Síða 2152

,,Ég svaraði og sýndi þeim rauða mynd“

Ein mynda á sýningunni.

Myndlistarkonan Ingibjörg Magnadóttir opnar sýninguna ,,Ég svaraði og sýndi þeim rauða mynd“ í Gallerí Úthverfu á Ísafirði á morgun. Ingibjörg Magnadóttir býr og starfar í Reykjavík. Hún útskrifaðist úr fjöltæknideild Listaháskóla Íslands árið 2000 og var einnig við nám í Kaupmannahöfn 1999. Hún lagði stund á sviðslistanám í Fredriksstað í Noregi 2001-2 og útskrifaðist með MA í ritlist frá Háskóla Íslands 2015. Hún hefur komið víða við og tekið þátt í fjölmörgum listsýningum og listviðburðum hér heima og erlendis undanfarin ár. Sýningaropnunin verður á morgun kl. 16 og stendur sýningin til 22. október.

Ingibjörg hefur þetta að segja um sýninguna og listina:

„Myndlistin virkar bæði á sjónrænan og tilfinningalegan hátt og þegar best lætur er hún áreynslulaus. Hægt er að ímynda sér að verkin komi til listamannsins án erfiðis og það sé einmitt áreynsluleysið sem geri sum verk aðgengileg, aðlaðandi, nánast andleg. Rólegt yfirbragð þeirra getur minnt á hugsleiðslu, þau geta verið ljóðræ og ákaflega innileg. Stundum er myndlist í hinu minnsta og ómerkilega en tekst samt að miðla undrum veraldar. Myndlist getur verið hlutur eða ,,object‘‘ sem á sér enga fyrirmynd og hefur þar af leiðandi aldrei verið til í þessum heimi í því formi sem hann birtist.

Myndlistin fæst við tilkomumikil eða ,,sensational‘‘ áhrif sem skapast við samsetningu efna. Margir listamenn geta ekki séð eiginleika verksins fyrirfram. Stundum ekki fyrr en mörgum árum síðar þegar þeir nálgast verkin sem áhorfandi.

Það er engu líkara en að ég sé hafi farið einhvern hring. Ég, líkt og flestir sem fara í gegnum myndlistarnám, lærði ég til margra ára teikningu, lita- og formfræði áður en ég byrjaði í Listaháskólanum. En þegar þangað var komið kynntist ég nýjum miðlum og braut ég upp flest það sem ég hafði lært. Ég sleppti samt aldrei takinu á teikningunni en notaði hana meira í formi skissu við gerð annarra verka.

Ég hef notið þess ósegjanlega að vinna myndirnar þó er þetta ögrandi áskorun fyrir mig og er þetta í fyrsta skipti sem ég sýni einkasýningu með svona stórum myndverkum. Þar sem þær eru stórar vann ég þær standandi. Mér finnst það skipta máli þar sem allur líkaminn var á hreyfingu við gerð þeirra, ekki bara hægri höndin.

Myndirnar eru að vissu leyti hefðbundnar í forminu. Eitt verk er til að mynda uppstilling af blómum í vasa. Hin verkin eru andlit, þær eru komnar inn í þennan heim úr heimi sem var ekki hér.“

Vilja 10 milljónir í hönnun skíðasvæðisins

Skíðasvæðið í Tungudal.

Íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðaræjar hefur óskað eftir því við bæjarstjórn að gengið verði til samninga við bandaríska fyrirtækið SE Group um hönnun og endurskipulagningu á skíðasvæði Ísafjarðarbæjar. Fyrirtækið ráðgerir að kostnaður við hönnunina nemi 100 þúsund bandarikjadölum, sem á gengi dagsins í dag eru 10,6 milljónir kr. Íslensk skíðasvæði eru fyrirtækinu ekki ókunnug, en SE Group hefur meðal annars unnið í Hlíðarfjalli á Akureyri.

Hugsunin bak við endurskipulagninug skíðasvæðisins er að horfa til næstu 20 ára hið minnsta, og framkæmdir myndu dreifast yfir langt tímabil.

Fjölmenni við hátíðarsprengingu Dýrafjarðarganga

Í dýrðarinnar koppalogni var hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga sprengd, að viðstöddu fjölmenni og við mikinn fögnuð. Það var Jón Gunnarsson samgönguráðherra sem „ýtti á takkann“ og í kjölfarið glumdi lófatak viðstaddra. Fyrir sprenginguna flutti samgönguráðherra, Hreinn Halldórsson forstjóri Vegagerðarinnar og Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar ávörp.

Það eru Metrostav og Suðurverk sem sjá um verkið undir eftirliti Geotek ehf og Eflu hf.

Lengd ganga í bergi eru 5,6 km með vegskálum og fer gólf í göngunum mest í 90 m.y.s og í þeim verða 10 útskot, þar af fjögur snúningsútskot. Byggja þarf nýjar brýr á Mjólká og Hófsá og lagðir verða háspennukaplar.

bryndis@bb.is

Tekur allri gagnrýni alvarlega

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

„Vöxtur fiskeldis lofar góðu. Málefni þess munu koma til kasta þingsins í vetur. Ef við höldum vel á spilum verður það atvinnugrein sem mun skapa mikil verðmæti fyrir samfélagið okkar og styrkja líka byggðir í landinu.“ Þetta sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra í gær í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra.

Hún talaði um áhættumat Hafrannsóknastofnunar en útkoma úr því er að loka fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi, niðurstaða sem hefur sætt mikilli gagnrýni heima í héraði.  Ráðherra lagði áherslu á að áhættumatið er breytilegt plagg og sagði vera grunnur sem eigi að byggja á til lengri tíma litið. „Það fer í alþjóðlega rýni nú í byrjun október. Auðvitað á að taka alla gagnrýni alvarlega, fara vel yfir hana, að sjálfsögðu. Ég vil benda landsmönnum á að í næstu viku munum við í sjávarútvegsráðuneytinu standa fyrir morgunverðarfundi einmitt um áhættumat Hafró,“ sagði Þorgerður Katrín.

Þórður fer í undankeppni EM

Þórður Gunnar Hafþórsson

Þórður Gunnar Hafþórsson, leikmaður meistaraflokks Vestra í knattspyrnu, hefur verið valinn til þátttöku í undankeppni Evrópumeistaramóts U-17 landsliða. Þórður Gunnar byrjaði að leika með landsliðinu í sumar þegar hann tók þátt í Norðurlandamóti sem fór fram á Íslandi í sumar.

Undankeppnin fer fram í Finnlandi dagana 25. september til 4. október og liðið keppir við Finnland, Færeyjar og Rússland um sæti á EM U-17 sem verður haldið á Englandi á næsta ári.

smari@bb.is

Ökumenn vari sig á búfé

Enn berast lögreglunni á Vestfjörðum tilkynningar um að ekið hafi verið á búfé. Lögreglan segir ástæðu til að vara ökumenn við fé sem virðist vera að færa sig til byggða og m.a. þar sem vegir liggja.

Alls voru 8 ökumenn kærðir í síðustu viku fyrir að aka yfir hámarkshraðaí umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum. Sá sem hraðast ók var mældur á 124 km hraða. En það var í Dýrafirði, á vegarkafla þar sem hámarkshraði er 90 km.

Tilkynnt var um tvö umferðaróhöpp í vikunni. Meiðsli á vegfarendum urðu smávægileg og tjón á ökutækjum óverulegt.

Lögreglan vill minna ökumenn á að huga að ljósabúnaði bifreiða þeirra sem þeir aka.

smari@bb.is

Ferðaþjónustan gagnrýnir fjárlögin

Starf­semi tengd farþega­flutn­ing­um og ferðaskrif­stof­um var ekki virðis­auka­skatt­skyld fyrr en í árs­byrj­un 2016 og skekkir það samanburð milli ára.

Þegar rýnt er í fjárlagafrumvarpið kemur skýrt fram að stjórnvöld hafa mikla trú á ferðaþjónustunni – þegar kemur að tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Þegar, hins vegar, horft er til uppbyggingar innviða gagnvart ferðaþjónustunni í fjárlögunum er ekki hægt að draga þær ályktanir að stjórnvöld hafi raunverulega trú á greininni. Þetta kemur fram í ályktun stjórnar Samtaka ferðaþjónustunnar. Þar segir að á undanförnum árum hafi ferðaþjónustan staðið að baki hagsælt á Íslandi og bætt lífskjör. Á það er bent að blikur eru á lofti í ferðaþjónustu og mikilvægt að hafa í huga að það er ekki sjálfgefið að erlendir ferðamenn leggi leið sína til Íslands og skapi verðmæti í því samkeppnisumhverfi sem ferðaþjónusta hér á landi býr við.

Í ályktuninni er bent á auknar álögur á ferðaþjónustuna sem stjórnin telur að verði fimm milljarðar á næsta ári. Munar þar mest um hækkun vörugjalda á bílaleigubíla og einnig um gistináttaskatturinn hækka.

Þá er boðað að ferðaþjónusta fari upp í hæsta virðisaukaskattþrep árið 2019 sem gæti þýtt 18 milljarða aukalega í ríkiskassann.

Í ályktuninni er gagnrýnt að í fjárlögunum er gert ráð fyrir lítilli uppbyggingu innviða og sérstaklega er gagnrýnt að framkvæmdir í vegakerfinu dragast saman um 100 milljónir kr. milli ára. „Brýnt er að stórauka fjármuni til að viðhalda og endurnýja vegakerfið sem er á mörgum stöðum að grotna niður. Gott, greiðfært og hagkvæmt samgöngukerfi kemur öllum til góða. Fyrir ferðaþjónustuna er vegakerfið lífæð greinarinnar og grundvöllur þess að dreifa ferðamönnum um landið,“ segir í ályktuninni.

smari@bb.is

Heimstónlistarsmiðja

Á föstudag og laugardag býðst áhugasömum að taka þátt í heimstónlistarsmiðju í Tónlistarskóla Ísafjarðar. Von er á meistaranemum í skapandi tónlistarmiðlun við Listaháskóla Íslands en þeir heimsækja skólann og taka þátt í að leiða smiðju fyrir kennara. Þeir munu jafnframt bjóða upp á opnar smiðjur fyrir nemendur og kennara og alla þá sem vilja taka þátt. Það er Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir sem stýrir námskeiðinu en hún er menntuð við heimstónlistardeildina við Tónlistarskólann í Rotterdam.

Allir eru hjartanlega velkomnir í opnu smiðjurnar sem munu fara fram í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar föstudaginn 15. september kl. 15:00 -17:30 og laugardaginn 16. september frá kl. 10:00-13:00. Kennarar, nemendur, foreldrar og allir þeir sem hafa áhuga á skapandi starfi eru hvattir til þess að mæta og búa til tónlist í skapandi andrúmslofti. Það er Jóngunnar Biering Margeirsson, kennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar, sem heldur utan um heimsókn meistaranemanna og smiðjurnar, ásamt Sigrúnu Kristbjörgu, en hann kenndi við LHÍ um nokkurt skeið.

bryndis@bb.is

Vill eitt sveitarfélag á Vestfjörðum

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, vill sjá færri og stærri sveitarfélög. Jafnvel að heilu landshlutarnir myndi eitt sveitarfélag. Þetta kom fram í ræðu Benedikts í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í gær. Hann vakti athygli á því að sveitarfélögin eru meira en 70 talsins og sum ekki nema með tugi íbúa. „En þau hafa sömu skyldur og höfuðborgin með sína 125 þúsund manns. Við hljótum að sjá að miklu stærri heldir verða að vera að veruleika. Ég sé fyrir mér Austurland, Vestfirði og Suðurnes verði hvert um sig sterk sveitarfélög þar sem horft verði á hagsmuni alla íbúa við stjórnun,“ sagði Benedikt.

Hann kom einnig inn á auðlindagjöld í sjávarútvegi líkt og Viðreisn sér og hvernig þau gæti nýst stærri sveitarfélögum betur.

„Viðreisn talaði fyrir því að auðlindagjald í sjávarútvegi rynni til þeirra svæða þar sem sjávarauðlindin er nýtt. Með stærri heildum geta sveitarfélögin með þessu móti stýrt fjármunum til uppbyggingar á sinni heimaslóð.“

smari@bb.is

Réttað í Melarétt

Réttir verður í Melarétt í Árneshreppi á laugardag en smalamennskan hefst á morgun með fyrri leitardegi á Ófeigsfjarðarsvæðinu. Bændur í Árneshreppi byrjuðu í síðstu viku að smala sín heimalönd, bæði upp til fjalla og inn í dagli, og á fréttavefnum Litla hjalla segir að smalamennskan hafi gefnið misjafnlega og oft verið þokuloft, súld og lágskýjað. Fé sem er búið að vikta á fæti hefur verið sæmilegt og nokkuð skárra en bændur reiknuðu með, en kuldinn í lok maí og fram í júní hafði slæm áhrif á lambfé.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir