Síða 2149

Stefna öll á þingsetu

Allir þingmenn Norðvesturkjördæmis ætla að bjóða sig fram að nýju í kosningunum eftir rúmar fimm vikur. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þetta eru Gunnar Bragi Sveinsson og Elsa Lára Arnardóttir úr Framsóknarflokki, Haraldur Benediktsson, Teitur Björn Einarsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir úr Sjálfstæðisflokki, Eva Pandóra Baldursdóttir Pírati, Guðjón S. Brjánsson úr Samfylkingu og Lilja Rafney Magnúsdóttur úr Vinstri grænum.

smari@bb.is

Kvótakerfi frumbyggja í kastljósi

Fiona McCormack.

Kvótakerfi frumbyggja á Nýja Sjálandi verður til umfjöllunar á hádegisfyrirlestri Fiona McCormack í Háskólasetri Vestfjarða í dag. Kvótakerfið var tekið upp árið 1992 og var því ætlað að endurvekja réttindi Mára til fiskveiða og styrkja þannig atvinnuhætti frumbyggja landsins. Fiona McCormack, prófessor við mannfræðideild Háskólans í Waikato á Nýja Sjálandi, hefur rannsakað áhrif kerfisins og mun hún í fyrirlestrinum m.a. fara yfir þau tækifæri og þær takmarkanir sem hafa fylgt kerfinu.

Árið 1992 var undirritaður sáttmáli sem staðfesti að Márar áttu ekki aðeins hagsmuna að gæta við fiskveiðar út frá hefðarétti heldur einnig viðskiptalega hagsmuni sem höfðu nær þurrkast út á nýlendutímum landsins. Réttindi Máranna voru því endurvakin með gildistöku kvótakerfis,  Iwi Settlement Quate (ISQ), sem átti að gera Márum kleift að komast aftur inn í sjávarútveginn. Þessu markmiði hefur þó ekki verið náð að fullu og flestir frumbyggjar leigja frá sér veiðiréttinn frekar en að nýta hann sjálfir.

Hádegisfyrirlesturinn fer fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða kl. 12.10-13.00 og er opinn öllum áhugasömum.

smari@bb.is

Fiskaflinn jókst um 1 prósent

Fiskafli ís­lenskra skipa í ág­úst var 120.627 tonn, sem er 1% meiri afli en í ág­úst 2016. Þetta kem­ur fram á vef Hag­stofu Íslands. Þar seg­ir einnig að botn­fiskafli hafi numið rúm­um 39 þúsund tonn­um og hafi auk­ist um 18%, þar af nam þorskafl­inn ríf­lega 21 þúsund tonn­um sem er 25% meiri afli en í ág­úst 2016.

Upp­sjáv­ar­afli nam rúm­um 77 þúsund tonn­um í ág­úst og dróst sam­an um 7%. Flat­fiskafl­inn nam um 3 þúsund tonn­um sem er 16% aukn­ing miðað við ág­úst 2016. Skel- og krabba­dýra­afli nam 1.273 tonn­um sam­an­borið við 1.493 tonn í ág­úst 2016.

Heild­arafli á 12 mánaða tíma­bili frá sept­em­ber 2016 til ág­úst 2017 var 1.120 þúsund tonn sem er 7% aukn­ing.

smari@bb.is

Skoða möguleika á líkamsræktarstöð á Torfnesi

Ísafjarðarbær hefur áhuga á að koma upp líkamsræktaraðstöðu á Torfnesi. Þetta kemur fram í bókun fulltrúa meirihlutans í bæjarráði. Tilefni bókunarinnar er tillaga Daníels Jakobssonar, oddvita Sjálfstæðisflokksins, um að sveitarfélagið komi með einhverjum hætti að uppbyggingu líkamsræktaraðstöðu. Stúdíó Dan hefur rekið líkamsrækt um langt árabil en í febrúar hættir fyrirtækið rekstri og hefur nú þegar selt húsnæðið. Í tillögu Daníels kemur að aðgangur að góðri líkamsræktarstöð skipti marga íbúa miklu máli en vafamál hvort að Ísfirðingar séu nógu margir til að standa undir rekstrinum á markaðslegum forsendum, að minnsta kosti ef að byggja þarf upp aðstöðuna frá grunni. Þá komi til kasta bæjaryfirvalda með einhverju móti.

Í bókun meirihlutans kemur fram að verið er að kanna möguleika á framtíðarstaðsetningu við íþróttahúsið á Torfnesi en meirihlutinn telur æskilegt væri þó að leita samninga við eiganda þess húsnæðis sem Stúdíó Dan nýtir í dag um að hýsa líkamsræktarstöð þar til nýtt húsnæði verður tilbúið. „Það er mjög mikilvægt fyrir bæjarfélagið að hér sé starfandi líkamsræktarstöð enda brýnt lýðheilsumál og eykur lífsgæði bæjarbúa,“ segir í bókuninni.

smari@bb.is

Í lengstu lög – Um Vestfjarðaveg 60

Guðjón Brjánsson

Gleði og mæða

Síðastliðinn fimmtudag var hátíðisdagur á Vestfjörðum. Fyrsta sprenging vegna Dýrafjarðarganga var framkvæmd og það tók undir í fjöllunum.  Þetta var stórkostlegur dagur, söguleg tíðindi og við fögnum öll sem eitt. Samhliða gangagerðinni sjálfri bíða síðan nauðsynlegar vegabætur um Dynjandisheiði og á Bíldudalsvegi í Arnarfirði.

Enn eru hins vegar aldarfimmtungs gömul áform um endurnýjun lokaáfanga á milli Bjarkarlundar og Skálaness á sunnanverðum Vestfjörðum nánast í uppnámi. Aðalskiplag Reykhólahrepps bíður endurskoðunar sem þarf að flýta eins og kostur er.  Að óbreyttu má í framhaldinu gera ráð fyrir nýrri hringferð kærumála og ekki útséð hvernig eða hvenær þeim linni, mál sem liðast í spíral bæði upp og niður stjórnsýslustig. Tilfinningar og bábiljur eru ríkur hluti orðræðunnar.

Áfellisdómur?

Umræðan um vegalagningu í Gufudalssveit hefur staðið í ríflega 20 ár. Í ljósi ástands í samgöngumálum fjórðungsins er sá óralangi þæfingur fordómalaus og segir mikla sögu. Einhverjir kunna að líta svo á að þetta sé áfellisdómur yfir öllum þeim sem að málum hafa komið, sveitastjórnarmönnum, skipulagsyfirvöldum, Vegagerðinni, stjórnsýslustofnunum, ýmsum svonefndum hagsmunaaðilum og síðast stjórnmálamönnum, ekki síst þingmönnum kjördæmisins, og að þeim beinast nú spjótin.

Ef rýnt er í umfjöllun þetta tímabil verður ekki annað séð en allir þessir aðilar hafi reynt sitt og leitast við að þoka málum áfram, ekki minnst Vegagerðin.  Fjölmörgum sjónarmiðum hefur verið gefinn gaumur, breytingar gerðar, færðar til veglínur og samningaleið reynd til þrautar. Allt kemur fyrir ekki, þetta brýna umbótaverkefni er enn strand, í áframhaldandi óvissu.

Miklir hagsmunir

Það er ekki eins og um sé að ræða óverulegt og lítið hagsmunamál fyrir fáa. Þvert á móti er á dagskrá lífæð heils landsfjórðungs í samgöngum, atvinnulífs og íbúa. Það hefur í raun verið hlutskipti Vestfjarða að sitja stöðugt á hakanum í samgöngumálum.  Heils árs vegasamgöngum var t.d. ekki komið á í fjórðungnum fyrr en árið 1975 með opnun Djúpvegar.  Fyrir þann tíma reiddu menn sig á siglingar Fagraness inn að Arngerðareyri eða fóru suður um heiðarnar erfiðu og margumræddu þá mánuði ársins sem fært var.  Erfiðustu vegakaflarnir á þeirri leið eru í sama horfi og síst betri, enn í dag.  Frá þessum tíma hefur bílafloti landsmanna að minnsta kosti sjöfaldast.

Það er sama hversu mjög við dveljum við liðna tíð, við fáum henni ekki breytt og það skilar okkur því miður ekkert fram á veg.  Krafan nú er sú að þær stjórnsýslustofnanir sem í hlut eiga sitji ekki með hendur í skauti og láti verkin tala.

Ísandsmet í rannsóknum

Í sögu vegagerðar á Íslandi hafa líklega engin svæði verið rannsökuð jafn vandlega og yfirvegað og Vestfjarðavegur nr. 60 um Gufudalssveit með verndun fuglalífs, sjávarlífs á grunnsævi, skógrækt og önnur umhverfisáhrif að leiðarljósi.  Áður hafa vegaframkvæmdir átt sér stað í almennri sátt á afar viðkvæmum svæðum, t.d. þegar leirur Eyjafjarðarár voru þveraðar með brú og vegauppfyllingum(1986). Það sama á við um veg og brú yfir Gilsfjörð(1998).

Um það er ekki deilt að vegalagning á þeim slóðum sem núverandi tillögur gera ráð fyrir munu hafa umhverfisáhrif en þau eru til muna minni en fyrstu áform gerðu ráð fyrir.  Samfylkingin er flokkur sem leggur áherslu á umhverfisvernd og að náttúra sé varðveitt eins og kostur er.  Ég tel að þau sjónarmið hafi allt vinnuferlið verið virt og að viðunandi niðurstaða sé fengin, bæði gagnvart umhverfi og ekki síður almannahagsmunum.

Sátt

Heimamenn eru sáttir við núverandi tillögur enda bið þeirra eftir úrbótum orðin æði löng og t.d. Skógræktin hefur sent frá sér yfirlýsingu um að þau samtök standi ekki í vegi þess að nýr vegur verði þarna lagður.

Ég met það svo sem þingmaður í þessu kjördæmi að við svo búið verði ekki unað.  Nú verði hætt að spinna endalausar fléttur. Íbúum á svæðinu, atvinnu- og þjónustufyrirtækjum hefur verið sýnt ömurlegt viðmót og spuninn heldur áfram.  Ástand samgöngumála hefur bein áhrif á vöxt og viðgang samfélaganna.

Það er haft á orði við hátíðleg tækifæri að árangursríkasta leiðin til að tryggja best viðgang landsbyggðar séu góðar samgöngur.  Svo virðist sem hugur fylgi ekki máli hvað varðar Vestfirði.

Úrræði

Samstaða er meðal þingmanna kjördæmisins um brýnan framgang málsins. Einhverjir þeirra hafa ýjað að því að lagasetning sé eina úrræðið sem eftir standi, að framkvæmdaleyfi verði veitt fyrir atbeina Alþingis. Mín skoðun er sú að í landi okkar, þá verðum við í lengstu lög að treysta á stjórnsýslustofnanir og þá almennu laga- og reglugerðaumgjörð sem við búum við, að vönduð fagleg vinnubrögð séu iðkuð í hvívetna. Bent hefur verið á að með því að grípa til lagasetningar á Alþingi um einstakar framkvæmdi á svig við þar til bær yfirvöld sé verið að gefa varhugavert fordæmi.

Mál þetta er óumdeilanlega séstakt ef ekki einstakt og dráttur á niðurstöðum orðinn hneisa. Í handraðanum virðist fátt eftir annað en afarkostir.

Guðjón Brjánsson

alþingismaður

19 fossar komnir í Fossadagatalið

Foss 7/30 Rjúkandi

Þeir félagar Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson halda áfram að birta myndir af fallegum fossum í nágrenni fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Í gær var foss númer 17 af 30 og það var ónefndur foss í Þverá á Eyvindarstaðarheiði. Á facebook síðu Tómasar kemur fram að Þverá rennur í Eyvindarstaðará, og á líkt og Rjúkandi og Hvalá upptök sín í vötnum uppi á heiðunum sunnan Drangajökuls. Þar kemur sömuleiðis fram að verði af virkjuninni muni stór hluti heiðarinnar verða að risastóru uppistöðulóni með allt að 33 m háum stífluvegg og miklu jarðvegsraski vegna efnisflutninga.

Hér er myndband sem sýnir kvöldkyrrðina á Ófeigsfjarðarheiði.

Ljósmynd tekin úr dróna og sýnir vötnin uppi á Ófeigsfjarðarheiði. Vatnið efst til hægri er Halárvatn en úr því rennur Hvalá sem fyrirhuguð virkjun er kennd við. Verði af virkjuninni munu öll þessi vötn verða að einu risastóru uppistöðulóni með allt að 33 metra háum stífluvegg sem mun skilja eftir sig mjög greinilegt ör í ósnortnu víðernin á þessu svæði. Í fjarska sést í Ófeigsfjörð og mynnið á Ingólffiriði en líka Munaðarnes, Kálfatinda og Arkarfjalla (Örkina).
Foss 11/30 ónefndur foss í Hvalá

Myndir og myndbönd í fréttinni eru teknar á facebook síðu Tómasar Guðbjartssonar.

Bryndis@bb.is

 

Segir bæinn brjóta útboðsreglur

Stjórnsýsluhús Ísafjarðarbæjar

Nýverið ákvað bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að ganga til samninga við Vestfirska verktaka efh. um byggingu þjónustuhúss á tjaldsvæðinu á Þingeyri. Ákveðið var að skipta verkinu í tvo hluta, þar sem hluti þess verður unnin á þessu ári og hluti á næsta ári og á húsið að vera tilbúið fyrir næsta vor. Ástæða skiptingarinnar er að ekki var gert ráð fyrir nema 20 milljónum kr. til verksins í ár, en tilboð Vestfirskra verktaka hljóðaði upp á 32 milljónir kr.

Nú hefur hitt fyrirtækið sem bauð í verkið gert alvarlega athugasemdir við ákvörðun bæjaryfirvalda að skipta verkinu upp. Gamla spýtan ehf. bauð 36 milljóni kr. í byggingu þjónustuhússins og í bréfi frá framkvæmdastjóra fyrirtækisins til bæjarrás segir að tilboð Gömlu spýtunnar hafi miðast við að verkið yrði klárað fyrir 1. desember 2017, líkt og útboðsgögn sögðu til um. Í bréfinu kemur fram að óheimilt er að breyta út af útboðsgögnum með þessum hætti.

„Þar sem miklar kröfur eru gerðar til verktaka varðandi útboð af þessu tagi, geri ég þá kröfu til Ísafjarðarbæjar að það verði farið eftir settum leikreglum og stöðlum,“ segir í bréfi Magnúsar Jónssonar, framkvæmdastjóra Gömlu spýtunnar og það tekið fram þessu máli verði fylgt fast eftir ef með þarf.

smari@bb.is

Vítamínsprauta hinnar duglegu þjóðar

Inga Björk Bjarnadóttir

„Það er erfitt að eiga peninga á Íslandi“ var eitt sinn sagt og eflaust er það veruleiki duglegu strákanna. Sigurvegaranna. Þeirra sem gengu beinu brautina; fóru í góðan menntaskóla, beint í háskóla og lönduðu svo vel launuðum störfum. Á frjálshyggjueyjunni uppskera hin duglegu ríkulega. Af hverju ættu þau ekki að gera það? Þau gerðu allt rétt — en hunsa reyndar algjörlega þá stökkpalla sem gerðu þeim kleift að komast í þá stöðu sem þau eru í: efnahagslegan stuðning, fjölskyldutengsl, aðgengi að góðri menntun o.s.frv. Þau sannfæra sig um að þau eigi allan sinn auð skilið. Vegna þessara foréttinda spretta svo upp ranghugmyndir um að öryrkjar séu upp til hópa latir, að hærri bætur séu letjandi, að félagsleg vandamál séu blásin upp í fjölmiðlum, að hinir lötu kennarar þurfi árangurstengd laun — að það sem letingjarnir þurfi sé duglegt spark í rassinn. Mennta sig. Vinna meira.

Almenningi er talin trú um að yfirburðum sé hægt að ná í samfélaginu ef fólki takist aðeins að rífa sig upp úr volæði og sjálfsvorkunn. Stöðugleikinn er talinn mikilvægari en að hlúa að fólki af holdi og blóði. Hagvöxtur eina vítamínsprautan sem hin harðduglega þjóð þarf.

Allar tilraunir til þess að temja markaðinn og setja á reglugerðir eru álitnar skerðing á frelsi — en frelsi hverra? Þeirra duglegu. Sigurvegaranna. Þeirra sem vilja geta selt vín í verslunum sínum, sem vilja geta selt þér tóbak og boðið þér síðan krabbameinsmeðferð á klíník sinni síðar meir. Þetta er land nýfrjálshyggjunnar. Þar sem verkalýðshreyfingin er ekkert annað en bákn og byrði á launþegum. Þar sem venjulegt fjölskyldufólk þarf að skrimta.

Ímyndum okkur nú aðra stefnu, annað hugarfar. Samfélag þar sem fólk, um allt land, fær gjaldfrjálsa geðheilbrigðisþjónustu og þarf ekki að bíða milli heims og helju eftir aðstoð. Samfélag þar sem þú getur leigt af sanngjörnum leigufélögum sem hafa ekki það markmið eitt að skila arði, þar sem þú bíður ekki vikum saman eftir læknisþjónustu búir þú úti á landi. Samfélag þar sem menntun er gjaldfrjáls og hlúð er að barnafjölskyldum, þar sem greiðfærir og öruggir vegir liggja til allra átta.

Svona samfélag er hægt að skapa — en ekki á meðan duglegu strákarnir ráða för.

Inga Björk Bjarnadóttir
Höfundur er varaþingmaður Samfylkingarinnar — jafnaðarmannaflokks Íslands.

Horft verði til byggðasjónarmiða við fækkun sauðfjár

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Byggðastofnun hefur skilað samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra greiningu á stöðu sauðfjárræktar og sauðfjárbænda sem hann óskaði eftir í sumar. Óskaði ráðherra eftir mati á stöðunni á svæðum þar sem kinda- og lambakjötsframleiðsla er mikilvæg landsbyggðinni og mati á áhrifum mikillar lækkunar á afurðaverði sem fulltrúar bænda hafa spáð fyrir um.

Tillögum Byggðastofnunar er í skipt í þrjá flokka: Aðgerðir vegna lausafjárvanda, aðgerðir til að ná jafnvægi á markaði og aðrar aðgerðir

Tillögur vegna lausafjárvanda eru þær að kannaðir verði möguleikar á því að ríkið leggi til fjármuni sem lán eða styrki til að mæta lækkun afurðaverðs haustið 2016 og nú í haust. Byggðastofnun skoði mál einstakra viðskiptavina og vinni með þeim að úrlausn. Einnig er lagt til að Byggðastofnun kanni þörf á endurfjármögnun lána sauðfjárbænda.

Tillögur til að ná jafnvægi á markaði snúast um að við fækkun sauðfjár verði horft til byggðasjónarmiða og í því sambandi til tillagna stofnunarinnar um svæðisbundinn stuðning við þau svæði sem eru háðust sauðfjárrækt sem atvinnugrein. Einnig að til að jafna framboð og eftirspurn á innanlandsmarkaði og minnka birgðir verði komið á tímabundinni útflutningsskyldu að ákveðnu hlutfalli og að aukinn verði byggðastuðningur við sauðfjárrækt í formi býlisstuðnings á skilgreindum svæðum.

Aðrar aðgerðir sem lagðar eru til varða stuðning við sauðfjárbændur á skilgreindum svæðum til að koma sér upp aukabúgreinum, svo sem ferðaþjónustu, heimavinnslu afurða og fleira og að ráðist verði í sérstakt kolefnisjöfnunarverkefni í samvinnu við sauðfjárbændur í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Þannig verði sauðfjárframleiðslan kolefnisjöfnuð og meira til með því að draga úr losun og auka bindingu til dæmis með skógrækt, endurheimt votlendis og uppgræðslu.

smari@bb.is

Fyrstu æfingabúðir vetrarins

Frá æfingabúðum í fyrra.

Fádæma hitabylgja síðustu daga breytir engu um hug gönguskíðamanna, þeirra hugur eru uppi til fjalla. Fossavatnsgangan hefur opnað fyrir skráningar í fyrstu æfingabúðir vetrarins sem verða haldnar 23.-26. nóvember.  Æfinbabúðirnar eru einkar góður undirbúningur fyrir hina krefjandi Fossavatnsgöngu sem fer fram í lok apríl. Búðirnar ná yfir fjóra daga og henta fyrir lengra sem skemmra komna í þessari göfugu og heilnæmu íþrótt. Leiðbeinendur verða ekki af verri sortinni, en í stafni Fossavantsgöngunnar standa margir reyndustu skíðagönguköppum landsins.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir