Síða 2148

Gefur kost á sér á ný

Gylfi stefnir á oddvitasæti Viðreisnar.

Gylfi Ólafsson ætlar að gefa kost á sér til að leiða lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi í Alþingiskosningunum í október, en hann var oddviti listans í kosningunum í fyrra. Gylfi var nokkuð langt frá því að ná kjöri, en flokkurinn hlaut 6,2% atkvæða. Hann hefur starfað sem aðstoðarmaður fjármálaráðherra á kjörtímabilinu. „Ég tel mig hafa erindi á þing, meðal annars sem rödd ungs fjölskyldufólks,“ segir Gylfi og bætir við að Viðreisn sé stolt af því sem hefur áunnist á síðasta ári og nefnir ábyrga hagstjórn, lögfestingu jafnlaunavottunar og sterkan neytendavinkil í landbúnaðarmálum. „Þá hafa stór skref verið stigin til að skapa þá umgjörð um fiskeldi sem þarf svo það geti orðið mikilvægur hornsteinn í samfélaginu sem sátt er um og sómi að. Þar eins og í öðru er mörgu ólokið. Ég vil vinna áfram að okkar málum með fagleg vinnubrögð og gagnsæi að leiðarljósi, og taka almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni,“segir Gylfi.

smari@bb.is

Sauðfjárbændur í fullkominni óvissu

Mikill vandi steðjar að sauðfjárrækt í kjölfar þriðjungslækkun afurðaverðs í haust.

„Við erum í full­kom­inni óvissu um það hvað verði gert og í raun hvort eitt­hvað verði gert,“ seg­ir Odd­ný Steina Vals­dótt­ir, formaður Lands­sam­taka sauðfjár­bænda, í samtali við mbl.is. Fall ríkistjórnarinnar setur lausn á vanda sauðfjárbænda í uppnám og í yfirlýsingu frá Bændasamtökunum og Landssamtökum sauðfjárbænda segir að málið þoli enga bið. Að mati samtakanna er mikilvægt að Alþingi setji málefni sauðfjár­bænda á dag­skrá svo fljótt sem unnt er. Bænd­ur munu leggja fram at­huga­semd­ir við til­lög­ur frá­far­andi land­búnaðarráðherra og ætl­ast til þess að Alþingi taki mið af þeim at­huga­semd­um.

LS hafa boðað til auka­fund­ar í dag þar sem til­lög­urn­ar verða rædd­ar en Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, sæk­ir fund­inn.

smari@bb.is

Ásgeir og Ágúst í samstarf

Ásgeir Helgi Þrastarson og Ágúst G. Atlason

Ásgeir Helgi Þrastarson hefur nú komið sér fyrir í Björnsbúð hjá bæjarlistamanni Ísafjarðarbæjar Ágústi Atlasyni ljósmyndara og hyggja þeir á gróskumikið samstarf á svið ljósmyndunar og margmiðlunar, allra handa auglýsinga og prenthönnun og ljósmyndatengda þjónustu fyrir heimamenn, viðburði og fyrirtæki segir í tilkynningu frá þeim.

Ágúst var kjörinn bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar í haust en hann er menntaður ljósmyndari frá Mediaskolerne í Viborg og í umsögn atvinnu- og menningarmálanefnd sveitarfélagsins segir að hann hafi næmt auga fyrir fegurðinni sem er í kringum okkur og hefur jafnframt verð afkastamikill við að vekja athygli á henni. Ásgeir kemur inn í fyrirtækið með mikla þekkingu á hljóðvinnslu og margmiðlun og sömuleiðis hefur hann vakið athygli fyrir fallegar náttúrulífsmyndir.

bryndis@bb.is

Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn stærst

.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn og Vinstri græn eru með jafnt fylgi sam­kvæmt nýrri skoðana­könn­un Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vís­is sem gerð var í gær. Hvor flokk­ur fengi um 23 pró­sent.

Pírat­ar eru þriðji stærsti flokk­ur­inn sam­kvæmt könn­un­inni en 13,7 pró­sent svar­enda segj­ast myndu kjósa flokk­inn. Flokk­ur fólks­ins fengi tæp 11 pró­sent og Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn fengi rúm 10 pró­sent. Þá fengi Björt framtíð rúm 7 pró­sent og Viðreisn og Sam­fylk­ing­in fengu rúm 5 pró­sent.

Yrðu þetta niður­stöðurn­ar fengju átta flokk­ar menn kjörna á þing. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn og Vinstri græn fengju 15 þing­menn hvor, Pírat­ar fengju 9 þing­menn, Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn og Flokk­ur fólks­ins fengju 7 menn hvor, Björt framtíð héldi í horf­inu með fjóra þing­menn. Þá fengju Viðreisn og Samfylking­in þrjá menn hvor.

Þetta myndi þýða tölu­verðar breyt­ing­ar á þingstyrk flokk­anna. Í kosn­ing­un­um í fyrra fékk Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn 21 þing­mann, Vinstri græn og Pírat­ar 10 þing­menn hvor, Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn 8 þing­menn, Viðreisn 7, Björt framtíð 4 þing­menn og Sam­fylk­ing­in þrjá þingmenn kjörna.

smari@bb.is

Torfi kvaddur á morgun

Þórunn Snorradóttir og Torfi Einarsson

Á morgun lætur Torfi Einarsson af störfum sem útibússtjóri Sjóvár á Ísafirði eftir áratuga starf. Við keflinu tekur Þórunn Snorradóttir sem hefur einnig starfað hjá Sjóvá um árabil og margir Vestfirðingar þekkja nú þegar.

Torfi og Þórunn skoða aðstæður í seiðaeldisstöð Arctic Fish í Tálknafirði.

Lykilatriði að vera sýnilegur

Torfi hóf störf sem umboðsmaður fyrir Sjóvá árið 1996, á sama tíma og hann starfaði hjá Eimskipum við gámastýringu. Um aldamótin var að frumkvæði Torfa tekin ákvörðun um að stofna útibú á Ísafirði og hefur hann stýrt því allar götur síðan. Starfsemin hefur vaxið jafnt og þétt undir stjórn Torfa og í dag starfa fjórir starfsmenn hjá Sjóvá á Ísafirði, en félagið er með mjög stóra hlutdeild á tryggingamarkaðnum hér fyrir vestan. Torfi segir lykilatriði að vera sýnilegur og láta fólk vita af þeirri þjónustu sem er í boði. „Það kaupir enginn vöru sem er geymd ofan í kassa. Það þarf sýnileika og við erum orðin það í dag, miklu sýnilegri.“

Lærði að umgangast fólk í öllum starfsstéttum

Torfi býr yfir afar fjölbreyttri starfsreynslu. Hann var á sjó frá 13 ára aldri en hóf síðan störf hjá lögreglunni rúmlega tvítugur. Þar starfaði hann fyrst sem varðstjóri og síðar sem yfirlögregluþjónn. Torfi sleppti þó ekki alveg taki af sjónum og vann á sumrin á togara. Hann leigði síðar út flugvélar, búnað og bensín fyrir flugfélagið Erni og seldi auk þess ýmis ökutæki og búnað fyrir Ingvar Helgason. Árið 2000 sneri hann sér hins vegar alfarið að tryggingageiranum þegar hann tók við nýstofnuðu útibúi Sjóvár á Ísafirði. Þar átti fyrri starfsreynsla eftir að nýtast honum vel. „Þegar maður fer í skóla þá lærir maður lítið um margt. En þegar maður gerir þetta svona og lærir í vinnunni og hinum ýmsu stéttum þá lærir maður mikið um margt – og líka fyrst og fremst að umgangast fólk í öllum stéttum,“ segir Torfi.

Spennandi tímar í starfsemi tengdri sjávarútveginum

Það er Þórunn Snorradóttir sem tekur við keflinu af Torfa en hún bjó fyrir vestan þegar hún hóf störf hjá Sjóvá um aldamótin. Frá árinu 2006 starfaði hún á fyrirtækjasviði Sjóvár, lengst af sem viðskiptastjóri. Þórunni þykir afar spennandi að vera komin aftur vestur. „Hér eru mörg tækifæri í atvinnulífinu sem eru flest tengd sjávarútvegi enda nálægðin við hafið mikil,“ segir Þórunn. Hún er afar áhugasöm um þær breytingar sem eru að verða á starfsemi tengdri sjávarútveginum, s.s. þeim miklu tækifærum sem felast í fiskeldinu og ýmiskonar nýsköpun sem hafi sprottið fram í tengslum við sjávarútveginn. „Eldri kynslóðir þekkja hvernig sauðkindin var nýtt nánast að fullu. Nú er það fiskurinn sem við nýtum að fullu og er það jafnvel orðið þannig að roðið sem við hentum er orðið hvað verðmætast.“

Komin aftur heim

Þórunn segist vera mikill orkubolti sem hafi alltaf nóg fyrir stafni. Utan vinnutíma syngur hún m.a. í tveggja manna hljómsveit og stundar fjarnám í viðskiptalögfræði við Háskólann á Bifröst. Þórunn er spennt fyrir komandi tímum fyrir vestan og er afar ánægð með að vera flutt aftur hingað, segir að hér sé gott að búa og hún sé í raun komin heim.

Opið hús á morgun

Í tilefni af þessum breytingum verður opið hús hjá útibúi Sjóvár Ísafirði við Silfurtorg á morgun miðvikudag kl. 13:00-16:00. Þar verður Torfi kvaddur og Þórunn boðin velkomin og eru allir hjartanlega velkomnir.

smari@bb.is

Breytingar hjá Kalkþörungafélaginu

Verksmiðja Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal.

Einar Sveinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal, hefur verið ráðinn til starfa hjá móðurfélaginu Marigot á Írlandi, eiganda fyrirtækisins á Bíldudal, þar sem honum hefur verið falið að leiða vinnu Marigot hér á landi við tvö þróunarverkefni sem fela í sér byggingu og rekstur tveggja verksmiðja, annars vegar í Stykkishólmi og Súðavík hins vegar. Áhersla er lögð á að starfsemi þeirra hefjist eigi síðar en á næstu fimm árum.

Sem nýfjárfestingastjóri Marigot á Íslandi eins og starfsheitið hefur verið skilgreint verður aðalstarf Einars Sveins til að byrja með verkefnið framundan í Stykkishólmi og mun Einar Sveinn því flytjast þangað búferlum á næstu mánuðum. Bæði verkefnin, í Stykkishólmi og Súðavík, lúta m.a. að leyfisveitingum, samningum við sveitarfélög og aðra aðila er koma að þróun verkefnanna, svo raforkusala, verktaka og aðra.

Vegna skipulagsbreytinganna sem gert er ráð fyrir að gangi endanlega í gegn á næstu sex mánuðum hafa verið ráðnir tveir nýir stjórnendur frá Bergen í Noregi til Kalkþörungafélagsins á Bíldudal sem taka við störfum Einars Sveins.

Stig Randal hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri verksmiðjunnar. Randal lauk BA-prófi í sögu frá háskólanum í Bergen árið 1988. Hann er einnig menntaður rafmagnsfræðum og hefur áralanga reynslu af ýmsum stjórnunarstörfum, samningum við birgja og mismunandi þróunar- og innleiðingarverkefnum, m.a. í gas- og olíuiðnaði. Randal hefur einnig langa reynslu af útgáfu flokkunarskírteina, svo sem hjá Lloyds, DNV, ABS og nú nýlega hjá Norsok. Hann hefur störf í þessari viku.

Øystein Mathisen hefur verið ráðinn viðhaldsstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins. Mathiesen tæplega þriggja áratuga langa starfsreynslu í véltækni, einkum sem vélvirki og tæknistjóri og á að bai fimm ára nám í þessum greinum. Mathisen hefur starfað sem viðshalds- og tæknistjóri hjá ýmsum fyrirtækjum í Noregi, svo sem Telmek, Lofotenprodukter, Tine Meieriet Vest, Hansa Borg og fleiri fyrirtækjum. Øystein hefur störf á næstunni.

Einar Sveinn Ólafsson.

Til að byrja með mun Einar Sveinn starfa með nýju starfsmönnunum til að kynna þeim starfsemi verksmiðjunnar til hlítar ásamt því sem þeir verða kynntir fyrir helstu hagsmunaaðilum á svæðinu, svo sem sveitarstjórn Vesturbyggðar og stjórnendum helstu fyrirtækja í sveitarfélaginu. Verið er að vinna að því að finna endanlegt húsnæði fyrir þá báða á Bíldudal.

 

smari@bb.is

Stefna öll á þingsetu

Allir þingmenn Norðvesturkjördæmis ætla að bjóða sig fram að nýju í kosningunum eftir rúmar fimm vikur. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þetta eru Gunnar Bragi Sveinsson og Elsa Lára Arnardóttir úr Framsóknarflokki, Haraldur Benediktsson, Teitur Björn Einarsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir úr Sjálfstæðisflokki, Eva Pandóra Baldursdóttir Pírati, Guðjón S. Brjánsson úr Samfylkingu og Lilja Rafney Magnúsdóttur úr Vinstri grænum.

smari@bb.is

Kvótakerfi frumbyggja í kastljósi

Fiona McCormack.

Kvótakerfi frumbyggja á Nýja Sjálandi verður til umfjöllunar á hádegisfyrirlestri Fiona McCormack í Háskólasetri Vestfjarða í dag. Kvótakerfið var tekið upp árið 1992 og var því ætlað að endurvekja réttindi Mára til fiskveiða og styrkja þannig atvinnuhætti frumbyggja landsins. Fiona McCormack, prófessor við mannfræðideild Háskólans í Waikato á Nýja Sjálandi, hefur rannsakað áhrif kerfisins og mun hún í fyrirlestrinum m.a. fara yfir þau tækifæri og þær takmarkanir sem hafa fylgt kerfinu.

Árið 1992 var undirritaður sáttmáli sem staðfesti að Márar áttu ekki aðeins hagsmuna að gæta við fiskveiðar út frá hefðarétti heldur einnig viðskiptalega hagsmuni sem höfðu nær þurrkast út á nýlendutímum landsins. Réttindi Máranna voru því endurvakin með gildistöku kvótakerfis,  Iwi Settlement Quate (ISQ), sem átti að gera Márum kleift að komast aftur inn í sjávarútveginn. Þessu markmiði hefur þó ekki verið náð að fullu og flestir frumbyggjar leigja frá sér veiðiréttinn frekar en að nýta hann sjálfir.

Hádegisfyrirlesturinn fer fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða kl. 12.10-13.00 og er opinn öllum áhugasömum.

smari@bb.is

Fiskaflinn jókst um 1 prósent

Fiskafli ís­lenskra skipa í ág­úst var 120.627 tonn, sem er 1% meiri afli en í ág­úst 2016. Þetta kem­ur fram á vef Hag­stofu Íslands. Þar seg­ir einnig að botn­fiskafli hafi numið rúm­um 39 þúsund tonn­um og hafi auk­ist um 18%, þar af nam þorskafl­inn ríf­lega 21 þúsund tonn­um sem er 25% meiri afli en í ág­úst 2016.

Upp­sjáv­ar­afli nam rúm­um 77 þúsund tonn­um í ág­úst og dróst sam­an um 7%. Flat­fiskafl­inn nam um 3 þúsund tonn­um sem er 16% aukn­ing miðað við ág­úst 2016. Skel- og krabba­dýra­afli nam 1.273 tonn­um sam­an­borið við 1.493 tonn í ág­úst 2016.

Heild­arafli á 12 mánaða tíma­bili frá sept­em­ber 2016 til ág­úst 2017 var 1.120 þúsund tonn sem er 7% aukn­ing.

smari@bb.is

Skoða möguleika á líkamsræktarstöð á Torfnesi

Ísafjarðarbær hefur áhuga á að koma upp líkamsræktaraðstöðu á Torfnesi. Þetta kemur fram í bókun fulltrúa meirihlutans í bæjarráði. Tilefni bókunarinnar er tillaga Daníels Jakobssonar, oddvita Sjálfstæðisflokksins, um að sveitarfélagið komi með einhverjum hætti að uppbyggingu líkamsræktaraðstöðu. Stúdíó Dan hefur rekið líkamsrækt um langt árabil en í febrúar hættir fyrirtækið rekstri og hefur nú þegar selt húsnæðið. Í tillögu Daníels kemur að aðgangur að góðri líkamsræktarstöð skipti marga íbúa miklu máli en vafamál hvort að Ísfirðingar séu nógu margir til að standa undir rekstrinum á markaðslegum forsendum, að minnsta kosti ef að byggja þarf upp aðstöðuna frá grunni. Þá komi til kasta bæjaryfirvalda með einhverju móti.

Í bókun meirihlutans kemur fram að verið er að kanna möguleika á framtíðarstaðsetningu við íþróttahúsið á Torfnesi en meirihlutinn telur æskilegt væri þó að leita samninga við eiganda þess húsnæðis sem Stúdíó Dan nýtir í dag um að hýsa líkamsræktarstöð þar til nýtt húsnæði verður tilbúið. „Það er mjög mikilvægt fyrir bæjarfélagið að hér sé starfandi líkamsræktarstöð enda brýnt lýðheilsumál og eykur lífsgæði bæjarbúa,“ segir í bókuninni.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir