Síða 2148

Byggð ógnað

Indriði Indriðason

Nú er alvarlega ógnað stöðu smærri útgerða, sem þó eru í mörgum tilfellum burðarásar atvinnulífs í sveitarfélögum víða um landið. Verið er að hækka veiðigjöld og fella niður afslætti af veiðigjöldum. Þetta mun hafa alvarlegar afleiðingar, sérstaklega í fámennari byggðarlögum

Gott segja einhverjir, útgerðin á að borga miklu meira fyrir aðgang að fiskinum í sjónum en hún gerir í dag. Þeir sem svona tala og hugsa fremja þá reginskyssu að telja eitt gilda um allar útgerðir í landinu; að allar útgerðir tilheyri stórútgerðinni.

Því er hins vegar ekki svo farið. Hagur útgerða er mjög mismunandi og þó að stórútgerðir með fjölþættan rekstur í veiðum og vinnslu og mjög ríkulegar aflaheimildir fari létt með að taka á sig hækkun veiðigjalda er því miður fjöldi útgerða, sérstaklega í fámennari sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins, sem horfa fram á að grundvellinum er kippt undan rekstri þeirra.

Sunnanverðir Vestfirðir eru gott dæmi um landsvæði sem verður illa fyrir barðinu á þessum breytingum. Dæmi má taka af útgerð, sem stundar einstaklega vistvænar fiskveiðar, gerir út tvo línubáta, sem veiða úr sjálfbærum og endurnýtanlegum stofnum í íslenskri fiskveiðilögsögu. Þetta fyrirtæki starfar í sátt og samlyndi við samfélagið og umhverfið. Það landar afla sínum í heimabyggð og það eru heimamenn sem starfa í fiskvinnslunni, sem vinnur aflann til útflutnings.

Tæplega helmingur aflans er fluttur út ferskur á markaði í Evrópu og Ameríku með flugi og skipum. Rúmlega fjórðungur aflans er saltfiskur og annað eins frystar afurðir. Ávallt hefur verið lögð áhersla á góða umgengni um dýrmætar auðlindir og umhverfisvernd höfð í fyrirrúmi. Hjá fyrirtækinu starfa næstum níutíu manns bæði hjá útgerð og vinnslu. Starfsmenn eru vel menntaðir og starfsmannavelta lítil. Allir stjórnendur eru háskólamenntaðir. Jafnrétti kynjanna er í öndvegi og konur eru í meirihluta í stjórn og meðal stjórnenda.

Í rekstri sínum leggur fyrirtækið áherslu á stöðugleika í samfélaginu með því að halda úti öflugri starfsemi allt árið. Launagreiðslur nema árlega meira en hálfum milljarði, sem gefur af sér a.m.k. 75 milljónir í útsvarstekjur til sveitarfélagsins. Landaður afli í heimahöfn nemur rúmlega 5000 tonnum að verðmæti 1,2 milljarðar, sem gefur af sér u.þ.b. 25 milljónir í aflagjöld, auk hafnargjalda. Í heild er skattaspor fyrirtækisins um 400 milljónir króna auk þess sem það styrkir ýmsa starfsemi í byggðarlaginu allt frá æskulýðsstarfi til félagsstarfs eldri borgara fyrir um 6-7 milljónir króna árlega, en það jafngildir nálega 10 þúsund krónum á hvern íbúa.

Ytra umhverfi hefur verið þessu sjávarútvegsfyrirtæki mjög óhagfellt á undanförnum árum og afkoman fer hratt versnandi. Krónan hefur styrkst verulega um 30 prósent á síðustu fjórum árum og þar af um tæp 20 prósent bara síðasta árið eða svo. Mikil hækkun hefur orðið á kostnaði við aðföng og flutninga. Laun hafa hækkað um meira en 20 prósent á síðustu 18 mánuðum. Markaðir í suður Evrópu hafa enn ekki náð fyrri styrk braggast eftir efnahagskreppuna. BREXIT hefur mikil og alvarleg áhrif á fyrirtækið vegna umtalsverðra viðskipta við Bretland. Þá hefur samdráttur í aflaheimildum á öðrum tegundum en þorski undanfarin ár haft mjög skaðleg áhrif. Þessu til viðbótar er verið að draga stórlega úr úthlutun byggðakvóta, sem hefur þó á undanförnum árum, gert mögulegt að auka úthald báta útgerðarinnar um 1-2 mánuði á ári.

Það er því óhætt að segja að nú eru miklir erfiðleikatímar í bolfiskvinnslu. Afnám afsláttar af veiðigjöldum og hækkun almennra veiðigjalda kemur því á versta tíma fyrir smærri sjávarútvegsfyrirtæki, sem reyna að standa sína pligt sem burðarásar atvinnulífs í heimahögum. Reynslan hefur sýnt okkur að stærri fyrirtækjunum, sem sitja að ríkulegum aflaheimildum og reka sínar útgerðir frá stærstu verstöðvum landsins, er ekki treystandi til að viðhalda stöðugleika í atvinnulífi í fámennari byggðarlögum.

Útgerðin á sunnaverðum Vestfjörðum er samvinnuverkefni nágrannasveitarfélaga, sem gengið hefur hnökralaust. Afla er landað í einu sveitarfélagi, sem nýtur góðs af þeirri atvinnu sem af því skapast, og síðan ekið til vinnslu í nágrannasveitarfélaginu.

Nú blasir við að þessari starfsemi er ógnað. Fari svo að ekki verði úr bætt er tugum starfa stefnt í voða og  undan  kippt tekjugrunni sveitarfélaganna á svæðinu. Afleiðingin getur einungis orðið fólksflótti og vítahringur, sem fljótt leiðir til neyðarástands. Byggð á sunnanverðum Vestfjörðum er allt annað en tryggð til frambúðar.

Ég skora á sjávarútvegsráðherra og þingmenn að bregðast við af ákveðni og djörfung því það eru einmitt umhverfisvænar línuveiðar og vinnsla á stöðum eins og sunnanverðum Vestfjörðum, sem renna stoðum undir ímynd íslenskra sjávarafurða sem þær heilnæmustu og umhverfisvænstu í heimi.

Indriði Indriðason

Sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps

16 metrar og gengur glatt

Samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni voru Dýrafjarðargöng orðin 16 m í lok viku 37 og allt gengur vel. Heildarlengd ganga í berg verður 5.301 m svo það er spotti eftir ennþá. Á bb.is verða birtar að minnsta kosti vikulegar fréttir af framvindu verksins enda bíða Vestfirðingar spenntir eftir að því ljúki.

Hátíðarsprenging ganganna var í síðustu viku og hér að neðan er nokkrar myndir frá þeim merka viðburði.

Af hverju eru úlfarnir í sauðagærum

Pétur Húni Björnsson

Kristinn H. Gunnarsson og fleiri hafa reynt að skapa tortryggni í garð Tómasar Guðbjartssonar og Ólafs Más Björnsson vegna baráttu þeirra gegn fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum í Ófeigsfirði og Eyvindarfirði á Ströndum, þar sem til stendur að virkja árnar Rjúkanda, Hvalá og Eyvindarfjará. Látið er að því liggja að eitthvað annað en umhverfisvernd og áhugi þeirra á náttúrufari og náttúruundrum Ófeigsfjarðar og Eyvindarfjarðar búi að baki baráttu þeirra og birtingu þeirra á myndum af glæsilegum fossum á svæðinu í því sem þeir kalla Fossadagatal, þar sem birt er mynd af nýjum fossi á svæðinu dag hvern út septembermánuð. Ekki hefur verið bent á neitt „misjafnt“ sem kann að búa að baki hjá en sífellt ýjað að því það sé eitthvað og þeir til dæmis kallaðir úlfar í sauðagæru.

Málflutningur flestra þeirra sem hafa talað fyrir virkjunarframkvæmdunum hefur verið á sömu nótum og langar mig að renna í fljótheitum yfir röksemdir þeirra:

* Virkjunin er í nýtingarflokki Rammaáætlunar og því er ekkert við hana að athuga.

Nýtingarflokkur Rammaáætlunar leyfir áframhaldandi vinnu við undirbúning og þar á meðal er mat á umhverfisáhrifum framkæmdanna. Skipulagsstofnun metur umhverfisáhrif Hvalárvirkjunar verulega neikvæð og einu atriðin sem eru ekki beinlínis neikvæð eru sögð háð óvissu vegna ónógra rannsókna, þeas fuglalíf og menningarminjar. Meira um það hér.

* Virkjunin tryggir bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum.

Orkan frá virkjuninni mun tengjast inn á Mjólkárlínu í Kollafirði á Barðaströnd og mun þar af leiðandi ekki bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum sem neinu nemur. Ef þessi virkjun ætti að vera til bóta fyrir afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum þyrfti að tengja hana beint til Ísafjarðar, ekki við Mjólkárlínu á Barðaströnd. Það er engin bót fólgin í því að flytja raforkuna fjær Ísafirði, hún þarf að fara nær Ísafirði. Meira um það hér.

* Virkjunin er liður í að koma á hringtengingu raforkukerfis Vestfjarða.

Sett hefur verið upp flétta sem miðar að því að Landsnet setji upp tengipunkt á Nauteyri innst i Djúpi til að stytta leiðina sem HS Orku þarf að leggja línur frá virkjuninni og spara þeim milljarða í tengigjöldum við raforkudreifikerfið. Engar háspennulínur liggja að Nauteyri og eina línan sem er fyrirhuguð er línan yfir í Kollafjörð. Engar ráðagerðir eru um tengingu út Djúp til Ísafjarðar. Raforkan mun fara fjær Ísafirði en ekki nær. Meira um það hér.

* Framkvæmdirnar stuðla að viðgangi byggðar í Árneshreppi.

Vissulega verður ys og þys í Árneshreppi meðan búkollurnar bruna þar fram og til baka yfir bæjarhlöðin og vinnubúðirnar í Ófeigsfirði og á Ófeigsfjarðarheiði verða þéttskipaðar vinnuflokkum þeirra verktaka sem munu annast framkvæmdirnar, en virkjunin mun engin störf skapa í hreppnum og litlar líkur eru á því að starfsmenn við virkjanaframkvæmdirnar muni hafa börnin sín í Finnbogastaðaskóla eða taki með öðrum hætti þátt í mannlífi hreppsins. Þeir munu eflaust skapa sitt eigið mannlíf, en þegar framkvæmdum lýkur er allt á bak og brott og engin störf verða eftir.

* Þeir sem eru á móti virkjuninni eru á móti Vestfjörðum, Vestfirðingum, Strandamönnum og/eða íbúum Árneshrepps.

Ef fyrri röksemdir í þessari upptalningu eru skoðaðar ætti að vera augljóst að virkjunin er ekki til hagsbóta fyrir Vestfirði, Vestfirðinga, Strandamenn eða íbúa Árneshrepps. Þar af leiðandi er fráleitt að þeir sem tali gegn þeim eigi eitthvað sökótt við landsvæðið eða íbúa þess. Mun nærtækara er að halda því fram að þeir sem mæla framkvæmdunum bót með því að vísa til þessara röksemda séu að vinna gegn hagsmunum svæðisins, annað hvort af því þeir vita ekki betur eða hreinlega sjálfum sér til hagsbóta því þeir hafi fjárhagslegan hag af því að af framkvæmdunum verði.

Þegar málið er skoðað ofan í kjölinn koma í ljós ýmsir úlfar sem eru misvel huldir sauðagærum, en Tómas og Ólafur eru ekki þar á meðal.

Gott væri ef úlfarnir köstuðu nú af sér sauðagærunum og segðu okkur hvað það er sem þeir ætlast fyrir og hvers vegna þeir halda stöðugt fram falsrökum fyrir framkvæmdunum.

Gæti verið að raunin sé sú að raunverulegu rökin séu ekki boðleg?

Pétur Húni

Stjórnarmaður í Rjúkanda

 

 

Gefur kost á sér á ný

Gylfi stefnir á oddvitasæti Viðreisnar.

Gylfi Ólafsson ætlar að gefa kost á sér til að leiða lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi í Alþingiskosningunum í október, en hann var oddviti listans í kosningunum í fyrra. Gylfi var nokkuð langt frá því að ná kjöri, en flokkurinn hlaut 6,2% atkvæða. Hann hefur starfað sem aðstoðarmaður fjármálaráðherra á kjörtímabilinu. „Ég tel mig hafa erindi á þing, meðal annars sem rödd ungs fjölskyldufólks,“ segir Gylfi og bætir við að Viðreisn sé stolt af því sem hefur áunnist á síðasta ári og nefnir ábyrga hagstjórn, lögfestingu jafnlaunavottunar og sterkan neytendavinkil í landbúnaðarmálum. „Þá hafa stór skref verið stigin til að skapa þá umgjörð um fiskeldi sem þarf svo það geti orðið mikilvægur hornsteinn í samfélaginu sem sátt er um og sómi að. Þar eins og í öðru er mörgu ólokið. Ég vil vinna áfram að okkar málum með fagleg vinnubrögð og gagnsæi að leiðarljósi, og taka almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni,“segir Gylfi.

smari@bb.is

Sauðfjárbændur í fullkominni óvissu

Mikill vandi steðjar að sauðfjárrækt í kjölfar þriðjungslækkun afurðaverðs í haust.

„Við erum í full­kom­inni óvissu um það hvað verði gert og í raun hvort eitt­hvað verði gert,“ seg­ir Odd­ný Steina Vals­dótt­ir, formaður Lands­sam­taka sauðfjár­bænda, í samtali við mbl.is. Fall ríkistjórnarinnar setur lausn á vanda sauðfjárbænda í uppnám og í yfirlýsingu frá Bændasamtökunum og Landssamtökum sauðfjárbænda segir að málið þoli enga bið. Að mati samtakanna er mikilvægt að Alþingi setji málefni sauðfjár­bænda á dag­skrá svo fljótt sem unnt er. Bænd­ur munu leggja fram at­huga­semd­ir við til­lög­ur frá­far­andi land­búnaðarráðherra og ætl­ast til þess að Alþingi taki mið af þeim at­huga­semd­um.

LS hafa boðað til auka­fund­ar í dag þar sem til­lög­urn­ar verða rædd­ar en Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, sæk­ir fund­inn.

smari@bb.is

Ásgeir og Ágúst í samstarf

Ásgeir Helgi Þrastarson og Ágúst G. Atlason

Ásgeir Helgi Þrastarson hefur nú komið sér fyrir í Björnsbúð hjá bæjarlistamanni Ísafjarðarbæjar Ágústi Atlasyni ljósmyndara og hyggja þeir á gróskumikið samstarf á svið ljósmyndunar og margmiðlunar, allra handa auglýsinga og prenthönnun og ljósmyndatengda þjónustu fyrir heimamenn, viðburði og fyrirtæki segir í tilkynningu frá þeim.

Ágúst var kjörinn bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar í haust en hann er menntaður ljósmyndari frá Mediaskolerne í Viborg og í umsögn atvinnu- og menningarmálanefnd sveitarfélagsins segir að hann hafi næmt auga fyrir fegurðinni sem er í kringum okkur og hefur jafnframt verð afkastamikill við að vekja athygli á henni. Ásgeir kemur inn í fyrirtækið með mikla þekkingu á hljóðvinnslu og margmiðlun og sömuleiðis hefur hann vakið athygli fyrir fallegar náttúrulífsmyndir.

bryndis@bb.is

Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn stærst

.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn og Vinstri græn eru með jafnt fylgi sam­kvæmt nýrri skoðana­könn­un Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vís­is sem gerð var í gær. Hvor flokk­ur fengi um 23 pró­sent.

Pírat­ar eru þriðji stærsti flokk­ur­inn sam­kvæmt könn­un­inni en 13,7 pró­sent svar­enda segj­ast myndu kjósa flokk­inn. Flokk­ur fólks­ins fengi tæp 11 pró­sent og Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn fengi rúm 10 pró­sent. Þá fengi Björt framtíð rúm 7 pró­sent og Viðreisn og Sam­fylk­ing­in fengu rúm 5 pró­sent.

Yrðu þetta niður­stöðurn­ar fengju átta flokk­ar menn kjörna á þing. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn og Vinstri græn fengju 15 þing­menn hvor, Pírat­ar fengju 9 þing­menn, Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn og Flokk­ur fólks­ins fengju 7 menn hvor, Björt framtíð héldi í horf­inu með fjóra þing­menn. Þá fengju Viðreisn og Samfylking­in þrjá menn hvor.

Þetta myndi þýða tölu­verðar breyt­ing­ar á þingstyrk flokk­anna. Í kosn­ing­un­um í fyrra fékk Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn 21 þing­mann, Vinstri græn og Pírat­ar 10 þing­menn hvor, Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn 8 þing­menn, Viðreisn 7, Björt framtíð 4 þing­menn og Sam­fylk­ing­in þrjá þingmenn kjörna.

smari@bb.is

Torfi kvaddur á morgun

Þórunn Snorradóttir og Torfi Einarsson

Á morgun lætur Torfi Einarsson af störfum sem útibússtjóri Sjóvár á Ísafirði eftir áratuga starf. Við keflinu tekur Þórunn Snorradóttir sem hefur einnig starfað hjá Sjóvá um árabil og margir Vestfirðingar þekkja nú þegar.

Torfi og Þórunn skoða aðstæður í seiðaeldisstöð Arctic Fish í Tálknafirði.

Lykilatriði að vera sýnilegur

Torfi hóf störf sem umboðsmaður fyrir Sjóvá árið 1996, á sama tíma og hann starfaði hjá Eimskipum við gámastýringu. Um aldamótin var að frumkvæði Torfa tekin ákvörðun um að stofna útibú á Ísafirði og hefur hann stýrt því allar götur síðan. Starfsemin hefur vaxið jafnt og þétt undir stjórn Torfa og í dag starfa fjórir starfsmenn hjá Sjóvá á Ísafirði, en félagið er með mjög stóra hlutdeild á tryggingamarkaðnum hér fyrir vestan. Torfi segir lykilatriði að vera sýnilegur og láta fólk vita af þeirri þjónustu sem er í boði. „Það kaupir enginn vöru sem er geymd ofan í kassa. Það þarf sýnileika og við erum orðin það í dag, miklu sýnilegri.“

Lærði að umgangast fólk í öllum starfsstéttum

Torfi býr yfir afar fjölbreyttri starfsreynslu. Hann var á sjó frá 13 ára aldri en hóf síðan störf hjá lögreglunni rúmlega tvítugur. Þar starfaði hann fyrst sem varðstjóri og síðar sem yfirlögregluþjónn. Torfi sleppti þó ekki alveg taki af sjónum og vann á sumrin á togara. Hann leigði síðar út flugvélar, búnað og bensín fyrir flugfélagið Erni og seldi auk þess ýmis ökutæki og búnað fyrir Ingvar Helgason. Árið 2000 sneri hann sér hins vegar alfarið að tryggingageiranum þegar hann tók við nýstofnuðu útibúi Sjóvár á Ísafirði. Þar átti fyrri starfsreynsla eftir að nýtast honum vel. „Þegar maður fer í skóla þá lærir maður lítið um margt. En þegar maður gerir þetta svona og lærir í vinnunni og hinum ýmsu stéttum þá lærir maður mikið um margt – og líka fyrst og fremst að umgangast fólk í öllum stéttum,“ segir Torfi.

Spennandi tímar í starfsemi tengdri sjávarútveginum

Það er Þórunn Snorradóttir sem tekur við keflinu af Torfa en hún bjó fyrir vestan þegar hún hóf störf hjá Sjóvá um aldamótin. Frá árinu 2006 starfaði hún á fyrirtækjasviði Sjóvár, lengst af sem viðskiptastjóri. Þórunni þykir afar spennandi að vera komin aftur vestur. „Hér eru mörg tækifæri í atvinnulífinu sem eru flest tengd sjávarútvegi enda nálægðin við hafið mikil,“ segir Þórunn. Hún er afar áhugasöm um þær breytingar sem eru að verða á starfsemi tengdri sjávarútveginum, s.s. þeim miklu tækifærum sem felast í fiskeldinu og ýmiskonar nýsköpun sem hafi sprottið fram í tengslum við sjávarútveginn. „Eldri kynslóðir þekkja hvernig sauðkindin var nýtt nánast að fullu. Nú er það fiskurinn sem við nýtum að fullu og er það jafnvel orðið þannig að roðið sem við hentum er orðið hvað verðmætast.“

Komin aftur heim

Þórunn segist vera mikill orkubolti sem hafi alltaf nóg fyrir stafni. Utan vinnutíma syngur hún m.a. í tveggja manna hljómsveit og stundar fjarnám í viðskiptalögfræði við Háskólann á Bifröst. Þórunn er spennt fyrir komandi tímum fyrir vestan og er afar ánægð með að vera flutt aftur hingað, segir að hér sé gott að búa og hún sé í raun komin heim.

Opið hús á morgun

Í tilefni af þessum breytingum verður opið hús hjá útibúi Sjóvár Ísafirði við Silfurtorg á morgun miðvikudag kl. 13:00-16:00. Þar verður Torfi kvaddur og Þórunn boðin velkomin og eru allir hjartanlega velkomnir.

smari@bb.is

Breytingar hjá Kalkþörungafélaginu

Verksmiðja Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal.

Einar Sveinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal, hefur verið ráðinn til starfa hjá móðurfélaginu Marigot á Írlandi, eiganda fyrirtækisins á Bíldudal, þar sem honum hefur verið falið að leiða vinnu Marigot hér á landi við tvö þróunarverkefni sem fela í sér byggingu og rekstur tveggja verksmiðja, annars vegar í Stykkishólmi og Súðavík hins vegar. Áhersla er lögð á að starfsemi þeirra hefjist eigi síðar en á næstu fimm árum.

Sem nýfjárfestingastjóri Marigot á Íslandi eins og starfsheitið hefur verið skilgreint verður aðalstarf Einars Sveins til að byrja með verkefnið framundan í Stykkishólmi og mun Einar Sveinn því flytjast þangað búferlum á næstu mánuðum. Bæði verkefnin, í Stykkishólmi og Súðavík, lúta m.a. að leyfisveitingum, samningum við sveitarfélög og aðra aðila er koma að þróun verkefnanna, svo raforkusala, verktaka og aðra.

Vegna skipulagsbreytinganna sem gert er ráð fyrir að gangi endanlega í gegn á næstu sex mánuðum hafa verið ráðnir tveir nýir stjórnendur frá Bergen í Noregi til Kalkþörungafélagsins á Bíldudal sem taka við störfum Einars Sveins.

Stig Randal hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri verksmiðjunnar. Randal lauk BA-prófi í sögu frá háskólanum í Bergen árið 1988. Hann er einnig menntaður rafmagnsfræðum og hefur áralanga reynslu af ýmsum stjórnunarstörfum, samningum við birgja og mismunandi þróunar- og innleiðingarverkefnum, m.a. í gas- og olíuiðnaði. Randal hefur einnig langa reynslu af útgáfu flokkunarskírteina, svo sem hjá Lloyds, DNV, ABS og nú nýlega hjá Norsok. Hann hefur störf í þessari viku.

Øystein Mathisen hefur verið ráðinn viðhaldsstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins. Mathiesen tæplega þriggja áratuga langa starfsreynslu í véltækni, einkum sem vélvirki og tæknistjóri og á að bai fimm ára nám í þessum greinum. Mathisen hefur starfað sem viðshalds- og tæknistjóri hjá ýmsum fyrirtækjum í Noregi, svo sem Telmek, Lofotenprodukter, Tine Meieriet Vest, Hansa Borg og fleiri fyrirtækjum. Øystein hefur störf á næstunni.

Einar Sveinn Ólafsson.

Til að byrja með mun Einar Sveinn starfa með nýju starfsmönnunum til að kynna þeim starfsemi verksmiðjunnar til hlítar ásamt því sem þeir verða kynntir fyrir helstu hagsmunaaðilum á svæðinu, svo sem sveitarstjórn Vesturbyggðar og stjórnendum helstu fyrirtækja í sveitarfélaginu. Verið er að vinna að því að finna endanlegt húsnæði fyrir þá báða á Bíldudal.

 

smari@bb.is

Stefna öll á þingsetu

Allir þingmenn Norðvesturkjördæmis ætla að bjóða sig fram að nýju í kosningunum eftir rúmar fimm vikur. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þetta eru Gunnar Bragi Sveinsson og Elsa Lára Arnardóttir úr Framsóknarflokki, Haraldur Benediktsson, Teitur Björn Einarsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir úr Sjálfstæðisflokki, Eva Pandóra Baldursdóttir Pírati, Guðjón S. Brjánsson úr Samfylkingu og Lilja Rafney Magnúsdóttur úr Vinstri grænum.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir