Síða 2152

Ferðaþjónustan gagnrýnir fjárlögin

Starf­semi tengd farþega­flutn­ing­um og ferðaskrif­stof­um var ekki virðis­auka­skatt­skyld fyrr en í árs­byrj­un 2016 og skekkir það samanburð milli ára.

Þegar rýnt er í fjárlagafrumvarpið kemur skýrt fram að stjórnvöld hafa mikla trú á ferðaþjónustunni – þegar kemur að tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Þegar, hins vegar, horft er til uppbyggingar innviða gagnvart ferðaþjónustunni í fjárlögunum er ekki hægt að draga þær ályktanir að stjórnvöld hafi raunverulega trú á greininni. Þetta kemur fram í ályktun stjórnar Samtaka ferðaþjónustunnar. Þar segir að á undanförnum árum hafi ferðaþjónustan staðið að baki hagsælt á Íslandi og bætt lífskjör. Á það er bent að blikur eru á lofti í ferðaþjónustu og mikilvægt að hafa í huga að það er ekki sjálfgefið að erlendir ferðamenn leggi leið sína til Íslands og skapi verðmæti í því samkeppnisumhverfi sem ferðaþjónusta hér á landi býr við.

Í ályktuninni er bent á auknar álögur á ferðaþjónustuna sem stjórnin telur að verði fimm milljarðar á næsta ári. Munar þar mest um hækkun vörugjalda á bílaleigubíla og einnig um gistináttaskatturinn hækka.

Þá er boðað að ferðaþjónusta fari upp í hæsta virðisaukaskattþrep árið 2019 sem gæti þýtt 18 milljarða aukalega í ríkiskassann.

Í ályktuninni er gagnrýnt að í fjárlögunum er gert ráð fyrir lítilli uppbyggingu innviða og sérstaklega er gagnrýnt að framkvæmdir í vegakerfinu dragast saman um 100 milljónir kr. milli ára. „Brýnt er að stórauka fjármuni til að viðhalda og endurnýja vegakerfið sem er á mörgum stöðum að grotna niður. Gott, greiðfært og hagkvæmt samgöngukerfi kemur öllum til góða. Fyrir ferðaþjónustuna er vegakerfið lífæð greinarinnar og grundvöllur þess að dreifa ferðamönnum um landið,“ segir í ályktuninni.

smari@bb.is

Heimstónlistarsmiðja

Á föstudag og laugardag býðst áhugasömum að taka þátt í heimstónlistarsmiðju í Tónlistarskóla Ísafjarðar. Von er á meistaranemum í skapandi tónlistarmiðlun við Listaháskóla Íslands en þeir heimsækja skólann og taka þátt í að leiða smiðju fyrir kennara. Þeir munu jafnframt bjóða upp á opnar smiðjur fyrir nemendur og kennara og alla þá sem vilja taka þátt. Það er Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir sem stýrir námskeiðinu en hún er menntuð við heimstónlistardeildina við Tónlistarskólann í Rotterdam.

Allir eru hjartanlega velkomnir í opnu smiðjurnar sem munu fara fram í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar föstudaginn 15. september kl. 15:00 -17:30 og laugardaginn 16. september frá kl. 10:00-13:00. Kennarar, nemendur, foreldrar og allir þeir sem hafa áhuga á skapandi starfi eru hvattir til þess að mæta og búa til tónlist í skapandi andrúmslofti. Það er Jóngunnar Biering Margeirsson, kennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar, sem heldur utan um heimsókn meistaranemanna og smiðjurnar, ásamt Sigrúnu Kristbjörgu, en hann kenndi við LHÍ um nokkurt skeið.

bryndis@bb.is

Vill eitt sveitarfélag á Vestfjörðum

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, vill sjá færri og stærri sveitarfélög. Jafnvel að heilu landshlutarnir myndi eitt sveitarfélag. Þetta kom fram í ræðu Benedikts í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í gær. Hann vakti athygli á því að sveitarfélögin eru meira en 70 talsins og sum ekki nema með tugi íbúa. „En þau hafa sömu skyldur og höfuðborgin með sína 125 þúsund manns. Við hljótum að sjá að miklu stærri heldir verða að vera að veruleika. Ég sé fyrir mér Austurland, Vestfirði og Suðurnes verði hvert um sig sterk sveitarfélög þar sem horft verði á hagsmuni alla íbúa við stjórnun,“ sagði Benedikt.

Hann kom einnig inn á auðlindagjöld í sjávarútvegi líkt og Viðreisn sér og hvernig þau gæti nýst stærri sveitarfélögum betur.

„Viðreisn talaði fyrir því að auðlindagjald í sjávarútvegi rynni til þeirra svæða þar sem sjávarauðlindin er nýtt. Með stærri heildum geta sveitarfélögin með þessu móti stýrt fjármunum til uppbyggingar á sinni heimaslóð.“

smari@bb.is

Réttað í Melarétt

Réttir verður í Melarétt í Árneshreppi á laugardag en smalamennskan hefst á morgun með fyrri leitardegi á Ófeigsfjarðarsvæðinu. Bændur í Árneshreppi byrjuðu í síðstu viku að smala sín heimalönd, bæði upp til fjalla og inn í dagli, og á fréttavefnum Litla hjalla segir að smalamennskan hafi gefnið misjafnlega og oft verið þokuloft, súld og lágskýjað. Fé sem er búið að vikta á fæti hefur verið sæmilegt og nokkuð skárra en bændur reiknuðu með, en kuldinn í lok maí og fram í júní hafði slæm áhrif á lambfé.

smari@bb.is

„Stórauknir skattar á búsetu fólks“

Bjarni Jónsson

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins boðar stórfellda skattheimtu á fjarlægðir frá höfuðborginni eða næsta stórþéttbýli. Samgöngur og flutningskostnaður ráða miklu um samkeppnishæfni búsetu fólks og atvinnureksturs í landinu. Ísland er strjálbýlt land með miklum vegalengdum. Fjarlægðir á milli fólks er eini reginmunurinn á dreifbýli og þéttbýli. Stórhækkun skatta á olíur, bensín og hækkun þungaskatts bitnar beint á því fólki sem þarf að sækja lengst þjónustu, hvort heldur heilsugæslu, menntun, aðföng til heimils eða atvinnureksturs. Þetta eru því beinir fjarlægðaskattar á íbúa landsins. Á sama tíma leggja stjórnvöld af eða skerða margvíslega opinbera þjónustu útum hinar dreifðu byggðir. Má þar nefna heilbrigðisþjónustuna sem íbúar á landsbyggðinni þurfa í æ ríkara mæli að sækja til Reykjavíkur með ærinni fyrirhöfn og kostnaði. Hér ber því allt af sama brunni stjórnvöld eru með beinum hætti að skerða lífskjör á landsbyggðinni.

„Ríkisstjórnin með aukna landsbyggðarskatta“

Ríkisstjórnin hefur nú boðað stóraukna skatta á eldsneyti. Bensínlítrinn hækkar um 8 krónur og díselolíu um 18 krónur til viðbótar þeirri skattlagningu sem fyrir er. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu munu tekjur ríkissjóðs af bílasköttum hækka um 10% á milli ára eða sjö milljarða. Þrátt fyrir að margir þessir skattar séu eyrnamerktir til samgöngubóta hyggst ríkisstjórnin hafa það að engu og gerir aðeins ráð fyrir 3% hækkun á framlögum til samgöngumála, en sá málaflokkur hefur verið fjársveltur um árabil. Á sama tíma hefur verið boðað að stærri samgönguverkefni verði fjármögnuð með vegatollum í stað framlaga, sem er ný skattheimta.

„Bæði dýrara og lengra að sækja grunnþjónustu“

Ef stjórnvöld fá sínu framgengt, eru framundan verulegar nýjar álögur á almenning á landsbyggðinni sem þarf að sækja sér grunnþjónustu um æ lengri veg hvort sem það ferðast sjálft á bíl eða nýtir sér flug eða aðrar almenningssamgöngur þar sem slíkt er í boði. Sama má segja um fyrirtæki sem starfa á landsbyggðinni. Enn verður aukið á vanda sauðfjárbænda sem til viðbótar við lægra afurðaverð munu borga meira fyrir olíuna sem þarf til framleiðslunnar. Með hækkuninni munu stjórnvöld ná meiru af bændum en þau hyggjast verja til að koma til móts við lækkað afurðaverð og alvarlegan vanda í sauðfjárrækt. Þótt vissulega beri að gera sem mest til að draga úr olíunotkun og þeirri mengun sem af henni hlýst verður að horfa til þessa hvar þær aðgerðir komi harðast niður og hvort þær ná sanngjörnum markmiðum sínum. Fólk á landsbyggðinni mun eftir sem áður þurfa að sækja flesta sína þjónustu og aðdrætti um langan veg. Fjarlægðarskattar sem ríkið leggur á búsetu fólks getur auðveldlega snúist upp í beinar umhverfislegar andstæður sínar þegar á heildina er litið.

„Skattlagning fjarlægða hamlar nýsköpun og atvinnuuppbyggingu“

Talið er að hver íbúi á landsbyggðinni eyði að jafnaði yfir 40% meira í rekstur ökutækis síns en íbúi höfuðborgarsvæðisins, sem þýðir 40% meiri skatt til ríkisins. Afleiðingarnar eru tvennskonar. Í fyrsta lagi verður fólk á landsbyggðinni að spara við sig í öðru til að geta greitt þessa auknu skatta. Í öðru lagi rýrnar samkeppnisstaða landsbyggðarfyrirtækja vegna hás flutningskostnaðar og margvíslegur rekstur verður óhagkvæmur úti á landi. Ofan á þetta skattleggur ríkið einnig fjarlægðir með 24 % virðisaukaskatti sem er með því hæsta sem þekkist í veröldinni. Sú stefna að skattleggja fjarlægðir hamlar nýsköpun og kemur í veg fyrir uppbyggingu iðnaðar og þjónustu úti á landi. Afleiðingarnar eru einhæfara atvinnulíf, því landsbyggðin á fáa aðra kosti en leggja áherslu á frumvinnslugreinar vegna nálægðar við hráefnið.

„Byggðajafnrétti verði tryggt með mótvægisaðgerðum“

Íslenskt skattkerfi hvetur til byggðaröskunar og mismunar þeim sem búa á landsbyggðinni. Til að sporna við fólksflutningum þaðan er þörf á skattkerfisbreytingum sem leiðrétta þessa mismunun og tryggja jafnrétti óháð búsetu. Nýir skattar sem svo sérstaklega er beint gegn íbúum og búsetu á landsbyggðinni taka engu tali nema til komi beinar mótvægisaðgerðir sem tryggja um leið byggðajafnrétti.

Bjarni Jónsson Höfundur er varaþingmaður VG í NV kjördæmi

Segir fjármálaráðherra refsa dreifbýlinu

Að mati Run­ólfs Ólafssonar, framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda, koma auknir eldsneytisskattar sem fjármálaráðherra boðar í nýju fjárlagafrumvarpi verst niður á þeim sem búa fjarri þjón­ustu, sumsé í dreif­býlinu. Runólfur segir í samtali við blaðamann mbl.is að í hinum dreifðu byggðum sé dísil­bíll­inn æski­legri út frá meng­un og um­hverf­is­sjón­ar­miði auk þess sem dísil­bíl­ar séu eyðslugrennri þegar ferðirn­ar eru lengri. „Það er verið að refsa þeim sem búa í dreif­býli,“ seg­ir hann um 21 krónu hækk­un á dísi­lol­íu. „Sér­stak­lega þeim sem þurfa að sækja grunnþjón­ustu um lang­an veg.“

Run­ólf­ur bend­ir í þessu sam­hengi á að nýir dísil­bíl­ar upp­fylli staðla (svo­kallaða Euro 6 staðla) sem dragi meðal ann­ars mjög úr los­un á sótögn­um. Þeir standi því nýj­um bens­ín­bíl­um í það minnsta jafn­fæt­is þegar kem­ur að meng­un, en mengi jafn­vel minna.

smari@bb.is

Bátar á svæði A með mestan afla

Meðalafli í róðri hef­ur aldrei verið meiri en á nýliðinni vertíð strand­veiða, en hann var 623 kg. Á síðasta ári var hann 614 kg og hef­ur því auk­ist um 1,5% á milli vertíða. Bátar á svæði A, sem nær frá Snæfellsnesi til Ísafjarðardjúps, voru að venju með mestan meðalafla í róðri, eða 667 kg. Næst komu bát­ar sem voru á svæði C með 650 kg, þá svæði B með 574 kg og svæði D rak loks lest­ina með 565 kg. Þetta kemur fram á vef Landssambands veiðifélaga.

smari@bb.is

Langþráð skref

Það er í dag sem hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga fer fram. Dagskráin við gangamunna Arnarfjarðarmegin hefst kl. 14:15 með Barbörathöfn en Barbara er verndardýrlingur námumanna hjá  kaþólikkum og jarðgangamenn teljast námumenn í þessu tilfelli.  Í Arnarfirði eru það Tékkar sem grafa og hafa þá venju að setja líkneski við gangamunna og helga líkneskið  í upphafi verks með sérstakri athöfn. Síðan verður boðið upp á kaffiveitingar og ávörp en sjálf sprengingin er áætluð kl. 16:00.

Til upplýsingar má nefna að gert er ráð fyrir að bílum sé lagt á þjóðveginn fyrir neðan munnasvæðið og verð settar upp sérstakar vegmerkingar vegna þess.

Það var árið 1996, þann 14. september sem haldin var formleg vígsluathöfn í Vestfjarðargöngum svo það er vel við hæfi að hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga falli á sama dag.

Dagskráin.

14:15        Barböruathöfn við stafn ganga

14:45        Kaffiveitingar í skemmu verktaka á verkstað

Ávörp: Ráðherra, vegamálastjóra, fulltrúar verktaka og sveitarstjórnar

16:00       Hátíðarsprenging – áætluð

Dagskrá í skemmu verktaka heldur áfram og ræðuhöldum lýkur

17:00      Formlegri dagskrá líkur.

bryndis@bb.is

Ekki fyrirséð hvert orkan fer

Ós Hvalár í Ófeigsfirði.

 Ekkert er til í sögusögnum um að orka úr fyrirhugaðri Hvalárvirkjun fari til stóriðjunnar á suðvesturhorninu. Þetta segir Gunnar G. Magnússon, framkvæmdastjóri VesturVerks ehf. Í grein sem birtist á bb.is í dag segir Gunnar að VesturVerk hafi ekki gert neina orkusölusamninga og hann tekur fram að HS Orka, sem er stærsti eigandi VesturVerks, hafi ekki gert neina samninga um sölu á orku úr Hvalárvirkjun.

Ekki er fyrirséð hvert raforka frá Hvalárvirkjun verður seld, skrifar Gunnar , en segir þó ljóst að virkjunin auki umtalsvert möguleika á að byggja upp atvinnustarfsemi á Vestfjörðum. „Á dæmigerðum sumardegi eru flutt inn frá megin flutningskerfi landsins 15-20MW og á köldum vetrardegi geta þetta orðið allt að 40MW. Í dag eru flutt inn allt að 160GWh/ári til Vestfjarða frá megin flutningskerfi landsins og er það sem svarar til helmings af framleiðslugetu Hvalárvirkjunar.  Það má gera ráð fyrir að með áformum í laxeldi og uppbyggingu atvinnuvega tengdu laxeldi auk núverandi innflutning á orku fari öll orka Hvalárvirkjunar til Vestfjarða,“ segir í greininni.

Gunnar rekur það sem allir Vestfirðingar þekkja allt of vel, lítið raforkuöryggi. Vestfirðir eru í dag tengdir með einni línu frá Hrútatungu að Mjólkárvirkjun um 162 km leið en Mjólkárvirkjun annar aðeins um 35-40% af raforkuþörf Vestfirðinga.  Þessi langa tenging kemur niður á raforkuöryggi Vestfirðinga þar sem bilanir á henni eru tíðar á vetrum.

Hvalárvirkjun verður tengd með jarðstreng yfir Ófeigsfjarðarheiði að nýjum afhendingarstað í Ísafjarðardjúpi. Frá nýjum afhendingarstað í Ísafjarðardjúpi verður lögð lína eða strengur að Mjólkárlínu 1 í Kollafirði sem telst til meginflutningskerfisins í dag. Tengingin í Kollafirði er 40 km frá Mjólkárvirkjun. Gunnar segir að línan eða strengurinn muni liggja frá tengivirki í Ísafjarðardjúpi með ríkjandi vindátt að vetri til og verði því fyrir mun minni veðurfarslegum áhrifum í rekstri en línan úr Hrútatungu í Kollafjörð.

„Með virkjuninni mun framboð á hreinni endurnýjanlegri orku aukast en í dag er olíunotkun á Vestfjörðum mikil vegna ónógrar framleiðslu og flutningsgetu raforku á Vestfjörðum. Olía er notuð til raforkuframleiðslu og hitunar fjarvarmaveitna, þegar raforkuafhending bregst. Þegar allt díselafl til raforkuframleiðslu er í gangi á Vestfjörðum eru brenndar um 600 tunnur af díselolíu eða rúm 120 tonn á sólarhring, með tilheyrandi ónauðsynlegri mengun.  Árið 2015 voru brennd á fimmta hundrað tonn af olíu bara til hitunnar íbúðarhúsnæðis á Vestfjörðum.“

Gunnar vekur athygli á því að boðuð skattahækkun á olíu sé hækkun skatta á Vestfirðinga.

„Hækkunin þýðir kostnaðarauka vegna keyrslu varaafls og katla til hiturnar íbúðarhúsnæðis um tæpar 4 milljónir á sólarhring við fulla notkun. Olíuhækkunin er ekkert annað en búsetuskattur tilkomin vegna skorts á innviðum. Þann reikning munt þú greiða Vestfirðingur góður sem orkunotandi, á sama tíma og það er verið að vinna á móti nýtingu náttúruauðlinda Vestfjarða.“

 

 

Þingmenn, minnkið röflið

Þingeyrarakademían kemur til dyranna eins og hún er klædd.

Í tilefni af þingsetningu beinir Þingeyrarakademían því til þingmanna að þeir minnki „þetta endalausa röfl úr ræðustól þingsins daginn út og daginn inn.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá akademíunni. Fyrir þá sem ekki vita er Þingeyrarakademían stór hópur manna sem stundar morgunsund og heita pottinn á Þingeyri. Þar eru ýmiskonar innanlands- og heimsvandamál rædd og jafnvel leyst.

„Hættið að rífast en snúið ykkur með oddi og egg að þeim vandamálum sem þið eruð kosin til að leysa. Forgangsraðið fjárveitingum. Þeir sem nóg hafa þurfa ekki meira. Gerið meira en að hugsa til þeirra sem minna mega sín. Munið að þið eigið að móta stefnuna fyrir þjóðina. Ef hún er skynsamleg fylgir þjóðin ykkur. Annars fer hún út og suður,“ segir í tilkynningunni og þingmenn eru jafnframt hvattir til að taka lagið einstaka sinnum til að styrkja móralinn og akademían leggur til Öxar við ána og Fyrr var oft í koti kátt.

Arfleifð Jóns Sigurðssonar forseta er Þingeyrarakademíunni hjartkær og í tilkynningunni segir að forsetinn vestfirski fylgist með þingmönnum daglega.

„Ekki amalegt að hafa hann sem fyrirmynd. Hann var bæði kurteis, þinglegur og yfirvegaður við alla. Ekki síst Dani. Hann vann sleitulaust og lagði áherslu á að menn lærðu af sögunni. Mörg stórmenni veraldarsögunnar hafa hamrað á því að ekkert er nýtt undir sólinni!“

smari@bb.is

Nýjustu fréttir