Síða 2151

Snarpar vindhviður við fjöll

Veðurspámenn Veðurstofunnar spá snörpum vindhviðum við fjöll á morgun hér vestantil á landinu, í dag er hins vegar sunnar 5 – 13, skýjað og súld og dálítil rigning sunnantil á Vestfjörðum. Hiti verður 9 – 15 stig.

Ekki er árennilegt veður á Hornströndum eins og sjá má að meðfylgjandi mynd.

bryndis@bb.is

Vegagerð í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði eðlilegt framhald

Í ræðu Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra á hátíðarsprengingu Dýrjafjarðarganga í gær kom fram framkvæmd ganganna væri langþráð en tók fram að eðlilegt og nauðsynlegt framhald hennar væri uppbygging heilsársvegar um Dynjandisheiði svo og framhald vegagerðar um Gufudalssveit. Með því kæmust Vestfirðingar öruggt í vegasamband og væri brýnt að fjármagna þær framkvæmdir sem fyrst.

Þá sagði hann að eftir ferðir sínar um landið í sumar, meðal annars um Vestfirði, væri augljóst að bjartsýni ríkti um uppbyggingu í atvinnulífi í fjórðungnum og ekki síst kallaði atvinnurekstur á umbætur í samgöngum.

smari@bb.is

Arnarlax gerist bakhjarl Vestra

Frá vinstri, Birna Lárusdóttir, Ingólfur Þorleifsson, Iða Marsibil Jónsdóttir og Víkingur Gunnarsson.

Bílddælska laxeldisfyrirtækið Arnarlax verður aðalstyrktaraðili körfuknattleiksdeildar Vestra. Skrifafað var undir samkomulag þess efnis á sjávarútvegssýningunni í Kópavogi í gær. Merki Arnarlax mun prýða framhlið búninga Vestra á komandi keppnistímabili. Ingólfur Þorleifsson, formaður körfuknattleiksdeildar Vestra og Iða Marsibil Jónsdóttir, skrifstofustjóri Arnarlax, undirrituðu samninginn en hún er einmitt móðir Adams Smára Ólafssonar leikmanns meistaraflokks. Birna Lárusdóttir, formaður Barna- og unglingaráðs var einnig viðstödd undirritunina ásamt Víkingi Gunnarssyni framkvæmdastjóra Arnarlax.

smari@bb.is

„Í gær hófst niðurbrot múrsins“

Pétur G. Markan.

„Þetta var stór stund í samgöngumálum Vestfirðinga. Hrafnseyrarheiði hefur verið múr milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða. Í gær hófst niðurbrot múrsins,“ segir Pétur G. Markan, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga. Hann var viðstaddur hátíðarsprengingu Dýrafjarðarganga í gær.

Pétur leggur áherslu á að þó svo að orrustan um Dýrafjarðargöng hafi unnist, þá eru aðrar orrustur óunnar. „Framundan er áframhaldandi slagur um vegagerð í Gufudalssveit og svo verður að tryggja að það verði farið í Dynjandsheiðina strax, án þess eru Dýrafjarðargöng til lítils,“ segir Pétur.

smari@bb.is

Vagnstjórarnir í skýjunum

Eigendahópurinn sem tók yfir Vagninn í vor.

Eigendur Vagnsins á Flateyri í skýjunum með fjársöfnun sem þeir stóðu fyrir á Karolina Fund. Lagt var upp með að safna 2,8 milljónum kr. en þegar söfnuninni lauk voru komnar 3,6 milljónir kr. í kassann. Húsnæði Vagnsins er komið til ára sinna og viðhald setið á hakanum og efst á lista er að laga þakið sem míglekur. Reksturinn á þessari fornfrægu krá stendur ekki undir fjárfrekum framkvæmdum og því var farin sú leið að leita til velunnarra Vagnsins.

„Við erum gríðarlega þakklát öllum sem styrktu og framlögin öll. Vagninn á marga góða vini og þið eruð frábær,“ segir á Facebooksíðu Vagnsins. „Það sem umfram safnaðist mun hjálpa okkur í næstu skrefum uppbyggingar. Á listanum eru gluggaútskiptingar og endurnýjun klæðningar sem hefur þurft að þola tímana tvenna. Svo er jú yfirhalning innandyra, bætt eldhús betri garður og svo mætti lengi áfram telja. Við tökum eitt skref í einu. Víst er að fyrstu skrefin verða lauflétt með þessum byr!“

,,Ég svaraði og sýndi þeim rauða mynd“

Ein mynda á sýningunni.

Myndlistarkonan Ingibjörg Magnadóttir opnar sýninguna ,,Ég svaraði og sýndi þeim rauða mynd“ í Gallerí Úthverfu á Ísafirði á morgun. Ingibjörg Magnadóttir býr og starfar í Reykjavík. Hún útskrifaðist úr fjöltæknideild Listaháskóla Íslands árið 2000 og var einnig við nám í Kaupmannahöfn 1999. Hún lagði stund á sviðslistanám í Fredriksstað í Noregi 2001-2 og útskrifaðist með MA í ritlist frá Háskóla Íslands 2015. Hún hefur komið víða við og tekið þátt í fjölmörgum listsýningum og listviðburðum hér heima og erlendis undanfarin ár. Sýningaropnunin verður á morgun kl. 16 og stendur sýningin til 22. október.

Ingibjörg hefur þetta að segja um sýninguna og listina:

„Myndlistin virkar bæði á sjónrænan og tilfinningalegan hátt og þegar best lætur er hún áreynslulaus. Hægt er að ímynda sér að verkin komi til listamannsins án erfiðis og það sé einmitt áreynsluleysið sem geri sum verk aðgengileg, aðlaðandi, nánast andleg. Rólegt yfirbragð þeirra getur minnt á hugsleiðslu, þau geta verið ljóðræ og ákaflega innileg. Stundum er myndlist í hinu minnsta og ómerkilega en tekst samt að miðla undrum veraldar. Myndlist getur verið hlutur eða ,,object‘‘ sem á sér enga fyrirmynd og hefur þar af leiðandi aldrei verið til í þessum heimi í því formi sem hann birtist.

Myndlistin fæst við tilkomumikil eða ,,sensational‘‘ áhrif sem skapast við samsetningu efna. Margir listamenn geta ekki séð eiginleika verksins fyrirfram. Stundum ekki fyrr en mörgum árum síðar þegar þeir nálgast verkin sem áhorfandi.

Það er engu líkara en að ég sé hafi farið einhvern hring. Ég, líkt og flestir sem fara í gegnum myndlistarnám, lærði ég til margra ára teikningu, lita- og formfræði áður en ég byrjaði í Listaháskólanum. En þegar þangað var komið kynntist ég nýjum miðlum og braut ég upp flest það sem ég hafði lært. Ég sleppti samt aldrei takinu á teikningunni en notaði hana meira í formi skissu við gerð annarra verka.

Ég hef notið þess ósegjanlega að vinna myndirnar þó er þetta ögrandi áskorun fyrir mig og er þetta í fyrsta skipti sem ég sýni einkasýningu með svona stórum myndverkum. Þar sem þær eru stórar vann ég þær standandi. Mér finnst það skipta máli þar sem allur líkaminn var á hreyfingu við gerð þeirra, ekki bara hægri höndin.

Myndirnar eru að vissu leyti hefðbundnar í forminu. Eitt verk er til að mynda uppstilling af blómum í vasa. Hin verkin eru andlit, þær eru komnar inn í þennan heim úr heimi sem var ekki hér.“

Vilja 10 milljónir í hönnun skíðasvæðisins

Skíðasvæðið í Tungudal.

Íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðaræjar hefur óskað eftir því við bæjarstjórn að gengið verði til samninga við bandaríska fyrirtækið SE Group um hönnun og endurskipulagningu á skíðasvæði Ísafjarðarbæjar. Fyrirtækið ráðgerir að kostnaður við hönnunina nemi 100 þúsund bandarikjadölum, sem á gengi dagsins í dag eru 10,6 milljónir kr. Íslensk skíðasvæði eru fyrirtækinu ekki ókunnug, en SE Group hefur meðal annars unnið í Hlíðarfjalli á Akureyri.

Hugsunin bak við endurskipulagninug skíðasvæðisins er að horfa til næstu 20 ára hið minnsta, og framkæmdir myndu dreifast yfir langt tímabil.

Fjölmenni við hátíðarsprengingu Dýrafjarðarganga

Í dýrðarinnar koppalogni var hátíðarsprenging Dýrafjarðarganga sprengd, að viðstöddu fjölmenni og við mikinn fögnuð. Það var Jón Gunnarsson samgönguráðherra sem „ýtti á takkann“ og í kjölfarið glumdi lófatak viðstaddra. Fyrir sprenginguna flutti samgönguráðherra, Hreinn Halldórsson forstjóri Vegagerðarinnar og Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar ávörp.

Það eru Metrostav og Suðurverk sem sjá um verkið undir eftirliti Geotek ehf og Eflu hf.

Lengd ganga í bergi eru 5,6 km með vegskálum og fer gólf í göngunum mest í 90 m.y.s og í þeim verða 10 útskot, þar af fjögur snúningsútskot. Byggja þarf nýjar brýr á Mjólká og Hófsá og lagðir verða háspennukaplar.

bryndis@bb.is

Tekur allri gagnrýni alvarlega

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

„Vöxtur fiskeldis lofar góðu. Málefni þess munu koma til kasta þingsins í vetur. Ef við höldum vel á spilum verður það atvinnugrein sem mun skapa mikil verðmæti fyrir samfélagið okkar og styrkja líka byggðir í landinu.“ Þetta sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra í gær í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra.

Hún talaði um áhættumat Hafrannsóknastofnunar en útkoma úr því er að loka fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi, niðurstaða sem hefur sætt mikilli gagnrýni heima í héraði.  Ráðherra lagði áherslu á að áhættumatið er breytilegt plagg og sagði vera grunnur sem eigi að byggja á til lengri tíma litið. „Það fer í alþjóðlega rýni nú í byrjun október. Auðvitað á að taka alla gagnrýni alvarlega, fara vel yfir hana, að sjálfsögðu. Ég vil benda landsmönnum á að í næstu viku munum við í sjávarútvegsráðuneytinu standa fyrir morgunverðarfundi einmitt um áhættumat Hafró,“ sagði Þorgerður Katrín.

Þórður fer í undankeppni EM

Þórður Gunnar Hafþórsson

Þórður Gunnar Hafþórsson, leikmaður meistaraflokks Vestra í knattspyrnu, hefur verið valinn til þátttöku í undankeppni Evrópumeistaramóts U-17 landsliða. Þórður Gunnar byrjaði að leika með landsliðinu í sumar þegar hann tók þátt í Norðurlandamóti sem fór fram á Íslandi í sumar.

Undankeppnin fer fram í Finnlandi dagana 25. september til 4. október og liðið keppir við Finnland, Færeyjar og Rússland um sæti á EM U-17 sem verður haldið á Englandi á næsta ári.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir