Síða 2148

Hvasst og hviðótt á Suðausturlandi

Haustlægðirnar eru nú farnar að dúkka upp og hafa sunn- og austlendingar helst fengið að finna fyrir þeim hingað til. Í dag er hins vegar blautur dagur á Vestfjörðum og rétt að taka stígvélin til kostanna.  Á veður.is segja fræðingar um veðrið á Vestfjörðum „Norðaustan 13-18 m/s og rigning en hægari sunnan átt og úrkomu minna í nótt. Austan 8-13 á morgun og skýjað en norðlægari annað kvöld. Hiti 6 til 11 stig.“

Það verður hvasst og hviðótt á Suðausturlandi, í Öræfum gæti meðalvindur náð 25 m/s með hviðum nærri 40 m/s. Talsverð rigning austantil á landinu og á köflum mikil rigning á Suðausturlandi og Austfjörðum fram yfir hádegi.

bryndis@bb.is

Borgarafundurinn tækifæri til samtals við ráðamenn

Pétur G. Markan.

Sveitarfélögin á Vestfjörðum í samstarfi við Verkalýðsfélag Vestfirðinga og Fjórðungssamband Vestfirðinga standa fyrir borgarafundi í íþróttahúsinu á Ísafirði á sunnuduaginn. Til umræðu verða mál sem hafa verið brennidepli á Vestfjörðum síðustu ár og misseri; raforkumál, laxeldi og samgöngumál. Fundurinn var fastsettur fyrir nokkrum vikum og þá hugsaður til að mynda þrýsing á stjórnvöld en í millitíðinni hefur ríkisstórnin fallið og búið að boða til þingkosninga. „Það voru hugmyndir um að fresta fundinum í ljósi þessara vendinga í landsmálunum en niðurstaðan var að halda fundinn því á honum gefst gott tækifæri til að ræða þessi mikilvægu mál við ráðamenn,“ segir Pétur G. Markan, formaður Fjórðungssambandsins.

Þrír ráðherrar hafa boðað komu sína; Jón Gunnarsson samgönguráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðmála, iðnaðar og nýsköpunar. Fundarstjóri verður Heimir Már Pétursson fréttamaður.

Pétur segir að fleiri raddir en raddir stjórnmálamanna fái að heyrast á fundinum. „Til dæmis verður rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl með framsögu. Þessi mál sem við ætlum að ræða eru kannski ekki pólitísk í eðli sínu og því síður flokkspólitísk. Ef við tökum til dæmis vegaframkvæmdi í Gufudalssveit, Teigsskóg, þá er það mál búið að vera í pattstöðu í áraraðir og varla nokkur maður skilur hvað hefur gerst þarna og hinn almenni Vestfirðingur er orðinn mjög þreyttir á þeim slag,“ segir Pétur sem vill sjá fundinn sem hópefli Vestfirðinga og tækifæri til uppbyggilegs samtals við ráðamenn þjóðarinnar.

„Aðalatriðið á næstu vikum og misserum er að Vestfirðingar þétti raðirnar, en þar með er ekki sagt að við þurfum að vera eintóna, en við verðum að ná að harmónera,“ segir Pétur.

smari@bb.is

Vertu snjall undir stýri

Í gær ýtti Slysavarnafélagið Landsbjörg ásamt nokkrum samstarfsfyrirtækjum úr vör verkefni sem kallað er “Vertu snjall undir stýri”.

Gríðarlega hröð þróun hefur verið í notkun snjalltækja undanfarin ár og sýna slysatölur, bæði frá Evrópu og Ameríku, að um 25% allra slysa í umferðinni megi rekja beint til notkunar snjalltækja undir stýri. Ágúst Mogensen hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa segir að heimfæra megi þessar tölur á Ísland. Landsbjörg mun nú taka höndum saman með fyrirtækjum í landinu og þá sérstaklega þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem eru með mikið af bílum í umferðinni.

Samstarfið gengur út á það að atvinnubílstjórar á vegum fyrirtækjanna fái fræðslu um málefnið og hætturnar sem fylgja notkun snjalltækja undir stýri. Fyrirtækin merkja svo bílana sína með slagorði verkefnisins og miðla því þannig boðskapnum til annara ökumanna um leið og atvinnubílstjórarnir sýna gott fordæmi og “vera snjallir undir stýri”.

Markmið verkefnisins er því að vekja bílstjóra til umhugsunar um þá miklu ábyrgð sem því fylgir að vera út í umferðinni, jafnvel á stórum ökutækjum, og nota snjalltæki undir stýri með mögulegum lífshættulegum afleiðingum.

Í fréttatilkynningu frá Landsbjörgu kemur fram að í raun þarf að eiga sér stað hugarfarsbreyting hjá landsmönnum, því það krefst fullrar athygli að stýra ökutæki í umferðinni. Það að lesa og svara skilaboðum, horfa á myndefni, skoða samfélagsmiðla eða senda myndskilaboð undir stýri er einfaldlega of hættulegt til þess að það eigi að teljist í lagi. Íslenskar og erlendar rannsóknir sýna fram á að viðbragðstími ökumanna, verði þeir fyrir truflun, lengist töluvert við notkun snjalltæki undir stýri.

Til þess að gefa fólki hugmynd um hætturnar, þá fékk Landsbjörg þrjá aðila til að gera tilraunir í raunverulegu umhverfi í akstursbraut hjá Ökuskóla 3. Aðilarnir eru Páll Óskar Hjálmtýsson, Sólrún Diego og Sigvaldi Kaldalóns.

Þau fengu öll mismunandi verkefni sem öll snúa að notkun á snjalltæki á þann hátt sem flestir Íslendingar kannast við, þetta gerðu þau á meðan þau voru í akstri. Óvæntir hlutir urðu á vegi þeirra með tilheyrandi afleiðingum og verða myndbönd frá tilraununum birt á næstu dögum.

bryndis@bb.is

Blábankinn opnar í dag

Blábankinn á Þingeyri

Samfélagsmiðstöðin Blábankinn opnar formlega í dag með hátíð sem hefst kl. 16:00 þar sem verkefnið verður kynnt og ávörp flutt. Að ávörpum loknum mun Íþróttafélagið Höfrungur bjóða gestum upp á grillaðan fisk.

Blábankinn er nýsköpunar- og þjónustumiðstöð sem heldur utan um bankaþjónustu Landsbankans á Þingeyri og er tenging íbúa við ýmsa þjónustu Ísafjarðarbæjar. Blábankinn er samvinnuverkefni opinberra stofnanna og einkaaðila.

Blábankinn mun bjóða uppá sköpunarrými í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð sem og samvinnurými með skrifborðum í tímabundinni útleigu. Í Blábankanum getur fólk hist og rætt saman yfir kaffi, unnið saman, framleitt, öðlast þekkingu, færni, lært og skapað.

Markmið Blábanka þjónustukjarna er að hægt verði að bjóða upp á grunnþjónustu í smærri byggðarlögum sem eykur lífsgæði íbúanna sem og að koma á fót atvinnu- og þekkingarsetri á Þingeyri.

bryndis@bb.is

Eldur í vélarrúmi

Eld­ur kom upp í vél­ar­rúmi Bjargeyj­ar ÍS 41 er verið var að landa úr bátn­um í Ísa­fjarðar­höfn skömmu fyr­ir sex í morg­un. Greiðlega gekk að slökkva eld­inn og varð skipsverj­um ekki meint af. Mbl.is hefur eftir varðstjóra í lögreglunni á Ísafirði að fjórir hafi verið um borð í bátnum þegar eldurinn kom upp, en báturinn var við bryggju. Slökktu þeir eld­inn og gekk greiðlega að reykræsta. Bjargey er 14 brúttó­lest­ir að stærð.

smari@bb.is

Vestfirskir buðu einir í Bjarnafjarðarbrú

Bjarnarfjörður á Ströndum.

Í síðustu viku var opnað tilboð í smíði nýrrar brúar yfir Bjarnarfjarðará á Strandavegi í Strandasýslu. Einungis eitt tilboð barst í verkið, frá Vestfirskum verktökum ehf. á Ísafirði. Tilboð Vestfirskra var 179 milljónir kr. en kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar hljóðar upp á 146 milljónir kr. og tilboðið því 22 prósentum yfir kostnaðaráætlun.

Brúin verður 50 m löng og verklok samkvæmt útboði þann 1. júlí 2018.

smari@bb.is

Skýrsla starfshópsins ánægjuleg fyrir sunnanverða Vestfirði

Landssamband veiðifélaga telur álit Skipulagsstofnunar eigi að standa.

Atvinnu- og menningarráð Vesturbyggðar lýsir ánægju sinni með niðurstöðu starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi, hvað varðar sunnanverða Vestfirði, en ráðið telur eðlilegt að þau sveitarfélög sem hafa beina hagsmuni af uppbyggingu fiskeldis hefðu átt fulltrúa í starfshópnum til að tryggja sanngjarna og bráðnauðsynlega umfjöllun um byggðamál. Þetta kemur fram í bókun ráðsins.

Jafnframt fagnar ráðið niðurstöðu starfshópsins sem leggur til að 85% af auðlindagjaldi sem lagt verður á greinina renni til uppbyggingar innviða á þeim svæðum sem nýtast við uppbyggingu fiskeldis.

Samhliða vinnu starfshóps sjávarútvegsráðherra vann Byggðastofnun skýrslu um byggðaleg áhrif fiskeldis og atvinnu- og menningarráð Vesturbyggðar fagnar skýrslunnar en telur þó að betur hefði mátt vanda til verka og auðveldlega hefði verið hægt að koma með betri greiningu á stöðunni.

Athugasemd er gerð við það að ekki var leitað eftir aðkomu sveitarfélagsins að neinu leyti við gerð skýrslunnar og ekki var óskað eftir því að skýrslan væri lesin yfir þrátt fyrir að ítrekað væri vísað í svör sveitarfélagsins við spurningum starfshóps ráðuneytisins um mótun stefnu í fiskeldi.

smari@bb.is

Byggð ógnað

Indriði Indriðason

Nú er alvarlega ógnað stöðu smærri útgerða, sem þó eru í mörgum tilfellum burðarásar atvinnulífs í sveitarfélögum víða um landið. Verið er að hækka veiðigjöld og fella niður afslætti af veiðigjöldum. Þetta mun hafa alvarlegar afleiðingar, sérstaklega í fámennari byggðarlögum

Gott segja einhverjir, útgerðin á að borga miklu meira fyrir aðgang að fiskinum í sjónum en hún gerir í dag. Þeir sem svona tala og hugsa fremja þá reginskyssu að telja eitt gilda um allar útgerðir í landinu; að allar útgerðir tilheyri stórútgerðinni.

Því er hins vegar ekki svo farið. Hagur útgerða er mjög mismunandi og þó að stórútgerðir með fjölþættan rekstur í veiðum og vinnslu og mjög ríkulegar aflaheimildir fari létt með að taka á sig hækkun veiðigjalda er því miður fjöldi útgerða, sérstaklega í fámennari sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins, sem horfa fram á að grundvellinum er kippt undan rekstri þeirra.

Sunnanverðir Vestfirðir eru gott dæmi um landsvæði sem verður illa fyrir barðinu á þessum breytingum. Dæmi má taka af útgerð, sem stundar einstaklega vistvænar fiskveiðar, gerir út tvo línubáta, sem veiða úr sjálfbærum og endurnýtanlegum stofnum í íslenskri fiskveiðilögsögu. Þetta fyrirtæki starfar í sátt og samlyndi við samfélagið og umhverfið. Það landar afla sínum í heimabyggð og það eru heimamenn sem starfa í fiskvinnslunni, sem vinnur aflann til útflutnings.

Tæplega helmingur aflans er fluttur út ferskur á markaði í Evrópu og Ameríku með flugi og skipum. Rúmlega fjórðungur aflans er saltfiskur og annað eins frystar afurðir. Ávallt hefur verið lögð áhersla á góða umgengni um dýrmætar auðlindir og umhverfisvernd höfð í fyrirrúmi. Hjá fyrirtækinu starfa næstum níutíu manns bæði hjá útgerð og vinnslu. Starfsmenn eru vel menntaðir og starfsmannavelta lítil. Allir stjórnendur eru háskólamenntaðir. Jafnrétti kynjanna er í öndvegi og konur eru í meirihluta í stjórn og meðal stjórnenda.

Í rekstri sínum leggur fyrirtækið áherslu á stöðugleika í samfélaginu með því að halda úti öflugri starfsemi allt árið. Launagreiðslur nema árlega meira en hálfum milljarði, sem gefur af sér a.m.k. 75 milljónir í útsvarstekjur til sveitarfélagsins. Landaður afli í heimahöfn nemur rúmlega 5000 tonnum að verðmæti 1,2 milljarðar, sem gefur af sér u.þ.b. 25 milljónir í aflagjöld, auk hafnargjalda. Í heild er skattaspor fyrirtækisins um 400 milljónir króna auk þess sem það styrkir ýmsa starfsemi í byggðarlaginu allt frá æskulýðsstarfi til félagsstarfs eldri borgara fyrir um 6-7 milljónir króna árlega, en það jafngildir nálega 10 þúsund krónum á hvern íbúa.

Ytra umhverfi hefur verið þessu sjávarútvegsfyrirtæki mjög óhagfellt á undanförnum árum og afkoman fer hratt versnandi. Krónan hefur styrkst verulega um 30 prósent á síðustu fjórum árum og þar af um tæp 20 prósent bara síðasta árið eða svo. Mikil hækkun hefur orðið á kostnaði við aðföng og flutninga. Laun hafa hækkað um meira en 20 prósent á síðustu 18 mánuðum. Markaðir í suður Evrópu hafa enn ekki náð fyrri styrk braggast eftir efnahagskreppuna. BREXIT hefur mikil og alvarleg áhrif á fyrirtækið vegna umtalsverðra viðskipta við Bretland. Þá hefur samdráttur í aflaheimildum á öðrum tegundum en þorski undanfarin ár haft mjög skaðleg áhrif. Þessu til viðbótar er verið að draga stórlega úr úthlutun byggðakvóta, sem hefur þó á undanförnum árum, gert mögulegt að auka úthald báta útgerðarinnar um 1-2 mánuði á ári.

Það er því óhætt að segja að nú eru miklir erfiðleikatímar í bolfiskvinnslu. Afnám afsláttar af veiðigjöldum og hækkun almennra veiðigjalda kemur því á versta tíma fyrir smærri sjávarútvegsfyrirtæki, sem reyna að standa sína pligt sem burðarásar atvinnulífs í heimahögum. Reynslan hefur sýnt okkur að stærri fyrirtækjunum, sem sitja að ríkulegum aflaheimildum og reka sínar útgerðir frá stærstu verstöðvum landsins, er ekki treystandi til að viðhalda stöðugleika í atvinnulífi í fámennari byggðarlögum.

Útgerðin á sunnaverðum Vestfjörðum er samvinnuverkefni nágrannasveitarfélaga, sem gengið hefur hnökralaust. Afla er landað í einu sveitarfélagi, sem nýtur góðs af þeirri atvinnu sem af því skapast, og síðan ekið til vinnslu í nágrannasveitarfélaginu.

Nú blasir við að þessari starfsemi er ógnað. Fari svo að ekki verði úr bætt er tugum starfa stefnt í voða og  undan  kippt tekjugrunni sveitarfélaganna á svæðinu. Afleiðingin getur einungis orðið fólksflótti og vítahringur, sem fljótt leiðir til neyðarástands. Byggð á sunnanverðum Vestfjörðum er allt annað en tryggð til frambúðar.

Ég skora á sjávarútvegsráðherra og þingmenn að bregðast við af ákveðni og djörfung því það eru einmitt umhverfisvænar línuveiðar og vinnsla á stöðum eins og sunnanverðum Vestfjörðum, sem renna stoðum undir ímynd íslenskra sjávarafurða sem þær heilnæmustu og umhverfisvænstu í heimi.

Indriði Indriðason

Sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps

16 metrar og gengur glatt

Samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni voru Dýrafjarðargöng orðin 16 m í lok viku 37 og allt gengur vel. Heildarlengd ganga í berg verður 5.301 m svo það er spotti eftir ennþá. Á bb.is verða birtar að minnsta kosti vikulegar fréttir af framvindu verksins enda bíða Vestfirðingar spenntir eftir að því ljúki.

Hátíðarsprenging ganganna var í síðustu viku og hér að neðan er nokkrar myndir frá þeim merka viðburði.

Af hverju eru úlfarnir í sauðagærum

Pétur Húni Björnsson

Kristinn H. Gunnarsson og fleiri hafa reynt að skapa tortryggni í garð Tómasar Guðbjartssonar og Ólafs Más Björnsson vegna baráttu þeirra gegn fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum í Ófeigsfirði og Eyvindarfirði á Ströndum, þar sem til stendur að virkja árnar Rjúkanda, Hvalá og Eyvindarfjará. Látið er að því liggja að eitthvað annað en umhverfisvernd og áhugi þeirra á náttúrufari og náttúruundrum Ófeigsfjarðar og Eyvindarfjarðar búi að baki baráttu þeirra og birtingu þeirra á myndum af glæsilegum fossum á svæðinu í því sem þeir kalla Fossadagatal, þar sem birt er mynd af nýjum fossi á svæðinu dag hvern út septembermánuð. Ekki hefur verið bent á neitt „misjafnt“ sem kann að búa að baki hjá en sífellt ýjað að því það sé eitthvað og þeir til dæmis kallaðir úlfar í sauðagæru.

Málflutningur flestra þeirra sem hafa talað fyrir virkjunarframkvæmdunum hefur verið á sömu nótum og langar mig að renna í fljótheitum yfir röksemdir þeirra:

* Virkjunin er í nýtingarflokki Rammaáætlunar og því er ekkert við hana að athuga.

Nýtingarflokkur Rammaáætlunar leyfir áframhaldandi vinnu við undirbúning og þar á meðal er mat á umhverfisáhrifum framkæmdanna. Skipulagsstofnun metur umhverfisáhrif Hvalárvirkjunar verulega neikvæð og einu atriðin sem eru ekki beinlínis neikvæð eru sögð háð óvissu vegna ónógra rannsókna, þeas fuglalíf og menningarminjar. Meira um það hér.

* Virkjunin tryggir bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum.

Orkan frá virkjuninni mun tengjast inn á Mjólkárlínu í Kollafirði á Barðaströnd og mun þar af leiðandi ekki bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum sem neinu nemur. Ef þessi virkjun ætti að vera til bóta fyrir afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum þyrfti að tengja hana beint til Ísafjarðar, ekki við Mjólkárlínu á Barðaströnd. Það er engin bót fólgin í því að flytja raforkuna fjær Ísafirði, hún þarf að fara nær Ísafirði. Meira um það hér.

* Virkjunin er liður í að koma á hringtengingu raforkukerfis Vestfjarða.

Sett hefur verið upp flétta sem miðar að því að Landsnet setji upp tengipunkt á Nauteyri innst i Djúpi til að stytta leiðina sem HS Orku þarf að leggja línur frá virkjuninni og spara þeim milljarða í tengigjöldum við raforkudreifikerfið. Engar háspennulínur liggja að Nauteyri og eina línan sem er fyrirhuguð er línan yfir í Kollafjörð. Engar ráðagerðir eru um tengingu út Djúp til Ísafjarðar. Raforkan mun fara fjær Ísafirði en ekki nær. Meira um það hér.

* Framkvæmdirnar stuðla að viðgangi byggðar í Árneshreppi.

Vissulega verður ys og þys í Árneshreppi meðan búkollurnar bruna þar fram og til baka yfir bæjarhlöðin og vinnubúðirnar í Ófeigsfirði og á Ófeigsfjarðarheiði verða þéttskipaðar vinnuflokkum þeirra verktaka sem munu annast framkvæmdirnar, en virkjunin mun engin störf skapa í hreppnum og litlar líkur eru á því að starfsmenn við virkjanaframkvæmdirnar muni hafa börnin sín í Finnbogastaðaskóla eða taki með öðrum hætti þátt í mannlífi hreppsins. Þeir munu eflaust skapa sitt eigið mannlíf, en þegar framkvæmdum lýkur er allt á bak og brott og engin störf verða eftir.

* Þeir sem eru á móti virkjuninni eru á móti Vestfjörðum, Vestfirðingum, Strandamönnum og/eða íbúum Árneshrepps.

Ef fyrri röksemdir í þessari upptalningu eru skoðaðar ætti að vera augljóst að virkjunin er ekki til hagsbóta fyrir Vestfirði, Vestfirðinga, Strandamenn eða íbúa Árneshrepps. Þar af leiðandi er fráleitt að þeir sem tali gegn þeim eigi eitthvað sökótt við landsvæðið eða íbúa þess. Mun nærtækara er að halda því fram að þeir sem mæla framkvæmdunum bót með því að vísa til þessara röksemda séu að vinna gegn hagsmunum svæðisins, annað hvort af því þeir vita ekki betur eða hreinlega sjálfum sér til hagsbóta því þeir hafi fjárhagslegan hag af því að af framkvæmdunum verði.

Þegar málið er skoðað ofan í kjölinn koma í ljós ýmsir úlfar sem eru misvel huldir sauðagærum, en Tómas og Ólafur eru ekki þar á meðal.

Gott væri ef úlfarnir köstuðu nú af sér sauðagærunum og segðu okkur hvað það er sem þeir ætlast fyrir og hvers vegna þeir halda stöðugt fram falsrökum fyrir framkvæmdunum.

Gæti verið að raunin sé sú að raunverulegu rökin séu ekki boðleg?

Pétur Húni

Stjórnarmaður í Rjúkanda

 

 

Nýjustu fréttir