Síða 2150

Áfram lítið atvinnuleysi

Skráð at­vinnu­leysi í sein­asta mánuði var nán­ast hið sama og í júlí eða 1,9% og jókst aðeins um 0,1 pró­sentu­stig milli mánaða skv. nýbirtri skýrslu Vinnu­mála­stofn­un­ar. Í sama mánuði í fyrra mæld­ist 2% at­vinnu­leysi á vinnu­markaði. Sér­fræðing­ar Vinnu­mála­stofn­un­ar gera ráð fyr­ir að at­vinnu­leysi í sept­em­ber­mánuði verði á bil­inu 1,7- 1,9% í sept­em­ber.

Að jafnaði voru 3.519 at­vinnu­laus­ir ein­stak­ling­ar á skrá í ág­úst. Af þeim hafa 847 verið án at­vinnu í meira en 12 mánuði og hef­ur þeim fækkað um 126 frá sama mánuði í fyrra þegar þeir voru 973.

smari@bb.is

ADHD spila í Edinborg

ADHD flokkurinn er öllum jazzgeggjurum vel kunnur eftir ríkulegt framlag hans til íslenskrar jazzsenu í hartnær áratug. Kvartettinn er skipaður sannkölluðum landsliðsmönnum, bræðrunum Ómari og Óskari Guðjónssonu, Davíð Þór Jónssyni og Magnúsi Tryggvasyni Eliassen. Á morgun ætla fjórmenningarnir að heiðra Ísfirðinga og nærsveitunga með ljúfum tónum á tónleikum í Edinborgarhúsinu.

ADHD  hefur frá stofnun gefið út sex plötur. Sú sjötta og nýjasta, ADHD6, kom út síðasta haust á geisladisk og svo var hún gefin út á vínylplötu nú í vor. ADHD-liðar hafa verið duglegir við tónleikahald erlendis undanfarin ár en ekki eins duglegir að spila heima á Íslandi.

Tónleikarnir hefjast klukkan 21 og miðaverð er 3.000 kr. og 2.500 kr. fyrir eldri borgara og nema.

smari@bb.is

Vestri hólpinn

Leikmenn Vestra og Magna óska hverjum öðru til hamingju í leikslok.

Það brutust út fagnaðarlæti þegar blásið var til leiksloka í leik Vestra og Magna, en liðin mættust á laugardaginn á heimavelli Magna á Grenivík. Bjartsýnustu stuðningsmenn Vestra bjuggust ekki við þeim stjörnuleik sem liðið sýndi gegn feiköflugu liðið Magna sem ætlaði að tryggja sér sæti í 1. deildinni á næsta ári með sigri á heimavelli. Leikurinn var engu síður mikilvægur fyrir Vestramenn sem voru að berjast við falldrauginn sem hefur herjað á liðið síðustu vikur. Lið Vestra var að mestu skipað heimamönnum, en sjö byrjunarliðsmenn eru uppaldir hjá Vestra.

Ekki voru nema sex mínútur liðnar af leiknum þegar Michael Saul Halpin kom Vestra yfir og staðan í leikhléi var 1-0 fyrir Vestra. Á 53. mínútu var brotið á Pétri Bjarnasyni í vítateig Magna og Vestri fékk víti sem Pétur skoraði sjálfur úr. Boltinn söng í netinu eftir örugga spyrnu Péturs og barst aftur út í teig og markaskorarinn fagnaði með því að sparka í boltann. Dómari leiksins var af smásmugulegu gerðinni og fann sig knúinn til að þakka Pétri fyrir með því að gefa honum gult spjald. Það reyndist vera annað gula spjaldið hans í leiknum og því fauk hann út af á sömu mínútu og hann skoraði eitt af mikilvægari mörkum í sögu Vestra.

Þrátt fyrir að vera manni færri létu Vestramenn árar ekki í bát og á 64. mínútu var Michael Saul Halpin aftur á ferð með sitt annað mark og þriðja mark Vestra og staðan orðin 0-3. Victor Da Costa klóraði í bakkann fyrir heimamenn á 72. mínútu, en fleiri urðu mörkin ekki og Vestri landaði glæsilegum sigri og hafði falldrauginn undir þegar ein umferð er eftir.

Magnamenn voru ekki síður kátir að leikslokum, því úrslit annarra leikja höguðu því þannig að þrátt fyrir tap gegn Vestra fara Grenvíkingarnir upp um deild ásamt meisturunum í Njarðvík og spila í 1. deild á næsta ári.

smari@bb.is

 

 

 

Brugðist við erfiðri stöðu.

F.v. Helga Björt Möller tónlistar- og útvistarráðherra, Ásgerður Þorleifsdóttir ráðherra tísku og frjálsra viðskipta, Arna Lára Jónsdóttir fjárveitingaráðherra, Katrín Pálsdóttir afreksmannaráðherra, Heiða ferðalagaráðherra, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir afþreyingarráðherra, Þórdís Sif Sigurðardóttir veislumálaráðherra, og Ólöf Dómhildur ráðherra menningar og lista. Á myndina vantar Nanný Örnu Guðmundsdóttir forseta, Hafdísi Gunnarsdóttir fossa- og laxamálaráðherra, Höllu Míu upplýsingaráðherra og Elínu Mörtu Eiríksdóttur framkvæmdamálaráðherra.

F.v. Helga Björt Möller tónlistar- og útvistarráðherra, Ásgerður Þorleifsdóttir ráðherra tísku og frjálsra viðskipta, Arna Lára Jónsdóttir fjárveitingaráðherra, Katrín Pálsdóttir afreksmannaráðherra, Heiða ferðalagaráðherra, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir afþreyingarráðherra, Þórdís Sif Sigurðardóttir veislumálaráðherra, og Ólöf Dómhildur ráðherra menningar og lista. Á myndina vantar Nanný Örnu Guðmundsdóttir forseta, Hafdísi Gunnarsdóttir fossa- og laxamálaráðherra, Höllu Míu upplýsingaráðherra og Elínu Mörtu Eiríksdóttur framkvæmdamálaráðherra.

 

Þegar neyðin er stærst, er hjálpin næst. Afrekskvennahópurinn Gullrillurnar héldu neyðarfund í hádeginu vegna ástandsins í þjóðfélaginu og gangast við ábyrgð sinni. Hafa þær stillt upp ríkisstjórn sem mun taka við um leið og færi gefst.

Þær sendu frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

Eftir fjölmargar áskoranir höfum við ákveðið að gangast við þeirri ábyrgð og trausti sem okkur hefur verið sýnd og mynda nýja ríkisstjórn. Ljóst má þykja að við munum gera veigamiklar breytingar á verkefnum og verkaskiptingu ríkisstjórnarinnar til hins betra.

Ný ráðuneyti verða stofnuð og önnur lögð niður. Erum á fullu að skipta bittlingunum á milli okkar. 

Nanný Arna Guðmundsdóttir verður að sjálfsögðu nýr forseti enda með mikla reynslu, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir hefur samþykkt að verða nýr afþreyingaráðherra. Leitað verður til Hafdísar Gunnarsdóttur að taka að sér nýtt embætti laxeldis-og drykkjumála, Ólöf Dómhildur mun sinna menningu og listum, Heiða er nýr ferðalagaráðherra, Katrín Pálsdóttir verður afreksmálaráðherra, Þórdís Sif Sigurðardóttir mun verða veislumálaráðherra og sjá um einhverja pappírsvinnu nýrrar ríkisstjórnar, Arna Lára Jónsdóttir tekur að sér það vandasama verk fjárveitingaráðherra, Helga Björt Möller verður tónlistar- og útivistarráðherra, Ásgerður Þorleifsdóttir verður ráðherra tísku og frjálsra viðskipta. Halla Mia verður upplýsingaráherra og til að stýra heila klabbinu ætlar Elín Marta Eiríksdóttir að taka að sér verkstjórn og verður nýr framkvæmdaráðherra.

Þessi ríkisstjórn lofar eintómri gleði og hamingju.

bryndis@bb.is

Þurfa að eiga stjörnuleik

Mynd úr safni.

Vestri leikur sinn síðasta útileik á morgun þegar liðið fer norður í land og mætir Magna á Grenivík. Eyfirðingarnir hafa verið á mikilli siglingu í deildinni, eru í öðru sæti deildarinnar og langt komnir með að tryggja sæti í 1. deildinni á næsta ári. Vestramenn eru hins vegar að berjast fyrir tilveru sinni í 2. deild og ljóst að liðið þarf að eiga stjörnuleik á morgun ætli þeir að ná í stig gegn Magna. Lokaleikur liðsins er á laugardag eftir viku þegar Höttur frá Egilstöðum kemur til Ísafjarðar, en Höttur líkt og Vestri er í fallbaráttu.

smari@bb.is

Skaginn 3X verðlaunaður

Starfsstöð Skagans 3X á Ísafirði.

Einn af föstum liðum á Íslensku sávarútvegssýningu sem var haldin í Kópavogi í vikunni er afhending sjávarútvegsverðlaunanna. Hið hálfísfirska fyrirtæki Skaginn 3X hlaut verðlaun að þessu sinni fyrir framlag sitt til verðmætasköpunar í fiskvinnslu, en fyrirtækið hefur á síðustu árum komið með margar byltingakenndar nýjungar á því sviði. Verðlaunin sem Skaginn 3X fékk eru veitt fyrirtækjum sem teljast til alþjóðlegra stórfyrirtækja.

smari@bb.is

Mannlegar tilhneigingar til nýtingar og verndunar – Borgarafundur á Vestfjörðum 24. september.

Gísli Halldór Halldórsson.

Blásið hefur verið til borgarafundar á Vestfjörðum sunnudaginn 24. september næstkomandi. Umræðan verður um sjálfbæra þróun með hliðsjón af laxeldi við Ísafjarðardjúp, vegagerð um Teigskóg og virkjun Hvalár á Ströndum. Meðal annarra munu mæta þarna ráðherrar úr ríkisstjórn. Fjórðungssamband Vestfirðinga sér um skipulag fundarins, enda er þetta borgarafundur allra sveitarfélaga á Vestfjörðum og alveg sérstaklega er þetta borgarafundur íbúanna. Vestfirðingar munu án efa fjölmenna á fundinn og vonast ég til að þeim verði boðið að senda inn spurningar í aðdraganda fundarins, sem leggja má fyrir ráðamenn og aðra sem sitja fyrir svörum.

Réttur mannsins

Réttur manna til að nýta náttúruna andspænis rétti þeirra sem vilja vernda hana er eitthvað sem hlýtur að þurfa að ræða betur í íslensku samfélagi. Slík umræða getur vonandi orðið grunnur að raunhæfri stefnu um sjálfbæra þróun samfélagsins til næstu framtíðar.

Öll getum við verið í hvorum hópnum sem er – í hópi sem vill vernda í einu máli en svo verið í hópi þeirra sem vilja nýta í öðru máli. Hér má taka dæmi af íbúum við Ísafjarðardjúp – fjölmargir þeirra sem vilja laxeldi í Djúpinu vilja ekki sjá laxeldi í Jökulfjörðum. Sumir vilja laxeldi í Djúpinu en eru á móti Hvalárvirkjun. Þetta getur verið með ýmsum hætti og okkur vantar lausnir sem taka tillit til fleiri sjónarmiða en náttúruverndar eða peningahagsmuna. Slíkar lausnir eru þekktar og nýttar erlendis.

Vissulega brenna ofangreind mál þungt á flestum Vestfirðingum enda virðast hagsmunir þeirra oft metnir lítilvægir í samanburði við hagsmuni þeirra sem vilja halda því óbreyttu sem fyrir er. Þrátt fyrir að búast megi við erfiðum spurningum á borgarafundinum þá er það von mín að umræðan geti orðið á skynsamlegum og skemmtilegum nótum og fært okkur nær lausn á þeim álitamálum sem kristallast í deilunum um Ísafjarðardjúp, Teigskóg og Hvalá.

Mannlegar tilhneigingar til að vernda náttúruna

Umhverfisvernd og náttúruvernd hefur sótt í sig veðrið á síðustu áratugum. Annarsvegar er það manninum nauðsyn að ganga um umhverfi sitt á þann hátt að hann spilli ekki eigin möguleikum til að komast lífs af. Þetta sjónarmið er þekkt frá örófi alda en hefur líklega aldrei verið mikilvægara en í dag, þegar óheyrileg kolefnislosun stefnir í að valda hamförum í loftslagsmálum. Á hinn bóginn er svo um að ræða sjónarmið manna um að vernda náttúruna eða halda henni óbreyttri, ýmist til að njóta fegurðar hennar eða varðveita fjölbreytni hennar.

Réttur mannsins til að vernda náttúruna getur þó ekki talist göfugri en réttur mannsins til að nýta hana. Bæði sjónarmið eru mannleg og eiga fullan rétt á sér – en í mörgum málum þarf annað sjónarmiðið að víkja eða láta undan hinu.

Hvernig skal dæma með trúverðugum hætti?

Til að vega og meta það hvort sjónarmiðið á að víkja þurfum við aðferðir á borð við rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Ásamt fjölmörgu fólki um allt land fékk ég góða kynningu á vinnuaðferðum við rammaáætlun, sem Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur flutti með ákaflega skýrum hætti. Fjöldi sjónarmiða, á borð við vernd náttúru og fornminja, voru þar vegin og metin mjög ítarlega þannig að sómi sýndist af. Þetta sýndist trúverðugt.

Þegar birkið í Teigskógi og vestfirska náttúran þar um slóðir dæmast svo sérstök – fyrir það að vera vestfirskt náttúra – að hagsmunir Vestfirðinga af nútímalegum vegasamgöngum skipta ekki máli, þá hljómar það eins og falskur tónn. Út um víða Vestfirði má finna sambærilega birkiskóga og náttúru með ýmsum tilbrigðum – Ísafjarðardjúp og Arnarfjörður skarta t.d. fallegum slíkum skógum og Barðaströndin öll er ægifögur. Það er heldur ekki eins og Teigskógi og nágrenni verði eytt – það verður aðeins lagður vegur um svæðið. Þetta mat á merkilegheitum Teigskógar sýnist ekki trúverðugt.

Þegar talað er um „sérstaka erfðahópa“ og „stofna“ í ánum í Ísafjarðardjúpi, Laugardalsá annarsvegar og Langadalsá/Hvanná hinsvegar, þá setur menn auðvitað hljóða í djúpri lotningu. Þegar litið er til þess að árnar hafa verið ræktaðar upp á liðinni öld frá því að vera laxalausar þá renna hinsvegar á menn tvær grímur. Þessir „sérstöku erfðahópar“ eru varla annað en „fjölskyldur“ laxa – ein fjölskylda í hverri á. Það er einmitt eitt af því sem skilgreinir laxinn, að hann sækir í sömu ána og myndar því sérstaka fjölskyldu eða ætt. Það er sjálfsagt að vernda með einhverjum hætti rétt þeirra og starf, sem hafa ræktað upp árnar, en að kalla það náttúruvernd – sama hvaða vísindamaður segir það – er hreinlega ekki trúverðugt.

Mat á samfélagslegum áhrifum

Það sem virðist skorta mjög í umfjöllun um ýmis stórverkefni á Íslandi er mat á samfélagslegum áhrifum – og þá er ekki verið að tala um efnahagsleg áhrif. Það sem um er að ræða eru þættir eins og: Hvernig munu verkefni hafa áhrif á daglegt líf samfélags, hvernig fólkið lifir, vinnur, leikur sér og á í samskiptum; hvaða áhrif hefur það á sameiginleg gildi, siði og tungutak; áhrif á samheldni samfélags, stöðugleika þess, karakter, þjónustu og aðstöðu; áhrif á möguleika fólks til að koma að ákvörðunum sem varða líf þess og störf, lýðræðisferla og tengd úrræði; áhrif á gæði umhverfis samfélagsins s.s. andrúmsloft og vatnsgæði, gæði matar, áhættuþætti, hávaða, hreinlæti og líkamlegt öryggi og aðgengi íbúanna og stjórn á eigin úrræðum og auðlindum; áhrif á heilsu og velferð, hvort heldur er líkamlega, geðrænt, félagslega eða andlega velferð; áhrif á persónuréttindi og eignarrétt, sér í lagi efnahagsleg áhrif og áhrif á borgaraleg réttindi; áhrif á langanir og ótta, svo sem um öryggi og framtíð samfélagsins og barna þeirra.

Við hefðbundið mat á umhverfisáhrifum kemur líklega út sú niðurstaða að gott og gilt sé að hefja laxeldi í Jökulfjörðum, en þegar samfélagsleg áhrif eru metin í víðu samhengi kann að fást önnur niðurstaða. Í hefðbundnu umhverfismati hefur álit íbúa á gildi Jökulfjarða, fegurð þeirra og friðsæld lítið vægi – á sama hátt og mat margra á fallegum fossum vegur lítið í virkjun Hvalár. Hefur svo sem einhver kannað hvaða áhrif stóraukinn ferðamannastraumur um landið hefur á hin ýmsu samfélög og lífshætti þeirra? Hefur stjórnvöldum nokkurn tíma þótt ástæða til að taka raunverulega á þeim neikvæðu samfélagslegu áhrifum sem núverandi fyrirkomulag kvótakerfisins hefur í för með sér?

Ef ekki verður í framtíðinni lögð meiri áhersla á mat á samfélagslegum áhrifum framkvæmda og fyrirætlana er hætt við að deilur um þær haldi áfram að vera erfiðar viðureignar og endanleg áhrif jafnvel slæm og afdrifarík. Það er því mikilvægt að finna þessum málum ábyrgari farveg.

Hitamál

Því miður leiðist umræða um ofangreind álitamál fljótt út í rökþrot og vitleysu. Kastað er á loft smjörklípum og ýmsum ósannindum – enda er nóg af tröllasögum og kjaftæði á internetinu til að skemmta skrattanum. Vera má að einhver á Vestfjörðum eða annarsstaðar láti plata sig þegar spennandi tækifæri bjóðast, en Vestfirðingar eru að jafnaði álíka skynsamir og annað fólk – ekkert vitlausari og ekkert klárari.

Glöggt er gests augað og sjálfsagt að hlusta með gagnrýnum hætti á ábendingar þeirra sem að utan koma. Þeir sem búa á vettvangi atburða eru hinsvegar alltaf líklegir til að hafa fleiri sjónarmið heldur en þeir sem búa utan vettvangs – sjónarmið íbúa á vettvangi ættu jafnframt oftast að hafa mest vægi í þeim tilfellum sem þeir verða fyrir mestum áhrifum. Það er m.a. af þessum sökum sem skipulag strandsvæða ætti að vera á forræði heimamanna, auðvitað með sama eftirliti opinberra aðila og almennt gildir um skipulagsmál. Í því lagafrumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi um skipulag haf- og strandsvæða er þó ekki gætt að þessum sjónarmiðum.

Vonandi verður umræðan á vestfirska borgarafundinum uppbyggileg og til gagns. Vonandi verða svo sjónarmið heimamanna látin vega þyngra í framtíðinni en verið hefur í fortíðinni.

Gísli Halldór Halldórsson

Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar

Spáir spennandi viðureign

Hið gáskafulla lið sem Ísafjarðarbær teflir fram í kvöld.

Þrátt fyrir stórar vendingar á hinu pólitíska sviði heldur lífið áfram sinn vanagang og ekkert er hefðbundnara á föstudagskvöldi en að setjast niður fyrir framan sjónvarpið með Pepsi Max og fulla skál af snakki og fylgjast með Útsvarinu. Í kvöld mætast Ísafjarðarbær og Flóahreppur. „Við hlökkum til og þökkum stuðninginn sem við höfum fundið fyrir. Nýtt form þáttarins þýðir að við rennum dálítið blint í sjóinn en vonumst til að vera áfram velkomin heim ef svo fer að við töpum,“ segir Tinna Ólafsdóttir sem er í liði Ísafjarðarbæjar ásamt Gylfa Ólafssyni og Greipi Gíslasyni. Útsending hefst kl. 20.30.

„Við höfum heyrt að Flóamenn tefli fram firnasterku liði þannig að þetta verður spennandi viðureign,“ segir Tinna.

smari@bb.is

Hringtenging eftir mannsaldur

Pétur Húni Björnsson

Pétur Húni Björnsson stjórnarmaður í Rjúkandi kveður sér hljóðs með aðsendri grein á bb.is í dag, kveikjan er grein Gunnars Gauks Magnússonar á bb.is í gær.

Pétur bendir á að í ársreikningi HS orku sé talað um „yfirtöku Vesturverks“ og gefur lítið út að Vesturverk hafi eitthvert sjálfstæði gagnvart HS orku sem á 70% í Vesturverki. Hann dregur líka í ef að HS orka leggi í tugmilljarða uppbyggingu án þess að vita hvert raforkan fer.

Pétur segir að Hvalárvirkjun muni nánast í engu breyta fyrir raforkuöryggi Vestfjarða enda fari raforka frá virkjuninn koma inn á kerfið austan Kollafjarðar en flestar bilanir séu á línunni norðan Mjólkárvirkjunar. Hvalárvirkjun bæti ekki afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum nema hún sé tengd beint til Súðavíkur eða Ísafjarðar. Pétur telur að „hringtenging Vestfjarða verði ekki að veruleika fyrr en í fyrsta lagi eftir mannsaldur eða svo.“

bryndis@bb.is

Hafa skal það sem sannara reynist

Pétur Húni Björnsson

Gunnar Gaukur Magnússon framkvæmdastjóri Vesturverks, dótturfélags HS Orku, skrifar grein í Bæjarins besta um Hvalárvirkjun og tyggur þar enn og aftur sömu tuggurnar sem sífellt er haldið fram um fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir í Ófeigsfirði og Eyvindarfirði en svarar í raun engum þeirra spurninga sem brýnast er að svara.

Nýtingarflokkur Rammaáætlunar er ekki virkjanaleyfi

Gunnar byrjar á að nefna að Hvalárvirkjun hafi verið í nýtingarflokki Rammaáætlunar um langt skeið. Rétt er að hún var sett í nýtingarflokk 2. áfanga Rammaáætlunar með þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 14. janúar 2013. Hún hefur semsagt verið í nýtingarflokki í rúm fjögur ár, og var í raun sett í nýtingarflokk þvert á matið sem verkefnastjórn 2. áfanga lagði fram, því virkjankosturinn er verulega óhagkvæmur vegna mjög hás tengikostnaðar.

Þetta hef ég þegar rakið í grein á vef Rjúkanda og Gunnar bætir þar engu við en ýjar að því að nýtingarflokkur rammaáætlunar sé endanlegt leyfi eða vottun.

Ekki HS Orku að selja raforkuna?

Gunnar talar um að framkvæmdaaðilinn sé Vesturverk og að það sé ekki HS Orku að selja raforkuna frá Hvalárvirkjun. Hann nefnir þó að Vesturverk sé dótturfyrirtæki HS Orku, og hver sem vill kynna sér það getur séð, t.d. á ársskýrslu HS Orku að Vesturverk er í 70% eigu HS Orku, og er ekki gert upp sjálfstætt heldur í samstæðureikningi HS Orku og HS Orka ræðir um alla virkjanakosti Vesturverks sem sína eigin. Reyndar er í ársreikningi HS Orku talað um „yfirtöku Vesturverks“, og segir það kannski sitt um sjálfstæði Vesturverks gagnvart HS Orku.

Ég held að enginn trúi því að HS Orka ætli að leggja í tugmilljarða uppbyggingu sem tekur þrjú og hálft ár án þess að vita hvert raforkan fer, eða ætli sér ekki að skipta sér af orkusölunni. Við megum í það minnsta ekki fá að vita hvert orkan á að fara.

Óbreytt raforkuöryggi og engin hringtenging

Gunnar ræðir um skort á afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum sem röksemd með Hvalárvirkjun. Hann tínir til tölfræði um truflanir frá Orkubúi Vestfjarða þar sem fram kemur að á síðasta ári urðu 225 truflanir á raforkukerfi Vestfjarða, þar af 150 fyrivaralausar truflanir, og að árið 2015 hafi truflanirnar verið 205 og þar af sjö truflanir sem stóðu yfir lengur en 72 klukkustundir.

Allt er þetta satt og rétt og til verulegs tjóns og óhagræðis fyrir Vestfirðinga. En vandinn við þessa röksemd er að Hvalárvirkjun tekur nánast ekki neitt á þessum vanda.

Gunnar segir að Hvalárvirkjun muni auka raforkuöryggi til muna þar sem hún muni geta mætt orkuþörf Vestfjarða þegar bilanir verða austan Kollafjarðar. Hversu margar af þessum 225 truflunum á síðasta ári urðu vegna bilana í línum frá Hrútatungu í Kollafjörð? Öllum sem kynna sér raforkukerfi Vestfjarða er augljóst að vandinn liggur ekki þar heldur í línum norðan Mjólkárvirkjunar, og það leysir engan vanda að hlaða meiri raforku á línuna sunnan hennar. Ef Hvalárvirkjun á að bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum þarf að tengja hana beint til Súðavíkur eða Ísafjarðar, en ekki við Mjólkárlínu í Kollafirði.

Gunnar talar einnig um að þegar hringtengingu Vestfjarða lýkur með línum frá nýjum afhendingarstað á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi verði hægt að flytja orku frá virkjuninni í báðar áttir, þ.e. um Kollafjörð eða út Ísafjarðardjúp. Eins og staðan er í dag liggja engin skýr áform fyrir um að ljúka hringtenginu raforkukerfis Vestfjarða með háspennulínu út Djúp. Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkur og formaður Fjórðungssambands Vestfjarða, hefur talað um í grein í Stundinni að forsendur hringtengingarinnar séu virkjun í Austurgili í Skjaldfannardal, Skúfnavatnavirkjun, Hvanneyrardalsvirkjun og Hest- og Skötufjarðarvirkjun. Það má því ljóst vera að hringtenging verður ekki að veruleika fyrr en í fyrsta lagi eftir mannsaldur eða svo.

Þetta hef ég þegar rætt í þaula í grein á vef Rjúkanda sem má lesa hér.

Margföld olíubrennsla

Gunnar tiltekur olíubrennslu til orkuframleiðslu og húshitunar sem röksemd með Hvalárvirkjun. Eins og fyrr var nefnt tekur tenging Hvalárvirkjunar við Mjólkárlínu austan Mjólkárvirkjunar ekki á neinum þeim vanda í raforkumálum sem kallar á olíubrennslu á Vestfjörðum.

Ef marka má svör Gunnars sjálfs um hve mikla olíu þurfi að nota við keyrslu ljósavéla og stórvirkra vinnuvéla meðan á framkvæmdum við virkjanir í Ófeigsfirði og Eyvindarvirði stendur, en hann var spurður að því á málþinginu Arfleifð Árneshrepps, má áætla að 10 milljón lítrar af olíu verði brennd. Líklega mætti keyra varaaflstöðvar Vestfjarða í nokkra áratugi á þeim olíuforða, miðað við keyrslu þeirra undanfarin ár.

Hugsanlega mætti færa rök fyrir því að brennsla 10 milljón lítra af olíu í Ófeigsfirði á þremur og hálfu ári geti verið réttlætanleg ef það leiddi til þess að olíubrennsla til orkuöflunar og húshitunar á Vestfjörðum væri úr sögunni, en svo er ekki. Gera má ráð fyrir að allar varaflstöðvarnar verði áfram á sínum stað og ekkert sem bendir til annars en að keyrsla þeirra á næstu árum verði í líkingu við það sem verið hefur hingað til.

Þessir 10 milljón lítrar eru því hrein viðbót við fullkomlega óviðunandi og ósækilega olíubrennslu á Vestfjörðum. Pétur G. Markan talaði um í Stundinni að olíubrennslan í varaaflsstöðvunum væri í blóra við Parísarsamkomulagið. Hvað má þá segja um að bæta við bruna á 10 milljón lítrum á þremur og hálfu ári?

Er vilji íbúa Árneshrepps skýr?

Gunnar vísar til íbúaþings sem haldið var með örskömmum fyrirvara í Árneshreppi mánudaginn 12. og þriðjudaginn 13. júni sl. og segir að samkvæmt niðurstöðum þess sé vilji íbúa Árneshrepps til að Hvalárvirkjun verði reist skýr. Þar má segja að Gunnar hrapi að ályktunum.

Tímasetning íbúaþingsins og skammur fyrirvari gerði það að verkum að mun færri komust á þingið en vildu, enda bændur í sveitinni önnum kafnir í sauðburði og að sinna æðavarpi og áttu alls ekki heimangengt, þar á meðal þrír af fimm fulltrúum í sveitarstjórn Árneshrepps. Fólk sem málið varðar og búsett er utan hreppsins átti einnig erfitt með að koma, enda þingið haldið á tveimur virkum dögum.

Íbúaþingið var því klaufalega tímasett – nema það hafi verið af ráðnum hug – og niðurstaða þess enginn endanlegur dómur um skoðanir íbúa Árneshrepps á virkjanaframkvæmdunum frekar en að skýr andstaða heimamanna sem töluðu á málþinginu Arfleifð Árneshrepps, sem haldið var í Árneshreppi hálfum mánuði síðar, geti talist vera það.

Gunnar nefnir einnig að með Hvalárvirkjun verði ráðist í innviðauppbyggingu á Vestfjörðum og ekki síst í Árneshreppi. Innviðirnir sem þarna eru nefndir reynast vera tengivirki og háspennulínur sem Landsnet reisir til að tengigjöld HS Orku vegna tengingar virkjunarinnar við Mjólkárlínu verði hagkvæmari. Ekki er hægt að koma auga á annað sem getur kallast innviðauppbygging, sama hve vel er rýnt í gögnin.

Hvað varðar innviðauppbyggingu í Árneshreppi er ekkert í hendi. Fulltrúar HS Orku/Vesturverks mættu á íbúaþingið í lok þess og lofuðu íbúum ýmsum úrbótum og hafa sent sveitarstjórn erindi þar sem ýmiskonar uppbyggingu innan hreppsins er lofað og fulltrúi HS Orku á málþinginu Arfleifð Árneshrepps ræddi þetta einnig. Reyndar er þetta allt í boði gegn því að virkjanaleyfi fáist. Ég eftirlæt lesendum að ráða í hvað slík skilyrt loforð mættu kallast.

Ófærar samböngubætur

Í grein sinni segir Gunnar: „Samgöngumál er eitt brýnasta mál íbúa í Árneshreppi. Vesturverk hyggst endurbæta núverandi veg frá Norðurfirði að Hvalárósi. Fyrir liggja drög að samkomulagi við Vegagerðina þar um. Vegur mun verða lagður samhliða jarðstreng milli Ófeigsfjarðar og Ísafjarðardjúps um Ófeigsfjarðarheiði. Með veginum verða miklar samgöngubætur við Árneshrepp sem eru til þess fallnar að hafa jákvæð áhrif á ferðamennsku í hreppnum og samgöngur við Vestfirði.“

Það má teljast ósvífið að nota vegabætur sem röksemd fyrir framkvæmdunum. Þar er verið að nota einmitt það sem hefur brunnið einna heitast á íbúum hreppsins undanfarna áratugi – stopular samgöngur vegna lélegs ástands vega og ónógs snjómoksturs á vetrum.

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna er vitnað í matsskýrslu Verkís þar sem fram kemur um veginn um Ingólfsfjörð í Ófeigsfjörð: „Ekki er gert ráð fyrir að vegurinn muni uppfylla staðla Vegagerðarinnar og ekki verði lagt bundið slitlag á hann“. Og um línuveginn er sagt að „[l]eggja þurfi vegslóða meðfram strengleið eða loftlínum“ og síðar „[í] báðum tilfellum mun slóði fylgja línuleiðinni en hann muni ekki verða uppbyggður og því fylgja landinu.“

Sem sagt: Vegurinn sem íbúar Árneshrepps hafa kvartað undan árum saman mun lengjast til norðurs og mun ekki uppfylla staðla Vegagerðarinnar. Hann mun svo tengjast óuppbyggðum vegslóða sem liggur með landslaginu yfir Ófeigsfjarðarheiði og yfir í Djúp. Það þarf að teygja sig ansi langt í túlkunum til þess að geta leyft sér að kalla vegslóða sem verður undir snjó 9 mánuði á ári og mun ekki njóta neinnar þjónustu Vegagerðarinnar samgöngubætur.

Loforð og efndir

Vestfirðir þurfa sárlega á því að halda að fá raunverulegar bætur í afhendingaröryggi raforku á svæðinu og Árneshreppur þarf á úrræðum að halda, í samgöngumálum, sköpun atvinnutækifæra og viðgangi samfélagsins í hreppnum.

Ekkert í ráðagerðum HS Orku bendir til þess að afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum skáni svo nokkru nemi og framkvæmdirnar koma ekki á hringtengingu raforkukerfis Vestfjarða auk þess sem olíubrennsla á Vestfjörðum mun margfaldast á framkvæmdatímanum.

Ef af framkvæmdunum verður mun Árneshreppur verða undirlagður af akstri stórvirkra vinnuvéla stöðugt í þrjú og hálft ár en mun eflaust njóta einhvers fjárhagslegs ávinnings af þeirri þenslu sem framkvæmdirnar valda. Virkjunin sjálf á hins vegar ekki að skapa nein störf og hverfandi líkur eru á því að vinnuflokkar þeir sem dvelja í Ófeigsfirði og á Ófeigsfjarðarheiði muni leggja nokkuð til mannlífsins í hreppnum eða kjósi að dvelja þar áfram að framkvæmdum loknum.

Hugsanlega verður Finnbogastaðaskóli klæddur að utan á kostnað HS Orku, með þriggja fasa rafmagn og blússandi ljósleiðaratengingu, en óvíst hvort þar verði nokkur börn við nám.

Pétur Húni Björnsson

Stjórnarmaður í Rjúkanda

 

Nýjustu fréttir