljóst er hversu langan tíma viðgerðin tekur, en vatnsleysið gæti hæglega varað fram á kvöld.
Hin árlega Bryggjuhátíð á Drangsnesi er haldin á laugardaginn og hefst með dorgveiði í Kokkálsvík. Dagskráin er með hefðbundnu sniði með sjávarréttasmakki, markaði, kórsöng, tertuhlaðborði, hestaleigu, hæfileikakeppni, afhjúpun listaverks, kvöldskemmtun, varðeldi og brekkusöng. Hæst ber þó væntanlega vináttulandsleikur í fótbolta milli Drangsnes og Hólmavíkur en tíðindamaður bb.is hefur fregnað að gríðarlegur spenningur sé fyrir leiknum.
Nú er dagskráin á Mýrarboltanum farin að taka á sig mynd og ljóst að Helgi Björns og hljómsveit hans SSSól, Ögurballsbandið og Emmsjé Gauti muni sjá um að tónlistina og fjörið á dansleikjum helgarinnar. Mótið hefur nú verið flutt til Bolungarvíkur þar sem hinn óþreytandi stuðbolti Benni Sig stendur í stafni og ber þar með hinn eftirsótta titil „Drullusokkur Mýrarboltans 2017“.
Mótið verður haldið á þremur völlum sem eru við tjaldstæðið í Bolungarvík sem svo heppilega vill til að er í nálægð við sundlaugina, það verða því hæg heimatökin fyrir þreytta og mishreina iðkendur að skola af sér.
Mýrarboltinn er haldinn um Verslunarmannahelgina og er skráning hafin en nánari upplýsingar um mótið má fá á facebooksíðu þess.
Hið árlega og landsfræga Ögurball fer fram næstkomandi laugardag og að sögn þeirra Ögursystkina gengur undirbúningur vel og vonast er eftir góðri mætingu. Rabarbarinn í grautinn verður skorinn næstu daga og nóg verður til fyrir alla en hefð er fyrir því að bjóða rabarbaragraut með rjóma áður en fólk fer til síns heima eftir dansleik.
Mikil hefð var fyrir þessu fornfræga balli í fyrri tíð en þá gerðu nærsveitungar sér ferð í Ögur, oftast á hestbaki eða fóru sjóleiðina og dönsuðu fram á rauða nótt í samkomuhúsinu en ,,dansiballamenningin“ er í það minnsta jafn gömul húsinu sem byggt var árið 1926. Dansleikir lágu niðri niðrum um árabil en mörgum til mikillar gleði var hefðin endurvakin og fyrir vikið er Ögurballið einn vinsælasti viðburður sumarsins.
Öll vinna við undirbúning er unnin í sjálfboðavinnu og ágóðinn rennur til viðhalds, reksturs og uppbyggingar samkomuhússins í Ögri sem er gamalt ungmannafélagshús, byggt 1926.
Andlit Ögurballsins þetta árið er vestfirðingurinn María Rut Kristinsdóttir enda er rabarbaragrautur hennar uppáhald og það eru Þórunn og Halli sem ætla að halda uppi fjörinu.
Sunnan 5-10 og smáskúrir en snýst í austan 8-15 með rigningu þegar líður á morgundaginn. Hiti 8 til 13 stig segir veðurstofan um veðrið á Vestfjörðum í dag.
Búist er við stormi við suðvesturströndina og á hálendinu upp úr hádegi með hvössum vindhviðum við fjöll, sem geta verið varasöm farartækjum sem taka á sig mikinn vind. Einnig verður talsverðri rigningu suðvestanlands og mikilli rigningu á Suðausturlandi og undir Eyjafjöllum síðdegis og í nótt með tilheyrandi vatnavöxtum í ám.
Þema dagsins þetta ár er nútímahlutverk íslenska fjárhundsins. Enn gegnir íslenski fjárhundurinn sínu hlutverki sem sveitahundur en hann hefur sannarlega fengið verkefni í viðbót. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá skipuleggjendum dagsins og þar eru verkefni nútíma hundsins talin upp.
Íslenski fjárhundurinn er Rauða kross-hundur sem fer í heimsóknir á hjúkrunarheimili, hann er einnig lestrarhundur og hlustar á börn lesa fyrir sig – bæði í grunnskóla þar sem sömu börnin lesa fyrir hundinn í margar vikur sem og á Borgarbókasafninu í Grófinni. Eins er íslenski fjárhundurinn stoð og stytta margra aldraðra sem öðlast betri heilsu með því að ganga úti með sinn góða vin. En fyrst og fremst er íslenski fjárhundurinn einstakur félagi og hluti af sinni fjölskyldu.
Íslenski fjárhundurinn er heiðraður með dagskrá víða um land og á Ísafirði munu fulltrúar þessa merka hundakyns og eigendur að hittast við Ísafjarðarkirkju kl. 14:00 og ganga niður á torg.
Fyrsti leikur Íslands fer fram í dag á Koning Willem II stadion í Tilburg. Þar mun íslenska liðið mæta Frakklandi, en franska liðið eru talið einna líklegast til að landa Evrópumeistaratitlinum. Leikurinn hefst kl. 18:45 og er sýndur beint á RÚV.
Í riðlinum eru Frakkland, Sviss og Austurríki auk Íslands. Næst leikur Ísland við Sviss þann 22. júlí og hefst sá leikur klukkar 14:00. Við Austurríki keppir liðið þann 26. júlí kl. 18:45 en 8-liða úrslitin hefjast 29. júlí.
Hlaupahátíð á Vestfjörðum var nú haldin í níunda sinn en hún hófst á föstudag með sjósundi en þar var keppt í 500 og 1500 m sundi. Keppendur voru 29 talsins og voru sigurvegarar þau Margrét J Magnúsdóttir í 1500 m og Jakob Daníelsson og Ingibjörg Kristjánsdóttir í 500 m. Hátíðin hélt svo áfram um kvöldið þegar Arnarneshlaupið hófst með 21,1 km hlaupi og svo 10 km hlaupi. Þar voru 111 kempur sem skiluðu sér í mark og voru sigurvegarar í 21,1 km hlaupinu Rúnar Sigurðsson og Ingibjörg Kristjánsdóttir. Í 10 km hlaupinu voru það þau Ólafur Austmann Þorbjörnsson og Sonja Sif Jóhannsdóttir sem stóðu uppi sem sigurvegarar.
Rjómablíða var á föstudaginn og skapaðist mikil og góð stemning á Silfurtorginu þegar keppendur komu í markið.
Hátíðin hélt svo áfram á laugardaginn en hún hófst á 55 km Vesturgötuhjólreiðum en þá hjóla keppendur frá Þingeyri, upp Kirkjubólsdal, yfir Álftamýrarheiði , út Arnarfjörð og inn Dýrafjörð að Þingeyri aftur. Keppnin í ár var einnig Íslandsmeistaramót í maraþonfjallahjólreiðum og voru það 137 keppendur sem lögðu af stað í þessa þrekraun.
Það var mikill endasprettur hjá körlunum sem endaði á því að Ingvar Ómarsson stóð uppi sem sigurvegari eftir harða keppni við Hafstein Ægir Geirsson. Sigurvegari í kvennaflokki var svo Hrönn Ólína Jörundsdóttir.
Á meðan að hjólreiðakeppnin var þá var skemmtidagskrá á Þingeyri fyrir fjölskylduna. Þar voru 8 km skemmtihjólreiðar og 2 og 4 km skemmtiskokk. Reynt var að sníða að yngri kynslóðinni og fengu allir glaðning þegar komið var í mark. Einnig var boðið upp á hópjóga sem var haldið í íþróttahúsinu á Þingeyri og var mikil þátttaka þar. Vöfflur voru bakaðar og eitthvað fyrir alla meðan beðið var eftir fulorðna fólkinu í hjólreiðunum.
Sunnudagurinn hófst svo með Vesturgötuhlaupi en keppendur í 45 km hlaupinu voru ræstir klukkan 8 frá Þingeyri. Þeir hlaupu svo sömu leið og hjólreiðamennirnir fóru á laugardeginum nema að markið var á Sveinseyri. Sigurvegarar voru Gunnar Atli Fríðuson og Sigrún Sigurðardóttir en Sigrún setti nýtt brautarmet hjá konum. 24 km hlaupið hófst kl 11 en það hlaup hefst í Stapadal. Þar voru sigurvegarar Valur Þór Kristjánsson og Ingveldur Hafdís Karlsdóttir. Sigurvegarar í 10 km hlaupinu voru þau Pétur Tryggvi Pétursson og Kristrún Guðnadóttir.
Veðrið í Vesturgötuhlaupinu var vægast sagt ekki spennandi, mikið rok og grenjandi rigning en keppendur létu það ekki á sig fá. Flestir voru drullugir upp fyrir haus og rennandi blautir. Einhverjir hefðu viljað vera með sundgleraugu en allir ánægðir að komast í mark og hlýja sér. Kaffi og kleinur og allskyns góðgæti biðu keppenda í markinu og gátu allir hlýjað sér í heitum rútum og tjaldi. Alger metþátttaka var í Vesturgötunni en alls kláruðu 211 hlauparar.
Hátíðin hefur reynt að halda henni vestfirskri og eru nánast öll verðlaunin héðan af svæðinu. Það voru kayakferðir frá Borea, Siglingar með Vesturferðum, föt frá Craftsport, gisting á Hótel Ísafirði, vettlingar og ullarpeysur frá Þingeyri, salt úr Reykjanesi, súkkulaði úr Súðavík, vestfirskar bækur, harðfiskur, mjólkurvörur frá Örnu í Bolungarvík og matur á Tjöruhúsinu. Einnig er fjöldinn allur af útdráttarvinningum frá fyrirtækjum hér í bænum og eru aðstandendur hátíðarinnar mjög þakklát fyrir þennan stuðning því annars væri ekki mögulegt að halda hátíð sem þessa. Samtals voru þátttakendur um 600 og margir tóku þátt í fleiri en einni grein.
Um helgina fór einnig fram þríþraut en þar syntu keppendur 500 m, hjóluðu 55 km og hlupu svo á sunnudeginum 24 km. Sigurvegarar þar voru þau Katrín Pálsdóttir og Stefán Guðmundsson
Fleiri myndir má skoða á facebooksíðu hátíðarinnar en það voru þeir Ágúst Atlason og Ásgeir Helgi Þrastarson sem mynduðu keppendur.
Á heimasíðu Reykhólahrepps kemur fram að umfangsmiklu viðhaldi á Grettislaug á Reykhólum er nú lokið og laugin opnaði aftur á föstudaginn var. Til stóð að bíða með viðhald laugarinnar fram á haust en þegar leki kom á þrýstikút í tækjarými hennar var ekki við ráðið og nú er búið að bæta þrýstikútinn sem lak og skipta út fjörgömlum mótorlokum sem stjórna hitastigi. Starfsmenn laugarinnar luku skyldubundnu skyndihjálparnámskeiði og sundprófi,
Laugin hefur nú verið hreinsuð og máluð og tilbúin til notkunar fyrir heimamenn og gesti.
Í október í fyrra samþykkti alþingi í þingsályktun að setja á stofn nefnd til undirbúnings aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands 2018. Nefndin hefur hún hafið störf og leitar eftir þátttöku almennings í hátíðardagskránni. Lögð er áhersla á samstarfsverkefni og verkefni með nýstárlega nálgun á viðfangsefnið segir í fréttatilkynningu frá nefndinni. Þar kemur sömuleiðis fram að auglýst verði eftir verkefnum í lok ágúst og þar eru eftirfarandi línur lagðar:
Minnast aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands og/eða hafa skírskotun til þess þáttar í sögu þjóðarinnar.
Fjalla um og/eða byggja á fullveldishugtakinu, hvort heldur er í fortíð, nútíð eða framtíð.
Hvetja til samstarfs.
Samstarf getur verið þvert á greinar, milli landsvæða, aldurshópa, þjóðfélagshópa, landa, ólíkra stofnana og félagasamtaka.
Höfða til barna og ungs fólks og eru til þess fallin að auka þekkingu og innsýn þeirra í söguna, samfélagið og fullveldishugtakið.
Höfða til fjölbreytts hóps fólks og hvetja til almennrar þátttöku.
Draga fram áhugaverða samlíkingu milli fortíðar og nútíðar í sögu lands og þjóðar, s.s. í menntun, heilbrigðismálum, náttúru, umhverfismálum, vísindum, stjórnmálum, atvinnuþróun, samgöngum og í daglegu lífi fólks.
Hafa nýstárlega nálgun á þjóðararfinn og/eða á viðfangsefnið.
Eru til þess fallin að vekja athygli á sérstöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.