Síða 2151

Hafa skal það sem sannara reynist

Pétur Húni Björnsson

Gunnar Gaukur Magnússon framkvæmdastjóri Vesturverks, dótturfélags HS Orku, skrifar grein í Bæjarins besta um Hvalárvirkjun og tyggur þar enn og aftur sömu tuggurnar sem sífellt er haldið fram um fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir í Ófeigsfirði og Eyvindarfirði en svarar í raun engum þeirra spurninga sem brýnast er að svara.

Nýtingarflokkur Rammaáætlunar er ekki virkjanaleyfi

Gunnar byrjar á að nefna að Hvalárvirkjun hafi verið í nýtingarflokki Rammaáætlunar um langt skeið. Rétt er að hún var sett í nýtingarflokk 2. áfanga Rammaáætlunar með þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 14. janúar 2013. Hún hefur semsagt verið í nýtingarflokki í rúm fjögur ár, og var í raun sett í nýtingarflokk þvert á matið sem verkefnastjórn 2. áfanga lagði fram, því virkjankosturinn er verulega óhagkvæmur vegna mjög hás tengikostnaðar.

Þetta hef ég þegar rakið í grein á vef Rjúkanda og Gunnar bætir þar engu við en ýjar að því að nýtingarflokkur rammaáætlunar sé endanlegt leyfi eða vottun.

Ekki HS Orku að selja raforkuna?

Gunnar talar um að framkvæmdaaðilinn sé Vesturverk og að það sé ekki HS Orku að selja raforkuna frá Hvalárvirkjun. Hann nefnir þó að Vesturverk sé dótturfyrirtæki HS Orku, og hver sem vill kynna sér það getur séð, t.d. á ársskýrslu HS Orku að Vesturverk er í 70% eigu HS Orku, og er ekki gert upp sjálfstætt heldur í samstæðureikningi HS Orku og HS Orka ræðir um alla virkjanakosti Vesturverks sem sína eigin. Reyndar er í ársreikningi HS Orku talað um „yfirtöku Vesturverks“, og segir það kannski sitt um sjálfstæði Vesturverks gagnvart HS Orku.

Ég held að enginn trúi því að HS Orka ætli að leggja í tugmilljarða uppbyggingu sem tekur þrjú og hálft ár án þess að vita hvert raforkan fer, eða ætli sér ekki að skipta sér af orkusölunni. Við megum í það minnsta ekki fá að vita hvert orkan á að fara.

Óbreytt raforkuöryggi og engin hringtenging

Gunnar ræðir um skort á afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum sem röksemd með Hvalárvirkjun. Hann tínir til tölfræði um truflanir frá Orkubúi Vestfjarða þar sem fram kemur að á síðasta ári urðu 225 truflanir á raforkukerfi Vestfjarða, þar af 150 fyrivaralausar truflanir, og að árið 2015 hafi truflanirnar verið 205 og þar af sjö truflanir sem stóðu yfir lengur en 72 klukkustundir.

Allt er þetta satt og rétt og til verulegs tjóns og óhagræðis fyrir Vestfirðinga. En vandinn við þessa röksemd er að Hvalárvirkjun tekur nánast ekki neitt á þessum vanda.

Gunnar segir að Hvalárvirkjun muni auka raforkuöryggi til muna þar sem hún muni geta mætt orkuþörf Vestfjarða þegar bilanir verða austan Kollafjarðar. Hversu margar af þessum 225 truflunum á síðasta ári urðu vegna bilana í línum frá Hrútatungu í Kollafjörð? Öllum sem kynna sér raforkukerfi Vestfjarða er augljóst að vandinn liggur ekki þar heldur í línum norðan Mjólkárvirkjunar, og það leysir engan vanda að hlaða meiri raforku á línuna sunnan hennar. Ef Hvalárvirkjun á að bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum þarf að tengja hana beint til Súðavíkur eða Ísafjarðar, en ekki við Mjólkárlínu í Kollafirði.

Gunnar talar einnig um að þegar hringtengingu Vestfjarða lýkur með línum frá nýjum afhendingarstað á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi verði hægt að flytja orku frá virkjuninni í báðar áttir, þ.e. um Kollafjörð eða út Ísafjarðardjúp. Eins og staðan er í dag liggja engin skýr áform fyrir um að ljúka hringtenginu raforkukerfis Vestfjarða með háspennulínu út Djúp. Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkur og formaður Fjórðungssambands Vestfjarða, hefur talað um í grein í Stundinni að forsendur hringtengingarinnar séu virkjun í Austurgili í Skjaldfannardal, Skúfnavatnavirkjun, Hvanneyrardalsvirkjun og Hest- og Skötufjarðarvirkjun. Það má því ljóst vera að hringtenging verður ekki að veruleika fyrr en í fyrsta lagi eftir mannsaldur eða svo.

Þetta hef ég þegar rætt í þaula í grein á vef Rjúkanda sem má lesa hér.

Margföld olíubrennsla

Gunnar tiltekur olíubrennslu til orkuframleiðslu og húshitunar sem röksemd með Hvalárvirkjun. Eins og fyrr var nefnt tekur tenging Hvalárvirkjunar við Mjólkárlínu austan Mjólkárvirkjunar ekki á neinum þeim vanda í raforkumálum sem kallar á olíubrennslu á Vestfjörðum.

Ef marka má svör Gunnars sjálfs um hve mikla olíu þurfi að nota við keyrslu ljósavéla og stórvirkra vinnuvéla meðan á framkvæmdum við virkjanir í Ófeigsfirði og Eyvindarvirði stendur, en hann var spurður að því á málþinginu Arfleifð Árneshrepps, má áætla að 10 milljón lítrar af olíu verði brennd. Líklega mætti keyra varaaflstöðvar Vestfjarða í nokkra áratugi á þeim olíuforða, miðað við keyrslu þeirra undanfarin ár.

Hugsanlega mætti færa rök fyrir því að brennsla 10 milljón lítra af olíu í Ófeigsfirði á þremur og hálfu ári geti verið réttlætanleg ef það leiddi til þess að olíubrennsla til orkuöflunar og húshitunar á Vestfjörðum væri úr sögunni, en svo er ekki. Gera má ráð fyrir að allar varaflstöðvarnar verði áfram á sínum stað og ekkert sem bendir til annars en að keyrsla þeirra á næstu árum verði í líkingu við það sem verið hefur hingað til.

Þessir 10 milljón lítrar eru því hrein viðbót við fullkomlega óviðunandi og ósækilega olíubrennslu á Vestfjörðum. Pétur G. Markan talaði um í Stundinni að olíubrennslan í varaaflsstöðvunum væri í blóra við Parísarsamkomulagið. Hvað má þá segja um að bæta við bruna á 10 milljón lítrum á þremur og hálfu ári?

Er vilji íbúa Árneshrepps skýr?

Gunnar vísar til íbúaþings sem haldið var með örskömmum fyrirvara í Árneshreppi mánudaginn 12. og þriðjudaginn 13. júni sl. og segir að samkvæmt niðurstöðum þess sé vilji íbúa Árneshrepps til að Hvalárvirkjun verði reist skýr. Þar má segja að Gunnar hrapi að ályktunum.

Tímasetning íbúaþingsins og skammur fyrirvari gerði það að verkum að mun færri komust á þingið en vildu, enda bændur í sveitinni önnum kafnir í sauðburði og að sinna æðavarpi og áttu alls ekki heimangengt, þar á meðal þrír af fimm fulltrúum í sveitarstjórn Árneshrepps. Fólk sem málið varðar og búsett er utan hreppsins átti einnig erfitt með að koma, enda þingið haldið á tveimur virkum dögum.

Íbúaþingið var því klaufalega tímasett – nema það hafi verið af ráðnum hug – og niðurstaða þess enginn endanlegur dómur um skoðanir íbúa Árneshrepps á virkjanaframkvæmdunum frekar en að skýr andstaða heimamanna sem töluðu á málþinginu Arfleifð Árneshrepps, sem haldið var í Árneshreppi hálfum mánuði síðar, geti talist vera það.

Gunnar nefnir einnig að með Hvalárvirkjun verði ráðist í innviðauppbyggingu á Vestfjörðum og ekki síst í Árneshreppi. Innviðirnir sem þarna eru nefndir reynast vera tengivirki og háspennulínur sem Landsnet reisir til að tengigjöld HS Orku vegna tengingar virkjunarinnar við Mjólkárlínu verði hagkvæmari. Ekki er hægt að koma auga á annað sem getur kallast innviðauppbygging, sama hve vel er rýnt í gögnin.

Hvað varðar innviðauppbyggingu í Árneshreppi er ekkert í hendi. Fulltrúar HS Orku/Vesturverks mættu á íbúaþingið í lok þess og lofuðu íbúum ýmsum úrbótum og hafa sent sveitarstjórn erindi þar sem ýmiskonar uppbyggingu innan hreppsins er lofað og fulltrúi HS Orku á málþinginu Arfleifð Árneshrepps ræddi þetta einnig. Reyndar er þetta allt í boði gegn því að virkjanaleyfi fáist. Ég eftirlæt lesendum að ráða í hvað slík skilyrt loforð mættu kallast.

Ófærar samböngubætur

Í grein sinni segir Gunnar: „Samgöngumál er eitt brýnasta mál íbúa í Árneshreppi. Vesturverk hyggst endurbæta núverandi veg frá Norðurfirði að Hvalárósi. Fyrir liggja drög að samkomulagi við Vegagerðina þar um. Vegur mun verða lagður samhliða jarðstreng milli Ófeigsfjarðar og Ísafjarðardjúps um Ófeigsfjarðarheiði. Með veginum verða miklar samgöngubætur við Árneshrepp sem eru til þess fallnar að hafa jákvæð áhrif á ferðamennsku í hreppnum og samgöngur við Vestfirði.“

Það má teljast ósvífið að nota vegabætur sem röksemd fyrir framkvæmdunum. Þar er verið að nota einmitt það sem hefur brunnið einna heitast á íbúum hreppsins undanfarna áratugi – stopular samgöngur vegna lélegs ástands vega og ónógs snjómoksturs á vetrum.

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna er vitnað í matsskýrslu Verkís þar sem fram kemur um veginn um Ingólfsfjörð í Ófeigsfjörð: „Ekki er gert ráð fyrir að vegurinn muni uppfylla staðla Vegagerðarinnar og ekki verði lagt bundið slitlag á hann“. Og um línuveginn er sagt að „[l]eggja þurfi vegslóða meðfram strengleið eða loftlínum“ og síðar „[í] báðum tilfellum mun slóði fylgja línuleiðinni en hann muni ekki verða uppbyggður og því fylgja landinu.“

Sem sagt: Vegurinn sem íbúar Árneshrepps hafa kvartað undan árum saman mun lengjast til norðurs og mun ekki uppfylla staðla Vegagerðarinnar. Hann mun svo tengjast óuppbyggðum vegslóða sem liggur með landslaginu yfir Ófeigsfjarðarheiði og yfir í Djúp. Það þarf að teygja sig ansi langt í túlkunum til þess að geta leyft sér að kalla vegslóða sem verður undir snjó 9 mánuði á ári og mun ekki njóta neinnar þjónustu Vegagerðarinnar samgöngubætur.

Loforð og efndir

Vestfirðir þurfa sárlega á því að halda að fá raunverulegar bætur í afhendingaröryggi raforku á svæðinu og Árneshreppur þarf á úrræðum að halda, í samgöngumálum, sköpun atvinnutækifæra og viðgangi samfélagsins í hreppnum.

Ekkert í ráðagerðum HS Orku bendir til þess að afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum skáni svo nokkru nemi og framkvæmdirnar koma ekki á hringtengingu raforkukerfis Vestfjarða auk þess sem olíubrennsla á Vestfjörðum mun margfaldast á framkvæmdatímanum.

Ef af framkvæmdunum verður mun Árneshreppur verða undirlagður af akstri stórvirkra vinnuvéla stöðugt í þrjú og hálft ár en mun eflaust njóta einhvers fjárhagslegs ávinnings af þeirri þenslu sem framkvæmdirnar valda. Virkjunin sjálf á hins vegar ekki að skapa nein störf og hverfandi líkur eru á því að vinnuflokkar þeir sem dvelja í Ófeigsfirði og á Ófeigsfjarðarheiði muni leggja nokkuð til mannlífsins í hreppnum eða kjósi að dvelja þar áfram að framkvæmdum loknum.

Hugsanlega verður Finnbogastaðaskóli klæddur að utan á kostnað HS Orku, með þriggja fasa rafmagn og blússandi ljósleiðaratengingu, en óvíst hvort þar verði nokkur börn við nám.

Pétur Húni Björnsson

Stjórnarmaður í Rjúkanda

 

„Samgönguleysið hefur kostað Vestfirðinga mikið“

Lélegar samgöngur hafa kostað Vestfirðinga mikið og þrátt fyrir að Dýrafjarðargöng verði mikil samgöngubót eru stór samgöngumál ennþá óleyst. Þetta kom fram í ræðu Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, við hátíðarsprengingu Dýrafjarðarganga í gær. Gísli Halldór nefndi í því sambandi Teigsskógsmálið, heilsársveg yfir Dynjandisheiði, hafnarframkvæmdir og skoðun á möguleikum á fullnægjandi flugsamöngum við Vestfirði.

„Samgönguleysið hefur kostað Vestfirðinga mikið. Skortur á samgöngum og tilheyrandi óhagræði og kostnaður hefur meðal annars valdið því að hagkvæmnidrifið kvótakerfi, sem ekkert tillit tók til samfélags eða byggðafestu, hefur grafið undan byggð á Vestfjörðum – hröðum skrefum. Þúsund manns hurfu úr Ísafjarðarbæ einum. Einangrun Suðurfjarðanna var slík að þar voru byggðir komnar að fótum fram, þangað til fiskeldið hófst og viðsnúningur hefur orðið. Við höfum tapað fólki og fjölmörgum tækifærum vegna samgönguleysis,“ sagði Gísli Halldór.

Um vegagerð í Gufudalssveit sagði Gísli Halldór þetta: „Þegar rætt er um samgöngur er full ástæða til að geta fyrirhugaðrar vegalagningar um Teigskóg. Við getum ekki lengur sætt okkur við að íbúar og samfélag séu látin mæta hreinum afgangi þegar framkvæmdir eru metnar með umhverfisáhrifum. Gífurlegir samfélagshagsmunir krefjast þess að löggjafinn grípi nú inn í – í ljósi þeirra hagsmuna – og setji lög til að heimila veglagningu samkvæmt leið Þ-H, ef þess er nokkur kostur.“

smari@bb.is

Hér er ræða Gísla í heild sinni.

Ráðherra, þingmenn, bormenn – aðrir góðir gestir.

Mig langar að byrja á því að óska okkur öllum hjartanlega til hamingju með þann viðburð að vinna við Dýrafjarðargöng skuli nú hafin. Ekki er annað að heyra en að mikill vilji sé hjá stjórnvöldum og Vegagerð að standa vel að þessum göngum og þeim verkum sem óhjákvæmilega fylgja – það er að segja vegagerð um Dynjandisheiði. Vissulega viljum við að þetta gerist með sem mestum hraða, en fyrir öllu er að verkið er nú hafið af fullum heilindum.

Hún var löng sú bið – biðin eftir að hafist yrði handa við Dýrafjarðargöng. Ennþá lengri hefur hún verið, bið Vestfirðinga eftir fullnægjandi samgöngum. Samgönguleysið hefur kostað Vestfirðinga mikið. Skortur á samgöngum og tilheyrandi óhagræði og kostnaður hefur meðal annars valdið því að hagkvæmnidrifið kvótakerfi, sem ekkert tillit tók til samfélags eða byggðafestu, hefur grafið undan byggð á Vestfjörðum – hröðum skrefum. Þúsund manns hurfu úr Ísafjarðarbæ einum. Einangrun Suðurfjarðanna var slík að þar voru byggðir komnar að fótum fram, þangað til fiskeldið hófst og viðsnúningur hefur orðið. Við höfum tapað fólki og fjölmörgum tækifærum vegna samgönguleysis.

Það er því rík ástæða til að þakka öllum þeim sem hafa komið okkur í þau spor nú að Dýrafjarðargöng eru að verða að veruleika. Fjölmargt af því fólki er hér statt í dag.

Mikilvægi samgangna og annarra traustra innviða verður ekki tíundað um of. Traustir innviðir sem tryggja að fólk geti búið við sambærilega þjónustu og möguleika og aðrir landsmenn eru lykillinn að búsetu fólks á Vestfjörðum. Fólk sem hefur tækifæri og aðstöðu mun verða sinnar gæfu smiðir. Fólk með trausta innviði getur skapað störfin sem nauðsynleg eru því til viðurværis.

Innviðir á borð við samgöngur, raforku og samskiptaleiðir sem tryggja aðgengi að þjónustu sem allir Íslendingar nútímans telja sjálfsagða og nauðsynlega ættu að vera algert forgangsmál.

Þegar rætt er um samgöngur er full ástæða til að geta fyrirhugaðrar vegalagningar um Teigskóg. Við getum ekki lengur sætt okkur við að íbúar og samfélög séu látin mæta hreinum afgangi þegar framkvæmdir eru metnar með umhverfisáhrifum. Gífurlegir samfélagshagsmunir krefjast þess að löggjafinn grípi nú inn í – í ljósi þeirra hagsmuna – og setji lög til að heimila veglagningu samkvæmt leið Þ-H, ef þess er nokkur kostur.

Auk frekari framfara í vegasamgöngum er brýn nauðsyn til að fé sé varið til hafnarframkvæmda á Vestfjörðum. Því til viðbótar er áríðandi að hafin verið skoðun á því hvaða möguleikar eru á að tryggja fullnægjandi flugsamgöngur við Vestfirði. Gera þarf rannsóknir sem leiða það til lykta hvort hægt er að útbúa flugvöll sem tryggir 90% nýtingu – líkt og nútímastaðlar gera kröfur til. Jafnvel þó ekki fáist fjármagn til framkvæmda á næstu árum þá er nauðsynlegt að svörin liggi fyrir, ef slík staðsetning finnst fyrir flugvallarstæði. Í ljósi fyrirhugaðra fiskeldisáforma, sem gætu jafnframt stuðlað að auknum sjávarútvegi á Vestfjörðum, er einnig brýnt að gera samskonar könnun á möguleikum til að gerður verði flugvöllur til millilandaflugs á svæðinu.

Annað mikilvægt verkefni er hringtenging rafmagns á Vestfjörðum um Ísafjarðardjúp. Það er ljóst að slíkri hringtengingu þarf að fylgja nægileg orkuframleiðsla á Vestfjörðum til þess að hringurinn slái ekki út þegar Vesturlína fer – sem hún gerir alltaf af og til. Slík orkuframleiðsla er heimil samkvæmt rammaáætlun – í Hvalá. Með fullnægjandi rafstreng um Ísafjarðardjúp skapast miklir möguleikar, með enn óþekktum tækifærum.

Samskiptainnviðir eru nú í hraðri framþróun á Vestfjörðum sem annarsstaðar. Þessum innviðum þarf að fylgja stuðningur frá stjórnvöldum við það verkefni að jafna aðstöðu fólks og veita eins mikla þjónustu og hægt er með nýrri tækni. Í dag munum við á Þingeyri undirrita samning við ráðherra um Blábankann. Blábankinn er þróunarverkefni sem búið er að tryggja allt að 5 ára starfstíma, með dyggum stuðningi stjórnvalda. Þar munum við leita allra leiða til að skapa þá aðstöðu á Þingeyri að íbúar geti fengið sem mest af þeirri þjónustu sem eðlilegt er að gera kröfu til í dag. Mikilvægt er að ríkisstofnanir sýni frumkvæði í að veita þjónustu um þessa gátt. Ef til vill þarf lagabreytingar til að heimila afhendingu á einhverri þjónustu eða vörum. Ef vel tekst til með Blábankann þá getur hann orðið fyrirmynd af samskonar aðstöðu í öllum þorpum landsins sem nú búa við óásættanlega einangrun hvað þjónustu varðar.

Til að fá aukinn slagkraft í uppbyggingu innviða getur laxeldi í Ísafjarðardjúpi leikið aðalhlutverk. Þar er einnig brýnt að tekið sé tillit til samfélagslegra hagsmuna þegar ákvarðanir um eldið eru teknar. Ríkisstjórnin þarf að gefa skýr skilaboð í því máli – að hafið verði laxeldi í Ísafjarðardjúpi með þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að tryggja ásættanlega lágmarksáhættu fyrir laxveiðiár í Djúpinu.

Mér er fullkunnugt um skilning hæstvirts samgönguráðherra á mikilvægi þess að byggja upp innviði og þann áhuga sem hann hefur á að vinna þeim málum framgang. Vonandi nær hann góðum árangri í þeim málum. Ég vil brýna hann um að auka veg hafnarframkvæmda í fjárlögum og horfa til slíkra verkefna hér á Vestfjörðum. Á þessari stundu vil ég þó helst hvetja ráðherrann til þess að róa að því öllum árum að gerðar verði fullnægjandi rannsóknir á möguleikum til nútímalegra flugsamgangna á Vestfjörðum. Það er eftir engu að bíða þar, jafnvel þó framkvæmdirnar sjálfar verði ekki handan við hornið.

En í dag ætlum við að fagna. Við fögnum öllum þeim miklu tækifærum sem felast í tilkomu Dýrafjarðarganga. Samstarf og samstaða Vestfirðinga getur náð nýjum hæðum. Atvinnulífi bjóðast stóraukin tækifæri með þessari nýju samgönguleið. Þá bjóðast miklir möguleikar í menntamálum og bættri heilbrigðisþjónustu. Nýjar víddir opnast í ferðaþjónustu, enda hafa Vestfirðingar orðið áþreifanlega varir við það hve farartálminn Hrafnseyrarheiði hefur haft vond áhrif á erlenda ferðamenn. Menning, íþróttir, verslun og þjónusta eru allt þættir sem geta fundið ný tækifæri með tilkomu Dýrafjarðaganga.

——————

Ég ítreka því upphafsorð mín. Til hamingju!

Snarpar vindhviður við fjöll

Veðurspámenn Veðurstofunnar spá snörpum vindhviðum við fjöll á morgun hér vestantil á landinu, í dag er hins vegar sunnar 5 – 13, skýjað og súld og dálítil rigning sunnantil á Vestfjörðum. Hiti verður 9 – 15 stig.

Ekki er árennilegt veður á Hornströndum eins og sjá má að meðfylgjandi mynd.

bryndis@bb.is

Vegagerð í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði eðlilegt framhald

Í ræðu Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra á hátíðarsprengingu Dýrjafjarðarganga í gær kom fram framkvæmd ganganna væri langþráð en tók fram að eðlilegt og nauðsynlegt framhald hennar væri uppbygging heilsársvegar um Dynjandisheiði svo og framhald vegagerðar um Gufudalssveit. Með því kæmust Vestfirðingar öruggt í vegasamband og væri brýnt að fjármagna þær framkvæmdir sem fyrst.

Þá sagði hann að eftir ferðir sínar um landið í sumar, meðal annars um Vestfirði, væri augljóst að bjartsýni ríkti um uppbyggingu í atvinnulífi í fjórðungnum og ekki síst kallaði atvinnurekstur á umbætur í samgöngum.

smari@bb.is

Arnarlax gerist bakhjarl Vestra

Frá vinstri, Birna Lárusdóttir, Ingólfur Þorleifsson, Iða Marsibil Jónsdóttir og Víkingur Gunnarsson.

Bílddælska laxeldisfyrirtækið Arnarlax verður aðalstyrktaraðili körfuknattleiksdeildar Vestra. Skrifafað var undir samkomulag þess efnis á sjávarútvegssýningunni í Kópavogi í gær. Merki Arnarlax mun prýða framhlið búninga Vestra á komandi keppnistímabili. Ingólfur Þorleifsson, formaður körfuknattleiksdeildar Vestra og Iða Marsibil Jónsdóttir, skrifstofustjóri Arnarlax, undirrituðu samninginn en hún er einmitt móðir Adams Smára Ólafssonar leikmanns meistaraflokks. Birna Lárusdóttir, formaður Barna- og unglingaráðs var einnig viðstödd undirritunina ásamt Víkingi Gunnarssyni framkvæmdastjóra Arnarlax.

smari@bb.is

„Í gær hófst niðurbrot múrsins“

Pétur G. Markan.

„Þetta var stór stund í samgöngumálum Vestfirðinga. Hrafnseyrarheiði hefur verið múr milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða. Í gær hófst niðurbrot múrsins,“ segir Pétur G. Markan, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga. Hann var viðstaddur hátíðarsprengingu Dýrafjarðarganga í gær.

Pétur leggur áherslu á að þó svo að orrustan um Dýrafjarðargöng hafi unnist, þá eru aðrar orrustur óunnar. „Framundan er áframhaldandi slagur um vegagerð í Gufudalssveit og svo verður að tryggja að það verði farið í Dynjandsheiðina strax, án þess eru Dýrafjarðargöng til lítils,“ segir Pétur.

smari@bb.is

Vagnstjórarnir í skýjunum

Eigendahópurinn sem tók yfir Vagninn í vor.

Eigendur Vagnsins á Flateyri í skýjunum með fjársöfnun sem þeir stóðu fyrir á Karolina Fund. Lagt var upp með að safna 2,8 milljónum kr. en þegar söfnuninni lauk voru komnar 3,6 milljónir kr. í kassann. Húsnæði Vagnsins er komið til ára sinna og viðhald setið á hakanum og efst á lista er að laga þakið sem míglekur. Reksturinn á þessari fornfrægu krá stendur ekki undir fjárfrekum framkvæmdum og því var farin sú leið að leita til velunnarra Vagnsins.

„Við erum gríðarlega þakklát öllum sem styrktu og framlögin öll. Vagninn á marga góða vini og þið eruð frábær,“ segir á Facebooksíðu Vagnsins. „Það sem umfram safnaðist mun hjálpa okkur í næstu skrefum uppbyggingar. Á listanum eru gluggaútskiptingar og endurnýjun klæðningar sem hefur þurft að þola tímana tvenna. Svo er jú yfirhalning innandyra, bætt eldhús betri garður og svo mætti lengi áfram telja. Við tökum eitt skref í einu. Víst er að fyrstu skrefin verða lauflétt með þessum byr!“

,,Ég svaraði og sýndi þeim rauða mynd“

Ein mynda á sýningunni.

Myndlistarkonan Ingibjörg Magnadóttir opnar sýninguna ,,Ég svaraði og sýndi þeim rauða mynd“ í Gallerí Úthverfu á Ísafirði á morgun. Ingibjörg Magnadóttir býr og starfar í Reykjavík. Hún útskrifaðist úr fjöltæknideild Listaháskóla Íslands árið 2000 og var einnig við nám í Kaupmannahöfn 1999. Hún lagði stund á sviðslistanám í Fredriksstað í Noregi 2001-2 og útskrifaðist með MA í ritlist frá Háskóla Íslands 2015. Hún hefur komið víða við og tekið þátt í fjölmörgum listsýningum og listviðburðum hér heima og erlendis undanfarin ár. Sýningaropnunin verður á morgun kl. 16 og stendur sýningin til 22. október.

Ingibjörg hefur þetta að segja um sýninguna og listina:

„Myndlistin virkar bæði á sjónrænan og tilfinningalegan hátt og þegar best lætur er hún áreynslulaus. Hægt er að ímynda sér að verkin komi til listamannsins án erfiðis og það sé einmitt áreynsluleysið sem geri sum verk aðgengileg, aðlaðandi, nánast andleg. Rólegt yfirbragð þeirra getur minnt á hugsleiðslu, þau geta verið ljóðræ og ákaflega innileg. Stundum er myndlist í hinu minnsta og ómerkilega en tekst samt að miðla undrum veraldar. Myndlist getur verið hlutur eða ,,object‘‘ sem á sér enga fyrirmynd og hefur þar af leiðandi aldrei verið til í þessum heimi í því formi sem hann birtist.

Myndlistin fæst við tilkomumikil eða ,,sensational‘‘ áhrif sem skapast við samsetningu efna. Margir listamenn geta ekki séð eiginleika verksins fyrirfram. Stundum ekki fyrr en mörgum árum síðar þegar þeir nálgast verkin sem áhorfandi.

Það er engu líkara en að ég sé hafi farið einhvern hring. Ég, líkt og flestir sem fara í gegnum myndlistarnám, lærði ég til margra ára teikningu, lita- og formfræði áður en ég byrjaði í Listaháskólanum. En þegar þangað var komið kynntist ég nýjum miðlum og braut ég upp flest það sem ég hafði lært. Ég sleppti samt aldrei takinu á teikningunni en notaði hana meira í formi skissu við gerð annarra verka.

Ég hef notið þess ósegjanlega að vinna myndirnar þó er þetta ögrandi áskorun fyrir mig og er þetta í fyrsta skipti sem ég sýni einkasýningu með svona stórum myndverkum. Þar sem þær eru stórar vann ég þær standandi. Mér finnst það skipta máli þar sem allur líkaminn var á hreyfingu við gerð þeirra, ekki bara hægri höndin.

Myndirnar eru að vissu leyti hefðbundnar í forminu. Eitt verk er til að mynda uppstilling af blómum í vasa. Hin verkin eru andlit, þær eru komnar inn í þennan heim úr heimi sem var ekki hér.“

Vilja 10 milljónir í hönnun skíðasvæðisins

Skíðasvæðið í Tungudal.

Íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðaræjar hefur óskað eftir því við bæjarstjórn að gengið verði til samninga við bandaríska fyrirtækið SE Group um hönnun og endurskipulagningu á skíðasvæði Ísafjarðarbæjar. Fyrirtækið ráðgerir að kostnaður við hönnunina nemi 100 þúsund bandarikjadölum, sem á gengi dagsins í dag eru 10,6 milljónir kr. Íslensk skíðasvæði eru fyrirtækinu ekki ókunnug, en SE Group hefur meðal annars unnið í Hlíðarfjalli á Akureyri.

Hugsunin bak við endurskipulagninug skíðasvæðisins er að horfa til næstu 20 ára hið minnsta, og framkæmdir myndu dreifast yfir langt tímabil.

Fjölmenni við hátíðarsprengingu Dýrafjarðarganga

Í dýrðarinnar koppalogni var hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga sprengd, að viðstöddu fjölmenni og við mikinn fögnuð. Það var Jón Gunnarsson samgönguráðherra sem „ýtti á takkann“ og í kjölfarið glumdi lófatak viðstaddra. Fyrir sprenginguna flutti samgönguráðherra, Hreinn Halldórsson forstjóri Vegagerðarinnar og Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar ávörp.

Það eru Metrostav og Suðurverk sem sjá um verkið undir eftirliti Geotek ehf og Eflu hf.

Lengd ganga í bergi eru 5,6 km með vegskálum og fer gólf í göngunum mest í 90 m.y.s og í þeim verða 10 útskot, þar af fjögur snúningsútskot. Byggja þarf nýjar brýr á Mjólká og Hófsá og lagðir verða háspennukaplar.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir