Miðvikudagur 15. janúar 2025
Síða 2148

Fjöruhreinsun gekk vel

Vaskur hópur sjálfboðaliða. Mynd af vef Umhverfisstofnunar

Um mánaðarmótin gekk vaskur hópur sjálfboðaliða um hinn fagra Rauðasand og er þetta þriðja sumarið sem sandurinn er genginn og hreinsaður. Á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að gengnir hafi verið um 18 kílómetrar og söfnuðust 25 rúmmetrar af rusli. Metþátttaka var í sumar en 27 einstaklingar mættu til verksins. Blíðskaparveður var þennan dag sem endaði svo í selaskoðun og sjósundi.

Hreinsunin er samstarfsverkefni Vesturbyggðar, Umhverfisstofnunar og landeigenda á Rauðsandi.

Í frétt Umhverfisstofnunar kemur fram að hluti af fjöruhreinsuninni sé unnin í tengslum við OSPAR samninginn og er Rauðisandur ein þeirra fjara á Íslandi sem árlega eru vaktaðar í tengslum við hann. OSPAR hluti verkefnisins er unninn á þann hátt að afmarkaður hefur verið 100 metra kafli á ströndinni sem hreinsaður er árlega, allt rusl greint og talið og niðurstöðurnar skráðar í gagnagrunn OSPAR að því loknu. Náttúrustofa Vestfjarða sér um vettvangsvinnuna fyrir hönd Umhverfisstofnunar.

OSPAR samningurinn gengur út á verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins, meðal annars með því að draga úr mengun frá landi og uppsprettum á hafi. Á hverju ári berst mikið af rusli í hafið og safnast saman á hafsbotni, úti á opnu hafi eða rekur upp í fjörur og þarf mjög víðtækt samstarf að koma til við lausn á vandamálinu, meðal annars með forvörnum.

bryndis@bb.is

Sólarblús í garði

Blúshljómsveitin Akur sló upp tónlistarveislu við Húsið kl. 16:00 í dag. Dásamlegir blústónar óma nú um miðbæ Ísafjarðar og veðrið leikur við okkur.

Látum myndirnar tala sínu máli.

Ferðafélag Ísfirðinga á Galtarvita

Galtarviti. Mynd: Ágúst Atlason

Næstkomandi laugardag skipuleggur Ferðafélag Ísfirðinga gönguferð á Galtarvita undir leiðsögn Þrastar Jóhannessonar.

Lagt af stað klukkan 10 frá Sundlauginni í Bolungarvík.

Leiðin er rúmir 6 km og hækkun um 450 m sem gengin er fram og til baka. Gert er ráð fyrir að ferðin taki 7 -8 klst. með stoppi og akstri til og frá Bolungarvík. Farið fram og til baka yfir Bakkaskarð og gengið á Öskubak á heimleiðinni ef aðstæður leyfa.

Kunnugir telja erfiðleikastuðulinn vera tveggja skóa.

bryndis@bb.is

 

Framleiðsla í fiskeldi yfir 100 milljón tonn árið 2025

Á vef Fiskifrétta kemur fram að reiknað er með að árið 2021 verði framleiðsla í fiskeldi í heiminum orðin meiri en fiskveiði. Árlegur vöxtur í fiskeldi hefur verið 5,3% á ári undanfarin ár en reiknað er með hægist á vexti og að hann verði um 2,6% á ári næstu ár.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna um horfurnar í landbúnaði og sjávarútvegi á heimsvísu næsta áratuginn. Þar er því spáð að fiskneysla á heimsvísu muni aukast og að uppúr 2020 muni fiskverð hækka.

bryndis@bb.is

 

Íbúi ársins í Reykhólahreppi

Hlynur Þór var tilnefndur íbúi ársins 2016

Nú stendur yfir kosning íbúa ársins í Reykhólahreppi og skulu tilnefningar sendar á tómstundafulltrúa hreppsins.  Í tilnefningunni þarf að koma fram fyrir hvað tilnefningin er og hver nefnir.

Í fyrra hlaut fyrrum frumkvöðull og starfsmaður bb.is Hlynur Þór Magnússon útnefninguna „íbúi ársins“ fyrir umsjón með vefsíðu Reykhólahrepps, þar áður Ingibjörg Kristjánsdóttir héraðshjúkrunarfræðingur. Á vef Reykhólahrepps kemur fram að bæði hafi þau lagt meira í sín störf en starfslýsing beinlínis kveður á um og samfélagið notið góðs af í ríkum mæli.

Íbúi ársins 2017 verður heiðraður á Reykhóladögum sem haldnir eru næstu helgi og skila þarf tilnefningum fyrir kl. 22:00 í kvöld.

bryndis@bb.is

 

 

Afleitar húsnæðisaðstæður barna á Íslandi

Mynd úr safni

Evrópusambandið gerir árlega könnun á aðstæðum barna og nýverið voru birtar niðurstöður Eurostat um húsnæðisaðstæður barna í Evrópu. Af 34 löndum situr Ísland í 29. sæti með 25% allra barna í húsnæði sem telst skemmt vegna raka. leka og myglu. Það er Bændablaðið sem birtir þessar niðurstöður í nýjasta tölublaði sínu og dregur þá ályktun að óvönduð vinnubrögð við húsbyggingar og röng hönnun beri að mestu ábyrgð á þessu ástandi. Þessi slæma staða Íslands í rannsóknum Eurostat hefur verið viðvarandi frá árinu 2008

Bestar eru aðstæður í Finnlandi en þar teljast 4,6% barna búa við óviðunandi húsnæðiskost en Tyrkland hefur vermt botninn til fjölda ára en þar hefur 43-46% barna búið við slæmar aðstæður. Í Noregi og Svíþjóð er staðan betri en í Damörku eru um 20% barna sem teljast búa við óviðunandi aðstæður.

Á ruv.is er haft eftir Nilsínu Larsen Einarsdóttur, réttindafræðslufulltrúa hjá Unicef að það sé brýnt að stjórnvöld bregðist við. Unicef hafi vakið athygli á þessu og bendir á að börn leigjenda og börn á foreldra sem eru á biðlistum eftir húsnæði séu í sérlega slæmri stöðu. Íslendingar hafa skrifað undir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samkvæmt honum eigi börn „rétt á því að alast upp við bestu lífskilyrði sem hægt er að bjóða upp á hverju sinni“. Nilsína telur okkur geta gert betur og brugðist hraðar við.

bryndis@bb.is

Þokan farin og sólin skín

Hægviðri eða hafgola, en norðaustan 5-10 síðdegis á morgun. Bjart með köflum, en sums staðar þokubakkar í nótt. Hiti 12 til 22 stig að deginum, hlýjast inn til landsins. Þetta er spáin á Veðurstofunni og þegar þokan í Skutulsfirði  mjakaði sér í burtu blasir við blár himinn og hér við ysta haf er framundan fallegur dagur.

Þessar myndir voru teknar í morgun af Guðrún Hönnu Óskarsdóttir kaffistjóra á Kaffi Sól í Önundarfirði.

bryndis@bb.is

Súrnun hafsins og afleiðingar á vistkerfi

Á fiskifrettir.is er viðtal við dr. Hrönn Egilsdóttir vegna nýrrar rannsóknar í Ástralíu um áhrif súrnunar hafsins á vistkerfið. Niðurstaða þeirrar rannsóknar er að súrnun hafsins valdi því að fisktegundum fækki í kjölfar súrnunar. Hrönn segir rannsóknina áhugaverða og spennandi kost að framkvæma sambærilega rannsókn hér við land.

Hingað til hafa svona rannsóknir aðallega verið gerðar í fiskabúrum og á einni tegund í einu en ekki á heilu vistkerfi.

Ástralska rannsóknin bendir til þess að veiðiálag á ákveðnar tegundir geti haft talsvert að segja um breytingar á vistkerfi og með rannsóknum og þekkingu á viðfangsefninu væri hægt að stjórna veiðiálaginu til að lágmarka umhverfisáhrif.

Hrönn hefur rannsakað eldvirk svæði í sjó með uppstreymi koltvíoxíðs og hefur til dæmis kafað í Breiðafirði en þar er líklegt að slík svæði finnist. En sýrustig sjávar er hærra á svæðum með mikilli eldvirkni og kolstvísýringur streymir upp úr hafsbotninum, þau henta því vel til rannsókna.

Viðtal Fiskifrétta við Hrönn má nálgast hér.

bryndis@bb.is

Húsamiðjunni lokað á miðjum degi

Viðgerð á tveimur ljósleiðurum sem fór í sundur við Krossholt á Barðaströnd lauk á níunda tímanum í gærkvöldi en slitið á strengnum olli truflunum á símkerfum og netsambandi. Netsamband var um varaleið á meðan og stóð að lokum þokkalega undir álaginu.

Að sögn upplýsingafulltrúa Mílu var farið strax af stað með viðgerðarteymi en tíma taki að komast á staðinn og verkefnið tímafrekt, verkinu lauk kl. 20:30 og samband komið á. Annar strengurinn var í eigum Mílu, hinn Vodafone en viðgerðarteymi Mílu gerði við báða strengina.

Athygli vekur að engar tilkynningar eða fréttir um hnökra á netsambandi eru á heimasíðum Vodafone eða Mílu, sem var þó svo alvarlegt að Húsasmiðjan lokaði verslun sinni um miðjan dag. Frétt um málið er á heimasíðu Snerpu, ef vel er gáð.

bryndis@bb.is

Blakknes golfmótið í blíðskaparverði

Hið árlega golfmót Blakknes ehf. fór fram á Syðridalsvelli laugardaginn 22.  júlí 2017 í blíðskapar veðri en Blakknes ehf hefur staðið fyrir mótinu í tæpan áratug.

58 keppendur mættu til leiks en það er örlítil fækkun frá í fyrra en þá voru 63 sem tóku þátt.

Úrslit urðu þessi:

Í karlaflokki:

  1. 1.sæti Ernir Steinn Arnarson GR á 74 höggum
  2. sæti Chatchai Phothiya GÍ á 76 höggum
  3. sæti Janusz Pawel Duszak GÍ á 77 höggum

Í kvennaflokki:

  1. sæti Alma Rún Ragnarsdóttir GKG á 87 höggum
  2. sæti Bjarney Guðmundsdóttir GÍ á 90 höggum
  3. sæti Sólveig Pálsdóttir GÍ á 95 höggum.

Í unglingaflokki:

  1. sæti Ásgeir Óli Kristjánsson GÍ á 92 höggum
  2. sæti Jón Gunnar Kanishka Shiransson GÍ á 108 höggum
  3. sæti Hjálmar Helgi Jakobsson GÍ  á 132 höggum

 

Sérstök verðlaun voru veitt fyrir 5 punktahæstu keppendurna:

  1. sæti Páll Guðmundsson GBO á 34 punktum
  2. sæti Ernir Steinn Arnarson GR á 34 punktum
  3. sæti Kristinn Þórir Kristjánsson GÍ á 33 punktum
  4. sæti Bjarney Guðmundsdóttir GÍ á 33 punktum
  5. sæti Högni Gunnar Pétursson GÍ á 33 punktum.

Neðangreindir fengu verðlaun fyrir að vera næstir holu á par þrjú holum:

  • Ásgeir Óli Kristjánsson GÍ
  • Magnús Jónsson GÞ
  • Tryggvi Sigtryggsson GÍ
  • Víðir Arnarson GÍ

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir