Miðvikudagur 15. janúar 2025
Síða 2149

Sérstök reglugerð fyrir vinnuskip sjókvíaeldisstöðva

Dýrfiskur, vinnuskip Arctic Fish

Drög að reglugerð um áhafnir vinnuskipa sjókvíaeldisstöðva eru nú til umsagnar hjá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Reglugerðardrögin eru samin í framhaldi af breytingum sem umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis lagði til á lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, með síðari breytingum, nr. 30/2007. Fólust þær meðal annars í breytingu á kröfum sem gerðar eru til mönnunar vinnuskipa sjókvíaeldisstöðva.

Áhafnalög gera ráð fyrir að ef um tvær aðalvélar er að ræða í skipi, eins og er í mörgum tilfellum lóðs- og dráttarskipa, sökum eðlis þeirra, þá er vélarafl þeirra lagt saman. Að hafa tvær vélar með tveimur skrúfum er æskilegt fyrir stjórnhæfi þessara skipa og er til mikilla bóta við vinnu þeirra, eykur verulega öryggi enda skiptir stjórnhæfi og snerpa öllu máli í vinnu lóðs- og dráttarskipa. Þá segir að um sé að ræða skip sem sinna afmörkuðum verkefnum um stuttar vegalengdir á takmörkuðu farsviði. Í starfi skipstjóra á slíkum vinnuskipum felst að sigla til og frá kvíum, viðhald myndavélabúnaðar, viðhald fóðurlagna, eftirlit með festingum og að sinna almennum öryggismálum stöðvanna og starfsmanna þeirra. Fyrirtækjunum hefur reynst erfitt að manna vinnuskip eins og um úthafsskip væri að ræða.

Samkvæmt reglugerðardrögunum þarf skipstjóri á vinnuskipi sjókvíaeldisstöðva að hafa lokið smáskipanámi og hafa 12 mánaða staðfestan siglingatíma. Að því gefnu að vinnuskipið sé 15 metrar eða styttri og undir 30 brúttórúmlestum að stærð.

Hér má nálgast reglugerðardrögin og frestur til að skila athugasemdum er til 4. ágúst.

bryndis@bb.is

 

Ekki svara og ekki hringja til baka

Ekki nýr vinur heldur símaóværa

Ef hringt er úr löngu skrítnu símanúmeri, byrjar til dæmis á 881 þá er því miður ekki um að ræða nýjan vin heldur svokallaða símaóværu. Lögreglan kallar þetta svikanúmer sem gæti haft þann tilgang að hafa fé af fólki sem svarar eða hringir til baka. Ráðlagt er að svara ekki og alls ekki hringja til baka því það gæti það leitt til kostnaðarfærslu á símareikningi.

Samkvæmt upplýsingum frá Símanum er ekki vitað um viðskiptavini sem hafa orðið fyrir barðinu á óværunni og eru hugsanleg fórnarlömb hvött til að hafa samband við sína þjónustuaðila.

Snerpa sendir líka út viðvörun þar sem einhverjir viðskiptavinir þeirra hafa fengið tölvupósta um helgina þar sem þeir eru beðnir um að fara inn á ákveðna slóð og slá inn lykilorði. Beint er til þeirra sem opnuðu slóðina að skipta þegar í stað um lykilorð og hafa samband við tölvuþjónustu sína.

bryndis@bb.is

Skipstjórinn ákærður

Hvestudalur við Arnarfjörð. Mynd: Mats Wibe Lund.

Á ruv.is kemur fram að héraðssaksóknari hafi ákært skipstjóra dragnótabáts fyrir að valda almannahættu og stórfelldum eignaspjöllum. Forsaga málsins er sú að dragnótabáturinn togaði rækjutroll þvert yfir rafstreng sem lá neðansjávar yfir fjörðinn. Strengurinn slitnaði og við það fór rafmagnið af fjarskiptamastri á Laugabólsfjalli.

Öll eftirlitskerfi með skipaferðum duttu út í meira enn sólarhring og segir í ákæru að skipstjórinn hafi með þessu raskað öryggi skipa á svæðinu.

Neyðarlínan og Orkubú Vestfjarða kærðu í byrjun árs 2015 þrjá rækjuskipstjóra til lögreglu fyrir að vinna skemmdarverk á sæstrengnum, þetta kemur fram á Vísi.

Rækjusjómenn voru mjög ósáttir við sæstrenginn og sögðu hann lagðan yfir gjöful rækjumið, eins voru áhöld um hvort leyfi hefði verið gefið fyrir lagningu hans. Ólöf Guðný Valdimarsdóttir þáverandi skipulags- og byggingarfulltrúi Ísafjarðarbæjar segir í umsögn sinni um málið að ekkert formlegt leyfi hafi verið gefið út og undir það tekur Daníel Jakobsson fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, núverandi bæjarfulltrúi.

Haft er eftir Þórhalli Ólafssyni framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar og Kristjáni Haraldssyni þáverandi orkubússtjóra Orkubús Vestfjarða að þeir telji öll tilskilin leyfi hafi legið fyrir og að skipstjórarnir þrír hafi tekið lögin í sínar hendur og siglt vísvitandi á bátum sínum yfir strenginn og togað hann í sundur.

bryndis@bb.is

Ögurballið til fyrirmyndar

Mynd: Róbert Schmidt

Að sögn forsvarsmanna Ögurballsins fór það fram með miklum sóma, eilítið tusk milli ungra manna sem var stoppað í fæðingu, að sveitasið. Rabarbaragrautnum var að venju vel tekið og nóg var til handa öllum. Seldir voru um 300 miðar sem er svipað og undanfarin ár en reikna má með að um 400 manns hafi verið á svæðinu. Þau Halli og Þórunn héldu uppi stuðinu fram á rauða nótt og þó ekki hafi skinið sólin var veðrið gott.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem gestir hafa sent bb.is

bryndis@bb.is

Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða

Mynd: Matz

Um þessar mundir eru lögð drög að bókmennta– og menningarverkefninu Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða. Tilurð þess má rekja til Akurskóla Íslenskudeildar Manitóbaháskóla; sumarnámskeiðs á Vestfjörðum árin 2007–2015 sem haldið var í samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða og Hrafnseyri. Bókmenntafræðingarnir Birna Bjarnadóttir og Ingi Björn Guðnason munu kynna verkefnið, útlínur þess og velunnara.

Í tilefni af kynningu verkefnisins mun Viðar Hreinsson halda erindi um Jón lærða og skapandi náttúru. Ungi bassasöngvarinn Aron Ottó Jóhannsson mun einnig syngja fáein lög. Undirleikari er Pétur Ernir Svavarsson.

Kynningin fer fram á Hrafnseyri laugardaginn 29. júlí og hefst kl. 14:00

Verkefnisstjórar:

Dr. Birna Bjarnadóttir er fyrrum forstöðumaður Íslenskudeildar Manitóbaháskóla. Hún starfar nú sem sérfræðingur við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Háskóla Íslands, og vinnur meðal annars að ritstjórn bókarinnar Heiman og heim, greinasafns eftir innlenda og erlenda rithöfunda og fræðimenn um skáldskap og þýðingar Guðbergs Bergssonar. Hún leiðir jafnframt samstarfsverkefni lista– og fræðimanna sem ber heitið Leiðangurinn á Töfrafjallið. Hún er höfundur bóka og greina um íslenskar nútímabókmenntir sem birst hafa beggja vegna hafs.

Ingi Björn Guðnason er bókmenntafræðingur búsettur á Ísafirði. Hann hefur fjallað um íslenskar nútímabókmenntir í útvarpi, tímaritum og á vefsíðum. Ingi Björn er verkefnastjóri við Háskólasetur Vestfjarða en hefur einnig starfað sem dagskrárgerðarmaður í útvarpsþættinum Víðsjá á Rás 1 og á Gljúfrasteini – húsi skáldsins í Mosfellsdal.

Fyrirlesari:

Viðar Hreinsson er sjálfstætt starfandi bókmenntafræðingur í ReykjavíkurAkademíunni með starfsaðstöðu á á Náttúruminjasafni Íslands. Hann hefur lengi unnið að rannsóknum á íslenskri bókmennta- og menningarsögu, birt fjölda fræðigreina og ritað þrjár ævisögur. Ævisaga hans um Stephan G. Stephansson, sem einnig er til í enskri gerð, hlaut tilnefningar og verðlaun á Íslandi og vestanhafs. Undanfarin ár hefur hann rannsakað handritamenningu og starfað á sviði umhverfishugvísinda. Ný bók hans um Jón lærða, Jón lærði og náttúrur náttúrunnar er viðamesti afraksturinn af þeirri vinnu, í senn ævisaga, hugmyndasaga, vísindasaga og aldarfarslýsing.

 

12 – 20 stig

Veðurgvuðinn ætlar heldur betur að haga sér þessa vikuna og þeir sem öllu ráða á Veðurstofunni segja að hitinn á Vestfjörðum geti farið upp í 20 stig. Ekki sést rigning í kortunum svo langt sem augað eygir út vikuna heldur einungis logn og blíða, með sárt saknaðri sumarsól.

bryndis@bb.is

Skorar á læknaTómas að flytja vestur

Halla Signý Kristjánsdóttir

Halla Signý Kristjánsdóttir skrifstofu- og fjármálastjóri Bolungarvíkurkaupstaðar sendir Tómasi Guðbjartssyni eftirfarandi áskorun á facebook síðu sinni:

Ég skora á Tómas að taka slaginn með okkur og hjá okkur.
Ekki bara á sumrin heldur árið um kring,.
Okkur Vestfirðinga vantar skurðlækni, okkur vantar líka öfluga menn til að starfa í samfélaginu, taka þátt í því og berjast fyrir það í stóru og smáu.

Hér fengi hann að lifa með náttúrunni , njóta hennar og lúta henni líka .

Það gerum við vestfirðingar allt árið ekki bara í sumarfríum.
TÓMAS

Hvaða landssvæði á Íslandi stendur fremst hvað varðar ósnortið landssvæði? Svari hver fyrir sig?

Tómas taktu slaginn, ég skora á þig,

“Keppnin er þegar unnin“ segir fyrirliði mýrarboltaliðs Kerecis

Mýrarboltalið Kerecis hefur gengið frá leikmannakaupum fyrir komandi leiktíð. Um er að ræða leikmenn frá Herði, KR, Breiðabliki og FC Kareoki. Frá Herði koma Tómas Emil Guðmundsson Hansen, Axel Sveinsson, Sigurður Hannesson and Haraldur Hannesson. Frá KR Helgi Magnússon, frá Breiðabliki Guðrún Sóley Gunnarsdóttir og frá FC Kareoki Pétur Magnússon. Helgi og Guðrún eiga að baki áralangan feril í íslenska landsliðinu og mun Helgi leika á miðju og Guðrún sem framherji í liði Kerecis.

“Lið okkar er ótrúlega sterkt og býr að mikilli leikreynslu“ segir fyrirliði liðs Kerecis, Atli Þór Jakobsson og bætir við „Ég vona að þetta sterka lið okkar komi ekki í veg fyrir að lið 3X og Buddubananna mæti til leiks“.

Lið Kerecis undirbýr nú þátttöku í Evrópumótinu í Mýrarbolta sem fram fer á stór-Ísafjarðarsvæðinu um verslunarmannahelgina.

„Dómgæsla á Evrópumótinu hefur verið afburðarléleg undanfarin ár og hafa óréttmætir dómar írekað komið í veg fyrir sigur okkar. Við teljum því best að við dæmum sjálf í okkar eigin leikum og erum í viðræðum við mótsstjórn um þessa sanngjörnu kröfu.“ segir liðsstjóri liðs Kerecis Dóra Hlín Gísladóttir

bryndis@bb.is

Stroffíið var tóm vitleysa!

Mynd: visir.is

Eftir glæsilega frammistöðu íslenska landsliðsins á móti frökkum er kominn tími á undirbúning fyrir næsta leik. Það er Sviss sem við viljum að lúti í gras á morgun kl. 16:00 og liðið okkar komist í betri stöðu í riðlinum.

Þingeyrarakademín hefur löngum haft skoðanir á landsins gagni og nauðsynjum og eftir hið umdeilda víti sem dæmt var á Ísland í frakkaleiknum var kallað til neyðarfundar í akademíunni og eftirfarandi ályktun hefur verið send fjölmiðlum:

Þingeyrarakademían sendir íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu sérstakar baráttukveðjur að vestan. Jafnframt lýsir hún aðdáun sinni á þeirri fallegu framkomu, baráttuhug og leikgleði sem kom glöggt fram í leiknum við Frakka.

    Akademían telur að ítalska konan hafi ekki haft neinar forsendur til að dæma stroffí í lok leiks. Það sá enginn neitt brot. Sú franska lét sig bara detta. Það sáu allir. Þetta var ekki einu sinni fríspark!

   Svo sleppti sú gamla stroffíinu í fyrri hálfleik sem íslensku kjarnorkustelpurnar áttu greinilega að fá, að dómi allra spekinga hér fyrir vestan. En það þýðir ekkert að röfla við dómarann. Hann dæmir og ræður.

   En þetta stendur allt til bóta. Spámaður akademíunnar hefur gefið það út að að Ísland muni sigra Frakkland í undanúrslitum 2-1. Þangað munum við nefnilega komast segir í spádómnum. Það getur allt skeð. Trúum á stelpurnar okkar, en heimtum ekki neitt.

bryndis@bb.is

Breytingar á deiliskipulagi á Torfnesi

Ísafjarðarbær hefur nú auglýst eftir athugasemdum við breytingar á deiliskipulagi á Torfnesi og frestur til að skila athugasemdum er til 1. september.

Deiliskipulagsbreytingin felur í sér að að hluti núverandi gervigrasvallar verði felldur út og þar verði byggingarreitur fyrir fjölnotahús. Hæsta brún mænis skal ekki vera hærri en 13.75 m yfir hæð núverandi grasvallar og hámarkshæð útveggja á langhlið 6m. Flatarmál húss skal vera að hámarki 3.200 fermetrar. Hönnun byggingarinnar skal miðast við að viðhalda heildaryfirbragði bygginganna á Torfnesi, með dökkrauðu þaki og þykkum þakkanti.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir