Miðvikudagur 15. janúar 2025
Síða 2151

Fegrun bæjanna

Eitt af því sem gjarnan er útundan hjá bæjarfélögum er viðhald gangstétta og svo sannarlega er þörf á að lagfæra margar gangstéttir í byggðakjörnum Ísafjarðarbæjar. Hafnarstrætið á Ísafirði er engin undantekning í þeim efnum og þar þarf margt að laga. Verktaki hefur nú nýlokið við að leggja nýjar hellur frá horni Mánagötu að gamla Húsamiðjuhúsinu og árangurinn glæsilegur eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Smátt og smátt þarf svo að lagfæra allar gangstéttir, brotnar og illa farnar stéttir eru slysavaldar fyrir gangandi vegfarendur.

bryndis@bb.is

Ærslabelgur í Bolungarvík

Sólbjört Gunnarsdóttir var spennt fyrir þessu nýja dóti.

Bolvíkingar hafa nú fjárfest í því stórskemmtilega leikfangi sem ærslabelgur er. Vígsluhátíð belgsins var á þriðjudaginn var og þrátt fyrir hellirigningu mættu bæjarbúar vel á athöfnina og mikil gleði þegar fyrsti hópurinn var ræstur í hopp. Ærslabelgurinn er staðsettur neðst á Höfðastígnum hjá Tónlistarskólanum, stutt er að skreppa í sund í Musteri vatns og vellíðunar og til stendur að opna inn á leikvöllinn sem er við hliðina. Að sögn Jóns Páls Hreinssonar bæjarstjóra verða líka settir upp bekkir svo þreyttar fætur foreldra sem ekki endast eins lengi við hoppið geti hvílt lúin bein.

Hér má sjá facebook myndband sem Baldur Smári Einarsson tók þegar talið var í og glöggt má sjá gleðina. Sá hávaxni er þó allra glaðastur, jafnvel þrátt fyrir glæsilega magalendingu á blautum belgnum (ærslabelgnum).

 

Glæsileg dagskrá Act alone

Suðureyri þrifin á Act alone 2013. Mynd: Ágúst Atlason

Nú hefur Elfar Logi og hans samstarfsfólk birt dagskrá einleikjahátíðarinnar á Suðureyri Act alone. Sem fyrr er dagskráin fjölbreytt og skemmtileg og flestir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Það er Fjallkonan sem ríður vaðið fimmtudagskvöldið 10. ágúst en það er einleikur Heru Fjord sem gerir lífi langalangömmu sinnar Kristínar Dahlstedt skil en hún fæddist í Botni í Dýrafirði. Strax í kjölfarið stígur Gísli á Uppsölum á stokk en Elfar Logi hefur gert garðinn frægan víða um land á liðnu ári með þessum frábæra einleik. Kvöldinu lokar svo Eyrún Ósk Jónsdóttir með ljóðalestri á Sumarróló, viðburðinn kallar hún Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa.

Dýrðin hefst svo aftur á föstudegi kl. 19:30 með Hún pabbi sem Hannes Óli Ágústsson hefur samið og sett á svið um reynslu sína af því að eiga pabba sem breyttist skyndilega úr Ágústi Már í Önnu Margréti. Í kjölfar hennar pabba stígur ekki síðri kjarnakona á svið þar sem Þórunn Erna Clausen gerir Ferðasögu Guðríðar skil. Áfram eiga konur sviðið því kl. 22:30 flytur Ólöf Arnalds Einstaka tónleika. Það er svo Þorsteinn Guðmundsson sem ætlar kitla hláturtaugarnar fyrir svefninn með því að leika sjálfan sig.

Að venju hefst dagskrá Act alone á laugardeginum kl. 13:00 með dagskrá fyrir börnin er Íslenski fíllinn mætir með aðstoð sögumannsins Hildar M. Jónsdóttur. Þegar Íslenski fíllinn yfirgefur Suðureyri hefst götusprellið Basketball Jones en því er lýst svona í dagskrá: „sameinar freestyle körfubolta hæfileika, hefðbundnar sirkuslistir og gamanleik“. Áfram verður veisla fyrir yngri kynslóðina því Búkolla mætir upp úr klukkan 15:00 og það er Greta Clough sem túlkar hana í brúðugervi og jafnframt mun hún kenna brúðugerð. Klukkan 16:00 hefst svo sýning sem kallast Útvarps einleikir í heimahúsum þar er um að ræða þrjá einleiki: Ausa Steinberg, Djúpið og Kvöldstund með Ódó. Það er svo ekki minni maður en hann Ove sem stígur á stokk kl. 19:00 og það Sigurður Sigurjónsson sem ætlar að túlka þennan sérstaka ljúfling. Kristín Eiríksdóttir tekur við af Sigurjóni og flytur ljóð úr ljóðabókinni Kok. Eyjólfur Kristjánsson tekur í gítarinn kl. 22:30 en kvöldinu lokar una Björg Bjarnadóttir með Einstakri danssýningu.

Þetta er fjórtánda árið sem í röð sem Act alone er haldið á Suðureyri og rétt að taka fram að það er ókeypis á allar sýningar. Nálgast má allar upplýsingar um hátíðina á vefsíðu hennar.

Hér eru nokkrar myndir frá fyrri hátíðum.

bryndis@bb.is

 

Hægvirði og úrkomulítið

Pistill dagsins á vedur.is fyrir Vestfirði er hægviðri og úrkomulítið, en fer að rigna í kvöld. Styttir upp á morgun. Hiti 10 til 15 stig. En þeir sem vilja komast í alvöru sumarveður skulu leggja strax af stað norður, þar verður bongóblíða í dag og svo áfram austur og ná blíðviðrinu þar á morgun. Ef spár ganga eftir er stuttbuxnaveður á norðausturlandi um helgina.

bryndis@bb.is

Lokasóknin framundan

Nú líður að lokum landssöfnunarinnar Vinátta í verki, komnar eru um 40 milljónir í kassann og að sögn aðstandenda stendur söfnunin út næstu viku. Á vefsíðu söfnunarinnar er íslandskort þar sem sjá má hvaða sveitarfélög hafa lagt sitt að mörkum og nú er landið orðið fagurrautt. Örfá sveitarfélög hafa ekki svarað kallinu en hafa ennþá tækifæri til að bregðast við.

Landssöfnunin Vinátta í verki hófst mánudaginn 19. júní þegar fréttist af hamförunum á Grænlandi er flóðbylgja gekk yfir smáþorpið Naarsuuriaq. Fjórir fórust og mikið eignatjón var. Íslendingum rennum blóðið til skyldunnar því þegar yfir okkur hafa dunið náttúruhamfarir hafa grannar okkar brugðist vel við. Mörgum er í fersku minni þegar Jónathan Motzfeld sem þá var fulltrúi á grænlenska Landsþinginu afhenti rausnarlega peningagjöf í mars 1996 með þeirri ósk að þeir yrðu nýttir í þágu barna á Flateyri.

Enn má hringja í 907 2003 og leggja 2.500 í söfnunina eða leggja inn á reikning Hjálparstarfs kirkjunnar 0334-26-056200, knt. 450670-0499

bryndis@bb.is

Danimir Milkanovic hættir sem aðalþjálfari Vestra

Á heimasíðu Vestra kemur fram að Danimir leggi niður störf sem aðalþjálfari meistaraflokks Vestra í knattspyrnu. Árangur liðsins í sumar er undir væntingum og varð að samkomulagi að Danimir hætti.

Knattspyrnudeild Vestra þakkar Danimir fyrir sín störf, en Danimir hefur frá fyrsta degi lagt mikla vinnu í starf sitt.

Eftir sem áður verður Daniel Badu þjálfari liðsins, honum til halds og traust verða svo þeir Jón Hálfdán Pétursson og Pétur Georg Markan.

bryndis@bb.is

Matthías skorar á 98. mínútu

Matthías Vilhjálmsson. Mynd: Ole Martin Wold

„Eitt af mínum bestu mörkum“ er haft eftir ísfirðingnum Matthíasi Vilhjálmssyni í norskum miðlum eftir glæsilegt mark með liði sínu Rosenberg á móti Dundalk í gær. Matthías byrjaði á bekknum en skipt inn á í lok leiksins og skallaði þetta líka glæsilega mark í framlengingu og tryggði liði sínu sigur.

Unglingalandsmót á Egilstöðum

Unglingalandsmót UMFÍ fer fram á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Hægt er að taka þátt í 23 mismunandi greinum auk þess sem hægt verður að prófa fjöldann allan af íþróttagreinum og annarri afþreyingu.

Unglingalandsmót UMFÍ hafa verið haldin árlega, á mismunandi stöðum, um verslunarmannahelgar frá árinu 1995. Mótin hafa vaxið og sannað gildi sitt sem glæsilegar fjölskyldu- og íþróttahátíðir þar sem saman koma þúsundir barna og unglinga ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá. Ekki er nauðsynlegt að vera félagi í íþróttafélagi.

Unglingalandsmót UMFÍ er vímuefnalaus fjölskylduhátíð þar sem börn og unglingar á aldrinum 11 – 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

bryndis@bb.is

Hvorki tímabundin né löt

Katrín Björk sem vestfirðingar kusu Vestfirðing ársins 2016 heldur úti öflugu bloggi þar sem hún lýsir þessu krefjandi verkefni sem lagt hefur verið fyrir hana. Katrín er 24 ára gömul og sýnir með afbrigðum mikið baráttuþrek við að ná sér eftir tvær heilablæðingar og einn blóðtappa. Katrínu tjáir sig opið og einlægt um hvert framfaraskref sem eru í stóra samhenginu orðin að hverju langstökkinu á fætur öðru.

Í bloggi dagsins upplýsir hún um hvernig hún hefur farið að því að tjá sig en vöðvarnir misstu allan kraft við áföllin en eins og hún segir í blogginu sínu „ég er svo heppin að við öll þrjú heilaáföllin þá blæddi bara á vöðvastjórnunina en mér til mikillar mildi slapp málstöðin í öll þrjú skiptin.“ Katrín getur þess vegna bæði lesið og stafað og getur því tjáð sig. Hún fer tvisvar í viku í talþjálfun og þar eru stöðugar framfarir. Þangað til hún nær tökum á því að tala mun hún nota stafaspjaldið sitt sem hefur frá því hún veiktist verið hennar samskiptatæki.

bryndis@bb.is

Málþing um sögu Flateyjar 22. Júlí

Laugardaginn 22. júlí verður haldið málþing á Frystihúsloftinu í Flatey undir yfirskriftinni „Flatey – Horft um Öxl“. Á málþinginu munu níu fornleifa- og sagnfræðingar flytja erindi. Fyrirlestrarnir hefjast kl. 9:00 og standa til kl. 16:30, með hádegis- og kaffihléum. Að loknum fyrirlestrum verða pallborðsumræður og er áætlað að þeim ljúki kl. 17:30. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.

Sunnudaginn 23. júlí er svo stefnt á vettvangskönnun um Flatey frá 9:00-12:00 þar sem kíkt verður á gamlar mannvistaleifar.

Nánar má fræðast um málþingið á heimasíðu Framfarafélags Flateyjar.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir