Síða 2149

19 fossar komnir í Fossadagatalið

Foss 7/30 Rjúkandi

Þeir félagar Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson halda áfram að birta myndir af fallegum fossum í nágrenni fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Í gær var foss númer 17 af 30 og það var ónefndur foss í Þverá á Eyvindarstaðarheiði. Á facebook síðu Tómasar kemur fram að Þverá rennur í Eyvindarstaðará, og á líkt og Rjúkandi og Hvalá upptök sín í vötnum uppi á heiðunum sunnan Drangajökuls. Þar kemur sömuleiðis fram að verði af virkjuninni muni stór hluti heiðarinnar verða að risastóru uppistöðulóni með allt að 33 m háum stífluvegg og miklu jarðvegsraski vegna efnisflutninga.

Hér er myndband sem sýnir kvöldkyrrðina á Ófeigsfjarðarheiði.

Ljósmynd tekin úr dróna og sýnir vötnin uppi á Ófeigsfjarðarheiði. Vatnið efst til hægri er Halárvatn en úr því rennur Hvalá sem fyrirhuguð virkjun er kennd við. Verði af virkjuninni munu öll þessi vötn verða að einu risastóru uppistöðulóni með allt að 33 metra háum stífluvegg sem mun skilja eftir sig mjög greinilegt ör í ósnortnu víðernin á þessu svæði. Í fjarska sést í Ófeigsfjörð og mynnið á Ingólffiriði en líka Munaðarnes, Kálfatinda og Arkarfjalla (Örkina).
Foss 11/30 ónefndur foss í Hvalá

Myndir og myndbönd í fréttinni eru teknar á facebook síðu Tómasar Guðbjartssonar.

Bryndis@bb.is

 

Segir bæinn brjóta útboðsreglur

Stjórnsýsluhús Ísafjarðarbæjar

Nýverið ákvað bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að ganga til samninga við Vestfirska verktaka efh. um byggingu þjónustuhúss á tjaldsvæðinu á Þingeyri. Ákveðið var að skipta verkinu í tvo hluta, þar sem hluti þess verður unnin á þessu ári og hluti á næsta ári og á húsið að vera tilbúið fyrir næsta vor. Ástæða skiptingarinnar er að ekki var gert ráð fyrir nema 20 milljónum kr. til verksins í ár, en tilboð Vestfirskra verktaka hljóðaði upp á 32 milljónir kr.

Nú hefur hitt fyrirtækið sem bauð í verkið gert alvarlega athugasemdir við ákvörðun bæjaryfirvalda að skipta verkinu upp. Gamla spýtan ehf. bauð 36 milljóni kr. í byggingu þjónustuhússins og í bréfi frá framkvæmdastjóra fyrirtækisins til bæjarrás segir að tilboð Gömlu spýtunnar hafi miðast við að verkið yrði klárað fyrir 1. desember 2017, líkt og útboðsgögn sögðu til um. Í bréfinu kemur fram að óheimilt er að breyta út af útboðsgögnum með þessum hætti.

„Þar sem miklar kröfur eru gerðar til verktaka varðandi útboð af þessu tagi, geri ég þá kröfu til Ísafjarðarbæjar að það verði farið eftir settum leikreglum og stöðlum,“ segir í bréfi Magnúsar Jónssonar, framkvæmdastjóra Gömlu spýtunnar og það tekið fram þessu máli verði fylgt fast eftir ef með þarf.

smari@bb.is

Vítamínsprauta hinnar duglegu þjóðar

Inga Björk Bjarnadóttir

„Það er erfitt að eiga peninga á Íslandi“ var eitt sinn sagt og eflaust er það veruleiki duglegu strákanna. Sigurvegaranna. Þeirra sem gengu beinu brautina; fóru í góðan menntaskóla, beint í háskóla og lönduðu svo vel launuðum störfum. Á frjálshyggjueyjunni uppskera hin duglegu ríkulega. Af hverju ættu þau ekki að gera það? Þau gerðu allt rétt — en hunsa reyndar algjörlega þá stökkpalla sem gerðu þeim kleift að komast í þá stöðu sem þau eru í: efnahagslegan stuðning, fjölskyldutengsl, aðgengi að góðri menntun o.s.frv. Þau sannfæra sig um að þau eigi allan sinn auð skilið. Vegna þessara foréttinda spretta svo upp ranghugmyndir um að öryrkjar séu upp til hópa latir, að hærri bætur séu letjandi, að félagsleg vandamál séu blásin upp í fjölmiðlum, að hinir lötu kennarar þurfi árangurstengd laun — að það sem letingjarnir þurfi sé duglegt spark í rassinn. Mennta sig. Vinna meira.

Almenningi er talin trú um að yfirburðum sé hægt að ná í samfélaginu ef fólki takist aðeins að rífa sig upp úr volæði og sjálfsvorkunn. Stöðugleikinn er talinn mikilvægari en að hlúa að fólki af holdi og blóði. Hagvöxtur eina vítamínsprautan sem hin harðduglega þjóð þarf.

Allar tilraunir til þess að temja markaðinn og setja á reglugerðir eru álitnar skerðing á frelsi — en frelsi hverra? Þeirra duglegu. Sigurvegaranna. Þeirra sem vilja geta selt vín í verslunum sínum, sem vilja geta selt þér tóbak og boðið þér síðan krabbameinsmeðferð á klíník sinni síðar meir. Þetta er land nýfrjálshyggjunnar. Þar sem verkalýðshreyfingin er ekkert annað en bákn og byrði á launþegum. Þar sem venjulegt fjölskyldufólk þarf að skrimta.

Ímyndum okkur nú aðra stefnu, annað hugarfar. Samfélag þar sem fólk, um allt land, fær gjaldfrjálsa geðheilbrigðisþjónustu og þarf ekki að bíða milli heims og helju eftir aðstoð. Samfélag þar sem þú getur leigt af sanngjörnum leigufélögum sem hafa ekki það markmið eitt að skila arði, þar sem þú bíður ekki vikum saman eftir læknisþjónustu búir þú úti á landi. Samfélag þar sem menntun er gjaldfrjáls og hlúð er að barnafjölskyldum, þar sem greiðfærir og öruggir vegir liggja til allra átta.

Svona samfélag er hægt að skapa — en ekki á meðan duglegu strákarnir ráða för.

Inga Björk Bjarnadóttir
Höfundur er varaþingmaður Samfylkingarinnar — jafnaðarmannaflokks Íslands.

Horft verði til byggðasjónarmiða við fækkun sauðfjár

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Byggðastofnun hefur skilað samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra greiningu á stöðu sauðfjárræktar og sauðfjárbænda sem hann óskaði eftir í sumar. Óskaði ráðherra eftir mati á stöðunni á svæðum þar sem kinda- og lambakjötsframleiðsla er mikilvæg landsbyggðinni og mati á áhrifum mikillar lækkunar á afurðaverði sem fulltrúar bænda hafa spáð fyrir um.

Tillögum Byggðastofnunar er í skipt í þrjá flokka: Aðgerðir vegna lausafjárvanda, aðgerðir til að ná jafnvægi á markaði og aðrar aðgerðir

Tillögur vegna lausafjárvanda eru þær að kannaðir verði möguleikar á því að ríkið leggi til fjármuni sem lán eða styrki til að mæta lækkun afurðaverðs haustið 2016 og nú í haust. Byggðastofnun skoði mál einstakra viðskiptavina og vinni með þeim að úrlausn. Einnig er lagt til að Byggðastofnun kanni þörf á endurfjármögnun lána sauðfjárbænda.

Tillögur til að ná jafnvægi á markaði snúast um að við fækkun sauðfjár verði horft til byggðasjónarmiða og í því sambandi til tillagna stofnunarinnar um svæðisbundinn stuðning við þau svæði sem eru háðust sauðfjárrækt sem atvinnugrein. Einnig að til að jafna framboð og eftirspurn á innanlandsmarkaði og minnka birgðir verði komið á tímabundinni útflutningsskyldu að ákveðnu hlutfalli og að aukinn verði byggðastuðningur við sauðfjárrækt í formi býlisstuðnings á skilgreindum svæðum.

Aðrar aðgerðir sem lagðar eru til varða stuðning við sauðfjárbændur á skilgreindum svæðum til að koma sér upp aukabúgreinum, svo sem ferðaþjónustu, heimavinnslu afurða og fleira og að ráðist verði í sérstakt kolefnisjöfnunarverkefni í samvinnu við sauðfjárbændur í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Þannig verði sauðfjárframleiðslan kolefnisjöfnuð og meira til með því að draga úr losun og auka bindingu til dæmis með skógrækt, endurheimt votlendis og uppgræðslu.

smari@bb.is

Fyrstu æfingabúðir vetrarins

Frá æfingabúðum í fyrra.

Fádæma hitabylgja síðustu daga breytir engu um hug gönguskíðamanna, þeirra hugur eru uppi til fjalla. Fossavatnsgangan hefur opnað fyrir skráningar í fyrstu æfingabúðir vetrarins sem verða haldnar 23.-26. nóvember.  Æfinbabúðirnar eru einkar góður undirbúningur fyrir hina krefjandi Fossavatnsgöngu sem fer fram í lok apríl. Búðirnar ná yfir fjóra daga og henta fyrir lengra sem skemmra komna í þessari göfugu og heilnæmu íþrótt. Leiðbeinendur verða ekki af verri sortinni, en í stafni Fossavantsgöngunnar standa margir reyndustu skíðagönguköppum landsins.

smari@bb.is

Sjáumst í myrkrinu

Nú er haustið gengið í garð með minnkandi birtu næstu mánuðina. Af því tilefni minnir lögreglan á Vestfjörðum gangandi vegfarendur á að nota endurskinsmerki þegar birtu er tekið að halla og ekki síst foreldra á að tryggja að börnin sjáist vel í myrkrinu. Lögreglan hvetur eigendur ökutækja sem og ökumenn til að gæta þess að ljósabúnaður ökutækja sé í góðu og lögmæltu ástandi. Slíkt skiptir ekki minna máli.

„Ef einhverntímann er tilefni til að láta ljós sitt skína og vera áberandi, er það núna og á næstunni,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Meðfylgjandi myndband sýnir hve miklu máli notkun endurskinsmerkja getur skipt.

smari@bb.is

Tómas á lágu plani

Kristinn H. Gunnarsson

Undanfarnar vikur hefur Tómas Guðbjartsson, stundum við annan mann,  beitt sér í ræðu og riti gegn virkjun Hvalár í Árneshreppi. Málflutningur hans hefur verið á lágu plani. Hann hefur farið með dylgjur og staðlausa stafi. Fullyrt er í grein hans í Fréttablaðinu frá 30. ágúst  að Hvalárvirkjun sé nafn sem er „úlfur í sauðargæru“ því virkjunin hafi stækkað frá því að hún var kynnt almenningi með því að bæta við áformum um að nýta vatn úr Eyvindarfjarðará og „að svo breyttri Hvalárvirkjun hafi verið laumað í gegnum“ Rammaáætlun 2. Fullyrt er í greininni að skort hafi á að almenningur hafi fengið nauðsynlegar upplýsingar og krafist er þess að úr því verði bætt með nýju umhverfismati.

Þarna er dylgjað um óheiðarleika og undirmál. Þeir sem verða fyrir dylgjunum eru framkvæmdaaðilarnir að virkjuninni, verkefnisstjórnin um rammáætlun, ráðherrarnir sem lagt hafa málið fyrir Alþingi og alþingismenn. Til þess að lauma röngum virkjunaráformum í gegnum Alþingi þarf samsæri allra þessara aðila. Þrátt fyrir framkomnar áskoranir um rökstuðning hefur Tómas ekki rökstutt mál sitt. Það mun seint verða því fullyrðingarnar eru allar rangar og dylgjurnar tilhæfulausar.

Skýrslan frá 2007

Gögnin sem varða Hvalárvirkjun og Rammaáætlun  eru öll opinber og eru til frá upphafi. Hver sem er getur kynnt sér þau. Upphafið er í  skýrslu Almennu verkfræðistofnunnar frá  2007 sem unnin er fyrir Orkustofnun. Þar strax er kynnt að nýting vatns úr Eyvindarfjarðará sé ráðgerð til viðbótar vatni úr Hvalá og Rjúkanda. Þetta er enn svo, þó  með jarðgöngum og öðrum breytingum sem ætlaðar eru til þess að draga úr umhverfisáhrifum. Þessi virkjunaráform hafa tvisvar farið í gegn verkferla Rammaáætlunar og verið kynnt almenningi og umsagnir fengnar frá hverjum þeim sem þær vildi senda. Tvisvar hefur verkefnisstjórnin lagt til að Hvalárvirkjun verði í nýtingarflokki og Alþingi hefur fallist á það í fyrra sinnið ágreiningslaust að því best verður séð í þingtíðindum, en seinni tillagan að Rammaáætlun er enn til meðferðar á Alþingi. Afl virkjunarinnar hefur aukist. Það var fyrst áætlað 35MW og 259GWh en er núna 55 MW og 320 GWh. Það er vegna þess að vatnið er nú talið meira en áður en ekki vegna breytinga á virkjuninni. Bæði verkefnisstjórnin og ráðherra segja breytingar á Hvalárvirkjun óverulegar milli áætlana. Þegar Landvernd gefur umsögn sína um Hvalárvirkjun vitna samtökin í skýrsluna frá 2007 sem sýnir að samtökunum var kunnugt um hana. Enginn sem kemur að málinu tekur undir ásakanir og dylgjur Tómasar. Það var enginn blekktur. Engu var laumað í gegn. Eini úlfurinn í sauðargæru sem orðið hefur vart við er Tómas Guðbjartsson sjálfur. Tímabært er að hann komi undan gærunni og skýri hvað honum gengur til.

Kristinn H. Gunnarsson

Sérstakur flokkur fyrir alþingiskosningar

Til einföldunar fyrir lesendur bb.is hefur verið settur upp sérstakur flokkur á valmynd fyrir fréttir og aðsendar greinar sem tengjast beinlínis alþingiskosningum 2017. Þar geta lesendur nálgast á einum stað allar fréttir vegna kosninganna og aðsendar greinar frambjóðenda verða líka tengdar þar inn.

bryndis@bb.is

Eva Pandóra sækist áfram eftir fyrsta sætinu

Eva Pandora Baldursdóttir

Nú liggur það fyrir að kostið verður í lok október eða byrjun nóvember og stjórnmálaflokkar þurfa að hafa hraðar hendur með að raða á lista sínu fólki. Það er stutt frá síðustu kosningum og sitjandi þingmenn margir hverjir nýbúnir að ganga í gengum prófkjör eða forvöl á sínum heimavöllum. Næstu daga má því búast við að fréttir berist af fyrirætlunum sitjandi þingmanna og þeirra sem sækjast eftir sæti á framboðslistum.

Eva Pandóra Baldursdóttir þingmaður Pírata í Norðvesturkjördæmi ríður á vaðið og hefur gefið út yfirlýsingu um að hún sækist eftir að leiða lista Pírata í kjördæminu. Í fréttatilkynningu frá Evu segir að hún hafi lagt áherslu á aukið gengsæi í stjórnsýslunni, aukið traust og áhuga almennings á stjórnmálum og verkefnum Alþingis. Í stefnuræðu sinni í við upphaf nýsetts þings þann 13. september hafi henni verið tíðrætt um mikilvægi þess að ástunda góða og opna stjórnsýslu, heiðarlega umræðu og virðingu fyrir skoðunum annara. Eva heitir því að berjast af einurð gegn leyndarhyggju, frændhygli, sérhagsmunagæslu og spillingu.

bryndis@bb.is

Erlendir nemar læra um loftslagsbreytingar

Nemendahópurinn við komuna til Ísafjarðar.

Fyrir helgi kom hópur 17 bandarískra nemenda til Ísafjarðar til að taka þátt í annarlöngu vettvangsnámi á vegum School for International Training (SIT) í Vermont í Bandaríkjunum. Námsleiðinni, Iceland and Greenland Climate Change and the Arctic var hleypt af stokkunum haustið 2016 í samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða og eru viðfangsefni hennar loftslagsmál á Norðurslóðum. Nemendur verja þrettán vikum á Íslandi og dvelja meðal annars á Ísafirði, á Akureyri og í Reykjavík. Einnig er farið í tveggja vikna heimsókn til Grænlands.

Á Ísafirði dvelur hópurinn í rúmlega þrjár vikur og líkt og nemendur sumarskóla SIT gista þessir nemendur hjá fjölskyldum og fá þannig tækifæri til að kynnast fólki á svæðinu náið. Dvöl í heimahúsum hefur verið í boði frá því sumarið 2012 en í gegnum árin hafa rúmlega 70 fjölskyldur tekið að sér að hýsa nemendur SIT skólans. Heimagistingin hefur því gefist mjög vel; margir hafa tengst sterkum böndum og sumar fjölskyldur hafa tekið þátt ár eftir ár, önn eftir önn. Háskólasetrið kann vel að meta framlag þessara fjölskyldna.

Með tilkomu þessa nýja vettvangsskóla urðu til ný rannsóknar- og kennslutengd stöðugildi á Vestfjörðum. Daniel Govoni, doktorsnemi sem búsettur er á Ísafirði, er nú fagstjóri námsins og með honum starfa þær Jennifer Smith og Alexandra Tyas sem báðar hafa útskrifast úr meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir