„Eitt af mínum bestu mörkum“ er haft eftir ísfirðingnum Matthíasi Vilhjálmssyni í norskum miðlum eftir glæsilegt mark með liði sínu Rosenberg á móti Dundalk í gær. Matthías byrjaði á bekknum en skipt inn á í lok leiksins og skallaði þetta líka glæsilega mark í framlengingu og tryggði liði sínu sigur.
Unglingalandsmót á Egilstöðum
Unglingalandsmót UMFÍ fer fram á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Hægt er að taka þátt í 23 mismunandi greinum auk þess sem hægt verður að prófa fjöldann allan af íþróttagreinum og annarri afþreyingu.
Unglingalandsmót UMFÍ hafa verið haldin árlega, á mismunandi stöðum, um verslunarmannahelgar frá árinu 1995. Mótin hafa vaxið og sannað gildi sitt sem glæsilegar fjölskyldu- og íþróttahátíðir þar sem saman koma þúsundir barna og unglinga ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá. Ekki er nauðsynlegt að vera félagi í íþróttafélagi.
Unglingalandsmót UMFÍ er vímuefnalaus fjölskylduhátíð þar sem börn og unglingar á aldrinum 11 – 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
bryndis@bb.is
Hvorki tímabundin né löt
Katrín Björk sem vestfirðingar kusu Vestfirðing ársins 2016 heldur úti öflugu bloggi þar sem hún lýsir þessu krefjandi verkefni sem lagt hefur verið fyrir hana. Katrín er 24 ára gömul og sýnir með afbrigðum mikið baráttuþrek við að ná sér eftir tvær heilablæðingar og einn blóðtappa. Katrínu tjáir sig opið og einlægt um hvert framfaraskref sem eru í stóra samhenginu orðin að hverju langstökkinu á fætur öðru.
Í bloggi dagsins upplýsir hún um hvernig hún hefur farið að því að tjá sig en vöðvarnir misstu allan kraft við áföllin en eins og hún segir í blogginu sínu „ég er svo heppin að við öll þrjú heilaáföllin þá blæddi bara á vöðvastjórnunina en mér til mikillar mildi slapp málstöðin í öll þrjú skiptin.“ Katrín getur þess vegna bæði lesið og stafað og getur því tjáð sig. Hún fer tvisvar í viku í talþjálfun og þar eru stöðugar framfarir. Þangað til hún nær tökum á því að tala mun hún nota stafaspjaldið sitt sem hefur frá því hún veiktist verið hennar samskiptatæki.
bryndis@bb.is
Málþing um sögu Flateyjar 22. Júlí
Laugardaginn 22. júlí verður haldið málþing á Frystihúsloftinu í Flatey undir yfirskriftinni „Flatey – Horft um Öxl“. Á málþinginu munu níu fornleifa- og sagnfræðingar flytja erindi. Fyrirlestrarnir hefjast kl. 9:00 og standa til kl. 16:30, með hádegis- og kaffihléum. Að loknum fyrirlestrum verða pallborðsumræður og er áætlað að þeim ljúki kl. 17:30. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.
Sunnudaginn 23. júlí er svo stefnt á vettvangskönnun um Flatey frá 9:00-12:00 þar sem kíkt verður á gamlar mannvistaleifar.
Nánar má fræðast um málþingið á heimasíðu Framfarafélags Flateyjar.
bryndis@bb.is
Okkar eigin stelpur
Það er ekki bara landsliðið okkar sem spókar sig á knattspyrnuvellinum því um helgina voru stelpurnar okkar í Vestra í 7. fl, 6.fl og 5.fl á fullu á Símamótinu í Kópavogi.
Þetta er ómissandi mót fyrir stelpurnar og vilja þær sem hafa farið áður alls ekki missa af þessu. 5.fl og 6.fl gistu saman í Smáraskóla en 7.fl var á vegum foreldra.
Símamótið er eitt stærsta knattspyrnumót á Íslandi og er alveg frábært mót og vel skipulagt í alla staði. Margar stelpur hjá okkur voru að fara á sitt fyrsta mót bæði í 7.fl og í 6.fl og fengu þær mikla reynslu út þessu móti. Stelpurnar stóðu sig alveg frábærlega og uxu með hverju leik. 5.fl stelpurnar unnu 5 leiki af 8 og gerðu eitt jafntefli og voru mjög óheppnar að komast ekki í úrslitaleik. 6.flokkur fór með 2 lið og komst annað liðið í undanúrslit í sinni keppni. Í 7.flokki voru stelpurnar að fara á sitt fyrsta mót og voru hikandi í fyrstu leikjunum en uxu alveg gríðarlega og fögnuðu góðum sigrum.
Helgin var alveg frábær í alla staði og stóðu stelpurnar, fararstjórnar og foreldrar sig frábærlega í samstilltri og vel skipulagðri ferð. Þetta kemur fram á heimasíðu Vestra.
Stjórnvaldssekt frekar en farbann
Drög að lagafrumvarpi um breytingar á lögum um siglingar er nú til umsagnar hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Í drögunum er lagt til að bætt verði við ákvæði um stjórnvaldssektir vegna brota á lögunum.
Í lögunum er fyrst og fremst gert ráð fyrir því að brot gegn þeim séu kærð til lögreglu til rannsóknar. Aðeins er að finna eina tegund stjórnsýsluviðurlaga sem er farbann, sem eðli málsins samkvæmt kann að vera mjög þungbært úrræði. Beiting stjórnvaldssekta er almennt skilvirkara úrræði en að bera mál undir dómstóla af hálfu ákæruvaldsins. Eftirlitsstjórnvöld eru oft í lykilaðstöðu til að meta hvar þurfi að bregðast við á skilvirkan hátt til þess að halda uppi lögum.
Málsmeðferð er almennt kostnaðarminni þegar stjórnvöld leggja á stjórnsýsluviðurlög heldur en þegar dómstólar dæma menn eða lögaðila til refsingar. Kostnaður hins brotlega, t.d. vegna aðstoðar lögmanna, er oftast einnig minni þegar um stjórnsýsluviðurlög er að ræða. Þá tekur almennt mun skemmri tíma að rannsaka og koma fram stjórnsýsluviðurlögum en refsingu.
Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um drögin og skulu þau berast á netfangið postur@sm.is fyrir 4. ágúst.
Úr drögunum:
Á eftir 34. gr. laganna kemur ný grein, 34. gr. a., svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:
Stjórnvaldssektir
Samgöngustofa getur lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn:
- mgr. 1. gr., um leyfi til farþegaflutninga í atvinnuskyni,
- gr., um smíði, búnað, mengunarvarnir skipa o.fl.,
- gr., um aðbúnað og vinnuskilyrði,
- gr., um nýsmíði skipa,
- gr., um breytingar á skipi,
- gr., um ábyrgð skipstjóra, o.fl.,
- og 6. mgr. 12. gr., um framkvæmd skoðunar skipa,
- gr., um hafnarríkiseftirlit,
- gr., um haffæri skips,
- mgr. 18. gr., um skemmdir á skipi, eða
- gr., um upplýsingaskyldu.
Stjórnvaldsektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100.000 kr. til 500.000 kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500.000 kr. til 2.000.000 kr.
bryndis@bb.is
Úr ferðakofforti og kommóðuskúffu
Út er komin hjá Vestfirska forlaginu önnur bókin úr sögu Flateyrar við Önundarfjörð.
Flateyri varð til sem þorp á síðari hluta 19. aldar. Eins og önnur þorp við sjávarsíðuna allt í kringum landið voru fiskveiðar og vinnsla aflans sá atvinnugrunnur sem gerði búsetu á mölinni eftirsóknarverða. Í þessu verki er grundvöllurinn fréttaefni úr sendibréfum sem rituð voru á Flateyri um aldamótin 1900 og eru þau hluti tveggja bréfasafna sem hafa nú um 100 ára skeið legið þar í ferðakofforti og kommóðuskúffu. Í verkinu kennir ýmissa grasa úr sögu þorpsins sem mörgum mun þykja forvitnilegt að skoða. Hér er fjallað um mannlíf og menningu á Flateyri. Einnig um lækningar, hjúkrun og þróun heilbrigðisþjónustu í byggðarlögum vestra. Þetta er önnur bókin af þremur væntanlegum. Bækurnar fást í bókaverslunum um land allt. Þriðja bókin kemur væntanlega út í haust.
Það er Jóhanna Guðrún Kristjánsdóttir sem tók saman en Freydís Kristjánsdóttir teiknaði.
bryndis@bb.is
Virkjanaskrímsli, strandaður sægreifi eða galdrakind
Í fjörunni við gömlu bryggjuna á Eyri við Ingólfsfjörð liggur nú hræ af kynlegri skepnu sem ekki er auðvelt að þekkja. Þetta kemur fram á vefnum Litla Hjalla í gær. Það voru systurnar Sigríður og Dísa Gunnarsdóttir sem fundu hræið og tóku myndir. Leitað er eftir upplýsingum um hvaða skepna þetta gæti verið.
Virkir í athugasemdum hafa komið með ansi frumlegar hugmyndir, þetta gæti verið strandaður sægreifi sem ekki tekst að bjarga nema sjávarútvegsráðherra bakki inn í Sjálfstæðisflokkinn segir Jón Atli Játvarðsson. Öllu skelfilegri er hugmynd Barkar Hrólfssonar, hann telur þetta vera galdrakind af Ströndum, bíða þurfi eftir fullu tungli og stökkva þá á hræið saltvatni sem blessað hefur verið af þremur biskupum af þremur kynslóðum. Þarnæst skal fara með eftirfarandi þulu „Galdrakind, galdrakind, steypist þú á þrítugfalt dýpi, og komir þú aldrei aftur. Í nafni heilags Jóakims af Þumbríu. Amen, amen, amen“ Og á meðan farið er yfir þuluna skal signa sig í fjórar höfuðáttir. Brynjólfur Sigurgrímsson telur þetta vera virkjanaskrímsli sem gengur á land miðsumars þar sem á að virkja fallvötn og er segir þetta vera viðsjárverðan grip.
bryndis@bb.is
Skilamat snjóflóðavarna í Bolungarvík
Svokölluðu skilamati vegna byggingar snjóflóðavarna í Bolungarvík hefur verið skilað og er nú aðgengilegt á heimasíðu Bolungarvíkurkaupstaðar. Í samantekt matsins kemur fram að þrátt fyrir ýmis áföll við byggingu snjóflóðavarnargarðanna hafi byggingarkostnaður verið undir áætlun. Upphafleg áætlun hljóðaði upp á 1.075,6 mkr en raunkostnaður hafi verið 1.071,0 mkr á sama verðlagi.
Framkvæmdir hófust í lok júní 2008 og lauk í ágúst 2012 en formleg vígsla fór ekki fram fyrr en í september 2014. Í september 2009 hrundi hluti af netgrindum í garðinum og tafði það verkið talsvert og í kjölfarið var hönnun styrkingarkerfisins endurskoðuð af framleiðanda og íslenskum hönnuðum.
Í lokaorðum skilamatsins segir: „Lokaniðurstaða framkvæmdarinnar gefur þó fullnægjandi varnir fyrir alla íbúðarbyggð í Bolungarvíkurkaupstað. Frágangur og útlit hefur tekist vel. Uppgræðsla var framkvæmd jöfnum höndum og hefur tekist vel. Gæði verksins af hálfu verktaka eru mjög góð.“
Um skilamat:
Í 16. grein laga nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda er ákvæði um gerð skilamats. Þar segir: „Að lokinni verklegri framkvæmd og úttekt skal fara fram skilamat. Í matinu skal gerð grein fyrir því hvernig framkvæmd hefur tekist miðað við áætlun. Enn fremur skal þar gerður samanburður við hliðstæðar framkvæmdir sem þegar hafa verið metnar.” Þá er í sömu grein kveðið á um að Framkvæmdasýsla ríkisins skuli setja nánari reglur um fyrirkomulag skilamats.
Í 7. grein reglugerðar nr. 715/2001 um skipulag opinberra framkvæmda segir að Framkvæmdasýsla ríkisins sjái um gerð skilamats og setji reglur um fyrirkomulag þess sem fjármálaráðherra staðfestir.
Þann 21. september 2001 gaf Framkvæmdasýsla ríkisins út reglur um fyrirkomulag skilamats, staðfestar af fjármálaráðherra, og er þetta skilamat unni eftir þeim reglum.
bryndis@bb.is
Ljósmyndasýning á Galdrasafninu
Síðastliðinn föstudag opnaði Giný en hún er frönsk myndlistarkona sem notar ljósmyndir sem skapandi ferli, ljósmyndasýningu í Gallery Galdri á Galdrasafninu í Hólmavík.
Sýningin ber yfirskriftina Hide Your Fires og verður uppi í tvo mánuði, frá 15. júlí til 15. september 2017. Verkið er gert úr myndum, röð sjónarhorna á lífræn form, endurkast ljóss, sem aðeins er að finna á Íslandi. Himinn, landslag, gluggar, steinar og vatn blandast við flutning flöktandi andrúmslofts á mörkum draums og raunveruleika.
Bryndís@bb.is