Miðvikudagur 22. janúar 2025
Síða 2150

Óvíst hvort forsætisráðherra vilji ræða fiskeldismál

Bjarni Benediktsson. Mynd: RÚV.

Forráðamenn sveitarfélaga á Vestfjörðum hafa ekki fengið staðfestingu á því hvort að verði af fundi með ráðherrum ríkisstjórnarinnar þar sem ræða á laxeldismál á Vestfjörðum. Í byrjun júlí óskuðu sveitarfélögin eftir fundi með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra og ráðherrum málaflokss fiskeldis, þeim Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra og Björtu Ólafsdóttur umhverfisráðherra. Auk þess var óskað eftir að Jón Gunnarsson, ráðherra sveitarstjórnarmála, sitji fundinn sem og forstjórar þeirra ríkisstofnana sem málaflokkurinn heyrir undir, þ.e. forstjórar Hafrannsóknastofnunar, Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar.

Pétur G. Markan.

„Við höfum ekki fengið svar við beiðni okkar en við erum að ýta eftir þessum fundi því það er mjög mikilvægt í þessari stöðu að forsætisráðherra og ráðherrar málaflokksins komi saman og ræði við okkur um þá stöðu er í uppbyggingu fiskeldis á Vestfjörðum,“ segir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga. Pétur segir að sveitarfélögin hafi fengið jákvæð viðbrögð frá Þorgerði Katrínu og Jóni Gunnarssyni um þennan sameiginlega. „Enda hafa ráðherrarnir tveir verið mjög fylgjandi eldisuppbyggingu á Vestfjörðum en hvað varðar þennan fund, þá er boltinn hjá forsætisráðherra,“ segir Pétur.

Dalli kosinn íbúi ársins í Reykhólahreppi

Meðal frumkvöðlaverkefna Dalla er þróun Glæðis sem er lífrænn áburður úr þangi.

Guðjón Dalkvist Gunnarsson, betur þekktur sem Dalli, var kosinn íbúi ársins í Reykhólahreppi. Dómnefndin, skipuð þeim Ástu Sjöfn Kristjánsdóttur, Helgu Garðarsdóttur og Ingibjörgu Birnu Erlingsdóttur var einhuga um að  útnefna Dalla íbúa ársins 2017, fyrir frumkvöðlastarf, hugmyndaauðgi, hjálpsemi og jákvæðar ábendingar um það sem má bæta, og að sjá skemmtilegu hliðar tilverunnar.

Sjö tilnefningar bárust um íbúa ársins. Þau nöfn sem bárust dómefndinni voru Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir, Friðrún Gestsdóttir, Málfríður Vilbergsdóttir, Steinunn Ó. Rasmus, Guðjón Dalkvist, Karl Kristjánssson og Vilberg Þráinsson. Einnig var hreppsnefndin tilnefnd í heild sinni, en dómnefnd kaus að að einblína á einstaklinga fremur en hópa.

Raforkunotkun eykst um 100 MW á áratug

Raforkuspá Orkustofnunar gerir ráð fyrir því að raforkuþörf almennings á Íslandi aukist um 100 megavött á áratug til ársins 2050. Til að mæta aukinni þörf sé annað hvort nauðsynlegt að fjölga virkjunum á Íslandi eða taka orku frá stórnotendum og ráðstafa til almennings.

Orkustofnun gefur út nýja raforkuspá fyrir Ísland á hverju ári. Spáin tekur aðeins til þarfar almennra notenda eins og heimila og þjónustufyrirtækja, en ekki stórnotenda á borð við álver eða stórar verksmiðjur.

„Bara það sem þarf fyrir þessa almennu notkun, þá verðum við kannski komin upp í 715 MW, förum úr um 600 MW upp í 715 á tæpum tíu árum. Ef við horfum til 2030 þá erum við komin í um það bil 800. Þegar við horfum til 2050 þá eru þetta orðin tæp ellefu hundruð MW,“ segir Sverrir Jan Norðfjörð,  formaður raforkuspárhóps Orkustofnunar, í samtali við fréttastofu RÚV.

Grátlegt tap fyrir Vesturbæingum

Mynd úr safni.

Vestri og Knattspyrnufélag Vesturbæjar mættust á Torfnesvelli á Ísafirði á laugardag. Vestri komst yfir á 24. mínútu með marki Péturs Bjarnasonar og leikurinn var að mestu algjör einstefna af hálfu heimamanna og Vesturbæingarnir voru sjaldan líklegir til að skora. En allt kom fyrir ekki og í upphafi síðari hálfleiks jafnaði Enok Ingþórsson leikinn (mín. 48) og fimm mínútum síðar tók KV leikinn með marki Júlí Karlssonar. Markvörður KV var í feiknastuði og kom oftar en einu sinni í veg fyrir að Vestramenn kæmust inn í leikinn á ný. Á 79. mínútu var Hjalta Hermanni Gíslasyni, leikmanni Vestra, vikið af velli með rautt spjald.

Eftir leikinn er Vestri í sjöunda sæti deildarinnar með 19 stig. Næsti leikur liðsins er útileikur við Völsung á fimmtudag.

Setti farþega í land án leyfis

La Boreal við bryggju á Ísafirði. Mynd úr safni.

Mikil umræða hefur verið um að franska skemmtiferðaskipið Le Boreal hafi hleypt um 200 farþegum í land í Jökulfjörðum, en skipið var að koma frá Grænlandi og var því ótollskoðað. Í samtali við Morgunblaðið sagði umboðsmaður skipsins, Jóhann Bogason hjá Gára, sem er skipaumboðsskrifstofa, að um leiðan misskilning væri að ræða á milli sín og skipstjórnenda og telur hann málið hafa verið blásið upp í fjölmiðlum. „Skipstjórnendur voru í góðri trú. Þeir töldu að þeir hefðu fengið leyfi eins og þegar farið er í t.d. Grímsey, en þá er hægt að fá undanþágu til að tollafgreiða í næstu höfn, sem í þessu tilfelli var á Akranesi,“ sagði Jóhann og bætti við að honum hafi ekki verið kunnugt um að skipstjórinn ætlaði að setja fólk í land í Hornstrandafriðlandinu og taldi að skipið ætlaði að sigla meðfram ströndinni áleiðis til Akraness.

Slægjan öll fokin út í skurð

Allt upprúllað.

Herdís Erna Matthíasdóttir bóndi á Miðjanesi í Reykhólasveit segir í samtali við bb.is að bændur í sveitinni séu að verða fyrir talsverðu tjóni því loksins þegar hægt var að slá fór að blása svo hressilega að slægjan liggur meira og minna í skurðum. Til að kóróna vandræðin bilaði dráttarvélin á Miðjanesi en Herdís á von á nýrri vél í dag. Hún segir að spáin segi að það muni lægja þegar líður á daginn og þá verður hægt að ná einhverju saman, af túnum og uppúr skurðum.

Bændur voru orðnir langeygir eftir þurrkinum hér á norðanverðum Vestfjörðum segir Helga Guðný Kristjánsdóttir stórbóndi á Botni í Súgandafirði. Hún segir að grasið sé að spretta úr sér og nú líti úr fyrir mikil hey en sennilega minni að gæðum. Bændur í Botni eru nú búin með allt heima fyrir og langt komin í Önundarfirði, svo er Skutulsfjörður og Álftafjörður eftir.

Helga er ekki bara snjallur hagyrðingur og bóndi heldur eru hún líka iðin með myndavélina og deilir gjarnan myndum sínum af bóndans daglega amstri á facebook. Hér að neðan er nokkrar sem hún hefur tekið við heyskapinn í sumar.

bryndis@bb.is

Járnhjónin í Víkinni

Járnhjónin Katrín Pálsdóttir og Þorsteinn Másson

Hjónin Katrín Pálsdóttir og Þorsteinn Másson gerðu aldeilis garðinn frægan um síðustu helgi er þau tóku þátt í Járnkarlinum eða í Challenge Iceland.

Keppnin heitir Challenge Iceland og er ein af fjölmörgu Challenge þríþrautarkeppnum sem haldnar eru um allan heim. Keppt var í svokallaðri hálfri vegalengd eða hálfum járnkarli sem er 1900m sund, 90km hjólreiðar og 21km hlaup.

Keppnin fór fram við Meðalfellsvatn í Hvalfirði þar sem keppendur þreyttu sundið.  Eftir að sundinu lauk var stokkið á hjólin og hjólað í Hvalfirðinum. Þegar keppendur höfðu lagt 90km hjólreiðar að baki var hlaupið 21km við Meðalfellið og þar í kring.

Járnfrúin Katrín Pálsdóttir gerði sér lítið fyrir og varð 3 í sínum flokki á tímanum 6:05 (30-40ára konur) og járnkarlinn Þorsteinn varð 9 í sínum flokki á tímanum 5:40

Alls tóku 250 manns þátt í mótinu og þar af voru 200 erlendir keppendur. Jafnframt voru 12 atvinnumenn og 8 atvinnukonur þátt.

Hjónin Justin Metzler og Jeanni Seymour sigruðu karla og kvennaflokk meðal atvinnumanna.

bryndis@bb.is

 

Mæta eftir helgina í Bláa bankann

Það færist líf í tuskurnar í  The Blue bank á Þingeyri á mánudaginn er starfsmenn miðstöðvarinnar mæta til starfa. Nýráðinn forstöðumaður bankans er Arnar Sigurðsson en hann hefur mikla reynslu af nýsköpun og stuðningi við skapandi verkefni. Hann er einn stofnenda hópfjármögnunarfyrirtækisins Karolina fund. Hann stofnaði einnig Klapp samvinnufélag, sem styður við grasrótarstarf í kvikmyndagerð og unnið sjálfstætt í menningar- og tækniverkefnum.

Arnhildur Lilý Karlsdóttir hefur verið hefur verið ráðin þjónustufulltrúi hjá Blábankanum en hún er mikil áhugamanneskja um bókmenntir og listir en hún er bókmenntafræðingur að mennt. Síðustu ár hefur hún starfað við verkefnastjórnun og hefur jafnframt langa reynslu af þjónstustörfum. Arnhildur Lilý er einnig jógakennari og hefur kennt um árabil bæði slökunarjóga og kundalini jóga.

Blábankinn er afrakstur samtals milli Nýsköpunarmiðstöðvar, Ísafjarðarbæjar, Landsbankans og einkaaðila, honum er ætlað að vera vettvangur til að veita og þróa þjónustu fyrir íbúa svæðisins og gefa þeim og gestum þeirra tækifæri til að hittast, læra, uppgötva, skapa og vinna saman.

Formleg opnun bankans er áformuð 20.september.

bryndis@bb.is

Vestri á þrjá í æfingahóp U16

Hilmir, Egill og Hugi kampakátir. Myndi: vestri.is

Þeir Egill Fjölnisson og bræðurnir Hilmir og Hugi Hallgrímssynir hafa verið valdir í 35 manna æfingahóp U16 landsliðs drengja í körfuknattleik. Það er okkur í fersku minni þegar þremenningarnir hömpuðu, ásamt félögum sínum í 9. flokki, bikarmeistaratitli í vetur og unnu sig einnig upp í A-riðil Íslandsmótsins í vor.

U16 ára landslið drengja tekur þátt í tveimur verkefnum næsta sumar, hið fyrra er Norðurlandamót í Finnlandi í júní og hið síðara Evrópukeppni sem fram fer í ágúst. Hópurinn kemur til æfinga nú í ágúst en æfir svo ekki að nýju fyrr en í desember. Síðla vetrar verður svo 12 manna landslið valið.

Nánar má lesa um þetta á heimasíðu Vestra.

bryndis@bb.is

Heimildarmynd um Act alone

Á mánudagskvöld mun RUV sýna heimildarmynd um einleikjahátíðina Act alone og hefst hún kl. 22:20. Það er Baldur Páll Hólmgeirsson sem framleiðir og leikstýrir myndinni. Á vef RUV er myndinni lýst svona „Við skyggnumst á bak við tjöldin og fylgjumst með aðstandendum við undirbúning hátíðarinnar.  Einnig eru sýnd brot úr einleikjum og rætt við flytjendur og gesti.

Á vefsíðu Act alone má nálgast glæsilega dagskrá hátíðarinnar sem að þessu sinni er haldin 10-12 ágúst. Á bb.is var á dögunum frétt um hátíðina og þar má sjá myndir frá hátíðinni undanfarin ár.

Það er ástæða til að óska Elfar Loga og hans samstarfsfólki til hamingju með þessa verðskulduðu athygli sem hátíðin fær en talsverður barningur hefur verið að fjármagna hana.

bryndis@bb.is

 

Nýjustu fréttir