Miðvikudagur 15. janúar 2025
Síða 2153

Virkjanaskrímsli, strandaður sægreifi eða galdrakind

Í fjörunni við gömlu bryggjuna á Eyri við Ingólfsfjörð liggur nú hræ af kynlegri skepnu sem ekki er auðvelt að þekkja. Þetta kemur fram á vefnum Litla Hjalla í gær. Það voru systurnar Sigríður og Dísa Gunnarsdóttir sem fundu hræið og tóku myndir. Leitað er eftir upplýsingum um hvaða skepna þetta gæti verið.

Virkir í athugasemdum hafa komið með ansi frumlegar hugmyndir, þetta gæti verið strandaður sægreifi sem ekki tekst að bjarga nema sjávarútvegsráðherra bakki inn í Sjálfstæðisflokkinn segir Jón Atli Játvarðsson. Öllu skelfilegri er hugmynd Barkar Hrólfssonar, hann telur þetta vera galdrakind af Ströndum, bíða þurfi eftir fullu tungli og stökkva þá á hræið saltvatni sem blessað hefur verið af þremur biskupum af þremur kynslóðum. Þarnæst skal fara með eftirfarandi þulu ­„Galdrakind, galdrakind, steypist þú á þrítugfalt dýpi, og komir þú aldrei aftur. Í nafni heilags Jóakims af Þumbríu. Amen, amen, amen“ Og á meðan farið er yfir þuluna skal signa sig í fjórar höfuðáttir. Brynjólfur Sigurgrímsson telur þetta vera virkjanaskrímsli sem gengur á land miðsumars þar sem á að virkja fallvötn og er segir þetta vera viðsjárverðan grip.

bryndis@bb.is

Skilamat snjóflóðavarna í Bolungarvík

Frá vígslu varnargarðanna

Svokölluðu skilamati vegna byggingar snjóflóðavarna í Bolungarvík hefur verið skilað og er nú aðgengilegt á heimasíðu Bolungarvíkurkaupstaðar. Í samantekt matsins kemur fram að þrátt fyrir ýmis áföll við byggingu snjóflóðavarnargarðanna hafi byggingarkostnaður verið undir áætlun. Upphafleg áætlun hljóðaði upp á 1.075,6 mkr en raunkostnaður hafi verið 1.071,0 mkr á sama verðlagi.

Framkvæmdir hófust í lok júní 2008 og lauk í ágúst 2012 en formleg vígsla fór ekki fram fyrr en í september 2014. Í september 2009 hrundi hluti af netgrindum í garðinum og tafði það verkið talsvert og í kjölfarið var hönnun styrkingarkerfisins endurskoðuð af framleiðanda og íslenskum hönnuðum.

Samanburður á kostnaði

Í lokaorðum skilamatsins segir: „Lokaniðurstaða framkvæmdarinnar gefur þó fullnægjandi varnir fyrir alla íbúðarbyggð í Bolungarvíkurkaupstað. Frágangur og útlit hefur tekist vel. Uppgræðsla var framkvæmd jöfnum höndum og hefur tekist vel. Gæði verksins af hálfu verktaka eru mjög góð.“

Um skilamat:

Í 16. grein laga nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda er ákvæði um gerð skilamats. Þar segir: „Að lokinni verklegri framkvæmd og úttekt skal fara fram skilamat. Í matinu skal gerð grein fyrir því hvernig framkvæmd hefur tekist miðað við áætlun. Enn fremur skal þar gerður samanburður við hliðstæðar framkvæmdir sem þegar hafa verið metnar.” Þá er í sömu grein kveðið á um að Framkvæmdasýsla ríkisins skuli setja nánari reglur um fyrirkomulag skilamats.

Í 7. grein reglugerðar nr. 715/2001 um skipulag opinberra framkvæmda segir að Framkvæmdasýsla ríkisins sjái um gerð skilamats og setji reglur um fyrirkomulag þess sem fjármálaráðherra staðfestir.

Þann 21. september 2001 gaf Framkvæmdasýsla ríkisins út reglur um fyrirkomulag skilamats, staðfestar af fjármálaráðherra, og er þetta skilamat unni eftir þeim reglum.

bryndis@bb.is

Ljósmyndasýning á Galdrasafninu

Hólmavík.

Síðastliðinn föstudag opnaði Giný en hún er frönsk myndlistarkona sem notar ljósmyndir sem skapandi ferli, ljósmyndasýningu í Gallery Galdri á Galdrasafninu í Hólmavík.

Sýningin ber yfirskriftina Hide Your Fires og verður uppi í tvo mánuði, frá 15. júlí til 15. september 2017. Verkið er gert úr myndum, röð sjónarhorna á lífræn form, endurkast ljóss, sem aðeins er að finna á Íslandi. Himinn, landslag, gluggar, steinar og vatn blandast við flutning flöktandi andrúmslofts á mörkum draums og raunveruleika.

Bryndís@bb.is

Aðgerðalítið veður

Hér á hjaranum segja fræðingar að verði hægviðri og úrkomulítið, norðaustan 5-8 m/s og dálítil rigning á morgun. Hiti 8 – 15 stig.

Suðaustanlands má hins vegar búast við vindi yfir 15 m/s og mikilli rigningu.

Tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma á vegum ríkisins og BSRB

Lögreglan á Vestfjörðum er ein fjögurra stofnana sem taka þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma sem hleypt var af stokkunum í maí. Það eru fjórar stofnanir sem taka þátt og fyrir utan hinn vestfirska vörð laganna er það Útlendingastofnun, Þjóðskrá og Ríkisskattstjóri sem freista þess að ná sama árangri í afköstum en með styttri viðveru starfsmanna. Lögreglan á Vestfjörðum er eina stofnunin utan höfuðborgarsvæðisins og eina stofnunin í vaktavinnu.

Fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra undirrituðu yfirlýsingu í október 2015 um vilja stjórnvalda til að stytta vinnutíma án launaskerðingar og ná fram gagnkvæmum ávinningi starfsfólks og stofnana. Markmið var að kanna hvort stytting vinnuviku úr 40 vinnustundum niður í 36 stundir leiði til gagnkvæms ávinnings starfsmanna og viðkomandi stofnana. Sérstaklega skyldi skoða hvernig útfæra megi styttingu vinnutíma hjá ólíkum tegundum stofnana, þar á meðal á stofnunum þar sem unnin er vaktavinna.

Skipaður var starfshópur um verkefnið þar sem þátttakendur koma frá velferðarráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu og BSRB, starfsmaður verkefnisins er Ása Guðbjörg Ásgeirsdóttir.

Í nóvember var svo auglýst eftir þátttakendum og formlega hófst verkefnið þann 1. maí 2017 og stendur yfir í eitt ár. Karl Ingi Vilbergsson lögreglustjóri segir að verkefnið fari vel af stað en það muni koma betur í ljós þegar líða tekur á hvort verkefnið gangi upp og verði til bóta.

bryndis@bb.is

Áhættumat vegna erfðablöndunar laxa

Niðurstaða Hafrannsóknastofnunar um að ekki ætti að leyfa laxeldi í Ísafjarðardjúpi hefur valdið talsverðum titringi enda mikið í húfi. Hafrannsóknastofnun var falið að meta hvort og þá hve mikil hætta væri á erfðablöndun milli eldislaxa og villtra laxa og niðurstaða matsins er sú að það sé hætta á erfðablöndun, en þó aðallega í ám næst fiskeldi. Í skýrslu stofnunarinnar stendur orðrétt:

„Líkanið gerir almennt ráð fyrir litlum áhrifum á náttúrulega stofna fyrir utan nokkrar ár. Nokkur áhrif verða á Laugardalsá, Hvannadalsá/Langadalsá í Ísafjarðardjúpi en Breiðdalsá í Breiðdalsvík er sú á sem virðist í mestri hættu. Þessar fjórar ár þarf að vakta sérstaklega. Af þessum ástæðum og í ljósi núverandi þekkingar er lagt til að ekki verði leyft eldi í Ísafjarðardjúpi vegna mögulegra mikilla neikvæðra áhrifa á laxastofna í Djúpinu. Af sömu ástæðum er lagt til að eldi verði ekki aukið í Berufirði og lagst gegn eldi í Stöðvarfirði vegna nálægðar við Breiðdalsá. Niðurstöður matsins eru því að ásættanlegt sé að leyfa allt að 71.000 tonna framleiðslu af frjóum eldislaxi hér við land. Þar af 50.000 tonn á Vestfjörðum og 21.000 tonn á Austfjörðum. Hér er um að ræða um sjöfalda núverandi ársframleiðslu í íslensku laxeldi sem nú er um 10.000 tonn. Helsta ástæðan fyrir þessari niðurstöðu er sú að eldissvæðin eru í mikilli fjarlægð frá helstu laxveiðiám og laxeldi er bannað á mjög stórumhluta strandlengjunnar. Í Noregi og Skotlandi eru eldissvæðin hins vegar í mjög mikilli nálægð viðhelstu laxveiðiár og því verða blöndunaráhrifin mun meiri í þessum löndum. Áhættumatslíkanið er fyrst og fremst hugsað sem gagnvirkt verkfæri til þess að meta mögulegt umfang erfðablöndunar áhlutlægan hátt.“

Þær ár sem um er að ræða í Ísafjarðardjúpi eru Laugardalsá með að meðaltali 286 laxa á land á árunum 2010-2014 og Hvannadalsá/Langadalsá með að meðaltali 439 laxa á land á árunum 2010-2014.

Niðurstaða Hafrannsóknarstofnunar bendir til að ekki sé líklegt að fiskeldi geti valdið erfðablöndun svo neinum nemi í einhverri fjarlægð frá eldiskvíum.

bryndis@bb.is

Veiðigjöld innheimtist við skipshlið

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna ákvörðunar sjávarútvegsráðherra um veiðigjöld. SFÚ telur að ákvörðunin sé ekki til þess fallin að auka framboð af fiski inn á fiskmarkaði en það hefur verið baráttumál samtakana. Samtökin telja að aðgerðir ráðherra fram til þess hafi beinst að því að styrkja sérstaklega stórútgerðina, til dæmis með því að heimila að flytja 30% veiðiheimilda milli kvótaára.

SFÚ telur það slæma tilhögun að miða fjárhæð veiðigjalda við afkomu fyrirtækja og fráleita útfærslu á þeirri slæmu tilhögun að miða við afkomu tveimur árum fyrir gjaldtöku. Ókostir þessa koma berlega í ljós nú, þegar viðskipta- og rekstrarumhverfi í sjávarútvegi er allt annað og óhagstæðara en var fyrir tveimur árum.

Sem fyrr segir telur SFÚ að alvarlegir annmarkar séu á því að ákvarða veiðigjöld eftir afkomu fyrirtækja í sjávarútvegi. Eðlilegra er að taka mið af afkomu eins og hún er á gjaldtökuári og markaðstengja hana. Einfaldasta leiðin til slíkrar gjaldtöku er að innheimta sérstakt gjald í ríkissjóð við skipshlið, þegar afli er seldur. Slíkt gjald mætti hugsa sem eins konar söluskatt.

Til að efla fiskmarkaði og tryggja nægilegt framboð af fiski inn á markaði væri eðlilegt að veita afslátt af þessum söluskatti þegar fiskur er seldur á fiskmarkaði. Fiskmarkaðir myndu annast innheimtu á gjaldinu af þeim afla sem þar er seldur í gegn en aðilar sem selja sjálfum sér aflann skulu sjálfir standa skil á greiðslu gjaldsins í ríkissjóð t.d. um leið og þeir gera upp við sjómenn.

bryndis@bb.is

Núpur í Dýrafirði til sölu

Ríkiskaup hafa nú auglýsti til sölu eignir héraðsskólans á Núpi í Dýrafirði. Um er að ræða gamla skólann, 1.419 fm,  sem er að hluta á þremur hæðum og í honum eru skólastofur, heimavist, kennaraíbúðir, matsalur, eldhús, sundlaug og íþróttahús. Heimavistarhúsin, 2.437 fm, eru líka til sölu en þar eru þrjár íbúðir og 36 herbergi, kennslustofur, matsalur, eldhús og þvottahús. Skólastjórahúsið og heimavist, 733 fm, sem byggð voru árunum 1954 – 1956 eru líka til sölu.

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að nefnd sem Katrín Jakobsdóttir þáverandi mennta- og menningarráðherra skipaði fyrir um sjö árum síðan og átti að fjalla um hlutverk og framtíð skólabygginganna á Núpi hafi aldrei skilað neinni niðurstöðu. Ennfremur að engin skilyrði séu sett af hendi ríkisins um hverskonar starfsemi skuli vera í byggingunum.

Skilafrestur tilboða er til 1. september.

bryndis@bb.is

Endurskoðað hættumat fyrir Bíldudal

Bíldudalur. Mynd úr safni. Ljósmyndari Mats Wibe Lund.

Veðurstofan hefur endurskoðað ofanflóðamat fyrir Bíldudal eftir byggingu varnargarðs undir Búðargili og verður endurskoðað hættumat til kynningar á skrifstofu tæknideildar Vesturbyggðar frá kl. 10:00 – 15:00 fimmtudaginn 20. júlí.

Í skýrslu Veðurstofunnar kemur fram að garðurinn undir Búðargili hafi dregið mikið úr ofanflóðahættu og telst verja 58 eignir gegn ofanflóðum, af þeim voru 33 eignanna á hættusvæði C samkvæmt fyrra mati. Kaupa þurfti upp nokkur hús sem garðurinn ver ekki og er nýtingu þeirra takmörk sett. Garðurinn beinir flóðum úr Búðargildi eftir afmörkuðum farvegi til sjávar og þar má ætla að garðurinn valdi tíðari flóðum.

Einnig er til kynningar hættumat fyrir svæðið frá Stóruskriðu, nokkru innan þéttbýlisins á Bíldudal, og út fyrir byggðina að Banahlein. Á svæðinu sunnan þéttbýlisins sem viðbótarhættumatið nær til er hætta á snjóflóðum og skriðuföllum, þ.m.t. grjóthruni næst hlíðinni,ekki síst neðan Hólsgils. Afmörkuð eru hættusvæði A, B og C meðfram endilöngu fjallinu. Þrjár byggingar sunnan þéttbýlisins eru á hættusvæði B.

Í lokaorðum hættumatsins kemur fram að ofanflóðahættumat hér á landi miðast við áhættu einstaklinga, aðrar afleiðingar ofanflóða eins til dæmis eignatjón hefur ekki áhrif á hættumatið né takmarka nýtingu svæði þar sem ofanflóð eru hugsanleg.

bryndis@bb.is

Hreinsa fjörur Tálknafjarðar

Á ruv.is er í morgun fjallað um hreinstunarátak í Tálknafirði en plastagnir frá rekstri seiðaeldisstöðvar Artic Fish í botni fjarðarins virðast hafa dreifst um fjörðinn og skolast svo á land. Haft er eftir Sigurður Péturssyni framkvæmdastjóra Arctic Fish að agnirnar séu notaðar í lífhreinsa stöðvarinnar en ekki hafi verið gert ráð fyrir að hið vestfirska veður gæti hrifsað þær og  dreift um svæðið. Sigurður segir að búið sé að breyta vinnulagi til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig.

Að sögn Sigurðar hefur atvikið verið tilkynnt til Umhverfisstofnunar. Fyrirhuguð hreinsun er í samstarfi við Umhverfisstofnun og unglingavinnu Tálknafjarðarhrepps.

bryndis@bb.is

 

Nýjustu fréttir